Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

SPEGILL.. FRAMHALD

1

Nú, nú, eftir ævintýri morgunsins með speglinum, var ég að vonum ansi þreytt og fór og lagði mig.  Ég sofnaði þungum svefni.

Mig dreymdi risastór skæri í kanínubúning og bleikum converse-skóm sem hlógu geðveikislega og eltu mig um allt.

Nema hvað?


SPEGILLINN TALAR

Mér hefur verið ráðlagt að brosa í spegilinn á morgnanna, jafnvel bjóða mér góðan daginn og svoleiðis, þið skiljið.  Þetta geri ég yfirleitt á hverjum morgni, þ.e. brosi flóttalega til sjálfrar mín, svona frosnu brosi en er alveg í rusli vegna þess að ég er svo full af einhverjum kjánahrolli.

Í morgun vaknaði ég fyrir allar aldir.  Ég fór beint í morgunverkin, þvoði mér í framan og burstaði tennur og dreif mig svo í brosstandið með hálfum huga, eftir að hafa tvítjékkað á svalalæsingunni, útidyrahurðinni og fjórlæst baðherberginu.

Mér brá þegar ég horfði í spegilinn.  Það var ekki af undrun og aðdáun á sjálfri mér þótt ótrúlegt megi virðast.  Spegilmyndin horfði á mig úrillum augun og sagði:

SP: Ekki flott á okkur hárið nú frekar en endranær.  Eitthvað heyrt talað um hárgreiðslustofur?

Ég: HA?

SP: Þetta ástand er nú ekki til að brosa yfir, sérðu gráu hárin hérna fremst, t.d. hér (hönd á spegilmynd beinir frekjufingri að örfínum gráum geislum við topp).  Hvernig eigum vér að brosa þegar ástandið er svona?

Ég: (Enn í áfalli) Haaa?

SP: Vér nennum ekki þessum brosleik fyrr en eftirfarandi ábendingar hafa verið lagaðar:

a) hár klippt

b) hár litað og strípað

c) augabrúnir plokkaðar

d) Lýtaaðgerð framin á augnumgjörð

Þangað til verður beitt dagsektum.

Æmstillsjeiking!

 


NERÐIR SÍÐASTIR Í RÖÐINNI

1

Auðvitað eru nerðirnir síðastir í röðinni.  Hér og þar má sjá/heyra hjáróma raddir þeirra hrópa í fyrirsögnunum "KLUKK".  Halló, klukkið er liðið undir lok.  Við vorum að því fyrir fleiri dögum síðan.  Tíminn líður hérna á netinu og nú erum við að byrja á "Í grænni lautu".

Þetta er eins og að bjóða gleðileg jól í febrúar og vera jólalegur í framan um leið.

Bítsmíðispípúljúnó.


BAKA OG BAKA..

..en ekki kjaftur kýs mig neinsstaðar.  Ég er viðstöðulaust bakandi þessa dagana.  Ég baka kanelsnúða, pönnukökur, kryddkökur, bananabrauð og núna döðlubrauð og fólkið mitt gúffar þessu í sig eins og hungraðir úlfar.  Allir svo hræddir um að þetta sé tímabundið ástand, að ég komist til sjálfrar mín á hverri stundu og baki upp frá því ekkert nema vandræði.

Beikingvúmankræsfordjöstis!


mbl.is Íslenskt bakarí komið í úrslit í keppni í Flórída
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GLATAÐ TÆKIFÆRI

1

Ég hafði ekki hugmynd um að Búskur forseti hafi farið frá völdum á meðan hann fór í krabbameinsskoðun í dag.

Ef ég hefði vitað að hann væri ekki forseti Bandaríkjanna lengur, þótt ekki hafi það verið langur tími, hefði ég svo sannarlega gert mér dagamun.

Fruuuuuuuusssssss!

ÆMBEVILDERDANDBÍTREID!


mbl.is Bush hefur tekið aftur við völdum eftir læknisskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FYRIR JÓNU ÁGÚSTU

1

..Gísladóttur, eðalbloggvinkonu mína (www.jonaa.blog.is) en mér finnst ég þurfa að útskýra hillusvipinn margfræga betur fyrir henni.

Húsbandið kýs frekar að fara með skrifaðan lista í matvörubúðir heldur en með undirritaðri.

Ástæða:  Hann heldur því fram að það komi óræður hillusvipur á frómu mig og að ég sé til alls líkleg.

Útskýring fyrir Jónu:  Bretinn þinn virðist líka telja það fjárhagslega hagstæðara að dingla um allt með miðanum fremur en þér. Alla vega, Jóna mín, þá vissirðu strax hvað hillusvipurinn þýddi.

Niðurstaða: Ég er kúl, Jóna er kúl.  Mér finnst gott að hafa húsbandið í innkaupunum en ég fer alltaf nokkrum sinnum í mánuði og lif mýtuna  "konur eru kaupóðar", ekki fer maður að eyðileggja svo útbreitt kjaftæði um konur, og svo finnst mér best að gera hlutina þannig að ég standi ærlega undir nafni.

Muhahahahahaha

Súmígæs.


NEYÐARLÍNUR EÐA "HEITIR SÍMAR"

1

Eru til umræðu nú þegar fjöldahystería ríkir um heim allan vegna útgáfu Harry Potter bókarinnar og þar með afdrifum söguhetjanna í þeirri merku bók.  Það er sum sé talið, a.m.k. í Bretlandi, að mikið álag verði á viðkomandi "hotlines" af því fólk muni fara í sorg og aðskilnaðarerfiðleika eftir lesturinn.

Mér hefur fundist þetta pínu fyndið, pínu yfirdrifið, pínu hallærislegt og pínu aumingjalegt.

Svona var það víst líka þegar hinn væmni drengjakór "Take That" hætti samsullinu.

HVERS VEGNA VAR EKKI BOÐIÐ UPP Á SVONA ÞJÓNUSTU ÞEGAR BÍTLARNIR HÆTTU???

Þá væri maður kannski í betri málum í dag en raun ber vitni.

Bítsmí.


MIG VANTAR BLÓÐ..

1

..ef einhver er til að gefa mér smá?  Fékk að vita það í gær án þess að ég ætli að setja ykkur inn í alla mína sjúkrasögu addna gemlingarnir ykkar. 

Það rann upp fyrir mér ljós og ég skildi á því augnabliki hvers vegna eina aktivitetið hefur verið nánast eingöngu í fingrunum á mér undanfarið (lyklaborðsmarsúrkinn), ég hef gert lítið annað en að færa mig á milli stóla.

Ég er svo glöð að það skuli eitthvað ama að mér og  að það skuli vera hægt að kippa því í liðinn án mikillar fyrirhafnar.

Újeeee


AFMÆLISBARN DAGSINS

1

Hann Jökull Bjarki elsta barnabarnið mitt á afmæli í dag, en hann fæddist árið 1994.  Byltingarárið í lífi ömmu sinnar þegar hún snéri upp og niður á lífi sínu með góðra (misgóðra) manna og kvenna hjálp.  Hann fæddist á yndislega fallegum júlídegi, íðilfagur og hefur haldið þeim sið síðan  Jökullinn er duglegur, klár, grúskari og lestrarhestur og verðandi bassaleikari af guðs náð og er til fyrirmyndar eins og sönnum unglingi sæmir.  Jökksinn, Klakinn eða Jökkli, eins og hann er kallaður, ýmist eða á víxl fer til Parísar og London með mömmu sinni í lok mánaðar í tilefni afmælis.  Þar sem ég á enga nýlega mynd af drengnum (Helga Björk vinsamlega meila mynd af dreng) kemur hún inn seinna þegar frumburðurinn gefur sér tíma til að senda ömmunni eins og eitt almennilegt eintak af barnabarni numero uno.

Granny-J


FRIÐARGÆSLULIÐAR - MINN AFTURENDI

1

Hermenn eru hermenn, alveg sama hvaða nöfnum er troðið á þá  og hver sendir þá í stríð.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hermenn S.Þ. (friðargæslumennirnir með byssurnar) liggja undir grun fyrir að misbeita valdi sínu gagnvart því fólki sem þeir eiga að vernda.  Þetta er heldur ekki í fyrsta skipti sem þessir vopnuðu "englar" eru grunaðir um kynferðislega  misnotkun.  Núna eru þeir sakaðir um kynferðislega misnotkun á Fílabeinsströndinni.

Þetta hefur gerst nógu oft til að Kofi Annan sá sig knúinn til að taka upp hina svokölluðu 0-stefnu (zereo-tolerance) gagnvart þessum málum sem þýðir einfaldlega að slíkt athæfi verður með engu móti þolað. 

Þá er að standa við það bara.

Meiksmísikk!


mbl.is Friðargæsluliðar SÞ sakaðir um kynferðislega misnotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband