Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Femínistablogg

Bölvaðir femínistarnir - allt þeim að kenna

Nú er ljóst að presturinn á Selfossi er grunaður um blygðunarsemisbrot.

Það er ágætt að hafa það á hreinu. 

En helvítis femínistarnir eiga hér fulla sök, hvernig fór.  Hvernig stúlkurnar túlkuðu "hlýju og knúsþörf" prestsins.  Það eru nefnilega femínistar sem hafa troðið inn í ungdóminn þeirri firru að bera virðingu fyrir sjálfum sér og láta ekki yfir sig ganga.   Lögmaður prestins er dedd á því að femmunum sé um að kenna.  Sjá hér.

Það má segja að í kvennabaráttu séu allar konur femínistar, samkvæmt þeirri skilgreiningu að vita að réttindi kvenna og karla eru ekki jöfn og vilja leiðrétta það.

Það má því kenna femínistum um margt.  Um að það er til Kvennaathvarf, Stígamót og fleiri samtök sem styðja þolendur ofbeldis.

Hvernig væri að gera fullorðinn karlmann á miðjum aldri, sem er í opinberu starfi, ábyrgan fyrir því sem hann gerir.

Hann segist vera hlýr og opinn.  Gott mál, en á hann ekki að þekkja mörkin?

Væri það ekki karlmannlegra að taka á sig ábyrgð heldur en beina sökinni að  kvennabaráttunni og þá að stúlkunum í leiðinni?

Stundum blöskrar mér svo að ég held og vona að mig sé að dreyma.

En það er ekki svo gott.

Í minni fjölskyldu væri þetta kallað bullandi útlimagleði hjá prestinum og honum bent á að leita sér aðstoðar.

 


Ofbeldi á konum - einkamál þeirra?

Það eru margar ástæður fyrir því að stúlkur kæra ekki nauðgun, enda eru það bara brot af nauðgunarmálum sem eru kærð. 

Dómar í nauðgunarmálum gera það svo að verkum að ég er ekki hissa..

Ástæðurnar geta verið eftirfarandi:

Konan þekkir gerandann, flestar nauðganir á Íslandi eru s.k. kunningjanauðganir.

Konan treystir sér ekki í kæruferlið og allt sem á eftir kemur.

Oft lætur saksóknari mál niður falla.

Konunni er stundum hótað.

En það nær auðvitað ekki nokkurri átt að þolendur nauðgunar skuli þurfa að kæra sjálfir til þess að obeldismaðurinn verði látinn svara til saka.  Annars fellur málið bara niður.  Þrátt fyrir að glæpurinn sé með sama refsiramma og morð.

Ef ég t.a.m. brýst inn í sjoppuna hérna við götuna mína, þá er það ekki undir sjoppueigandanum komið hvort ég verð kærð fyrir stuld og innbrot.

Það er ekki bíleigandinn sem ákveður hvort bílþjófurinn er ákærður fyrir að stela bílnum.

Meira að segja matarstuldur (hangikjötslærið í Hveragerði) fer fyrir dómstóla.

En ef kona er beitt heimilisofbeldi, kærir og dregur svo kæruna til baka, þá fellur málið yfirleitt niður.

Sama með nauðgunarmál.

Ofbeldi á konum er svona einkamál eitthvað.

Skrýtið?

Heldur betur andskotans kolruglað fyrirkomulag, ef ég á að segja meiningu mína, sem ég auðvitað hika ekki við að gera.

Dem, dem, dem.


mbl.is Stúlkan ætlar ekki að kæra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andskotans dómskerfi

Hvað geta Íslenskar konur gert til að vernda sjálfa sig þar sem dómskerfið hefur brugðist okkur algjörlega, með dómum sem eru svo skammarlega lágir að það væri hlægilegt, ef líf kvenna lægi ekki beinlínis við.

Fyrir eftirfarandi fær maður 8 mánaða dóm og þarf að sitja 3 þeirra í fangelsi:

Að hafa að kvöldi miðvikudagsins 27. apríl 2005, ráðist á konuna í svefnherbergi íbúðarinnar og dregið hana á hárinu úr rúmi sem hún sat í og ítrekað slegið hana með krepptum hnefa þar sem hún lá í gólfinu, með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli í baki, hálsi og í hársverði og mar yfir vinstri rasskinn.

Að hafa laust eftir miðnætti mánudagsins 20. febrúar 2006 ruðst í heimildarleysi inn á heimili konunnar og gripið í hár hennar og haldið henni fastri á meðan hann sló hana hnefahöggum í andlit og í bak, og svo sparkað í fætur hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og rispur á enni, þreifieymsli yfir á höfði og hálsvöðvum,  marbletti á hægri öxl og upphandlegg, mar á brjóstkassa og þreifieymsli undir rifjum.

Að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 23. mars 2006 ruðst í heimildarleysi inn á heimili konunnar og í svefnherbergi íbúðarinnar ráðist á hana með hnefahöggum í öxl og andlit, dregið hana á hárinu og sparkað í hana, og svo gripið um hönd hennar og snúið upp á hana, allt með þeim afleiðingum að hún var margrispuð í andliti, bólgin yfir vinstra kinnbeini og með eymsli á höfði, hún hlaut marbletti og bólgur á brjóstkassa vinstra megin og marblett á vinstri upphandlegg.

Dómstólar landsins hafa gefið út veiðileyfi á konur í þessu landi.

Dómsvaldið á ekki í neinum erfiðleikum með að dæma menn í fangelsi fyrir allt frá lifrapylsustuld og uppúr.  Það er fyrst þegar kemur að ofbeldi gegn konum, hvort sem um nauðganir eða líkamlegt ofbeldi er að ræða, sem þeir lenda í erfiðleikum.

Ef við miðum við önnur brot, er þá ofannefndur dómur, fyrir það sem upp er talið, í einhverju samræmi við dóma á öðrum hegningarlagabrotum?

Ég er orðin vænisjúk kannski, en hvað þarf til, til að hrista upp í þessu karlæga andskotans dómskerfi áður en það kostar einhverja okkar lífið?

Ég legg til að við konur í þessu landi förum að hittast og ráða ráðum okkar.

Eins og ég hef sagt áður, þá eru þessir dómstólar ekki fyrir okkur.

Við erum annars flokks.

ARG


mbl.is Átta mánuðir fyrir ítrekaðar líkamsárásir gagnvart fyrrverandi eiginkonu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fegurðin er fyrir austan og vestan

 

Það er vora og fegurðin liggur í náttúrunni og fólkinu. 

Fegurðin er líka í lýðræðinu, jafnréttinu, málfrelsinu og ferðafrelsinuWhistling fuglunum og væntanlegum gróðri.

Að vísu snjóar, andskotinn hafi það, en við búum á Íslandi.

Ég fann í mér vorið þegar ég las Moggann í morgun. 

"Two down five to go".  Fyrir austan finnst þeim meðalaldur fegurðarsamkeppna vera of lágur.

Svei mér þá ef umræðan um fegurðarsamkeppnir eru ekki bara að skila sér.

Það er liff í Vestfirðingum og Austfirðingum líka.

Ég ríf niður hattinn í virðingarskyni.

Farin að moka frá útidyrunum.

Súmí!


mbl.is Engin keppni um ungfrú Austurland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir í Vesturbæjarlaugina..

 

..kl. 17, 00 í dag þar sem Femínistafélagið mun mótmæla hlutgervingu kvenna með því að fara í sund, berar að ofan.

Þar sem ég er brjóstalaus nánast, veit ég ekki hvort ég get lagt til málstaðarins, "but I´ll be damned" ef ég tek ekki þátt.

Allar vinkonur mínar mæta, ungar og gamlar og nú er lag að gefa skít í graðnaglana sem vaða um göturnar á fullu flaggiW00t og líta á konur eins dúkkur og þaðan af verra.

Vona að allir mæti þó kominn sé fyrsti apríl og allir að borga og svona.

Vörubílstjórar, snæðið hjarta.

Toppið þetta.


Hvað finnst þér?

Um hana þessa?

eða þessa?

Er ekki alltaf verið að tala um að jafnrétti sé náð svona nokkurnveginn?

Allt í góðu, virðingin fyrir konum alveg á góðu róli og staða konunnar öll önnur nú á síðustu og bestu?

Jájá, sæl.

ARG

 


Fyrirgefið á meðan ég æli

Sumir eru þessa dagana á kreppuvaktinni og lesa og fylgjast með öllu sem sagt er um hræðilegt efnahagsástand.  Fólk verður þunglynt og óöruggt.  Ég held að kreppan verði fyrst alvarleg þegar hún hefur náð að menga hugarfarið og hafa áhrif á andlega líðan fólks. 

Mér líður sem sagt ekki mjög kreppulega.

En..

..ég las þessa frétt um uppsagnir bankamanna og ég verð að játa að mér dauðbrá, þó ég telji mig nokkuð meðvitaða um jafnréttismál, svona yfirleitt.

Hjá Byr er hreinskilnin höfð að leiðarljósi og ekkert gert til að fela napran raunveruleikann, eins og sjá má hér:

"Herdís Pála Pálsdóttir, mannauðsstjóri hjá Byr, segir að 14 konur hafi hætt störfum frá áramótum. „Það voru gerðir starfslokasamningar við flestar þeirra, ýmist að frumkvæði bankans eða þeirra sjálfra. Þetta voru konur á öllum aldri.“ Herdís segir frekari starfslok ekki fyrirsjáanleg."

Allir sem vilja vita eru meðvitaðir um að þegar harðnar á dalnum og farið er að spara og endurskipuleggja, eru konurnar látnar fjúka fyrst.  Það er hins vegar óvenjulegt að sjá það svona svart á hvítu.  14 konur hættar frá áramótum en greinilega enginn karlmaður.

Gott fólk, þið sem haldið að jafnrétti sé náð, farið að þjófstarta heilabúinu og hugsa hlutina upp á nýtt.

Hvaða andskotans tilgerð er það að kalla þann sem rekur og ræður hjá fyrirtækjum "mannauðsstjóra"?

Ég æli.

Annars góð.

Later!

Súmí

 


mbl.is Bankamönnum sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útaf með dómarana

Ég er loksins búin að opna augun.

Íslenskir dómstólar eru hvorki fyrir konur né börn.

Aftur og aftur sér maður dóma þar sem framið hefur verið alvarlegt ofbeldi á konum og börnum og ofbeldismaðurinn sleppur með nokkra mánaða fanglesi.

"Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt rúmlega fertugan karlmann í eins árs fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið, fyrir gróft ofbeldi og nauðgun gegn þáverandi unnustu sinni. Manninum var einnig gert að greiða konunni rúmlega 600 þúsund í skaðabætur og að greiða allan sakarkostnað."

Ég segi eins og Beta vinkona mín, að íslenskir dómstólar gæta ekki hagsmuna kvenna.  Þeir eru að gefa út veiðileyfi á konur með því að segja að það megi hálfdrepa okkur svona nánast án óþæginda fyrir glæpamennina.

Við stofnum á endanum okkar eigin dómstól.

Þannig er nú það.

Héðan í frá vænti ég einskis frá þessu batteríi.

ARG


mbl.is Dæmdur í fangelsi fyrir ofbeldi og kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju stelpur...

7

Með alþjóðlegan baráttudag kvenna.  Þetta verður bleikur dagur, sjokkbleikur alveg.

Nú á að nýta kvenorkuna, eins og Ingibjörg Sólrún segir réttilega í viðhengdri frétt.

Brettum upp ermarnar stelpur.

Þetta kemur, hægt og bítandi, en örugglega.

Njótið dagsins.


mbl.is Kvenorkan virkjuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heitir það nauðgun?

Árið var 1964, fallegt sumarkvöld í vesturbænum.  Tvær vinkonur, á 13. ári, gengu brosmildar niður götuna sína, á leið í barnapössun, hjá ungri konu, sem stundum bað þær um að gæta drengsins síns.  Það var svo fullorðinslegt að fá að vera einar að kvöldi til að heiman, og þeim leið eins og þær sigldu hraðbyri inn í unglingsárin. Þær voru áþekkar þessar stelpur, nema önnur var ljós en hin dökk.  Nærri því jafn stórar, eða smáar, allt eftir því hvernig á það er litið.

Þegar þær komu á áfangastað var mamman farin, yngri bróðir hennar var inni í herberginu sínu með tveimur vinum sínum og þeir voru að spila Rolling Stones.  Það var leyndarmál, en þær voru báðar laumuskotnar í einum af strákunum,þessum sem kallaði sig Hannes, þeim fannst hann allavega spennandi og nærri fullorðinn, hann var 15 ára.  Sá litli var sofnaður og þær settust inn í stofuna og biðu eftir að strákarnir færu út.

Þeir komu og buðu þeim upp á kók en voru allir skrýtnir í augunum og það var vond lykt af þeim. Já takk sagði sú dökkhærða, af því hún var hálf hrædd við þessa stráka sem hún þekkti samt svo vel.

Hana, sagði einn, súptu á.  Hún ætlaði að kasta upp, það var brennivín í kókinu.  Sú ljóshærða prufaði líka og stökk fram á klósett til að æla.

Það gerðist snögglega.  Sú dökka var tekin af þremur stórum strákum, þeir rifu niður um hana og Hannes sem hún hafði verið soldið skotin í fór á milli fóta hennar með alla höndina og djöflaðist þar og á meðan hlógu þeir allir og sögðu ógeðslega hluti. Hún var viss um að hann væri að rífa hana og slíta að innan.

Hún var svo hrædd.  Ætlaði þessi martröð aldrei að taka enda?  Hún fann svo til.  Hún lokaði augunum og fór aðeins út fyrir sjálfa sig og hlustaði á lagið sem var á spilaranum inni í herberginu. Let´s spend the night together. Aftur og  aftur.

Svo endaði það jafn skjótt og það hafði byrjað.  Þeir fóru.  Hún sá að hún lá í blóðpolli og vinkonan var farin.  Lengi sat hún í horni stofunnar, án þess að hræra legg eða lið, dró fæturnar bara upp og lagði höfuðið á hnjákollana.  Hún var ekki til, í langa stund.  Hún var bara sek, hún hafði verið skotin í honum, það hafði hann auðvitað séð langar leiðir.  Svona henti bara druslur.

Hægt og rólega reis hún á fætur, fór og reyndi að þrífa sig en það blæddi stöðugt.

Hún sat og beið komu mömmunnar, sem borgaði henni.

Pollurinn var sýnilegur á gólfinu og mamman sagði, svona byrjar þetta hjá okkur stelpunum en við erum aldrei undir það búnar.  Það liður mörg ár áður en sú dökka áttaði sig á því að hún var ekki að tala um atburðinn sem átt hafði sér stað.

Vinkonurnar minntust aldrei á þennan atburð einu einasta orði.  Skömmin var jafn mikil hjá báðum.

Í raun lá þessi saga í þagnargildi þangað til mörg,mörg ár voru liðin og þeirri dökku var ljóst að hún var ekki ein um þessa reynslu.

Allan þennan tíma hefur hún fylgst með Hannesi úr fjarlægð.  Ekki til neins svo sem, hún er enn að reyna að átta sig á að eitt sumarkvöld fyrir löngu, framdi hann sálarmorð á smástelpu sem hafði ekkert til unnið annað en að vera á röngum stað á röngum tíma.

Þetta er saga úr lífinu krakkar mínir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 11
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 2987142

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband