Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Ekkert lært?

Eftir Breiðavíkurmálin og annan ámóta hrylling sem börnum var boðið upp á hér á þessu landi hélt ég að við, þ.e.a.s. kerfið sem á að halda utan um börnin sem lenda í höndunum á því, hefðu eitthvað lært.

Í nágrannalöndunum er því þannig farið að ef minnsti grunur kemur upp um að verið sé að misnota börn þá þarf fólk að leita að annarri vinnu.

Barnið er sem sagt látið njóta vafans ekki sá fullorðni.

Hér er þessu greinilega þveröfugt farið.

Maður sem starfar á meðferðarheimili út á landi fékk á sig kæru um kynferðislegt ofbeldi á stúlku í hans umsjá í fyrra er aftur grunaður.

Í fyrra tilfellinu var ekki talið ástæða til kæru og maðurinn hélt því starfinu.

Núna hefur honum verið vikið frá tímabundið á meðan málið er skoðað.

Ég veit ekkert hvort þessi maður er sekur.

Ég veit hins vegar alveg nóg til þess að komi upp svona grunur og það í tvígang þá á maðurinn að vinna við annað en að bera ábyrgð á börnum.

Við höfum einfaldlega ekki efni á að hætta neinu þegar börnin okkar eru annars vegar.

Það er klippt, skorið og einfalt mál hvað mig varðar að minnsta kosti.

En það virðist vera þannig að þegar kemur að því að velja, þá stendur fullorðna fólkið saman gegn börnunum.

Kannski mótmæla sumir þessari staðhæfingu minni og það er í lagi.

Ég bendi þeim sömu á að kynna sér barnavernd á Íslandi bæði í lengd og bráð.


mbl.is Meint kynferðisbrot á meðferðarheimili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann var að hugsa til mín - brrrrrrr

 woman_laughing

Laugardagsmorgnar hér á kærleiks eru oftast mjög huggulegir.

Þessi hér er skemmtileg undantekning.

Stundum nennir maður ekki að tala.

Svefninn situr einhvern veginn áfram í hausnum á manni og maður hlykkjast áfram eins og í draumi.

Þá eru það stikkorðasamskiptin bjarga stöðunni.

Ég: Værir þú til í að lækka útvarpið, ég heyri ekki sjálfa mig hugsa.

Hann: Sjálfsagt (hann lækkaði ekki en þóttist gera það, er hann að missa heyrn?)

Ég í huganum: $/%$&/#Q"Ö

Hann: Ég er að fara að vinna, á ég að kaupa eitthvað.

Ég: Nei.

Hann: Ha?

Ég: Ég tala við þig um það á eftir.

Hann: Ég elska létta morgunlund þína kona!

Ég: Hmrpfd

Ég stóð í eldhúsinu við að sprauta mig og svoleiðis og það kom kaldur gustur á lappirnar á mér.

Ég (kallaði hátt): Ertu úti að reykja, það varð allt í einu svo kallt?

Hann: Nei, það hlýtur að vera vegna þess að ég var að hugsa til þín honní.

Tíu núll fyrir honum og ég elska hann í tætlur.


Í klemmu

 kreisí

Í dag skrapp ég til læknis.  Jájá og það er ekki það sem ég ætla að blogga um en ég var sem sagt stödd úti á lífinu, þe í læknamiðstöð nokkurri hér í bæ þegar ég hitti mann.

Eða maðurinn hitti mig held ég að réttara væri að segja.

"Blessuð" sagði hann hressilega og slengdi hrömmunum utan um mig.

Mér brá nokkuð, bæði vegna þess að maðurinn var upp á þrjár hæðir og þurrkloft að stærð og svo gat ég ekki fyrir mitt litla líf munað hver hann var.  Ég muldraði þó kveðju framan í magann á honum þar sem ég náði sirkabát þangað upp.

Hann lét mig niður og ég hlaut ekki skaða af merkilegt nokk.

"Heyrðu" sagði hann dálítið óöruggur á svip, "þú manst eftir mér er það ekki"?

Ég: "Nei, þú verður að fyrirgefa, er orðin svo ómannglögg í seinni tíð" (sem er lygi, man allt of mikið eftir fólki, líka því sem ég vil helst gleyma).

Hahahaha, hann gargaði úr hlátri, sló sér á lær og rúðurnar í læknamiðstöðinni titruðu af hávaðanum.    Útundan sá ég að fólk var að safnast saman til að fylgjast með endurfundum mannsins sem ég vissi ekki hver var og undirritaðrar.

Ég: "Unnum við saman einhvern tímann"?

Hann: "Hahahahahahohoho, nei, góða (hér var hann búinn að gera sjálfan Pavarotti að vælukjóa í raddstyrkleika), manstu ekki ég er xxxxx og þú vildir ekki sofa hjá mér út af klemmunum í denn?"

Ég dó, hjarnaði við og stundi: "Kle.. klemm ...klemmunum?  Sofa hjá....??????

Hann (hér var ég töluvert áhyggjufull yfir að íbúar í Hveragerðu næmu mögulega ekki nógu vel það sem hann sagði): "Já manstu ekki við vorum í sleik við Tjörnina, þér fannst ég rosa sætur og hefðir örugglega komið með mér heim og allt, en svo datt þvottaklemma úr vasanum mínum og þá hættirðu með mér út af því það væri svo lítið töff  að vera strákur og vera með klemmur í vasanum".

Ég: "Hvaða vitleysa."

Hann: "Jú, þú gerðir það góða, þar gerðirðu mistök, þú hefðir átt að giftast mér ég er svo duglegur á heimili.  Hahahahahahaoghohohoho".

Ég sver fyrir að hafa nokkurn tímann hitt þennan mann, hvað þá farið í sleik við hann eða talið honum til vansa að ganga með tauklemmur á sér.

Þvert á móti hef ég alltaf fallið fyrir mönnum með góðan tauklemmulager.

En að þessu sögðu, hver andskotinn er í gangi?

Eitthvað samsæri gegn mér?

Ég held að ég haldi mig heima þar sem ég er örugg eða hvað?

Kona spyr sig.

En læknirinn sagði mér að fara heim og heila sjálfa mig.

Ókei, hann sagði það ekki en það hefði verið flottur endir á deginum.

Cry me a river.


Jabb

Sjálfstæðisflokknum verður flest að meini þessa dagana.

Verði þeim að góðu.

Jabb.


mbl.is Fleiri vilja Bjarna en Kristján
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel við hæfi

Ritstjórn Moggans og mbl.is hefur beðið afsökunar á fádæma hallærislegri og ósmekklegri umfjöllun í blaðinu í gær.

Fréttin var um Geir og norska  blindrahundinn EX sem þjónar Helga Hjörvar.

Í fréttinni stóð eitthvað á þá leið að báðir væru af norskum ættum.

Að einn kæmi þá annar færi.

Svo var myndi af Geir Haarde og hundinum klippt saman eins og þeir horfðust í augu.

Ég er svo sannarlega enginn aðdáandi Sjálfstæðismanna en þetta er með ólíkindum taktlaust.

Enda viðbrögðin sterk.

Afsökunarbeiðnin var vel við hæfi.


mbl.is Afsökunarbeiðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tittlingur á þaki - só?

Sniðugur strákur að mála typpi á þakið heima hjá sér.

Skýr skilaboð til mögulegra ástkvenna sem eiga leið um í flugvél.

Alveg: Hér er ég í nokkuð réttum hlutföllum.  Kíkið á mig.  Úje.

Ég er búin að grandskoða húsið á myndinni og ég sé ekki nokkurt einasta pláss fyrir píku.

Jafnréttinu ekki fyrir að fara þarna frekar hér.

En eruð þið ekki að grínast með mig, af hverju er þetta svona merkilegt?

Það er árið 2009 og ég lyfti ekki augabrún yfir þessari tittlingamynd.

Unglingar eiga að vera hugmyndaríkir og skapandi.

Og á þessum aldri eru strákar með kynlíf á heilanum.

Það eru þessir með félagann á milli eyrnanna á fullorðinsaldri sem ég hef áhyggjur af.

Súmí.


mbl.is Málaði risavaxið reðurtákn á hús foreldranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frida og Ásta

 frida

Það er langt síðan ég hef deilt með ykkur lestrarefninu á kærleiks.

Það kemur til af því að ég hef þurft að lesa í áföngum.  Las nærri því yfir mig eftir hrunið. 

Þörfin fyrir góða bók er aldrei eins mikil og í kreppunni.

En ég er búin að vera að lesa nokkrar.

Ætla að segja ykkur frá tveimur sem eru góðir kunningjar mínir en voru að koma út í kilju.

Bókin um Fridu er önnur þessara bóka. Vel tímabært að lesa bókina nú eða rifja hana upp.  Í haust kemur Frida nefnilega á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu.

Ég get lesið þessa bók aftur og aftur og hef reyndar gert það.

Litfegurð Mexíkó skilar sér í bókinni og lýsingarnar á matnum eru svo fallega gerðar að maður finnur lyktina af öllum kræsingunum.

Frida var merkileg kona.  Sjálfupptekin, ör, hjartahlý, grimm og sorgmædd, taumlaus, ástríðufull og full lífsþorsta.  Hún hneykslaði samtímann að því marki að hann stóð á öndinni.

Sem sagt kona af holdi og blóði í yndislegu umhverfi við hæfi.

ásta

Svo eru það sögur og ljóð Ástu Sigurðardóttur.  Frida og Ásta eiga það sameiginlegt að vera upp á kant við samtímann.  Þær njóta þess báðar að hneyksla og ögra.

Ég man eftir Ástu en börnin í vesturbænum hópuðust í kringum hana og störðu stórum augum þegar hún var á ferð illa til reika.

Örlög Ástu voru skelfileg.

Í bókinni er allt sem vitað er til að Ásta hafi skrifað.

Mér finnst sögurnar hennar Ástu magnaðar, skelfilegar nánast eins og t.d. Dýrasagan og einhvern veginn held ég að Ásta hafi sjálf getað verið dálítið grimm, en aðstæður hennar voru oft á tíðum hræðilegar.

Ásta er klassík og það sem meira er að hún á að vera til á hverju heimili.

En nóg um það.

Farið að lesa ykkur frá kreppunni.

Ég kem að vörmu.


Hamingjusamir í höfrunum

fat_guy_big_hamburger_funfry_resize

Ég elska kjöt.

Veit ekkert betra en rautt kjöt, því rauðara því betra.

Má vera blóðugt við beinið mér að meinalausu.

Nú á hið rauða kjöt að hafa slæm áhrif á heilsuna.

Jájá, eins og sólin, sykurinn, kaffið, brauðið, eggin, sjórinn og saltið, andrúmsloftið og magnýltöflurnar.

Ég hef sagt það áður og segi það enn, það er ekki til sá hlutur í heimi hér og manneskjan kemst í námunda við sem ekki hefur á einhverju stigi máls vera talinn heilsuspillandi.

Ég ber fulla virðingu fyrir grænmetisætum en ég dauðvorkenni þeim einhliða því þeir kæra sig ekki um neina samúð, eru hamingjusamir á höfrunum.

Grænmeti er frábært, ég elska það en fæðupíramídinn er eins og hann er og ég myndi detta niður dauð fengi ég ekki reglulega kjöt og fisk.

Stendur ekki í ðe búkk að maðurinn (konan?) lifi ekki á brauði einu saman?  Ég heldi nú það.

Íslenska lambakjötið er frábært.  Hráefnið svo flott. 

Ég hins vegar hitti sjaldan á gott nautakjöt á þessu landi, oftar en ekki er það seigt.

Ég elska litlu lömbin, bæði á fæti og í neytendapakkningum.

Vill ekki setja mig inn í ferlið frá haga í maga og mér finnst gott að þurfa ekki að slátra sjálf væri sennilega á kafi í baunaspírum ef ég þyrfti að aflífa ungviðið sem ég úða í mig.

En af hverju fór ég að blogga um mat?

Jú ég hlýt að vera svöng það er málið.

Farin að narta í gulrót og vorkenna sjálfri mér.

Ég er með flensu, hvað get ég sagt?

Flensa gerir mér hluti.


mbl.is Mikið rautt kjöt slæm áhrif á heilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo sorgmædd

Ég er sorgmædd vegna SPRON.

Kommon ég er Reykvíkingur, átti bók í SPRON fram eftir öllum aldri, var þar með launareikning lengi vel og áfram og áfram.

Ég finn til með starfsmönnum SPRON og óska þeim allra heilla og vona að þeir fái vinnu sem fyrst.

Þeir fengu þetta í hausinn í beinni en ég held að það sé rétt að ekki hafa verið hægt að gera þetta öðruvísi.  En vont er það engu að síður.

Merkilegt, en svona kom bankahrunið í hausinn á okkur öllum og enginn sá ástæðu til að biðja þjóðina afsökunar eða víkja að því einu orði að þeim þætti þetta leitt.

En aftur að sorginni.

Ég er ofboðslega sorgmædd út af ástandinu þessa dagana.

Það er enginn baráttuhugur í mér í augnablikinu þó ég vonist til að það lagist með batnandi heilsufari.

Ég finn bara fyrir uppgjöf.

Ég held að það sé vegna allra frásagnanna um spillingu hér og þar, en ekkert er að gerast.

Mannhelvítin ganga allir lausir.

Fólk hefur nú verið sett í gæsluvarðhald fyrir minni sakir segi ég og skrifa.

Það er svo oft búið að ganga fram af manni án þess að það hafi haft stórvægilegar afleiðingar fyrir siðleysingjana sem hafa komið okkur hingað.

Eflaust brutu þeir lög, ég veit það ekki en þeir eru glæpamenn í mínum augum.

En..

leiðinlegt með SPRON.

Ég á eftir að sakna þess að hafa hann ekki á Skólavörðustíg.

Ekkert er eins og fyrr.

Dæs.


mbl.is Harma hvernig yfirtaka SPRON var kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kona smyr sig

 Bruce og frú

Þegar ég sá þessa stórfrétt hlýnaði mér um hjartarætur.

Elsku karlinn hann Bruce er giftur aftur.

Ég hef haft áhyggjur af manninum eftir að sú fyrrverandi náði sér í unga manninn sinn.

Svona fréttir bjarga hjá mér vikunni og örugglega hjá ykkur líka.

En svona í framhjáhlaupi og af því mér er skítsama um hver giftis hverjum og hver ríður hverjum í Hollívúdd, þá datt mér í hug að það væri meira en lítið perralegt að konan hans Bruce er yngri útgáfa af Demi.

DemiMoore1

Halló, konan er eins og snýtt úr nös fyrrverandi.

Gæti verið að þarna sé komin laumudóttir Demi?

Og veit Bruce það?

Mun allt verða vitlaust í Willis/Moore fjölskydunni á vori komanda?

Hér er mynd af Demi krúttinu á ekki svo góðum degi annars vegar og svona lala degi hins vegar.

DemiMooreEAGLEPRES_1000x824

Er ekki dásamlegt að snyrtivöruiðnaðurinn skuli vera til fyrir oss kvinnur?

Nú, en hvað um það, þar sem ég er dottin í slúðrið og yfirborðsmennskuna þá er hérna sá ljótasti kjóll sem ég hef séð lengi.

ugly dress

Byoncie eða hvað hún heitir á heiðurinn af honum þessum.

Veltið ykkur upp úr blinginu á konunni.

Það eru ekki bara mjaðmirnar á henni sem hafa hlaðið á sig get ég sagt ykkur.

Hm.. ég er alveg intúitt hérna í slúðri og uppúrveltingi um fræga fólkið.

Ætti ég að gerast svoleiðis ógeðiskona, að blogga um fötin í Hollí og svona.

Nebb, defenatlí ekki.

Farin í rúm enda fárveik og það er kannski vegna óráðs sem ég blogga um fræga fólkið.

Hm... kona smyr sig.


mbl.is Bruce Willis kvæntur á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.8.): 9
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 2988388

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.