Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

NAUÐSYNLEGUR LÆKNIR Á HVERT HEIMILI

small (1)

Hann www.ragnarfreyr.blog.isþe matglaði læknirinn og bloggvinur minn er að gera mig brjálaða.  Hann setur inn hverja dásemdina á fætur annarri í kræsingum og ég er alltaf svöng eftir að ég er búin að lesa færslurnar hans.  Nú er það Pavlova.  Það eru terturnar hérna fyrir ofan.  Djísús ég er sykursjúk og má ekki svona marengsdæmi eitthvað.  Lífið er tík og ekki bara pólitik.  Þetta er að fara verulega illa með mig.  Ég ætla samt að baka svona Pavlovu næst þegar ég svindla en það gerir ég reglulega með löngu millibili og ég brýt af mér með mjög einbeittum og allt að því agressívum brotavilja.

Annars eru uppskriftir mannsins vart af þessum heimi margar hverjar.  Ragnar Freyr hefur bjargað lífi mínu í kjúklingadeildinni svo eitthvað sé nefnt.  Varíasjónirnar eru óteljandi.

Konan hans er ekki síðri kokkur þegar hún kemst að í eldhúsinu (er í lagi með okkur hin? Mörg hver á stöðugum flótta undan eldavélinni).

Ég hef eldheita matarást á þessum hjónum og ég þekki þau ekki nokkurn skapaðan lifandi hræranlegan hlut.

Namminamm!


ÞVOTTAHÚSIÐ NÆSTA!

23

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan, lenti ég í alvarlegum raunum fyrir ekki svo löngu síðan þegar ég rakst á könguló í þvottahúsinu.  Reyndar var köngulóin ekki könguló heldur rykrotta sömu stærðar og Amasonköngulærnar (þessar sem éta fugla, þið vitið).  Nú af skiljanlegum ástæðum reyni ég að fara eins sjaldan og kostur er í þvottahúsið vegna hættu á hittingi við köngulær og aðra óvætti.  Rykrottukvikindi þótt dautt sé getur gert mig jafn hrædda og könguló.  Það er mikið af þeim í þvottahúsinu. 

Nú er ég sem sagt á leið í þvottahúsið skjálfandi á beinunum.  Ég sagði húsbandinu að ef ég væri ekki komin upp um kvöldmatarleytið að senda þá út hjálparsveitina.  Maðurinn hefur á þessu fullan skilning og mun að sjálfsögðu kalla eftir hjálp.  Ef ég blogga ekki meira í dag þá er það ekki vegna efnisskorts heldur einfaldlega af því ég verð dúsandi og snarlæst inni í þvottavélinni eftir magnaðan flótta við eiturköngulær sem éta konu eins og mig í forrétt.  MuhahahahahaW00t


BLOGGISMINN AÐ DREPA MIG

22

Ég er að drepast úr bloggisma.  Mér liggur svo margt á hjarta.  Ég nenni heldur ekki að gera neitt af því sem ég á að gera, er bara búin að planta mér við tölvuna.  Sko ég var að velta því fyrir mér hvort það sé almenn vitneskja um hvað er gert við öll atkvæðin þegar búið er að kjósa, skoða útstrikanir og allan þann ballett?  Ef það er almenn vitneskja þá er ég óalmennileg í meira lagi því ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma vitað um afdrif allra þessara pappírssnepla.  Þetta er góður skiki af skógi og kominn tími á að kjósa vefrænt.  Burtséð frá því, eru atkvæðin brennd, sett í endurvinnslu (þá hvar?) eða er þeim staflað upp í Þjóðarbókhlöðu eða á Skjalasafninu? Ég er bakgrunnsmanneskja, horfi alltaf af mikilli athygli á það sem er að gerast á bak við aðalleikarana í bíómyndum.  Þess vegna er ég svo upptekin af örlögum atkvæðanna eftir kosningar.  Segið mér frá fólk!

Bloggvinatiltekt vikunnar hefur farið fram.  Ég er fjórum bloggvinum fátækari en þúsund sinnum ríkari samt því mínir alvöru bloggvinir eru mega!  Þeir eru skemmtilegir, alvarlegir, hádramatískir, brjálæðislega fyndnir, grátbroslegir og ALDREI leiðinlegir.


SKÁL Í NAFNI ALLAH

22

Vó, vó!  Það er eins gott að passa sig ef maður ætlar í heimsókn til föðurlandsins Írans.  Kúrdi frá Íran sem búsettur er í Drammen í Noregi var að heimsækja móður sína í Baneh í Íran en lögreglan sá hann drekka bjór.  Hann var færður á löggustöðina og fékk 130 svipuhögg fyrir tiltækið og voru þau afhent á staðnum.

Ég er ekki á leiðinni til Írak en ef svo undarlega vildi til þá er eins gott að ég haldi mér edrú áfram og í góðum bata því ég vil alls ekki láta berja mig í sumarfríinu.

Úff umboðsmenn Allah svo svakalega refsiglaðir eitthvað.


mbl.is 130 vandarhögg fyrir að drekka bjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FARÐU WATSON, FARÐU!

21

Nú þarf heimavarnarliðið að skella sér í kraftgallana með Björn í fararbroddi, geysast niður á uppfyllingu og garga:  "Go home you whalelover Watson you" og leggja þunga í orðin.  Án gríns af hverju erum við að púkka upp á hvalveiðar svona yfirleitt?  Þetta er blóðug atvinnugrein í orðsins örgustu, vond lykt og svona og svo vill enginn kaupa hvalinn.  Það er liðinn tíð að það teljist til einhvers "hvalreka" að geta keypt svona ódýrt kjöt.  Það er lýsisbragð af hvalkjöti ég fer ekki ofan af því.  Mamma var nokkuð slungin í að plata hvalkjöt ofan í fólk með því að segja að þarna færi nautakjöt.  Mamma er listakokkur og flestir trúðu henni og úðuðu í sig hinu falsaða nautakjöti.  En ekki hún ég.  Fann lýsislyktina í mílnafjarlægð.  Ég er jafn slungin og mamma.  Ég ber enga óttablandna virðingu fyrir Watson, hann má hamast eins og hann vill.  Mér finnst aðeins að það sé ótrúlegur barnaskapur og þvermóðska að halda áfram að veiða hvali einkum og sérílagi með tilliti til þess að engum (nánast) langar í hann.  Leyfum krúttunum að gúffa í sig fiski sjávar í tonnavís.


mbl.is Skip Sea Shepherd leggur af stað áleiðis til Íslands í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AF HVERJU ÞENNAN LEIKARASKAP?

22

Jón og Geir eru að leika sér.  Þeir ætla að vinna saman áfram en láta eins og það sé voða erfitt að komast að niðurstöðu.  Á meðan halda allir niðri í sér andanum.  Eru það örlög okkar að búa við sömu ríkisstjórn næstu fjögur árin?  Það held ég að sé nokkuð ljóst.   Það er hægt að lýsa frati á Framsókn í kosningum, hreinlega afmá þá út af hinu pólitíska sviði en áfram halda þeir.  Við skulum ekki halda kjósendur góðir að við höfum eitthvað um það að segja.  Nanananabúbú segja þeir Jón og Geir og senda okkur langt nef. 

Völvan hennar Gurríar bloggvinkonu spáði einhverju um aðkomu Frjálslyndra að málinu.  Nú bíðum við spennt eftir að þeir verði kallaðir til.  Þetta er nefnilega megamögnuð völva þarna hjá þeim á Vikunni.

Nanananabúbú!


SÍÐHVÖRF Í GANGI?

22

Ég held að ég sé í síðhvörfum.  Síðhvörf er hin hliðin á fráhvörfm hjá ölkum og koma oft eftir töluverðan edrútíma.  Ég er ekki sérfræðingur en ég veit að ég verð að gæta mín með svefn, mat, hreyfingu ofl.  Nú í aðdraganda kosninganna hefur eitt og annað farið úr skorðum. S.s. svefntíminn, maturinn borðaður eftir minni og ég hef farið út að labba þegar ég hef munað eftir því.  Týpískur alki að verða heltekinn af einhverju.  En þannig hef ég nú alltaf verið líka löngu fyrir tíma alkóhólisma.  Nú síðhvörf eru spennuástand og þreyta. Það hringsnýst allt í hausnum á mér.  Ég setti mjólkina inn í pottaskáp í fyrradag og leitaði eins og brjálæðingur og fann hana daginn eftir þegar ég var búin að kaupa nýja. Ég man ekki hvort ég er búin að sprauta mig með insulininu þegar spennan er hvað verst.  Ég fer með ruslapokann út í bíl, gerði það í gær og var komin í Hagkaup þegar ég fattaði að ég var með sorpið meðferðis.  Ég hef í annan tíma gengið á ísskápinn sem stendur ca. 3 cm. út úr innréttingunni (hæfileikarík og hittin hún Jenny), ég hef farið inn í vitlausa bíla, setið og beðið eftir að mér sé svarað í símann án þess að hafa slegið inn númerið.  En ég þekki ástandið og kann að bregðast við því.  Það má sjá á því að kl. er orðin 02,00 og ég fíbblið sit hér og skrifa.´

Mjólkin er komin inn í ísskáp, ruslið á sinn stað, ég þarf ekki að hringja og ég er búin að lesa AA-bókina mína upp til agna.  Á morgun fer ég á fund og ekkert kjaftæði með það.  Guð gefi mér æðruleysi.  OMG.

GúddnætbeibísHeart


BÚIN Á ÞVÍ...

22

..eftir allan spenningin í kringum kosningarnar.  Ég hef farið seint að sofa, vaknað snemma, hugsað um pólitík, bloggað um hana og dreymt um hana.  Nú eru kosningarnar að baki og ég lyppaðist niður.  Úrslitin ljós og virðist ekki vera mikið gleðiefni ef rétt er að Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að lappa upp á stjórnina með Framsókn illa laskaða.  Geir sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld að honum lægi ekkert á, hann þyrfti ekkert að flýta sér.  Halló vinur, hvað með okkur sem kusum? Skiptum við engu máli þegar við erum búin að greiða atkvæði?  Allt í einu er þetta bara einkamál í héraði hjá Geir.

Þrátt fyrir gífurlega andlega þreytu, vökur og vesen gat ég ekki annað en hlegið með sjálfri mér þegar ég hlustaði á Guðna Ágústsson (ekki að ég vilji honum neitt illt) tala við Ögmund um stjórnarmöguleikann VG-Samfó-studd af Framsókn.  Guðna var svo misboðið og hann var svo sár og hann harðneitaði að taka þessari hugmynd sem skellt var fram í bríaríi í afmælispartíi í gær öðruvísi en niðurlægjandi (ég skil hann nú smá karlinn).  Það eru bókstaflega allir að fara á taugum þessa dagana.

Ég sendi Geir hugskeyti hér með, bið hann um að hraða stjórnarmynduninni og taka með sér einhvern þeirra flokka sem kjósendur gerðu ekki heiðarlega tilraun til að þurrka út.  Þeas ef VG eða Samfylking hafa áhuga svona yfirhöfuð.   Svona Geir...komaso


ER ÞETTA BARA LETI Í MANNINUM?

Það skyldi þó aldrei vera leti sem kemur í veg fyrir að Geir hafi áhuga á öðru stjórnarmynstri en því gamla?  Þessu er vísir.is að leiða líkum að þegar þeir skrifa um plottið á bak við endurnýjun á ríkisstjórninni. Þar stendur ma.

"Eftir því sem liðið hefur á daginn hafa líkurnar á að ríkisstjórnin sitji áfram verið að aukast. Margir sjálfstæðismenn hafa óbeit á Ingibjörgu Sólrúnu og vilja ekki vinna með henni Hugmyndin um stjórn með Vinstri grænum þykir nokkuð fjarstæðukennd. Steingrímur og Ögmundur hafa heldur ekki spilað hina pólitísku refskák sérlega vel eftir að úrslit kosninganna urðu kunn. Árásir þeirra á Framsóknarflokkinn eru mjög skrítnar. Minnihlutastjórnir ættu auðvitað að koma til greina hér eins og annars staðar - en tilboð þeirra til Framsóknar er ekki pólitískt klókt."

Merkilegt þetta með óbeitina.  Getur það virkilega verið að um persónulegt antipat sé að ræða í garð sumra kollegana í pólitík?  Hvernig á að vera hægt að bera virðingu fyrir þessu fólki?

PLOTTIÐ:
"Hvernig lítur þetta þá út? Plottið er einhvern veginn svona: Framsókn fer í stjórn, það er óvíst hvað hún tekur marga ráðherrastóla. Fyrir Jón Sigurðsson er þetta lífsnauðsyn. Annars er stuttum tíma hans í pólitík lokið.

Það er líka annað í myndinni - Siv Friðleifsdóttir. Hún styrkti stöðu sína með því að verða eini þingmaður flokksins á höfuðborgarsvæðinu. En flokkseigendafélag Framsóknar vill ekki að Siv fái meiri metorð. Ef Jón þarf að taka pokann sinn er eins líklegt að hún geri aftur tilkall til þess að verða formaður. Með því að fara í ríkisstjórn er hægt að gera Siv óskaðlega. 

Þingmenn Framsóknar eru ekki nema sjö. Það gæti verið praktískt erfitt fyrir flokkinn að starfa í ríkisstjórn. En á því er lausn. Ráðherrar flokksins munu ekki sitja á þingi, heldur verður kallað á varamenn. Þá geta fleiri framsóknarmenn komist að þótt þeir hafi ekki fengist kosningu - og þá hefur flokkurinn mannskap til að manna helstu þingnefndir."

KENNINGIN UM LETINA Í GEIR:

"Geir virðist helst kjósa að starfa áfram með Framsókn. Kannski er það bara leti í manninum. Hann vill ekki taka neina áhættu. En á það er auðvitað að líta að Sjálfstæðisflokknum hefur liðið afar vel í í stjórnarsamstarfinu. Framsókn hefur tekið brotsjóina og ábyrgð á stóru umdeildu málunum."

VANGAVELTUR UM AFDRIF FRAMSÓKNAR:

"Fyrir Framsóknarflokkinn er þetta algjört hættuspil. Þetta gæti hreint út sagt orðið banabiti flokksins. Kjósendur líta almennt svo á að flokkurinn hafi takmarkað umboð til að sitja áfram í ríkisstjórn - og þá alls ekki Jón Sigurðsson sem féll harkalega í kosningunum. Umfjöllun um flokkinn verður mjög neikvæð í kjölfar þessa, rétt eins og þegar Halldór Ásgrímsson var dubbaður upp sem forsætisráðherra.

Ráðherrar flokksins vilja þetta. Eftir yfirlýsingarnar fyrir kosningar og á kosninganóttina hafa frammámenn í Framsóknarflokknum verið í óða önn við að selja sjálfum sér þessa hugmynd. Kannski þurfa þeir ekki beita sig miklum fortölum.

Það er hins vegar spurning um almenna flokksmenn og grasrótina. Þar verður ábyggilega hart deilt um þessar fyrirætlanir sem kunna að varða sjálft líf flokksins."

Ef þessi greining blaðamanns er rétt þá er nú heldur betur meira í gangi á bak við tjöldin en fólk lætur sér almennt detta í hug.  Allt er þetta spurning um vald og ekkert annað en vald.  Það er eitthvað sem snýr í mér maganum þegar lýðræðið gerir flokki eins og Framsókn, sem galt mikið afhroð í kosningunum, kleyft að halda áfram að stjórna landinu.  Þeir virðast ekki þekkja sinn vitjunartíma, þurfa þá ekki að vera leikreglur til verndar lýðræðinu?



ENN EINN FAUTINN SLEPPUR BILLEGA

22

Einn ganginn enn er maður sem fremur alvarlegt ofbeldi látinn sleppa fyrir horn eða því sem næst.  Héraðsdómur dæmdi í dag karlmann í 4 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gegn sambýliskonu sinni. Hann var einnig dæmdur til að greiða konunni 454 þúsund króna í bætur.  Brotið þótti heiftúðugt og hrottalegt og heiðursmaðurinn framdi það með börnin sín sofandi heima.

Ojbarasta!


mbl.is Dæmdur í fangelsi fyrir árás á sambýliskonu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.8.): 7
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 168
  • Frá upphafi: 2988320

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 166
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband