Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Um nauðgunarmál

Ég var að lesa leiðara Jóns Trausta inni á dv.is en hann er um nauðgunarmál.

Leiðarinn kemur að nauðgunarmálum frá dálítið öðrum sjónarhóli en vant er og þess vegna er hann mun sterkari fyrir bragðið og skyldulesning.

JT skrifar um þá afstöðu sem dómstólar og samfélgið taka gagnvart nauðgurum vs þolandanum.

Að hagmunir þolandans víki fyrir hagsmunum nauðgarans.

Einnig í sifjaspellamálum.

Eins og ég segi, þennan pistil á enginn að láta fram hjá sér fara.

LEIÐARINN


Fyrir lengra komna og bannað börnum

norn 

Mér þykir gaman að láta hugann reika þegar ég geng í húsverk.  Sumir setja tónlistina á fullt, ég ekki, einkum vegna þess að bakgrunnstónlist þjónar þeim tilgangi einum að ergja mig.

Þegar ég hlusta á tónlist sest ég niður og geri einmitt það.  Þess á milli ríkir þögnin.

Ég hamaðist með tuskur og klúta, moppu og önnur hreinsidýr um allt.

Og það gerðist einhvern veginn þannig að ég fór að hugsa um kærasta.

Sennilega vegna þess að í morgun vorum við Jóna vinkona mín að ræða um að vera "passionately in love" hvað það væri skemmtilegt en jafnframt slítandi.   Það er nefnilega algjör þrælavinna að vera á stöðugu hormónafylleríi. 

Fyrsti strákurinn sem ég kyssti (á kinn minnir mig) er dáinn, ekki af því að hann hitti mig heldur af náttúrulegum orsökum.  Ég stóð í brjáluðu vetrarveðri bak við Glaumbæ og þetta varðaði bara svona.  Það tók marga daga að jafna geðið eftir að það rann upp fyrir mér ljós, þ.e. afhverju blaðsíðu 82 í heilsufræðinni var sleppt.

Svo fór ég á fast.  Hann var með mér í Hagó.  Hryllilega sætur, ekki mállaus, þó ég hafi aldrei heyrt hann segja heila setningu, hann var svo feiminn.  Hann roðnaði afskaplega fallega og var ákveðinn í að verða sjómaður.  Við vorum par í hálfan mánuð og síðustu þrjá daga sambandsins leiddumst við þegar enginn sá til.  Svo sagði ég honum upp.  Það dróst ekki upp úr honum orð.  Við fermdumst sama dag og ég man að ég hugsaði þegar ég sá hann í kirtlinum í Nes að ég hefði nærri því verið búin að eignast hann fyrir mann!

Ég er ekki að grínast, samböndum fylgir ábyrgð sagði amma mín og þetta var  áður en ég hætti að trúa orði af því sem fullorðnir sögðu.  Því miður?  Örugglega.

Svo var það sendiráðssonurinn norski, hann hafði ótakmarkaðan aðgang að grammafóni heima hjá sér á Fjólugötunni minnir mig.  Þar má segja að stelpa hafi hangið með strák af því hann átti Bítlaplötur og gat spilað þær eins og maður.

En eftir þessi djúpu sambönd sem ég er að lýsa fyrir ykkur hér að ofan syrti í álinn fyrir þeim fjölskyldumeðlimum sem sáu mig læra til nunnu, eða húsmóður, eða hjúkrunarkonu með óflekkaðan meydóm.

Eftir þetta tímabil er sagan bönnuð innan 22 og verður skráð í myrkur sögunnar.  (Ég var uppi á hippatímanum, what can I say?)

Þ.e. aldrei.

Nema ef vera skyldi að einhver tryði því að ég hefði sögu að segja sem er eitthvað frábrugðin annarra manna upplifunum.

Kannski að svo sé.

Nú eða ekki.

Allavega á ég gamlan vin sem telur mig getað skrifað ákveðið form af biblíu fyrir lengra komna.

Já við erum að tala um kökuppskriftir auðvitað.

Jösses hvað það er gaman að fokka í ykkur elskurnar mínar.

Farin að anda og elska ykkur eins og væruð þið mín eigin börn.

Ekki minna.


Erum við svoleiðis fólk?

 

Getur maður hætt að verða hissa?

Það slær mig skelfilega illa að ríflega þriðjungur svarenda á aldrinum 18-35, í könnun sem Félagsvísindastofnun vann fyrir ASÍ telji eðlilegt að Íslendingar njóti betri kjara á vinnumarkaði en útlendingar.

Getur verið að þessi undarlega skoðun sem unga fólksins sem hér svarar virðist hafa á mannréttindum sé tilkomið af viðhorfum sem þau hafa með sér að heiman?

Hvar annars staðar nær fólk sér í svona skoðanir?

Nú er ekki hægt að kenna því um að hér sé allt vaðandi í útlendingum sem "taki" vinnu af Íslendingunum.  Það var vegna skorts á vinnandi höndum sem stór hluti þeirra sem hingað hafa komið voru ráðnir í störf.  Annars hefðu allar framkvæmdir stöðvast.  Ekki má gleyma því að stór hluti þeirra verkamanna sem hér unnu í s.k. uppsveiflu eru farnir til síns heima.

Í sumum löndum í kringum okkur eru kynþáttafordómar tilkomnir vegna bágrar stöðu margra eins og atvinnuleysis og að einhverju leyti skiljanlegir þess vegna, en fáfræði og ótti er meginuppstæða svona skítaviðhorfa.

Mér finnst eins og það þurfi afskaplega lítið til á Íslandi að fólk láti skína í andúð á útlendingum.  Að hún kraumi undir niðri og það þurfi lítið til að rífa hana upp á yfirborðið.

Kynþáttafordómar hafa sýnt sig vera mestir neðst í goggunarröðinni.  Þar sem menntun er ekki til staðar og sjóndeildarhringurinn því afskaplega þröngur.

Ekki er því að heilsa á Íslandi er það?  Erum við ekki nokkuð upplýst þjóð?

Í FF verða talsmenn kynþáttaandúðar æ háværari og þeir virðast ná til nokkuð margra með þessum ljóta málflutningi sínum.

Það fer um mig hrollur þegar ég rekst á skrif sem ala á andúð í garð fólks af öðrum uppruna, eða í garð annarra minnihlutahópa svona yfirleitt.

Það hefur sýnt sig vera stórhættuleg pólitík þar sem afleiðingarnar eru skelfilegar.

Rasismi er ljótt orð og leiðinlegt en ég verð að játa að þessa dagna stingur það upp kollinum æ oftar í hausnum á mér.

Erum við svoleiðis fólk?

Hrollur.


mbl.is Telja eðlilegt að útlendingar séu með lakari laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er gott að búa í Kópavogi" ekki til í Amríku?

Hvað er að fá greitt í fríðu?

Fyrirsögnin á fréttinni hljómar þannig og ég skil ekki hvar fríðleiki kemur inn í málið.

Er hægt að fá greitt í blíðu, stríðu, fríðu, ófríðu og óblíðu?

Sennilega.

En þeir eru búnir að svipta lögfræðing málflutningsréttindum í Illinois fyrir að taka einkadansa sem greiðslu upp í skuld.

Mér þykir þeir ekki hafa fylgst með fréttum frá Íslandi þessir barbarar í US of A.

Vita þeir ekki að hér á Íslandi er svona súluhangs listgrein?

Að það jaðrar við mannréttindabrot að banna mönnum að kaupa einkadansa og súludansa?

Að það er beinlínis atvinnuofbeldi að meina konum að dingla á stönginni og karlfauskum að slefa yfir viðkomandi snúningi?

Nei, þeir fylgjast ekki með.

Eins gott að "Það er gott að búa í Kópavogi" er ekki staður í Norður Ameríku.

Annars tek ég ofan fyrir Lögmannafélagi Illinoisborgar. 

Þeir eru í þessum rituðum orðum komnir á jólakorta- og partýlistann hjá mér.

Ekki spurning.

Ég er nefnilega dedd á móti konum til sölu.

Upp í skuldir sem og að öðru leyti.

Alexander Gústaf, rólegur og þið hinir líka.

Ekki frelsisræðuna plís.

Gunnar Birgisson hvað?


mbl.is Lögmaðurinn fékk greitt í fríðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pabbi er í Rúmení

 haha

Ég næturmanneskjan var sofnuð klukkan ellefu í gærkvöldi.

Það tekur á taugarnar að setja upp nýtt menningarheimili get ég sagt ykkur.Whistling

Svo er hún Jenný Una í gistingu og hún vaknar fyrir allar aldir enda þriggja plús og nennir ekki að bæla fletið.

Í gærkvöldi áttu eftirfarandi samræður sér stað milli ömmu og barns hér við hirðina.

Amman: Hvað fékkstu að borða á leikskólanum í dag Jenný mín?

Barn (ákveðin): Ekkert neitt.

Amman: Ha, fékkstu ekkert að borða?

Barn: Nehei.

Amman: Jenný það er alltaf matur í leikskólanum, ertu búin að gleyma hvað þú borðaðir?

Barn: Ókei, ég fékk hrökkbrauð.

Skammskamm Njálsborg.Whistling

Pabbi hennar Jennýjar er farin til Rúmeníu til að spila inn á plötu.

Amman: Hvert fór pabbi þinn?

Barn: Hann er fluttur í annað hús.W00t

Amman: Ha, er hann fluttur (alveg að drepast úr hlátri yfir hugmyndaflugi viðkomandi barns)?

Barn: Já hann er fluttur til RúmenÍ og það þarf að keyra þangað lengi, lengi, lengi, lengi. En svo kemur hann aftur eftir marga, marga........... daga.

Amman: Ég held að hann hafi flogið í flugvélinni.

Jenný: Þá er pabbi minn í útlöndum.

Lærdómurinn sem má draga af þessu samtali í samgöngumálalegum skilningi er að það eru ekki allir með áhyggjur af innanlandsflugi og hafa ekki endilega heyrt talað um Flugfélag Íslands.

En annars er ég farin að sinna barni og kem sterk inn síðar.

Elska ykkur börnin góð og verið þið til friðs bölvaðir villingarnir ykkar.Heart


Djö.. langar mig til að sofa hjá þér

 libbi

Ein ein selfölgelihets-rannsóknin hefur litið dagsins ljós.

Karlar hafa tilhneigingu til að ofmeta útlit sitt og persónutöfra.  Hehemm.. Fréttir?  Æ dónt þeink só.

Ekki það að konur eigi þetta ekki til líka, jújú.

En svo er til fólk sem tekur þetta alla leið.  Sem er t.d. í skemmtanabransanum og heldur sig Adonis endurborið með hæfileika af guðs náð.

Ég man eftir tveimur íslenskum - í músík og ætla ekki að nafngreina þá. 

Það er til svona fólk sem hefur ekki sans fyrir sjálfu sér.  Er gjörsamlega ástfangið af eigin persónu.  Þetta er fólkið sem horfir í spegil og segir hátt og skýrt;

Djöfull langar mig til að sofa hjá þér.

Liberace eða hvað hann hét, skrauthomminn á píanóinu er skólabókadæmi.  Maðurinn var ekki alveg að gera sig í tónlistinni en dressin hans voru flott, þ.e. ef þú ert svag fyrir því að klæða þig í jólaskraut.

Hugs, hugs, hugs, Jane Mansfield var ein, sorgleg sagan hennar og allt það en hún var alveg með það á hreinu að hún væri leikkona.  Ekki að gera sig.

Hugs, meira hugs, jú Cher, hún er ekki nein sérstök söngkona, en hún brillerar sem gína.

Fyrrverandi hennar hann Sonny hélt því fram að hún væri svo tóm í höfðinu að hún tryði því að vindurinn hafi mótað myndirnar af forsetunum í fjallið í Ameríku.

forsetar

En hann hefur bara verið fúll út í konuna vegna þess að hún skildi við hann.

Munið þið eftir fleirum svona sem eru einir í sínum aðdáendaklúbbi?

Farin að týna strá.


mbl.is Karlar ofmeta persónutöfra sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er mér nóg boðið

Samkvæmt lögum ber öllum sem verða varir við að illa sé farið með börn, þau vanrækt eða beitt ofbeldi af einhverju tagi, að láta barnaverndaryfirvöld vita.  Það er hin borgaralega skylda og nær til allra, nágranna, ættingja og svo auðvitað yfirvalda af öllu tagi.

Flott að hafa góð lög en andskotans mínus að enginn eða fáir láta sér það til hugar koma að fara eftir þeim.

Mín reynsla (sem er þó nokkur í þessum málum) er að virðing fólks fyrir foreldraréttinum er meiri en virðing fyrir mannréttindum barnanna.  Fólk er feimið við að skipta sér af.

Í þessu ljóta máli sem hér er að koma í ljós hlýtur ábyrgðaleysi umhverfisins að hrópa í himininn.

Þessi börn hljóta að hafa verið í skóla.

Það eru áverkar eftir eggvopn á einu barnanna.

Ofbeldið er ekki ný tilkomið, af hverju hefur enginn komið þessum blessuðu börnum til bjargar?

Eða voru það barnaverndaryfirvöld sem brugðust þar til núna?

Ég vil ekki hafa það að ofbeldi á börnum þrífist á Íslandi.

Ég vil ekki hafa það að foreldri geti gert líf barnanna sinna að helvíti árum saman í friði og ró.

Á dögunum var dómur felldur fyrir norðan þar sem dómarinn sá ekki að rassskellingar og annað ofbeldi væri saknæmt eða hættulegt.

Er í lagi að beita pínulitlu ofbeldi?  Hvenær verður það of mikið?

Á meðan að líkamlegt ofbeldi er leyfileg leið í mannlegum samskiptum, skyldi þá einhvern undra að hlutirnir gangi svona langt.

Þessi frétt hefur sirkabát gert mig óða úr reiði.

Að þetta skuli geta þrifist.

Fjandinn sjálfur bara.


mbl.is Grunur um hrottalegt líkamlegt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andskotans kreppan?

Þrátt fyrir staðfasta ætlun mína um að láta krepputalið ekki ná tökum á mér var það búið að læða sér að mér bakdyramegin og núna í vikunni var gekk ég stynjandi um allt.

Ég hrökk við í hvert skipti sem ég stundi, hávaðinn var ógurlegur.

Þar sem mér leiðist hljóðmengun sá ég mér ekki annað fært að gera kreppuúttekt á lífi mínu, en kreppa er hvergi nema í hausnum á venjulegu fólki sem finnur hvorki fyrir upp- né niðursveiflum þannig að mark sé á takandi.

Þetta er útkoman:

1. Ég á heima á góðum stað þar sem mér er líður vel.

2. Ég á mat og aðrar lífsnauðsynjar og mun fyrirsjáanlega hafa á komandi árum.  Þ.e. ef ég verð ekki dauð úr einhverju.  Það verður amk. ekki hungur sem kemur mér fyrir kattarnef.

3.  Ég á sígó enda með góðan og pottþéttan díler.  Dópið er með ríkisábyrgð.  Heppin ég.

4. Ég er allsgáð og dett ekki um allt og ætla ekki að gera ef ég fæ því ráðið, sem ég geri auðvitað, einn dag í einu.

5. Ég á bestu foreldra í heimi, bestu systkini, bestu dæturnar og barnabörnin, besta eiginmanninn og frábærustu vinkonurnar.  Ég á líka fína fyrrverandi þannig að kreppan bitnar ekki á tengslum mínum við fólk.

6. Ég get farið í bíltúra um Stór- Reykjavíkursvæðið og jafnvel suður með sjó ef ég nenni.  Enginn hefur enn dáið vegna þess að þeir þurfi að aflýsa Londonferð að hausti.  Fúlt en þolanlegt og án verkja.

Ergó: Kreppan er í lágmarki af því að væntingarnar eru í eðlilegu hlutfalli við þá stöðu sem ég er í.

Ég er þokkalega glöð með það.

En...

Er ég sátt við stjórnmálamenn og hvernig þeir ráða málum okkar almennings?

Aldeilis ekki.  Matarverð er hroðbjóður, öll þjónusta, lækniskostnaður, bensín, föt, sápa (jájá) og allur fjandinn er á ólýsanlegu lygaverði.  Ég er algjörlega í stjórnaraðstöðu héðan frá kærleiksheimilinu. Be fucking sure about it.

 En það breytir ekki því að ég get verið nægjusöm með það sem ég hef, þó dragtin og skóhaugurinn verði að bíða betri tíma.  Ég lifi það af.

En það er af því að það er búið að sarga úr mér neysluhyggjuna.  Ekki af því ég er svona svífandi kona með englageð.  Ég er bara svo heppin, getum við sagt að hafa aldrei verið í neinni uppsveiflu.

Enda er það ekki hinn almenni maður sem hamast í lífsbaráttunni sem hefur keyrt þessa þjóð á kaf inn í kaldan klakann.

Ónei, þeir vita hverjir þeir eru og við hin andlitslausi massi erum ekki í þeirra hóp.

En mikið rosalega er þessi lína hér fyrir ofan ofsóknarkennd hjá mér.W00t (Ætli ég fari að heyra raddir innan skamms?).

Hvað um það, kreppan leggst ágætlega í mig.

Farin að tína hafra.


mbl.is Lánshæfismat ríkisins staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í pilsi á hátíðum

Allt sem gerist er konum að kenna á einn eða annan hátt segja sumir.  Þessir sumir fá af og til brilljant hugmyndir að þeim finnst.

Eins og að banna pínupils í þágu umferðaröryggis. 

Langsótt?  Neibb, ekki í Úganda.

Sú staðreynd að land hefur siðferðis- og velsemdarmálaráðherra segir sína sögu.

Aumingja Úganda, ég hélt að þeirra vandamál væru meiri og stærri.

En..

Smá nostalgía hérna.

Á 17. júní 1966 nánar til tekið kl. níu fyrir hádegi tók ég afdrifaríka ákvörðun.

Ég gerðist svo gróf að klæða mig í síðbuxur og hettupeysu úr Karnabæ og fara ofan í bæ í klæðunum.  Vinkonan klæddi sig líka í buxur og það er óhætt að segja að við hefðum vakið viðbrögð og þau ekki jákvæð.

Það er  undarlegt til þess að hugsa að annar hver maður/kona sem við mættum hafi frussað, skammast og hneykslast á þessari stóru synd.  Þetta gerðist ekki í byrjun síðustu aldar, ónei.  En ég er að segja satt.  Það dundi á okkur óhroðinn frá fullorðnu fólki.

Ég tek það fram að ég efldist við mótlætið og hef síðan sleitulaust haldið áfram að vera sjálfri mér trú, þó það hafi mistekist oftar en ekki, og láta ekki neyða mig til hlýðni við borgaralegar reglur sem meika engan sens.

Stúlkur áttu að vera í pilsum á hátíðisdögum.

Í 12 ára bekk í Meló fór ég í Matreiðslu.  Í helvítis handavinnunni hafði ég saumað rauðköflóttu svuntuna og kappann um hausinn og það var skylda að klæðast þessu og mæta í pilsi.  Það vita allir að það er ekki hægt að læra að elda mat og haga sér í eldhúsi öðruvísi en með nælonsokkaklædda leggi.

Það þarf vart að taka fram að drengir þess tíma voru ekki í matreiðslu.  Þeir voru í fótbolta og módelasmíði ímynda ég mér.

Ó, æ, ó, hvað ég tók út fyrir pilsaskylduna.  Ég var gelgja, ég fór ekki úr mínum sjóliðabuxum fyrr en ég skreið undir sæng.  Það var minn einkennisbúningur og jafn nauðsynlegur til vellíðunnar á sálinni og maskarafjandinn frá House of Westmore og Innoxa dagkremið.

Það hefur alltaf í gegnum tíðina verið reynt að halda konum niðri með því að hafa fötin óþægileg.

Þungir kjólar, reimaðir þannig að konur gátu ekki andað, þykk pils milljón undirkjólar og allur sá pakki.

Kínverjar voru ekki feimnir, þeir lemstruðu fætur kvenna og þær komust ekki lönd né strönd vegna stöðugra kvala í opnum tábrotum.  Konur með eðlilega fætur þóttu óheflaðar og lítt föngulegar.

Þú hleypur heldur ekki langt í síðum fimmlaga pilsum úr ull eða hvað?

Þetta var einu sinni en áfram heldur leikurinn.

Pínupils eru nefnilega ógeðslega þægilegur klæðnaður ef hann er notaður við leggings.

Konur í Úganda, hlaupið, hlaupið áður en þið verðið settar í kyrtla.


mbl.is Vill banna pínupils í Úganda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dittinn og dattinn dagsins í dag

 

Ég vaknaði í vondu skapi.

Jájá, ég var nefnilega hangandi fram á nótt þvert ofan í mína betri vitund sem greinilega flutti ekki með mér og sveimar um í Seljahverfinu í góðu rokki.

Ástæða geðvonskunnar var Íslandspóstur.  Mig langar að senda það fyrirtæki út í ystu myrkur.

Sko..

Ég flutti fyrir viku.  Ég var búin að breyta heimilisfangi gegnum netið daginn áður.  Íslandspóstur virðist vera mjög nútímalegt fyrirtæki og býður upp á allskonar ditttinn og dattinn á sinni heimasíðu.

Ég fékk staðfestingu í pósti á mánudaginn, á mitt nýja heimilisfang um að breytingin væri komin til skila.

Og síðan ekki söguna meir.

Við höfum þurft að fara á gamla heimilið til að ná í póstinn og húsband hélt ribbaldanum í mér föstum og sagði fullur bjartsýni að þetta myndi smella í gegn á morgun.  Það hefur hann fullyrt á hverjum degi.

Þess vegna vaknaði ég arfaill þar sem ég sá póstmanninn steðja fram hjá íbúðinni minni hvar ég stóð og smókaði mig út í morgunkulinu.  Kannski var hann bara að steðja í vinnuna hvað veit ég en það var ekki júníforminu að kenna að ég sá rautt.

Í símann.  Blablabla.  Sóandsó.  Skýringar gefnar í lengd og breidd.

Íslandspóstur í kvenmannslíki: Þú verður að koma og borga fyrir áframsendingar.  Kostar sóandsó á mánuði.

Ég: Er ekki nóg að vera búin að tilkynna flutning?

Íík (sárlega misboðið): Þú hefur ekkert tilkynnt flutning.  Ég sé það hér í MINNI tölvu.

Ég: Jú ég gerði það fyrir viku.

Íík (hló yfirlætislega): Já er það, hehe, og við hvern talaðir þú (alveg; mér þætti gaman að sjá þig sanna mál þitt)?  Hefur þú eitthvað skriflegt í höndunum?

Ég: Ég gerði það á netinu.

Íík (búin að ggera það að verkefni dagsins að setja þessa konu på plads í eitt skipti fyrir öll): Þið verðið þá bara að halda áfram að sækja póstinn þangað til þetta hrekkur í gegn.  Nú eða borga fyrir áframsendinguna sem ég var að segja þér frá.  En það kostar auka. (Hlakkandi).

Ég: Það er þá ekki til neins að tilkynna flutning gengum heimasíðu?  Hvað langan tíma tekur svona lagað að virka?
ÍíK: Því get ég ómögulega svarað.

Ég: Arg.

Og ég er ekki að ljúga.

En ég er betri núna.  Búin að pústa og lemja í veggi.

Háeffin eru ekki endilega til að hrópa húrra fyrir.

Ég fékk það sterklega á tilfinninguna að kona þessi væri ráðin til að halda viðskiptavinunum frá fyrirtækinu.

Vink á hana.

En ég er góð.

Kveðja inn í daginn frá ribbaldanum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 2988477

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.