Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Erfitt að halda kúlinu

Undur og stórmerki eru að gerast á hverjum degi núna.

Ég er kolfallin fyrir mínum gamla kennara sem ég var löngu búin að senda út í ystu myrkur í pólitískum skilningi.  Jón Baldvin hefur auðvitað alltaf verið krútt, mismikið og frekt krútt, en nú er ég tilbúin að biðja hann um átógraf svei mér þá.

Karlinn meikaði svo mikinn sens hjá Agli í Silfrinu áðan að ég gat tekið undir hvert einasta orð og fáir koma skoðunum sínum til skila betur en sá gamli refur Jón Baldvin Hannibalsson.

Svo er hann auðvitað kennari af guðs náð og kann betur en flestir að setja upp hluti þannig að maður skilji þá.

Davíð mun vera á móti því að sækja um lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og því gengur ekkert né rekur í þeim málum.

En að Evrópusambandinu, ég er alltaf að verða meira á því að við eigum að reyna að komast þar inn um leið og við erum búin að þvo af okkur mesta skítinn og skömmina sem jakkafatamafían, bæði sú pólitíska og í fjármálageiranum er búin að ata yfir okkur.

Einar Már var líka beittur og skýr eins og hann er vanur.

En mikið rosalega erum við í djúpum skít við Íslendingar.

Það játast hér með að ég er með í maganum af angist, sko þegar ég hugsa til framtíðar.

Það er erfitt að halda kúlinu.

SILFRIÐ


mbl.is Jón Baldvin: Seðlabankastjóri þvælist fyrir á strandstaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölvað eineltiskjaftæðið

 mynd_2008-10-18_15-25-28bmynd_2008-10-18_16-00-10b

Einelti var ekki til sem orð þegar ég var í barnaskóla.  Melaskóla nánar tiltekið.

Þetta orð er að verða eitt af þeim mest misnotuðu í íslenskri tungu og það versnar dag frá degi.

Hver spekingurinn af fætur öðrum bloggar nú eða skilur eftir komment við annarra manna blogg og ásakar þá sem komu saman á Austurvelli í gær um einelti gegn Davíð Oddssyni.

Ég hefði reyndar kosið að mótmælin hefðu beinst að jakkafatamafíunni allri enda lítill munur á kúk eða skít að mínu mati.

En ég neita því alfarið að kennitalan, eiginmaðurinn, faðirinn og Reykvíkingurinn Davíð Oddsson hafi verið lagður í einelti af okkur 28Police sem þarna stóðum.

Seðlabankastjórinn og embættismaðurinn Davíð Oddsson má hins vegar taka pokann sinn vegna þess að hann er einn valdamesti maðurinn í havaríinu sem riðið hefur yfir okkur og ábyrgur eftir því  og ágætt að byrja á honum, af skiljanlegum ástæðum. 

Hér má sjá myndir af útifundinum "mannfáa" og smekklausu kommentin sem höfundur þeirrar bloggsíðu fær frá sumum lesendum sínum. Klikkið hér.

Og að eineltinu.  Minn skilningur á orðinu er að það lýsi ofsóknum á hendur börnum og ungmennum.  Punktur, búið, basta.

Eins og ég sagði þá var þetta orð ekki til þegar ég var barn þó einelti hafi svo sannarlega verið það.

Mér þætti vænt um að í hvert skipti sem fólk segir skoðun sína t.d. hér í bloggheimum, sem á ekki upp á pallborðið að spekingarnir (lesist fíflin) komi ekki og gargi einelti, einelti.

Ofsótt börn eiga skelfilega erfitt, ekki gengisfella alvarleika þess í upphrópunum um ofsóknir þar sem engar eru.

Þeir mega taka það til sín sem eiga það.

Bölvaðir asnarnir.

ARG


Fórum, vorum, sögðum og gerðum

Þá er það komið á hreint.  Það voru hatursfullir erlendir seðlabankar sem urðu íslensku bönkunum að falli.  Sjúkkitt, ég vissi að þetta var ekki okkur að kenna.  Jeræt.

Margir hafa verið að setja spurningamerki við hausatalningu löggunnar á mótmælafundinum á Austurvelli í gær, ég þar á meðal.

Róleg, það skiptir í sjálfu sér engu höfuðmáli hvort við vorum fleiri eða færri, málið var að við fórum, vorum, sögðum og gerðum og það verður endurtekið um næstu helgi.

Sófadýr og aðrar rolur; haskið ykkur upp á afturendanum og takið þátt.

En.. eftir situr spurningin um fjölmiðlana.  Taka þeir svona upplýsingum frá löggu og gleypa hráar?

En í  nýja Sunnudagsmogganum er heilsíðuauglýsing um jólahlaðborð.

Ég alveg við sjálfa mig sitjandi ein í eldhúsinu alltof snemma að morgni dags: Jólahlaðborð???? Fer einhver á svoleiðis í ár? 

Kannski hefur ástandið gengið gjörsamlega frá þessari litlu neysluhyggju sem ég þó hafði, steindrepið hana alveg, en mér fannst algjört antiklæmax að hugsa til þess að fara í svona fyrirkomulög við ríkjandi aðstæður.

En svo má halda því fram líka að það er jafnvel meiri þörf á svona jippói núna þegar fólk þarf að hressa sig við.

Ég hef mínar leiðir til að gleðja sjálfa mig sumir hafa aðrar.  Gott mál.

Varðandi jólahlaðborð þá eru liðin ansi mörg ár síðan ég fór á slíkt.

Það síðasta sem ég heiðraði með nærveru minni var fyrir ríflega áratug og þá gubbaði maður sem sat á næsta borði við mig yfir samkomuna, þar á meðal mig, enda borðaði hann ekkert en drakk þeim mun meira.  Það voru ekki margir á þeim tíma sem voru spenntir í matnum.

Svo sá ég að Dorrit dúllurófa á hóp af lopapeysum.  Flottar sumar.  Ég hins vegar klæði mig ekki í fakírbretti og ligg ekki á þeim heldur.

Mikið djöfulli sem íslenska ullin stingur.

Dorrit fær því rós í hnappagatið fyrir hugrekki og úthald.  Hún segist reyndar klæðast einhverju innan undir ullinni en kommon - hvenær hefur það verið nóg?

Ullin stingur í fleiri lög en ég hef tölu á.  Meira að segja þeir sem reka sig í mann eiga það til að veina upp.

Ókei, já ég er að ýkja.  Heimurinn væri hundleiðinlegur ef maður fengi ekki að smyrja smá.

Ég er farin að borða morgunmat og kem að vörmu.

Já - þetta er hótun aularnir ykkar.InLove


mbl.is Þeir felldu bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farin áður en ég kom

Gaman að sjá hversu talnaglögg löggan er.  Ef við vorum á fimmtahundrað þá er ég farin að sjá fimmfalt.  Það er ekki öðruvísi.

En kannski er það svo, að ég hafi séð fleira fólk en í raun og sann stóð á Austurvelli.

Það má nefnilega segja að ég hafi mótmælt með glans, eins og mín er von og vísa.  Ég var eiginlega við dauðans dyr þarna á Austurvelli give or take smá ýkjur.

En það má að minnsta kosti segja að ég hafi mætt á mótmælin en hafi í raun verið farin áður en ég kom.

Þetta, villingarnir ykkar á sér aðdraganda og það er best að ég deili skemmtilegri innkomu minni að þessum fjöldafundi með ykkur.

Ég er sykursjúk.  Ég þarf að sprauta mig á morgnanna hvað ég gerði samviskusamlega í morgun.

Svo gerðist dálítið sem kom mér í vont skap, ég reif kjaft við nokkrar manneskjur, gerði líf nokkurra að heitasta helvíti og eitt leiddi af öðru, ég gleymdi að borða.  Var svo bissí í minni frábæru geðshræringu.

Svo tók ég mig til, málaði mig og snurfusaði og hentist af stað í mótmæli.

Never a dull moment.

Við krúsuðum endalaust til að finna stæði ég og Hljómsveitin, vorum auðvitað ekki nógu náttúruvæn til að taka strætó, helvítis svínabest við erum bæði tvö.

Á endanum fundum við stæðið og ég fór að leita að Sörunni og Jennýju sem voru mættar til að hitta okkur.

Og það var þá sem grasið kom eiginlega á móti mér þarna á Austurvellinum.  Ég vissi ekkert í hvaða átt ég ætlaði, ég sá nánast ekki neitt og vafraði um eins og drukkin kona sem ég var ekki - ég sverða. 

Var auðvitað búin að týna Hljómsveitinni sem ég er gift og elska út af lífinu, en ég ráfaði sem sagt þarna um svæðið alein.  Það að við höfum týnt hvort öðru er út af fyrir sig merkilegt miðað við fámennið sem löggan heldur fram að hafi verið á Austurvelli.

Þá hnippti í mig kona sem ég hef ekki séð lengi og var svona líka glöð að sjá mig.

Ég hálf rænulaus í sykurfalli; hæ, geturðu lánað mér símann þinn?

Hún: Ha jájá, hvað segirðu gott annars?

Ég: Símann (milli samanbitinna vara).

Hún rétti mér símann og ég gat loksins hringt í dóttur mína og ég sagði henni að ég væri rokin.  Svo rúllaði ég af stað eins og biluð garðsláttuvél.

 Helga mín takk fyrir lánið á símanum, ég knúsa þig næst.

Þar með lauk þátttöku minni í þessum fámennu mótmælum upp á nokkuð hundruð sálir.

Mér sem sýndist við vera að minnsta kosti tvöþúsund.

But what do I know?

En við mætum aftur eftir viku og ég ætla að hafa með mér nesti.

Úje.


mbl.is Mótmæla Davíð Oddssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttir tímar

Mér líður ekki eins og ég hafi verið auðmýkt af því Ísland komst ekki í öryggisráð SÞ.

Mér líður eins og mér sé jafn slétt sama um öryggisráðið eins og mér hefur verið frá byrjun.

Það tekur ekkert frá mér - gefur mér ekki neitt.

Reyndar hefur mér fundist þetta framboð bölvaður hégómi en ég er auðvitað ekki með innmúraðar upplýsingar um hvað skiptir máli í heimi hér.

Í dag hef ég tapað húmornum.  Ég sé ekkert broslegt við nokkurn skapaðan hlut í augnablikinu en ég set allt mitt traust á að þetta rjátlist af mér þegar líða tekur á daginn.

Í dag er ég bálill. 

Ég ætla ekki út í það nánar, ég ætla að fara að taka til.  Skúra, skrúbba og þurrka af.

Það er ágætis meðal við reiði, depurð, hryggð og öllum fjandans neikvæðnipakkanum.

Fyrir sjálfa mig og alla hina sem ætla að mæta í dag og praktisera lýðræðið set ég meistara Bob Dylan hér fyrir neðan.

The times they are a-changin´.

Gæti ekki átt betur við en einmitt í dag.

 


mbl.is Segja Ísland hafi orðið fyrir auðmýkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamfarablogg

Ég var að horfa á fréttir.  Það er orðið áhættuþáttur í heilsufari fólks að leggja þann andskota á sig, dag eftir dag, kvölds og morgna.

Það er hættulegt andlegri heilsu manna að horfa upp á ráðaleysi, yfirklór og leikaraskap þann sem hafður er í frammi af ráðamönnum þjóðarinnar.

Það eru haldnir blaðamannafundir þar sem akkúrat ekkert kemur fram annað en að allt standi enn í stað í besta falli en að hlutirnir hafi versnað í versta falli.

Framhaldssagan með gjaldeyrisvandamálin er orðin næstum kómísk eða væri það ef það bitnaði ekki á sárasaklausu fólki.

Mér finnst vont að láta ljúga að mér.

En viti menn.  Í dag kom Össur, settur utanríkisráðherra, glaðbeittur af ríkisstjórnarfundi og hann hafði hluti að segja.  Ég öðlast endurnýjaða trú á mannkyninu þarna í augnablik.

Við myndum ekki fá Bretana til að verja okkur í desember.  Það myndi særa þjóðarstolt Íslendinga (sem er auðvitað helvíti rétt hjá karlinum).

Ég náði að hoppa hæð mína í fullum herklæðum (vopnuð svuntu með skúringafötu fulla af sápuvatni, í hönd) áður en það var drepið í gleði minni eins og vindli.

Dem, dem, dem.

Geir grautlini kom í hægðum sínum niður sömu tröppur og gerði að engu það sem Össur var að enda við að segja. Þetta má sjá á bandi í viðtengdri frétt.

Er einhver hissa þó fólk sé að fara í andlegt tjón hingað og þangað með þennan undirlægjuhátt?

Og Davíð situr enn í Seðlabankanum.  Voruð þið búin að taka eftir því?

Í dag sendu bresk yfirvöld frá sér bréf sem átti að skýra frystingu þeirra á eignum Landsbankans í Bretlandi eitthvað betur.

Viti menn í sama bréfi er það undirstrikað að hryðjuverkalögin sem skellt var á Ísland séu enn í fullu gildi.

Hryðjuverkamenn eru morðingjar og illmenni, þetta er ekki neitt máttleysis skammistykkar krakkar mínir, við skulum halda því til haga.   

Ætlum við að sætta okkur við að vera í samskiptum við land sem flokkar okkur með verstu illmennum nútímans?

Menn sem skirrast ekki við að drepa fjölda manns til að leggja áherslu á mál sitt?

Af hverju í fjandanum slítum við ekki stjórnmálasambandi við þessa þjóð?

Af hverju í fjandanum er enginn farinn að fjúka eftir þetta fjármálafárvirði sem hefur lamað þjóðina undanfarnar tvær vikur?

Af hverju eru eignir útrásarvíkinganna ekki frystar?

Hvað veldur þessum andskotan doða?

Enn ein helgin í óvissu er framundan.  Við vitum hvorki haus né sporð á einu né neinu.

Er það nema von að það sé farið að fjúka í mann.

Amma mín hefði kallað íslenska ráðamenn bölvaðar ekkisens geðluðrur væri hún hér.  En ég geri það fyrir hana alveg blákalt.

Á morgun munu vel flestir borgarar vænti ég mæta á Austurvöll til að kveðja fórnarlambshlutverkið, taka ábyrgð, krefjast breytinga.  Sjá hér.

Ég vil að minnsta kosti vona að nýir tímar séu að renna upp en það er auðvitað undir okkur sjálfum komið.

Gerum ekki þau skelfilegu mistök að sitja heima, tuða og tauta og láta svo yfir okkur ganga.

Hristum af okkur slyðruorðið.

Sjáumst í bænum á morgun.

Annars tek ég Lúkasinn á ykkur, égsverða.


mbl.is Vill ekki Bretana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erum við aumingjar við Íslendingar?

Erum við aumingjar við Íslendingar?

Svei mér þá ef ég veit hvað ég á að halda eftir atburði undanfarnar vikur.  Atburðina sem hafa valdið gífurlegu tjóni í lífi hins almenna borgara á Íslandi, gert okkur öll að ómerkingum um víða veröld svo ég bara tæpi á því helsta.

Aðildarríki Atlandshafsbandalagsins samþykktu s.l. sumar áætlun um loftrýmisgæslu yfir Íslandi.

Bretar eiga að sinna þessari gæslu í desember n.k.

"Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði í samtali við Morgunblaðið að málið hefði ekki komið inn á borð nefndarinnar. Hann átti ekki von á öðru en staðið yrði við samkomulagið enda lægi NATÓ-skuldbinding á bak við það."

Hvers lags þýlyndi er þetta eiginlega?  Er samkomulag við NATO æðra en sjálfsmynd þjóðarinnar?

Halló, Bretar hafa sett á okkur hryðjuverkalög.  Þeir hafa orðið valdir að óbætanlegum skaða og nú eiga þeir að sjá um að vernda Ísland?

Ef þetta er ekki að kyssa á vöndinn þá heiti ég Gordon Brown.

Ég vil ekki sjá að Bretar séu hér með nútíma alvæpni á landinu á meðan við erum í þeirra augum ótýndir hryðjuverkamenn. 

Nú fer ég fram á að þessi samþykkt NATO verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna.

En ég játa að ég hef litla sem enga trú á að það verði gert.

Af því að við erum með sjálfsmynd á við ræsisrottu þessa dagana og þá er ég að tala um stjórnvöld en ekki almenning.

URRRRRRRR

P.s. Þeir sem ekki sáu upprifjuninni á íslensku útrásinni í Kastljósi í gær geta séð það hér.  Ég hef einmitt verið að bíða eftir svona klippi.  Ég vissi ekki hvort ég ætti að gráta eða garga úr hlátri.  En þú?  Kastljósklippið.


mbl.is Bretar sjá um varnirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðfyndnar nauðganir?

Ég horfði á fyrstu tvo þættina af Dagvaktinni.

Ég tók síðan ákvörðun um að hætta því eftir þá reynslu.

Sú ákvörðun var ekki tekin af því mér fannst karakterarnir orðnir þreyttir og útjaskaðir, sem þeir vissulega eru, ekki heldur vegna þess að frasarnir eru svo ofnotaðir að maður fær aulahroll en nei fyrir þessari ákvörðun voru aðrar ástæður.

Ég hef ekki húmor fyrir nauðgunum.  Mér finnst jafn skelfilega smekklaust að fíflast með kynferðisofbeldi á karlmanni og mér finnst það ósmekklegt þegar konur og börn eiga í hlut.

"Grín" með eins skelfilega reynslu eins og kynferðisofbeldi endurspegla oft fordómana í samfélaginu.

Reyndar má ekki lengur grínast með nauðganir á konum, amk. ekki beint og ekki í dagskrárgerð.

Það eru líka verulega fáir sem láta sér detta í hug að grínast með kynferðisofbeldi á börnum þó það sé vissulega til kolruglað lið sem sér húmor í ljótustu birtingarmynd mannlegs eðlis.

Í Dagvaktinni er einn karakterinn undirmálsmaður sem á sífellt undir högg að sækja.  Til að gera langa sögu stutta þá er hann misnotaður af drukkinni kerlingarjúfertu.

Er einhver að hlægja?

Ég ákvað hins vegar að blogga ekki um þetta þegar ég sat með óbragðið í munninum strax eftir þessa þætti sem ég sá, mig langaði nefnilega að sjá hvort það kæmu einhver viðbrögð frá karlmönnum.  Hvort þeim fyndist ekkert að sér vegið.

Það gerðist ekki, kannski er þetta of mikið tabú ennþá.

En nú hefur það gerst að karlmaður hefur skrifað grein um þennan ömurlega húmor Dagvaktarinnar.

Drengjum er nauðgað, karlmönnum er nauðgað og það er nákvæmlega ekkert fyndið við þá staðreynd.

Ætla mætti að það væri hægt að finna eitthvað smekklegra til að kalla fram hlátur hjá áhorfendum.

Svo hefði mátt setja aðalhetjurnar í smá meikóver.

Þær eru svo þreyttar.

ARG.

Jóhanna bloggvinkona mín bloggaði um þetta fyrir einhverjum dögum líka.  Sjá hér.


mbl.is Má grínast með nauðganir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efndir takk og við skulum tala saman

  

 Þegar ég var krakki var alin upp í mér virðing fyrir fullorðnu fólki sem enn eimir eftir að.

Ekki misskilja mig ég er heitur stuðningsmaður almennrar kurteisi í samskiptum á milli fólks en ég vil að virðingin sé óháð aldri og kurteisi við börn og ungt fólk er alveg jafn mikilvæg og við þá sem eldri eru.

En...

Eitt af því sem ég tók mest út fyrir þegar ég var barn var þegar mér var sagt að kyssa þennan og hinn fyrir mig.

Ég var alin upp hjá ömmu minni og ömmubróður og á jólum t.d. streymdu að mér jólagjafir frá fullt af fólki sem ég þekkti lítið eða ekki neitt.  Allir að gefa blessuðu barninu hjá gamla fólkinu glaðning á jólunum.

Í hvert skipti sem einhver maður eða kona komu með pakka var sagt við mig blíðlegri en ákveðinni röddu sem gaf til kynna að engrar undankomu væri auðið: Jenný mín þakkaðu Jóni, Gunnu, Siggu og Palla fyrir þig.

Það voru þung spor fyrir mig stundum að þurfa að ganga óvarin beint í knúsið, faðmið og kyssið frá alls kyns fólki, með alls kyns lyktir og nærveru. 

Fyrir barn er þetta kvöl og pína, var það að minnsta kosti í mínu tilfelli.

Og núna gengur svona uppáneytt knúsæði, flaggflipp og knús í hvert hús æði yfir þjóðina.

Reyndar held ég að það þurfi ekkert að þjappa íslenskum almenningi saman, við höfum svo lengi skilið hvort annað hérna á þriðja farrými. 

Ég held hins vegar að það sé verið að þjappa okkur saman við hina þjóðina í landinu, þessa sem ekkert hefur viljað af okkur vita fram að hruni efnahagslífsins.

Ég er alveg til í að súa Gordon Brown, finnst reyndar að við hefðum átt að slíta stjórnmálasambandi við Bretland þegar þeir gerðu okkur að hryðjuverkamönnum og settu okkur á bekk með brjáluðum glæpamönnum og fjöldamorðingjum, þannig að ég reisi ekki ágreining við þá ákvörðun verði hún tekin.

En það breytir ekki því að ég ætla ekki í neinn sleik við þá sem hér hafa látið allt gossa til helvítis af hvaða hvötum sem þeir/þær gerðu það.

Sannleiksnefndir, hvítbækur og annað slíkt eru orð og innantóm amk. ennþá.

Efndir takk og við skulum tala saman.

Jabb í boðinu.

EITT RISAKNÚS TIL ALLRA MINNA BLOGGVINA. NOTIST EFTIR ÞÖRFUMInLove

 


mbl.is Eimskip flaggar íslenska fánanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordyr hvelvítis stækkaðar?

Þvílíkur dagur og ég er lifandi.

Var að klára að rýma geymsluna á gamla heimilinu.  Tók mánuð að hafa mig í það, ég er með frestunaráráttu dauðans.

Það var varla að ég gæti slitið mig frá miðlunum.  Hvað ef eitthvað/einhver rúllaði á meðan?

En...

Ég er ennþá bálill.  Jafn ill og í morgun.  Ekkert hefur orðið til þess að slökkva í mér og það er komið kvöld.

Nú er byrjað að manga um stækkun Álferlíkisins í Straumsvík.  Stækkum, stækkum segja þeir sem vilja fá þessar fordyr helvítis stækkaðar, þrátt fyrir að Hafnfirðingar hafi hafnað því í lýðræðislegri íbúakosningu.

Á ekki að nauðga náttúrunni bara?

Djöflast á hverri sprænu, virkja hvern bæjarlæk sem finnst á landinu?

Sökkva fjöllum og dölum, eitra andrúmsloftið?

Ha, það eru nú meiri skammsýnissjónarmiðin sem eru að hrjá stóriðjuaðdáendurna, virkjanasinnana og áfram veginn í vagninum ek ég.

Ég hef þetta fólk grunað um að klökkna af hrifningu þegar það kemur auga á álver.

Tárast, verða orðlaust vegna fegurðarinnar sem er að finna í rauðköflóttu strompunum.

Ég er ekki að grínast enda geðbrigðin ekki í gleðifasanum.

Iss, farin að sparka í veggi, bíla og ruslatunnur.

Lalalalala.


mbl.is Niðurstaða íbúakosninga verði virt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.10.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 2988611

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.