Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Hámark lágkúrunnar

Satt best að segja þá er ég löngu hætt að horfa á Ísland í dag.  Ég hreinlega gafst upp. 

Svo ég segi það beint út; ég fékk orðið grænar bólur við að sjá Séð og heyrt parið birtast á skjánum með andskotans nærmyndirnar og annað ámóta yfirborðskennt efni.

En svo las ég Heiðu vinkonu mína áðan.  Hún var að blogga um nærmynd sem hafði verið sýnd í kvöld af Björgólfi Thor.

Henni var ekki skemmt.

Þetta varð ég að sjá. 

Ég byggði mig upp andlega og lét vaða í þáttinn.

Fyrirgefið, en er verið að gera tilraun til að gera fólk brjálað úr reiði?

Eða aulahrolli.

Björgólfur Thor er svo mikið krútt, segja vinir hans.  Hann fer á skíði, er stundum alveg blankur á matsölustöðum eins og vinirnir og svo fer hann með börnin sín í dýragarð um leið og hann stjórnar símafundum.

Svooooo mikið krútt.

Hvað er að þeim þarna á Stöð 2?

Hafa þeir tekið leynilega ákvörðun um að eyða sjálfum sér með lélegu efni?

Hrista hreinlega af sér áhorfendur með ofbeldi, svei mér þá.

Ég er að minnsta kosti glöð yfir einu, eða varð um leið og ég var búin að hrista af mér aulahrollinn og reiðina (þetta er einn af mönnunum sem eru búnir að skuldbinda okkur Íslendinga nokkrar kynslóðir fram í tímann, lifir ljúfa lífinu í London og er enn á fokkings Forbes listanum, þó hann hafi færst eitthvað neðar), þá gladdist ég smá.

Ég horfi ekki lengur á þá þarna á stöðinni.

Ég þarf ekki að liggja í krampakenndum aulahrolli með óbragð í munninum frekar en ég vil.

Ég mun ekki misbjóða mér aftur.

Hér er upphafningin af peningamógúlnum Björgólfi Thor sem fór og skildi þjóðina eftir með reikninginn.

En er dásamaður eins og Jesús í kirkjunni hjá þeim á tyggjókúlustöðinni.

Og nú segi ég:

Fyrirgefið á meðan ég æli OG kasta mér í vegg.


Skelfilegar fréttir

Við erum í Nató, illu heilli.

Ef við látum þessi nýju lög Hamid Karzai, forseta Afganistans, sem banna konum að fara út úr húsi og lögleiða jafnframt nauðgun í hjónabandi, sem felst í því að kona megi ekki neita eiginmanni sínum um kynmök, sitjum við uppi með skömmina.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson skráðu okkur í stríðið í Írak í skjóli nætur, sú skömm verður aldrei af okkur máð.

Sá gjörningur hefði haft alvarlegar afleiðingar í för með sér í siðmenntuðum löndum.

Við megum ekki láta þetta gerast án þess að sporna við fæti.

Ofbeldi á konum og börnum er ærið fyrir í landinu.
Þetta eru skelfilegar fréttir.

Sjá nánar hér.


mbl.is Karlar fá meiri völd yfir konum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svar óskast

Talandi um hvalafriðunarsvæði fyrir þá sem skoða dýrin.

Hvernig ganga veiðarnar?

Er ekki búið að ráða í þessi þrjúhundruð störf sem áttu að detta í hús þegar veiðarnar hæfust?

Og hvernig gengur að selja?

Miðað við fullyrðingarnar á þinginu þegar veiðarnar voru leyfðar þá hlýtur að vera rífandi sala í hvalkjöti.

Nú hef ég áhyggjur af því hvort þeir anni eftirspurn á bátunum.

Einhver?

Svar óskast.


mbl.is Svæði afmörkuð fyrir hvalaskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð - ég gæti sprungið hvenær sem er

zx 

Konur eru hormónamaskínur.

Konur eru aðallega samansettar af móðurlífi, brjóstum og svo er uppfyllingarefni þar á milli.  Ofaná sköpunarverkinu trónir svo örlítið heilakvikindi sem hefur lágmarks fúnksjón.

Konur fæða börn, gefa brjóst, fara á túr og eyða eins og brjálæðingar tíu dögum fyrir blæðingar.

Við erum tifandi lífefnafræðilegar sprengjur, getum sprungið hvenær sem er.

Við verslum af hormónskum hvötum ef einhver er nú að velkjast í vafa um hvatir sem að baki liggja.

Silly me, ég sem hélt að ég tæki upplýsta ákvörðun um að eyða peningum.

Ég hélt líka að ég hefði tekið fleiri upplýstar ákvarðanir í lífinu.

Eins og að gifta mig, skilja og að eiga börn.

Nú sé ég að ég hef sennilega verið í miðjum hormónahring þegar ég gifti mig, egglos í gangi og bíólógíska klukkan hefur gargað, ríða, ríða, ríða!

Svo hef ég verið með fyrirtíðaspennu þau skipti sem ég skildi við mína fjölmörgu eiginmenn.

Skrýtið, maður lifir í fimmtíuogeitthvað ár (förum ekki nánar út í það) og heldur að maður sé að framkvæma yfirvegaðar ákvarðanir sínar.

Ó ekkí, það er hinn kemíski mekkanaismi sem er að verki.

Ég vildi að ég væri karlmaður og fengi að ráða mér sjálf.

Fífl.


mbl.is Kaupæði tengist fyrirtíðaspennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Selebbablogg

selebb 

Þær eru orðnar þunnar í roðinu selebb (selbita) fréttirnar í blöðunum.

Ég veit ekki hvað fræga fólkið er að gera í kreppunni.

pump

Mér finnst þó líklegt að það sé að kaupa sér skó nú eða ættleiða börn.

Madonna er að ná sér í eitt í viðbót í fátæka landinu Malaví.

Kjútíkjút og svona en ég er á því að þetta sé tískufyrirbæri hjá frægu stelpunum.

Einu sinni voru það pelsar, bílar og hundar og fimmtán hús í ýmsum löndum.

Nú eru það börn. 

Nýjustu fylgihlutirnir, hva, allt hægt ef þú átt deneros í buddu.

En þessi 19 ára Hayden Panettiere ætlar að eignast fjögur börn.

Aumingja stúlkan, ætli hún geri sér grein fyrir að tilvitnanirnar í hana eru komnar til að vera?

Koma til með að elta hana uppi þegar það sem hún á eftir ólifað?

Eins og það sem hún segir um smekk sinn á mönnum, sem er eitthvað á þá leið að hún sé ekki hrifin af jafnöldrum sínum?

Halló, jafnaldrar þessarar stúlku eru að missa mjólkurtennurnar og vart komnir með spangir get ég sagt ykkur.

Ég þakka mínum sæla fyrir að ekki kjaftur á jörð með aðgang að blaði eða fjölmiðli, hafði áhuga á mér 19 ára gamalli.

Steypan sem valt út úr mér á þeim tíma var þannig að ég hefði ekki kært mig um að láta minna mig á hana í dag.  Bara alls ekki.

En þetta er annað selbitabloggið mitt á árinu.

björk

Ef þessu fer fram sem horfir þá verð ég nýr Perez Hilton, ég sverða og legg ekki meira á ykkur.

Annars var hann að fara á límingunum yfir klæðaburði Bjarkar í New York um helgina.

Mér finnst hún frumleg hún Björk en Perez sér ekki til sólar yfir klæðunum hennar.

Úff, búin á því.

Það er svo erfitt að selbitablogga.

 


mbl.is Vill fjögur börn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kærleiksheimilið

85051997 

Ég er með pest.

Ég sverða, síðan um áramót hef ég dregið að mér hverja einustu pest sem hægt er að verða sér úti um.

Ég er ekki frá því að ég hafi aðdráttarafl á flensur í öðrum löndum líka, svei mér þá.

Hvað um það, læknirinn minn er með eitt svar við öllum mínum vandamálum, hvort sem um er að ræða kláða í auga, flensu eða verki í maga. 

Hættu að reykja Jenný, segir hann.  Þess vegna er ég ekkert að bögga manninn.

Rólegur á áróðrinum segi ég.

Hvað um það.

Mér er óglatt.

Ég þarf að borða, allir þurfa þess og við á kærleiks erum þar ekki undanskilin.  (Pirrrrrrrrrrrrrrrrrrr).

Ég velti fyrir mér hvað ég ætti að hafa í matinn. 

Súpu kannski, æi nei of mikið vesen.  Tekur of langan tíma (engar pakkasúpur hér).

Kjúkling, hann er góður í veikindum, æi nei, of mikið moj þar líka.

Hvað eigum við að borða; spurði ég húsband, frekar vongóð?

Mér er alveg sama (honum leist ekki á þrumusvipinn), eitthvað snarl er það ekki bara?

Ég: Hvað þýðir það (og ég sver að þetta var orðið málefni að svipaðri stærð og BANKAHRUNIÐ í huga mér þegar hér var komið sögu)?

Hann: Hvað sem er, við getum soðið egg og svona.

Ég: Við?  Eigum VIÐ að sjóða egg?  Þú meinar að ég skuli gera það?

Hann: Nei, nei, ég get alveg gert það.

Þarna var ég komin á flug og ég átti svo bágt að einhver hefði átt að gera mig að mannúðarverkefni. 

Ég: Þú þarft þess ekki, auðvitað geri ég það.  Aldrei frí, aldrei, og ég er fárveik.

Hann: Á ég að kaupa eitthvað elskan?

Ég:

Nei annars ég ætla ekki að tíunda frekar áhrif flensu númer tuttugogörgugglegaeitthvað á skapferli mitt.

Það ber mér ekki fagurt vitni.

Ætli maður svelti ekki á kærleiks í kvöld?

Maður spyr sig.

Stundum er ljúfsárt að vera fórnarlamb.


Rasískt og fasískt

 ragna

Fyrst langar mig að hnykkja á þeirri skoðun minni að við eigum frábæran dómsmálaráðherra.

Hún var snögg að afturkalla brottrekstur nokkurra hælisleitenda sem átti að senda til Grikklands.

Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt lönd til að senda ekki hælisleitendur þangað að svo komnu máli vegna slæmra aðstæðna.

Hafi hún þakkir fyrir.

Ég er algjörlega sammála fólkinu sem hitti Rögnu í gær fyrir framan húsið hennar, og í morgun á fundi.

"Á fundinum afhenti hópurinn ráðherra áskorun þar sem m.a. segir að Útlendingastofnun hafi starfað á rasískum og fasískum grunni að undanförnu. Þá segir að þar sem ekki virðist lengur jafn fjarstæðukennt og áður að Íslendingar geti þurft á hjálp umheimsins að halda, ættu Íslendingar nú að skilja betur en nokkru sinni þörfina fyrir samhjálp."

Ég held að okkur væri nær að koma almennilega fram við fólk sem hingað leitar og þá meina ég ekki að við eigum að bjóða öllum dvalarleyfi sem hingað koma heldur eigum við að hafa mannúð að leiðarljósi og leyfa fólki að lifa með reisn á meðan það bíður.  Allt annað er óásættanlegt.

Ég vil að ömurlegum dvalarstað hælisleitenda að Fitjum í Njarðvík verði lokað.

Þetta er ekki fólki bjóðandi.

Svo mætti stytta afgreiðslutíma mála ef kostur er.

Eins og þessum málum er fyrirkomið nú er það okkur til skammar.

Húrra Ragna.


mbl.is Segja Útlendingastofnun starfa á rasískum grunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppuskógur

 kreppuskógur

Auðvitað er skelfilegt að bílaframleiðendur fari á hausinn og fullt af fólki missi þar með vinnuna.

En eru þessi gengdarlausu bílakaup fólks ekki út úr kortinu og það nauðsynlegt að koma þessu á eðlilegt plan?

Það er regla frekar en undantekning að það sé bíll á mann á heimilum víða um heim og hér auðvitað líka.

Bílar menga, gleypa bensín, hamla för (umferðarteppur sko) og fólk spikfitnar undir stýri.  Smá dramatík hérna og ööööörlitlar ýkjur en þið vitið hvað ég meina.

Ég er ekki með bílpróf (nei missti það ekki, tók það og endurnýjaði ekki, er stórhættuleg í umferðinni) og hef á tímabilum notað strætó.  Mér fannst það flott ef frá eru taldar tímatöflur sem eru búnar til af einhverjum sem notar EKKI strætó.

Mér er næst að halda að hugbreytandi efni hafi verið með í för í tímatöfludeildinni hjá Strætó á stundum.

Þessu þarf að kippa í liðinn.

Nú eigum við að gangast upp í því að vera sparsöm, umhverfisvæn og kollektív.

Látum kreppuskóginn verða minni eitt.

Halló, þetta átti ekki að verða nein prédikun.

En svo "varðaði" það bara.

Excuse.


mbl.is Mikil óvissa í bílaiðnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftæði

Æi, það er nánast krúttlegt allt þetta tal um nýja kynslóð í Sjálfstæðisflokknum.

Nýr formaður hamrar á þessu og ég er viss um að þetta verður marg endurtekið í kosningabaráttunni.

Nýja fólkið.

Nýja kynslóðin.

Bjarni er afleggjari af Birni Bjarnasyni.

(Ég hjó sérstaklega eftir því í fréttum í gær að hann sá ekkert athugavert við ræðu DO, fannst hún fínt innlegg í umræðuna.  Hélt einhver að tímar "göngum hreint til verks" væru upp runnir í Sjálfstæðisflokknum.  Þar eru menn sammála, nánast alltaf).

Þorgerður Katrín (þó ágæt sé) er ekkert ný.  Halló, hún var með alla leið í fyrri ríkisstjórn.

Svo segir hann að sjálfstæðismenn hafi svarað kalli um breytingar.

Og jaríjaríjarí.

Kjaftæði.

 


mbl.is Nýrri kynslóð treyst til verks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég spyr

Ómaklegt hjá Davíð að ráðast á Vilhjálm Egilsson og starfi Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins, segir Geir.

En ekki orð um að það hafi verið ómaklegt að ráðast á Jóhönnu Sigurðardóttur, Seðlabankastjórann, Sigmund Erni og fleiri sem urðu fyrir Davíð í þessari klikkuðu ræðu sem hann hélt á landsfundinum og bar innræti fundargesta miður fagurt vitni þegar þeir klöppuðu og stöppuðu eins og alkahóliseraðir sjómenn í landi eftir langa útivist.

Er allt í lagi að vega að útliti og æru fólks ef það er utan Sjálfstæðisflokksins?

Kona spyr sig.


mbl.is Geir: Ómaklegt hjá Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 2987322

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband