Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Og það er að bresta á..

 

..með jólunum.  Í dag hafa starfsmenn Orkuveitunnar verið að setja upp jólaljósin í miðbænum.  Úff, ég verð alveg mössí-mössí.  Merkilegt hvað ég er jólavæmin alltaf.

Hér var Jenný Una Eriksdóttir í opinberri heimsókn í dag.  Hún, eins og amman er svolítið jólaspennt.  Það endaði með að við fórum í geymsluna og náðum í smá jóladót.  Bara pínu-pínulítið, eins og hún sjálf sagði.

Í dag sagði barn eftirtalda hluti, m.a.:

Amma, syngdu kerrrti og spil og blessuð jólin. (Þetta er u.þ.b. eina mannveran sem biður mig að syngja fyrir sig, ég lýt höfði auðmjúklega til jarðar, djúpt snortin af þakklæti).

Amma, ég veit það ekki baun. (Sagt þegar amman spurði um skóna hennar)

Ér feimin, hættu Einarr! (Jenný Una hefur ruglast eitthvað og heldur að feimin þýði að vera í fýlu, hér fylgdi svipur þar sem barn setti í brýnnar).

Amma, ég verr a fá súkkula, ég mjög, mjög veik.W00t

Aðspurð hvað hún vilji í jólagjöf stóð ekki á svari: É vil pakka.

Gleðileg jól, en það eru 43 dagar til jóla.

GMG!

Halelúja!

P.s. Á myndinni er fröken Jenný Una Eriksdóttir, Ásamt honum Franlíkn Mána Addnarsyni, sem nú um stundir er góður vinur hennar.


mbl.is Jólaljósin sett upp í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá Londres í beinni eða nánast!

Amma-Brynja er búin að senda mér myndir frá London, útskriftinni og fleiru sem var að gerast í þessari merkisviku, þegar Maysa lenti á spjallinu við Simon Cowell og Robbi útskrifaðist.

Gjörsvovel!

1IMG_3527

Robbinn útskrifast og er hér í mastersdressinu, með Brynju og Maysunni.

IMG_3582IMG_3605

Eintóm hamingja hjá Maysu og Robba annarsvegar og hjá ömmu-Brynju og Oliver hinsvegar.

IMG_3619508

Mays á leiðinni út að borða hvar hún hitti Simon og Oliver að hlusta, gagntekinn af spenningi.

Þessar myndir eru sum sé beint frá London, þ.e. rétt farnar að kólna.

Síjúgæs.

Úje.


Dóttir mín hittir Simon Cowell

(Sorrí Maysa, þessi mynd er of góð, til að fleiri fái ekki að njóta hennar og fyrirgefðu að mamma þín skuli skúbba Cowell dæminu og splattera á bloggið sitt.)

McCartney fjölskyldan er að þvælast fyrir mér og mínum endalaust og botnlaust í einhverri mynd.

Ég get ekki opnað blað, eða netmiðil öðruvísi en að fá ítarlegar fréttir af Paul, Heather, Stellu og Beatrice McCartney.  Paul sem á með réttu að tilheyra gærdeginum (Yesterday) heldur áfram að poppa upp vegna samskiptaörðugleika og almenns hjarðeðlis.

McCartney sást kyssa harðgifta konu í vikunni, hann er nýbúinn að hanga með Reneé Selwegger og þeirri þriðju sem ég man ekki hver er.  Rólegur á neðri helmingnum kallinn minn.

Maysa dóttir mín fór út að borða með Robba sínum (hann var að útskrifast í gær) og Brynju tengdó, á einn af flottari stöðum Lundúnaborgar.  McCartney var ekki með í för.

Maysan var í kjól frá Stellu McCartney, (sagði ég ekki, þessi familía er allsstaðar) þegar hún hitti Simon Cowell sem kynnti hana fyrir einhverjum mönnum sem hann var með og slúðurblaðadrottningunni henni dóttur minni fannst hún hafa dottið í lukkupottinn, af því karlinn er svo skemmtilegur og mikill dúllurass. Ég mun ekki segja frá frekari samskiptum dóttur minnar og fjölskyldu, við þennan fræga mann, nema greiðsla komi til.

Annars sagði Amma-Brynja að Cowellinn hafi blikkað Maríu grimmt á meðan hann talaði við hana, hún sagði hins vegar ekki orð um að McCartney hafi verið á svæðinu.

Ég spyr; Brynja Nordquist, hvar var MYNDAVÉLIN?

Píslofandhappíness!

Úje

 


mbl.is Kossaflens á Paul McCartney
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inn og út um gluggann

 1

Nú er það fréttaefni að tvær stúlkur reyndu að komast inn á skemmtistað í Eyjum af þaki hússins.  Ég gæti sagt ykkur sögur en þær eru vart prenthæfar.

Ungt fólk er að stórum hluta alltaf eins, kynslóð eftir kynslóð.  Þ.e. ævintýraþráin og forvitnin er til staðar, birtingarmynd þessara sömu þátta er þó mismunandi.

Ég var sko enginn fyrirmyndar unglingur.  Flippaði út á gelgjunni og var stöðugt áhyggjuefni í fjölskyldu minni til langs tíma.  Ég var atvinnuflóttamaður á þessum árum, þ.e. það mátti ekki opna hurð, þá var ég stokkin.

Einu sinni tróð ég mér inn um örlitla gluggaboru á skemmtistaðnum Las Vegas á gamlaárskvöld árið 1969, að ég held (já tilbreyting, því venjulega notaði ég glugga til útgöngu).  Glugginn er þarna ennþá og ef ég á leið hjá, virði ég hann fyrir mér og hugsa:  Mikið rosalega hefur mig langað mikið inn á ballið.  Ég hef greinilega viljað hætta öllu til, lífi og limum meðtöldum, en það tókst og ég man ekki betur en að ég hafi skemmt mér konunglega.  Merkilegt samt að muna það ekki, nógu mikilvægt var það þarna í mómentinu.

Þess vegna brosi ég í kampinn, þegar ég les svona frásagnir.  Ekki af því að mér finnist svona hegðun neitt sérstaklega til eftirbreytni, auðvitað ekki, en ég hef verið þarna.  Nákvæmlega þarna.  En svo merkilegt sem það nú er, þá stóðu stelpurnar mínar ekki í svona veseni.  Þar var sagt beint út hvað stóð til, ég jáaði eða neiaði, svo var málið dautt.  Kannski einkenndust seinni tímar af meiri tolerans gagnvart ungu fólki, ég veit það ekki.

Alla vega vinka ég þessum stelpum í huganum.

Við erum þjáningarsystur þær og égWhistling

Æmlúkkingátðevindó!!

Úje


mbl.is Reyndu að komast inn á skemmtistað af þaki hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég endurheimti sjálfa mig og loka á dónana

 1

Langt óvissuferli sem byrjaði síðsumars er nú á enda hjá mér og ég því í þolanlegum málum heilsufarslega.  Þannig að nú er því máli skutlað út um gluggann og ég fer núna í skreyta og baka fyrir jólin, eða þannig.

Í dag hef ég haft allt á hornum mér, enda dauðþreytt eftir bæði eitt og annað sem ekki verður farið nánar út í hér.  Sem betur fer er ég snögg að ná úr mér pirringnum, a.m.k. að því marki að ég hætti að vera umhverfi mínu hættuleg vegna hávaðamengunar.

Nú hef ég fengið styrkinn minn til baka og það felur í sér bæði eitt og annað.

Undanfarið hef ég fengið nokkuð af persónulegu skítkasti inn í athugasemdakerfið mitt, oftast frá einhverjum óskráðum dónum úti í bæ og ég stóð mig að því að velkjast í vafa um hvort ég ætti að leyfa þeim að standa, svo ég yrði nú ekki sökuð um ólýðræðislega framkomu á blogginu.  Ég hugsaði þetta til enda í dag þar sem ég lá í keng í rúminu (svo dramó) og komst að kórréttri niðurstöðu.  Þeir sem eru með dónaskap og sóðaskap inni á minni síðu, verður kastað út og lokað á ip-tölur þeirra  og það geri ég með mikilli gleði.  Hvað var ég að pæla?  Ég hefði seint trúað því upp á sjálfa mig að ég léti einhverja nafnleysingja út í bæ hafa áhrif á líðan mína.  Hm... en lengi má greinilega manninn reyna.Devil

Saran mín kom með Jenný Unu Eriksdóttur, til að létta lund ömmunnar í kvöld og það hljóp heldur betur á snærið hjá konunni mér. Þegar við vorum að lesa fyrir svefninn bað Jenný mig að syngja um hana Grýlu "aþþí hún er svo skemmtileg og líka tomtegubbarna (sænskir jólasveinar)".  Nú sefur lítil stúlka í gulum náttfötum í prinsessurúminu sínu, ömmunni og Einari til mikillar gleði.  Pabbi hennar sækir hana svo í fyrramálið og fer með hana á leikskólann.

Everything is back to normal.

Úje!


13 mánaða snúra - ójá

95

Nú er það snúruafmæli einn ganginn enn.  Næst síðasta snúra ársins.  Það er ekkert öðruvísi.  Fyrir þrettán mánuðum síðan fór ég á Vog og eftir að af mér rann hefur bara verið gaman að lifa.

Ekki misskilja mig, ég er ekki að halda því fram að ég hafi lifað við lúðrablástur og endorfínrús upp á dag, alls ekki.  Sumir dagar eru minna betri en aðrir, en ég get tekist á við þá og skakklappast yfir hindranirnar, sem er byltingarkennd breyting, frá því fyrir meðferð.

Eftir því sem allsgáði tíminn minn lengist finnst mér ég styrkjast örlítið á hverjum degi, það er mér nóg, einn dag í senn.´

Annars er ég að snúrast þetta þegar ég á að vera farin að sofa í hausinn á mér.  Ég er að deyja úr hungri því ég hef verið á fljótandi fæði í allan dag, út af rannsókn sem ég fer í á morgun.  Ég lifi alveg af sko, að geta ekki borðað fyrr en eftir hádegi á morgun, en mig langar svo til að vera með smá fórnarlambstakta að kvöldi dags.

Nú ætlar þessi óvirki alki, sem er ekki einu sinni líftryggingarhæfur (búhú, vorkenna, vorkenna) að silast í rúmið og velta sér þar upp úr miklum hörmum sínum.

Sjáumst á morgun elskurnar.

Ég fer edrú að sofa á eftir.

En þið? (Hljóp í mig einhver Júdas þarna).

Nigthy,

Úje!


Í dag..

 

..hef ég böðlast áfram eins og bilaður valtari í maníu.  Mér hefur tekist að gera eftirfarandi:

Færa mig frá tölvustól í sófa, frá sófa í eldhússtól, úr eldhússtól í annan eldhússtól osfrv.

Jenný Una er hér en hún hefur verið mikið á ferðinni um húsið, á tveimur jafnfljótum.

Eitthvað fannst henni amma sín vera í latari laginu og hún tók háfa kókflösku sem stóð á borðinu og hellti úr henni "alleg óart" á gólfið.  Svo sagði sú stutta: Amma það er bleyta á gólfinu, þú verrur að þvo hann (gólfann sko).

Þegar ég var búin að því benti hún mér á að vindurinn væri kominn í trén og við yrðum að fylgjast með honum.  Hann er stundum smá reiður en bara "pínupínulítð".

Nú syngur hún hástöfum um "Pippi Långstrump" á meðan hún hoppar ofan á Einari þar sem hann liggur á sófanum.

Ræktin hvað.

Er farin að elda, öruggast að halda sig við efnið hérna.

Úje. 

P.s. Skelli hérna inn einni trommumynd af barninu til skemmtunar.


Kannski er kominn tími til að ljúga..

..fyrir óvirka alka sem hyggjast kaupa sér líftryggingu, því svo virðist sem fordómar fortíðar séu alls ráðandi, varðandi sjúkdóminn alkóhólisma hjá tryggingarfélögunum.

Ég er ekki talsmaður þess að fólk fari í felur með að það hafi leitað sér lækninga við alkóhólisma, enda væri þá síðan mín ekki til, en mín edrúmennska var einn aðalhvatinn að því að ég fór að blogga, og ég er alveg sannfærð um að sú ákvörðun var rétt, þrátt fyrir að enn séu bullandi fordómar í gangi, gagnvart fíknisjúkdómum.  Það voru vægast sagt, skiptar skoðanir um hvort það væri viturlegt að leggja þessar upplýsingar á borð fyrir alþjóð (þó þynnst hafi töluvert í kórnum, eftir því sem liðið hefur á) en fyrir mig er það grundvallarprinsipp að fara ekki í felur með sjálfa mig, nógu mikið læðupokaðist ég, á meðan ég var virkur alki.  Eins gott að ég er ekki á leiðinni í lífatryggingarkaup.  Ansi hrædd um að það væri búið að smella í lás, ÁÐUR en ég kæmist inn um aðaldyrnar.

Ari Matt hjá SÁÁ staðfestir þessa nöturlegu staðreynd í viðtengdri frétt.  Annað hvort fá óvirkir alkar ekki tryggingu eða þurfa að greiða hærra líftryggingargjald en aðrir. "Ef þú ert alkóhólisti sem hefur farið í meðferð, þá borgarðu hærra gjald og átt erfiðara með að kaupa líftryggingu en alkóhólisti sem enn drekkur," segir Ari.  Þarna liggur í raun hvatning til fólks að segja ekki frá því að það hafi farið í meðferð og sé edrú. 

Talsmaður tryggingafélaga segir að þrjú ár þurfi að líða frá meðferð þar til alkahólisti getur fengið tryggingu.  Að öllu jöfnu eru upplýsingar frá tryggingarkaupanda látnar nægja en ef um alka er að ræða er farið fram á læknisskoðun.  Það er þá eins gott að fólk drepist ekki á meðan það bíður.

Þetta eru auðvitað bullandi fordómar og ekkert annað.  Fólk sem er svo heiðarlegt að skrá upplýsingar um meðferð á umsókn, er látið gjalda fyrir það.  

Það eru kannski fordómar í mér, en ég held að tryggingafélögin hefðu ekki slæmt að því að fá eins og einn helgarkúrs um alkahólisma hjá SÁÁ.  Þeir myndu sennilega græða töluvert á því og það sem meira er um vert, fá tækifæri til að hoppa inn í nútímann og losa sig við helling af tímaskekkju viðhorfum í leiðinni.

Gleymdi einu, þegar ég skrifaði pistilinn og bæti því við hér.

Við hverju er að búast í viðhorfum til fíknisjúkdóma, þegar samfélagið sér ekkert athugavert að láta meðferð á fársjúku fólki, bæði andlega og líkamlega, í hendurnar á trúfélögum? 

19. öldin hvað?

Ójá.

 


mbl.is Óvirkir alkar fá ekki tryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búhú - fyrir svefninn

Ég er lasin, með hita og það gerir mig auma.  Í kvöld er ég búin að vera með hugann hjá honum Oliver mínum í London og ég vorkenndi mér heilmikið, þar sem líkurnar á að ég sjái hann fyrr en um jól, minnka og minnka með hverjum deginum.

Oliver er fallegasti smádrengurinn í heiminum og hann er tveggja ára síðan í maí.  Algjör ömmusnúður.

Hvað gerir amma, sem er á barnabarnsblús?  Jú hún liggur yfir myndum og engist um í krúttkasti.  Ég deili með mér dýrðinni, þið bloggvinir og aðrir gestir.

Þarna er piltur með fluffuhúfuna hennar ömmu-Brynju og djóksvipinn hennar mömmu sinnar. OMG

Og þarna er maður sofnaður í hausinn á sér með Teddý, besta í heimi.

Góða nótt elskurnar.

Takk fyrir í dag.

Later!


Tíska í jólum, tíska í kjólum

 1

Það eru nákvæmlega 53 dagar til jóla.  Teljarinn minn segir það.  Það er ofboðslega huggulegt að vera með jólateljara á síðunni, þá getur maður tekið statusinn á hátíðinni allan ársins hring. 

Hvað um það.  Samkvæmt manninum í jólahúsinu fyrir norðan, er afa og ömmu jólaskraut það sem blívur í ár.  Allt annað hlýtur þá að vera hallærislegt, samkvæmt tískulögmálinu.  Gærdagurinn gamlar fréttir.

Ég hló illkvittnislega, þegar ég las þetta um jólaskrautstískuna árið 2006.  Ég veit ekki hvort þið munið það, en í fyrra voru allir sem vildu tolla í skreytingatískunni með svart jólaskraut.  Ég hef sjaldan séð það ljótara.  Ég fór í banka daginn fyrir Þorláksmessu og hélt að það hefði kviknað í jólagreininni sem hékk fyrir ofan hausinn á gjaldkeranum.   Ég leit í kringum mig í bankanum og sjá, allt lókalið var löðrandi í brunarústajólatrjám. Við eftirgrennslan fékk ég að vita að skreytingameistari bankans hafi valið tískuþema ársins, svart.  Svo jóló eitthvað.  Það sem fær mig til að krimta af Þórðargleði er tilhugsunin um alla jólatískunördanna sem sitja uppi með viðbrennda jólaskrautið sitt síðan í fyrra, lalalala.

 Jólakjólarnir verða svartir í ár.  Brunarústir þar, en það er í lagi.  Ef einhver ætlar að segja ykkur annað um kjólana sko, ekki hlusta, hér er það ég sem legg línurnar.

Gleðilega hátíð.

Úje


mbl.is Leitað að jólaskrauti afa og ömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 2987760

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.