Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Á DAUÐA MÍNUM ÁTTI ÉG VON..

22

..en að ég yrði einhverntímann sammála ofurbloggaranum Ómari R. Valdimarssyni, talsmanni Impregilo á Íslandi.  En það gerðist bara núna í morgun.  Ómar skrifaði færslu um ósiðsamlega auglýsingu Öryggismiðstöðvarinnar, eins og undirrituð (sbr. færslu hér fyrir neðan).  Öryggismiðstöðin sendi Ómari útskýringu á málinu og ég vona að ég hafi mátt kopíera það af síðunni hans.  Þeir segja eftirfarandi:

"Auglýsingarnar eru gerðar með skriflegu samþykki og fullri þátttöku Lalla. Sú hugmynd vaknaði að fá hann til að lýsa veruleika innbrotsþjófa í forvarnarskyni. Eftir að hugmyndin var borin undir hann hugsaði hann málið og ákvað svo að nýta sýna reynslu öðrum til varnaðar.

2. Lalli Johns fékk greiðslu fyrir þátttöku í auglýsingunum og var sú greiðsla algjörlega í samræmi við það sem tíðkast fyrir slík störf. Rík áhersla var lögð á að hvergi væri gengið á rétt hans.

3. Leitast var við að hafa aðkomu Lalla Johns í auglýsingunum þannig að honum væri ávallt sómi sýndur og samráð var haft við aðstandendur hans um birtingu auglýsinganna.

Auðvitað er eðlilegt að fólk hafi misjafnar skoðanir á gæðum auglýsinga. Ég vildi þó koma þeim punktum vel á framfæri að þátttaka Lalla Johns í þessari herferð er bæði honum og okkur til sóma og hvergi á hann hallað.  

Ég vona svo að Lalli Johns haldi áfram á braut bata og nái góðum tökum á lífi sínu. Hver veit nemi hann geti nýtt reynslu sýna enn frekar í forvarnarskyni og snúið þannig alfarið á braut betra lífs."

 

Hvað getur maður sagt.  Ég bjóst ekki við að þetta fyrirtæki hafi gert þetta í óþökk Lalla en siðlaust er það jafnt fyrir það.  Skemmtilegt fyrir son Lalla á fermingaraldri að sjá föður sinn á heilsíðuauglýsingum og í sjónvarpi sem þjófavörn. 

Iss þvílíkur gjörningur.

 

 

 


AFMÆLISPARTÍIÐ Í LONDON UPP Á ÞRJÁ ÞYRLUPALLA

Nú hér kemur svo lokasyrpan frá hátíðahöldunum í London vegna afmælisins hans Olivers.  Eins og allir merkir menn þá var mikið "hålligång" í kringum hátíðina og minnst 3 þyrlupallar voru smíðaðir til að koma fólki sómasamlega í afmælið. 

Án gríns þá átti Oliver yndislegan afmælisdag, fékk fullt af pökkum, afmælisgestir sömu stærðar og hann sjálfur streymdu að, flestir með lífverði.  Njótið:

0108022

 

1004401

Svona gaman og skemmtilegt var í þessar flottu afmælisveislu.  Knús til ykkar allra.


GEIRJÓNA KOMIN TIL AÐ VERA?

22

Samkvæmt Mogganum í dag er líklegast að stjórnin sitji áfram.  Þokkagyðjan Geirjóna ætlar að halda áfram að stjórna landinu þrátt fyrir að vera alvarlega löskuð öðum megin.  Ég öðlaðist fíflalega trú á mannkynið eftir að Jón Sig. sagði að ekki kæmi til greina fyrir Framsókn að fara í stjórn eftir að hafa goldið þetta afhroð á laugardaginn.  Nú er ég að tapa henni aftur.  Ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta þjóðarinnar á bak við sig og ef rétt reynist þá ætlar Geir Haarde að blása á beiðni stórs hluta þjóðarinnar um breytingar.  Skömm er að ef rétt reynist.  En Mogginn segir frá þessu og ekki dettur nokkrum í hug að hann sé að fara með fleipur? 

Geirjóna er komin til að vera og hún blæs á það hvort hún sé velkomin til dvalar eður ei.  Þessi kvensnift er með þeim þrásetnari kjéddlingum sem ég þekki.


mbl.is Líklegast að stjórnin sitji áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OG Í SKAMMARKRÓKINN FER...

22

... Öryggismiðstöðin og fær að dúsa þar lengi.  Þetta fyrirtæki er svo smekklegt að það birtir sjónvarps- og blaðaauglýsingar sem skarta mynd af Lalla Djóns þar sem stendur "Hver vaktar þitt heimili?".  Ég held að allir íslendingar þekki til ömurlegra aðstæðna Lalla og finni til með honum.  Líf hans hefur verið erfitt frá því að hann vistaðist á stofnunum fyrir börn og síðan unglinga.  Flestir þekkja þá hörmungarsögu margra fórnarlamba eftir ítarlega umfjöllun fjölmiðla og þá helst Kastljóss.  Að slá sér upp á neyð annarra, misnota sér aðstæður fólks, er klárt siðleysi og mér þætti gaman að vita hvað þeir hafa borgað Lalla fyrir viðvikið.  Ég vona að þessar auglýsingar segi meira um fyrirtækið en Lalla.  Ég leyfi mér að trúa því að fólk vilji ekki skipta við svona menn.

Svo var nú það.


JÓN KEMUR BÓKSTAFLEGA AF FJÖLLUM

Jón Sig. formaður Framsóknar, fullyrðir að ekki hafi viljandi verið vegið að Steingrími J. í kosningabaráttu flokksins.  Þetta kom fram í Kastljósi kvöldsins en Steingrímur J. krafði Jón um afsökunarbeiðni vegna persónulegra árása á sig í kosningabaráttu flokksins.  Jón sem er ábyggilega hinn mætasti maður, ætlar samt að kynna sér málið á grundvelli staðhæfinga Steingríms J.  Það voru ekki bara við VG sem ofbauð t.d. "grænakarlsauglýsingin" þar sem Steingrímur var hálfafmyndaður í framan.  Vel flestum sem ég hef talað við fannst þetta í hæsta máta óviðeigandi og þarna var stigið út úr þeim ramma sem íslenskar kosningaauglýsingar hafa verið í.  Þarna var í fyrsta skipti ráðist að persónu einstaklings og mér fannst það ömurlegt.  Þetta má benda Jóni á til glöggvunar nú þegar hann ætlar að kanna málið.

Mikið skelfilega er annars gott að þessi kosningabarátta skuli vera að baki.  Hún er eins og jólin.  Kona ætlar að springa úr tilhlökkun í töluverðan tíma, hamagangurinn tekur á sig geðveikislegar myndir, jólin koma og líða með hraða ljóssins og svo.... úff andlegir timburmenn fram í febrúar.

Síjúgæs!


mbl.is Steingrímur krefur Jón um afsökunarbeiðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÁRNI STROKAÐUR ÚT?

Nú er búið að staðfesta að strikað hefur verið yfir nafn Árna Johnsen á milli 21%-22% atkvæða D lista í Suðurkjördæmi.  Það verður forvitnilegt að sjá hvaða þýðingu allar þessar útstrikanir hafi.  Annars er ég sammála Steingrími J. það er mun geðslegra að fólk geti númerað frambjóðendur á lista í staðinn fyrir að geta strikað út eins og nú er.  Það er mun jákvæðari aðgerð. 

Burtséð frá þessu þá heyrist mér á öllu að það þurfi að endurskoða kosningalögin.  Sama gildir um kjördæmaskipanina. 

En það eru fjögur ár þar til næst. 


mbl.is 22% strikuðu yfir Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DRYKKJUHVATNING UM HÁBJARTAN DAG!

22

Sjónvarpsdagskráin "Dagsbirtan" væntanlega með vísun í Birtu þeirra DV manna sem lagði upp laupana í fyrra hefur komið fram á sjónarsviðið.  Dagskrá þessi er alveg ótrúleg að gerð, textinn eins og ómálga barn hafi séð um hann en þessu gerði hin stórskemmtilega www.skessa.blog.is góð skil í síðustu viku.  Það var ekki annað hægt en að hlægja sig máttlausan að lélegu orðfæri þess sem blaðið skrifar.  Nú í þessari viku halda bommerturnar áfram í blaðinu en nú m.t.t. efnis blaðsins (rithátturinn er enn með ólíkindum) og mér er spurn hvort það er allt í lagi með þá sem að blaðinu standa.  Er þetta einn stór brandari eða er þarna fólk á ferðinni sem ætti heldur að BERA út Dagsbirtuna í staðinn fyrir að skrifa í hana?

Það sem vakti athygli mína var umfjöllun um Júróvisjón, aðallega tillögur að Júróvisjón partíleikjum.  Ég hefði nú verið búin að blogga um þetta fyrr en kosningarnar hafa tekið hug manns allan.  Ég hef ekki farið í launkofa með að ég er óvirkur alki, enda engin ástæða til.  Það þýðir þó ekki að ég sé fanatísk gagnvart áfengi en ég veit af eigin raun og þekki til að misnotkun á áfengi krefst ótrúlegra mannfórna í samfélaginu og tekur fjölda lífa með beinum eða óbeinum hætti á hverju ári.  T.d. hef ég á s.l. tveimur árum misst nákomna vini sem beinlínis hafa dáið af völdum fíknisjúkdóma.  Það er sorglegra en tárum taki.  Samfélagið okkar er mjög áfengistengt og mér hefur ekki fundist skorta hvatningu í þá átt að fá fólk til að fá sér í glas.  Tilhneigingin ætti fremur að vera að draga úr neyslu þess einfaldlega vegna þess að ofdrykkja er mikið vandamál meðal stórs hóps fólk.

Þess vegna varð ég kjaftstopp þegar Dagsbirtan hvetur til ofneyslu áfengis á mjög opinn og frjálslegan máta.  Á maður að hlægja eða gráta?  Kona spyr sig.

Gjörsvovel, hér kemur hvatningin:

"Partýleikir.  Leikur 1

Skrifaðu niður heiti allra landanna sem eru með í úrslitum á miða og láttu gestina draga miða þegar þeir koma inn.

Leikurinn gengur út á það að þegar þitt land fær stig þá drekkur þú jafn marga sopa og stigin sem landið fékk.

Svo er hægt að hafa allskonar leikfléttur, til dæmis að sá sem fær 12 stig tekur eitt skot (W00t) Þeir sem fá 10 stig og 12 stig geta líka gefið öðrum af sínum sopum.  En hafa skal í huga að ekki er æskilegt að gefa ALLA sopana heldur kannski hafa sem reglu að þú verðir að eiga fyrstu 6 sopana."

Vá vesalings þeir sem lenda á efstu löndunum.  Þeir koma til með að verða FULLIR!  Maður getur reiknað út sjússa fram og til baka.  Hvað um það, er þetta fólk sem skrifar í blaðið komið með aldur til að fara í ríkið?  Ekki nóg með að þetta sé ósmekklegt heldur er þetta með plebbalegri uppástungum sem ég hef lesið um lengi hvernig á hafa gaman saman.  Það er auðvitað "dagsljóst" að þeir sem drekka áfengi í hófi munu ekki fara í ofannefndan leik eða leiki svipaða þessum.

P.s. Greinarhöfundur ráðleggur fólki sem ætlar að hafa áfengi um hönd (ef áfengi SKYLDI haft um hönd) þá er best að vera búinn að koma börnunum fyrir.  OMG ætli það kvikni alltaf í eða húsið hrynji um leið og sá sem heldur á pennanum fær sér í glas? 

 


MYNDASYRPA FRÁ LONDON..

..eins og ég var búin að lofa.  Þessar eru frá því í gær en sjálft afmælispartíið verður í dag.  Ég vinka Oliver, Maysunni, Robba og ömmu-Brynju sem lét sig hafa það seint í gærkvöldi að setja inn myndir fyrir Granny-J á Íslandi.

464845

 Ég vaknaði 2 ára gamall!   Ég og mamma pósum fyrir Granny-J  Amma-Brynja náði í mig í skólann.

472223

 Á leið í afmælislunch         Fjölskyldan Oliver!!                       Flottur afmælisís Vááááá....

50

Ég rotaðist eftir daginn, á morgun verður partý!

OLIVER ER BARA SÆTASTUR OG KNÚS FRÁ GRANNY-JWizard


FRAMSÓKN FALLIN!

Þetta var nú meiri nóttin.  Ég er á mörkunum með að þurfa áfallahjálp eftir óvissu næturinnar.  Framsókn er hefur goldið afhroð og þar á bæ hafa menn lýst því yfir að þeir munu ekki fara í stjórn. Ég er ekki hissa á fylgishruni flokksins, þetta lá í loftinu og nú liggur það fyrir.

Það er svo margt sem er í óvissu eftir þessar kosningar.  Fer Árni Jhonsen niður á lista vegna útstrikana og hvað með Björn Bjarnason?

Samfylkingin kemur ekki nógu vel út en stendur þokkalega miðað við allar hrakspárnar.  Til hamingju með það.

Við VG erum ótvíræðir sigurvegarar kosninganna. Það kemur ekki á óvart.  Okkar kosningabarátta hefur skilað sér ágætlega þó því sé ekki að neita að ég hefði viljað sjá meira fylgi.

Frjálslyndir hafa fest sig í sessi.  Ég get þó ekki glaðst yfir því að Jón Magnússon skuli vera orðinn þingmaður en svona fóru kosningarnar og úrslitin ber að virða.  Ég hefði gjarnan viljað sjá Ómar Ragnarsson hafa haft erindi sem erfiði en við því er ekkert að gera.

Þar sem Jón Sigurðsson, Valgerður Sverris og fleiri frammámenn í Framsóknarflokknum hafa lýst því yfir að ekki komi til greina að fara í stjórn með allt þetta fylgistap þá er stóra spurningin hverjir munu mynda nýja stjórn?  Spyr sá sem ekki veit.  Þetta er rosalega spennandi og nú er að bíða og sjá hvað gerist næst.  Stjórnin lafir en það er siðferðilega rangt ef flokkur sem er svo illa rasskeltur eins og Framsókn er að loknum þessum kosningum,  fer í stjórn.  Það væri beinlínis aðför að lýðræðinu.  Kjósendur sendu þeim skýr skilaboð.  Farið í hvíld, endurvinnslu, á heilsuhæli eða eitthvað og skoðið ykkar mál.  Stjórnarandstaða er það sem koma skal fyrir Framsókn og ekki væri verra ef íhaldið eftir 16 ára stjórnarsetu þekkti líka sinn vitjunartíma í þessum efnum.

 


ÉG HANGI STJÓRNIN LAFIR

22

Ég hangi varla uppi en sit límd við sjónvarpið og þori ekki að hreyfa mig.  Stjórnin lafir enn þrátt fyrir að vera í minnihluta prósentulega séð.  Mér fannst það rétt þegar Jón Sig. sagði að það væri ekki möguleiki að Framsóknarflokkurinn færi í stjórn eftir það afhroð sem hann hefði goldið.  Tveim tímum síðar sagði hann að Framsókn myndi ekki víkjast undan ábyrgð.  Ég er sammála Agnesi Bragadóttur sem sagði að flokkurinn væri svo þyrstur í völd að hann myndi hoppa í stjórn ef það væri í boði.

Nú bíð ég þar til eitthvað fer að skýrast.  Ef ég dett ekki út fyrir framan sjónvarpið.  Þvílík nótt, þvílík spenna og það er ekki að létta á henni.

Smútsj frá mér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.8.): 7
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 168
  • Frá upphafi: 2988320

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 166
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.