Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Sælir eru fokkings fátækir

Prestaframleiðslan er greinilega ekki í samdrætti vegna kreppu.

Hvað er ég að blogga um prestvígslur?

Ég gæti allt eins farið að sökkva mér í rit um heilaskurðlækningar eða hvernig á að leggja ljósleiðara.

Mér gæti sum sé ekki staðið meira á sama.

En ég sá þarna tækifæri til að koma inn á boðskapinn frá biskupi um daginn.

Æi þið vitið þegar hann sagði að við höfum aldrei verið auðugri Íslendingar en einmitt núna.

Tali hver fyrir sig - en hvorki ég né meirihlutinn af þjóðinni hefur verið í verri málum með tilliti til auðlegðar en nú um stundir.

Ég hugsaði alveg: Hm.. aldrei verið auðugri, hverja þekkir maðurinn? 

Svo rann upp fyrir mér ljós.

Hann er að tala um auðinn sem mölur og ryð fá ekki grandað.

Auðlegðina frá föðurnum á himnum.

Jájá gott fólk, búið til graut úr þeim heilagleikaköggli fyrir börnin ykkar.  Látið það ríkidæmi í nestisbox afkomendanna.

Þetta andlega auðlegðarkjaftæði hefur verið notað af kirkjunnar mönnum frá upphafi vega.

Sælir eru fokkings fátækir.

Mér finnst svona tal vera niðurlægjandi og fullt af hroka og biskup hefði átt að hafa innsæi til að láta þessa auðlegðarræðu eiga sig.

En af því það er stöðugt verið að nota ráðleggingar úr biblíunni til að svæfa múginn þá skil ég alls ekki af hverju öllum boðskapnum er ekki haldið til haga úr ræðupúltum kirkjunnar.

Eins og t.d. að fara og gefa eigur sínar fátækum og dúndra sér í vinnu fyrir hönd föðurins, sonarins og hins heilaga anda.

Nei, þeir minnast ekki á það blessaðir kirkjunnar menn.

Hvað eru prestar og biskupar annars með í laun?

Og eru þeir ekki allir búandi í einhverjum annexum við kirkjurnar?

Spyr sá sem ekki veit.

Já og skinheilagleiki fer ógeðslega í taugarnar á mér.

Ég held að markaðurinn fyrir svona blaður sé alls ekki að ganga í fólk á tíma þar sem blákaldur raunveruleikinn blasir við og fátt virðist til bjargar, amk. ennþá.

Súmí.

Annars er ég bara svona að rífa kjaft um þetta mér til skemmtunar og öðrum til óþurftar, eitthvað verður maður að dunda sér við í veikindunum.  Múha.


mbl.is Fjögur taka prestvígslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið á meðan.....

Nú get ég sagt; afsakið á meðan ég æli og meinað það.

Ég er nefnilega með skammlausa gubbupest og það skal viðurkennast að mér finnst það afskaplega skemmtileg tilviljun að sálarlífsæluþörfin skuli verða áþreifanleg í raunheimum.

Nú skrapp ég aðeins frá og sendi fallegan boga af magainnihaldi upp í himinhvolfið. DJÓK.

Ég veit ekkert um vexti.  Þ.e. stýrivexti.

Mér er sagt að það sé betra að þeir séu lágir.

Mér er sagt að það sé skelfilega og óheyrilega vont fyrir almenning þegar þeir eru háir.  Samt eru þeir endalaust hækkaðir.

Mér er líka sagt að við séum með hæstu svona vexti á allri jarðarkringlunni.

Auðvitað veit ég svona sirka hvað stýrivaxtahækkun hefur í för með sér en hvergi nærri nóg.

Nei, ekki reyna að útskýra fyrir mér - ég er ekki í stuði til að meðtaka svona upplýsingar.

En hafið þið ekki orðið var við ákveðnar heilaflækjur vegna allra háu upphæðanna sem alltaf er verið að kasta á milli sín í umræðum?

Þrjúhundruð milljarðar - tvö þúsund milljarðar Evra og áfram endalaust.

Rosalega er maður aumur með sín tæp tvöhundruð þúsund í lommen á mánuði.

Hvernig hefur maður komist af?

En ég kíkti hérna aðeins til að hressa mig við.

Ég er í alvörunni veik og ekki vorkenna mér, ég fagna því að hafa annað að hugsa um en yfirvofandi meiri kreppu og núverandi skelfingarástand.

Takk öll fyrir kommentin í færslunni á undan.

Ég held ég gæti knúsað ykkur í klessu.

Yfir til ykkar.

Lesið Málbeinið.  Klikkar ekki frekar en vanalega.


mbl.is Vaxtahækkun vegna IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður verður að fá breik

Ég held að ég sé í langvinnu taugaáfalli.  Ekki bara ég heldur vel flestir samborgara minna.

Það sem hefur dunið yfir okkur í þessum mánuði er náttúrlega áfall sem sífellt verður þyngra og massífara með hverjum deginum sem líður.  Það bætir stöðugt í.

Samt er það þannig að maður tekur ekki raunveruleikann inn í einum skammti - eins gott, nógu er maður tættur samt.

Svo er það óvissan - hún bætir ekki úr skák.

Sífellt nýjar fréttir, einn segir eitt - annar hitt.

Þannig að nú snýst heilinn á mér í krullur og kruðerí, ég treysti engu sem sagt er enda hefur það sýnt sig vera lygi daginn eftir nú eða þá að forsendur hafa breyst rétt á meðan maður sefur í höfuðið á sér.

Flottur þessi fundur samt sem var í Iðnó í kvöld, þarna hefur verið kjaftfullt út úr dyrum.

Verða til grasrótarsamtök?

Ég held að fólk verði að beina orkunni í einhvern farveg, amk. er það þannig með mig.

Það er svo glatað að upplifa sig reka stjórnlaust áfram án þess að geta spyrnt við fæti.

Mér verður að finnast ég vera að gera eitthvað - annars enda ég í illa hannaðri treyju með lokuðum ermum.

Svo var þetta hroðalega slys á ungmennum í kvöld, ég fékk kökk í hálsinn, algjörlega komin með upp í kok.

Nú vona ég af öllu mínu hjarta að morgundagurinn verði góður, að við fáum fallegar fréttir.

Það er bara komið nóg í bili að minnsta kosti.

Algjörlega upp í kok.

Maður verður að fá breik.

Svo verður að fá utanaðkomandi aðila til að komast til botns í þessum málum öllum saman.


mbl.is Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrifað af hrúgu manna

Það var reynt að innræta mér virðingu fyrir áktoriteti.

Það tókst ágætlega og lengi vel hneigði ég mig átómatískt ef ég sá menn í búningum. 

Löggur, dómarar og fógetar (já og skipstjórar) fengu mig til að fara á hnén (í huganum).

Síðan hefur þetta rugl rjátlast af mér og nú orðið ber ég virðingu fyrir þeim sem mér finnst eiga það skilið.

Það er allur gangur á þessu hjá mér enda skiptir það engan máli nema sjálfa mig.

Menn úti í bæ eru ekkert í heita pottinum í laugunum á klíkufundum alveg: Ætli Jenný Anna Baldursdóttir beri virðingu fyrir mér núna eftir að ég klúðraði sóandsóbankanum og laug í fjölmiðla?  Ætli hún sé sár út í okkur fyrir að hafa verið að taka út háar summur rétt áður en allt féll?  Ha?  Er von um fyrirgefningu hjá konunni haldiði strákar?  Halló  frú mikilvæg.is komdu niður á jörðina. 

Ég held að þeir séu að tala um rjúpnaveiðar, nýjasta plottið nú eða minnkandi séns í stelpurnar eftir að einkaþoturnar hófu að hrynja af þeim og samdráttur kom í bílífið.

En hver er skúrkur og hver er ekki skúrkur?

Eru menn kannski bæði skúrkar og ekki skúrkar í dásamlegri blöndu?

Getur Davíð til dæmis verið ekki skúrkur í samskiptum við ritarann sinn en algjör skúrkur við Björgólf Thór?  Hreinlega logið upp á drenginn?

Er Björgólfur Thór kannski bölvaður lygari við Kompás en algjörlega heiðarlegur við húshjálpina, lyftuvörðinn og garðyrkjumanninn?

Nú eða v.v.

Ekkert er svart hvítt lengur.  Af hverju er friggings lífið ekki eins og ævintýri?

Allt í tjóni frá fyrstu blaðsíðu fram á þá næstsíðustu.

Þá eru skúrkarnir brenndir á báli, kastað í sjóinn eða sendir í útlegð og svo fara allir hinir í sleik og lifa hamingjusamir til æviloka.

Hver er að ljúga hérna?

Dabbi eða BjörgólfurThór?

Damn, damn, damn, hvað ég orðin þreytt á að lifa í geðveikri glæpasögu með engum endi skrifaða af hrúgu manna með Munchausen heilkennið.

Adjö!


mbl.is Seðlabanki andmælir Björgólfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úje og klár í bátana

 prins

Er enginn endir á skelfingarfréttum eða hvað?

Látum vera þó hér stefni í sögulegan fjölda atvinnulausra.

Eða stórkostlegt eignatap borgaranna.

Nú eða hrun banka og annarra fyrirtækja.

Við munum lifa þetta af vegna þess að við eigum ekki val um annað.

En mér finnst þetta gengið helvíti langt ef sígarettur og Prins Póló verða út úr mynd.

Í B.S.R.B. verkfallinu 1985 féll samstaðan á sígóinu.

Ókei, smá ýkjur en ég var ein af þeim sem var orðin ansi léleg í baráttunni þegar ég sá að stefndi í algjöra þurrð.

Verð að játa að sterkari á svellinu var ég nú ekki.  Hefði samið upp á hvað sem er hefði það verið á mínu færi, sem það var sem betur fer ekki.

Þá reykti ég allt sem að kjafti kom, eins og Lucky Strike (sem var afskaplega vel við hæfi), Pall Mall og Chesterfield ef það hefði verið enn á markaði.

Núna hins vegar, er ég orðin svo pen í reykingunum. 

Ég treysti mér alveg til að fara á úðann ef allt um þrýtur.

En Prinsinn maður lifandi, á að ganga endanlega frá manni?

Annars er Prins Póló nútímans lélegur brandari.  Það er ekki líkt eðalprinsinum sem við borðuðum í æsku minni.

Ég skal samt segja ykkur það að ég er að fokka í ykkur með Prinsinn.  Borða ekki súkk.  Einfalt mál.

Möguleg brennivínsþurrð kemur ekki við mig enda meðferðuð upp að eyrum.

Rjúpurnar heyra sögunni til - ekki hægt að kreppa þær af diski vorum við hirðina.

Hugs, flett, flett, hvað er hægt að taka af manni meira en orðið er?

En mikið skelfing vildi ég óska að það væri bara verkfall í gangi og það yrði samið innan tíðar og allt gæti farið í sitt venjulega horf.

Því miður þá erum við ekki svo heppin gott fólk.

En til að hressa ykkur við krúttin mín þá lesið ÞETTA.

Stundum talar fólk alveg fyrir mína hönd og annarra án þess að hafa hugmynd um það.

Sé ykkur í boðinu.

Úje og klár í bátana.


mbl.is Prins Polo á þrotum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrglí - Gúrglí

ffffff 

Þessi litli kútur hann Hrafn Óli, a.k.a. Lilleman og Lillebror, kom í pössun í morgun á meðan mamma er í skólanum, Jenný systir á leikskólanum og pabbinn á æfingu.

Hrafn Óli veit ekkert um neina kreppu og honum finnst lífið æðislegt.

Hann skríður um allt, gengur með og talar mikið.

Ömmunni finnst ekki leiðinlegt að hann er mjög sammála henni um flest.

Amman: Það er alveg ferlega kallt úti Lilleman, nú verður amma að klæða þig vel í vagninn.

Lilleman: Gurglígúrglí, enní detta, pabbi, mamma, ai spúlelímúgelí.  Amma.

Amman: Einmitt.

Villtu koma að lúlla núna?

Lilleman: Gurlglí detta dadaeda mabiglalanda babba sdklsigo enní.

Auðvitað - blessuðu barninu er ekki eitt um að finnast óvissan í landsmálunum íþyngjandi en hann ráðleggur svefn undir beru lofti sem góða leið til andlegrar heilsu.

Það ráð er hann sjálfur að iðka í þessum skrifuðu orðum.

Dúllan.


Kreppujöfnun

rauður

Ég er bókanörd.  Þar með er það fært til bókar.

Bókin er minn tjaldvagn, mín höll, mín snekkja og einkaþota.

Og ég þarf ekki að hreyfa mig úr sporunum.

Þegar allt er að fara fjandans til - ástandið svart og dapurt á ég vin í bókinni.

Ég segi ykkur þetta af því ég er væn manneskja (jájá) og vill gjarnan deila með mér af reynslu minni.

Ég er að hvetja til lesturs í kreppunni.

Bækur eru ekki óyfirstíganlega dýrar og þær eru aðgengilegar á bókasafninu.

Ég hef sagt það áður og segi það enn - lesum okkur í gegnum kreppuna.

Núna er ég að lesa heimtufreka bók.

Bók sem lætur ekki lesa sig með hálfum hug. 

Hún krefst fullkominnar athygli lesandans. 

"Nafn mitt er Rauður" heitir hún og er eftir Orhan Pamuk sem fékk Nóbelinn 2006.

Ég mæli með henni, annars væri ég auðvitað ekki að blogga um hana.

Blogga helst ekki um leiðinlegar bækur - enda er ég ekki bókmenntagagnrýnandi.

Nappaði lýsingu á efni bókarinnar af vef útgefandans.

"Seint á sextándu öld felur soldáninn í Istanbúl fremstu skrifurum og myndlistarmönnum í ríki sínu að setja saman viðhafnarrit að evrópskum sið. Verkið skal unnið á laun og er mikið hættuspil þar sem öll hlutbundin myndlist stangast á við ríkjandi trúarhugmyndir í landinu. Listamennirnir þurfa að fara huldu höfði en þegar einn þeirra hverfur sporlaust grípur um sig ótti. Hann kann að hafa orðið fórnarlamb trúarofstækis – eða afbrýðisemi. Soldáninn krefst skjótra svara og hugsanlega leynist vísbending um afdrif mannsins í hálfköruðum myndverkum hans."

Ég er lestrarhestur.  Úje.


Sameinuð stöndum við- sundruð föllum við

Mótmæli eru ekki vel séð á Íslandi - það er nokkuð ljóst.

Almenningur sjálfur er líka seinþreyttur til vandræða og það þarf að ganga mikið á áður en fólk steðjar af stað.

Svo eru margir þeirrar gerðar að þeir nenna ekki að lyfta afturendanum sjálfum sér til bjargar og eru ánægðir með að aðrir sjái um það bara.

Nú er búið að mótmæla tvo laugardaga í röð, í gær án mín sem er náttúrulega djöfullegur skaði fyrir málstaðinn.

Stöð 2 hefur fryst töluna  500 í þátttökufjölda og mun hún verða endurnýjuð og uppfærð um mitt næsta ár. 

En ég er reið þó ég fari vel með það.

Hvernig vogar sér sumt fólk með athyglisþörf sem gerir sjálfri Madonnu skömm til að kljúfa samstöðuna sem hefur myndast og bæta við mótmælum ofan á þau mótmæli sem voru ákvörðuð fyrir viku?

Hver er ástæðan?  Varla málefnið - allir virðast vera sammála um þau.

Alveg er mér skít andskotans sama hver blæs til mótmælanna - ég vil bara að þau fari fram.

Puntudúkkur á öllum aldri verða að slá sér upp á öðru en baráttumálum almennings í þessu landi. Það er ekki málefninu til stuðnings að sýna þeim sem vilja að við sitjum og þegjum, hneigjum okkur og látum segja okkur að vera stillt, að sýna þennan fádæma vanþroska í framkomu eins og gert var í gær.

 Það má vera að það sé ekki búið að einkavæða mótmæli á Íslandi en það ætti að lögvernda þau gagnvart kverúlöntum og lýðskrumurum sem nota þau til að vekja athygli á sjálfum sér fyrst og fremst.

Kannski var þetta í góðu gert.  Kannski var ágreiningurinn um málefnin svona djúpstæður og óleysanlegur og almenningur algjörlega í blindu með hvað væri í gangi.

Ef svo er þá biðst ég auðmjúklega afsökunar, en þá fáum við væntanlega útskýringu á hvar sá ágreiningur liggur.

Ég verð að geta kynnt mér þau málefni sem hópunum greinir svona skelfilega á um að það þarf að skipa sér í tvær sveitir - halda tvo fundi.

Ef þið sem að því stóðuð að breytingunni frá áður auglýstum mótmælafundi vildu vera svo væn að útskýra fyrir okkur massanum?

Með kveðju frá undirritaðri sem finnst sorglegt og sárt að sjá málstaðinn eyðilagðan með svona andskotans fíflagangi.

Að minnsta kosti gef ég mér að þessi fáránleiki verði ekki endurtekinn n.k. laugardag.

En svo má auðvitað segja að það séu bara kommatittirnir sem mótmæla.

Jájá og allir í úlpum, tréklossum og með svart-hvítt sjónvarp. 

Það er þá líka vatn á myllu "háðfuglanna" sem sitja heima á sínum feita rassi heima í stofu. 

Hér er einn froðusnakkurinn sem vill auðvitað troða okkur öllum með sér í sektarbátinn eða skútuna.  Hehemm.

BARIST UM MÓTMÆLENDUR

EIRÍKUR ER MEÐ ÞETTA.


Ég snyrti vænghaf

 

vængjakona

Ég tek ofan fyrir nýráðna bankastjóra Nýja Kaupþings.

Annars á starfsfólk ríkisfyrirtækja ekki að þurfa að standa í þessu sjálft.

Launin eiga að vera þau sömu fyrir sömu vinnu og ekki orð um það meir.

Upp á borð með launin og þá á svona misræmi ekki að geta átt sér stað.

En..

..varðandi Björgólf og viðtalið sem Agnes Braga tók við hann þá fór ég aðeins að fabúlera með málið.

Ástæðan fyrir því að við setjum ekki foreldra, systkini, maka eða vini sem meðmælendur á umsóknareyðublöðin þegar við sækjum um vinnu er væntanlega sú að þeir eru ekki taldir mjög gagnrýnin og málefnaleg í afstöðu sinni til okkar.

Ef ég gæfi upp mína nánustu þegar ég væri að leita mér að vinnu þá myndu svörin sem atvinnurekandinn fær minna töluvert á minningargrein um Móður Theresu.

Jenný Anna er forkur til vinnu, hún gerir ekkert annað en að sinna vinnunni.  Hún fer ekki á klósett, né nærist á vinnutíma.  Hún drekkur ekki, reykir ekki, fer aldrei á skemmtanir og þá bara á samkomur á jólum.  Jenný Anna á sér ekkert líf fyrir utan vinnuna og þá sjaldan hún slakar á þá plokkar hún og snyrtir á sér vænghafið og pússar geislabauginn.

Það sem ég er að reyna að segja hérna er að það er ekki sniðugt að láta aðdáendur sína taka við sig viðtal og það í eigin blaði né heldur biður maður sína nánustu sem elska mann í klessu mæla með sér svo gagn sé að.

Svo finnst mér sárt að sjá hversu gjörsamlega Björgólfur, Björgólfur Thor og nánast allir hinir, auðmenn sem og sumir ráðherranna senda ábyrgðina út í ystu myrkur.

Ábyrgðin er nefnilega ekki þeirra.  Allir aðrir hafa fokkað upp efnahag okkar Íslendinga.

Í fóðærinu keypti ég ekki rándýran bíl hvað þá heldur Jeppa.

Ég var ekki í flatskjáagenginu og þannig er um stóran meirihluta fólks sem hefur þurft að vinna fyrir grunnþörfunum fyrst og síðast og hefur ekki milljónir í afganga til að versla sér leikföng og ferðast víða um heim.

Auðvitað var töluverður hópur fólks sem missti sig í eyðslu en flestir hafa hegðað sér á ábyrgan hátt.

Þess vegna verð ég ofsalega reið þegar þessir menn, Björgólfur í Mogganum og Björgvin viðskipta í Kastljósinu á föstudag, varpa ábyrgðinni á almenning sem stendur nú frammi fyrir því að borga allan brúsann.

Ég er flogin.  Þarf að gera nokkur kraftaverk á mannkyninu áður en Silfrið byjar.

Takk fyrir góði Guð að gera úr mér engil!


mbl.is Bað um launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pabbi hennar mömmu

20080608113358_4

Hér er lítil stúlka í heimsókn.  Hún heitir auðvitað Jenný Una.

Hún kom í gær og var þá búin að pakka nauðsynjum ofan í tösku.

Jenný Una vakti ömmuna í morgun kl. hálf sjö.  Hehemm.

Þetta samtal átti sér sem sagt stað í bítið.

Barn: Eru til jólasveinar í Sverige? (Pabbinn sænskur).

Amman: Já auðvitað, sænsku börnin fá líka jólasvein.

Jenný Una: Nei amma, þaer ekki sollis. Ér sænsk ég veitða. Í Sverige er ekki jólasveinar. 

Amman: Nú?

JU: Nei amma, sko í Sverige er bara jultomten, ekki jólasveinar. Og í Kína þá eru símffareando! (ógreinilegt orð).

Löngu seinna.

Ég á tvo afa, þeir heita Einar.

Amman: Já það er rétt.

Afi minn í Keflavík heitir líka Einar en þú þekkir hann ekki neitt amma. 

Amman:Halo

Og..

Amman: Rosalega er pilsið þitt fallegt Jenný mín er þetta pilsið sem afi í Keflavík gaf þér?

Barn: Nei, nei, það var ekki afi minn, pabbi hennar mömmu gaf mérða.

Við erum annars góðar í kreppunni ég og nafna mín.

Later.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 11
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 2987142

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband