Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Hjá borginni - minn afturendi

Mér finnst voða krúttlegt að sjá Hönnu Birnu svara í símann í borginni og fyrst var ég alveg; dúllan og sonna.

Svo fór ég að hugsa, (já ég veit það, stór-furðulegt en ég á þetta til þegar minnst varir).

Vildi svona skemmtilega til að blaða- og myndatökumaður móðurblaðsins var á rambi um Símaverið hjá borginni og gengu þar fram á Hönnu Birnu alveg í starfskynningu á fullu?

Auðvitað ekki.  Það tekur krúttlegheitin niður um helling þegar maður fattar að allt svona er sett á svið.

Þetta er ímyndasköpun í beinni útsendingu.

Fjandinn að maður skuli vera orðinn svona kaldhæðinn á gamals aldri.

Það verður erfiðara með hverju árinu fyrir mann að sjá hlutina eins og þeir eru settir upp fyrir mann.

Sama fyrir kosningar, þegar frambjóðendurnir hanga á kaffistofum og í vélar- og pökkunarsölum út um allan bæ en myndu ekki fyrir sitt litla líf koma í námunda við viðkomandi starfsemi á milli kosninga.

Gætuð þið ekki kastað ykkur fyrir björg að sjá t.d. Áddna fjár með fyrstihúsahúfu í innilegum samræðum við pökkunarkonuna?  Alveg intú itt?

Algjört stílbrot.

Mér er alveg sama hvar í flokki menn standa þeir eiga ekki að setja á svið einhver sjónarspil í aumri tilraunastarfsemi sem ætlað er að blekkja fólk.

Steingrímur með sveðjuna á lofti í frystihúsinu, Solla í pípulögnum, Áddni í dósaverksmiðju, Kiddi Sleggja í þvottahúsi og Geir í loðnu er ekki að gera neitt fyrir mig.

Hanna Birna, geðþekk eins og hún er og hún má eiga það, á ekki að vera að svara í símann fyrir blaðamenn.

Hvað varð um spekina úr bókinni um að hægri höndin skuli ekki vita hvað sú vinstri er að bardúsa?

Er ekki gott að halda henni til haga?

Hjá Reykjavíkurborg góðan dag, minn afturendi.


mbl.is Símadama á borgarstjóralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matarnostalgía

 

Sniðug sýning hjá Laufeyju um mataræði á Reykvískum heimilum í 100 ár.

Ég var barn upp úr miðri síðustu öld og ég ætla ekki að reyna að segja ykkur hvað matarvenjur hafa breyst.

Seytt rúgbrauð með smjöri og osti á morgnanna eða korfnlexi og alltaf Sanasól þar sem ég strækaði á lýsið. 

Osturinn úti í SS á Bræðró var skorinn niður við búðaborðið og ég man eftir að það voru tvær tegundir á borðum.  Svo var bitanum pakkað inn í sellófan.

Áleggin í sömu búð voru skinka, malakoff (bleikt með stórum fituskellum), spægipylsa, steik (lambakjöt) og hangikjöt.  Og það var beðið um eitt eða fleiri bréf af álegginu.

Fransbrauðið þetta hvíta fengum við með rabbbarasultu ofaná og ég er viss um að næringarráðgjafar nútímans flippuðu út ef þeir hefðu séð aðfarirnar.Mjólkin var í pottum, þe. heils- eða hálfslítra.

Þegar hyrnurnar komu, þessar köflóttu þá var það bylting.

Saltkjöt, Gunnusteik, Kótelettur í raspi, lærisneiðar í raspi sömuleiðis og læri eða hryggur á sunnudögum.  Pylsur á laugardögum - þvílík hamingja.

Fiskur alls staðar þess á milli.  Karlarnir komu svo alltaf heim í hádeginu.  Fólk borðaði stöðugt.

Klukkan þrjú görguðu mömmurnar á börnin.  Dreeeeeeeekkutími.

Konurnar voru stöðugt eldandi, bakandi, saumandi, prjónandi og þeim entist ekki dagurinn.  Stelpur, mæður okkar voru súperkonur, ekkert minna.

Grænmeti var nánast ekki til nema gulrófur, gulrætur, hvítkáll, tómatar og agúrka.

Fiskurinn var þá eins og nú vandamál fyrir hina klígjugjörnu mig. Ég borðaði hann steiktan en tók á rás út ef ég fann suðulykt af fiski.  Hlýt að hafa verið rækja í fyrra lífi.

Halldór Laxness sagði einhvers staðar að Íslendingar borðuðu ekki ófríða fiska.

Ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið.

Ég er komin í nostalgíukast þar sem ég sit og skrifa um mat fyrir "nokkrum" árum.

Mig langar í snúð, eða vínarbrauð, eða franska vöfflu, nú eða eitthvað svona bernsku.

Ég mann ennþá eftir bragðinu af djúsþykkninu.  Svo dísætt að það var óhugnanlegt. 

Þetta fór maður með í skólann á flösku og brauðsneið með.

Dagar víns og rósa í fákeppnilegum skilningi.

Ég kann betur við nútímann þegar kemur að því að kaupa í matinn.

P.s. Ég hef aldrei látið hamsatólg eða annan slíkan feitiviðbjóð inn fyrir mínar varir en ég man lyktina af henni.

Farin að gubba.  Fyrirgefðu hamsatólg.


mbl.is Reykvíkingar sólgnir í þrumara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farðu - vertu - skildu - hættu

Ég hef þekki fólk í gegnum tíðina sem eru fæddir sérfræðingar í öllum málum.

Ég man eftir lækni sem var með fastan dálk í gamla DV og hann gaf ráð maðurinn.

Hann var sérfræðingur í notuðum bílum, hvernig á að hengja upp gardínur,  hvert væri best að ferðast, hvað væri best við ilsigi og hann sagði okkur hvað væri eðlileg tíðni fullnæginga hjá konum um fertugt og mönnum um sextugt.  Hann vissi líka hvernig best væri að kaupa OG selja hús.  Maðurinn var nefnilega líka fasteignasali án þess að hafa nokkurn tímann nálægt því komið.

Það var ekki til sá hlutur sem læknirinn var ekki með sérþekkingu á .

Þetta er ákveðin tegund af fólki sem sérfræðingast launalaust og því miður án þess að nokkur fari fram á aðstoðina.

Ég hef verið sérfræðingur, aðallega í samböndum - ráðlagt á báða bóga og tók aldrei krónu fyrir viðvikin.  Ég minnist þess ekki heldur að hafa verið beðin sérstaklega um aðstoð nema endrum og sinnum og af því ég var mjög afgerandi í minni ráðgjöf, sem var í pjúra boðhætti, dæmi: Farðu, vertu skildu, hættu, hlauptu, minnkaði eftirspurnin snarlega.

Á ráðgjafatímanum var ég í vondum málum sjálf sambandslega séð.  Híhí.

En ég lærði mína lexíu.

Það er allt fullt af sérfræðingum í kringum okkur.

En þegar nánar er að gáð þá er það oft fólk sem er ekki í góðum málum sjálft.

Fólkið sem er með allt niðrum sig í samböndum.

Fólkið sem er að missa allt í vaskinn í fjármálunum, ráðleggur gjarnan öðrum hvernig kippa eigi þeim í liðinn.

Ráðgjafar sem hafa valið sér það að hugsjón í frítímanum eru óþolandi fyrirbrigði.

Ég fæ aulahroll þegar ég les um leiðindakokkinn Ramsey sem er með þætti þar sem hann kennir fólki að reka veitingahúsin sín.

Hann virðist nefnilega vera í vondum málum í eigin rekstri.

Rólegur á ráðgjöfinni karlinn.

Ég er flutt - á Teigana jájá og veit ekki hvað ég heiti, er búin að vera brjálæðislega bissí.

En það er allt að verða voða fínt hjá mér.

Enda búin að vera í stöðugu sambandi við ráðgefandi flutningsaðila.

DJÓK!

Svo segi ég eins og Jóna vinkona mín: Eruð þið ekki að fokking kidda mig hvað ég er búin að sakna ykkur á þessum sólarhring sem ég hef verið netlaus.

Á eftir.

Er góð.


mbl.is Ramsey í klandri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blogg um bloggara

Með leiðinlegri bloggum sem ég les eru blogg um aðra bloggara.

Þegar fólk fer hamförum vegna þess að þessi bloggar svona en ekki hinsegin.

Ég verð þó að játa að ég hef misst mig nokkrum sinnum þarna líka, en ég reyni að taka mig á, með misjöfnum árangri, en ég reyni. 

Bloggararnir sem eru með attitjúd út í heilu bloggsvæðin fara í taugarnar á mér.  Ég hefði getað skrifað óteljandi pirringsfærslur um þetta lið sem er að láta sér líða illa yfir Moggablogginu til dæmis.

Er vitneskjan um að manni er frjálst að lesa eða sleppa því, hulin helling af fólki?  Situr það alveg og rífur í hár sér og veinar í himininn: djöfullinn sjálfur ég á eftir að lesa þennan asna og fíflið hana Jenný Önnu með sitt bölvað úje?

Ég veit um bloggara á öðru svæði sem hætti að blogga út af því að almúginn streymdi fram á bloggvölinn á Moggabloggi, skrifandi pöbull var meira en ritsnillingurinn gat afborið.  Það er ekki allt í lagi heima hjá fólki!  Mér finnst bara jákvætt að sem flestir setji hugsanir sínar á blað.  Ef fólki ferst það illa úr hendi þá nær það ekki lengra.

Mér er löngu hætt að standa á sama hvort þessum eða hinum líkar það sem ég skrifa.  Ég var reyndar mjög upptekin af því í upphafi, en svo rjátlaðist það af mér sem betur fer.  Úje. 

En allir hafa tilfinningar og það er hægt að særa þær með ýmsum hætti.

Stebbi Fr. er ekki skemmtilegur bloggari að mínu mati en truflar það mig að hann skuli ekki  skrifa að mínum smekk?  Ekki vitund og ég get alveg gert grín að nákvæmum fréttafærslum hans og haft gaman að.  Það góða við Stebba Fr. að hann lætur fólk ekki skjóta sig í kaf og bloggar áfram algjörlega ósnortinn, að því er virðist, þó verið sé að draga hann sundur og saman í háði.

En stundum er farið yfir mörkin gagnvart fólki og húmorinn verður illkvittninni að bráð og mér var ekki hlátur í hug þegar ég las þetta.

Svo hvet ég alla til að blogga eins og þeir best geta og vilja. 

Fólk er að minnsta kosti farið að skrifa aftur án þess að það sé nánast eingöngu í formi sms-skeyta.

Það er bara hið besta mál.

Kveðja frá bloggfíflinu.


Þættir úr hjónabandi

 pd_arguing_080129_ms

Í mér takast á öflugar andstæður, plúsar og mínusar á hverjum degi.  Jájá, ég held ekkert að ég sé svona rosalega sérstök og öðruvísi ég er bara að tala um hvernig ég upplifi sjálfa mig. 

Sko ég er ekki munasjúk.  Ég þarf ekki að eiga alla hluti, mér líður vel með mitt tiltölulega fábrotna líf og nú sé ég alveg fyrir mér herbergi með hvítum kalveggjum, trébekk og kolli með einu lásí kerti á borðinu og ég að hrynja niður úr næringarskorti en æi þið vitið hvað ég meina. 

En ég hef skrifað um svarta veikleikann minn áður.  Fötin mín, hópinn af þeim sem fylla fataskápinn og eru, eftir því sem minn heittelskaði heldur fram, öll eins en úr mismunandi efnum.

Í dag réðst ég sem sagt á þau helgu vé sem fataskáparnir eru og dagsskipun mín frá mér til mín var að láta frá mér allt sem ég hef ekki notað í svona eitt ár.

Ef hægt væri að sjá hégómagirndina og fatasýkina berum augum þá hefði blætt úr báðum.  Þetta var hreinlega alveg helvíti erfitt.

Ég grandskoðaði gamlar svartar dragtir og aðeins nýrri dragtir og ég skildi að í augum leikmanns eins og húsbands þá er þetta allt eins - en við sérfræðingarnir sjáum stóran mun.

En mér tókst ætlunarverkið og nú verður afreksturinn látinn áfram til þeirra sem eru með tóma fataskápa. Húsband brosti sínu breiðasta yfir hrúgunni á gólfinu þegar hann kom heim.

Er þetta gámahrúgan?

Ég: Nei, þetta er skápahrúgan á bara eftir að hengja upp aftur (var að ljúga sko).

Hann (skelfingarsvipur): Ha, hvar er gámahrúgan?

Ég (benti á tvo  aumingjalega boli sem lágu á hjónarúminu og ég var að fara að þvo): Þarna.

Hann: Ha????

Ég: Já - og???

Hann stundi: Já ég get svo sem alveg haldið áfram að geyma fötin mín í íþróttatöskunni.W00t

Þarna var ég búin að missa húmorinn, hann í kasti og ég rótaði gámahrúgunni frekjulega ofan í nokkra poka, límdi fyrir og henti út á svalir og ég fann til í hjartanu.  Fötin mín, sem ég nota ekki, vekja með mér öryggiskennd og ég veit að það er smáborgaralegt og allt það en þegar klæði eru annars vegar þá blómstra brestirnir mínir.  Ég átti verulega bágt þarna.

Hann bauðst til að kveikja á kerti og spurði mig hvort ég vildi fylgja pokunum síðasta spölinn - svo rétti hann mér tissjú.

Hmrpf....


Kjaftasaga

 

Einu sinni fannst mér gaman af kjaftasögum, þá var ég tuttuguogeitthvað og í mótun.  Hvað get ég sagt, við höfum öll þetta element en við viljum ekki öll kannast við það, það er heila málið.

Svo varð ég fyrir barðinu á sömu sögum og það var ekki skemmtileg upplifun, engin leið að leiðrétta það sem öðrum er sagt í trúnaði og segja enn öðrum í trúnaði og biðja þann að fara ekki lengra með það og Gróa á Leiti er á þessu stigi máls farin að fá raðfullnægingar.  Náið þið ferlinu?

Eftir að hafa upplifað kjaftasögurnar á eigin skinni lærðist mér að taka öllu með fyrirvara sem ég heyri um náungann.

Helvíti vont að þurfa að rata í ógöngur sjálfur til að fatta.

En þessi færsla er ekki endilega um það.  Hún er um löngunina til að kjafta frá.

Mig dauðlangar nefnilega að blaðra því sem er í gangi í kringum mig en ég ætla ekki að gera það.  Ekki strax og kannski aldrei.  Fer eftir flóði og fjöru.

Róleg þetta eru ekki stórmál - þetta er líka færsla um að kunna að þegja.

(Engin skítakomment um það ég kunni ekki að halda kjafti, sé bloggandi um allt út í eitt.  Það er heilagur sannleikur en ég er ekki með skúbb blæti aularnir ykkar).

Aftur að kjaftasögunum.  Á milli fyrsta eldheita ástarsambands milli mín og húsbands sem átti sér stað sjötíuogeitthvað og fram að því næsta sem hófst nítíuogeittvað og stendur enn, fékk ég reglulega fréttir af honum úr hringiðunni sem. eins og allir vita, er pottþéttur fréttamiðill.  Hehemm.

Hringiðan sagði:

Alls konar lygasögur, krassandi og hrollvekjandi.  Næstum allar ósannar en sjaldan reykur án elds.

Eða hvað?

Sá spekingur sem það sagði hefur greinilega aldrei í gufubað komið.

Og þið sem hélduð að hér væri eitthvað bitastætt að finna eruð illa svikin og tekin í bælinu.

En öll ljótu leyndarmálin getið þið lesið um í sameiginlegri ævisögu minnar og húsbands sem kemur von bráðar.

Vinnuheiti þeirrar sögu eru tvö.

"Brothers in arms" og "Partners in crime".  Útgefandi verður forleggjarinn hjá Con.Art.Unlimiited.

Lalallala.

Skammistykkar villingar snillingar.

Farin að huga að leyndarmálinu. Á að vera mætt fjörgur sjarp.

Vá hvað það er gaman að lifa.  Það búbblar í mér lífsgleðin

Örugglega af því ég er edrú.

Nananabúbú.


Frygðarbanar og aðrir kynhvatarmorðingjar

 Henry8

Ég verð að játa að aldurinn er farinn að trufla mig verulega.

Eins og t.d. varðandi hvað er sexý karl og hvað ekki.  Rólegan æsing samt ég hef aldrei hangið á fjölförnum stöðum (ekki fámennum heldur) við að mæla út kynþokkafulla karlmenn enda þeir ekki á hverju strái.

(Hvað varð annars um tímann uppúr gelgju þar sem það var ekki þverfótað fyrir karlkyns hormónabúntum?).

Ég varð nefnilega smá leið þegar ég las um að konum þætti Pútín sexý. Mér finnst hann álíka kynferðislega hvetjandi maðurinn og Óli Prik.  Sama með Clinton, sé ekkert frygðarhvetjandi við þann mann, finnst hann eins og gamall og tinandi frændi að utan að landi.  Algjör frygðarbani.

Kannski er það valdið sem gerir þetta að verkum.  Sumir segja það. 

T.d. Henrí mófó 8. Bretakóngur sem átti sjö eða átta konur, lét afhöfða þær eða svipta þær eignum og æru, lokaði þær inni, hélt fram hjá þeim og áfram út í það óendanlega.  Hann var ljótur, hann var með sífyllis en allar vildu þær eiga helvítis útvatnaða genaslysið.  Og sjáið Prins Charles enn útvatnaðri innherjafyrirbæri og afkomandi þess 8., þegar hér er komið sögu minnir hann mig á álf í skelfilegri kantinum.  En hvað get ég sagt þetta hefst af innherjaríðingum.

Æi ljótt af mér að skrifa svona, en ég er bara að hugsa svona upphátt þið skiljið  Viðra heilabúið enda föstudagur og svona.

Svo er ég orðin svo utan við mig.

Ég var að bera út poka áðan á leiðinni heim úr vesturbæjardvölinni og ég tók með mér ruslapokann.  Ekki í fyrsta skipti.

Það var sko völlur á minni þegar hún fór með sorpið í strætó og striksaði með það inn á deild á Lansanum þar sem ég var læknaritari.

En þá var ég þrjátíuogeitthvað.

Æi nennessekki.

Farin að leggja mig.

Síjúsúmílúmítúmí.

P.s. Það má svo til sönnunar máli mínu framleggja að ég ætlaði að skrifa um reyktan makríl í þessari færlsu.

Það verður næst bara.

Og farið með bænirnar ykkar skammirnar ykkar.


mbl.is Kynþokki Pútíns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáfurnar að drepa mig

Það verður "Freaky Friday" í síðasta skipti í dag á hárgreiðslustofunni Gel en hún er að hætta.

FF þýðir að þú sest í stólinn, gefur engar vísbendingar um hvernig þú villt láta klippa þig og voila: þú gengur út einhvern veginn um hárið.

Ég er með hárvandamál.   Ég hef átt slæma hárdaga í allt sumar.  Hvers vegna spyrð þú krúttið mitt og ég skal segja þér það.  Ég get ekki með nokkru móti gert það upp við mig hvernig ég vil hafa hárið á mér klippt og á litinn.

Statusinn í dag er að það er orðið alltof sítt og undarlega röndótt á litinn.  Eins og það geti ekki gert það upp við sig hvort kastaníurauði liturinn verði ofan á eða þessi nánast svarti sem kemur frá frönsku duggurunum ættingjum mínum.

Ég á vinkonu sem heitir Dúa og er hættuleg með skæri og rakvél.  Hún fær reglulega kast á hárið á sér og tekur það af, nánast allt ef þannig liggur á henni.

Ég held að ég yrði skelfileg krúnurökuð enda með rúsínuhaus.  Allt of lítið kvikindi.  Mér finnst það skrýtið að þessar stórkostlegu gáfur mínar og ÖLL vitneskjan sem ég hef viðað að mér komist fyrir í þessu höfði af möndlustærð. (Ýkin, ég?  Ekki að ræða það!) Ætli það sé þess vegna sem mig svimar oft og er að drepast úr hausverk?  Gáfurnar að flæða út bara?  Það mætti segja mér það.

Kannski á eftir að standa í minningargreininni; hjá henni fór allt í vaskinn!  Það væri þá að minnsta kosti satt.  Þetta sem mun standa um hannyrðirnar og fórnfýsina mun hins vegar verða tóm friggings lygi.

En... ég ætla ekki að láta hvatvísa og örlynda hárlistamenn komast í hárið á mér í dag, né aðra daga.

Ég ætla að halda áfram að hugsa um hvernig ég vilji hafa hárið.

Á meðan hef ég það í hnút eða tagli.  Hnútur - tagl - tek hnútinn, það er gáfulegra svona þegar ég steðja út á meðal fólks.

Er á leiðinni heim eftir hálfs mánaðar dvöl í vesturbænum.

Úff, nú sé ég tvöfalt.

Gáfurnar eru hreinlega að drepa mig!


mbl.is Síðasti Freaky Friday dagurinn hjá Gel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú bloggar ekki um þetta Jenný Anna

Ég fæ hverja rannsóknina á fætur annarri upp í hendurnar í dag.

Reyndar hef ég legið í rúminu fárveik en það bráir af mér á milli og þá kíki ég á Moggann, nema hvað?

Og nú eru það mennirnir sem velja konur sem líkjast mæðrum sínum og v.v.

Látum okkur nú sjá, hugs, hugs.

Ég með alla mína fjölmörgu og breytilegu eiginmenn get ekki skrifað upp á þetta.  Þeir líkjast pabba mínum ekki vitundarögn.

Tommy Lee úr Mötley Crüe sagði: Varið ykkur strákar og farið rólega í sakirnar þangað til þið eruð búnir að hitta mömmurnar.  Það er náttúrulögmál að dömurnar eiga eftir að stökkbreytast í þær einn daginn.

Ég spurði húsband hvort ég væri lík mömmu hans.

Hann: Lík mömmu, í útliti?  Þið eruð eins og svart og hvítt.

Ég: Nei í mér held ég?

Hann: Það veit ég ekki, af hverju?  Ég hef aldrei pælt í því.

Ég: (Að fiska eftir gullhömrum); Hvernig er ég öðruvísi en mamma þín?

Hann: Ég get ekkert svarað því, þú ert þú og hún ert hún.  Ekki frekar en ég get sagt þér muninn á þér og Díönu prinsessu, þið eruð einfaldlega sitthvor konan.  Það sem þér dettur í hug KONA.

(Þarna hefði ég getað bent mínum heittelskaða á nokkuð stóran mun á milli mín og Díönu, ég lifi en hún ekki, en ég fékk mig ekki til þess - fann að það var ekki stemmari fyrir því við hirðina).

Vá erfitt að koma samræðunum á strik hér, sama hvað ég reyni.

Ég:  Heldurðu að þú hafir gifst mér af því ég minnti þig á mömmu þína, það er sko rannsókn sem bendir til þess að það sé sollis.?

Hann: Jenný ertu að fíflast í mér?  Þið eruð tvær ólíkar manneskjur, ég elska ykkur báðar en ég get ekki borið ykkur saman, það er ekki RAUNSÆTT.

Og þegar hér var komið sögu þá rann upp fyrir mér ljós.

Húsband er alveg eins og pabbi.

Þeir eru með báðar lappir á jörðinni og hafa skotið þar rótum.

Og svo leit hann á mig og sagði:

Þú bloggar ekki um þetta samtal Jenný Anna.

Ég: Nei, nei, ég ætla að fara og blogga um smá pólitík bara.Whistling

Hann: Hmrpf!

Ég er mamma mín!

 


mbl.is Konur velja menn sem líkjast pabba þeirra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sökka í samböndum og gráta úr sér augun

Enn ein rannsóknin á undarlegheitum hefur litið dagsins ljós.

Nú eru það karlmennirnir sem eru með gen sem kemur í veg fyrir að þeir þori að binda sig.

Mennirnir með genið eiga erfiðara með að tengjast mökum sínum en þeir sem eru án gens.

Þetta er öflugt kvikindi sem gerir það að verkum að þeir sem það hafa sökka í samböndum.

Að sama skapi skilst mér að þeir sem eru með þessum ósköpum fæddir fari ekki í ástarsorg vegna þess að þeir eru svo tilfinningalega flatir.

Ástarsorg er vond, minnir mig, alveg ferlega svíðandi tilfinning en sam smá ljúf.

Þið kannist kannski við tilfinninguna þegar ykkur finnst sólin skína af algjöru tillitsleysi við ykkar skelfilegu líðan.  Gula fíflið sendir ykkur stórt fokkmerki og hlær ofan í bringuna á sér.

Og á meðan maður er í sárri ástarsorg þá fer fólk í vinnuna, kaupir í matinn, horfir á fréttir án þess að skenkja því þanka að þarna úti er manneskja sem ÞjÁIST.

Svo er það tónlistin.  Hún spilar stóra rullu í ástarsorginni.

Lögin sem ÞIÐ hlustuðuð á.  YKKAR lög.  Þú villt ekki heyra þau en auðvitað hefur útvarpsfjandinn og þeir sem þar stjórna lagt sig fram um að spila hvert einasta friggings lag sem hefur með ykkur tvö að gera.

Og við verðum sorgmædd þegar við komum á ákveðna staði.   Staði þar sem þið voruð saman.  Aljört búhúhú.

Ég var fyrir nokkuð löngu síðan í heví ástarsorg.  Ég og Svala Norðdal vinkona mín fórum í ferðalag sem var þegar upp var staðið, eitt af þeim skemmtilegri sem ég hef ratað í.

Þegar við keyrðum í gegnum Akureyri fór ég að gráta af því þar höfðum ég og þessi maður verið í rómans.

Svala vinkona mín þurfti að leggja sig alla fram við að hlægja ekki eins og bestía.

Það er auvitað hallærislegra en tárum taki að gráta sig gegnum Akureyti, þennan fallega bæ. En ég var BUGUÐ.  Hehe.

Ég þarf að blogga meira um svona ástarsorgir. 

Ástarsorgirnar eru svo skemmtilegar eftirá.

Og ekkert helvítis búhú með það.

Annars góð bara.

Later


mbl.is Verður hægt að forðast ástarsorg í framtíðinni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 2987831

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband