Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

SAMANTEKT Á SUNNUDEGI

Ég tók þessa mynd áðan þegar mér varð á að flækjast með myndavélina inn í svefnherbergi og langaði til að sýna ykkur hvílíka röð og reglu ég bý við.  Það er ekki hægt að kvarta yfir að ég haldi ekki öllu í skikki þarna inni í himnasalnum.  Inga-Lill er viðbjóðslega ókurteis og hafði troðið sér í stólinn þann arna til að hugleiða.  Nú en öll þessi föt eru þarna út um allt vegna þess að Maysan var hér um síðustu helgi til að tæma geymsluna sína af nokkuð mörgum kössum af allskonar.  Ég tók upp litla þrjá kassa sem höfðu föt, skófatnað og töskur að geyma en hún seldi föt fyrir ansi háar upphæðir áður en hún flutti til London en þetta voru eftirhreyturnar. Ætlunin var sko að koma þessum kössum með smáræðinu niður í geymslu eftir að hafa farið í gegnum góssið en eitthvað kom meira upp úr kössunum en ég ætlaði.  Maysan! Ég er móðir þín og ég elska þig!

Ég var annars í matarboði hjá Helgu frumburði mínum ásamt minni ruddafengnu sænsku vinkonu og við borðuðum æðislegar kjúklingabringur með ofnsteiktum sætum kartöflum og salati.  Alveg gríðarlega gott og dóttir mín sem var að svigna út af verðlaunagleði sænska sendiráðsins henni til handa þegar hún útskrifaðist úr MH hér margt fyrir löngu, talaði sína eitilhörðu gautaborgísku eins og hún hafi aldrei farið að þaðan þrátt fyrir að hafa ekki beitt henni fyrir sig í mörg herrans ár.  Nú en hér sit ég með minn fatabing og reyni að ná smá slökun áður en ég fer og snyrti smá til á lóðinni.  Mín eftirmæli verða örgla; Húnn vann fram á síðustu stundu.

Síjúgæs!

P.s. Skömmin hún Eva bloggvinkona mín www.evathor.blog.is útnefndi hin ýmsu blogg fyrir eitt og annað og hún útnefndi mig fyrir að vera með flottar myndir!!! Ekki minnst orði á allar mínar ódauðlegu færslur.  Farið endilega gestir og gangandi og böggið kjéddlinguna.

Takk og ajö.


ÉG GLEYMDI HÉRNA LÍTILRÆÐI!

1

Úpps ég er orðin svo gleymin.  Hef þess vegna þessa rauðu slaufu á vísifingri hægri handar til að minna mig á allt það sem ég þarf að deila með ykkur bloggvinir og aðrir gestir.  Þegar líf manns er svo fullt af spennandi viðburðum og það eru ekki einu sinni AUGLÝSINGAHLÉ á milli atriða og hver spennandi atburðurinn rekur annan í hinu villta lífi mínu, þá hef ég gripið til þessa ráðs.  Ég get því miður ekki ráðlagt ykkur hvernig þið eigið að gera líf ykkar auðugri að viðburðum en þið lufsurnar ykkar getið allavega lesið um mitt "hektiska" líf ykkur til upplyftingar.  Eftir að ég varð snúra hefur líf Indíana Djóns orðið eins og hjá fóbiskum perra með torgfóbíu sem fer aldrei út fyrir hússins dyr.  Ójá.

Í gær gleymdi ég að segja ykkur frá æsispennandi atburði sem gerðist í Hagkaup í Kringlunni.  Eftir að fólk hafði nær snúið sig úr hálsliðnum vegna mergjaðrar og sérstæðar fegurðar minnar og limaburðar (þar sem ég sveif um með körfuna úr Hagkaup sem svo vildi ekki vera með á mynd) fór ég allt í einu að sjá tvöfalt.  Ég var í sykurlosti.  Staðurinn var nottla vel valinn, allt löðrandi í akútvörum fyrir sykursjúka og ég drógst nær dauða en lífi að næsta sælgætisrekka og reif í mig súkkulaði.  Meira segja þarna olli fegurð mín og kynþokki ofsaundrun í sælgætisdeildinni.  Það gláptu bókstaflega ALLIR á mig.  Úff eins og fólk hafi aldrei séð konu fá sér nammi á meðan hún verslar.  Auðvitað veit ég að það var lásý afsökun til að fá að horfa á mig sem lengst.

Þessu vildi ég deila með ykkur dúllurassarnir mínir og ég gleymdi því í gærkvöldi af því að líf mitt er svo óheyrilega villt.

Kræst hvað ég á gott að vera ég.  I love my selv!


SKRAUTLEGUR LAUGARDAGUR

Við Inga-Lill hentum okkur í Kringluna til að versla eitt og annað en fyrst og fremst var ég að kaupa inn til örheimilisins.  Myndina hér að ofan tók ég af innkaupakörfunni í Hagkaup (Devil), en þetta er nottla skammarlegt lítilræði sem ég druslaði ofan í körfuna, bara einhverju hent smálegu og góðu í framhjáhlaupi í vagninn til að eiga eitthvað að narta í.  Nú ég klippti mig, eða lét klippa mig og er nú einum forljótum fimmtán sentímetrum fátækari.  Iss, tómur tertubiti að klippa hárið enda það eina sem ég hef getað safnað um ævina.

Við komum heim úr Kringluförinni heilum farmi af djönki ríkari og viðkomandi haugur af óþarfa  kostaði nottla hvítuna úr augum mínum, handlegg og fót.  Þetta var samt einangrað fyrirbæri (sko kaupæðið).  

Við gerðumst síðan últra hællærisleg, ég, Inga-Lill og húsbandið og keyrðum austur fyrir fjall.  Plebbalegasta laugardagsferðalag sem hægt er að hugsa sér en það rigndi allan tímann.  Við stoppuðum í Hveragerði og eini sjáanlegi staðurinn til að drekka kaffi á var...haldið ykkur... EDEN.  Þar fór í verra.  Blómin öll í órækt, mig langaði ekki einu sinni að stela afleggjara, allt í tréverki úr PLASTI og mér leið eins og ég væri komin í KÁNTRÍBÆ.  Mikið rosalega er Eden leim staður.   Við neyddum ofan í okkur kaffibolla og borðuðum samlokurnar og pönnukökurnar sem við höfðum með í nesti (róleg skáldagyðjan tók yfir) og vorum snögg að því.  Upp í bíl stukkum við eins og lömb á vori og bruummmmm við fórum aftur heim, hvar við hentumst í "respektive" sófa og tjilluðum þar til ég settist hér við tölvuna um miðja nótt til að gefa ykkur rapport, elskurnar mínar.

Síjúinalittúlvæl! 


HINN SÍGLAÐI SUMARSTARFSMAÐUR..

p Sumarstarfsmaðurinn á stjörnuspávaktinni í gærkvöldi.  Fellur aldrei verk úr hendi!

..Moggans, þessi sem er með ábyrgðina á stjörnuspánni, heldur áfram að slá sjálfum sér við (veggi og gólf).  Núna er þýðingarhæfileikinn í fullum blóma og hvaða máli skiptir orðalag og stafsetning þegar boðskapurinn er góður?  Stjörnuspá sunnudagsins fyrir undirritaða er svohljóðandi:

"Steingeit: Viltu ráðast á vandamál? Gefðu því allt sem þú átt. Hvert sem þú ert að hreinsa geymsluna heima eða í hausnum, þá virkar að kíkja í horn sem vilja gleymast."

Spekin vellur frá þessari slyngu og skemmtilegu sumarstarfspersónu.  Hvað gerði ég við líf mitt áður en hún kom inn í það þessi elska?  Ég hélt aldrei að ég ætti einhvern tímann eftir að bíða með öndina í hálsinum eftir að spáin væri sett á netið hvern dag.

Gúddnætgæs!


AF FÖSTUDEGI, JENNSLUBARNINU OG BABEL

Dagurinn í dag hefur verið góður.  Flestir annasamir dagar eru það.  Hér var helgin undirbúin með þrifum, keypt í matinn og drukkið mikið kaffi.  Sænska vinkonan drekkur fleiri bolla á dag og ég smitast.  Jenny kom til ömmu og Einarrrs og við höfum ekki séð hana síðan í matarboðinu á mánudag.  Jenny er með streptokokkasýkingu og hefur því verið heima.  Á þessum dögum sem liðnir eru, síðan við sáumst hefur hún bætt við sig heilmikið í orðaforða.  Hún er nú tveggja og hálfs og orðin nær altalandi.  Hún spyr hvort maturinn sé tilbúinn, hvað sé eiginlega að og hvort hún megi fá sælgæti.  Svo sagði hún lækninum sínum að hún væri þriggja ára og ætti afmæli í dag.  Hún kemur aftur á morgun með góða skapið og skemmtir okkur hérna fyrir ofan snjólínu.

Ég horfði á Babel í kvöld.  Væntingarnar voru gífurlegar enda mikið búið að lofa þessa mynd bæði í ræðu og riti.  Mér hugnaðist myndin engan veginn og þessar sögur sem verið er að tengja saman hafa engan tilgang finnst mér og ég fann aldrei til samúðar með karakter Brad Pitt og þeirrar sem leikur konuna hans en nafnið hennar er ekki til staðar í hausnum á mér á þessari stund.

Ég keypti SÁÁ-álfinn í dag, þennan fyrir unga fólkið og skellti honum á útidyrnar til að sölumönnum væri sýnilegt að þetta heimili væri búið að versla fyrirbærið.  Það breytti ekki því að tvisvar var hringt á bjöllunni og þar sem ég er svag fyrir málstaðnum, fyrir nú utan það að vera skjólstæðingur þessara samtaka, skarta ég nú þremur álfum á hurðinni.  Krakkar sem seljið can´t you take a hint???

Æi, læt þetta duga fyrir svefninn.

Gúddnætgæs!


AÐ VERA SNÚRA...

..er ekki alltaf auðvelt.  Allir sem lesa bloggið mitt vita að ég er óvirkur alki og oftast er ég glöð og hress en stundum á ég mína daga þar sem mér líður ekki sérstaklega vel.  Það gerist oftast ef ég gleymi mataræðinu, fundunum eða AA-fræðunum. Verst er þó ef ég sef ekki nóg.  Óbalans er stórhættulegur fólki eins og mér.  Í dag hefur dagurinn verið minna góður en oft áður.  Til að fyrirbyggja misskilning þá er það ekki svo að mig hafi langað í brennivín, ónei sem betur fer en svona dagar eru áminning um að rétta kúrsinn og ganga varlega um í lífinu.

Það hringdi í mig vinur minn í kvöld og við vorum ekki sammála og undir venjulegum kringumstæðum hefði það ekki pirrað mig eða komið mér í ham.  Í þetta skipti fannst mér að heiminum og honum væri hollt að vita nákvæmlega hvað mér fyndist um málefnið.  Egóið spratt fram, gamli hrokinn var uppábúinn í sparifötin tilbúinn að láta til skarar skríða.  Ég hentist út í rökræður sem engu skila, hafa aldrei skilað neinu og munu aldrei gera.  Við tuðuðumst á um stund þar til hann varð illa pirraður á ég væri með skoðanir og attitjúd og sagði þessa dásamlegu setningu sem gerir hvern jafnvægislítinn alka arfabrjálaðan: "Rosalega ertu illa stemmd, ertu að drekka?".  Hm.. hér er kona búin að vera á snúru í hartnær átta mánuði og hefur hangið þar hin ljúfasta í alls konar veðrum án þess að hrynja til jarðar og... ég varð kjaftstopp.  Í huganum henti ég símanum í vegginn, framdi hægfara limlestingu á viðkomandi manni, fór með æðruleysisbænina og sagði honum eins rólega og mér var unnt að við yrðum að tala saman á morgun.

Kannski hefur alki eins og ég fyrirgert rétti sínum til að vera í óbalans.  Ég veit það ekki.  Ég má jafnvel lifa við að fá svona spurningar það sem ég á eftir ólifað.  Hvað veit ég.  Ég er þó viss um að allar manneskjur geta átt von á alls kyns óþægilegheitum, þannig er bara lífið.  Ég get brugðist við mínum bömmerum með að taka leiðsögn frá þeim sem hafa gengið leiðina á undan mér og vera tilbúin til að taka olnbogaskotum lífsins, kannski ekki með bros á vör en þó jafnvægi og slatta af æðruleysi.  Ég fer edrú til fletis í nótt.

GúddnætgæsHeart


KATRÍN BARA FLOTTUST!

1

Rosalega er ég stolt yfir henni Katrínu okkar Vinstri-grænna.  Það var hrein unun að horfa á hana í ræðustól í kvöld.  Steingrímur var auðvitað flottur eins og alltaf en Katrín, glæný á þingi, talaði eins og hún hefði aldrei verið annars staðar en í ræðustól Alþingis.  Það er æðislegt að hafa svona konu eins og Katrínu (að öllum öðrum ólöstuðum) í framvarðarsveit flokksins.

Burtséð frá því hversu klár og skemmtileg Katrín er þá er hún svo skemmtilega "öðruvísi" á löggjafarsamkundunni.  Hún klæðir sig greinilega án tillits til hallærislegra hefða og ég er viss um að hún verður aldrei leiðitamur og litlaus Alþingismaður frekar en aðrir meðlimir Vinstri-grænna.

Óje hvað ég er stolt af stelpunni.


SJÖTÍUPRÓSENT MÖKKUR

1

Í tilefni reyklausa dagsins eru fréttir af reykvenjum heimsins í fjölmiðlum.  Það er sláandi hátt hlutfall Grænlendinga sem reykja eða um 70%.  20% dauðsfalla í landinu eru talin stafa af reykingum.  Vont mál en svona er það þegar fíkniefni eru lögleidd og seld af ríkinu.  Þeir eru greinilega ekki farnir að beita "dubbelmóralnum" á Grænlandi ennþá, þ.e. "skammastín þarna forpestrari andrúmsloftsins en keyptu þér samt endilega sígarettur svo það hringli í ríkiskassanum".  Eitthvað svo halló.  Ætti ég að hætta að reykja eða flytja til Grænlands?  Hversu langt er í að það verði bannað að reykja heima hjá sér?  Eða úti á strætóstoppistöð?  Þegar ég bjó í Svíþjóð fyrir mörgum árum og tók strætó í skólann, fékk ég mér stundum síu úti á stoppistöð.  Þá var oft fussað og sveiað og horft á mig með fyrirlitningu.  Ég man þá tíma líka þegar öskubakkar voru á biðstofum bæði í bönkum og hjá læknum.  Mig langar ekki í þá tíma aftur en smá tolerans væri vel þegin.

Ég heilsa ykkur fallega mínir grænlensku þjáningarbræður!


mbl.is 70% Grænlendinga reykja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AÐ DRUKKNA Í HITABYLGJU!

1

Nú held ég að Rússar megi fara að huga að meðferðarmálum og taka okkur Íslendinga til fyrirmyndar.  Tuttugu og átta manns hafa drukknað í Moskvu á undanförnum dögum í tilraunum sínum til að kæla sig.

Meginástæða dauðsfallanna er sú að fólk er að baða sig þar sem ekki er gert ráð fyrir að fólk baði sig,” segir Vladimir Plyasunov, yfirmaður lífvarðasveita borgarinnar. “Að auki voru 75% þeirra ekki allsgáðir.” Þá segir hann alla lífverði borgarinnar hafa verið kallaða út vegna hitabylgjunnar."

Hitinn í Moskvu er 30 stig þessa dagana og er það mjög óvanalegt í þessum mánuði.  Hm.. það er nottla bara á færi Rússa að DRUKKNA í hitabylgju.  Allir á VOG.


mbl.is Tuttugu og átta drukknaðir í hitabylgju í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KÆRU BLOGGVINIR!

1

12 ykkar fuku núna í kvöld.  Þakka ykkur fyrir að vera með á mynd.  Segi svona!  Ég var í minni vikulegu bloggvinatiltekt og þar sem ég er alltaf að eignast nýja og spennandi bloggvini þá fjúka aðrir.  Ég nenni hreinlega ekki að vera með fleiri metra langan bloggvinalista sem ég get ekki sinnt.  Ég er nottla að kafna úr tiltektarmaníu á netinu meðan vinkona mín hún Inga-Lill hendist um allt hús og þrífur, eins og fram kemur í annarri færslu í dag. 

Ég fór í smá bæjarferð í kvöld, á kaffihús með Ingu-Lill og við sátum úti.  Ég var að hugsa um að planta mér inni einhvers staðar og forpesta andrúmsloftið rækilega áður en reykingarbannið gengur í gildi en svo nennti ég því ekki af því að veðrið var svo gott og sólin skein meira að segja.  Ég hvet alla til að drífa sig á kaffihús annað kvöld (ég meina þeir sem reykja) og reykja eins og þeir eigi lífið að leysa því ef fer fram sem horfir þá verður það ALDREI framar leyfilegt (arg Þorgrímur).

Ég fæ mér sígó og býð góða nótt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 113
  • Frá upphafi: 2988332

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 111
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.