Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Mig vantar kraftaverk

 christmas%20tree

Það gerðist kraftaverk í Austurríki, lamaður drengur fór að ganga.

Flott.

Mér veitti ekki af eins og einu slíku af himnum ofan.

Það er nefnilega þannig að óttinn við framtíðina, hvað bíður á nýja árinu, malar í bakgrunninum alveg frá því ég vakna á morgnanna.

Ég er svo heppin að vera frekar glaðsinna frá náttúrunnar hendi þannig að ég hristi þetta af mér þó þessi lamandi tilfinning hverfi aldrei alveg.

Þetta er eins og að vera óléttur af steini.  Þung meðganga sem tekur á.

Þegar ég er stressuð þá verð ég gleymin.  Ég týni hlutum, man ekki hvað ég ætlaði að gera næst, er komin inn á mitt gólf einhverra erinda og þar sem ég stend eins og þvara átta ég mig á að erindið er mér gjörsamlega horfið.

Ég þarf því að bakka aftur á upphafsreit og stundum, bara stundum rennur upp fyrir mér ljós.

Sumir segja að þetta sé aldurinn og við því segi ég; Bölvað ekkisens kjaftæði.

Mitt fólk verður gamalt og það man eins og nýsmurð róbót með ofurheila.

Ég man nærri því of mikið undir eðlilegum kringumstæðum.

Ég týndi geymslulyklunum, líka varalyklinum, reyndar voru þeir á sömu kippu sem má teljast óheppilegt en hvernig gat ég vita að þeir myndu týnast?

Smekklásinn var þykkur og nú reyndi á innbrotshæfileika eiginmannsins sem aldrei hafa fengið að njóta sín fyrr en núna.  Á meðan horfði ég á Kiljuna.

Jú ég skammast mín smá.

Erindið í geymsluna var akút, þar er flotta gervijólatréð sem minn heittelskaði fékk mig til að kaupa fyrir tveimur árum.  Ég var reyndar dálítið góð með mig í haust þegar talað var um að vegna kreppu yrðu kannski ekki til alvöru tré.  Hugsaði alveg: Hohoho, ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því.  Nananabúbú.

Mér var nær.  Inn í geymsluna komumst við á endanum og sjá; Jólatréð var þar fyrir en fóturinn ekki.

Ég hef sennilega hent honum í flutningunum.

Ég hreinlega man ekki hvað ég gerði af bévítans fætinum, nú er ég í vondum málum.  Samt minnir mig að ég hafi gengið kyrfilega frá þessum fæti svona líkt og lyklunum.  Þannig að ég myndi örugglega finna hvorutveggja.

Ég gæti sagt að kreppan gerði mér hluti en það er of einföld og hversdagsleg lýsing á líðan minni.

Ég er hreinlega ekki með sjálfri mér og það er ekkert grín.

Eftir að ég horfði á Kastljós kvöldsins þá hélt ég að ég væri að fá fyrir hjartað, svei mér þá.

Þetta er farið að verða líkamlega hættulegt ástand.

Og það sér svo sannarlega ekki fyrir endann á því.

En eins og skáldið sagði forðum.

Á morgun kemur nýr dagur og ég vona svo sannarlega að sá verði reglulegur falalalala-dagur.

Mér veitir ekki af ég sverða.


mbl.is Lamaður drengur gengur á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt fyrir almenning

Blaðamennirnir á DV ætla ekki að segja upp vegna klúðurs Reynis Traustasonar.Mér kemur það svo sem ekkert á óvart og alfarið þeirra að ákveða það.

En ég hló samt smá þegar ég las eftirfarandi:

„Við tókum þá ákvörðun að sinna okkar skyldum við lesendur og áskrifendur að gefa út blað,og  halda því áfram,“ sagði Kolbeinn Þorsteinsson, trúnaðarmaður blaðamanna á DV að loknum starfsmannafundi í dag.

Miðað við stöðu almennings á Íslandi, hversu illa hefur verið farið með hann eftir bankahrun, ekki á hann hlustað, hann ekki virtur viðlits, talað niður til hans og ákvarðanir teknar þvert á vilja hans þá er merkilegt hvað sá sami almenningur er öllum kær við vissar aðstæður.

Blaðamenn á DV ætla að "þrauka" til að geta gefið almenningi upplýsingar (vonandi óritskoðaðar).

Og það sem öllu alvarlegra er, er að ríkisstjórnin er búin að bíta það í sig að sitja og stjórna þessum saman almenningi með heill hans í huga og viðkvæðið er að það væri ábyrgðarleysi að hlaupa af vettvangi í miðjum björgunaraðgerðum.

Þá skiptir engu hvað andskotans almenningi finnst um það.

Það skiptir ekki einu sinni máli þó það hafi komið margsinnis fram að ríkisstjórnin nýtur ekki trausts meðal  títttnefnds almennings sem mun þegar upp er staðið borga brúsann.

Sjitt. 

Almenningurinn. 


mbl.is Sinnum okkar skyldum við lesendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segja kollegarnir?

Fólk skiptist í fylkingar varðandi þá ákvörðun Reynis Traustasonar að halda áfram að ritstýra DV.

Sjálfri veit ég eiginlega ekki hvað mér finnst, mér finnst aðallega vanta afsökunarbeiðni Reynis til blaðamannsins.

En auðvitað treysti ég DV síður eftir þetta.

En mér finnst skipta miklu máli hvað fagmönnunum finnst, þ.e. kollegum Reynis.

Jónasi finnist að Reynir eigi að láta nægja afsökunarbeiðni og henda þessu svo bak við sig.

Eiríkur segir að allir gerir mistök, líka fjölmiðlar.

Illugi Jökuls bloggar á DV og er einn af mínum uppáhalds er sjálfum sér trúr að vanda.

Sigmundur Ernir sem reyndar er fyrrverandi DV-ritstjóri skefur ekki utan að því og segir það til háðungar fyrir stéttina að Reynir vermi ritstjórastólinn áfram.

Sem almennum lesenda finnst mér alltaf kvarnast úr hóp þeirra blaðamanna sem maður getur treyst.

Það fer að verða fátt um fína drætti.

Ekki bætir það ástandið að tortryggnin ríkir bókstaflega út í allar stofnanir og batterí samfélagsins og nánast ekkert stendur eftir ef undan eru skildir örfáir þingmenn í stjórnarandstöðu.

Ég veit ekki með ykkur en ég er svolítið höll undir Illuga og Sigmund Erni sem ásamt Agli Helga virðast segja hvað þeim finnst og ekki vera veðsettir upp að eyrum í hagsmunabandalagi.

Ef þetta ástand er ekki gróðrarstía fyrir öfluga paranoju þá veit ég ekki hvað.

Meira ruglið.

 


Tvennt lýsir með fjarveru

Gott og vel, Reynir biður lesendur og blaðamenn afsökunar og lofar að aldrei aftur muni óttinn stýra fréttaflutningi DV.

En það vantar tvennt í þessa yfirlýsingu.

Fyrst Reynir er kominn úr óttaskápnum þá verður hann að segja við hvern hann var hræddur.  Fara alla leið.

Hver á hagsmuna að gæta varðandi fréttina af Sigurjóni og það í þeim mæli að ekki megi birta hana?

Svo vantar tilfinnanlega að Reynir biðji blaðamanninn afsökunar því hann fór sérdeilis illa að ráði sínu gagnvart honum.

Það er virðingarvert þegar fólk sér að sér. 

En það þarf að gera það alla leið.


mbl.is Aldrei aftur mun óttinn stýra fréttaflutningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falalalalalala í boði hússins

 jólagjafir

Ég sem er þekkt fyrir jólamaníu til margra ára er nú ekki svipur hjá sjón.

Fólkið mitt hefur þungar áhyggjur af þróuninni og sumir hafa heyrst muldra eithvað um aðstoð fagaðila, jafnvel samtaka.

Mitt falalala virðist vera á miklu dýpi.

Ég vakna á morgnanna og held út í daginn með þá einbeittu ákvörðun að skora stig hjá jólasveininum.

Ég les blöðin og hviss bang - ásetningurinn er floginn út í veður og vind.

Húsband spurði mig áðan hvort ég væri búin að senda jólakortin.

Ég: Jólakort, um hvað ertu að tala, hér eru engin jólakort.

Hann: Whattttt?

Ég: Nei og verða ekki, má ekki vera að því.  Algjör óþarfi að spæna upp heilu rjóðrunum á þessum krepputímum.

Hann: Enn að jafna sig.

Þannig að mínir elskuðu vinir, kunningjar og ættingjar;

Gleðileg jól og farsælt komandi ár. (Notist eftir þörfum).

Þá er það frá.

En ég er búin að baka smá.  Fékk smá falalalalala-fíling þarna tvisvar og skvísaði inn tveimur sortum á meðan það gekk yfir.  Var aktjúallí skemmtilegt.

Ég er búin að skreyta helling, gerði það bölvandi og ragnandi svona eftir því sem tóm gafst frá spillingarumræðunni.

En ég á eftir að kaupa jólagjafir.  Dúa vinkona mín og frumburður ætla að flytja mig í það verk.

Halda á mér ef þörf krefur.  Til þess er fólk.

Svo er það maturinn.  Tek hann um helgina. Jájá.

Er til of mikils mælst þarna pólitíkusar, bankamerðir og fjölmiðlafólk að þið gefið okkur það í jólagjöf að segja satt fram yfir áramótin?

Andskotans verkun og fyrirkomulag.

Falalalalalala

Hmrpfm

 


Hvað næst?

Ég held að mig langi ekkert sérstaklega til að búa hér.

Ég er ekkert rosalega kröfuhörð til umhverfisins og móralsins þar sem ég bý enda sjálf ekki alltaf gefið tilefni til stofnunar aðdáendaklúbba í kringum persónu mína.

Hef alveg átt mína takta í lífinu þó ég sé búin að ná hellings nirvana og raðfullnægingum vegna framfara á þroskabrautinni.  Ókei, smá útúrdúr.

Það er hreinlega orðið þannig á síðustu vikum að allar gáttir eru að opnast, hvert kýlið að springa svo vellur úr.

Mikið djöfulli hafa allar leikreglur verið orðnar ljótar og einskis svifist, leikvöllurinn ormagryfja.

Ég trúði nærri því honum Reyni í dag, gat ekki séð af hverju hann ætti að vera að ljúga upp á þennan unga blaðamann.

En reyndar sá ég enga ástæðu til þess heldur að blaðamaðurinn væri að ljúga upp á Reyni.

Ég snýst eins og fífl í kringum sjálfa mig, hver er að segja satt, hver er að ljúga?

Það er ekki lengur hægt að skipta upp leikmönnum í góða og vonda gæja.

Þeir virðast að stórum hluta allir sökka alveg biggtæm.

Nú eru staðreyndirnar á borðinu.

Átti að taka æru og starfsframa þessa unga manns og eyðileggja frekar en að segja satt?

Ef það er rétt þá skil ég ekki hvernig fólk getur sofnað á kvöldin.

Hvað næst?


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja Óli og við öll

Maður á ekki að fíflast með tilfinningar annarra.

En mikið rosalegur bömmer er það fyrir forsetann að sjá eggið sem hann gaf Hilly á Ebay.

Kommon, er nokkuð glataðra en að sjá gjöfina sína á uppboði, sko gjöf sem maður gaf friggings forsetafrú Bandaríkjanna!

Þetta er ekki svona smámál eins og þegar frænkurnar gáfu manni forljóta úlpu eða buxur í jólagjöf í denn.  Föt sem maður hefði ekki farið í þó kalsár væru komin á lappirnar á manni og fingur að losna af í kuldanum.

Þá læddist maður og skipti gjöf í skjóli nætur og var síðan í erfiðleikum allt árið þangað til brast á með næstu jólagjöf og frænkurnar þráspurðu hvers vegna ógeðisflíkurnar héngu ekki á þolandanum.

Þetta með eggið er biggdíl.  Sko kemst í heimsfréttirnar.  Aumingja Óli.

Annars verð ég að játa að mér finnst þetta egg ekki fallegt (fyrirgefðu listamaður), soldið eins og því hafi verið klesst saman í bríari á fylleríi bara.

Aumingja Óli.

En Hillary má skammast sín smá að láta gjafir frá þjóðhöfðingjum renna inn á uppboðsvefi þar sem heimurinn verslar.

Mátulegt á hana að hún varð ekki forseti, skömmin á henni.

Aumingja Óli og við öll.

En svona í framhjáhlaupi, hvað er allra, allra ljótasta gjöf sem þið hafið fengið?

Ég fékk plastskraut í hárið í fermingjagjöf.  Einhverjum var verulega illa við mig í fjölskyldunni.

Þvílíkur andskotans viðbjóður.


mbl.is Gjöf forseta til Hillary Clinton á Ebay
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má steðja með í bankann

Ég á það til að dreifa tillögum að góðu lífi og líðan í kringum mig eins og karamellum.

Það er af því ég er svo góð - jabb.

Svo hefur það gengið svona og svona hjá sjálfri mér að fara eftir eigin ráðleggingum en hvað með það, ég reyni.

Eitt hef ég staðið við (kannski af því að það er reyndar bara ljúft og skemmtilegt) og það er að gera heiðarlega tilraun til að lesa mig í gegnum kreppuna.

Það gengur ágætlega, takk fyrir að spyrja.

erla

Stundum er tímasetning hlutanna algjört skot í mark.

Bókin hennar Erlu Bolladóttur kemur út á hárréttum tíma, núna þegar traust til yfirvalda er í sögulegu lágmarki. 

Það er skelfilegt að lesa söguna hennar Erlu.  Að heyra um þessa ungu stúlku, ekki á svo góðum stað með sjálfa sig, dragast inn í stærsta sakamál síðustu aldar. 

Geirfinns- og Guðmundarmálin eru klúður frá upphafi til enda.

Nokkur ungmenni eru tekin og þeim haldið í einangrun mánuðum saman þangað til játning er fengin.

Hvað Erlu varðar er hún nýorðin móðir og tekin frá barni sínu og látin í einangrun í Síðumúlafangelsinu.  Mér virðist fyrir það eitt að hafa verið í slæmum félagsskap.  Það er dælt í hana róandi töflum og innan veggja fangelsisins játar hún á endanum hvað sem er til að sleppa.

Skortur á getu rannsóknaraðila til að vinna vinnuna sína er auðvitað hneyksli.

Stór hópur saklauss fólks er dreginn miskunarlaust inn í málið, lokað inni og farið með það eins og ég tel að gert hafi verið í Kommarússlandi.

Ég held að þessi bók ætti að vera skyldulesning.  Ég stóð mig að því að lesa bókina eins og spennusögu, en því miður þá fjallar hún um líf lifandi manneskju.

Ætli þessi spilling í íslensku kerfi hafi alltaf verið til staðar?

En bókin er líka jákvæð.  Erla hefur tekist á við líf sitt og unnið bug á þeim erfiðleikum sem hún hefur staðið frammi fyrir.  Það er nefnilega alltaf von.

ofsi

Svo er það Einar Kárason, einn af okkar allrabestu skáldum.

Ofsi er stórkostleg bók.  Hvað get ég sagt?  Maðurinn er snillingur - villingur á fjaðurpennann.

Bókin er nokkurs konar framhald Óvinafagnaðar.

Ég er þess ekki umkomin að lýsa þessari sögulegu skáldsögu svo gagn geri en hún fjallar um aðdragandann að einu mesta níðingsverki Íslandssögunnar, Flugumýrarbardaga.

Ég ætla að halda áfram að blogga um bækurnar sem ég er að lesa, hef lesið og mun lesa, alveg eins og enginn sé morgundagurinn.

Það börnin góð, getið þið steðjað með í bankann.

Nördinn.


Spörk í allar áttir

"Menn eru metnir eftir því hvernig þeir bregðast við óheppni, ekki eftir því hvernig menn sóa heppni," segir  AA Gill í langri grein sem breska blaðið Sunday Times birtir í dag um ástandið á Íslandi.

Þessi grein er frábær og nokkuð góð smurning á annars sært þjóðarstolt.

"Brown sparkaði í Íslendinga" segir hann einnig og þar er ég hundrað prósent sammála.

En spörk frá vandalausum getur maður þolað.  Þau eru eins og hvert annað hundsbit.  Maður rís á lappir og sækir sér plástur og bíður eftir að grói um heilt. 

Þau eru hins vegar verri spörkin frá þeim sem standa manni nær, nú eða bara helvíti nálægt, eru t.d. samlandar manns.

Það er erfiðara að sætta sig við þær árásir og það er erfiðara að jafna sig á eftir.

Á hverjum sunnudegi undanfarnar vikur kemur fólk í Silfur Egils og segir manni hluti sem eru afskaplega afhjúpandi fyrir það kerfi sem við búum við þar sem klíku- og vinatengsl virðast ná út fyrir gröf og dauða.

Svo var Lúðvík Bergvins á Víkingsbátnum.  Nafnið hans Lúðvíks poppar upp í sífellu þessa dagana.  "What is?" spyr ég eins og skáldið forðum.

Ég varð bálreið og snortin til skiptis á meðan ég horfði á þáttinn.

Ég var auðvitað snortin yfir þessu góða og klára fólki sem (fyrirgefðu DV - kverúlöntum) sem kemur og leggur vitneskju sína á borðið.

Reið yfir því að spillingunni í stjórnsýslunni, já allsstaðar virðast engin takmörk sett.

Svo er hver kjaftur á því að þessi ríkisstjórn sé glötuð, að undanskildum Illuga Gunnars en hann er einn af þessum fáu sem enn hangir í aðdáendaklúbbnum.

Ég mun svo sannarlega versla við Jón Gerald opni hann lágvöruverslun á Íslandi.  Mun ekki standa á mér, því lofa ég. (Svo fremi hann er sé ekki tengdur inn í eitthvað andskotans feðgaveldi).

En varðandi spörk frá þeim sem deila með mér þjóðerni og landi er bara eitt að segja.

Nú eru dagar reikningsskila.

Þetta er orðið helvíti gott.

Silfur dagsins niðurbútað hér hjá Láru Hönnu.


mbl.is Brown sparkaði í Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jultomten

 jólakransa

Tíminn gjörsamlega flýgur áfram og ég fæ ekkert við því gert.

Ég var að átta mig á því áðan þegar mér varð litið á jólateljarann að það eru 11 dagar til jóla, bráðum 10!

Ég fórnaði höndum ég á eftir að gera svo mikið, redda svo miklu og svo á ég eftir að vinna úr hellings hugmyndum sem ég er ekki einu sinni búin að fá ennþá.

Ég er of upptekin af kreppunni það er nokkuð ljóst og já ég ætla að vera það áfram með jólaívafi.

Ég get gert bæði í einu sko, bæði tuggið og hugsað svo það verður ekki erfitt verkefni.

Ég mun blogga mig hása á milli þess sem ég dúlla mér í jólafyrirkomulagi.

Systkinin Hrafn Óli og Jenný Una Eriks- og Sörubörn eru hjá okkur í pössun.  Ég held að það sé jólagleði í gangi hjá FÍH.

Núna sofa englarnir mínir bæði svo sárasaklaus og undurfalleg hvort í sínu rúmi.

Jenný Una kom með jólasokkinn sinn með sér og festi hann kyrfilega á rúmið sitt.

Amma; þú mátt ekki hafa hátt þá hræðir þú jólasveininn.

Amman: Ég lofa, ég læðist eins og mús.  En hvað heitir jólasveininn sem kemur í kvöld?

Hið hálfsænska barn er ekki alveg með íslensku sveinana á hreinu: Hann heitir bara jólasveinn amma, sko JULTOMTEN heter han.

Amman gerði sér grein fyrir að það var kominn tími á smá kennslustund.

Eins gott að ég á kverið um jólasveinana.

Það verður verkefni morgundagsins.

Verið þið óhlýðin.  Sko borgaralega óhlýðin og um leið afskaplega jólaleg.

Falalalalalala


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 112
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 110
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband