Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Tölvur og tækni

KYNLÍF - KYNLÍF, ENN OG AFTUR KYNLÍF

22

Kynlíf selur og telur á blogginu sem og annars staðar.   Ellý Ármanns er að sprengja teljarann á vinsældarlistanum með sínum kvenlegu Bósasögum.  Í Mogganum í dag er grein um að steinaldarmenn hafi lifað fjörugu kynlífi.  Hm.. þurfti að rannsaka það?  Bölvaðir frummennirnir héldu kynlífsþræla og það segir mér að heimurinn hefur lítið breyst.  Það er einnig talað um að það hafi verið af praktískri þörf að einkvæni komst á. 

Annars hélt ég að skrif um kynlíf væru ekki svona rosalega biggdíl á þessum upplýstu tímum.  Það er einhver Tígulgosastemming í gangi.  Allir voða spenntir ef einhver laumar smá sexi í færslunar.  Þess blautari sem textinn er þess meiri áhugi. 

Ætla ekki að gerast kynlífstextahöfundur.  Ég læt aðra um það.

Súmí!


SIÐMENNTUÐ AFSTAÐA

22

Siðmennt vill að trúfélög fái heimild til að gefa saman samkynhneigð pör.  Þeir hafa gefið út fréttatilkynningu þar sem þeir ítreka þá afstöðu sína.  Mér finnst þetta ofur flott hjá þeim en ég sé ekki alveg hverju þetta breytir varðandi hjónaband samkynhneigðra innan þjóðkirkjunnar.

Annars er það sama við hvern maður talar þessa dagana, allir eru æfir yfir niðurstöðu kirkjuþings. Það er sorglegt þegar kirkjan sem við fæðumst inn í er á skjön við vilja stórs hluta þjóðarinnar.

Það er ekki til neins að skrifa og tala meira um þennan ógjörning á s.l. kirkjuþingi.  Það eina sem við getum gert til að lýsa vanþóknun okkar á þessum mannréttindabrotum er að ganga úr kirkjunni og þeir sem vilja heyra til einhvers staðar geta auðvitað látið skrá sig í Siðmennt.  Eða Fríkirkjuna, eða Ásatrúarfélagið, eða Krossinn (segi sonna).

 

 


mbl.is Trúfélög fái heimild til að gefa saman samkynhneigð pör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LISTI II EITUR Í BEINUM VIÐAUKI

 22

Ég fann það út þegar ég skrifaði eiturbeinalistann í gær að ég væri smásmuguleg kona sem gæti látið ótrúlegustu hluti fara í taugarnar á sér.  Ég fékk svo skemmtileg viðbrögð frá gestum þessa fjölmiðils að ég sætti mig við vankantana og hugsaði með mér að ég gæti játað það fyrir sjálfri mér og öðrum að þetta væri bara rétt yfirborðið af pirrandi þáttum í lífi mínu.   Það eru alveg ótrúlega margir hlutir sem geta gert mig ergilega þegar grannt er skoðað án þess þó að þvælast mikið fyrir mér svona dags daglega.  Hér koma nokkur atriði í viðbót.

1. Þegar fólk kallar flokka eftir listabókstöfum með x-i fyrir framan.  Segir að XD og XF séu sí og svo en XS, XV eða XF séu svona eða hinsegin.  Maður setur X fyrir framan listabókstafinn.  Flokkarnir heita ekki X-eitthvað.  Arggghhhhh

2.  Þegar sumir karlmenn (oft eldri menn núorðið) eru í svörtum dralonsokkum með hnökri og þegar buxurnar kippast upp þegar þeir setjast má  sjá í náföla leggi með löngum svörtum hárum.  Þá langar mig að.... segekkimeir.

3. Þegar síminn er búinn að þegja allan daginn og maður ákveður að fara í bað.  Kveikir á reykelsi og kertum og hendir sér ofan í baðið.  Liggur marflatur í góðum fíling og síminn hringir!  Ég verð að svara í símann.  Ég gæti annars misst af einhverju.

 4. Þegar maður er að horfa á geðveikt góða bíómynd og er alveg inni í myndinni og allt í einu tekur maður eftir því að atriðið úti á götu er bara leikið án statista og allir eru að glápa á leikarana.  Algjört turnoff.

5. Fólk sem veður að manni í rúminu (vonandi alltaf einhverjir sem eiga fullan rétt á að vera á svæðinu) þar sem maður sefur værum svefni og gargar í umhyggjusömum tón: "Ertu sofandi?"

6. Þegar maður er að máta föt inni í klefa í fatabúð og er búin að strippa niður í næstum ekki neitt og þá sviptir afgreiðslustúlka á prósentum tjaldinu frá þannig að ALLIR sem nálægir eru sjá mann náið og spyr vingjarnlega:  "Ætlarðu ekki að máta"?

7. Og talandi um mátunarklefa.  Ég hef ekki enn komið inn í þann mátunarklefa (og er þó CV-ið í fatakaupum mínum orðið æði umfangsmikið) þar sem það vantar ekki amk. 5 cm upp á að tjaldið passi fyrir klefann báðum megin.  Sko skekkja upp á 10 cm. alveg pottþétt.

8. Stofnanir sem tíma ekki að uppdeita símsvarann og það er sama hvort þú hringir á mánudegi þegar allt er opið eða um helgar til að athuga með opnunartíma eða eitthvað að sagt er á símsvaranum í mjög sannfærandi tón: "Allir þjónustufulltrúar eru uppteknir í augnablikinu þú ert nr. 10 í röðinni.  Jafnvel þótt ekki sé kjaftur í vinnunni, allir upp í bústað eða eitthvað og er skítsama þótt þú bíðir vongóður eftir að það komi að þér.

9. Þegar maður rekst á draumaflíkina á herðatrénu í fatabúðinni mátar hana og fellur í trans af hamingju, þrælar sér með blóðbragðið í munninum upp að afgreiðsluborðinu stynur "éætlafáetta" á innsoginu og færð svarið: "Því miður þetta er sýniseintak og er ekki til sölu, varan er uppseld í bili".

10. Þegar maður situr í tómum strætó og inn kemur einhver deli, illa lyktandi kannski, jafnvel fullur eða eitthvað og hlammar sér niður við hliðina á manni í þröngt tveggja manna sætið þar sem nándin við viðkomandi verður gargandi óþægileg og allir halda að þetta sé maðurinn manns eða eitthvað.  Sko allir sem eru nottla alltaf að fylgjast með fáum hræðunum í strætó.  Mikið af sollis fólki.

Nú kemur www.betaer.blog.is  til með að segja að ég sé pirruð.  Iss nei Beta mín það er svo gott fyrir óvirka alka að hella pirringnum út á cypertómið og viðurkenna um leið vanmátt sinn til að hafa stjórn á pirringi vegna smámuna.

SíjúgæsHeart


SVO LEIÐINLEGT..

22

..að þetta skuli hafa komið fyrir sagði Valgerður Sverrisdóttir í Silfri Egils í dag þegar verið var að ræða Impregilo málið og aðstæðurnar á Kárahnjúkum.  Mér finnst Valgerður reyndar töff kona og ég held ekki að hún hafi ekki ætlað sér að láta þetta álit sitt hljóma eins og um einangrað "slysatilfelli" hafi verið að ræða.  En þetta sagði hún samt.

Það hafa allir sem hafa kært sig um, vitað lengi að þarna fer fram ill meðferð á verkafólki og þar hafa verið margbrotin lög á því, bæði í launamálum, almennnum aðbúnaði og fleiru.  Þetta er eins og Ögmundur sagði réttilega í þættinum "svartur blettur á ríkisstjórninni".  Impregilo eru sökudólgarnir, þeir eru bófarnir í atvinnulífinu og fara ekki eftir þeim lögum og reglum sem hér gilda varðandi verkafólk.  Meira að segja stjórnendur fyrirtækissins hafa dregið í land með "rétt" sinn að fá prívat sjúkraskýrslur í hendurnar og gerðu hinum íslenska talsmanni Impregilo skömm til. Líklegast hafa þeir áttað sig á að frekari hroki væri fyrirtækinu ekki til framdráttar.

Allir fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem þarna sátu hörmuðu að sjálfsögðu þennan hroða sem þarna gerðist.  Slysatíðnin hefur verið óeðlilega há þarna, matareitranir, eiturgufurnar í göngunum og Guð má vita hvað fleira þetta alræmda fyrirtæki er ábyrgt fyrir.

Annars var það staðfest enn og aftur þarna í Silfrinu í dag að það kemst ekki hnífurinn á milli stjórnarflokkanna.  Það litla sem ég sá af Guðlaugi Þór var þegar hann var að mæla upp vitleysuna í Framsókn.

Vinstri græn hafa farið fram á opinbera rannsókn á öllum málefnum Impregilo hér á landi.  Í ljósi þess sem gerst hefur er það sjálfsögð og eðlileg krafa.  Ég er viss um að íslendingar vilja ekki láta koma svona fram við fólk.

P.s. Myndin sem fylgir pistlinum er af eitruðu kvikindi.  Mér fannst það svo passandi eitthvað.


LISTI I - EITUR Í MÍNUM BEINUM

45

Ég er alltaf að sjá lista út um allt yfir alls konar hluti sem fólk elskar og hatar og hatar að elska.  Þetta er kannski ekki svo vitlaust að búa til lista yfir gott og vont.  Ég ætla að reyna og byrja á því sem er eitur í mínum beinum.

1. Köngulær í öllum stærðum, gerðum og útliti megi þær vera eitraðar eður ei.  Ég missi mig einfaldlega þegar ég sé þær, verð eins og fíbbl og haga mér eins og örviti.

2. Borðtuskur sem hafa verið notaðar lengi, lengi án þvottar.  Ég hef hvergi rekist á þessar illjaþefjandi bakteríunýlendur í tugi ára en ég átti tvær vinkonur þegar ég var stelpa og heima hjá þeim voru tuskurnar notaðar í tilfallandi verkefni frá gólfi til lofts í öllum vistarverum.  Ég berst við að muna ekki eftir lyktinni en hún er í sýsteminu og komin til að vera. Vitið þið hvernig mjólk í bómull lyktar eftir að hafa legið í sólbaði á eldhúsborðinu skamma hríð?

3. Fólk sem situr og talar við tvær manneskjur samtímis, horfir bara á aðra þeirra en hin situr vandræðaleg, reynir að vera áhugasöm og hluti af samræðufyrirkomulaginu en sá sem talar sér bara þann sem hann byrjaði að negla augun í.  Dæmi um þetta: Ómar Ragnarsson í viðtali við formenn flokkana og hann startaði á föstudagskvöldið.  Sigmar og Brynja töluðu við hann en Ómar hafði neglt sig á Simma og þar tókst honum að ríghalda augnkontakt nánast frá byrjun til enda.

4. Karlkyns fæðingarlæknar sem beygja sig niður að konu í barnsnauð þegar hún veinar af sársauka og segir óþolinmóður: "Svona kona, þetta er ekki svona sárt".  Hann nottla búinn að fæða sjálfur heila örbirgð svona prívat og persónulega og talar af reynslu.  Fæðingar hans hafa farið fram í gegnum lestur bóka í læknanáminu.

5. Fólk sem grípur inn í ef maður er að bisa við eitthvað og segir "ég skal gera þetta" og týnir eða skemmir það sem maður var að reyna að laga/breyta/skrúfa/negla/bora/hræra/skrifa osfrv.

6. Vörur í Stórmarkaðnum sem eru í efstu og næstefstu hillu og enginn stigi á staðnum.  Er ætlast til að maður kaupi þær eða eru þær til skrauts?

7. Jólalög sem voru einu sinni sumarlög í útlöndum (Bjöggi með ítölsku lögin t.d.).  Andstyggilegasta dæmið er "litla jólabarn" eða "lille sommerfugl".

8. Fólk sem er rosa pirrað en heldur því í sér og spyr mann bjánaspurningar.  Maður finnur geðveikina sem ólgar í viðkomandi fer í dálitla vörn, röddin hækkar smá og maður flýtir sér rosalega að svara og þá segir sá pirraði með ýkt trylltri röddu "af hverju ertu svona ROSALEGA pirruð?". ARG

9. Þegar maður missir eitthvað úti í roki, það fýkur og maður hleypur og er að ná því og alltaf á því stigi, alltaf sko, þá fýkur dótið lengra.  Getur tekið tímana tíu.

10. Þegar fólk horfir á mann skera af sér puttann við salatgerðina, blóðið fossar og skvettist upp um alla veggi og beinir orðum sínum til manns þar sem maður liggur nær dauða en lífi úr sársauka  "meiddirðu þig?".

Klóraði smá í yfirborðið.  Soldið gaman svona sérstaklega að kvöldi til þegar maður á að fara að sofa að rifja upp svona skemmtilegheit.  Blóðþrýstingur og sykur upp úr öllu valdi.  Hjartað í yfirvinnu og slagæðin á hálsinum hamast eins og stórfljót og hún sést utanfrá sem btw er eitt af því sem er eitur í mínum beinum.

Gúddnæt!


SNEMMA BEYGÐIST KRÓKURINN

22

Var í einsemd minni að glugga í bók í kvöld sem inniheldur sögur af gyðjum og konum.  Þar var ég að lesa um tunglgyðjurnar þar sem bent er á að tunglið hafi alveg sérstaka þýðingu í gyðjusögunum. Kvartilaskipti tunglsins líkjast bæði tíðahring konunnar og hinum þremur aldursskeiðum hennar (nýtt tungl táknar meyjuna, fullt tungl hina þroskuðu konu og minnkandi tungl er tákn hinnar vitru konu sem er þá ég ofkorse). 

Ég rakst á þessa gömlu þjóðsögu á sanskrít um sköpunina á konu og manni í áðurnefndri bók og þar fékkst tvennt á hreint.  Við vitum núna hvaðan "you can´t live with them, you can´t live without them" er sennilega komið og að það hefur loðað svolítið við karlmenn gengum tíðina að reyna að skila sinni heittelskuðu heim til föðurhúsanna eins og gallaðri vöru séu þær ekki almennilega til lags.

"Þegar skaparinn skapaði manninn skapaði hann um leið konuna úr bogalínum tunglsins, lipurð eðlunnar, léttleika laufanna, gráti skýjanna, grimmd tígursins, mjúkum yl eldsins, kulda snævarins og blaðri skrækskaðans.  Síðan gaf hann karlmanninum hana.  Á þriðja degi kom maðurinn til Drottins allsherjar og sagði: "Þessi kona sem þú gafst mér blaðrar í sífellu, hún lætur mig aldrei í friði, krefst mikillar athygli, tekur allan tíma minn, grætur út af engu og gerir aldrei neitt.  Taktu hana aftur".  Drottinn gerði það.  En skömmu síðar kom maðurinn aftur og sagði: "Hún var vön að dansa og syngja fyrir mig, hún sendi mér svo fallegt augaráð og hún naut þess að leika sér, hún þrýsti sér að mér þegar hún var hrædd, hlátur hennar var eins og tónlist og hún var svo falleg.  Láttu mig fá hana aftur".  Drottinn gerði það.  Á þriðja degi kom maðurinn aftur með konuna og bað Drottinn að eiga hana.  "Nei" sagði hann "þú getur ekki lifað með henni og ekki án hennar þú verður að ráða fram úr þessu sjálfur"."

Hm... gæti hafa gerst í gær "eller hur"?

LofjúgæsHeart

P.s. Smá hugleiðing eftir að ég las þjóðsöguna.  Sko þetta er upphaf mannsins.  Guð skapar manninn og svo konuna og gefur karlinum konuna síðan að gjöf.  Fékk konan ekkert?


SVO KRÚTTLEGT EITTHVAÐ!

22

Svo dúllulegur gjörningur niðri við Tjörn í dag.  List án landamæra.  Það þarf bara 1000 sálir til að dekka hringinn í kringum Tjörnina. 


mbl.is Tekið höndum saman umhverfis Tjörnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SVONA FÓR UM SJÓFERÐ ÞÁ

22

Í dag ætlaði ég í heimsókn í konsningamiðstöð VG og ég ætlaði að kjósa.  Hvorugt gerði ég en það er út af því að ég þekki of mikið af skemmtilegu fólki sem er alltaf heimsækjandi mig í tíma og ótíma (Wink).  Ég var að passa Jenny í nótt og við fórum út á róló í morgun og lékum okkur í vorinu og Jenny sagði mér að hún væri alltaf glöð og að maður ætti alltaf að skiptast á.  Ég þekki marga sem mættu taka sér félagsþroska þessa tveggja ára barns sér til fyrirmyndar.  Hún knúsaði mig líka í morgun þegar hún vaknaði af því henni finnst svo gaman að það skuli alltaf renna upp nýr dagur og þegar ég þakkaði henni fyrir sagði hún mér að hún væri "umsyggjusöm".  Barnið stefnir fullum fetum í að verða gangandi stefnuskrá vinstri-grænna. 

Nú að gestunum.  Hér var fólk í stríðum straumum í dag.  Sænski tengdasonur minn hann Erik pabbi Jenny að ná í hana.  Helga dóttir mín og Jökull barnabarn, þrjár vinkonur sem komu allar í einu og fylltu út í eldhúsið með fyrirferðarmikilli nærveru sinni (ég meina andlegri fyrirferð, er ekki að segja að þær séu feitar) og gerðu það að verkum að ég fór ekki lönd né strönd.  Rosalega pírí að vera svona vinsæll.  Þær eru hins vegar líka örlítið skemmtilegar.  En bara örlítið. 

Það sem gerði þennan dag þolanlegan var að gestirnir voru Vinstri-grænir og Samfylkingarfólk.  Þannig að það myndaðist smá kosningastemming í eldhúsinu en við greiddum ekki atkvæði. 

Enginn úr Framsókn kom í heimsókn frekar en alla aðra daga og ekki neinir Sjálfstæðismenn heldur. Mamma og pabbi voru í Kolaportinu.

Hef ekki kynnst neinum í Ómarsflokki og ekki heldur neinum nema elskunni henni Ásthildi úr Frjálslynda og hún komst því miður ekki.

 


VG PLÚS NÍU

8

Það er svo sannarlega byr í seglum vinstri manna þessa dagana.  Samkvæmt nýrri könnun sem Capacaent gerði fyrir Mbl. og Ríkisútvarpið er VG og SF með jafnmikið fylgi eða 21,2%.  Þetta segir þó ekki alla söguna.  Ef þetta væri staðan þegar talið væri upp úr kjörkössum bættu VG við sig níu mönnum en SF tapaði sex.  Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 31,9% og Framsókn 10%.

Ég er að láta mig dreyma um að bæði VG og SF bæti nú vel við sig.  Væri ekki draumur ef þessir tveir flokkar næðu að mynda ríkisstjórn bara sísvona án annara bragðefna.

Nú er að moða úr frjóum jarðvegi við VG þessa daga sem eftir eru fram að kosningum.  Ég minni á Sprotatorgið sem veriður í kosningamiðstöðinni við Grensásveg í dag milli 13-17. 

Framsókn er að tapa stórt en þeir fengu sex þingmenn en skv. þessu þá myndu þeir tapa jafnmörgum.

Úje hvað þetta er að verða spennandi.


mbl.is Fylgi Samfylkingar og VG jafnmikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EIKINN ALLTAF FLOTTASTUR!

22

Mér finnst spjallþátturinn sænski mikið skemmtilegri en Júróvisjón útsendingin.  Þessi fyrsti þáttur í ár var þar engin undantekning.  Eikinn stóð sig vel eins og vanalega í spjallinu og stigagjöfinni.  Myndbandið var flott þrátt fyrir að rauða hárið lýsti með fjarveru sinni.  Svo fékk drengurinn fullt hús stiga.  Ekki dapurt það.  Ég er ekki sérstakur aðdáandi söngvakeppninnar.  Þau lög sem þrælað var í gegn í kvöld voru flest alveg hroðaleg.  Einhverjar melódíur með þjóðlagaívafi viðkomandi lands.  Ég fékk aumingjahroll í 80% tilfella.  Stjarna kvöldsins var norski "kommentarinn" sem fyrir utan að vera hrifin af Íslenska laginu, var að ég held ekki hrifin af neinu öðru lagi.  Vel pirraður náungi en skemmtileg týpa.

23

Nú er að bíða næsta föstudags.  Svona bara til að það sé á hreinu.  Ísland burstar þetta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 2987151

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 69
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.