Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Í gargandi gír

 900

Dagur þverbrotinna prinsippa er senn á enda liðinn.  Hann var dásamlegur auðvitað og ævintýrin biðu eftir mér við hvert horn. 

Ég byrjaði og endaði í Hagkaup í Holtagörðum, eftir að hafa verið leidd burt í járnum eftir grun um mögulegan búðarþjófnað.  Ekki alveg, en nærri því.  Við tökum þetta í réttri röð.

Ég skveraði mig til, fór í hálæana, úr þeim aftur, speglaði, greiddi, málaði, skipti um kjól, fór úr honum aftur (búðarferð er biggdíl, þegar maður hefur varla farið út í viku vegna hita).  Ég sættist á dásamlegan kjól sem dró fram massaðan og fagurlimaðan líkamann.  Þegar ég gekk inn í verslunina, stoppuðu allir, hálsar snérust og það heyrðist hvíslað úr öllum áttum; þarna er hún, þarna er hún.  Nokkrir féllu í öngvit.

Ók, taka tvö.  Ég fór í Hagkaup með miða, verslaði eins og motherfucker, og á leiðinni út, pípti á mig í hliðinu.  Í fyrsta sinn á ævinni.  Mér fannst þetta spennandi, enda blásaklaus, til tilbreytingar, og ég spjallaði glaðlega við öryggisverðina sem höfðu nálgast mig ógnandi.  Sá ég glitta í gasbrúsa?  Ók, þetta var misskilningur, konurnar fóru yfir málið og báðu mig afsökunar.  Mér varð litið á húsband.  Hann var rauður í framan, svona vandræðalegur.  Þá rann upp fyrir mér að það er ekki sniðug hugmynd til félagslegs samneytis að láta taka sig á þjófapípinu.  Frrrrusssss!

Ég hundskaðist út í bíl.  Afskaplega glöð og ánægð.  Það fer ekki langri sögu af gleði eiginmannsins, en hva, ég skemmti mér.

En ég vildi bara segja ykkur að ég keypti mér stórar náttbuxur, örugglega í karladeildinni, ég veit það ekki, stórköflóttar og þær eru þægilegar.

En það er óþægilegt að ganga fram hjá spegli.  Mér bregður.  Ég garga.

Okí?

Cry me a river.

Líf mitt er vonderfúll.


Dulbúin auglýsing á Mogga - ekki kúl

Fjarskiptafélagið Nova er með auglýsingu á síðunni minni og ég sit uppi með það eins og aðrir Moggabloggarar, hvort sem mér líkar betur eða verr, nema að sjálfsögðu að ég greiði fyrir að hafa auglýsinguna úti.  Það dettur mér ekki í hug að gera og því er hún þarna og gargar á mig í hvert sinn sem ég fer inn á síður, á annars ágætu bloggsvæði Moggans.  Annars líð ég ekki beinlínis fyrir þetta, en þið vitið hvað ég meina.

En við misstum hana Betu Rónalds, vegna þessa.  Það er súrt. 

En halló Mogginn!  Það er ekki góð blaðamennska er það að skrifa "fréttir" sem eru ekkert annað en auglýsingar.

Þarna er ný gjaldskrá og fyrirkomulag símafélagsins tíundað í þessari mjög svo vafasömu frétt.

Ef Bónus lækkar verð á kjötfarsi eða gefur blöðrur, á ekki að birtast frétt um það, samkvæmt þessari hugmyndafræði?

Og ég blogga við fréttina.  Fíbbblið ég en ég get ekki stillt mig.

Mér finnst þetta alveg ferlega hallærislegt.

Nóva, Smóva, þið platið mig ekki.  Ég er hjá Hive.

Þessi færsla er í boði Vodafón.

Nei djók.

 


mbl.is Ekkert gjald fyrir símtöl innan kerfis Nova
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best í heimi hvað?

Frá og með morgundeginum verður einn sálfræðingur í starfi hjá Fangelsismálastofnun Ríkisins.  Þórarinn Hjaltason hættir og ekki hefur verið ráðið í starf hans.

Ég er hætt að botna í þessu andskotans fyrirkomulagi sem tröllríður þjóðfélaginu þessa dagana.  Ef eitthvað er ætti að fjölga sálfræðingum við fangelsin, auka þjónustuna við það fólk sem situr á bak við lás og slá.  Gefa fólki möguleika á að koma út sem betri einstaklingar. 

En þarna má eflaust spara.  Það er líka reynt að spara á hjúkrunarfræðingum á Lsp.  Það er farið í geitarhús að leita ullar.

Draumaþjóðfélagið mitt lítur aðeins öðruvísi út.  Það væri líka skemmtileg tilbreyting að sjá og heyra af heilbrigðisráðherra án þess að hann sé að flytja manni einhverja bömmera í tengslum við sparnað í heilbrigðiskerfinu, launadeilum og útboð á deildum.

Svei mér þá ef maðurinn er ekki "bad news". 

Ég er farin að fá fyrir hjartað í hvert skipti sem ég rekst á hann í fjölmiðlum. Alltaf verið að berjast við að draga saman það sem nú þegar stendur höllum fæti.

Það er aumingjalegt að hafa ekki efni á að reka almennilega heilbrigðisþjónustu og það er lágkúrulegt að reyna að hýrudraga það fólk sem heldur í okkur lífinu þegar við veikjumst.

Best í heimi hvað?

Nú eru hjúkrunarfræðingar að mestu leyti konur.

Hvernig yrði afgreiðslan ef læknar ættu í hlut.  Væru þeir á leiðinni út um miðnættið?

ARG


mbl.is Einn sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komasho

Gaman að þessu.  Bensín og díselolían að hækka.  Hva!  Nú verður væntanlega tuðpartí hjá öllum þeim sem eru búnir að andskotans út í mótmæli vörubílstjóranna.

Við erum merkilegir Íslendingar.  Hef sjálf tekið þátt í tuðinu þangað til ég var orðin blá í framan.

Samt hljóta allir að vita, a.m.k. gruna, að samtakamátturinn flytur fjöll.

Dæmi: Fjöldauppsagnir hjúkrunarfræðinga sem áttu að taka gildi 1. maí.  Aðgerðum frestað á elleftu stundu, en frestað samt.

Danir eru duglegir í að taka sig saman, finnist þeim þeir vera órétti beittir.  Frakkar líka og má þá nefna sem dæmi vörubílstjórana sem blokkera heilu þjóðvegina og almenningur fylgir þeim að málum, styður þá, enda grunar hinn almenna borgara kannski, að hagsmunir okkar, venjulegs fólks, hanga saman þegar allt kemur til alls.

Nú þegar bílstjórarnir hafa verið að mótmæla, þá bloggar hver beturvitringurinn á fætur öðrum um hversu helvíti böggandi þessir bílstjórar eru.

Sumir gefa góð ráð, sko þeir eiga að skilgreina sig betur, mótmæla þessu en ekki hinu og áfram og áfram.

Mikið skelfing er ég til í að mynda þrýstihóp til lækkunar matvæla.  Til styttingar biðlista á hinar ýmsu stofnanir og ég gæti endalaust talið upp.

En við byrjum á matarverðinu.

Einhver?


mbl.is Allir hækka bensínið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lóttódansinn stiginn - úje

Ég hef enga trú á happadrætti, lottói, lengjunni og hvað þetta heitir allt saman.  Á menningarheimili mínu hér á átakasvæðinu eru aðrir í því.  Þessi aðrirWhistling er reyndar alltaf jafn fullviss um að hann vinni, verður beinlínis hissa í hvert skipti sem hann stendur uppi á vinnings.  Hann er voða oft hissa. 

Stundum tek ég lottódansinn fyrir aðila heimilisins og skrensa á lokatónunum fyrir framan hans hátign og veina; Lottó 5/32.

Hann: Fyrir utan þá staðreynd að þú ert ekki í lagi villingurinn þinn, þá máttu öppdeita þig í lottólaginu, það er 38 ekki 32.

Ég: Skiptir ekki máli, það er listrænt gildi tónlistar og hreyfilistar sem er aðalatriðið hér.

Og ég held áfram að dansa.

Og nú er listrænum sköpunarmætti mínum alvarlega ógnað.  Hvernig í fjáranum á ég að syngja; Lottó 5/40?  Ekki hægt, vantar rythmann algjörlega.

Ef þessir sumir sem lotta eins og mófóar á heimilinu halda því áfram, þá...... já þá fer ég á söngnámskeið og syng hann brjálaðan á nótæm.

Það hlýtur að vera eitthvað annað sem hægt er að brenna upp peningana í.

Eða kveikja í þeim eftir hádegi á laugardögum.

Liff í því.

 


mbl.is Fjölga kúlunum í lottóvélinni úr 38 í 40 í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáa letrið

Ég skil ekki tryggingarfélög.  Er örugglega ekki ein um það, en það er sama.  Ég er ein af þeim sem nenni aldrei að lesa smáa letrið og er því þægilegur viðskiptavinur alls staðar þar sem gerðir eru samningar.

TM segir að skemmdirnar á bíl Sturlu séu ekki sitt mál.  Halló!  Bílinn stendur kyrr á löglegum stað og hann verður fyrir "óeirðum" og tryggingafélagið yppir bara öxlum.  Ísskápur springur bara eins og ekkert sé sjálfsagðara vestur í bæ og tryggingarnar borga það ekki heldur.

Þarf maður að kaupa ísskápasprengitryggingu?

Eða kjurrálöglegustæðiogbíllinnerskemmduróvartíóeirðumþannigtryggingu?

Þarf ég að liggja lárétt ef ég fæ bók í hausinn eða má ég vera standandi í báðar?

Verð ég að vera í kraftgallanum, með endurskinsmerki, lambhúshettu og eldingavara ef ég fæ loftstein í hausinn?

Ég held að ég fari og rýni í smáa letrið á tryggingarsamningnum.  Kannski þarf ég að kaupa mér óeirðatryggingu.

Helvítis óöryggi.

Gleðilegan mánudag addna.

Og Sturla var flottur á göngunni í dag.  Ætli maður verði ekki að fara að labba með manninum?

Einn fyrir alla - allir fyrir einn.

Nú brest ég á með söng.  Maístjarnan er vel við hæfi.


mbl.is Sturla: Ég berst fyrir ykkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímulaust lögregluríkið Ísland

[458290A.jpg]

Ég hef setið sem lömuð og horft á útsendingu RÚV frá mótmælum vörubílstjóra.

Að horfa á íslenskan lögreglumann, froðufellandi úr brjálæði, sprauta gasi á fólk og garga: Gas, gas, gas, er eitthvað sem ég hélt að ég ætti ekki eftir að upplifa.

Þarna féll gríma lögregluríkisins.  Það er ekki oft sem Íslendingar setja sig í þessa aðstöðu, þ.e. að kalla fram svona viðbrögð frá yfirvaldinu.

Ég vildi að mig væri að dreyma.

En hvar var Björn Bjarnason?

Æi hvernig læt ég, hershöfðingjarnir stjórna úr fílabeinsturninum.

Viðbjóður.

 


Fyrirgefið á meðan ég æli

Ég veðja mínum eðla afturenda, að nú situr Björn Bjarnason og hugsar:  Varalið, varalið! 

Löggan beitir táragasi á bílstjórana.

Fólkið grýtir lögregluna.

Þetta er auðvitað bara vatn á myllu þeirra (lesist BB) sem vijla berja fólk til hlýðni.

Ætli þetta sé áróðursbragð?

"Sjáið þið ástandið, við verðum að hafa varalið."

Fyrirgefið á meðan ég æli - lifur og lungum.

Skammastu þín Björn Bjarnason.

Sumir ættu að fara í frí, laaaangt frí.


mbl.is Lögregla beitir táragasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heja Sturla!!!

Ég stend með bílstjórunum, sko atvinnubílstjórunum í mótmælum þeirra.  Það þýðir ekki að ég hafa samúð með jeppaeigendum og öðrum bensín- og olíugleypum, sem spæna upp malbiki af fullkomnu virðingarleysi við umhverfið.

Nú er talað um að atvinnubílstjórarnir sæti gagnrýni, að fólk sé búið að fá nóg?  Það er ekki hár þolþröskuldur Íslendinga ef þeir eru búnir að fá nóg, án þess að hafa lyft litlafingri.

Ég er ekki á eldneytisfylleríi en heimilin í landinu eru að borga óheyrilega peninga fyrir eldsneyti, svo mér finnst góðra gjalda vert að einhver reyni að sporna við fótum.

Kannski er ég svona hrifin af bílstjórunum, vegna þess að það heyrir til undantekninga að Íslendingar geti tekið sig saman og risið upp á afturlappirnar, í hvaða samhengi sem er, í staðinn fyrir að lyppast niður og tauta og tuða inni á kaffistofum landsins.

Svo hélt ég að fréttaflutningur ætti að vera hlutlaus, þe. að segja að skýra frá atburðum líðandi stundar.  Því datt af mér andlitið í gær þegar fréttamaður Stöðvar 2 spurði Sturla Jónsson hvort honum fyndist við hæfi að mótmæla hvíldarreglum í návist manns sem tilheyrir þjóð sem hefur átt í áratuga baráttu upp á líf og dauða (orðalag mitt). 

Halló, eigum við að detta niður dauð vegna hins ljóta heims sem við lifum í.  Eigum við að láta eins og ekkert sé og yfir okkur ganga vegna þess að aðrir hafa það miklu verr en við.

Meiri andskotans ruglið.

Sturla og kó, when I´m with you, I´m with you!

Úje.


mbl.is Sturla: Verð ekki var við gagnrýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðingjarnir

 164071583_l

Systursonur minn er trommari í Morðingjunum, þeirri frábæru hljómsveit.

Þeir eru með húmorinn í lagi þessir strákar og nú feta þeir í fótspor Bubba, þ.e. neita að taka við íslensku krónunni sem greiðslu.

Er nokkuð betra greiðsluform til, þegar við erum evrulaus og allslaus, en fé á fæti?

Jóna systir tekur kannski að sér að sjá um hýruna fram á haust fyrir minn mann?

Morðingjarnir eru að gefa út nýja plötu og eru með tónleika á föstudagskvöldið í Iðnó.  Þar mun dilkur verða dreginn.

Gleði, gleði, gleði.

Launagreiðendur landsins hljóta að sjá nýja fleti á launamálum og stokka upp krónugreiðslurnar.  Það er hægt að greiða í kjöti, brauði, fiski og slátri, svo við ekki tölum um mjólkurvörur.  Afturhvarf til fortíðar er það sem koma skal.

 Íslenska krónan er dauð.  Morðingjarnir segja það.  Bubbi reyndar líka, en ég tek ekki mark á honum.  Hann er allt of yfirlýsingaglaður.

Ég gerist fisksali.

Það er one tuff motherfucking job.

Ýsa var það heillin.

Úje.


mbl.is Vilja fá borgað í dilkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband