Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Djöfuls sorg og leiði

Á þessum árstíma er ég venjulega búin að fara nokkrar könnunarferðir ofan í kassana sem geyma jóladótið. Ég er nefnilega jólafrík.

En ekki núna.

Þegar snjóaði fann ég engan fiðring, ekkert pre-jóla.

Að auki er ég meira að segja fallin frá að fremja kviðristu á sjálfri mér þessi jólin fái ég ekki rjúpu.  Samt sór ég þess dýran eið í fyrra þar sem ég grét yfir svínasteikinni.  Djöfuls sorg og leiði.  Óréttlæti og viðbjóður í þessum heimi.  ARG.

Nú er ég í axlaryppi bara kúl á því. 

Að þessu sögðu og hugsuðu þá er ég komin að þeirri niðurstöðu að kreppan hafi stolið af mér tilhlökkuninni og kannski jafnvel jólunum.  Hvað veit ég?

Ég er að minnsta kosti haldin einhverjum janúarfíling.  Þið þekkið hann trúi ég.  Aljgör friggings bömmer.

Við frumburður vorum að ræða kreppuráð í gær.

Við tókum um það ákvörðun að þessi jólin yrðu bækur eða geisladiskur í pökkunum.

Ekki rándýrar gjafir.

Þess vegna gladdi það mig óumræðilega þegar ég las viðtengda frétt.

Bókaverðið helst óbreytt frá því í fyrra.

Það er þá að minnsta kosti eitthvað jákvætt í fréttum þessa dagana.

Kannski ég fari fram í geymslu og kíki á seríurnar.

Virka þær?  Þarf ég að fjárfesta í nýjum eða á ég að berja mig með þeim?

Fer eftir örvæntingarstiginu get ég sagt ykkur.

Svo er að hnoða í smákökur (DJÓK).

Ég er farin að tékka.

Gleðileg jól. 

Falalalalalalalala!


mbl.is Verð á bókum óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir ríðandi á ströndinni

 

woman_laughing

Fólk er að hamstra brennivín á fullu þessa dagana.

Það gæti nefnilega hækkað. Mun sennilega gera það á morgun, fjárinn fjandsamlegur.

Sumir eru farnir að kaupa "jólavínið".

Ég þekkti mann sem var afskaplega ábyrgðarfullur jólavínskaupandi.  Hann byrjaði strax fyrstu helgina í desember að byrgja sig upp.  Hann sagði sem svo að gott væri að vera fyrirhyggjusamur húsbóndi í heimilisrekstri.

Svo verslaði hann jólavínið alveg fram á síðasta dag.  Það gerðust nefnilega hlutir hjá þessum mæta manni.  Jólavínið snemmkeypta beinlínis þröngvaði sér ofan í þennan praktíska mann.  Þetta varð til þess að hann var tilneyddur og blásaklaus neytandi hátíðaráfengis á virkum dögum fram að jólum.  Maðurinn var afskaplega sorgmæddur yfir þessu óstýriláta eldvatni sem hann hafði lent á.

Ég er auðvitað öll af vilja gerð til að sjá björtu hliðarnar á tilverunni.

Þar sem ég er óvirkur alki þarf ég ekki að steðja í áfengisverslunina og sanka að mér birgðum.

Reyndar tel ég mig nokkuð vissa á því að alkar almennt séu ekki að velta fyrir sér verði á vímugjafanum.  Það er einhvern veginn aukaatriði.

En þarna er ég að græða stórar fjárhæðir vegna edrúmennsku minnar.  Jájá.

Ég get líka glaðst yfir því að þurfa ekki að kaupa snús. Hef reyndar aldrei notað svoleiðis en það er samt gleðiefni í kreppunni.

Svo ég tali nú ekki um hass.  Hvað ætli gengið á gramminu sé þessa dagana?  Alveg er ég viss um að þarna er ég að spara rosalegar fjárhæðir.  Ég hef heldur ekki verið í dópsmóknum en samt, gleðiefni að geta sparað þar.

Mesta "spar" ársins er þó sófasettið sem mér finnst fallegt og fæst í búð.

Ég hafði reyndar ekki efni á því heldur fyrir kreppu og ég ætlaði alls ekki að kaupa það en það er sparnaður engu að síður.

Allt sem maður kaupir ekki sparar peninga.

Vitið þið það ekki aularnir ykkarÐ

Hvað ætli ferð á ströndin í Dubai sé að gera sig á?Devil (Er það ekki þar sem allir eru ríðandi á ströndinni?).

Háar fjárhæðir í buddu þar.

Lífið er ljúft og skál í vatninu.

Ekki orð um það meir.


mbl.is Fólk hamstrar vín fyrir hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er mig að dreyma?

 dd

Ég sem þessa dagana lít á mig sem óflokksbundna og algjörlega óháða pólitískt get samt ekki annað en glaðst þessa stundina.

Gamla byltingarhjartað tók nokkur aukaslög hérna - ég er þakklát fyrir að sjá þessa niðurstöðu úr könnun Gallups.

VG STÆRRI EN ÍHALDIÐ - ER MIG AÐ DREYMA???

Jájá úrtölufólk, þetta er skoðanakönnun og?

Annars var ég að ræða það við dóttur mína í dag að ég væri endanlega hætt í flokk.

Allt hjarðeðli er á bak og burt ég er frjáls og óháð eins og gamla DV.

Sko, það er svo heftandi að hengja sig aftan í pólitískan flokk það þrengir að manni eins og ógeðslega þröngur rúllukragi.  Aghhh 

Maður getur verið sammála í grófum dráttum en aldrei gæti ég skrifað upp á heila stefnuskrá hvað þá fylgt einhverjum að máli bara af því ég borga félagsgjöld inn á sama reikning og viðkomandi.

Reyndar er það lygi ég hef alveg verið dedd á því að vera skráð í flokka ég er eiginlega að meina að nú orðið get ég ekki hugsað mér að hanga á bás.

Samt er ég á því að VG er besti kosturinn sem völ er á í flokkaflórunni.

Það finnst mér í dag.

En ekkert endilega á morgun.

Það er í fínu því ég er óbundin, unaðsleg og á eigin vegum.  X-Ég.

Ég stend engum reikningsskil nema sjálfri mér.

Ég er komin á nó búllsjitt aldurinn - það er á hreinu.

Úje

Sjálfstæðisflokkur - nananabúbú- snæðið hjörtu og lifur.

ARG


mbl.is Fylgi VG meira en Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið á meðan ég hendi mér fyrir björg

Frumburðurinn hún Helga Björk var hérna hjá mér í heimsókn.

Við vorum að ræða saman.

Hljómsveitin var nýkomin heim og hann kallaði fram og bað okkur um að hætta að rífast.

Við:  Ha?  Erum við að rífast?  Við erum að tala um pólitík.

Hann:  Það heyrist ekki mannsins mál í hverfinu talið aðeins lægra. 

Við reyndum eftir bestu getu að tala lægra, hehemm en við vorum ekki að rífast sko.

Við vorum algjörlega og gjörsamlega ósammála - meira hvað fólk á erfitt með að skilja svoleiðis fyrirkomulag.

En að öðru, ef ég hef náð kjarna málsins í umræðunum á Alþingi í dag þá verða tillögur til aðgerða sendar Alþjóða gjaldeyrissjóðnum á morgun.

Tillögurnar sem sumir vilja kalla samningsdrög eru leyniplagg og stjórnarandstaðan fær ekki einu sinni að vita um innihaldið.

Ég persónulega gæti öskrað mig hása yfir þessu gerræði.

Er verið að skuldbinda okkur og komandi kynslóðir hérna án þess að nokkur fái að vita um það fyrr en allt er um garð gengið, fyrir utan ráðherra og Seðlabankastjóra?

Svo líður mér þannig að í raun sé það Seðlabankastjórnin (lesist DO) sem ræður á Íslandi í dag.

Það er fyrir mér verra en nokkur martröð.

Afsakið á meðan ég hendi mér fyrir björg.


mbl.is Vill endurskoða ESB og Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Edo - edo - edo

hæ

Þessi færsla er bömmerjöfnun.

Það sem heldur í mér sönsunum þessa dagana eru bækurnar mínar og Hrafn Óli Eriksson, sem ég hef fengið að vera með fyrir hádegi þessa vikuna.

Það er tæpast til betri félagsskapur en barnanna (á öllum aldri auðvitað).

Í morgun lékum við okkur all svakalega mikið við Lilleman.

Hann gengur með öllu og hermir eftir hverju hljóði sem hann heyrir.

Svo trommar hann, eins og pabbinn auðvitað og lemur í allt sem hann kemur nálægt.

Svo kom pabbinn að ná í barn og sá stutti brosti út að eyrum, sem hann gerir reyndar alltaf, afskaplega glaðsinna þessi drengur, eins og hin þrjú barnabörnin reyndar líka.

Pabbinn sagði:

"Lilleman, säg hej då til mormor".

Og litla skottið sagði, "edo, edo, edo og var enn að þegar hann var kominn út að bíl.

Ég var í heví krúttkrampa lengi á eftir.

Lífið er dásamlegt.

Ójá.


Korktapparnir tveir

Mafía hvað?

Áfram heldur íslenski farsinn og það kemur æ betur í ljós hvaða samtryggingar- og kunningjaþjóðfélag við búum í við Íslendingar.

Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari og Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, álíta sig ekki vanhæfa til að sinna frumrannsókn á starfsemi viðskiptabankanna þriggja í aðdragandanum á falli þeirra.

Sonur Valtýs, Sigurður, er forstjóri Exista. Sonur Boga, Bernhard, er framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Stoða. Hvort tveggja er útrásarfyrirtæki með tengsl við fallna banka, Kaupþing og Glitni.

Nei, nei, íslenska leiðin til að komast að sannleikanum er dásamleg.  Setjum fjölskylduna í málið bara og allt mun verða dregið fram í dagsljósið.

Ég veit ekki með ykkur en ég sé ekki betur en að við búum í skelfilegu samtryggingarþjóðfélagi þar sem enginn og ég segi enginn er í alvörunni tilbúinn til að skipta um vinnuaðferðir.

Björn Bjarna, yfirmaður þessara sómamanna sér ekkert athugavert við þessi vægast sagt hæpnu vinnnubrögð.

"Aðspurður vísaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á þá Valtý og Boga. Engum væru reglur um vanhæfi betur kunnar en þeim. „...þeir eiga sjálfir síðasta orðið um hæfi sitt eða vanhæfi og treysti ég dómgreind þeirra óskorað í því efni,“ sagði Björn."

Hvar nema hér á Íslandi árið 2008 er talið eðlilegt að fólk gerist dómarar nánast í eigin sök?

Á Íslandi kveður fólk upp úrskurða um vanhæfi sitt eða hæfi.  Einfalt og gott.  Fífl.

Það er þess vegna sem ég sit hérna með stírurnar í augunum og óttakökk í hálsinum.

Hvernig er hægt að reisa eitthvað nýtt á svona rotnum grunni?

Það er sama hvert maður snýr sér dæmin eru að hrannast upp.

Mafía hvað?

Hafi einhvern tímann verið ástæða til að kalla til erlenda aðila sem engra hagsmuna eiga að gæta þá er það núna þegar þessi ósköp ríða yfir og engu er að treysta.

Aðeins þannig er hægt að byggja upp traust á ný.

Minni á að félagarnir Valtýr og Bogi, þessir varðhundar kerfissins eru korktappar þess dómskerfis sem við nú búum við. 

Bara svona að halda því til haga.


mbl.is Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður spyr sig

Ég sá á einhverri sjónvarpsstöðinni viðtal við stjórnmálafræðing sem ég man ekki hvað heitir.

En það skiptir ekki máli en það sem hann sagði var merkilegt.

Þetta með að íslenskir ráðherrar (þingmenn eflaust líka) segi ekki af sér þrátt fyrir að stundum hafi verið ástæða til.

Nú muna eflaust allir eftir Monu Shalin, sænska ráðherranum sem sagði af sér eftir Tobbelrone kaupinn á krítarkort ráðuneytisins.

Og danska ráðherrarnum sem borgaði gistingu fyrir sig með krítarkorti hins opinbera.

Það hlýtur að vera eitthvað í þjóðarkarakternum sem gerir það að verkum að við höfum svona mikið þanþol gagnvart ráðamönnum.

Einhvers staðar sá ég líka skrifað um að ráðamenn þekki gullfiskaminni íslensks almennings og bíði af sér pirringinn.

Spurningin er hvort það gerist núna líka.

Annars var ég kjaftstopp áðan þegar ég sá þetta.

Hrokinn og virðingarleysið gagnvart almenningi er algjört.

En eigum við þetta ekki skilið almenningur?

Maður spyr sig.

En að öðru, Reuters var með umfjöllun um undirskriftarátakið "við erum ekki terroristar" og svei mér þá ef ég er ekki smá stolt af okkur Íslendingum.

Við getum staðið saman, það er nokkuð ljóst.

Þeir sem eiga eftir að skrifa sig á listann, hér er hann.


mbl.is Mótmæli vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samþykkjandi með hinnarri

hippie-girl

Ég var að ræða það við kæra vinkonu í dag að mér liði eins og ég sé inni í miðri Fellinibíómynd.

Raunveruleikinn er geðveikislega súrrealískur þessa dagana.

Engar venjulegar reglur eru í gildi lengur, allt bara happening allan daginn út í gegn.

Það er eins og flestir séu að jafna sig eftir fyllerí og að það gangi illa.  Timburmennirnir búnir að læsa sig í sálina og komnir til að vera.

Stundum fæ ég hláturskast yfir ruglinu og óvissunni, hreinlega hlæ eins og vitleysingur og ég held að það stafi af því að ég er með kökkinn í hálsinum og þarf að gæta mín svo ég fari ekki að grenja.

Og svo baka ég eins og mófó bara svo þið vitið það.

Samfylkingin er að drepa mig, þ.e. hegðun margra málsmetandi manna/kvenna þar á bæ.

Þeir eru í ríkisstjórn en samt í bullandi stjórnarandstöðu.

Það er í raun brjálæðislega tragikómískt að Samfó er mótmælandi aðgerðum ríkisstjórnarinnar með annarri en samþykkjandi með hinnarri.

Af hverju þessi flokkur heldur áfram í þessu stjórnarsamstarfi er mér hulin ráðgáta.

Ókei, ef þeir væru þá í ríkisstjórninni og hegðuðu sér eins og þeir meinuðu það þá er hægt koma sér upp tolerans fyrir því.

En þeir geta það ekki og ég skil það líka, í raun mikið betur.

Verst að þeir skyldu ekki átta sig á að samstarf við íhald er baneitruð blanda og bráðdrepandi.  Algjör koss dauðans. XXX

Það er beisíklí bara Framsókn sem á að renna saman við íhaldið, þeir kunna það best og eru að týna tölunni blessaðir.  Afdrif þess flokks eru fyrirséð.

Reyndar er formaðurinn þar í öflugu stjórnarsamstarfi þessa dagana.

Þetta er eins og á hippaárunum.

Þá voru allir með öllum.

Peace love and fucking happiness.

KJÓSUM KRAKKAR - KOMMON SAMFÓ!

Úje


mbl.is Ekki benda á mig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir í raun

Á ögurstundu kemst fólk gjarnan að því hverjir eru vinir í raun.

Flestir, ef ekki allir hafa staðið frammi fyrir því að þurfa á alvöru vinum að halda og ég er þar engin undantekning.

Mín reynsla er sú að það megi skipta "vinagenginu" í fjóra flokka.

1. Vinirnir sem gefa ekki einungis skít í þig á örlagastundu heldur sparka í þig liggjandi. 

2. Þeir sem hlaupa af stað og það má lesa greinilega skónúmerið undir skónum þeirra.  Þeir hverfa og sjást ekki meir. 

3. Þeir sem ætla að hjálpa, bráðum að uppfylltum skilyrðum - seinna, oft miklu seinna.

4. Sjaldgæfi hópurinn en sá dýrmætasti sýnir þér vináttuna í verki án þess að býsnast mikið yfir því hvað þá að hreykja sér af því.

Það má flokka "vinaþjóðir" Íslendinga í þetta bókhaldskerfi og það auðveldlega.

Í byrjun október þegar allt hrundi fengum við í kaupbæti með krísunni það sjaldgæfa tækifæri að komast að því hverjir eru vinir okkar meðal svo kallaðra vinaþjóða.

Í dag er það ein þjóð sem er óumdeilanlega vinaþjóð í raun.  Færeyingar eru einfaldlega þeir einu sem tilheyra flokki fjögur.

Allir vita hvar Bretarnir standa.

Kanarnir, mér sýnist þeir nota skó númer 66.

Norðurlandaþjóðirnar eru hér sýnist mér í þriðja lið, hummandi og hóstandi.  Þeir vilja hjálpa, við erum frændur, við elskum ykkur en... við viljum ekki fordæma Breta fyrir hryðjuverkastimpilinn.  Við viljum heldur ekki snara út peningum fyrr en við erum búnir að hlusta á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Gulltryggðir í bak og fyrir.

Ég gef ekki afturenda fyrir svoleiðis vináttu.

Geir Haarde sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að Norðurlöndin hafi ekki strax lýst því yfir að þeir ætluðu að koma okkur til aðstoðar.

Ég skil Geir afskaplega vel þarna.

Og hvað sem annars má segja um forsætisráðherrann og hans pólitík þá verð ég að viðurkenna að hann á alla mína samúð þessa dagana.  Að ganga um með einhverskonar betlistaf meðal "vinaþjóða" er ekki öfundsvert verkefni.

Svo minni ég á undirskriftalistann; "Við erum ekki hryðjuverkamenn."  Nú ríður á að skrifa nafnið sitt og vera með.  HÉRNA.

Takk Færeyjar.  Skelfilega hlýjar þetta mér um hjartaræturnar.


mbl.is Siðferðileg skylda að hjálpa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgengilegir skilmálar?

"Nei ég er ekki að hugsa um að hætta sem seðlabankastjóri".

Þessu svaraði Davíð Oddsson spurningu fréttamanns í morgun á blaðamannafundi í Seðlabankanum.

"En þú - ert þú að hugsa um að hætta í þinni vinnu"?  Spurði Davíð fréttakonuna, fullur áhuga á hennar persónulegu og prívat atvinnupælingum.

Það er auðvitað algjörlega sambærileg aðstaða sem þau eru í, Dabbi og Lóa Pind Aldísardóttir.

Eða hitt þó heldur.

Ef við gætum efnisgert hroka og sjálfsánægju íslenskra ráðamanna, gætum við selt þessa eiginleika til fjarlægra landa og grætt á því stóra peninga.  Eða ekki, mér skilst að það sé ekki mikill markaður fyrir svona karakterbresti á þessum síðustu og verstu.

Solla sagði í síðustu viku að IMF setti engin skilyrði sem væru okkur óaðgengileg.

Flokkast þessi skelfilega stýrivaxtahækkun þá undir undir aðgengilega skilmála?

En ég vil kosningar núna.

Já bara strax.

Hlutirnir geta ekki orðið verri.

Kíkið á þetta.  Kjósa.is

 


mbl.is 10% styðja Davíð í embætti seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 13
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 2987144

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 75
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband