Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Tjillað í útvarpinu

Forsætisráðherrann átti í erfiðleikum með að komast í vinnuna í morgun.

Erfitt á öllum vígstöðvum.

En er það ekki lýsandi fyrir veruleikaflótta og virðingarleysi stjórnmálamanna þessa dagana að á meðan vel yfir þúsund manns sátu í Háskólabíói á borgarafundi, vel flestir áhyggjufullir yfir ástandinu þá var stóll formanns Sjálfstæðisflokksins auður.

Formaðurinn a.k.a. Forsætisráðherrann var í útvarpinu hjá Bubba.

Bara verið að tjilla á léttu nótunum svona.

Enginn ástæða til að mæta á fund með (ó)þjóðinni.

Né heldur ástæða til að hlusta á erlenda sérfræðinga.

Af hverju er ég ekki hissa?


mbl.is Kreppan getur dýpkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerðist?

Ég hef farið á þá borgarafundi sem haldnir hafa verið í Háskólabíói nema í gær þá geisaði hér styrjöld við bakteríukvikindi.

Ég beið eins og óð fluga eftir fréttum af fundinum en aðrir hafa þegar tíundað skortinn á þeim.

Furðulegt að 8. borgarafundur fyrir fullu húsi skuli ekki vekja meiri athygli en svo að maður þurfi að leita með logandi ljósi af frásögnum um hann.

Nú sit ég hér og veit ekki hvað ég á að halda varðandi ráðherrann sem sendi Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur skilaboð um að hún skyldi tala varlega á borgarafundinum.

Gulli segir ekki ég.

Sigurbjörg segist ekki ætla að gefa það upp hver ráðherrann sé.

Ég las líka einhvers staðar að Sigurbjörg vildi ekki að fókuserað væri um of á þetta atriði og framhjá því sem skiptir máli.

Ég er algjörlega ósammála.

Það skiptir ÖLLU máli ef ráðherra í ríkisstjórn Íslands hótar starfsmanni og varar hann við að tala um ákveðna hluti á lýðræðislegum vettvangi.

Hvað gerðist og hver er ráðherrann?


mbl.is Guðlaugur kemur af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er enginn með snert af eðlilegri siðferðiskennd?

Ég hef setið sem lömuð í allt kvöld.

Enginn smáskammtur sem okkur hefur verið gefinn af upplýsingum á einum og sama deginum.

Fyrst var það heilbrigðisráðherrann, sem sat órólegur undir harðri sókn Sigmars í Kastljósinu. (Upplýsti reyndar ekkert en það fór ekki á milli mála að hann boðar ekkert gott).

Fyrir utan allar tilraunirnar til að blaðra sig frá kjarna málsins þá hjó ég sérstaklega eftir einu.

Er ekki einn einast ráðamaður í þessu landi sem getur játað ábyrgð án þess að hnýta aftan í játninguna einhverjum bölvuðum hroka?

Guðlaugur viðurkenndi að Sjálfstæðisflokkurinn bæri ábyrgð EN ef flokkurinn ætti að bera hana einn þá ætti hann jafnfram allan heiðurinn af því sem vel hefur verið gert.

Þetta getur gert mig óða.  Hrokinn og fyrirlitningin á fólkinu í þessu landi er yfirgengilegur í þessu liði sem Íslendingar hafa kosið til forystu.

Alveg: Ég játa að ég kveikti í húsi nágrannans EN ég bauð honum slökkvitæki sem sárabætur!

Svo var komið að Wade í Kastljósinu.  Ég trúi Wade og ég tek mark á öllu sem hann segir, enda hefur maðurinn sýnt sig vita nákvæmlega um hvað hann er að tala.

Framtíðarspá hans er ekki björguleg fyrir Ísland, ég tala nú ekki um ef allt heldur áfram að hjakka í sama guðsvolaða farinu.

Ég bíð spennt eftir viðbrögðum heilbrigðisráðherrans yfir orðum Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur sem lét hótanir hans sem vind um eyru þjóta og sagði frá einu og öðru í framsöguerindi sínu þrátt fyrir símtalið frá Guðlaugi í dag.

Einhver sagði við mig í októberbyrjun þegar við vinkonurnar vorum að hneykslast yfir öllu því sem komið væri upp á yfirborðið varðandi spillinguna, aðgerðarleysi og fleira eftir bankahrunið, að við skyldum spara kraftana.  Ástandið ætti eftir að verða mun verra og ósvinnan rétt að byrja að koma í ljós.

Einhver blessaður hafði rétt fyrir sér.

Hvernig hefur allur þessi loddaraleikur getað átt sér stað og enginn - ekki kjaftur - séð ástæðu til að reyna að stöðva það?

Er enginn í ríkisstjórninni með þá eðlilegu siðferðiskennd að stinga niður fæti og segja nei, ég tek ekki þátt í þessu.  Öxlum alvöru ábyrgð?  Er ekki einum einasta ráðherra nóg boðið og vill ekki halda skrefi lengra?

Ég reyni að fara að sofa, telja niður.  Ég er með bullandi flensu eða eitthvað og það hjálpar ekki til.

Later.

 


mbl.is Fullur salur í Háskólabíó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æsispennandi Kompásþáttur..

...fyrir dýralækna og stöku hundaeigendur.

Hér á kærleiks geysa veikindi, amk. hjá öðrum aðila sáttmálshafa við guð á himnum um ævilanga tryggð og forsjárskyldu beggja aðila.

Sá veiki reisti höfuð frá kodda og reyndi að krafla sig í gegnum bláu bakteríurnar sem huldu andlit hans og hann hafði áhuga á að vita hvort það væri eitthvað í sjónvarpinu svona á mánudagskvöldi.

Ég fór og flettiflettiflettaði og sá að það var fréttaþáttur á Stöð 2 í kvöld.  Sko, Kompás.

Ég sá aðra augabrúnina lyftast þarna í lakahrúgunni og hann stundi; jæja ekki alslæmt ef ég get haldið höfði yfir sjónvarpi. (Karlmenn og veikindi, frusss).

Hvað er í þættinum spurði hann svo og ég hríslaðist að blaðinu og gáði að því, enda sjálf ábyggilega rétt um það bil að verða fyrir árás bláu hættunnar.

Hm.. Ég las; Það er fjallað um algengasta dánarmein hunda.  Krabbamein.  Svo mun verða sýnt frá krabbameinsaðgerð á hundi í þættinum hvar æxli mun fjarlægt.

Ég reyndi að láta þetta hljóma lokkandi og setti dass af spennu og eftirvæntingu í röddina til að lífga við allt að því látinn manninn í beðjunni.

Hann hafði ýmislegt um það að segja og ekki allt fallegt.

Ég er hins vegar með bloggsíðu og get sagt ykkur að ég er hætt að skilja þennan fjölmiðil sem er Stöð 2.

Hér eru söguleg tíðindi að gerast í þjóðmálum á hverjum degi, stundum oft á dag.

Ég hefði haldið að það væru óteljandi verkefni fyrir blaðamenn að fjalla um, fleiri en þeir kæmust yfir.

En nei, þeir sjá frekar ástæðu til að fjalla um hundakrabbamein.

Ég botna ekkert í þessu enda ekki blaðamaður.

En eitt get ég sagt ykkur sitjandi hér eftir annasaman dag í heimahjúkrun að ég myndi ekki horfa á uppskurð á hundi, geimveru eða manni þótt mér væri borgað fyrir það og það þótt bullandi góðæri væri.

Fréttablaðið mun sennilega fækka útgáfudögum sínum.

Þar sem þetta er sama fyrirtækið, þ.e. Stöð 2 og Fréttó þá vil ég benda kurteislega á þann möguleika að sleppa búllsjittþáttum eins og þessum sem hér um ræðir og hafa Fréttablaðið áfram á virkum dögum að minnsta kosti.

Hvað er orðið um þennan frábæra þátt sem Kompás var einu sinni?

Já, ég er pirruð, í dag hef ég haft það verulega skítt, nákvæmlega ekkert hefur gengið upp, takk fyrir að spyrja.

Flórens.

 


mbl.is Til umræðu að fækka útgáfudögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bræðurnir Músarhjarta

músarhjarta 

Bræðurinr Músarhjarta þeir Ólafur og Guðmundur Klemenzsynir hafa víst sagt upp störfum hjá Seðlabanka og Landsspítala.

Gott hjá þeim.

En þeir sendu að vísu grímuklædda menn með uppsagnarbréfið.

Ágætt hjá þeim líka.

Ólafur mun einnig hafa sagt sig úr ESB nefnd Sjálfstæðisfokks og úr stjórn Neytendasamtakanna.

Svona er Reykjavík dagsins.

Það eru hlutir að gerast.


mbl.is Afhenda uppsagnabréfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helvískir læknarnir

Þetta eru hreint skelfilegar fréttir sem Mogginn er að segja eftir bráðöruggum heimildarmönnum ísraelsku pressunnar, sem allur heimur veit að er þekkt fyrir hlutleysi sitt og sannleiksást.

Helvítis norsku læknarnir munu hafa falið leiðtoga Hamassamtakanna í kjallara sjúrkahússins ásamt því að sanda blóðugir upp fyrir haus allan sólarhringinn við þá fáránlegu iðju að bjarga palestínskum mannslífum.

Heitir þetta ekki að taka læknaeiðinn full bókstaflega?

Bjarga, bjarga, bjarga og nú mögulega líka meðlimum Hamas.

Ég á ekki orð - mér er hreinlega óglatt.

Takk Moggi fyrir að rétta mig við.

Álit mitt á þessum læknum er fokið út í buskann.

Maður bjargar ekki lífi hvers sem er og ætlast til að fá þakkir fyrir og einkum og sér í lagi palestínulífi öðru vísi en að það sé eitthvað alvarlegt að hjá fólki

Stórbilaðir norsarar.

Eða hvað?


mbl.is Norskir læknar sagðir hafa skýlt Hamasleiðtogum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósið í myrkrinu

Það er vakning í íslensku samfélagi og mér finnst það stórkostleg staðreynd.

Í gróðærinu var ekki hægt að koma saman hópi nema þá helst í kokteilboðum, snobb uppákomum, fjandans spai og á viðlíka sjálfshátíðum.

Það er af sem áður var.

Ég held að flestir séu að átta sig á þessari frábæru breytingu á annars steinsofandi þjóð sem var búin að gleyma að það væri hægt að hafa áhrif á samfélagið.

Nema stjórnmálamenn og aðrir pótintátar sem hafa átt ansi náðuga daga lengi.  Þeir þrjóskast enn við.  Átta sig ekki á því enn að fólk vill ekki lengur Ísland upp á gamla mátann.

Nú í morgun var verið að mótmæla árásum Ísraelsmanna á Gaza. 

Ísraelsmenn virðast æstir í að sviðsetja helförina og endurtaka hana á saklausum borgurum í Palestínu.

Í kvöld er svo borgarafundur í Háskólabíói klukkan átta.

Ég mæti og ég vona að sem flestir  sjái sér fært að gera það.

Þið sem hafið setið heima með hnút í maganum og angistina uppi í háls með svipaða líðan og ég hef glímt við æði oft upp á síðkastið, megið vita að það er ótrúlega gott að koma á borgarafundina, finna samstöðuna og baráttuviljann meðal fólksins. 

Manni líður mikið betur á eftir. 

Og við höfum áhrif.  Það hefur sýnt sig.

Ég persónulega er ákaflega stolt af íslenskum almenningi þessa dagana.

Það tekur fólk mislangan tíma að koma sér af stað, margir eru ekki búnir að átta sig á ósköpunum sem hafa riðið yfir íslenskt samfélag.  Mér finnst nákvæmlega ekkert undarlegt að það taki tíma.

En þetta er allt að koma.

Ég er svo glöð yfir vakningunni í þjóðfélaginu, allt í einu erum við farin að láta okkur varða um hvaðeina.

Verst að það þyrfti kreppufjandann til.  Ansi dýrkeyptur lærdómur það.

En baráttan fyrir betra og heilbrigðara þjóðfélagi er ljós í myrkrinu.

Borgarafundur

Kæra RÚV, vinsamlegast sýna beint frá fundi. 

Það er þar sem hlutirnir gerast og allir eiga ekki heimangengt.

Varpa beint takk.


mbl.is Mótmælt við stjórnarráðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krúttfærsla

jenný í sverige

Jenný Una gisti hjá okkur í nótt.

Það var gefandi og skemmtilegt eins og alltaf.

Félagsskapur barna toppar allt, svona oftast nær að minnsta kosti.

Ég held að Jenný Una sé svolítið að læra um fjölskyldutengsl.  Eins og hennar er von og vísa þá er afi í Keflavík pabbi hennar mömmu.  Farmor og farfar í Svíþjóð eru núna aðeins nefnd á nafn sem pabbi hans pabba og mamma hans pabba.

Svo sló hún mig algjörlega út af laginu í morgun og ég brjálaðist úr krúttkrampa þegar hún sagði hneyksluð á svip og í fasi (með hendur á mjöðmum):

Amma, veistu hvað?  Hún dóttir þín keypti allt of mikið nammi handa mér í gær og líka handa Söru Kamban!

Ég (algjörlega útúrhneyksluð líka): Ertu að meina þetta?  Gerði dóttir mín þetta virkilega?

Jenný Una: Já og hún fór líka með mig á bibbótekið (bibiliotekið) en það þýðir bókasafn á sænsku amma.

Ji hvað ég á stundum erfitt með mig nálægt börnum.  Langar að knúúúsa.

Stuttu seinna var Jenný Una búin að teikna margar myndir og bað mig um að hringja í DÓTTUR MÍNA og biðja hana að ná sig  "því ég nenni ekkert að vera meira há þér af því afi minn sefur allan daginn og vinnur í nóttinni."

Það er nefnilega það og auðvitað hringdi ég í dóttur mína og bað hana að koma og ná í dóttur sína og fara með hana heim til sonar síns litla og pabba hans og blóðföður þeirra beggja.

Ésús minn.

Ef þetta bjargar ekki lífi manns í kreppunni þá veit ég ekki hvað.

 


"Kommer ikke til grene"

 85051997

Frá áramótum hefur kreppan ráðist á sálina í mér af fullum þunga. 

Mér hefur fundist að ekkert á þessari jörð geti kallað fram breytingar á spilltu og ónýtu kerfinu sem við búum við.

Enginn tekur ábyrgð, það er sama hvað gerist, almenningi er sent stór og feitur fingurinn af stjórnmálamönnum, ríkisstjórn og þeim stofnunum sem eiga að kallast eftirlitsstofnanir.

Ég var farin að velta því í alvöru fyrir mér að fara til Indlands og setjast að í hugleiðslustöð og eyða lífinu í að stynja OM allar vökustundir alveg þangað til að ég leystist upp í frumeindir mínar.

Það er of sárt að vera til stundum.  Mér finnst eins og ég andi að mér rakvélablöðum oft á tíðum, svei mér þá.

En sem betur fer er ég aldrei lengi í einu í vonleysinu.  Það er fullt af litlum hlutum sem gleðja mig, eins og fólkið mitt og ég hef örugglega sagt ykkur að ég á besta fólk í heimi.

Svo gerast stórir hlutir af og til sem hreinlega kveikja í mér upp á nýtt.  Gera það að verkum að ég eflist um meira en helming og mig langar út að breyta heiminum.

Njörður P. Njarðvík hreyfði við mér í Silfrinu og það svo um munaði.

Ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir manninum.  Hann er í öflugu hjálparstarfi í Afríku.  Einn af þeim mönnum sem lætur verkin tala.

Hann talaði um nýtt lýðveldi.  Auðvitað; hugsaði ég, það núverandi er ónýtt, smánað og í öndunarvél og það er borin von um bata með þeim meðulum sem fyrir hendi eru.

Hörður Torfa er líka svona íkveikjukall.  Eva aðgerðarsinni og fullt af öðru fólki.

Og allt í einu hlakkaði ég til að fara á borgarafundinn í Háskólabíói annað kvöld.

Ég á hugleiðslusetur til að omma frá mér lífið?

Kommer ikke til grene eins og mætur maður sagði einu sinni.


mbl.is Hörður: Mótmælin rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband