Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Loksins!

Loksins, loksins, eitthvað jákvætt.

Ég reikna auðvitað með að þetta tilboð Bretanna verði þegið með þökkum.

Svei mér þá ef það verður ekki til þess að maður fer að anda léttara.

Mér vitanlega á "Serious Fraud Office", enga frænda, klíkubræður, maka eða flokksbræður í bönkum og skilanefndum.

Ég treysti þeim.

Loksins eitthvað jákvætt segi ég enn og aftur.

Gleði, gleði, gleði og það á sjálfan gleðidaginn.

Úje.


mbl.is Bretar bjóða aðstoð við rannsókn á bankahruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn stemmari fyrir Sigurði?

Bankaguðinn (guðisélof fyrrverandi) Sigurður Einarsson, sem var kvóteraður upp um alla veggi í Kaupþingi slær einfaldlega ekki í gegn nú um stundir.

Skrýtið!

Það er einhvern veginn enginn stemmari fyrir manninum.

Deutsche sagður hafna skýringum Sigurðar.

Þjóðverjar merkilegt slekti.

Sigurður Einarsson er með bullandi framboð á sjálfum sér og eftirspurnin er engin.

Merkilegt.


mbl.is Deutsche sagður hafna skýringum Sigurðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skellt í lás

Ég hef oft talað mér til hita og blóðþrýstingshækkunar um s.k. hjálparstofnanir.

Þá á ég við góðgerðarstofnanir sem gefa bágstöddum að borða.

Ekki misskilja mig, bæði Fjölskylduhjálpin og Mæðrastyrksnefnd hafa eflaust bjargað mörgu og ég er svo sannarlega ekki að gagnrýna það góða starf.

Það er hins vegar hugmyndafræðin sem stendur í mér.

Ég er einfaldlega með þá skoðun að hvert samfélag sem vill geta staðið undir sjálfu sér með stolti byggi félagslegt net sem sér til þess að enginn þurfi að standa í röð og fá afhentan mat fyrir sig og sína upp á von og óvon.

Ég geri þá kröfu til samfélagsins að það láti ekki þegna sína svelta.

Ég hafna súpueldhúsahugmyndinni þar sem ráðamenn geta hallað sér aftur í leðursófanum og látið vandamálið renna yfir til félagasamtaka sem eru upp á gjafir og velvilja komnar.

Aldrei varð þetta ljósara fyrir mér en einmitt í síðast liðnum mánuði.

Þá fóru öll góðgerðarfélögin (kirkjan þar með talin) í sumarfrí.

Alls staðar skellt í lás - ekkert að hafa fyrir þurfandi fjölskyldur.

Áður en einhver fer á límingunum þá er ekkert að því að fólk og félög fari í sumarfrí en þetta sýnir bara að kerfi sem byggir á velvilja og styrkjum getur ekki gengið upp sem bjargráðalausn.

Það er hægt að spara út um allt.

En vinsamlegast sparið flottræfilsháttinn og bætið kerfið fyrir þá sem eiga ekki mat fyrir sig og sína.

Það er hreinlega skömm að þessu.

Þetta er aumingjaskapur sem við höfum ekki efni á.

Og hana nú.


mbl.is Búast við mikilli fjölgun beiðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfingin án þingmanna?

Ég slökkti á tölvunni í dag og hef ekki getað hugsað mér að fara inn á netið þar til núna.

Þá kveikti ég á apparatinu með hálfum hug.

Málið er að við frétt á Eyjunni þar sem sagt er frá viðtali við Þráinn Bertelsson eru árásir og ærumeiðingar gagnvart þingmanninum svo magnaðar í athugasemdakerfinu að mér varð ekki um sel.

Langaði ekkert að vera með í netgeiminu þarna um stund.

Nær allar þessar svívirðingar voru án nafns auðvitað.

Níðingar sem ráðast að fólki í skjóli nafnleyndar.

Fyrir það eitt að standa við þau kosningaloforð sem hreyfingin gaf fyrir kosningar.

En ég er hætt að skilja Borgarahreyfinguna.

Þingmenn tala saman í gegnum fjölmiðla en mæta ekki á félagsfundi hreyfingarinnar.

Eins og þetta horfir við mér þá er það fyrst og fremst þingflokkurinn sem er að kljúfa sig frá grasrótinni.

Í pistli á heimasíðu sinni sem Margrét Tryggvadóttir skrifar í kvöld segir hún Þráinn Bertelsson velkominn í samstarfið á ný.

"Margrét segir Þráinn ítrekað hafa hundsað fundarbeiðni flokksmanna frá því að ágreiningur í Evrópumálum kom upp. Henni þyki leitt „að lesa umræðuna og þá útreið sem hann fær“ þar með talið á vefsíðunni eyjan.is í dag. Von hennar sé „að félagar í hreyfingunni hafi ekki tekið þátt í þeim ærumeiðingum“."

Ég er ansi hreint hrædd um að Margréti verði ekki að von sinni því mér sýnist einmitt að þarna séu kjósendur BH hvað háværastir.

En það er hálf undarlegt að vera að kvarta um að Þráinn mæti ekki á boðaða fundi en mæta svo ekki sjálf á fund í eigin baklandi.

Þegar allt logar þar stafna á milli.

Reyndar hef ég skilning á að Þráinn Bertelsson sitji heima því ef einhvern tímann hefur verið í gangi einelti á þingmanni þá  er það núna.

Birgitta Jónsdóttir ætti kannski að kíkja á það mál.

Kannski er Borgarahreyfingin orðin án þingmanna.

Eða kannski ég orði þetta öðruvísi.

Að þingmenn Borgarahreyfingarinnar séu orðnir án grasrótar.

Það er nefnilega mun alvarlega mál fyrir þá sko.


mbl.is Margrét tjáir sig um fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úúúúúú

 falin

Leitað er að fullorðnum manni í frakka.

Brúnum frakka.

Eru ekki allir að leita?

Maðurinn mun hafa dúndrað rauðri málningu á hús Hreiðars Márs í Hlyngerði.

Svo er auglýst eftir vitnum.

Úúúú..

Maður verður bara hræddur.

Ekki þverfótað fyrir hættulegum glæpamönnum í þessari borg.

Þetta hefur örugglega verið atvinnulaus iðnaðarmaður að flikka upp á umhverfið bara.


mbl.is Sást skvetta málningu á húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er ég hissa.

Ég hef alltaf talið að það yrði að landa Icesave-málinu á einn eða annan hátt.

Og mér á eftir að létta þegar það ljóta, vonda, skelfilega og rándýra mál er frá, ef það er hægt að tala um að það sé frá.  Það fer auðvitað ekki langt.

En svona er raunveruleikinn.

Nú segja Birgitta og Pétur Blöndal að samningsfjandinn verði studdur með sterkum fyrirvörum.

En ég er satt best að segja alveg stein hissa yfir þessum viðsnúningi hjá Birgittu Jónsdóttur.

Hvað með landráðapappírana og leyndarmálin sem þau töluðu um í Borgarahreyfingunni og gerðu það að verkum að það mátti ekki afgreiða Icesave fyrir nokkurn mun?

Sannleikurinn í málinu sem kom í veg að þau gætu stutt aðildarviðræðurnar við ESB?

Leyniskjölin þið munið!

Eru þau horfin upp í reyk?

Maður spyr sig.


mbl.is Styðja Icesave með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei hægt að fyrirgefa

Flott framtak hjá Mogga að setja inn Icesave-reiknir.

Það er ef fólk hefur taugar til að velta sér upp úr þessum hroða.

Eftir fréttir og Kastljós gærdagsins ásamt öðrum fréttum af því sem hér hefur gerst er mér algjörlega nóg boðið.

Ég hef ekki tölugreind sem nægir mér til að meðtaka þessar stóru upphæðir.

Ég skil núna að ég þarf að eiga tæpar 700 þúsund til að borga minn hluta í gjaldþroti Björgólfs.

Meira til, til að slengja út fyrir Icesave.

Almættið veit hvað Kaupþingsstrákarnir og allir hinir eru búnir að fokka miklu upp til að gera mig nánast gjaldþrota.

Þetta er orðið persónulegt.

Samt er ég ekkert svo rosalega reið út í glæpamennina og stórþjófana eins og ætla mætti.

Málið er að ef þú átt demantaverslun og skilur hana eftir opna og ferð í kaffi eða á skíði bara, þá er varla hægt að lá þjófunum sem láta greipar sópa á meðan er það?

Þess vegna beinist reiði mín fyrst og fremst að stjórnvöldum sem á þessum tíma bjuggu til umhverfið fyrir glæpina og að eftirlitsstofnunum sem sinntu ekki hlutverki sínu.

Þeirra ábyrgð er stór og svei mér þá ef það er nokkurn tímann hægt að fyrirgefa.


mbl.is Icesave-reiknir á Mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegt PR

Almættinu, Óðni, Þór og Tý sé lof fyrir konu eins og Evu Joly.

Ekki veitir af á meðan blaðafulltrúi Jóhönnu er á þessari línu.

Vá, var hann ráðinn til að reyta fylgið af Samfó og koma okkur í enn meira klandur úti í hinum stóra?

Maður spyr sig.


mbl.is Joly tókst það sem öðrum tekst ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt núll fyrir almenningi

Eitt núll fyrir almenningi hérna.

Skilanefnd og bankastjóri Nýja Kaupþings hefur ákveðið að höfða ekki staðfestingarmál vegna umfjöllunar RÚV um trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini.

Ég leyfi mér að halda því fram að þetta hefi ekki verið vegna þess að þeir Kaupþingsmenn sáu ljósið og þá meina ég að þeir hafi horfst í augu við hversu yfirgengilega heimskuleg þessi aðgerð var.

Nei, ég held að þeir hafi óttast áhlaup á bankann.

En það er bara ég með minn bankafjandsamlega hugsunarhátt.

Gott mál.


mbl.is Falla frá lögbanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raupið í Eyjamönnum

Vistmannaeyingar mega halda sínar þjóðhátíðar í góðu lagi fyrir mér og fá helminginn af þjóðinni í heimsókn ef þeir vilja en...

Ég hendi sjónvarpinu í vegginn ef þessum áróðri frá þjóðhátíð fer ekki að linna í fréttatímum beggja stöðva.

Þar er núna á hverju kvöldi talað við mótshaldara í Eyjum sem tíunda dásemdina.

Segja þetta himnaríki á jörðu.

Veðurguðirnir elski sig.

(Í fyrra rigndi eldi og brennisteini, þá snéru þeir því upp í lofsöng líka, það var nefnilega svo gaman á þjóðhátíð að veðrir skipti ekki nokkurn kjaft neinu máli).

Þeir séu svo frábærir mótshaldarar.

Að toppurinn á tilverunni sé einmitt í Vestmannaeyjum um þessa helgi.

Með tilkomu Bakkafjöru geti þeir tekið á móti miklu fleirum af því þeir eru svo klárir í skipulagningu út í eyjum offkors.

Sjálfhælnin hefur engan hnekki boðið í Vestmannaeyjum þrátt fyrir að Íslendingum hafi verið kippt frekar ákveðið niður á jörðina í hruninu.

Sko gott fólk..

í paradís á jörðu eru ekki kærðar nauðganir,

þar eru heldur ekki kærðar alvarlegar líkamsárásir,

þar eru ekki allar fangageymslur fullar

ég reikna heldur ekki með að í paradís á jörðu teljist nefbrot og þvíumlíkir áverkar til minniháttar.

Um að gera að vera ánægður með sig en þarf maður að hlusta á raupið í hverjum fréttatíma?

Þetta er eins og auglýsing frá ferðamálaráði Vestmannaeyja.

Ókeypis á prime time.

Get over your selves - arg.


mbl.is Illa barinn á þjóðhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30