Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

STUNDUM ER BETRA AÐ ÞEGJA!

22

Framsóknarbloggarinn Sveinn Hjörtur segir kjaftasögu á blogginu sínu í dag um samskipti sín og Steingríms J. Sigfússonar eftir Kastljóssþáttinn í gærkvöldi.  Hann segist ekki geta haft sumt eftir en tíundar annað og fullyrðir að Steingrímur J. hafi misst sig við sig.  Það má nefna það í framhjáhlaupi að Sveinn Hjörtur er á fullu upp vinsældalistann á blogginu, kjaftasögur hafa alltaf verið vinsælar á Íslandi. 

Mér finnst eitt að segja skoðanir sínar um menn og málefni sem eru til umfjöllunar hverju sinni.  En að koma með samtöl sem einhver segist hafa átt við nafngreindan þennan eða hinn er algjörlega glórulaust og fyrir neðan allar hellur.  Ég man ekki til þess að nokkur maður hafi hafi skrifað um samskipti sín við fólk undir þessum formerkjum áður.  Ég las reyndar pistil eftir Helgu Sigrúnu, framsóknarkonu og  þingmannsefni úr Reykjanesbæ, þar sem hún tíundaði bjórdrykkju eins frambjóðenda Samfylkingarinnar þegar hún bloggaði um fund sem hún hafði setið. 

Er þessi rætni í Framsóknarflokknum landlægur andskoti?


HÉR HEFST SKRÁNING Á....

44

..reiðhjólasögu Jenny Unu Errriksdóttur.  En í dag ætla amma og Einarrrr að fara í Markið og versla hjólið sem þið sjáið hér fyrir neðan.  Jenny veit að við ætlum að ná í hana og mömmu eftir skóla og kaupa fyrsta alvöru farartækið hennar.  Hjólið fær hún ma vegna þess að hún er "umsyggjusöm", "skiptist alltaf á", "er alltaf glöð","elskar jákarla, gívaffa og kókófíla"  og svo þarf barnið að geta farið með sjálfa sig á milli staða.  Hreyfisaga Jenny á  fótknúnum farartækjum er skráð hér á blogginu í fyrsta sinn.  Áður en amma hennar hefur snúið sér við mun Jennslubarnið halda á ökuskírteini.  OMG!

22

Amma-Brynja fer til London í afmælið hans Olivers 12. maí og með sér mun hún hafa pening frá Ömmunni og Einarrri til að kaupa hjól handa 2. ára strák sem fer alltaf hratt yfir, líka á tveimur jafnfljótum.

 

LovjúHeart

 


FRÖKEN JÚLÍA..

22

Gillard á ekki skilið að verða leiðtogi þar sem hún hefur ákveðið að eignast ekki börn, segir Bill Heffernan, ástralskur þingmaður, sem bað í dag afsökunar á ummælum sínum um kollega sinn. Heffernan finnst það nauðsynlegt að konan skilji sambandið milli foreldris og bleyjufötunnar. Þetta er auðvitað rétt hjá manninum.  Ef konan hefur ekki þvegið bleyjur þá er hún alls ófær um að vera aðstoðarformaður Verkamannaflokksins. Það skilur hver hugsandi maður.  Hvernig eiga konur að geta setið á þingi, vasast í póltík eða í sjórnunarstöðum hjá fyrirtækjum ef þær eiga ekki börn?  Ekki eru karlmenn að æða út á vinnumarkaðinn, í karríerinn án þessar bráðnauðsynlegu reynslu í farteskinu.  Er það nokkuð?

Er Ástralía þriðji heimurinn í jafnréttislegu tilliti?  Nebb held ekki þeir eru bara rustameiri en sum íslensk karlrembusvín og segja það sem þeir hugsa. 

 


mbl.is Baðst afsökunar á ummælum um barnlausa þingkonu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FRRRRUUUUSSSSS! NÁGRANNAR

49

Arg nú þarf ég að hringja bálill í nágrannann.  Er reyndar ekki búin að lokalisera þennan mann í blokkinni hjá mér en ég veit að hann ásamt fríðu föruneyti flutti inn fyrir ári.  Ég hef aldrei séð þennan mann bara heyrt í honum.  Ég hef heyrt í bornum hans sko ekki svo mikið í honum sjálfum.  Ég er viss um að fyrir tveimur jólum síðan hefur hann fengið Black og Decker fyrirkomulag frá mömmu og pabba (vona að konan hafi ekki sjálf hljóðmengað líf sitt) og hann hefur örgla keypt nýtt húsnæði til að geta hamast á bornum fína.  Ég er viss um að íbúðin þeirra hjóna er eins og gatasigti því það líður vart það kvöld að fjárans borinn fari ekki af stað.  Upp úr tíu á kvöldin, aldrei fyrr.  Hann burrar og snurrar þannig að undirrituð engist og hendist til í hvert skipti sem húsið nötrar.  Ég hef stundum velt fyrir mér hvort þetta sé drykkjumaður sem hræri drykkina sína með bornum.  Eða þá að hann sé tannlæknir og vinni heima! Húsbandið hefur verið að læða því að mér að það geti verið konan hans að brjóta sér leið út um útvegginn á stofunni en æi mér finnst það leim útskýring.  Kannski ég ætti að fara og rekja upphaf hljóðsins frá maskínunni, hringja svo úr öruggri fjarlægð í viðkomandi og garga.  Sko eftir klukkan 24 í kvöld.

 

Súmí


HIN VAFASAMA GULLMOLA DAGSINS HLÝTUR...

48

...Ásta Möller þingmaður Sjálfstæðisflokks fyrir ótrúlega frammistöðu sína í kvöldfréttum Stöðvar 2 í dag.  Ásta hefur sem frægt er orðið, lýst yfir áhyggjum sínum af mögulegri íhlutun forsetans í komandi stjórnarmyndunarviðræðu.  Halló Ásta það er eitt af hlutverkum forseta að veita umboð um myndun ríkisstjórnar.  Molann hlýtur hún fyrir að ganga tvö skref áfram og svo 23 afturábak með því að neita Stöð 2 um viðtal um málið, svara þeim síðan þar sem þeirr hittu hana uppi við Árbæjarlaug og játa þar að hún hefði áhyggjur af þessu með forsetann. Koma síðan og biðja um að fá að skýra mál sitt.  Ég hef ekki séð í áratugi aðra eins hringavitleysu hjá stjórnmálamanni í neinu máli.

Þessi merkilega færsla sem fjallar um áhyggjur Ástu af forsetanum má lesa á www.astamoller.blog.is

Borgar Þór Einarsson flokksbróðir Ástu sá ástæðu til að lýsa yfir áhyggjuleysi sínu vegna mögulegrar aðkomu forsetans að myndun stjórnar.  Úff þvílíkur vandræðagangur.


AF HITASÓTT, RÁNDÝRUM MAT OFL.

22

Úff ég er með hita.  Sótthitta já. Sit hér og ræð fram í gráðið með beinverki, höfuðverk og almmennt slen. Ég finn til í hárinu.  Hafið þið verið með verki í hárinu? Augun ranghvolfast í höfðinu á mér og það er vont að reykja.  Vont að reykja segi ég en ekki ómögulegt.  Í þessu ástandi er ógerlegt að vera með sleifina á lofti þannig að hér var brugðið á það ráð að panta mat utan úr bæ, sem vegna breytts lífsstíls gerirst ákaflega sjaldan núorðið.  Uppáhaldsstaðurinn Nings varð fyrir valinu. Eftir að hafa hringt þangað vorum við að pæla í því húsbandið og ég hvort það hafi orðið rosaleg hækkun í hafi á hrísgrjónum eða eitthvað.  Þeir eru sko flottir á Nings, ekki misskilja mig en 2.800 karl á mann fyrir svona horaða og matgranna einstaklinga er nú bara hvítan úr augunum á manni.  Bæði hönd og fótur.  Ég er ekki nísk en fyrir þessa peninga má gera ýmsilegt skemmtilegt, nytsamt og uppbyggilegt.

Annars er ágætt að lesa blogg þegar heilsufarið er í lakara lagi.  Ég á reyndar alveg ótrúlega skemmtilega bloggvini úr öllum stjörnumerkjum (hehe) og þeir eru allir í "rithöfundamerkinu" með tungl í húmor og pólitíska vakningu rísandi.

Held áfram að lesa blogg og skrifa líka.  Ef þið eruð ekki sátt við það þá getið þið beðið fyrir ykkur, ég hef parkerað minni eðlu seingeitarpersónu við tölvuna og hananú!


ER CASTRÓ DÁINN HM..?

22

Ég er nú í alvöru að pæla í því hvort Castro sé allur.  Hann var hvergi sjáanlegur í hátíðahöldunum á Kúbu í dag en margir héldu að hann myndi nota tækifærið og koma fram opinberlega á 1.maí.  Karlinn hefur ekki sést frá því að hann gegst undir aðgerð í júlí í fyrra.

Þeir eru svo leyndardómsfullir þarna á Kúbu.  Ég hef verið að láta mig dreyma um að komast til draumalandsins áður er karlinn væri allur en nú er hann kannski bara farinn yfir móðuna miklu.  Ætili bróðir hans sé búinn að kasta honum í fangabúðir?  Kona spyr sig.  Endilega segið mér ef þið hafið fréttir af þessu ofurkrútti.

SíjúgæsHeart


mbl.is Kastró hvergi sjáanlegur í hátíðarhöldum á Kúbu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MEIRA BLAÐUR UM STJÖRNUSPÁR

22

Það er nú svo þegar verið er að bíða eftir einhverju eins og kosningunum núna þá finnur maður sér eitthvað til dundurs til að létta biðina.  Ég er enn í stjörnumerkja pælingum þrátt fyrir að ég hafi nú ekki mikla trú á því fyrirkomulagi öllu.  Samt er þetta skemmtilegt dund.  Ég var að velta því fyrir mér hvort eitt merki fremur öðru væri í meirihluta hvað varðar fólkið mitt og vini.  Ég held að á einni æfi séu svona 100 manneskjur sem tengjast manni náið með einhverjum hætti þótt sumir staldri stutt við en aðrir meira og minna allan tímann. 

Ég á sex systur og einn bróður merkin eru: fiskur, hrútur, naut, 2 vogir, steingeit, ljón. Dætur mínar eru bogamaður, vog og ljón. Eiginmenn (þorry þo mikið hjarðeðli og endurnýjunarþörf) tvíburi, sporðdreki og naut.  Vinkonurnar (þessar sem eru komnar til að vera) tvíburi, meyja,  3 naut, fiskur, vatnsberi.   Þetta er það sem ég man.

Niðurstaðan er að meyjur eru sjaldséðar í mínum kunningjahóp.  Nema nottla eitt megababe (Dúa) en meyjur eru svo smámunasamar og korrekt segja fræðin.  Ég er meira svona gjörningakona. Dúa getur sagt ykkur að hún raðar súpupökkunum eftir stafrófsröð, notar reglustriku til að raða í fataskápana ásamt litgreiningarspjaldi.  Þegar hún er að ærast yfir drasli þá er hún oftast að tala um sælgætisbréfið sem hún gleymdi á stofuborðinu. Ég er nú hrædd um það.

Það er bókstaflega allt löðrandi í nautum í kringum mig.  Yndisleg systir mín, eiginmaður og vinkonur og litli Oliver minn sem á 2ja ára afmæli á kjördag. Enda hefur komið á daginn í lífsbröltinu mínu að ég hef haft þörf fyrir alvöru vini. Ójá. Þar kemur nautið sterkt inn.  Vogirnar eru líka í stórum stíl að vega salt við mig, dætur, systir og bróðir og vinir. Vogirnar eru svo yndislega óbalanseraðar og alltaf að taka ákvarðanir um sama málið.  Saran mín er alltaf vegandi og metandi. Ljónið hún Maysa mín er lífsglöð og skemmtileg.  Hún er opin, frjáls og utanáliggjandi.  Elskar margmenni.  Ég þekki svo yndislegt fólk í öllum þessum merkjum.  Bogamaðurinn hún dóttir mín er auðvitað yndisleg og mömmukrúttið mitt.  Þekki annars ekki marga í því merki. Steingeiturnar eru margar (fullkomnar eins og Jenny mín og ég sjálf) en ég vill ekki gera hin merkin döpur.  Þau komast ekki með tærnar þar sem ég hef hælana. Ætli sjálfshól sé einkennandi fyrir steingeit?

Hvaða merki lýsa þá með fjarveru sinni í lífi mínu.  Það er lítið af fiskum, enn minna af vatnsberum, smá af hrútum (á yndislega systur í því merki og pabba líka) dash af tvíburum bara einn lítill og krúttlegur krabbi (hann Jökull minn) og megakúsan mín.  Æðislegt merki.  Afhverju þekki ég ekki fleiri krabba? Vona að ég hafi ekki gleymt neinu orðin kolrugluð í höfðinu á öllu þessu merkjastandi enda ekki vön að hugsa í stjörnumerkjum og það getur gert hvern mann stórbilaðan!

SíjúHeart


ÆFING FYRIR KOSNINGAR 1. MAÍ

22

Ég verð alltaf svolítið væmin 1. maí, á frídegi verkalýðsins.  Var alin upp við að þetta væri hátíðisdagur okkar alþýðunnar.  Ég er ekki mikið fyrir kröfugöngur en hef gengið oftar en ekki og það er stemming að vera í göngunni.  Nokkurs konar vorjól.  Ég verð smá klökk, finn fyrir samkenndinni með félögunum svona eins og þegar klukkurnar hringja inn jólin.  Yndisleg móment. 

1. maí á kosningaári er sérstaklega hátíðlegur og mikilvægur dagur.  Krafan í dag er að "fátækt verði útrýmt í einu ríkasta landi veraldar". 

Nú eru bara 10 dagar í kosningar.  Það er um að gera að fljóta ekki sofandi að feigðarósi.  Það er kominn tími á breyttar áherslur á Íslandi alsnægtanna.  5000 börn lifa undir fátæktarmörkum og það er ekki náttúrulögmál að það eigi að vera svoleiðis.  Það er heldur ekki náttúrulögmál að aldraðir og öryrkjar lepji dauðann úr skel margir hverjir.  Stjórnarliðar tala um að það sé verið að vinna í málum þessara hópa.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft 16 ár til þess og Framsókn 12.  Úff þeir eru bara alveg sveittir við að kippa þessu í liðinn.  Rosalega er þetta erfitt mál að laga.  Bara tugir ára og nú þegar við göngum til kosninga er þetta alveg að bresta á samkvæmt þeim.

Ég vona að hinn almenni maður átti sig á vægi atkvæðisins og noti það skynsamlega.  Það er á fjögura ára fresti sem við getum valið.  Við getum valið viðvarandi ástand sem hentar sumum í þessu þjóðfélagi eða breytt því þannig að forgangsröðunin verði önnur og í þágu stórs meirihluta þjóðarinnar. 

Generalprufan er á morgun.  Eigum við ekki að þramma saman og efla baráttuandann? Sjáumst í göngunni.


mbl.is Krafan 1. maí að fátækt verði útrýmt á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 2987754

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband