Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Talað í kross - jólakross

 

Það verður ekki annað sagt en að ég sé upptekin af jólunum.  Þetta jaðrar auðvitað við að vera bilun, en mér finnst það skemmtilegt, það huggar mig og gefur mér helling, þannig að enginn skaði er skeður.

Eða?

Húsbandið heldur því fram að ég sé í annarlegu ástandi í desember. Blákalt.

Ég alveg; nei, nei hvaða vitleysa, en heyrðu viltu kaupa jólaseríu á leiðinni heim?

Hann: Viltu muna eftir að hringja í sóandsó og fá reiknisnúmer út af sóandó?

Ég: hafðu hana hvíta, eins og þessa í stofunni. Og reykelsi, keyptu reykelsi.

Hann: Ég var búinn að lofa þessu í fyrramálið.... ha hvíta hvað, um hvað ertu að tala?

Ég seríuna, hvað er þetta maður, hlustarðu aldrei á mig?

Hann: Ætlarðu að gera þetta fyrir mig?

Ég: Um hvað ertu að tala?

Hann: Arg..

Ég: þú ert í annarlegu ástandi maður, í desember skoWhistling

Falalala

 


Sorg og gleði

Miðað við hvernig þessi dagur hefur verið hjá mér, þá hljóta allir dagar sem á eftir koma að verða fínir.  Þessi var sem sagt ómögulegur.

En nú er hann búinn. Tjékk.

Þessi tími ársins er alltaf svolítið erfiður þ.e. fram yfir 4. desember, sem er dánardægur litla barnabarnsins míns hans Arons, sonar hennar Maysu minnar.

En lífið heldur áfram.  Ég er snögg að ná mér upp.

Ég talaði við yndislega vinkonu mína áðan og mér leið strax betur, fékk að blása út.  Takk elsku bestaHeart

Mamma mín hún Anna Björg er 79. ára í dag (3. des.).  Hún er besta mamma í heimi auðvitað og ég var að hugsa um hversu heppin ég er að eiga mömmu eins og hana.  Konan er megakrútt með hjarta úr gulli. 

Til hamingju mamma mín og á morgun kíki ég til þín og knúsa þig í kremju.

Svo kemur eitt yndislegt jólalag til ykkar frá mér, í boði hússins.

Góða nóttina dúllurnar mínar.

Falala....

 

 


Stökkbreyting í eldhúsi - og linkur á hana Betu sem allir ættu að lesa!

 

Ég hef stökkbreyst.

Ég var töffari, sem bakaði ekki, var sjaldan heima, vasaðist í annarra manna málum (sem var vinna mín lengi vel, en samt), og fannst fyrir neðan virðingu mína að setja upp svuntu og að halda á sleif.  Þetta var að sjálfsögðu innræting mín á sjálfri mér sem átti rætur að rekja til Rauðsokkutímabilsins.  Núna set ég rauða sokka í jólalegt samhengi, þó áfram slái hjarta mitt með kvennabaráttunni.

Í dag hef ég jólast.

Ég hef bakað.

Ég hef eldað.

Ég hef þrifið.

Ég hef verslað..

..og ég hef eytt yndislegum tíma með Jenný Unu Eriksdóttur, sem ég fékk náðarsamlegast að láni frá foreldrunum.

Að ofansögðu má sjá að edrúlífið gerir róttækar breytingar á hegðunarmynstri konu í eldhúsi.

Samtal fyrir svefn:

Jenný: Amma, þa erekki til jólasveinar.

Amman: (í rusli, barn ekki orðið þriggja ára), nú er það ekki Jenný mín?

Jenný: (ákveðin), nebb, bara í aulýsingum.W00t

Amman: Eru þeir ekki á fjöllunum hjá henni Grýlu mömmu sinni?

Jenný: Nebb, GÍLA étti þá í morgunmatinn sinn og hún á ekki rammagnstannburstaW00t (Barn nýbúið að fá einn slíkan og gripurinn það dýrmætasta sem hún á nú um stundir).

Amman: Nú skulum við syngja Fyrr var oft í koti kátt og svo ferðu að lúlla.

Jenný: Nei amma, ekki syngja, þa er ekki fallegt.

Búhú, þar fór eini aðdáandi minn í söngdeildinni fyrir lítið.

Lofjúgæs!

Nú sefur litla prinsessan mín í rúminu sínu með hönd undir kinn og í fyrramálið verða jólasveinarnir aftur til, það er nefnilega svo gaman að spila með hana ömmu.

Var að lesa frábæra færslu frá henni Betu Ronaldsóttur, sem ég hvet flesta til að lesa.  Gæti kennt mörgum eitthvað og sumum hellingHér.


Magga Pála og börnin

Magga Pála, höfundur Hjallastefnunnar er að fá barnamenningarverðlaunin.

Mikið rosalega er þessi töffari, sem mér þykir reyndar persónulega ákaflega vænt um, vel að þessum verðlaunum komin.

Ég er á því að Magga Pála hafi fundið þá bestu uppeldisstefnu sem völ er á, fram að þessu.

Ég sé ekki marga toppa kjéddlluna.

Og í vor fer hún Jenný Una Eriksdóttir á einn af leikskólunum þessarar frábæru konu.

Engum treysti ég betur til að sjá um afkomendur mína.

Til hamingju Magga Pála!

Úje.


Kom, sá og sigraði!

1

Gurrí Har bloggvinkona okkar allra, kom sá og sigraði í Útsvarinu.  Hún og aðstoðarmenn hennar (DJÓK) tóku Hafnarfjarðargengið með miklum yfirburðum.

Okokok, reyni aftur.  Þau unnu með nokkurra stiga mun, Skagamennirnir og takast á við Ísafjörð.  Þar sem Ólína bloggvinkona okkar allra, er innanborðs.

Allsstaðar eru þessir bloggarar.  Það er ekki svo þáttur sýndur í sjónvarpi, að stjórnendur og a.m.k. einn þátttakandi séu ekki ofurbloggarar og því sem næst.

Annars finnst mér Útsvarið ekki skemmtilegt, nema ef vera skyldi látbragðsleikurinn.  En í kvöld stóð ég með mínu fólki, ekki það að ég hafi nokkurn skapaðan hlut með Akranes að gera, nema fyrir ágæta vini mína sem þar búa.

Annars rétt held ég haus vegna ógeðispestarinnar sem hrjáir mig og það er beinlínis sársaukafullt að reyna að Haffa Kaman.  En ég reyni, það verður að virða mér til vorkunnar.

Á morgun ætla ég að jólast, þó ég þurfi að gera það úr sjúkrarúminu, hálfdauð úr sótthita.

Á sunnudag bökum við heima hjá frumburði og trylltar mannætur munu ekki aftra mér frá því að mæta.  Jafnvel þó það kosti mig lífið.

Dramadrottning hvað?

Skreytum hús með greinum grænum, falalalala.....


Búhú-færsla

 p

Þessi dagur ætti með réttu að vera föstudagurinn 13. eða eitthvað.

Það er enginn endir á hörmungum mínum í þessu lífi.

Ég er veik, er með hita og beinverki og hausverkurinn við gagnaugun er ólýsanlega skemmtilegt afbrigði af þessari tegund fyrirkomulags.

Djö.. sem ég á bágt.

Mér er kallt, ég er bitur og beiskCool.

Hvað hef ég gert heiminum?

Farin að lúlla.

Blóm og kransar.

Cry me a river hvað?

Annars bara góð.

Úje


Alkajól

 

Jól og alkahólismi eru eitruð blanda.

Sem betur fer var ég ekki orðin fyllibytta þegar stelpurnar mínar voru litlar.

Ég hef sloppið fyrir horn í jólahaldinu undanfarin ár, þ.e. áður en ég fór í meðferð, en bara rétt svo.

Í hitteðfyrra, þ.e. síðustu jólin sem ég var virk, var ég svo heppin að fá lungna- og barkabólgu.  Ég lá hálfdauð í rúminu yfir jólin, sem kom sér ákaflega vel, því ég var orðin langt leidd af drykkju og hefði átt verulega erfitt með að standa mig í því hlutverki sem ég hef ásamkað mér á jólum.

Læknirinn var svo elskulegur að segja mér að ég gæti smitað og þar með var komin pottþétt afsökun fyrir lok, lok og læs.  Ískápurinn var auðvitað úttroðin af dýrindis hráefnum til matargerðar en hva, það var sett á bið.

Bið sem í raun varði þar til ég fór í meðferð á nýju ári, seint á nýju ári.

Það er ekki eins og maður hafi verið eitthvað jólaskraut, ónei.

Ekki par jólaleg hún Jenný Anna þarna í restina.

En í fyrra og núna gegnir öðru máli.

Þetta er snúra, já jólasnúra.

Falalalalalalala!


An occasional beer

 60

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að ég er óvirkur alki, og þannig vil ég hafa það.  Reglulega er ég spurð af fólki hvort ég telji að þessi eða hinn sé alki, það er hringt í mig vegna þess að aðstandendur hafa áhyggjur af einhverjum í fjölskyldunni og fólk vill bera áhyggjur sínar undir mig.  Ég skil það vel, en ég get ekki dæmt um hver er alkahólisti og hver ekki.  Það er ekki í mínu valdi, enda þó maður greinist með sjúkdóm, þá gerir það mann ekki að sérfræðing í greininni.  Yfirleitt vísa ég fólki á SÁÁ með sínar spurningar. 

Það sem skiptir máli er auðvitað alkinn sjálfur, hvort hann er búinn að ganga sína leið á enda og horfist í augu við ástandið sem blasir hvarvetna við, er búið að gera lengi og er öllum sjáanlegt nema honum.

Afneitunin er merkilegt og magnað fyrirbrigði.  Ég ætti að vita það.  Ári áður en ég fór í meðferð var ég lögð inn á sjúkrahús, dauðveik með ónýtt bris, þar sem ég var stödd í sumarfríi í fjarlægu landi.  Ein af dætrum mínum kom til að standa vaktina yfir móður sinni á móti eiginmanni.  Úff þetta er erfitt stöff.

Læknirinn var fljótur að reikna út vandamálið, brisið, ástand á mér og svona og þar sem hún, ásamt húsbandi og dóttur stóðu við sjúkrabeð hins forstokkaða alka, átti sér eftirfarandi samtal sér stað:

Læknir: You drink much?

Alkinn: No I can´t say I do, probably like most people (W00t)

Læknir: What do you drink?

Alkinn: A little red now and then and an occasional beer!!!! (Hvað segist um ca. 8 á dag?)

Heimspressan var því miður ekki á staðnum til að verða vitni að þessari stund sannleikans á Spáni, en hefði svipur dóttur minnar og manns náðst á mynd, hefði vantrúarsvipur þeirra verið algjörlega ekta.

Tek fram að mér fannst ég alls ekki vera að segja ósatt.  Það er hægt að búllsjitta sig að því marki að maður trúir bullinu í sjálfu sér, allt til að geta haldið áfram að drekka.

Þetta var erfitt en þema vikunnar hjá mér, er sjálfsblekkingin og mér er hollast að muna hvernig fyrir mér var komið.

Svo bið ég almættið í góðri samvinnu við sjálfa mig að halda mér edrú, einn dag í einu, svo ég meiði mína nánustu aldrei meir.

..og þá er það frá en þetta var snúra dagsins.


Frunsur og brotnar neglur!

 

Frost í dag víðast hvar.  Já, já, segið mér fréttir.

Ég vaknaði fyrir allar aldir með Jenný Unu Eriksdóttur, og hárið á mér hefur verið límt við andlitið á mér síðan.  Ég get ekki snert nokkurn skapaðan hlut án þess að fá straum.  Mér er kallt.

Það myndi toppa ástandið á þessum frostkalda degi ef ég fengi frunsur og brotnar neglur.

Toppurinn á tilverunni.

Annars bara góð.

Góðann daginn.

Læt fylgja með eina mynd af Jenný Unu þegar hún var pínulítil og hafði stolist upp á borð.

Krútt.


mbl.is Víða talsvert frost í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drasl dagsins

Ég er svo þreytt að ég stend varla í lappir.  Hvoruga.  Dreg ýsur en það er það lengsta sem ég kemst þegar fiskur er annars vegar þessa dagana.  Kjöt, kjöt, kjöt, alltaf kjöt.  Ég vissi að ég myndi ekki höndla það að fara að heiman, strax við tvítugt, en ég lét gossa og velti mér upp úr syndsamlegum steikum hvern dag.  Hefði betur verið heima fram að þrítugu og látið foreldra mína ljúka uppeldinu.  Við erum mis fljót til þroska.

Hér hafa mublur verið bornar inn og út.  Öllu drasli sem ekki er bráðnauðsynlegt hefur verið hent.  Hér er ekki arða af óþarfa innan veggja, nema auðvitað undirrituð.  Minimalisminn orðinn algjör á heimilinu, nánast búin að ná hámarki, en því er náð, skv. Ibbu vinkonu minni, þegar við þurfum að ná í ausuna niður í kjallara.

Ég er búin að setja upp jólagardínur í eldhúsi, óróa og gyðingaljós.  Ég er svo líbó.

Eldaði góðan mat.

Jenný er í heimsókn.

Ég grét af sorg yfir lögunum í Laugardagslaginu.  Er þetta það besta sem við höfum upp á að bjóða? GMG:

Nóg um það.  Er farin að laga te.  Svo er það lúll.

Úje.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2987757

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.