Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Ég versla í matinn og verð ekki söm upp frá því - GMG

Ég er með flensu og ég á bágt - búhú.  Þá er það frá.

En ég lét ekki smá hita og beinverki aftra mér frá nauðsynlegum búðarferðum í dag, hvert ég æddi og verslaði nauðsynjar.

Nauðsynjar í formi fata og matvöru.

Ég fór í búð og verslaði mér nauðsynlega hluti eins og sokkabuxur og hlýraboli.  Og auðvitað fleira smálegt sem ég nenni ekki að tíunda.

Það sem ég týndi saman lá í einu körfuhorninu og varla sást.

Og ég borgaði tæpar níuþúsund krónur fyrir varninginn.

Og ég small í gólf.

Í matvöruversluninni keypti ég smáræði sem innihélt þrjár máltíðir (fyrir tvo), þvottaefni, mýkingarefni, grænmeti, ávexti, mjólk, safa og svoleiðis.

Reikningurinn var upp á ellefu þúsund krónur!

Hvernig fer barnafólk að því að lifa í þessu landi?  Ekkert í körfunni var lúxus, bara venjuleg matvara og slíkt fyrir þetta míkró heimilishald hér á kærleiksheimilinu.

Ég fer að veiða í matinn niður á höfn og skjóta rjúpur í Heiðmörkinni ef ekkert fer að breytast.  Hvers eigum við að gjalda almenningur í þessu landi?

Þessi rányrkja í formi matarprísa er að gera mig að heitum ESB-sinna.  Mér líður eins og fórnarlambi ræningja þegar ég versla í matinn. Þetta gengur ekki lengur.

En annars bíð ég spennt eftir haustinu.  Ésús hvað ég elska haustið, árstíðaskipti, kertaljós, rökkur, lauf um allar jarðir, stöku storm og bullandi rigningu.

Úff, svona er að fæðast að vetri.  Ég vakna til lífsins þegar degi fer að halla og eflist svo jafnt og þétt fram á vor. 

Ég vaki þegar aðrir sofa.  Jájá.

En sumarið er æði.

 


"Allt fínt bara"

Það eru skemmtilegir tímar framundan hjá mér.  Skemmtilegasta fólkið í lífi mínu verður allt saman komið á landinu í vikulok.

Jökull, elsta barnabarnið kom frá Króatíu og öðrum nálægum löndum, á sunnudaginn.

Oliver kemur frá London á fimmtudaginn í fylgd pabba síns og ömmu-Brynju og hann verður í viku.

Og á föstudaginn koma Jenný Una og Hrafn Óli (Lilleman) frá Svíþjóð með foreldrum sínum eftir hálfsmánaðar dvöl í heimalandi pabbans í jöfnunni.

Ég er öfundsverð kona.

Í dag ringdi lítil stúlka í ömmu sína frá Svíþjóð og hafði margt að segja.

Hún hafði veitt frosk (sko einn frosk amma) í morgun, týnt blóm og bakað súkkulaðiköku með farmor.  "Amma ég kann alveg að baka svoleiðs aþþí þú kenndir mér það".

"Ég get ekki komið heim alleg skrass amma ég þarf að vera líka hjá farmor og farfar". (Amman hlýtur að skilja að barn þarf að skipta sér á milli aðdáenda).

Og hún hélt áfram.

"Amma það var stór fluga sem reyndi að drepa mömmu mína".W00t

Amman: Og hvað sagði mamma þín þá?

Jenný: Allt fínt bara.

Og amma, það er vondur maður í skóginum sem stelir börnum.  Farmor sagði mér þa þegar við var að týna ber fyrir klukkutíma! (Klukkutími þýðir að það er mjög langt síðan).

Amman: Og varstu ekki hrædd?

Jenný: Nei bara smá ég skammar hann bara.  En amma ég kem bráðum heim með fluvvélinni.  Þú verður mjög glöð.  Þá ætla ég að vera hjá ykkur og fá nammi.  Ókei?

Amman kastaði sér í vegg haldin ólýsanlegu krúttkasti yfir öllu því smáfólki sem hefur komið inn í líf hennar yfirleitt.

Börn eru besta fólkið.


Svo löngu komið nóg

Ég er eiginlega komin með mikið meira en nóg af ruglinu í borginni.

Ekki bara af Ólafi Eff heldur íhaldinu líka, sem virðist vera í feluleik og læðast með veggjum.

Brottvikning Ólafar Guðnýjar virðist vera bullandi ólögleg.  Við vitum öll nú þegar að brottreksturinn er siðlaus.

Á þessi skammarlega gjörð Óla Eff eftir að kosta skattborgarana í Reykjavík einhverjar millur í skaðabætur?

Lesið frábæran pistil Daggar Páls um málefnið.

Hvernig væri að þetta lið í meirihlutanum mætti í vinnuna og tæki á málinu?

Eða ætlar íhaldið að samþykkja þennan gjörning borgarstjórans?

Það er fyrir svo lifandis löngu komið nóg af þessari óstjórn og rugli í borginni.

Búin að fá mig fullsadda og ég er sko ekki ein um það.

Þarf fólk að fara að skrifa á lista eða hvað?


PR- liðið samt við sig

 camping

Erill vinur minn hefur ferðast eins og motherfucker um landið yfir helgina.  Gert usla hér, annan þar, algjörlega eins og af honum er ætlast.  Þessi náungi lætur mann aldrei verða fyrir vonbirgðum.

Annars er Erill karlinn samnefnari fyrir ólæti, ofbeldi, drykkjuæði, rúðubrot, ælur á víðavangi og aðra viðurkennda fylleríishegðun á útihátíðum.

En að máli málanna.  PR-mennsku þeirra sem standa fyrir útihátíðum.  PR-mennskuna má sjá í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna yfir verslunarmannahelgina.  Þeir sem tala geta ekki lofsamað dýrðina á sinni hátíð nógsamlega. 

Í fyrra var ferilskrá Erils skrautleg víða um land.  Þegar ég bloggaði um það fékk ég óða eyjamenn og akureyringa á bakið.  Ég var að tala niður þeirra heilögu hátíðar.

PR-mennskan verður aldrei öflugri en EFTIR helgina.  Þá eru sjálfboðaliðarnir margir sem vilja útbreiða hversu vel heppnuð þeirra hátíð hafi verið.

Og ég efast reyndar ekkert um að svo hafi verið fyrir flesta.

En..

tvær skráðar komur á neyðarmóttöku nauðgana er mikill og stór fórnarkostnaður

níu líkamsárásir í eyjum og fólk enn með ólæti þar í nótt kveikjandi í tjöldum

slattar af fíkniefnamálum, smávægilegum, hvað sem það nú þýðir

einhver laminn í höfuð með flösku hér, annar kjálkabrotinn þar.

Ég ætla að leyfa mér að finnast þetta of mikill og hár fórnakostnaður.

Hvað sem sjálfskipaðir ímyndafræðingar hafa um það að segja.

En fólk stendur með sinni hátíð.  Það er nokkuð ljóst.

Alveg er mér andskotans sama hver gerir hvað í hvaða þorpi.  Þetta er allt að gerast á Íslandi.

Vantar í mig hreppagenið?

En ég sendi Margréti Blöndal og hennar fólki hamingjuóskir með ágætlega unnið starf.  Þetta hefði getað orðið svo miklu verra.

Amen.

 


mbl.is Erill hjá lögreglunni í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég flutti inn mann

angel

Þar sem sumir lesendur þessarar síðu hafa borðið fram heitar óskir sínar um deitsögur þá læt ég í lítillæti mínu eina slíka fjúka hér á netið þrátt fyrir að ég muni aldrei verða söm eftir þá gjörð.

Ég geri bókstaflega allt fyrir vini mína og flest fyrir óvinina líka, eða myndi gera ætti ég þá og þeir bæðu mig.

Þegar er var tuttuguogeitthvað fráskilin, ung og síástfangin hitti ég minn BRETA.  Í London, nema hvað.  Hann var listamaður, málari, sætur og sexí, fannst mér þessi kvöld sem ég hékk með honum, en ég tek fram að klúbbarnir í London voru dimmir.  Þeir voru kertaljósadimmir.  Þið skiljið hvert ég er að fara.  Þetta varð nokkuð heitur rómans þarna í heimsborginni á milli búðarferða.

Og það var þá sem ég tók ákvörðun um að flytja inn mann.

Ók, ekki misskilja mig, við komum okkur saman um að hann kæmi til Íslands, byggi hjá mér til að byrja með og svona.  Maðurinn var ágætlega fjáður og gat séð um sig sjálfur sko.  Hann hét Choen en vissi ég að það nánast þýddi að maðurinn væri læstur sparibaukur?  Ónei.  Hann tímdi ekki að anda, maðurinn.  Ég get svarið það.

Og hann kom - sá og stórtapaði.  Ég þoldi ekki manninn í íslensku sólarljósi og var þar að auki búin að verða ástfangin tvisvar síðan ég kvaddi hann á flugvellinum hágrátandi vegna yfirvofandi aðskilnaðar.  Ég tek fram að ég elska dramatískar kveðjustundir á flugvellinum, minnir mig á Casablanca.

Og við settumst niður (lesist ég settist niður og grýtti honum í sófann á móti mér) og við ræddum saman. 

Til að gera langa sögu stutta þá gerði ég honum tilboð sem hann gat ekki hafnaðHalo

Hann fór svo að vinna í Ísbirninum, og síðan veit ég ekkert meira um þennan mann.W00t

Endilega ekki láta ykkur detta í hug að ég sé einhver Grimmhildur.

Þetta "varðaði" bara svona og æskan er grimm.

Nei og ég veit ekki hvers vegna hann valdi Ísbjörninn.

Guð fyrirgefi mér.

Ég er löngu búin að því.


Ég er ástfangin - púmm og pang - og?

 red-cupid

Ástarsorg er háalvarlegt mál.  Krísa sem er ekkert ósvipuð því að missa náinn ættingja, þ.e. þegar um löng sambönd er að ræða.

En..

það er ekki mín sérgrein þó ég hafi upplifað nokkrar svoleiðis þá voru þær eiginlega ekki alvöru með nokkrum sárum undantekningum.´

Þegar ég var ung og ör var ég ástfangin nánast á hverjum degi.  Af nýjum og nýjum sko.  Ástfengnin rann hinsvegar af mér jafn snögglega og hún heltók mig.  Búmm Pang.

Ég var að ræða það við gamla vinkonu (Eddu Agnars) um daginn hversu rosalega lítið þurfti til að ástarvíman rynni af manni þarna á upphafsárum fullorðinslífsins.

Svartir krepsokkar sem innihéldu líkhvíta og háruga spóaleggi hröktu hrifningarvímuna á brott eins og hendi væri veifað.  Viðkomandi ástarviðfang vissi þá ekki hvaðan á sig stóð veðrið, hafði verið tilbeðinn áður en hann lyfti buxunum upp svo sást í bífurnar og var snarlega hrakinn á brott.  Skýringalust.

Svona fór þessu fram í nokkur ár.  Asnalegar höfuðhreyfingar, klór í rasskinn, hallærislegur hósti, ótímabær söngur og danstaktar settu hvern drenginn á fætur öðrum á dauðalistann.

Og svo lenti maður í svona niðurskurði sjálfur, sem ég reyndar skil ekkert í enn þann daginn í dag, enda fullkomin þá sem nú.

En alvöru ástarsorgirnar og ævintýrin áttu svo sannarlega eftir að banka á dyrnar með sínum ljúfsáru upplifunum.

Og ég grét flóðum.

En ég tók mig í gegnum allan tilfinningaskalann með hjálp sjálfrar mín og vinkvennanna.

Mínar ófarir hefa sýnt sig verða mun alvarlegri þegar ég tek hana til fagmanna.  Þá fer ég nefnilega að bera virðingu fyrir viðkomandi upplifunum og þori ekki að kroppa í þær.  Ég held að það sé vegna þess að prísinn á faghjálp er á við meðal sófasett.  Algjör bilun.

En þetta á auðvitað ekki við þegar um alvöru krísur í lífinu er að ræða.  Þar hafa sálfræðingar og geðlæknar bjargað lífi mínu.

I´m in love.  Jájá, so what´s new?


mbl.is Aðstoð í ástarsorg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðastríð???

Amy, Amy, Amy, hvar endar þetta með þig stúlka?

amy-winehouse-new-3

svo ung...

amy_winehouse11208

Svo flott, svo hæfileikarík ...

tvöföld amy

..svo breytt

amy-winehouse-troubled-singer

svo sorgmædd

amy-winehouse_arrested-again

 

svo mikið meira dauð en lifandi.

Ef Amy Winehouse getur ekki bjargað sjálfri sér þá ætti hún að minnsta kosti að geta verið gangandi aðvörun til fólks um að fara ekki í ruglið.

Ömurlegt að horfa upp á þessa stúlku nánast deyja í beinni í fjölmiðlum á hverjum degi.

Úff

Frábært lag með stelpunni.


mbl.is Amy syngur um matinn sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að geraða upp í fjalli - búið bless

 titanic

Ég er í nokkrum vanda stödd varðandi áhorf mitt á kvikmyndir.

Í fyrsta lagi þá nenni ég sjaldan í bíó og bíð svo von úr viti eftir að þær myndir sem ég tel að ég verði að sjá komi á leiguna.  Þar sem ég er í och för sig ekki að flýta mér þá er þetta ekki vandamálið.  Það er hinsvegar reglulegt rifrildisefni hér við hirðina á hvaða mynd eigi að horfa þegar þannig stendur á.

Ég er með ákveðna reglu þegar ég vel mér myndir.  Ég vil ekki kúrekamyndir,  sæens fiksjón, söngvamyndir, bardagamyndir (með örfáum undantekningum) og ég vil ekki sjá ástarvellur.    Titanikk sem ég slysaðist á í bíó hérna um árið drap mig nánast tilfinningalega.  Ég get ekki beygt mig fram til að ná mér í epli án þess að fá leiftur í hausinn og sjá fyrir mér helvítis stafnatriðið (eða var það bakborðinn?) úr þeirri ógeðslegu bíómynd.

Þegar þessar bíómyndakategóríur eru mínusaðar frá úrvali eru ekki margar eftir.  Og aftur og aftur kemur húsbandið heim með myndir sem hann vill horfa á og ég ekki.  Hann reynir alltaf að semja mig niður að sjónvarpinu og fá mig til að þagna og gefa myndunum séns.  Sem ég auðvitað geri af því ég er svo friggings líberal.

Og í kvöld tókst honum það.  Brokeback mounten var mynd kvöldsins.  Hún er kúreka- OG ástarmynd.  Hvað get ég sagt?

Húsband sagði mér að hún hafi fengið þrjá Óskara og ég spurði hvort það ættu að vera meðmæli?

En ég horfði.  Voða kjút þriggja vasaklútamynd með hommum í tilvistarkreppu ríðandi upp í fjalli, með kúrekahatta og hesta.

Mínir hommavinir eru ekki svona rosalega dán eins og þessir.  Myndin er ljúf en hún er hundleiðinleg.  Hver bömmerinn rekur annan.  Ekki ljós punktur nema rétt á meðan þeir geraða.  Svo er farið heim í sitthvort héraðið og bömmerinn heldur áfram.

Má ég þá heldur biðja um Guðföðurinn, Kill Bill. Bird Cage og American Gangster.  Þær eru meðal minna uppáhalds.

Já og ég ætla ekki að sjá Batman.  Hún er ekki í mínum flokki.

Plís komið með góðar hugmyndir.  Mig vantar eitthvað að horfa á.


mbl.is Enginn bilbugur á Batman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég spyr..

jn-rape

Er þetta;

ójákvæmilegur fórnarkostnaður svo allir geti skemmt sér saman á hópfylleríi?

?????????

 


Handlagðir víbratorar?

Stundum get ég ekki annað en hlegið þegar ég les um taktana hjá Könunum í stríðinu gegn hryðjuverkum.  Ekki að stríðið sé fyndið svo langt frá því enda hefur það bitnað á sárasaklausu fólki víða um heim, heldur er það hugmyndaauðgin í að vaða yfir öll mörk gagnvart fólki.

En fréttin er um að bandaríska alríkislögreglan megi leggja hald á fartölvur og önnur rafmagnstæki ferðamanna (á líka við um bandaríska ríkisborgara) og að þeir þurfa aldrei að skila þeim aftur er í algjörum stíl við allt havaríið í hryðjuverkabardaganum mikla.  Allt leyfilegt.  Reglurnar hafa verið í gildi um einhvern tíma en eru fyrst núna að verða lýðum ljósar.

Mér datt tvennt í hug.  Varla eru þetta fréttir svo sem, amk. ekkert til að hissa sig yfir.

Mennirnir handleggja lifandi manneskjur og setja þær í fangelsi í útlöndum, pynta og drepa án þess að þeir sjái nokkurt athugavert við það og þessi mannréttindabrot eru framin í nafni "stríðsins".

Því er bara eðlilegt og sjálfsagt að þeir telji sig geta tekið dauða hluti traustataki án þess að þurfa að svara fyrir það með einum eða öðrum hætti.

Lögreglunni er síðan heimilt að deila gögnum, sem í þessum tækjum kunna að vera með öðrum stofnunum.  Punktur basta og haldið kjafti þið sem eruð með skoðanir og attitjúd á því hvað er gert við dótið ykkar.

Stelpur! Þið sem eruð á leið til USA; eignarhald ykkar á víbratorunum er ekki óumdeilanlegt við komu til fyrirheitna landsins.  Skiljið þá eftir heima.  Einkum þessa með utanborðsmótornum og fjarstýringunni.

En..

þetta er auðvitað frábær sparnaðarleið hjá hinu opinbera.  Tölvu- og farsímareikningar eiga eftir að stórminnka.

Ég er ekki á leiðinni til USA.

No fucking way.


mbl.is Mega haldleggja fartölvur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.