Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ekki dropi í tvö ár

Ég og fleiri alkar sem ég hef kynnst hafa á einhverjum tímapunkti áður en hundskast er í meðferð fengið þá brilljant hugmynd að flytja.  Bara taka sig upp og koma sér fyrir á nýjum stað, byrja nýtt líf.  Skilja vandamálin og vesenið eftir á gamla staðnum.

Sem betur fer kannski, hafði ég ekki orku til að framkvæma mikla flutninga nema í huganum, enda fárveikur alki á lokametrunum og þorði ekki út úr húsi, hvað þá heldur að ég hefði getað pakkað niður einni klósettrúllu svo ég tali ekki um heilli búslóð.

En á ákveðnum tímapunkti í neyslu virðist "aðflytjastábrott" ídean alveg frábær lausn.

Kallinn hennar Amy, pabbi hennar og Sarah Harding eru á því að Amy eigi að flytjast frá London og að það muni getað bjargað henni úr neyslunni.  Já sæl, sterk í blekkingunni.

Margir sem hafa flutt hafa sagt mér að þeir hafi verið búnir að finna neyslufélagana á nýja staðnum áður en þeir vissu hvar matvöruna var að finna.

Málið er að maður getur dröslast á heimsenda en maður er sjálfur með í för.  Það væri svo sem í lagi nema hvað að vandamálið er fyrirbærið sem maður sér í speglinum.  Allt eins gott að hanga heima, hringja upp á Vog og drífa sig í meðferð.  Það gerast engin kraftaverk meðan maður situr og vælir ofan í glasið eða hvað það nú er sem verið er að nota.

Það verða 2 ár um helgina síðan ég drakk áfengi síðast.  Ég átti þá eftir að fara í meðferð út af pillunum og það gerðist í október sama ár.  Æi þið sem lesið bloggið mitt vitið þá sögu alla.

En merkilegt hvað tíminn líður.  Ég er ennþá alveg svakalega þakklátur alki.

Mikið rosalega vildi ég að Amy Winehouse ásamt öllum hinum sem eru þarna úti í vondum málum sæju lífgjöfina sem felst í því að verða edrú.

Ég bíð og vona.

Lofjúgæs.

KISA TÝND, LESIÐ ÞETTA!


mbl.is Hvetur Amy til að flytja frá London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krúttmolinn Oliver

Ömmuhjartað missti slag þegar henni bárust nýjustu myndirnar af Oliver í London.

20080729175025_9

Ef þessi elska væri ekki að koma í ágúst legðist þessi amma í rúmið af söknuði.

Sama dag og Oliver kemur, þá koma Jenný Una og Lilleman til landsins frá Svíþjóð.

Elsta barnabarnið hann Jökull er í Króatíu (og nálægum löndum, afinn búinn að hendast yfir öll ínáanleg landamæri) og kemur á sunnudaginn.

Öll mín barnabörn í útlöndum.

Amman í rusli en hér koma nýjar myndir af Oliver teknar á leikskólanum.

20080729174445_2

Og nú bíður Amman spennt eftir að krúttmolinn komi til landsins.

Mamman kemur ekki, hún er að fara til Hong Kong á vegum vinnunnar.

Það verður ekki á allt kosið í heiminum.

Dæs og krúttkast.

20080729174534_3

 


"I love you to death"

domestic_violence6_1 

Mikið skelfing er ég ánægð með að til skuli vera meðferðarúrræði fyrir ofbeldismenn.  Meðferð sem er fyrir karla og veitt af körlum.  Nafnið er töff, "karlar til ábyrgðar.

Ég get hins vegar ekki verið alveg sammála skýringunni sem verkefnastjórinn gefur á heimilisofbeldi.  Að gerandinn sé hræddur við að missa þann sem honum þykir væntum og beiti þess vegna ofbeldi.

Ég hélt að þessi hugmyndafræði um að þeir sem hafi átt erfiða æsku geri þetta og hitt þess vegna væri dottin út enda vita gagnslaus að mínu mati.

Ofbeldismaður beitir ofbeldi af því hann hefur einhvers staðar á leiðinni tekið ákvörðun um að gera það.  Hann velur að beita ofbeldi í samskiptum inni á heimilinu í staðinn fyrir að beita eðlilegum úrlausnaleiðum og hann sér ofbeldi sem leið til að fá sínu framgengt og hafa hlutina eftir sínu höfði.

Málið er svona einfalt.  Algjör óþarfi að flækja það með hryllingssögum úr æsku.

Við alkar getum endalaust drukkið út á alls kyns harma frá því við komum í heiminn og fram til dags dato og auðvitað gerum við það áður en við erum tilbúnir til að taka á vandanum.   

En ég er á því að það sé algjört krapp og búllsjitt.  Nær væri að taka ábyrgðina á gjörðum sínum og taka á vandamálinu sem slíku.

Merkilegt með suma af þessum "örvæntingarfullu" konulemjara hvað þeir virðast samt hafa mikla stjórn. Konan er t.d. oft slegin víðs vegar um líkamann, en ekki þar sem sést.  Ofbeldismaðurinn beitir aldrei ofbeldi í öðrum samskiptum amk. í flestum tilfellum hefur það reynst svo.

Ég endurtek að mér finnst þessi hópur fínt framtak og það hefur svo sannarlega vantað meðferðarhópa og önnur úrræði fyrir þá sem beita ofbeldi heima hjá sér, ég er ekki að gera lítið úr því.

Málið er að flest okkar búa að sárri reynslu frá hinum ýmsu tímabilum í fortíð.  Spurningin er bara hvort við notum þá reynslu til að réttlæta vonda hegðun og til þess að geta viðhaldið henni ögn lengur.

En að því sögðu, þá óska ég körlum til hamingju með þetta framtak.

 


mbl.is Berja konurnar af örvæntingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af spíttrúminu og öðrum dóphúsgögnum

pull%20down%20bed%203 

Eftir að hafa sofið í lúxusrúmi hér á Leifs, svona betrabak fyrirkomulagi þá er eitt orðið ljóst.

Gamla hjónarúmið með neonljósunum og rekkverkinu verður ekki lengur notað af mér.

Fyrir liðlega tíu árum var spíttrúmið keypt eftir smáauglýsingu þegar við húsband vorum að byrja alvöru sambúð. 

Ég hef sagt ykkur frá téðu rúmi, með áföstum ljósum og hillusamstæðu, klósetti og innskotsborðum á við meðal tveggja herbergja íbúð.

Margar atlögur hef ég gert að rúmfjandanum, sem er svo ljótt að ég treysti mér ekki til að færa það í orð en ein elskuleg dóttir mín sagði við mig um daginn; mamma, nú skaltu hætta baráttunni við að losna við rúmið, það er svo ljótt, svo áttundi áratugurinn eitthvað að það fer að hrynja inn í Saltfélagið "anyday now".

Húsgögn á svipuðum aldri og rúmið eru kölluð spítthúsgögn á þessu heimili.  Minna á svona vodka í kók partý, slagsmál og kúfulla öskubakka.  Þið þekkið fílinginn.  Ég eyddi ekki löngum tíma í spíttpartíum en ég held að þau hafi farið fram í svona mubleríi.

En nú er húsband allur að koma til.  Hann nefnilega sefur eins og mófó í rúminu hennar Söru og Eriks.

Er allur eitthvað svo ungur og léttur á sér.

Ekki að hann sé gamall.  Ónei,

En þið ættuð að vita að rúm eins og okkar gerir manni hluti og einn af þeim er að maður yngist ekki rassgat enda ekki ætluð til eilífra nota hjá fólki sem helst aldrei vill skipta neinu út (á við suma ekki mig).

Farin að lúlla.

Újebb.


Ertu að segja að ég sé feit?

Ég eyddi stórum hluta ævi minnar í megrun.

Og þegar ég skrifa þetta þá virkar það gargandi fáránlegt vegna þess að fyrir utan bústímablilið (áður en ég fór í meðferð) þegar ég safnaði utan á mig dyrkkjulopa þá hef ég tæpast nokkurn tíma verið feit.

En þetta er að ganga í fjölskyldunni, við systurnar höfum verið með sjúklegan áhuga á kílóum, eða vorum lengi vel.

Allt var prófað.  Svelti, hvítvíns- og eggjakúrinn, Scarsdale, prins- og kókkúrinn.  Ég fékk ofboðsleg kikk út úr því að sauma ærlega að sjálfri mér.

Og fituhugsunin var alltaf til staðar.

Er ég feit í þessu, er rassinn á mér stór í þessum buxum, en maginn, en lærin, en, en, en?

Og svo komu yfirlýsingarnar þegar ég fékk fitumóral á leiðinni á ball. "Rosalega næs systur eitthvað að draga mig spikfeita með ykkur á ball!" varð að fleygri setningu í systrahópnum.

Hilma systir fór í öll föt ættarinnar áður en hún gat fundið út í hverju hún var MINNST feit í.  Það varð til þess að við komumst á ballið til þess eins að hitta fólk fyrir utan þegar hleypt var út, eða nánast.

Og dætur mínar erfðu áhugan. 

Maysan kom heim og spurði Söru hvort kexið væri búið.

Saran (bálill) ertu að segja að ég sé feit?W00t

Og svo voru það megrunarpillurnar sem ég grenjaði út úr heimilislækninum þegar ég bjó í Keflavík um árið.  Mirapront hétu þær.  Ég pilluætan tók einni meir en ráðlagður skammtur var (eða fleiri), svaf ekki, fékk sár á tunguna og allskonar.   Pillurnar voru læknaspítt.  Jájá.

En ég var aldrei ánægð,  því mér leið feitt.

Og ég gekk fram hjá spegli og gargaði upp; djöfull er ég ógeðslega feit.

Nú horfi ég stundum á gamlar myndir af grannri stúlku sem fannst hún feit og það hafði ekkert með kílóatölu að gera.

Og ég er alveg viss um að konur fara frekar í megrunarlyf en karlar.  Skilaboðin um hungurlúkkið eru skýr, alveg frá því að við erum smástelpur.

Farin í megrun.. sorrí meina sólbað.


mbl.is Fleiri konur en karlar nota megrunarlyf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varamenn með skapahár

Ókí, Nasa búin að fatta hvers vegna Norðurljósin bregða á leik.

Gott mál.

En ég heyrði af geimfara sem staðfastlega heldur því fram að geimverur séu til og að þessar upplýsingar séu stjórnvöldum í USA löngu ljósar.

Ég vissi að geimverur voru til um leið og ég sá þessa mynd.

 

 

 

Ég veit að maður á ekki að gera grín að útliti fólks, flestir ráða engu um hvernig guð leggur til gjafirnar, en þessi púkkar upp á sköpunarverkið með tilfæringum, væntanlega úr lærinu á sér og ég tel mér fullkomlega leyfilegt að æla, ef þið vilduð gjöra svo vel að bíða rétt á meðan.

Ég lagði það á mig að horfa á þennan þátt (Britain´s next top model) til að berja konuna augum og ég gat ekki fylgst með neinu nema vörunum á henni sem lifðu sjálfstæðu lífi og voru á leiðinni eitthvað í hvert skipti sem hún opnaði munninn. 

Svo var hún tæfuleg í dómum sínum, frekar köld og andstyggileg í stíl við varirnar.

Annars las ég um konu sem fór í varadjobb og byggingarefnið var tekið úr svæðinu nálægt Gunnu litlu.  Eftir nokkrar vikur fóru að vaxa skapahár úr vörunum.  Þetta er ekki flökkusaga heldur beinharður sannleikur.  Sá viðtal við konuna á sænskri sjónvarpsstöð og þátturinn hét því skemmtilega nafni Torg Hégómans (Fåfängans torg).

Ég vona að viðkomandi hafi tekið hintinu frá almættinu.

Ég hef hingað til ekki séð varaverk sem lítur út fyrir að vera annað en það er.  Sjálfstæðar varir sem passa ekki andlitinu.

Sjáið eina af mínum uppáhaldsleikkonum, hana Goldie Hawn.  Hún er varamanneskja eins og Huggy og fleiri fagrar konur.

Ég vil ekki vera varamaður, ég vil vera úrvalskona.

Og hafðið þið það aularnir ykkar.

Bloggað af Leifsgötu, á hundleiðinlega lappann hans Einars míns.

En það viðrar vel til mótmæla.

Kettlingurinn Núll var að gera mig brjálaða í nótt með því að leika sér að hárinu á mér.

En þessi mjallahvíti hnoðri er ungviði og mér er nokkuð hlýtt til þeirrar kategóríu og þess vegna lifir hún og er í góðu yfirlæti.


mbl.is NASA uppgötvar hvers vegna norðurljósin dansa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjófar og annað skítapakk

Ég er að flytja að heiman, bara sí svona.  Svona geta hlutirnir gerst.

Matarboðið sem ég var með fór nú ekki alveg eins og ætlað var.

Elsta dóttirin og sú yngsta ásamt fjölskyldum voru að koma í mat. (Týnda miðbarnið ásamt barnabarni og manni enn í London).

Helga Björk, Björn og Jökull mættu á svæðið.

Leifsgötufjölskyldan hringdi í ofboði.  Það var brotist inn í bílinn þeirra rétt á meðan þau brugðu sér inn að gera börnin klár fyrir boðið.

Veskinu hennar Söru var stolið og já bílinn var læstur og hún brá sér inn augnablik.  Hliðarrúðan á bílnum möskuð.

Og þau eru að fara í hálfsmánaðarferð til Svíþjóðar í nótt.  Skemmtilegt að lenda í svona.

Það er nokkurn veginn vitað hverjir voru að verki.  Það skiptir ekki máli, tilfinningin að láta skemma og eyðileggja fyrir sér er vond.

Þannig að nú flytjum við húsband okkur á Leifsgötuna. Og gætum óðalsins næstu tvær vikunnar.

Matarboðið var haldið án fórnarlambanna en af því við erum svo frábær hérna í upphæðum, þá fórum við með allan matseðilinn á Leifsgötuna og gáfum þessum elskum að borða.

Jenný Una sagði:  Amma, nú getir ég ekki sofað mjög lengi hjá ykkur.  Ég ætla að sofa hjá farmor och farfar.

Og svo sagði hún bless.

Litli tækifærissinninn.

Og ég mun blogga af vettvangi á morgun.

Úr glæpagötunni, og sumir mega vara sig.Devil

P.s. Flokkar maður innbrot og sollis undir "viðskipti og fjármál"?Halo

 


Af skýjuðum himni og afmælisbrönsj

20080708131933_3

 

Ég er ekki ein af þeim sem hríslast um í spennu bíðandi eftir að sjá veðurspá dagsins og oftast er ég nokkuð sátt við það veður sem er vegna þess að ég annað er einfaldlega ekki í boði.

En ég varð pínu glöð áðan þegar ég sá að það ætti að þykkna upp í dag.

Ég er nefnilega orðin eins og sólþurrkaður tómatur að utan og innan.

Aðallega að innan þó því að utan er ég nokkuð "indjánísk" í útliti eftir sólböðin undanfarið.  Það eru mínir frönsku duggaraættingjar sem skilið hafa eftir sig sporin í húðlitnum á mér.

Af því að ég er alin upp við árstíðir og snöggar veðrabreytingar þá fer mér að líða beinlínis illa ef sama veður helst of lengi í einu.  Í gærkvöldi eftir þennan sólríka dag var ég nauðandi í veðurguðinum um að svissa yfir í rigningu og auðvitað var ég bænheyrð.  Ég bið ykkur sóldýrkendur afsökunar.

 Elsta barnabarnið mitt hann Jökull Bjarki, verður 14 ára á morgun og við erum á leiðinni í brönsj hjá væntanlegu afmælisbarni á eftir.

Jökklinn minn er frábær drengur, fallegur og góður.  Svo er hann svo ári hæfileikaríkur drengurinn.

Hann var að klára I. stig í gítarnáminu sínu og brilleraði á prófunum í Hagaskóla. 

Ég er heppin kona í öllu tilliti.

Góð bara.

Later.

P.s. Ég bið ykkur að kíkja á þetta gott fólk.

 


mbl.is Þykknar upp vestantil í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Neðurblökum og karpúlettum

20080708133051_7 

Húsband hentist í búð til að ná í nýjar kartöflur í dag.  Hagkaup í Smáralind er fyrsta búð frá vinstri við mig og sjá, ekki ein einasta kartafla til af íslenskum uppruna.

Við grétum hástöfum enda elskum við þessar íslensku.

Auðvitað fór sendingin í Nóatún, nema hvað.

En hér er lítil stúlka í heimsókn.

Hún fékk stappaðar karpúlettur með smjöri og salti (Maldon) eins og svo oft áður, að borða.  Hún tilkynnti mér að hún elskaði saltið mitt, það væri mikið betra en heima hjá henni.

Barn elskar alla hluti þessa dagana.

Einar er drátthagur maður og stundum biður hún hann um að "tattúa" sig og þá teiknar hann á handlegginn allskyns fígúrur og flottheit.

En nú var hann að vinna.  Barn bað ömmuna um að "tattúa".

Og amman tattúaði leðurblöku með grænum penna.

Barn: Þa vantar augun.

Amman teiknaði þau og krúsídúllaði leðurblökuna svolítið.  Barn virti fyrir sér listaverkið nokkuð glöð á svip og sagði svo:

Amma; ég elska N-eðurblökur.

Ég ætla ekki að segja ykkur í hvers lags kasti ég er núna.

En þið megið geta ykkur til.

Annars sefur hún í litla rúminu sínu og það rétt glittir í hana fyrir tuskudýrastóðinu sem hún raðaði í kringum sig áðan.

Jájá.

P.s. Myndina tók mamma hennar um daginn þegar Jenný mótmælti því kröftuglega að fá ekki að sofna í rúmi foreldranna og lagðist á gófið - og sofnaði.


mbl.is Íslenskar kartöflur í verslanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jú sko, ég tala líka tungumál"

 20080708123046_6

Mér þykir vænt um rigninguna.  Mér finnst svo notalegt að liggja og lesa þegar regnið lemur gluggana og ég sef aldrei betur.

En..

Ég kærði mig ekkert um rigningu í gær þegar við vorum á Leifsgötunni.  Ég og húsband ætluðum að dvelja í garðinum með börnin, fylla plastlaugina hennar Jennýjar og gera okkur lífið auðvelt og gleðilegt.  Lífið varð auðvitað gleðilegt en ekki úti í garði. 

Jenný Una sem er vön því að gista hjá okkur en ekki við hjá henni, var snögg að sjá út ástandið.  Mamman ekki á staðnum, ekki pabbinn heldur og með sinni þriggja ára útsjónarsemi sá hún í hendi sinni að nú gæti hún gert flest það sem hana langaði til.

Hún byrjaði á því að ganga að skápnum í gærmorgun til að ná sér í prinsessukjól (hún er nefnilega alltaf prinsessa þessa dagana).  Hún tók einn af jólakjólunum út úr skápnum, rautt flauelsdæmi með silkiborðum og ásaumuðum rósum og ákvað að í hann skyldi hún fara.  Amman sagði að hún ætti svo marga fallega sumarkjóla, hvort hún vildi ekki frekar fara í þá.

Jenný Una: Nei amma, mamma mín sagði í gær að ég átti að fara í þennan kjól (forstokkuð).

Amman: Þú ert ekki að skrökva að mér Jenný mín?

Jenný: Nebb, mamma mín sagði það og það er alleg satt.  Alleg pottþétt. (Aldrei heyrt hana nota pottþétt, krúttkastið var upp á mikið á krúttmælinum).

Og svo fór hún í jóladressinu með Einari að kaupa "laufardagsnammi" og söng fyrir hann sænskar barnavísur og sagði honum allt sem hún gerði í gær, þegar hún var stór og að mamma hennar segði ALLTAF nei við öllu. 

Löngu seinna sama dag eftir miklar krúttsenur hjá þeim systkinum, þar sem köttur kom líka við sögu, vorum við að spjalla saman.

Jenný: Einu sinni þegar ég var lítil í gær, þá var ég stór og mamma mín var lítil og hún hét bara pínulitla Sara.  Þá var hún að krota á veggina og ég skammaði hana mjög mikið.

Ég: Er það?  Var mamma þín óþekk?

Jenný: Já hún var mjög óþekk og krítaði stóran vegg.  Og þá sagði ég í gær við mömmu; "elskan mín, þetta gengur ekki upp, þú færð aldrei meira nammi, það er alls ekki í boði barn".

Stundum veit ég ekki hvaðan þessi skotta kemur.  Hún talar eins og gömul kona, sogar að sér orð og frasa og endurtekur þá og notar þegar hún sviðsetur lífið.

Ég sagði mömmu hennar í gær áður en við héldum heim að Jenný hefði skammað dúkkurnar með því að segja reiðilegri röddu;

"Eeelskan mín érbúin að segja þetta FJÓRUM sinnum.  Hlýddu núna skrass".

Mamman sagðist ætla að breyta orðavali, svo barnið fengi meiru úr að moða næst þegar hún skammar hana.

Allt fyrir málþroskann.

P.s. Og ett svo ég gleymi því ekki, af því þroskinn er svo ör að ég hef varla við að skrá það.

Jenný: Amma ég tala íslensku, sænsku og ensku (veit ekki með enskuna hehe, en hitt er mikið rétt) og meira.

Amman: Hvað meira Jenný mín?

Jenný (hugsi):  Jú sko ég tala líka tungumál.InLove

Need I say more?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband