Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Bölvað ekkisens pirringsblogg

 

Ég hef verið öllu pirraðri í dag en mér er hollt.  Hvað get ég sagt?  Ég er mannleg.

Mig var farið að gruna að það væru tvö almanök í gangi hérna í Seljahverfinu og sá hluti hverfisins sem er með öðruvísi dagatal en mitt, heldur að það sé gamlárskvöld.  Það er sprengt svo ógeðslega mikið að ég er að fara yfir um hérna.    Eldhúsglugginn titrar og skelfur.  Af hverju geta sumir drengir ekki orðið að fulltíða mönnum, jafnvel þó það standi á skilríkjunum þeirra að þeir séu komnir vel yfir fermingu?

Okokok, tuð skilar engu, held ég, en til vonar og vara held ég áfram.

Ég horfði á Áramótaskaupið núna áðan og nú fannst mér það lágmarksfyndið.  En það er ekki við Skaupið að sakast, það eru hryðjuverkamennirnir í hverfinu hérna, sem akkúrat núna senda ýlusprengjur í seríum,  sem eiga sök á húmorsleysi mínu. 

Annars skil ég ekki af hverju fólk býst við að liggja í brjálæðislegum hláturskrömpum í þúsundatali, yfir klukkutíma þætti, sem á að höfða til sem flestra.  Ég brosi eða hlæ nokkrum sinnum og þá er ég ánægð.

Sá sem sér um Skaupið hverju sinni hlýtur að vera óvinsælasti starfsmaður á landinu, ef frá er talið starfsfólk TR, en það fólk gæti gert betur.  Þar skilur á milli Feigs og Ófeigs.

Húrra Skauparar.  Þið eruð krútt.

Og svo er þetta með hana Björk og vodkaflöskuna sem hún á að drekka sinnum einn í viku.  Mér fannst þetta lélegur djók og mér datt ekki í hug, í eina míkrósekúndu að hún hefði sagt þetta, hvað þá heldur að hún drykki vodkafjandannHún er listamaður sem vinnur að sinni list og gerir það vel, og væri ekki stödd þar sem hún er ef hún væri maríneruð í vodka allan ársins hring.  Það sem fólki dettur í hug. Bölvað ekkisens kjaftæði.

Ég held að ég þjáist af jólasorg.  Það er alltaf svo mikill tregi í mér þegar ég tek niður skrautið, þó ég sé dauðfengin í aðra röndina að allt sé búið.  Þetta heitir að vita ekki í hvorn fótinn maður á að stíga.  Er ég að koma eða er ég að fara?

Nú er ég búin að pirrast í bili og líður svona líka ljómandi vel, ef ekki væri fyrir skipan Össurs í stöðu Orkumálastjóra.  Mikið rosalega hlakkar mig til að heyra ráðherrann rökstyðja stöðuveitinguna.  Það hlýtur að gerast í næstu viku.

Lovejúgæs og sorrí yfir pirringnum.

Allir dagar koma bara ekki innpakkaðir í gjafapappír, þeir koma í brúnum, rifnum bréfpoka, tættir og sveittir og botninn við það að detta úr.  Ójá.

That´s live for you!

Cry me a river og nú eru það ekki bara orðin tóm.  Hlustið á Lulu og Jeff Beck taka þetta frábæra lag. 

Gæsahúð

 


Hvað segja þjóðernissinnarnir núna?

Hehemm, ég þorði ekki að kalla þjóðernissinnana rasista eða útlendingahatara, sem þeir auðvitað eru, þannig að ég notaði þjóðernissinnar í staðinn.  Þið vitið hvað ég meina.

Pólverjar eru þeir löghlýðnustu af öllum þjóðarbrotum á landinu.  Þetta eru hlutfallslegar tölur.

"Erlendir ríkisborgarar sem ákærðir eru fyrir glæpi eru sumir ferðamenn og því má ætla að hlutfall ákærðra með erlendan ríkisborgararétt sem búsettir eru hérlendis sé enn lægra."

Mér finnst þetta bráðnauðsynleg vitneskja með tilliti til þeirra fordóma sem beinst hafa gegn ákveðnum þjóðarbrotum, í tengslum við glæpi í þjóðfélaginu.

Kannski slá þessar staðreyndir á útlendingaótta hjá þeim sem eru haldnir honum og þá má jafnvel búast við því að það verði ekki einblínt á þjóðerni þess sem glæpinn fremur, heldur verknaðinn sjálfan.

Glæpir, einkum og sér í lagi ofbeldisglæpir eru skelfilegir og þá verður að stöðva með öllum ráðum.  Að einblína á nýja Íslendinga fremur en samfélagið sem glæpirnir spretta úr, er að drepa málum á dreif.  Skilar engu nema ótta og hatri.

En ég gladdist við að fá grun minn staðfestan.  Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé, hér á Íslandi, sem og annars staðar, en þjóðerni glæpamannsins skiptir engu máli, að mínu mati.

Og svo er að henda fordómunum út með ruslinu.

Kikkmíandsúmí.

Úje


mbl.is Pólverjar þeir löghlýðnustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég alkinn

spaceball

 

Á morgun á ég 15 mánaða edrúafmæli, (á morgun hvað, það er kominn sá 5. sé ég núna).

En í kvöld var ég eitthvað ónóg sjálfri mér og gat ekki fest hugann við neitt, fann mér ekkert að gera, mér leiddist og ég var pirruð.  Sum sé ekki gott mál fyrir alkann mig.  Sem betur fer hendir þetta sjaldan, en ég verð alltaf jafn óróleg, jafnvel óttaslegin þegar mér líður svona.

Ég fann enga ástæðu fyrir líðaninni, þannig að ég hætti að velta mér upp úr af hverju og fór að leita lausna.  Ég var nýbúin að lesa í AA-bókinni, þannig að ég endaði við sjónvarpið.  Ég fletti, (flett,flett) milli stöðva og á norsku sjónvarpsstöðinni var verið að sýna "Leaving Las Vegas" sem er ein öflugast mynd um eyðingarmátt alkahólismans sem ég hef séð, enda fjallar hún um mann sem ákveður að drekka sig í hel.

Svei mér ef ég fékk ekki trú á almættinu, upp á nýtt.  Þarna fékk ég inn með skeið, allan viðbjóðinn sem hinn virki alki gengur í gegnum og þarna endar alkinn dauður eftir að hafa eitrað fyrir sér með brennivíni þar til yfir lauk.

Og nú sit ég hér svo sæl og róleg, mér leiðist ekki lengur, hjarta mitt er bara fullt af þakklæti fyrir að hafa fengið hjálp, áður en það var of seint.

Eins og amma mín sagði alltaf; manni verður alltaf eitthvað til bjargar.

Það er sæll og glaður alki sem leggst til svefn núna eftir að ég kem þessari snúru minni í loftið.

Fimmtán mánuðir er nokkuð góður tími.  Ha???

Farin edrú að lúlla.

Góða nótt elskurnar mínar.

Úje.


Má Stefán Friðrik bjóða sig fram til forseta?

Mér líkar ekki þetta tal um að Ástþór Magnússon eigi ekki að bjóða sig fram til forseta, hann sé búinn að gera það tvisvar og það sé ekki séns í júnó að hann geti unnið kosningarnar.  Ástþór er friðarpostuli og jólasveinn í hjáverkunum, og hann hefur fullt leyfi til að bjóða sig fram, að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru frambjóðendum til forsetaframboðs.

Pétur Hoffman, maðurinn sem gekk fjörurnar og safnaði fjársjóðum, bauð sig líka fram til forseta og einhvertímann bauð sig fram kona, Sigrún hét hún, að mig minnir, sem var húsmóðir í Vestmannaeyjum.

Só??

Sumir segja, ekki aftur Ástþór, ég skil alveg pirringinn, Ástþór er frekar kynlegur kvistur og búin að vera í framboðsbransanum með litlum árangri, eins og ég nefni hér að ofan.

Lýðræðið virkar svona.  Guð ég elska lýðræðið, jafnvel þó það hafi stundum hallærislegar aukaverkanir, eins og þegar kverúlantar fara í framboð.  Sumir segja að þetta kosti svo mikla peninga.  Auðvitað, kosningar eru dýrar í framkvæmd.  Ekki er það næg ástæða til að við hættum að kjósa svona yfir höfuð? Ædóntþeinksó.

Þarf mótframbjóðandi að þessu sinni að vera "málsmetandi" maður til að kvartið og kveinið hætti?  Einhver sem fjöldanum finnst verðugur wanna be forseti?

Það mætti kannski endurskoða reglurnar.  T.d. auka fjölda meðmælenda með frambjóðandanum, mér skilst að núna þurfi þeir að vera 1500.  Ekki erfitt að verða sér úti um 1500 sálir til að skrifa uppá. meira að segja ég myndi merja það.

Ætti ég að fara í framboð?  Eða húsbandið, hann getur spilað þjóðsönginn á gítar.  Ójá.

En án gríns þá er ég svo stórhneyksluð yfir kjaftavaðlinum í honum Stefáni Friðrik að þessu sinni (sjá hér), veit ekki alveg hvort hann er að ná sér í fleiri heimsóknir með fyrirsögninni, eða hvort maðurinn er heillum horfinn, því hann segir að það sé nauðgun á lýðræðinu ef Ástþór Magnússon býður sig fram.

Við getum haft skoðanir á fyrirkomulaginu og í lýðræðisríki er ekkert eðlilegra að endurskoða og breyta fyrirkomulagi sem kannski er orðið úrelt, en á meðan reglurnar eru svona, þá er akkúrat ekkert athugavert við að fólk eins og Ástþór og aðrir bjóði sig fram móti sitjandi forseta.

Hversu vitlaust sem það annars kann að virðast.

Úje.

 


Andskotans kúnnafíflin

Í gegnum árin og þá einkum og sér í lagi, einokunarárin, hefur mér fundist töluvert skorta á virðingu við farþegana hjá Flugleiðum.

Ég er þá ekki að tala um áhafnirnar sjálfar, þar sem ég hef aldrei mætt neinu nema velvild, þannig að það mál er út af borðinu hér með.

Ég á við viðhorf félagsins, gagnvart kúnnanum, sem lengi vel hafði litla sem enga valmöguleika um flugsamgöngur.  Enda verðlagið eftir því í gegnum árin.

Núna tekur steininn úr.

Lögreglu var sigað á óánægða farþega sem vegna seinkana, sem urðu vegna skorts á úthvíldum áhöfnum hjá Flugleiðum og veðurs.

Haft er eftir Bergþóri Bjarnasyni að framkoma starfsmanna þjónustuborðs hafi verið til skammar, þeir hafi verið dónalegir og lögreglan verið kölluð til vegna farþega sem var heldur æstur en engin þörf hafi verið á því.

„Ísland er nú ekki svo mikið lögregluríki að fólk megi ekki segja skoðun sína," segir hann. Hann er ósáttur við kvörtunarþjónustu fyrirtækisins, hann hafi áður sent athugasemdir þangað en engin svör fengið.

Það virðist ekki vera mikil áhersla lögð á kurteisi í "þjónustuborði" félagsins, ef marka má þetta og reyndar fleiri sögur sem ég hef heyrt af óánægju fólks með hið svo kallaða þjónustuborð.

En hér kemur svo rúsínan í pylsuendanum:

"Guðjón Arngrímsson,upplýsingastjóri Icelandair, hefur  útskýringar á töfunum á reiðum höndum auðvitað og svör hans má lesa í greininni.  En eftirfarandi segir hann í lokinn:

Þar af leiðandi koma reglulega kvartanir, sumar réttmætar en oft er fólk að reyna að verða sér úti um eitthvað sem það á ekki rétt á."

Ég trúi varla mínum eigin augum?  Er þetta viðhorf Flugleiða til viðskiptavinanna?  Eflaust er alltaf eitthvað um að fólk reyni að nýta sér aðstæður en það getur ekki verið meirihluti farþega félagsins, ég trúi því ekki.  Eða er maðurinn að segja að Íslendingar séu upp til hópa gírugir andskotar sem skirrist ekki við að reyna hafa út úr Flugleiðum eitthvað sem það á ekki rétt á?

Það mætti benda upplýsingafulltrúanum á að það eru til hugtök sem heita þjónustulund og virðing gagnvart kúnnanum.  En kannski er það óþarfi, þeir sitja nánast einir að markaðnum og geta ullað á okkur asnana sem ferðumst með þeim.

Reyna að hafa eitthvað af Flugleiðum sem það (við farþegarnir) á ekki rétt á!!!  Skemmtileg umsögn.

ARG


mbl.is Löggan send á reiða farþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persona non grata?

 

Nú hefur Borgarleikhússtjóri, Guðjón Pedersen, tekið leikhúsgagnrýnandann Jón Viðar Jónsson út af frumsýningargestalistanum.  Hann þarf héðan í frá að borga sína miða sjálfur, vilji hann sjá sýningar í leikhúsinu.

Þetta gerir leikhússtjóri vegna þess að honum finnst gagnrýnandi sýna áhorfendum vanvirðingu með þeim orðum sínum, í ritdómi, að það stafi nálykt af Borgarleikhúsinu og eitthvað fleira nefnir hann til, máli sínu til stuðnings, eins og lesa má hér.

Nándin er of mikil í þessu gluggatjaldaþjóðfélagi.  Nú veit ég ekkert um hversu góður/slæmur gagnrýnandi Jón Viðar er, en ég minnist þess í gegnum tíðina að það hafa orðið heiftarleg viðbrögð frá leikhúsfólki, þegar sýningar eru teknar niður.  Ekki bara af þessum gagnrýnanda.

Þrátt fyrir heiftarleg skrif finnst mér samt ekki mjög fagmannlegt að svipta manninn, sem vinnur við leikhúsgagnrýni, frumsýningarmiðum, það er eins og leikhússtjórinn sé að bregðast við eins og móðgaður smákrakki.

Reyndar finnst mér þetta með nályktina frekar ósmekklegt, en ég hef á tilfinningunni að það sé ekki til siðs víða að skutla gagnrýnendum í leikhúsi út af listum, lýsa þá persona non grata, af því leikhússtjóranum líkar ekki orðalagið í krítikinni.

Það er klént.  Hehemm.

Ég held samt að Jón Viðar sé frekar svona pirraður karakter, án þess að ég geti fullyrt neitt um það og ég held líka að það þurfi heilagan mann að láta hann ekki fara í taugarnar á sér, þ.e. ef viðkomandi á hagsmuna að gæta.  Hann fer stundum villt í mínar pirrur og er ég nú bara leikhúsgestur og lesandi.  Finnst hann allt að því illkvittinn á köflum.  En samt krútt.  Æi skiljið þið?

En báðir aðilar verða að kippa þessu í liðinn.  Þetta er ekki áhugamannaleikhús hérna, heldur Borgarleikhúsið og Jón Viðar er gagnrýnandi sem fólk les. 

Kiss and make up guys.  Þetta eru ekki neitt sérstaklega fagleg vinnubrögð á hvorn veginn sem er.

P.s. Svo held ég að mikilvægi gagnrýnenda sé dálítið ofmetið hérna.  Aldrei nokkurn tíma læt ég þá hafa áhrif á mig, hvorki er varðar tónlist eða leiklist. En ég les hana alltaf, ójá og svo ber ég saman við mína eigin upplifun.  Ég held hreinlega að fólk láti ekki segja sér hvað það á að sjá og hvað ekki.

En ég hef kannski ofurtrú á manneskjunni.

Úje og koma svo!


Árás úr launsátri - ég í þörf fyrir áfallahjálp

Ég er búin að koma mér upp vandmáli (sjúkdómi jafnvel), en það er bloggið.  Ég gerði mér enga grein fyrir að ég yrði að taugahrúgu vegna þess að mér tækist ekki að komast inn á fargings bloggið til að lesa og kíkja á framvindu mála, þegar allt krassaði í dag.

En í dag komst ég að því að ég er í ógeðslega mikilli krísu út af árásinni sem gerð var á blog.is, sem gerði það að verkum, að ekki kjaftur hefur komist inn á síðuna mína, og ekki þá ég heldur, jesúsinn minn!

Ég var reyndar ekkert að pæla í blogginu fyrr en seinni partinn í dag, að ég settist niðurí  miðjum þrifum, til að fá mér sígó og kíkja á bloggið.  Ekkert gekk, allt lá niðri.  Það var þá að mér fannst þessa knýjandi þörf að komast inn á mitt persónulega blog.is, og ég hófst handa við að framfylgja einbeittum vilja mínum.

Það er skemmst frá því að segja að ég lenti í því sama og margir aðrir, komst hvorki lönd né strönd.

Ég brotnaði niður, ég grét, fleygði mér í sinnum þrír í veggi, titraði, hjartað var á leiðinni ofan í maga, ég varð rauðdílótt í framan og ég varð að anda í bréfpoka, brúnan sko.

Nú er minn eðlilegi húðlitur (sem er doldið út í grænt og grátt svona) að koma til baka, hjartað er að ná eðlilegum slagfjölda á mínútu og ég þarf ekki að anda í pokaskömmina lengur, guði sé lof.

Án alls fíflagangs þá fannst mér frekar óþægilegt að bloggið lægi niðri en ég eins og fleiri er vön a kíkja inná, af og til yfir daginn, en það er eins og að skreppa í pásu með góðum kunningum.

En nú erum við komin heim, óslösuð, það er flott.

Var ég búin að sejga ykkur að ég skúraði eins og berserkur til að fá útrás fyir skelfingu mína þegar verst lét?

Ekki?

Ok þá vitið þið það núna.

Kem eftir smá.

Úje


Á ábyrgð lækna?

Ég las í Mogganum að kona hafi verið heima hjá sér meðan hún framkvæmdi fóstureyðingu með þar til gerðri pillu.  Það kemur fram eindreginn vilji konunnar að hafa haft þennan háttinn á.

Það er ekki hægt að blogga um fréttina. 

"Fóstureyðingarpillan er lyf sem konum er gefið með tveggja daga millibili og brýtur niður slímhúð legsins. Á meðan hún er að skolast út er ætlast til þess að konur séu á spítala. Konan segist þó um síðir hafa fengið leyfi læknis til að eyða fóstrinu heima hjá sér."

 

Fyrir utan hvað mér finnst þetta kuldalegt þá langar mig að vita hvort læknirinn beri ekki ábyrgð hérna, þ.e. ef eitthvað óeðlilegt hefði komið uppá?

Blæðingar geta orðið miklar við notkun svokallaðrar fóstureyðingarpillu.

Hvað næst, getur maður þjarkað sig í gegnum minni háttar inngrip heima í stofu?

Kannski gegnum síma?

Mér er eiginlega hálf ómótt eftir þennan lestur.

Sjá hér.


Eymdin og sorgin sem selja

Nú, þá er þessi fyrsti virki dagur nýs árs, senn á enda runninn.

Einhverjir strákar á öllum aldri geta samt ekki hægt að sprengja, hér eru drunur eins og á átakasvæðum.

Ég er búin að lesa bókina um hana Bíbí og var búin að lofa að blogga um hana, fyrir bloggvini mína og ég veit, satt best að segja og aldrei þessu vant, hvað mér finnst.

Ég hef svo klofnar tilfinningar gagnvart efninu.  Bókin er vel skrifuð, auðvitað, það fara ekki margir í pennann hennar Vigdísar.  Viðfangsefni bókarinnar, hún Bíbí Ólafsdóttir, er líka frábær alþýðukona, sem fær heldur betur að finna fyrir lífinu.  Hún heldur samt ótrauð áfram, eftir hvert einasta skipti sem settur er fyrir hana fótur. Stundum er hún sjálfri sér verst, stundum fær hún utanaðkomandi aðstoð við áföllin, alveg eins og gengur í lífinu, ég ætti að þekkja það.

Þetta er sem sagt góð bók, ef ég á að lýsa henni á einfaldan hátt.

Burtséð frá ágætri bók um Bíbí, þá er eitthvað í tíðarandanum, sem gerir það að verkum að fólk hópast í eymdina og sorgina hjá öðrum, eins og við viljum geta fylgst með af kantinum, án þess að vera beinir þátttakendur, kíkja úr öruggri fjarlægð á sársauka og sorg náungans.  Eins og við höfum sterka þörf fyrir að fá áþreifanlega sönnun þess að við séum í ágætis málum sjálf.

Ég held að ég tjái mig ekkert sérstaklega um þetta mál frekar í bili.  Enda vart búin að hugsa það til enda.

Ég las Harðskafa Arnaldar Indriðasonar.  Ég las hana af því að ég hafði ekkert betra að gera.  Hef aldrei verið fyrir sakamálasögur.  Mér fannst hún fyrirsjáanleg, fyrirsjáanleg og fyrirsjáanleg.

Það kannski kemur til að því að ég beitti minni alkunnu lestrarreglu, sem ég nota á bækur með óræðan endi, ég tékkaði á sögulokum þegar ég var komin inn í miðja bók, en ég hef þetta fyrir reglu, þar sem mér leiðist spenna og get þá lesið bókina í rólegheitum í staðinn fyrir að stressa mig á hverjir enda uppi dauðir, hverjir sem sökudólgar og hverjir sem sigurvegarar. 

En...

hún var samt fyrirsjáanleg.

Og hananú

og úje 

 

 


Fjörið ekki aldeilis búið - ónei

Mundi eftir því áðan, ruglhausinn ég, að ég er á leiðinni til London þ. 18. janúar.  Ég mun ELDAST í þessari ferð, í alvörunni sko, þar sem ég á afmæli á meðan ég dvel í heimsborginni.

Ég fékk þessa ferð í jólagjöf frá dætrum mínum og frumburður fer með mér.

Við erum að velta okkur upp úr leiksýningum.

Úrvalið er ógurlegt.

Og á afmælisdaginn ætla ég að fara á Simon Cowell veitingastaðinn hennar MaysuWhistling

Annars ætlaði ég að blogga kvikindisblogg um Þorstein Davíðsson, af því hann tilkynnti sig veikan, fyrsta dag í vinnu.  Allir að fara á límingunum í vinnunni og svona, en ég hætti við.  Hafið þið séð augun í manninum.  Þau eru faaaaalleg.  Þess vegna læt ég hann í friði og óska honum snöggs bata.

En ég býð eftir rökstuðningi frá ráðherra, vegna þessarar ráðningar.

Já elskurnar, nú undirbý ég fyrir jólaniðurrif og ferðalag. 

Ég heldi nú það.

Kikkmíæmvolnerabúll.

Úje


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.