Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Persónudýrkun - nei takk!

Hvað ætli verði fluttar margar fréttir af þrýstingi Samfylkingarinnar á Jóhönnu?

Ég skil Samfylkinguna alveg, Jóhanna er traustur og gegnheill stjórnmálamaður og það er ekki offramboð á þeim á þessum síðustu og verstu.  Ég vona að þeir fái hana til að taka við keflinu af ISG.

En...

Persónudýrkun er eitur í mínum beinum.  Það er stutt í hana, það er eins og við þurfum að leggja traust okkar og trú á einhvern og stundum upp að því marki að jaðrar við brjálæði.

Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið komið fyrir á kollektívu þjóðaraltari og ég dauðvorkenni henni að hafa á sér allar þessar rosalegu væntingar heillar þjóðar.

Ég dáist mikið af Jóhönnu, er einlægur stuðningsmaður þess að hún verði sem lengst í pólitíkinni og ég treysti fáum jafn vel til að halda um stjórntaumana og henni.

En að persónudýrkun svona almennt, þá getur þessi tilhneiging fólks gert mig brjálaða, ég verð ofboðslega pirruð.

Besta fólk hangir í tilbeiðslugírnum á þessum krepputímum - því vantar sárlega einhvern til að bera uppi væntingarnar.

Lofræðurnar eru færðar upp á nýtt plan - minningargreinar; snæðið innmat!

Auðvitað er persónudýrkun lenska í Sjálfstæðisflokknum og telst þar til eðlilegra hátta en ég er að tala um venjulegt fólk hérna. 

Davíð er enn í guðatölu hjá íhaldinu - hvað get ég sagt?

Einu sinni var ég með ákveðinn stjórnmálamann á stalli.

Hann gat ekki gert neitt rangt.

Maðurinn var bjargvættur öreiganna, hann skildi þá, lifði fyrir þá og barðist fyrir þá.

Svo hætti hann því og fór í annað - hann fór í borgaralegasta embætti sem fyrir finnst og nei, ég útskýri það ekki nánar.

Kommasálin í mér fékk alvarlegt áfall.

Ég var svo miður mín yfir að það væri maður á bak við goðið að ég lagðist í þunglyndi og ákvað að því loknu að taka ávallt til fótanna þegar mér færi að hraka af persónudýrkunarheilkenninu.

Ég er nefnilega tilfinninga- og stemmingamanneskja, hrífst með, græt yfir þvottaefnisauglýsingum, mér því verulega hætt við þessu ástandi.

Ég hef haldið mér á þessari beinu braut nokkuð þokkalega með örfáum smáföllum sem ég hef leiðrétt hið snarasta um leið og ég hef náð að stilla mig af.

Fólk er fólk, með tilleggi upp á kartöflur og baunir.

Það er vísast að muna það.

En það er margt gott að koma út úr þessum hörmungum.

Fullt af nýju fólki gerir sig gildandi og hefur helling að miðla.

Hlustum, meltum og metum.

En hendum helvítis altarinu á haugana.

Capíss?


mbl.is Beðið eftir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk, takk, takk

Það bjargar sálarheill minni að heyra að Eva Joly, hefur verið ráðin ráðgjafi íslenskra yfirvalda varðandi rannsókn á efnahagsbrotum tengdum hruninu.

Eva segir það brandara hversu fáir menn vinna við að rannsaka bankahrunið.

Eva: Þú ert ekkert búin að sjá nema brotabrot ennþá.

Öll þessi mál og viðbrögð við þeim sýna fram á ótrúlega afneitun stjórnvalda í kjölfar hrunsins og það má segja að hún ríki enn í ýmsum herbúðum.

Að minnsta kosti er bullandi afneitun í gangi hjá Sjálfstæðisflokki nú eða þá að þeir hafa góða ástæðu til að halda öllu í myrkrinu.

Mikið skelfing er það góð tilhugsun að sérfræðingur efnahagsbrotum skuli koma að hruninu hjá okkur.

Einhver með bein í nefinu, ótengdur með öllu.

Sem nýtur alþjóðlegrar virðingar í starfi.

Takk Óðinn, Þór, Búdda, Ésús og allir hinir.

Úff.


mbl.is Gagnrýnir fámenna rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég verð ekki eldri

Bara smá lífsmark frá mér.

Ég er í raun gapandi yfir því sem ég verð vitni að núna í þessum skrifuðu orðum.

Geir Haarde er í ræðustól á Alþingi og er að ræða stjórnarskrárbreytingar.

Það sem hissar mig og furðar er að þessi dagfarsprúði maður er bálillur.

Fer hamförum svona miðað við það sem hann er þekktur fyrir.

Snýr sér að Jóhönnu og hundskammar hana.

Ég held að ég verði ekki eldri.


mbl.is Fjórða stigs málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dansað í þinginu

tutu

Í mínu sjálfskipaða, borgaralega eftirliti, hékk ég fram á lappir mér þar til þingi lauk í nótt.

Þess vegna get ég miðlað til ykkar sofandi og ábyrgðarlausu sauða, að á þinginu gerast hlutir sem stilla mann af, hafi einhver verið að þjást af minnisleysi varðandi atburði undanfarinna mánaða.

Það sem Sjálfstæðismenn grenja sífellt yfir þessa dagana er skortur á aðgerðum til bjargar heimilunum í landinu og fyrirtækjum í sama landi (ef það er teljari á orðanotkun úr ræðustól Alþingis þá hlýtur hann að vera brunninn yfir, þegar þetta er skrifað).

En í gær héldu þingmenn Sjálfstæðisflokks, þessir sönnu mannvinir, frumvarpi til laga um séreignasparnað í gíslingu fram í nóttina.  Þessu frumvarpi sem mun gera fólki kleyft að leysa út hluta þessa sparnaðar sjálfu sér til bjargar.  Haldið þessu til haga.  Þeir ætla nefnilega að halda þessu áfram í dag!

En að öðru.  Ég er laumuskotin í Pétri Blöndal, þrátt fyrir að skoðanir hans séu að mínu mati eins og úldnar sardínur í tómassósu.

En hann er þó samkvæmur sjálfum sér og virðist ekki mikið fyrir leikaraskap. 

En hin raunverulega ástæða er sú að hann á það til (átti amk.) að vippa sér í kramhúsið og dansa afríska dansa við dynjandi bumbuslátt.  Halló, hvernig er hægt að láta sér líka illa við svona tátiljudansandi þingmann? (Oh, munið þið eftir tátiljunum krakkar?).

Og þar sem ég hangi yfir þinginu og er að deyja úr leiðindum þá hef ég óbrigðult ráð til að halda góða skapinu og úthaldinu í hámarki.

Ég set leiðindafauskinn Birgi Ármannsson og Sigurð Kára Kristjánsson (don´t get me started) í sokkabuxur og tátiljur (jafnvel balletpils) og læt þá dansa skemmtilega og flippaða dansa, funk eða hiphop, æi þið vitið.

Þá verður þetta þolanlegt.

Apúmm, apúmm, apúmm.

Og svona upp á framtíðina, þá eru hópdansar að koma sterkir inn.

Dæmi:

Þetta blogg fer undir menning og listir.

Ha? Þeir verða ánægðir með það strákarnir, ekki beinlínis það sem manni kemur í hug þegar maður horfir á þá.

Nema ef vera skyldi til að dást að handbragði klæðskeranna sem sauma utan á þá.

Jabb, klæðskerarnir rúla.


mbl.is Þingfundur til að verða eitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlæ ekki að íhaldinu

Tryggvi Þór upplýsti um fjármál sín.  Sjálfsagt mál og eðlilegt og ætti að vera til siðs en ekki undantekning eins og nú er.

Svo kemur Ari Matt og gerir slíkt hið sama.

Ég myndi ekki nenna að blogga um þetta en geri það af því að ég fíla húmorinn hans Ara í tætlur.

Að stofna fyrirtæki sem heitir ENRON er gargandi snilld.

En ég er sem sagt að blogga um þetta um leið og ég fylgist með bálillum málþæfandi Sjálfstæðismönnum í þinginu.

Ég gæti sagt að það hlakkaði í mér yfir því hversu fúlir þeir eru að vera án valdsins, að vera komnir í almenn sæti á Alþingi.

Ég gæti sagt að ég hafi hlegið illgirnislega þegar þingflokksformaðurinn þeirra hún Arnbjörg nánast gargaði í pontu áðan á Árna Þór af því að hann var eitthvað að stríða henni vegna málþófs.

En ég segi ekkert svoleiðis.

Auðvitað er ég ekki að skemmta sjálfri mér á kostnað íhaldsins.

Ætti ekki annað eftir.

Það væri beinlínis kvikindislegt.

Slíkt myndi ég aldrei gera.Halo


mbl.is Ari upplýsir um fjármál sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er af sem áður var

Sjálfstæðismenn vilja ekki breytingar á stjórnarskránni.

Nú eru þeir í öflugu málþófi til að koma í veg fyrir að breytingar á stjórnarskrá komist á dagskrá þingsins.

Þeir raða sér á mælendaskrá, í lokaumræðunni um séreignasparnað,  sumir aftur og aftur, veita andsvör hjá hvor öðrum, allt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að frumvarp sem íslenskur almenningur hefur kallað eftir nái fram að ganga.

Eins og góðir andófsmenn þá þverneita þeir að vera að þæfa og og eyðileggja.

Hva, þetta er alsiða hjá íhaldinu að taka sér bólfestu í ræðustól á Alþingi, eða þannig.

Ég ætla rétt að vona að þingfundi verði ekki slitið, að þingið haldi áfram þar til stjórnarskrábreytingin fæst rædd.

Held áfram að fylgjast með þessari ábyrgu stjórnarandstöðu.

Það er af sem áður var.


mbl.is Saka sjálfstæðismenn um málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helvítis fokking fokk dugar ekki lengur!

Það er að renna almennilega upp fyrir mér í þessum skrifuðu orðum hvað fjárglæpamennirnir íslensku eru búnir að vera að gera sem hefur orðið til þess að við erum nú gjaldþrota þjóð með orðspor sem hæfir hlandkoppi.

Sárast þykir mér að stjórnvöld sem treyst er fyrir þjóðarhagsmunum hafa brugðist á öllum stigum máls og héldu áfram að bregðast þar til stjórnin sprakk að lifa í afneitun eða þöggun af einhverjum ástæðum.

Mér er í raun sama orðið hver brást og hvers vegna, ég vill bara að þetta lið fái ekki að koma nálægt stjórn landsins, hvorki sem embættismenn eða pólitíkusar.  Út með hyskið.

Enginn hefur enn verið yfirheyrður einu sinni.  Allt virðist vera í gúddí fíling, einn saksóknari situr með tómar hillur og ég fæ það á tilfinninguna að þetta sé sjónarspil.

Nú er Straumur farinn.

Þar bætist í skuldapottinn og við getum ekki borið hönd fyrir höfuðið.

30% þjóðarinnar vilja meira af Sjálfstæðisflokk.

Á því hlýtur að  vera skýring, enginn er svona dofinn frá heila og niðurúr að hann sjái ekki þá synd sem felst í að hafa látið þetta sukk vera mögulegt og gera ekkert til að stöðva það.

Þetta fólk hlýtur að vera dofið og í sjokki.

Ég er búin að ganga í gegnum allan pakkann af tilfinningum og það er ekkert lát á.

Um leið og ég byrja að reyna að vera jákvæð, safna mér saman og byggja upp í mér baráttuþrekið þá kemur ný frétt.

Frétt sem ég hvorki get né vil melta.

En ég verð.

Helvítis fokking fokk lýsir ekki líðan minni lengur.

Kemst ekki nálægt því einu sinni.

Ég ætla ekki að setja neitt í orð núna.

Það gæti einfaldlega komið mér í fangelsi.

Ég ætla ekki að gera ógeðisbarónunum þann greiða.

En megi sumir brjóta á sér eitthvað af útlimum (DJÓKHalo).

GARG


mbl.is Ríkið tekur Straum yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Solla og vitjunartíminn

Mogganum finnst allt merkilegt sem frá Birni Bjarnasyni kemur.  Þessi tilbeiðsla er krúttlegt næstum því.

En ég er á því að Ingibjörg Sólrún hafi gert rétt þegar hún tók aftur ákvörðun sína með að vera áfram í pólitík.  Bæði af heilsufarslegum og pólitískum ástæðum.

ISG er ein af okkar merkilegustu stjórnamálamönnum. 

Ég kynntist henni fyrst í kvennabaráttunni og hún var kona valddreifingar og grasrótarsinnuð með afbrigðum, eins og við flestar á þessum dásamlega tíma. 

Betri borgarstjóra hafa Reykvíkingar ekki haft.  Hún innleiddi ný vinnubrögð í borginni, með gegnsærri og heiðarlegri pólitík.

En svo gekk hún í björg.  Ég áttaði mig aldrei á ISG eftir hún stökk með Samfylkinguna í stjórn með Sjálfstæðisflokk eftir síðustu kosningar og það án þess að láta reyna félagshyggjustjórnarmyndun.

Þá og síðan hef ég bara ekkert kannast við vinnulag þessarar konu.

Eftir stendur að ISG hefur verið mín fyrirmynd og fjölda annarra kvenna um margra ára skeið.

Ég óska henni góðs bata og bjartrar framtíðar.

Einkum og sér í lagi óska ég henni þess að uppgötva frelsið sem felst í því að átta sig á að ekkert okkar er ómissandi.

P.s. Ætli Moggann vanti tilfinnanlega blaðamenn?

Kommon, þeir týna molana frá BB og nota eins og um lærðar fréttaskýringar sé að ræða. 

 


mbl.is Björn óskar Ingibjörgu Sólrúnu góðs bata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þessum bleika degi

Ég er alveg búin að finna út úr því hvernig er best að meika það í lífinu.

Ef maður dinglar sér í sjónkanum nógu lengi til að maður brenni fastur í höfuð fólks þá ertu með pottþétta uppskrift á sökksess.

Ég ætla ekki að æra óstöðugan og fara að fokkast út í hann Sigmund Erni eitthvað að ráði, það eru svo margir sem láta þá staðreynd að Sigmundur mætti á svæðið og lenti í 2. sæti í NA-kjördæmi fara illilega í taugarnar á sér.

Reyndar var Sigmundur Ernir settur á minn svarta lista eftir gamlárskvöldsdramað í Kryddsíldinni, þá setti hann einfaldlega niður sína síðustu kartöflu í mínum garði.

Svo getur hann verið háfleygur og spakur á þingi án þess að það trufli mig.

En þetta sökkar auðvitað að einhver sem hefur ekki komið nálægt pólitík, bara verið í sjónvarpinu, labbi inn og skjótist upp fyrir fólk sem hefur unnið hörðum höndum í flokksstarfi og lagt heilmikið á sig.

Ég skil vel að fólk verði pirrað.

Annars eru fjölmiðlamenn og aðrir sviðsljósálfar oft kallaðir guðir nútímans.

Ég meina fólk vill vita hvað þeim finnst gott að borða í morgunmat.

Hvenær þeir hafi fyrst dottið í það.

Og annað fánýtt kjaftæði sem manni kemur ekkert við.

En hver er ég að vera að rífa mig.

Er farin að horfa á Silfrið á þessum bleika degi.


mbl.is Næsta skref að flytja norður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram stelpur!

 pink1

Til hamingju allir með þessar frábæru konur hjá VG í Reykjavík.

Ekki leiðinlegt að sjá þessi úrslit þegar maður vaknar glaður og hress á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna.

Njótið dagsins konur.  Við eigum hann.

Hugsum til kynsystra okkar sem eru ekki eins heppnar og við.

Konur sem búa við kúgun og mannréttindabrot.

Þó enn sé ýmsu ábótavant hjá okkur þá er það barnaleikur miðað við stóran hluta kvenna í heiminum.

Áfram stelpur!


mbl.is Katrín og Svandís efstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband