Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Hjá borginni - minn afturendi

Mér finnst voða krúttlegt að sjá Hönnu Birnu svara í símann í borginni og fyrst var ég alveg; dúllan og sonna.

Svo fór ég að hugsa, (já ég veit það, stór-furðulegt en ég á þetta til þegar minnst varir).

Vildi svona skemmtilega til að blaða- og myndatökumaður móðurblaðsins var á rambi um Símaverið hjá borginni og gengu þar fram á Hönnu Birnu alveg í starfskynningu á fullu?

Auðvitað ekki.  Það tekur krúttlegheitin niður um helling þegar maður fattar að allt svona er sett á svið.

Þetta er ímyndasköpun í beinni útsendingu.

Fjandinn að maður skuli vera orðinn svona kaldhæðinn á gamals aldri.

Það verður erfiðara með hverju árinu fyrir mann að sjá hlutina eins og þeir eru settir upp fyrir mann.

Sama fyrir kosningar, þegar frambjóðendurnir hanga á kaffistofum og í vélar- og pökkunarsölum út um allan bæ en myndu ekki fyrir sitt litla líf koma í námunda við viðkomandi starfsemi á milli kosninga.

Gætuð þið ekki kastað ykkur fyrir björg að sjá t.d. Áddna fjár með fyrstihúsahúfu í innilegum samræðum við pökkunarkonuna?  Alveg intú itt?

Algjört stílbrot.

Mér er alveg sama hvar í flokki menn standa þeir eiga ekki að setja á svið einhver sjónarspil í aumri tilraunastarfsemi sem ætlað er að blekkja fólk.

Steingrímur með sveðjuna á lofti í frystihúsinu, Solla í pípulögnum, Áddni í dósaverksmiðju, Kiddi Sleggja í þvottahúsi og Geir í loðnu er ekki að gera neitt fyrir mig.

Hanna Birna, geðþekk eins og hún er og hún má eiga það, á ekki að vera að svara í símann fyrir blaðamenn.

Hvað varð um spekina úr bókinni um að hægri höndin skuli ekki vita hvað sú vinstri er að bardúsa?

Er ekki gott að halda henni til haga?

Hjá Reykjavíkurborg góðan dag, minn afturendi.


mbl.is Símadama á borgarstjóralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu Arons Arnar

 

Í dag hefði dóttursonur minn hann Aron orðið 11 ára hefði hann lifað.

Tíminn hefur liðið ótrúlega hratt og ég sem hélt á tímabili í sorginni að hann myndi standa í stað.

En lífið heldur áfram þó enginn verði samur eftir.

Ég skrifaði einhvern tímann um að sársaukinn minnki og eftir sitji lítið ljós í hjartanu á okkur sem kynntumst og elskuðum þennan litla dreng þá tæpu þrjá mánuði sem hann var hjá okkur.

María Greta mamma hans Arons á núna lítinn gullmola sem heitir Oliver og er rúmlega þriggja ára.

Þessa dagana eru þau í Hong Kong þar sem hún er að vinna ákveðið verkefni og tók þann stutta með sér ásamt afanum til að passa.

Maya mín, ég veit að þessi dagur er þér alltaf þungur í skauti og ég hugsa til þín af öllum mínum kærleik.

En þú hefur haldið ótrauð áfram og tekist á við lífið og notið þess til fullnustu þegar versta sorgin var að baki.  Mér finnst þú hafa höndlað þína sorg afskaplega fallega og með fullri reisn.  Ég er ákaflega stolt af þér.

Nú er komið kvöld í Hong Kong og dagurinn bráðum að baki.

Góða nótt ljósið mitt.  Knúsaðu Oliver frá okkur.

Amman og mamman.

 


Leirtauságreiningur

Úff mér koma í hug blóðugar upplifanir úr eigin lífi.

Varðandi uppvaskið sko, hvort ég eða þeir sem ég hef verið gift eigi að þvo upp leirtau.

Þessi kona í Texas er í vondum málum, hún barði kærastann út af leirtauságreiningi.

Í mínu fyrsta hjónabandi þegar Rauðsokkuhreyfingin var upp á sitt besta og kvennabaráttan var í algleymingi þá var ágreiningurinn á heimilunum í kringum mig ásamt mínu eigin um grunnskilgreiningar á hlutverkaskiptingu.

Hver þvær upp?

Hver neglir nagla?

Hver þrífur klósett?

Hver skiptir um dekk?

Hjónabandið var eldfimt heima hjá mér af þessum sökum.  Karlinn var sprengjusérfræðingur (vá hann hefði getað sprengt mig í tætlur við eldhúsvaskinn, sjúkkit eins gott að við skildum) og ég var í bókabúðinni.

Ég eldaði og þvoði upp svona oftast.  Þegar réttindabaráttan var komin til að vera gekk ég stundum að honum þar sem hann sat eins og saltstólpi og horfði á fréttir og ég sagði blíðlega;

elskan, nú er ég búin að þvo upp fyrir þig, hvað ætlar þú að gera fyrir mig?

Hjónabandið entist í tæpt ár.  Jájá.

Baráttan hefur síðan færst af heimilunum að einhverju leyti og út í samfélagið  þar sem konur berjast fyrir jafnrétti í launum.

Hvað tefur?

Launamunur kynjanna eykst.  Það er ekki spurning um að rífast um uppvaskið lengur, nú er þetta spurning um að hífa launin upp til jafns við karlana.

Ef þú ert hjúkrunarfræðingur, skrifstofustjóri, deildarstýra, sálfræðingur eða almennur starfsmaður hjá hinu opinbera þá ertu metin til launa eftir kynferði.

Hvenær stýrir maður deildum með kynfærunum?

Ég lifði sæl í þeirri trú hérna í denn að þegar stelpurnar mínar væru komnar út á vinnumarkað væri launajafnrétti löngu orðin staðreynd.

Það er heldur betur ekki þannig.

Það er svo jafnréttisbaráttunni ekki til framdráttar að konur séu að keppast við að afneita því að mismununin sé til staðar.  Það er öllum til góðs, konum, körlum og börnum að fólk fái sömu laun fyrir sömu vinnu.

Arg ég leysti málin einu sinni með uppþvottavél, til að setja þau hjónaband sem á eftir komu í lágmarkshættu út af leirtausmálum.

Hvað er hægt að gera í launamálunum?

Kaupa jafnréttisvél?

Hmm....

 


mbl.is Ákærð fyrir líkamsárás í kjölfar rifrildis um uppvaskið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er fokkings bænaskjal

Vilhjálmur Vilhjálmsson er elskaður af mörgum og mér finnst ekkert athugavert við að það séu haldnir minningartónleikar um þennan frábæra listamann.

Tónlistin sem hann flutti er ekki að mínum smekk og sem betur fer erum við ekki öll eins hvað það varðar.

Ég er hins vegar með ofnæmi og það illilegt gagnvart "sýningum" þar sem ákveðnir listamenn eru teknir fyrir. 

Þessi andskotans uppákomur ríða yfir á hverju ári og þær eru flestar slæmar og sumar svo slæmar að fólk þarf að vera útúrdrukkið til að njóta þeirra.

Tina Turner t.d. Hver vill í alvöru setja sig í stellingar og reyna að ná upp í að flytja músíkina hennar og reyna að gera konunni góð skil?

Mér finnst það listrænt sjálfsmorð að ætla sér það óvinnandi verk.

Sama hversu góðar söngkonur það eru sem fara í hlutverkið.

Með fullri virðingu fyrir Siggu Beinteins þá er það pjúra klám að níðast á Tínu svo ég taki nú ekki till sterkara orðalags.

Þetta er eins og gerviefnið Formaica.  Muniði; Eretta marmari? Nei Formaica.  Eretta eðalviður?  Nei Formaica.

Er etta Tina Turner?  Nei, Sigga Beinteins.

Þetta er íslenskt plebbafenómen (eða skandínavískt) sem dynur yfir mann á hverju ári.

Broadway (held ég að staðurinn heiti) þar sem maturinn er í besta falli skítsæmilegur og eftirhermusýning með eftirréttinum er sirkabát það síðasta sem ég myndi fleygja peningunum mínum í.

Við eigum svo mikið af frábæru listafólki.  Af hverju fá þeir ekki tækifæri til að vera með tónleika þar sem frumleikinn og sköpunin eru í hávegum hafðar í staðinn fyrir upprifjanir og eftirhermur sem gerir bæði flytjendunum og sárasaklausum orginölunum skömm til?

Ábreiður þurfa að vera betri en orginallinn ef þær eru fluttar á annað borð.

Magni gerði þetta ágætlega í Rock Star.

Einn af okkar bestu söngvurum er litli Jesú, man ekki hvað hann heitir en hann er sérdeilis frábær söngvari drengurinn.  Hann getur endurflutt hvað sem er án þess að verða sér til skammar.  Fáum gefið skal ég segja ykkur.

Ég held að það sé verið að róa á örugg mið með þessum sífelldu ábreiðusýningum.

Algjört "money in the bank" eða "Sure thing".

Vegna þess að pöpullinn vill heyra gömlu fylleríslögin væntanlega til að geta sungið með.

Almenningur er ranglega vanmetinn í þessu sem öðru.

Ég held að "we the people" séum alveg fær um að njóta þess sem nýtt er.

Það segi ég með nokkurri vissu verandi meðlimur í viðkomandi grúppu.

Þetta er fokkings bænaskjal.

Gerið eitthvað nýtt og skapandi. Plís.

Úje og allir glaðir í boðinu.


mbl.is Aðrir aukatónleikar til heiðurs Vilhjálmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farðu - vertu - skildu - hættu

Ég hef þekki fólk í gegnum tíðina sem eru fæddir sérfræðingar í öllum málum.

Ég man eftir lækni sem var með fastan dálk í gamla DV og hann gaf ráð maðurinn.

Hann var sérfræðingur í notuðum bílum, hvernig á að hengja upp gardínur,  hvert væri best að ferðast, hvað væri best við ilsigi og hann sagði okkur hvað væri eðlileg tíðni fullnæginga hjá konum um fertugt og mönnum um sextugt.  Hann vissi líka hvernig best væri að kaupa OG selja hús.  Maðurinn var nefnilega líka fasteignasali án þess að hafa nokkurn tímann nálægt því komið.

Það var ekki til sá hlutur sem læknirinn var ekki með sérþekkingu á .

Þetta er ákveðin tegund af fólki sem sérfræðingast launalaust og því miður án þess að nokkur fari fram á aðstoðina.

Ég hef verið sérfræðingur, aðallega í samböndum - ráðlagt á báða bóga og tók aldrei krónu fyrir viðvikin.  Ég minnist þess ekki heldur að hafa verið beðin sérstaklega um aðstoð nema endrum og sinnum og af því ég var mjög afgerandi í minni ráðgjöf, sem var í pjúra boðhætti, dæmi: Farðu, vertu skildu, hættu, hlauptu, minnkaði eftirspurnin snarlega.

Á ráðgjafatímanum var ég í vondum málum sjálf sambandslega séð.  Híhí.

En ég lærði mína lexíu.

Það er allt fullt af sérfræðingum í kringum okkur.

En þegar nánar er að gáð þá er það oft fólk sem er ekki í góðum málum sjálft.

Fólkið sem er með allt niðrum sig í samböndum.

Fólkið sem er að missa allt í vaskinn í fjármálunum, ráðleggur gjarnan öðrum hvernig kippa eigi þeim í liðinn.

Ráðgjafar sem hafa valið sér það að hugsjón í frítímanum eru óþolandi fyrirbrigði.

Ég fæ aulahroll þegar ég les um leiðindakokkinn Ramsey sem er með þætti þar sem hann kennir fólki að reka veitingahúsin sín.

Hann virðist nefnilega vera í vondum málum í eigin rekstri.

Rólegur á ráðgjöfinni karlinn.

Ég er flutt - á Teigana jájá og veit ekki hvað ég heiti, er búin að vera brjálæðislega bissí.

En það er allt að verða voða fínt hjá mér.

Enda búin að vera í stöðugu sambandi við ráðgefandi flutningsaðila.

DJÓK!

Svo segi ég eins og Jóna vinkona mín: Eruð þið ekki að fokking kidda mig hvað ég er búin að sakna ykkur á þessum sólarhring sem ég hef verið netlaus.

Á eftir.

Er góð.


mbl.is Ramsey í klandri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þú náðir ekki í mig"

Fannst ykkur fjármálaráðherrann Áddni ekki dúllulegur í réttunum, í góðu djússtuði með fleyginn og svona?

Ég er yfirkomin af hrifningu.  Finnst svo sniðugt að sjá að sumir geta djammað á meðan ljósmæður berjast fyrir laununum sínum.

Lára Hanna hefur tekið saman nýtt myndband um málið og það er nokkuð gott til glöggvunar.

Hér er linkurinn á myndbandið og ég hvet alla bloggara til að skrifa um málið eða setja inn myndbandið hjá sér.

Ég persónulega er komin með upp í háls af kjaftæði og bulli.

ARG


Fasismi og ofsóknir

Það er ekki oft sem maður sér hælisleitendur hér á landi hafa sig í frammi.

En nú er það að gerast og á þessari stundu situr Farzad Rahmanian fyrir utan löggustöðuna í Reykjanesbæ og er í hungurverkfalli vegna þess að lögreglan tók af honum tvöhundraðþúsund krónur.

Hælisleitendur mega greinilega ekki eiga peninga.

Ég veit ekki hvað þessi lögregluárás á fimmtudaginn á að fyrirstilla annað er að sýna fólkinu sem bíður afgreiðslu sinna mála í ljótu húsunum í Njarðvík (sumir árum saman) hver ræður og að það megi brjótast inn á það hvenær sem er telji lögreglan sig hafa "rökstuddan" grun um eitthvað. 

Þá fara þeir tugum saman inn á heimili þessa fólks, brjóta niður dyr og leita í dyrum og dyngjum af einu og öðru.

Peningum þar á meðal.

Við skulum heldur ekki gleyma hundunum ónei, fólkið hlýtur að vera svo ógnvekjandi.

Ef grunur er um að eitthvað misjafnt sé í gangi af hverju er þá ekki farin hefðbundin leið?

Nú er slatti af fólki sem vinnur svart það vitum við öll.

Ég myndi ekki vera mikið heima ef ég væri það - víkingasveitin gæti verið á leiðinni.  Ný vinnubrögð almennt í afgreiðslu mála eða beinist þetta bara að útlendingum?

Og þessi lögreglustjóri þarna er að kafna úr fordómum fyrir utan það hvað hann virðist vera yfir sig sannfærður um eigin mikilvægi, amk. í mynd. 

Löggurnar eru svo í bófaleik.  Verst að leikurinn er ójafn.  Þarna er ráðist inn á fólk sem nýtur greinilega ekki friðhelgi á herbergjum sínum.

Að þessu sinni ætla ég að leyfa mér að kalla þessa lögregluaðgerð famsima með bullandi mannréttindabrotum.

Fasismi og ofsóknir.

Ég veit að það er klisjukennt en ég er ekkert ofsalega stolt af þjóðerni mínu stundum.

Þetta er eitt af þeim skiptum.


mbl.is Hælisleitandi mótmælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil typpi koma sterk inn

Ég veit ekkert um það hvort karlmenn eru mikið í að bera saman typpin á sér.

Enda ekki nema von ég er ekki karlmaður og hef aldrei verið fluga á vegg í búningsklefunum þeirra eða í einkapartíum. 

Það getur vel verið rétt að þeir slengi líffærunum á borðið og mæli lengd og breidd þegar þeir koma saman en ég held ekki.  Ætli þetta séu ekki einkarannsóknir hvers og eins, þeir gjóa svona létt og löðurmannlega á hvorn annan í sturtuklefum heimsins.

Annars nenni ég ekkert að dvelja við þetta rannsóknarefni vegna þess að mér gæti ekki staðið meira á sama um annarra manna tittilinga. 

Ég veit bara eitt og það er að ég hef hingað til ekki hitt þá konu sem segir að stærðin skipti ekki máli, þær hljóta bara að segja það við viðkomandi örtyppi til að særa það ekki.

Einu skiptin sem ég pæli verulega í annarra manna typpum er þegar ég lendi í að hafa stóru jeppana á undan, eftir eða til hliðar við mig í umferðinni.

Hvað kemur karlmönnum til að fjárfesta í torfærubifreiðum sem gleypa endalaust af bensíni bara til þess að bregða sér á milli hverfa?  Það getur ekki verið af hagkvæmnis ástæðum.  Fæstir þeirra sem kaupa þessi fallustákn nútímans stunda fjallaferðir, myndu varla þekkja fjöll og dali þó hvorutveggja væri klístrað á handarbakið á þeim.

Það er í jeppunum sem litlu typpin koma sterkt inn.

Litlu typpin eru sum sé stórhættuleg í umferðinni.

Litlu typpin menga ógeðslega mikið og taka viðbjóðslega mikið pláss á götum borgarinn.

Litlu typpin eru greinilega að taka yfir heiminn.  Þau eru hinn nýji óvinur nútímans.

What can I say?

Farið í lengingu, það er ódýrara en að þjösnast á náttúrunni og eyða dýrmætu bensíni.

Við þurfum að skipta yfir í betri bíla strákar mínir.

Úje.

 


mbl.is Stærðin skipti greinilega máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyrnalokkar úr hvítagulli - GMG

 

Ég læt ekki klukkast.  Bara svo það sé á hreinu.

Tvær góðar vinkonur mínar, þær Jóna og Edda Agnars hafa klukkað mig og ég sinni því ekki afturenda.

Ég er svo lítið fyrir leiki.

Svo verður að vera einhver mýstik yfir persónu manns.  Ekki get ég farið að kjafta því í ykkur að ég hafi verið gagnnjósnari í volga stríðinu - hafi dansað aðalhlutverk hjá Þjóðdansafélaginu, unnið við að fægja kirkjuklukkurnar í Hallgrímskirkju og verið ferjukona við Don.  Þið mynduð einfaldlega líða út af vegna aðdáunaraðsvifs.

En ég á þrjár yndislegar dætur.  Ólíkar en svo frábærar og skemmtilegar.  Svo eru þær góðar við mömmu sína og hafa verið lengi.

Voru að sjálfsögðu fjandanum óþekkari í uppvextinum að því marki að ég lét þær allar á heimavistarskóla.  Nei, nei, ég hef verið heppin með börn.

Um daginn var ég hálfan mánuð í vesturbænum að halda elsta barnabarninu mínu selskap meðan turtildúfurnar Helga Björk og Björn fóru til Ítalíu.

Í dag kom frumburðurinn með hvítagullseyrnalokka handa mömmu sinni ásamt wraparoundi sem mig var búið að langa í lengi.

Ég var orðlaus.

En..

Ég er að flytja.  Fyrir neðan snjólínu.

Hvert og hvenær verður upplýst seinna.

Er það nema von að það sé brjálað að gera.


Árni kastar stríðshanskanum

 v

Ég er með eitt á hreinu - þessi mannfjandsamlega ríkisstjórn sem nú situr við völd er ekki mín ríkisstjórn og alls ekki ríkisstjórn kvenna í þessu landi þar sem jafnréttismálin eru á svo slæmu róli að launamunur kynjanna hjá hinu opinbera er að aukast jafnt og þétt, er nú kominn í rúm 17%.

Þetta fólk er ekki að vinna vinnuna sína.

Það er eins gott að halda því til haga að það er ekki bara Árni fjármála sem er farinn í opinbert stríð við ljósmæður og um leið almenning í þessu landi, því ekki láta ykkur detta í hug að það sé ekki gert með vitund og vilja samráðherra hans.

Ég hefði seint trúað því að kvennabaráttukonan ISG ætti eftir að sitja í ríkisstjórn sem svona fer að ráðum sínum gagnvart konum í þessu landi.  Kona sem ég hef alltaf treyst til að verja rétt kvenna.

Nú er verið að senda konur heim um leið og þær hafa fætt börnin eða á fyrstu klukkutímunum.

Er ég ein um að hafa áhyggjur af því?

Varla, en nú er spurningin hvað við gerum stelpur og allir sem láta sig málið varða.

Ætlum við að sitja undir því að þessi duglausa ríkisstjórn sýni okkur fokkmerkið hvað eftir annað á meðan meðlimirnir lifa í vellystingum praktuglega?

Við erum að verða þriðjaheimsland í jafnréttismálum eða stefnum amk. hraðbyri í það.

Goðsögnin um að við séum í svo góðum málum í þessu efni er lífsseigur andskoti.

En Árni kastaði stríðshanskanum.

Eigum við ekki að grípa hann á lofti?


mbl.is Fæddi og fór strax heim til sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 2988477

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband