Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lifi hústakan!

Ég er í raun steinhissa á að Fríkirkjuvegur 11 hafi ekki verið tekinn fyrr.

Það er auðvitað sýmbólsk aðgerð og mér finnst hún flott.

Þetta hús átti aldrei að selja Björgólfi og fjölskyldu en auðvitað var það gert í vímuástandi útrásardýrkunarinnar.

Útrásarmennirnar áttu allt að eiga, þeir áttu að sjá um listina í landinu, gott ef ekki heilbrigðiskerfið líka.

Þeir áttu að sjá um allan pakkann og við skyldum þakka og lúta höfði í orðlausri aðdáun.

Rugl.

Þess vegna er ekkert annað en sögulegt réttlæti fólgið í því að Fríkirkjuvegur 11 verði færður Reykvíkingum aftur.

Vonandi hefur fólkið sem "tók" húsið í kvöld, minnt á þessa fáránlegu stöðu sem hér er uppi.

Eignir glæpamannanna sem hafa komið okkur almenningi á kaf í skuldapyttinn, eiga hér glæsieignir um allan bæ, margar á mann meira að segja á meðan okkur fólkinu í landinu er ætlað að pikka upp nótuna.

Fríkirkjuvegurinn á að fara aftur til fólksins.

Og ekki orð um það meir.

Jabb.


mbl.is Ruddust inn í Fríkirkjuveg 11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað SDG?

Ég held að það sé ekki til sú manneskja á Íslandi sem ekki er öskuvond yfir Icesave-málinu og það geta heldur ekki verið margir sem með glöðu geði vilja borga fyrir glæpamennina.

Við erum öll sammála um það.

Áðan horfði ég á Kastljós og horfði á Sigmund Davíð hrópa reikningsformúlur yfir Þóru og Steingrím J.

Hvað er Framsóknarflokkurinn að hugsa?

Það er ef hann er að því á annað borð?

Hvað á það að þýða að hafa formann sem er algjörlega óábyrgur í tali og lætur eins og götustrákur?

Ég meina, ég hef ekkert á móti strákum á götunni en mér finnst það ekki alveg passa að tala með þeim hætti sem maðurinn gerir.

Reyndar er hann reynslulítill og barnungur en só?

Hann ásakar fólk um skort á heiðarleika hægri-vinstri og talar um að borga ekki og hefur ekkert fram að færa annað en gífuryrði.

Ég beið nefnilega spennt yfir að fá að heyra hvaða aðferð til lausnar deilunni SDG væri með uppi í sinni Armaníermi.

Jú, hann hafði eftirfarandi lausn.

Við leysum þetta með dómstólaleiðinni og ef þeir vilja það ekki þá er það þeirra mál.

Jabb, þetta heitir að vera ábyrgur stjórnmálamaður í Framsóknarflokknum.

Verði þeim að góðu.

Er það nema von að þessi flokkur hafi löngum verið í útrýmingarhættu.

Þeir eru með svo glataða formenn.

Þ.e. eftir Steingrím sem var ekkert annað en stórkrútt með hjarta úr gulli.


mbl.is Blekkingar, heimska og hótanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Tær snilld" Sigurjóns Þ. Árnasonar

Höfundur hinnar "tæru snilldar" (sem Sigurjón Þ. Árnason fyrrum bankastjóri skírði hugmynd sina um Icesave) er enn spurður álits.

Nú af fréttastofu R.Ú.V.

Vona að fréttastofan sé ekki á sömu skoðun og Sigurjón, þ.e. að eitthvað sé að marka kjaftæðið í honum.

Þegar mér var bent á viðtalið í hádegisfréttunum í dag þar sem hann segir að eignir LSB dugi fyrir Icesave, þá varð mér bumbult.

Enda ekki úðað í mig gulli ég veit ekki hvað lengi.

Sigurjón Þ. Árnason;

Haltu kjafti!


mbl.is Segir eignir duga fyrir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ef við borgum ekki?

Það var raunhæft markmið að safnast saman á Austurvelli undir merkjum Búsáhaldabyltingarinnar í haust og vetur og fara fram á afsögn ríkisstjórnar, nýjar kosningar og stjórnlagaþing.

Reyndar er hlutur Harðar Torfasonar í þeirri þróun allri stórlega vanmetin en Borgarahreyfingin hefur eignað sér byltinguna.

Það mega þeir mín vegna, en rétt má vera rétt.

En þetta er útúrdúr.

Er það að sama skapi raunhæft að mæta og berja potta og pönnur vegna Icesave?

Af því nú skrifar fólk sig gegn Icesave í þúsundum talið þá myndi ég vilja fá svar við því hvað það sama fólk vill gera í staðinn.

Reyndar er það ekki þessi ríkisstjórn sem vaknaði upp einn morgun eftir kosningar og ákvað upp úr þurru að leggja þennan óhugnanlega skuldaklafa á þjóðina, það var gert af ríkisstjórn Geirs Haarde og ISG.

Ég skal taka þátt og garga "vanhæf ríkisstjórn" ef einhver getur frætt mig um annan möguleika í stöðunni sem þessari ríkisstjórn hefur yfirsést eða gengur fram hjá vísvitandi.

Ég er svo sannarlega ósátt alla leið yfir þessu Icesave máli og finnst það blóðugt að íslenskur almenningur eigi að greiða sukkið fyrir stórþjófana.

Spurningin er einfaldlega: Hvað annað er í boði?

Höfum við aðstöðu til að neita að borga, án þess að einangrast og verða hjálparlaus hér úti í Ballarhafi?

Svari því hver sem vill og veit.


mbl.is Margir skrá sig gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komminn ég!

Ég er vinstri kona og ólíkt því sem haldið hefur verið fram af fyrrverandi vinstri mönnum um að ástandið þroskist af manni, þá eykst mín vinstrimennska hratt og örugglega.

Aldrei sem nú finn ég hvernig þörfin fyrir félagshyggju og meðvitund um samhjálp og samábyrgð bullar í æðunum á mér.

Við erum einfaldlega í svo djúpum skít almenningur að við verðum að hjálpast að.

En...

Einmitt vegna þess að ég er vinstri sinnuð þá hleypir það í mig illu blóði þegar ég sé formann ASÍ og SA í fréttum þessa dagana, þétt upp að hvor öðrum, eins konar ástfangið par í bullandi hormónafasa ástfengisins, prédika að allir þurfi að standa saman.

Síðan hvenær hefur SA staðið með venjulegum launþegum í baráttu fyrir betri kjörum?

Launþegar og atvinnurekendur eru í eðli sínu andstæðir pólar þó hvorugir geti verið án hins.

Eins og í hjónabandi þar sem fólk er ákveðið í að þrauka og ekki meira en svo og þannig á það að vera.

Ég vil ekkert andskotans lóðarí á milli Gylfa og Vilhjálms.

En í alvörunni krakkar, þegar ASÍ og SA eru í andlegum sleik dag eftir dag eins og ástfangnir unglingar, þá hringja bjöllur.

Þær hringja hátt!

Nú þarf heldur betur að kanna hvað er í gangi.

Og þannig er nú það.

Komminn.


mbl.is „Allir þurfa að standa saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanlegur höfuðverkur

Icesave málið er ekki fyndið.  Það er ekki hægt að kreista út úr því skoplegan vinkil hvernig sem ég reyni.

En sumar fréttir um alvarleg málefni geta fengið mig til að brosa, út í annað.

Fyrirsögn þessarar fréttar er óneitanlega öðruvísi.

Blaðamennska?  Spá?  Von um eitthvað?  Er komin hugsuður í fréttirnar?

"Hugsanleg mótmæli á Austurvelli", segir Mogginn.

Ég ætla að vona að þeir fari ekki að skrifa mikið af fréttum um "hugsanlega" atburði.

Annars ætla ég að biðja ykkur um að hringja ekki í mig eftir kl. 22.03 í kvöld.

Ég verð með hugsanlegan höfuðverk.

Frusssssssssssssssssssss

Cry me a river.


mbl.is Hugsanleg Icesave mótmæli á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju?

Ég er sammála þessari greiningu Berlingske í dag.

Þar segir að þótt ekki nema tíundi hluti ásakana á hendur útrásarvíkingunum standist þá sé sennilega um að ræða stærsta svikamál Evrópu frá seinni heimstyrjöld.

Þetta vitum við íslenskur almenningur og það sem meira er, afleiðingarnar gefa okkur utanundir í formi skertra lífskjara, atvinnuleysis, fátæktar og óvissu, á hverjum einasta dagi.

Merkilegt samt að miðað við stærð málsins, áhrif þess á Ísland og fleiri lönd gargi á mann ef maður er með eðlilega sjón, heyrn og þokkalega áttaður á stað og stund, þá má ekki við neinu hrófla.

Af hverju eru eigur þessara glæpahunda ekki frystar á meðan rannsókn fer fram?

Af hverju er eina lausnin að afhenda reikninginn íslensku þjóðinni?

Af hverju situr enginn á bak við lás og slá?

Af hverju, af hverju, spyr ég eins og sá bjáni sem ég er.

Með þessu áframhaldi ná þessir blekkingameistarar að koma undan hverri krónu.

Jabb, og við borgum.

Það er fjandinn hafi það ekki öðruvísi.

 


mbl.is Stærsta svikamál frá stríðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru landráðamennirnir?

Ég er bandbrímandibrjáluð út af Icesave málinu, eins og vel flestir, að ég hygg.

En Egill Helgason hefur til síns máls og það allnokkuð á blogginu sínu um Icesave.

Við getum einfaldlega ekki neitað að borga nema með þeim afleiðingum að verða ein og vinalaus.

Salvör Gissurardóttir kallar Steingrím J. landráðamann.

Væntanlega fyrir að reyna að semja okkur út úr þessu messi.

Vá, sú er ekki að skafa utan af því.

Það var svona fyrirkomulag í gangi þegar böðullinn hengdi bakarann í stað smiðsins.

Það var þetta sem byssumaðurinn flaskaði á þegar hann skaut vesalings sendiboðann.

Ég myndi aldrei kalla hina eiginlegu sökudólga landráðamenn, eins og t.d. Davíð Oddsson, Geir Haarde og Valgerði Sverrisdóttur, sem var bankamálaráðherra þegar bankarnir voru afhentir um árið og leikurinn með fjöreggið hófst.

Ég kalla þau ekki landráðamenn þó þau séu það sennilega og fleiri með þeim.Devil

Það er af því að ég er svo vel upp alin.Halo

Aular.

Þessi færsla fer í flokkinn "Landsbankadeildin", er hún ekki fyrir það annars?

 

Hvarflar ekki að kjafti hér að kalla spillingarhyskið sem hefur gert okkur gjaldþrota og skemmtir sér nú á snekkjum heimsins, bölvaða Quistlinga?

Ha?


mbl.is Icesave-samningur gerður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rekin

Ég er atvinnurekandi með tuttugu manns í vinnu.

Á mánudaginn er ég að hugsa um að reka staffið eins og það leggur sig.

Jabb, ég ætla að gera það.

Að þessu sögðu, er ég farin aftur út í sólbað.


mbl.is 20 manna hópur vinnur við mál Íslands hjá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má blóta

Á fólk núna að hópast út á götur borgarinnar, syngjandi og dansandi með rós í munni, til að fagna að frystingu eigna Landsbankans verði nú mögulega aflétt?

Eigum við að trúa því að það sé komin lausn í málið sem við getum sætt okkur við?

Sú lausn er einfaldlega ekki til gott fólk.

Ég veit ekki með ykkur, en ég svona prívat og persónulega hafði aldrei heyrt á Icesave minnst fyrir bankahrun.

En miðað við eftirmálin þá var þetta mitt mál, mín ábyrgð.

Haarde og kó hefðu nú getað sagt okkur fíflunum á götunni að líf okkar og efnahagur væri undir fyrir gullétandi Landsbankaklikkhausana, svo við vissum að minnsta kosti að það væri búið að veðsetja okkur og börnin okkar.

Eins og þetta milljarðaklúður sé ekki nægjanlegur biti fyrir okkur að kyngja þá munu glæpajurtirnar í Landsbankanum vel flestar vera þar enn við vinnu og ég vona að helvítis málmgræðgin í þeim valdi þeim illilegum meltingartruflunum og það að lágmarki.

Við eigum þessa banka, burt með þetta lið.

Ég get ekkert verið málefnaleg í þessu máli, það er engin glóra í þessu fyrirkomulagi frá upphafi til enda.

Það má blóta.

Gremja mín beinist þangað sem hún á heima, að þeim stjórnmálamönnum sem bjuggu í haginn fyrir bölvaða glæpahundana sem gjörspilltir hegðuðu sér eins og engin væri samviskan.

Í mínum huga eru þessir stjórnmálamenn sem hönnuðu bankaumhverfið og veðsettu okkur eins og nú er ljóst orðið ekkert minna en landráðamenn.

Og mikið helvíti er holur hljómurinn í vandlætingartali Framsóknar- og Sjálfstæðismanna á þinginu.

Ég bið fólk að halda því til haga að þar fara arkitektarnir að bankageðveikinni.

Nú standa þeir í ræðustól þingsins, bláir í framan af vandlætingu og láta eins og innblásnir trúarnöttarar sem láta sig raunveruleika og staðreyndir engu varða.

Urrrrrrrrrrrrr


mbl.is Frystingu eigna aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 2987761

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.