Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Matur og drykkur

Nýbaðaðir, nýrakaðir og púðraðir

 

Ég hef átt yndislegan dag.  Fermingin var falleg og fermingarveislan frábær og barn dagsins, Jökull Bjarki ljómaði eins og sól í heiði.  Myndir birtar síðar.  Það er möguleiki á að ég skelli inn nærmynd af fótabúnaði, þar sem margir hafa grátið í mér og beðið mig um að sýna mínar fögru ristar á blogginu.

Hm...

Ég sat hérna við sjónvarpið, sæl og ánægð en örþreytt, enda ekki nema von, búin að hlaupa út um allt á þeim háhæluðu, sósjalísera og vera skemmtileg innan um alla mína eiginmenn.

Mamma sagði við mig í veislunni (dálítið illkvittnislega, að mér fannst, þó hún þvertaki fyrir það konan) að sér fyndist tilvalið að ég léti taka mynd af mér með öllum mínum eiginmönnum, enda þeir mættir til að fagna fermingardrengnum, í sínu fínasta pússi.  Allir nýbaðaðir, nýrakaðir og púðraðir, eða þannig.  Þessi hugmynd móður minnar fékk góðan hljómgrunn og einn af mínum fyrrverandi stakk upp á að ég myndi síðan láta myndina á bloggið.  Minn núverandi glotti kvikindislega og ég var við það að tapa húmornum.  Djók, tapa honum aldrei.

W00t...

Svo sat ég hér, sem sagt,  eins og klessa og horfði á Gillzenegger hjá Jóni Ársæli.  Það gerði ég eingöngu af því ég nennti ekki að teygja mig í fjarstýringuna.  Maðurinn kom ekki á óvart, hann var jafn ósjarmerandi og ég var búin að ímynda mér að hann væri.  Ég vorkenndi honum eiginlega, svo döll líf að lyfta, éta fæðubótaefni, fara í ljós og vera þykjustutónlistarmaður og vera svo, þar að auki, stútfullur af kvenfyrirlitningu.

En hvað um það..

ég er farin að sofa.  Já sofa.  Gangið hljóðlega fram hjá verkamannsins kofa og verið ekki með háreysti hérna á síðunni minni. 

Knús í nóttina.

Later!

Ómæómæ!

Ég er í kasti hérna.  Ætli ég sofni?

 Læfistúgúdd!

Ekki leiðinlegur sunnudagur

Þá er komið að því að þessi heiðingi sem ég er fari til kirkju. 

Reynum aftur..

..ég sem er í trúarlegu frjálsu falli, er á leiðinni í Dómkirkjuna og ég hlakka mikið til. 

Jökull Bjarki Jónsson, flottasti og besti, er að fara að fermast.

Og svo er veisla!

Þetta er ekki leiðinlegur sunnudagur.

Jájá!

Later!

 

P.s. Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar elskurnar mínarInLove


ÁÁ- Árangursríkur áróður?

 

Í gegnum árin hef ég fengið að heyra það úr ýmsum áttum, oft án þess að hafa kært mig um það, að morgunmaturinn sé svo rosalega hollur.  Svo nauðsynlegur fyrir líkamlega- og andlega heilsu og til að halda heilabúinu á vaktinni allan daginn.

Ég hef gert mitt besta til að líta fram hjá þessum eilífa morgunmatsáróðri.

Það verður erfiðara og erfiðara.

Þegar ég greindist með sykursýkina, fékk ég enn einn "morgunverðurerlífsnauðsynlegbyrjunádeginum" fyrirlestur frá einbeittum næringarfræðingi, einum sem tekur vinnuna alvarlega og af köllun,  og í það skiptið varð ég að hlusta.  Heilsan i húfi "and all that jazz".

Svo ég tileinkaði mér nýja og betri siði (W00t) en mikið skelfing tekur þetta á.  Það er eitthvað sem stendur í mér hérna.

Ég veit ekki með ykkur, en matur er það síðasta sem mér fellur í hug nývaknaðri á morgnanna.

Kaffi, ofarlega en allavega innan eðlilegra marka, en sígó, sígó og sígó eru ofarlega  á listanum.

Frrrrrrrruuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuss!!!

Þetta er engin hemja, mér er ekki viðbjargandi.

Ég elska kvöldmatinn minn og þá ekki kl. 17,00 eins og næringarráðgjafinn segir, helst kl. 19,00.

En ég er löngu hætt að berjast við ofurefli..

..og Weetabixið rennur ljúflega niður og það sama gerir "kvöldverðurinn" sem nú er borðaður um hábjartan dag.

Ég hef gefist upp.

Æmaviktimofflæf!

Úje

 


mbl.is Morgunmaturinn mikilvægur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litir, merkilegt fyrirbrigði

 

Ég var að spá í litum, og aldrei þessu vant, ekki í sambandi við föt, heldur mat.

Ég sat hér með sjálfri mér og var að hugsa um hvað margt er fyrirsjáanlegt í lífinu, nærri því óubreytanlegt og í beinu sambandi af því fór ég að hugsa um að ég og fleiri væru þrælar vanans.

Ekki skrýtið þó maður pæli í litum á degi Valentínusar þegar allt er rautt, rautt og rautt.

Hvernig litist ykkur á að fá í sunnudagsmatinn eftirfarandi mat:

Himinbláan hrygg með rauðum doppum.

Eiturgrænar kartöflur

Bleikar baunir

og kolsvarta kornstöngla...

sósan væri dökkgrá eins og skipamálning.

Í alvöru, hefðuð þið lyst?

Eða ljósbleikt kók, gult súkkulaði og fjólubláan lakkrís.

Ég myndi hætta að borða.

Hvað segja bændur, hefur hefðbundinn litur á því sem við látum ofan í okkur eitthvað að segja?

Langar að vita.

Komasho

Gjarnan fleiri hugmyndir af ógeðsmat vel þegnar...

Úje


Ekki kúl að skrifa miða

 

Mynduð þið fara ótilneydd til að versla í matinn í þessu veðri? Nei ég hélt ekki.  Það dæmdist á bandið að fara með sjálfum sér og auðvitað skrifaði ég miða.  Hann veit ekkert hvað ég er að hugsa hvað varðar matargerð og hreinsiefni og aðrar nauðsynjar.  Hann notar þær bara.

Nú ég settist niður með A-4 örk.

Hann: Vá er Þorláksmessa?

Ég (utan við mig) er vond lykt af ganginum?

Hann: Halló miðinn, af hverju er hann eins og handrit að skáldsögu.

Ég (pirruð) ég minnka hann þegar ég er búin að skrifa og farðu og hringdu í mömmu þína eða eitthvað, þér finnst gaman að því.

Hann sest á móti mér við borðið þrátt fyrir að hann viti að ég vilji vera í friði með mínar miðaskriftir,  þær eru vandasamar, en ég ákvað að þegja.

Hann: Rosalega ertu að skrifa mikið.  Drög að handriti?

Þögn, ísköld þögn.

Hann:   Er ég að fara að kaupa fyrir helgina, vikuna eða mánuðinn?  Hann var brosandi ég er ekki að ljúga.

Ég: Fyrir daginn í dag. Það krimtir í mér.

Hann: Má ég sjá, tekur miða, lesí, lesí, lesí, kjúklingabringur æi, hvernig er með þennan aspas? Þú kaupir búnt á hverjum degi og engar sætar kartöflur á listanum?  Hvernig hefurðu hugmyndaflug í þetta allt?

Ég: Nú fer ég og klæði mig og geri þetta sjálf.

Hann: Ég er að fíflast í þér kona, ég er að flippa á veiku blettunum þínum, hlægja, liffa lífinu.

Ég: fáðu mér listann?  Ég er ekki búin.

Neðst skrifaði ég:

Stór dós af Arseniki og poka af Haltukjaftibrjóstsykri.

Hann fór syngjandi glaður með miðann í búðina.

Sá veit ekki hvað bíður.

En ég elska hann samt.

Úje


Aftur innanhúserjur á kærleiksheimili - nú með einum þátttakanda

 

Hvað er það við þessa daga núna?  Kuldinn, myrkrið, langt í vorið, enn lengra í jólin (hm) páskar langt undan (mér er slétt sama) og svo þessir bolludagar og saltkjötsát (sem ekki er stundað á mínu heimili), sem er baneitrað og tilraun til sjálfsvígs, ekkert minna.  Ég er alla vega ekki glöð, alls kyns fífl að pirra mig.  Amk. eitt (ekki minn heittelskaði)

Í dag hef ég verið svo upptekin að vera í vondu skapi að ég hef gert nákvæmlega ekki neitt.  Er samt að búa mig undir að steikja fisk.  Af hverju er ég alltaf eldandi?  Er það tattúerað á ennið á mér "Eldaðu"?  Eða var ég dáleidd sem smábarn og því komið inn í kvarnirnar á mér að það væri hlutverk mitt í lífinu?  Ekki að mér finnst það leiðinlegt, en akkúrat núna á ég bágt.

Ég sparkaði í kommóðu áðan: Ástæðan, óréttlæti heimsins.

Dásamlegt að gera ekkert í heilan dag nema að taka upp rými.

Færa mig á milli stóla.

Eina ráðið við þessum febrúarbömmer er að drífa sig á AA-fund.  Ekki gott að vera alki í pirruðu skapi.  Nánast á gargstiginu.

Og þið sem mögulega ætluðuð að koma í kaffi - sleppið því, ég gæti sett eitthvað óhollt út í það.

Nú þá er að fara á fund, í sund og kaupa sér hund.

Svo sagði mætur maður.

Guð plís skenktu mér smá æðruleysi.

Amen.


Varúð - ekki fyrir viðkvæma!

 

Ekki er blekið þornað á úlpuógeðisfærslunni minni en staðfesting á máli mínu birtist á Vísi.  Eins og fram kemur í téðri færslu minni eru úlpur ógeðisfatnaður og greinilega ofbeldishvetjandi líka, en það vissi ég reyndar ekki.

Veslalings Tarantínó var að koma út af Starbucks þegar einhver nörður fór að taka af honum mynd á vídeóvélina sína.  Tarantínó var ekki skemmt og rauk að manninum í úlpufjandanum, meira að segja með hettuna á hausnum og reyndi að sparka undan myndatökumanninum löppunum þarna á malbikinu.  Við erum að tala um mögulegt massa fótbrot á manni með vél hér. Bæði sinus og dexter, takk fyir.

Úlpan er í aðalhlutverki, þannig að eitthvað hlýtur hún að koma við sögu.  Það stendur í fyrirsögninni að Tarantínó hafi ráðist að manni, íklæddur úlpunni sinni frá 66°.  Blaðamenn á virtum miðlum setja ekki svona í forgrunn nema að úlpuskömmin hafi verið samsek Íslandsvininum góða.

Ég er svona að hugsa um ofbeldisfyrirsagnir í sama stíl.

Kona stakk mann í bakið íklædd nýjustu Donnu Karan draktinni úr vorlínunnni sem var að koma á markað í París.

Maður í klæddur Armani jakkafötum, teinóttum, svörtum og gráumm og með Valentínó skó á bífunum, sló lögreglumann í andlitið.  Armani jakkafötin eru ú vertrarlínu ársins í fyrra og þessi vitleysingur því algjört low live og skyldi því engan undra.

Aldrei séð svona fyrirsagnir um glæpsamlegan fatnað.  Nema súlustaða þið vitið.

Nebb, það er úlpan.  Ekki nema von að ég hafi illan bifur á þeim klæðnaði. Eins og sjá má hér.

Hér er myndbandið af Tarantínó í árásargjörnu úlpunni á visi.is

Varúð - ekki fyrir börn og viðkvæma. 

Súmíæketeikitt.

 


Banna, skemma, brenna og útrýma

 

Frá 10 ára aldri hef ég ekki í úlpu farið.  Ég veit ekki ljótari klæðnað og fram á þennan dag geysist fólk um í úlpum eins og það sé í Chaneldragt, algjörlega ánægt með sig.  Vonandi móðga ég engan en ég er í pirringsstuði af því mér er illt í löppinni og þar með er ég búin að réttlæta geðvonsku mína. Kapíss?

Mér er illa við úlpur.  Er ekki hægt að útrýma þeim, bara svo fegurðarskyn mitt liggi ekki undir stöðugum árásum?

Mér er illa við gerviefni.  Peysur sem hnökra, þannig að þær líta út fyrir að hafa verið perluprjónaðar í höndunum af gamalli töntu. Er í lagi að kveikja í þeim?  Ég fæ alltaf rafmagn þegar ég kem við fólk í sollis fyrirkomulagi.

Mér er illa við að rekast á fullorðið fólk með barnahúfur.  Veit aldrei hvort ég á að segja Góan dainn eða góðan daginn.  Hendum þeim á haugana, sko ekki húfunum (börnin verða að hafa höfuðföt) heldur þessum fullorðnu sem eru að brjóta húfualdurstakmarkið alveg grimmt og skammarlaust.

Borðtuskur, ég hef bloggað um þær áður.  Þessar sem hafa legið í mjólkurpolli í nokkra daga, dregið í sig sólina, einstaka brauðmylsnu, smá sultu og annað smátt og gott.  Ég held í alvörunni að þarna sé aðferðin við að auðga úran lifandi komin  Við erum friðsöm þjóð.  Banna.

Greiður í eldhúsi.  Halló, vitið þið hvaða drasl er í hárinu á ykkur eftir daginn?  Sumir standa og GREIÐA sér yfir pottunum.  Greiða, hár, lúsakambar og aðrar hárvörur eiga ekki að blandast saman við mat.  Þið takið til ykkar sem eigið og það er bannað að hósta í mínu eldhúsi meðan ég elda, bölvaðir smitberarnir ykkar.

Ég legg ekki meira á ykkur í bili.

Mér er sko verulega illt í löppinni og hafði þessa ríku tjáningarþörf um að koma út með sársauka minn gagnvart sumum hlutum í lífi mínu.  Maður verður að fá að tjá sig. 

Ertu að segja að ég sé biluð?

Ok þá segi ég 6547 og ekki orð um það meir.

Arg í boðinu.

Cry me a river

Úje

 


Bara einn klefi - hvar er hin alræmda óhlýðni??

Ég er svolítið hissa á að bara einn bar skuli ganga í berhögg við hið illræmda og ósveigjanlega reykingabann.  Hélt satt best að segja að það yrðu amk. nokkrir sem létu ekki segja sér að láta gestina sína standa úti í blöðrubólguaðgerðum, en svona geta hlutirnir komið manni á óvart´

Ekki að ég sé að mæla með lagabrotum hérna, en reykingarbannið á opinberum stöðum og þá er ég aðallega að tala um kaffihús og skemmtistaði, er gerræði og illa ígrundað. Við búum fjandinn hafi það vart á byggðu bóli, veðurfarslega séð.

Heilbrigðisráðherra, þessi sem stendur dedd með því að fíkniefnið alkahól verði selt í búðunum, var eitthvað búinn að ýja að því að þetta yrði endurskoðað með reykingarnar ef ekki gengi nógu vel.

En það þarf vart að endurskoða neitt þegar allir hlýða, allt gengur eins og smurt og lungnabólgur og blöðrubólga, flensur og bronkítis eru meðhöndluð hjá sama heilbrigðiskerfi og enginn segir neitt.

Ég verð að játa að ég dáist pínu að þeim á Barnum við Laugaveg sem eru með reykklefa og ætla að láta reyna á hver útkoman verður.

Ég stend með þeim.

Það sem gerir mig hissa er hversu hlýðnir hinir skemmtistaðirnir eru, því mér hafa alltaf þótt íslenska þjóðarsálin óþekk í eðli sínu.

Ekki að þetta skipti máli fyrir mig.  Fer ekki á bari, fór stundum á kaffihús fyrir bann, en ætti ekki annað eftir nú þegar ég má ekki fá mér eins og eina síu með kaffinu.  Ekkert liff í því.

Komasho Barinn.


mbl.is Borgin ráðalaus vegna reykklefa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðagóðir alkahólistar

 

Í gegnum árin hef ég heyrt ævintýralegar sögur af hugmyndauðgi alkahólista, til að fá að drekka í friði fyrir umhverfinu og virðist sem hugmyndaflugi þeirra virðist lítil takmörk sett.  Spurning hvort heimurinn væri ekki komin lengra á veg í öllu tilliti ef við þessar elskur hefðum notað frjósemi hugans til góðra verka.

Ég fór að pæla í þessu þegar ég sá þessa frétt um að Danir ættu Evrópumet í ofdrykkju.

Mér detta í hug nokkrar aðferðir bara með að láta hugann reika aðeins til baka.

Einn úr fjölskyldu minni var kominn í ónáð heima hjá sér vegna brennivínsdrykkju.  Hann tók á það ráð að sprauta vodka inn í góðan slatta af appelsínum, sem hann úðaði í sig yfir ensku knattspyrnunni. 

Sá hinn sami, tók niðursuðudósir sem hann stakk gat á tæmdi, fyllti af áfengi og lóðaði fyrir gatið.  Þetta var nestið hans í vinnunni.

Maður mér vel kunnugur þurfti að mæta í dönskutíma á laugardögum, flaskan var í skólatöskunni, plaströr var leitt úr flösku og undir jakka og upp í hálsmál.  Hann var glaður í dönskunni og kennarinn lét hann lesa fyrir bekkinn, hann hafi svo afslappaðan framburð.

Þegar ég sjálf var farin að fara ótæpilega oft í ríkið (alltaf það sama vegna bílleysis) klæddi ég mig í dragtina, skellti áfenginu á borðið og bað um nótu, ferlega kúl í framan.  Var auðvitað að kaupa fyrir "fyrirtækið" mitt.  Ég er svo viss um að þær hafa allar séð í gegnum mig á kassanum en voru svo vinsamlegar að láta sem ekkert væri.

Boðskapur þessarar færslu er ekki að segja krúttlega brandara af ölkum með hugmyndir.  Þó ekki sé annað hægt en að brosa af vitleysunni. Heldur hversu langt maður er tilbúinn að teygja sig til að geta fengið sitt fíkniefni og að fá að hafa það í friði.

Hvað söguhetjurnar í dæmisögunum áhrærir, þá hafa þær allar farið í meðferð, sumar oftar en einu sinni,hehemm.  Ætli við séum af dönskum ættum?

Farin edrú í lúll.

Þarf enga nótu fyrir því.

Úje


mbl.is Evrópumethafar í ofdrykkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband