Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kvikmyndir

Júlía, segðu mér meira

 armpit_hair

Líf mitt stendur alls ekki og fellur með vitneskju um allt, smátt og stórt.

Eða það hélt ég, þangað til að það rann upp fyrir mér ljós.  Nú finn ég beinlínis hvernig skortur á vitneskju um ákveðna hluti hefur minnkað lífsgæði mín verulega fram að þessu.

Það sem ég veit núna er að Júlía Róberts notar ekki svitalyktareyði undir hendurnar á sér.

En ég veit ekki hvort hún rakar sig undir höndunum eða er með flókavöndul þar sem gerir henni óhægt um handahreyfingar.  Það er letdown.

Ég veit ekkert hvort hún hefur eðlilegar hægðir, né hvort maðurinn hennar borðar morgunmat og þá hverskyns.

Ég veit ekkert hvaða afstöðu hún hefur til mjólkurvara, finnst henni þær vondar, lala, eða mjög góðar?

Gengur hún í svefni, hvað finnst henni um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, borðar hún svínakjöt?

Allt í einu er líf mitt svo fátæklegt, mig vantar upplýsingar, hvernig á ég að lifa áfram í myrkri fáfræðinnar?

Dem, dem, dem.

Farin að ryksuga mig undir höndunum.

Síjú!


mbl.is Julia Roberts og handarkrikarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölvuð meðalmennskan

bb 

Það er tónlist, tónlist, tónlist úr öllum andskotans áttum.  Þið fyrirgefið en ég er smá pirruð.  Bubbafríinu er lokið, hann er að fara að halda tónleika í Austurbæ, 2500 kr. miðinn, gamalt og nýtt á kassagítar.  Maðurinn er óþreytandi.  Hann er kannski blankur.  Ók, hann er svona göfugur, vill endilega leyfa okkur örfáu sem höfum misst af honum á hverjum degi í fjölmiðlum, í sjónvarpinu eða útvarpinu, tækifæri til að uppfæra í okkur Bubbaelementið.  Sumir þekkja aldrei sinn vitjunartíma.

Fyrirgefið á meðan ... þið vitið hvað og já þetta fer í taugarnar á mér. Mun leita mér hjálpar.  Gremja skilar litlu ef nokkru, en þetta er mitt blogg og ég má. 

Sjálfsdýrkendur fara í taugarnar á mér.  Madonna ætlar að endurgera fokkings Casablanca, stemmingsmynd og klassíker, sem er ekki einu sinni stórbrotið listaverk, jú í samspili ljóss og skugga kannski, með sjálfa sig í hlutverkinu sem Ingrid Bergman var í.  Halló vúman, farðu og fleygðu þér.

Og Júróvisjón.  Ómægodd, ég er örugglega ekki best til þess fallin að sjá út hvað er vænlegt til sigurs í þessari ömurlegu lagakeppni, en ég er nokkuð viss um að við ríðum ekki feitum hesti frá þessari í ár og reyndar gæti mér ekki verið meira sama.  En kæru keppendur fyrir Íslands hönd.  Það nægir ekki að sleppa dönsurunum úr atriðinu.  Sleppið laginu og sjálfum ykkur líka og við skulum tala saman.

Svona get ég orðið pirruð yfir litlu.  Fjandinn fjarri mér að ég sé að svekkja mig yfir því, ég er dauðfegin að við skulum eiga meðalmenn í kippum, líkt og aðrar þjóðir, sem tilvalið er að pirra sig á.  Bjargar heilmörgu.

Af hverju var Bjartur hennar Andreu ekki valinn í þessa guðsvoluðu keppni?

En að annari og skemmtilegri sönglist.

Ábreiðukeppnir eru svo sem ekki merkilegar pc en American Idol er fínt.  Flottir söngvarar og Simon Cowell "for starters". Whistling

Þessi er til að hrópa húrra fyrir.

Mílæk.

Ég hálf skammast mín fyrir pirringinn, en ég læt hann flakka.  Njótið vel, elskurnar.  Svona er ég góð.

Ó já, meðan ég man svo ég verði ekki kærð fyrir óviðeigandi tengingu við frétt!  Stones, Stones, sko Rolling f... Stones.

Úje


mbl.is Scorsese filmar Stones
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nostalgíukast

Ég fékk nostalgíukast þegar ég las þessa frétt.  Þið megið klikka ef þið nennið.

Sjötíuogeitthvað réðu plattaraskórnir lögum og lofum í tískunni, í nokkur ár, meira að segja.  Ég, tískuþrællinn sem ég var (og er), fór ekki úr skónum á þessum árum, nema þegar engin vitni voru til staðar, vegna þess að maður minnkaði um 10 cm. eða svo og buxurnar drógust á eftir manni.

Það var vita vonlaust að ganga í snjó og hálku, þess vegna var ekki gengið nema það allra minnsta, en ég hefði getað ráðið mig í sirkus, sem snúrulabbara, því jafnvægið sem ég náði var aðdáunarvert.  Það er hægt að þjálfa sig í öllu, ég er lifandi dæmi.

Ég vann í Eymundsson í Austurstræti á þessum árum og eina Þorláksmessu eftir lokun, var kvalræði mitt í háum skónum, meira en ég gat afborið og ég skutlaði mér úr þeim.  Það sló þögn á vinnufélagana, þeir störðu á mig undrunaraugum og var verulega brugðið.  Þeir sögðu mér að þeir hefðu álitið mig frekar hávaxna fram að þessu.  Hm.. ég er 163 á hæð. Þetta var hamingjutími svona stærðarlega séð.

Svo leið tíminn, skaðræðisskórnir duttu úr tísku og við tóku ljósabekkir nokkrum árum síðar.  Ég gerðist brún, sólbrún, allan ársins hring.  Ég þarf nú ekki mikið sólarljós til að verða svartari en sál skrattans, en ég gat ekki hætt. 

Það er ekki mér að þakka að ég fékk ekki sortuæxli.  Á öllum myndum frá áttatíuogeitthvað og fram á nítuogeitthvað, er ég svört.  Aljgör ógeðiskona.  Sem betur fer gengur flest svona yfir, ljósabekkirnir líka.  Samkvæmt frétt þá fækkar þessum krabbameinshylkum greinilega.  Ég færi ekki í ljós þó mér yrðu borgaðar fyrir það nokkuð háar upphæðir.

Skórnir æðislegu eru frá 1973 og eru framleiddir fyrir Biba, sem btw var æðislegast búð í heimi, staðsett í London á þessum mektarárum.

Hér er svo ljósabekkjafrömuður kvikmyndanna í bráðskemmtilegu atriði úr myndinn "Something about Mary".

Njótið sunnudagsins krúttmolarnir mínir.


mbl.is Ljósabekkjum hefur fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múslimar og kvennakúgun

burka_graduation

Ég horfði á sænsku heimildarmyndina "Det svider í hjärtat" í kvöld á RÚV.  Hún fjallaði um unga múslima á Norðurlöndunum, aðallega þá sænsku, og möguleg tengsl þeirra við hryðjuverkasamtök.  Einnig var reynt að komast til botns í því hvað veldur, að strákar úr þessu umhverfi þrá það eitt að deyja píslarvættisdauða.

Þessi mynd stóð ekki undir mínum væntingum og svaraði svo sem engu, en hún var athyglisverð eigi að síður.  Það var fylgst með ungum manni frá Gautaborg sem hafði verið í afbrotum en tekið múslímska trú.

Til að gera langa sögu stutta, þá er ástæða þess að ég fór að blogga um þetta, tvö "örlítil" atriði í myndinni.  Kona ætlar að heilsa Lennart hinum trúaða, með handabandi en hann setur höndina fyrir aftan bak og konan segir fyrirgefðu!!!

Hann getur ekki tekið í höndina á konu. Konan óhrein, óæðri.  Fyrirgefðu hvað?  Erum við að tapa okkur í aðlögunarhæfni hérna?

Hitt atriðið er úr íbúð sama manns, hann fer með mat inn í herbergi til konu sinnar, sem hann segir trúaða og geti þess vegna ekki verið í herbergi með ókunnugum karlmönnum.  Þetta gerist í Gautaborg dagsins í dag, rétt hjá þar sem ég bjó, gæti verið hérna í Breiðholtinu bara.

Ég er svo klofin í þessu máli.  Ég vil skilja og virða öll trúarbrögð á meðan þau standa ekki fólki fyrir þrifum, meiða og skemma.  Ég get aldrei, þó ég lifi til eilífðar, skilið að fólk geti lifað eins og ekkert sé og látið það vera hluta af lífssýn sinni að konur og stúlkubörn séu minna virði og réttlausari en karlmenn.

Ég missi gjörsamlega kúlið og víðsýnina og verð bálreið og pirruð.  Mér finnst það vont.  Það er alls ekki hlaupið að því að sýna umburðarlyndi þegar svona er í pottinn búið. 

Ég get svo sem ekki gert annað en að andvarpa yfir örlögum kynsystra minna í múslímskum löndum en hvað með okkur hér á Vesturlöndum?  Trúfrelsi er eitt en hvað með jafnréttislög?  Er það mögulegt að við sjáum konur með búrkur á Íslandi áður en langt um líður?  Væri það leyfilegt undir merkjum trúfrelsis eða skarast kvennakúgun trúarbragðanna á við landslög?

Andskoti sem þetta liggur þungt á mér.

Einhver?

En ég er samt alveg í því að vera umburðarlynd, en því sleppir algjörlega þegar kvennakúgunin ullar framan í mann og það frá minni elskulegu Gautaborg.

Arg.


Monty Python mínir menn í bransanum

Þeir eru í fyrsta lagi svo mikil krútt, að ég gæti étið þá, klipið og knúsað,

Hver elskar ekki The live of Brian?  Þekki ekki kjaft sem getur ekki horft á hana aftur og aftur.

Og mér fannst A fish called Wanda líka frábær, þó ég sé ekki viss um að þeir hafi allir verið með þar.

Og svo í denn þegar John Gleese var með gamanþættina Fawlty Towers í sjónvarpinu?

Omg, allgjörir gleðipinnar.

Nú er ég stolt af mínum mönnum, þeir hafa skipt Britneyju út fyrir Victoríu Beckham,  í söngleiknum Monty Python Pamelot, vegna þess að þeir vilja ekki hlægja á kostnað fólks sem á undir högg að sækja.  Það er sætt af þeim.

En..

Mér finnst vesaling Victoria líka eiga undir högg að sækja, án þess að ég ætli að fara að dissa hana hér.

Svo kemur hér eitt skemmtilegasta myndbrot sem ég hef séð hingað til og ætti að geta fengið alla til að fara hlægjandi inn í daginn:

Bright side of live


mbl.is Monty Python gerir ekki grín að Spears
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að geta lokað og hent lyklinum, allt búið -bless

Ég hef þekkt nokkrar konur (og menn) um ævina sem hafa lent í því að eiginmaðurinn hefur farið frá þeim vegna annarrar konu.  Slík er eins og allir vita ekki óalgengt.  Þetta er sár lífsreynsla og ábyggilega alveg skelfilega mikið niðurbrot á sjálfsmynd, fyrir nú utan að allt í einu er eins og einhver sem maður hefur deilt lífi sínu með, jafnvel til fjölda ára, treyst og trúað, að sýna af sér hegðun sem kemur konunni (ég er bara að skrifa um konur hérna) í opna skjöldu.

Það hlýtur að taka langan tíma að vinna sig út úr svona reynslu og þá sérstaklega ef ung börn eru til staðar í hjónabandinu sem er í molum.

En..

Það kemur að þeim tímapunkti að manneskjan veður að setja punkt.  Horfast í augu við hlutina og byrja að lifa lífinu fyrir sjálfan sig.  Það er náttúrlega fáránlegt að láta mann sem er bara happí úti í brjóta niður líf sitt, tilgangsleysið í því er algjört.

Sumar þeirra kvenna sem ég þekki og lent hafa í þessu hafa verið tiltölulega fljótar að stíga á fætur,og hafa sig af stað út í nýja lífið.  Oft hafa þær sagt að þetta hafi verið  það besta sem fyrir þær hefur komið, þær finna nýjan styrk, nýjar hliðar á sjálfum sér og þær fara að njóta lífsins í jafnvel meira mæli en áður.

En svo þekki ég nokkrar sem hafa valið að gerast atvinnufórnarlömb.  Hinar sviknu og forsmáðu.  Þær fara í stríð út af umgengnisrétt, þær eyða hellings orku í að hata nýju konuna, og engjast af stöðugri afbrýðisemi og eftirsjá og allt lífið heldur áfram að snúast um fyrrverandi.  Árin líða og þær róast en líf þeirra stendur óbreytt.  Þær eru bara í hlutverki hinnar yfirgefnu konu. ARG. Sumar eru leynt og ljóst að bíða eftir karlrassgatinu sem yfirgaf þær, vó hvað það er dapurlegt.

Þetta datt mér í hug þegar ég las um blúsinn hennar Jennifer Aniston, sem ku vera þjökuð af eftirsjá og trega, vegna mögulegrar óléttu Brangelínu.  Hún hefur skv. því verið að bíða eftir Braddanum.

Æi hvað ég vona að hún verði ekki atvinnuyfirgefinogsmáðkona.  Þessi flotta og hæfileikaríka leikkona.

Valið er hvers og eins.

Um að gera að velja að standa með sjálfum sér.

Enginn fyrirverandi maki er svo æðislegur að það borgi sig að eyðileggja líf sitt fyrir hann.

Súmí.

Úje


mbl.is Aniston sögð þjökuð af eftirsjá og trega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð - ekki fyrir viðkvæma!

 

Ekki er blekið þornað á úlpuógeðisfærslunni minni en staðfesting á máli mínu birtist á Vísi.  Eins og fram kemur í téðri færslu minni eru úlpur ógeðisfatnaður og greinilega ofbeldishvetjandi líka, en það vissi ég reyndar ekki.

Veslalings Tarantínó var að koma út af Starbucks þegar einhver nörður fór að taka af honum mynd á vídeóvélina sína.  Tarantínó var ekki skemmt og rauk að manninum í úlpufjandanum, meira að segja með hettuna á hausnum og reyndi að sparka undan myndatökumanninum löppunum þarna á malbikinu.  Við erum að tala um mögulegt massa fótbrot á manni með vél hér. Bæði sinus og dexter, takk fyir.

Úlpan er í aðalhlutverki, þannig að eitthvað hlýtur hún að koma við sögu.  Það stendur í fyrirsögninni að Tarantínó hafi ráðist að manni, íklæddur úlpunni sinni frá 66°.  Blaðamenn á virtum miðlum setja ekki svona í forgrunn nema að úlpuskömmin hafi verið samsek Íslandsvininum góða.

Ég er svona að hugsa um ofbeldisfyrirsagnir í sama stíl.

Kona stakk mann í bakið íklædd nýjustu Donnu Karan draktinni úr vorlínunnni sem var að koma á markað í París.

Maður í klæddur Armani jakkafötum, teinóttum, svörtum og gráumm og með Valentínó skó á bífunum, sló lögreglumann í andlitið.  Armani jakkafötin eru ú vertrarlínu ársins í fyrra og þessi vitleysingur því algjört low live og skyldi því engan undra.

Aldrei séð svona fyrirsagnir um glæpsamlegan fatnað.  Nema súlustaða þið vitið.

Nebb, það er úlpan.  Ekki nema von að ég hafi illan bifur á þeim klæðnaði. Eins og sjá má hér.

Hér er myndbandið af Tarantínó í árásargjörnu úlpunni á visi.is

Varúð - ekki fyrir börn og viðkvæma. 

Súmíæketeikitt.

 


Ég er á kafi í hvítu stöffi..

 

..sem enginn vill taka ábyrgð á og taka í burtu svo ég komist leiðar minnar.

Á að vera mætt í myndatöku núna eftir nokkrar mínútur bara.  Sko til læknis ekki fyrir Mannlíf eða eitthvað sollis, bara svo það sé á hreinu.

Bensinn er hulinn þessum hvíta mjúka salla og ég er dauðhrædd um að ef bandið fer út að moka, að hann moki/skafi rangan bíl.  Sniðugt ef hann hamaðist við að moka og moka, og gera bílinn keyrsluhæfan, þá kæmi nágranninn út, sem á eins farartæki og keyrði í burtu á kvikindinu.

Alveg er ég viss um að við erum að upplifa versta eða einn af verstu janúarmánuðum ever! (Sigurður!).

Hvað um það ég er svo hress hérna að það er í raun ekkert nema ósvífni.

Nú hefst tími viðurstyggilegrar matarinntöku landans.

Hvað er að, þetta var matur sem var búin til í torfkofunum og geymdur á þann eina hátt sem mögulegur var í denn.  Ef ekki súrsað, þá kæst eða hangið.

Ég get ennþá ælt þegar ég minnist hvítu titrandi súrhvalsbitanna (er það ekki bara spik?)

Eða blóðmör, ég meina hvers lags villimennska er þetta, taka blóð og fylla það af fituklumpum,sauma saman í einhverja kúkapoka og sjóða.  Hver borðar svona ótilneyddur,nú til dags?

Eigum við að fara út í hrútspungana? Ædóntþeinksó.

Nú er ég bara að pirra ykkur elskurnar, ykkur sem borðið þorramat.  Það truflar mig ekkert,er bara að gera smá grín hérna.  Enda kemur þessi viðbjóður ekki inn fyrir dyr hjá mér.

Ég borða svið (brosandi kjammar eru æði), rófustöppu og harðfisk.  Er sum sé ekkert skárri.

En ég held, að fyrir þá sem hella í sig áfengi með þessum mis rotna mat, geti átt á ættu að setja af stað FERLI í boddíinu á sér, sem ekki sér fyrir endann á.

Annars er náttúrlega bara best að gera eins og ég, að sleppa áfengi algjörlega.  Þið trúið því ekki hvað íslenskt blávatn er dásamlegt með mat.

Edrú í morgunsárið og alltaf einn dag í einu.

Það er ég elskurnar mínar.

Súmíkikkmíbætmí.

Úje.


mbl.is Þorrinn er genginn í garð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar fauk Smith

Jæja þá er Will Smith, stórkrútt með meiru, fokinn af mínum vinsældarlista.  Það fer alltaf fækkandi á listanum, ég missi allt mitt uppáhaldsfólk yfir til Vísindakirkjunnar.

Rosalega langar mig að vita hvað þeir eru að bauka þar.

Út á hvað trúin gengur, annað en að það má ekki skera í fólk.

Ekki nóg með að Will sé heillum horfin yfir í kirkjuna heldur er svo illa fyrir honum komið að hann telur að Tom Cruise sé einhver sá mesti andans maður sem til er.

Þannig að sjá má að Smith er í annarlegu andlegu ástandi.

Ef ég væri foreldri hans, færi ég samstundis og næði í hann.

Hrollur, brrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr


mbl.is Will Smith á snærum Vísindakirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki brúnuð kartafla í sjónmáli!

Mér finnst Tarantino flottur leikstjóri, mergjaður reyndar, en mér gæti ekki staðið meira á sama hvar hann kýs að hanga á jarðarkúlunni í frítíma sínum.  Mér finnst nánast plebbalegt að lesa fréttir af því hvert hann fer til að borða, hvaða flugelda hann sendir upp í himinhvolfið og svoleiðis.

Nóg um það.

Ég á bágt, mér er illt í "slasaða" fætinum og ég er þreytt.

Þreytt eftir jólasukkið.

Alveg er mér sama þó ég sjái ekki brúnaða kartöflu nema á mynd næsta árið.  Myndi meira að segja fagna því.

Hvað þá heldur steikur upp á slatta af kílóum.

Jólatréð mætti fara í frumeindir sínar hérna á stofugólfinu, ég myndi sópa því upp án þess að æmta og skræmta og segja bæbæ jólatré.

Ég gleðs yfir því að bráðum tekur hvunndagurinn völdin.

Ég held að þetta sé eðlilegt ástand, þ.e. að vera búin að fá nóg af bílífi hátíðanna.

Það eru bara skiptin yfir í hinn gráa veruleika sem geta verið svolítið erfið, þar sem maður er auðvitað búin að snúa við sólarhring og borða alls kyns óhollustu í töluverðu magni.

Svo er ég ásamt öllum hinum æst og tilbúin að ári, í að hefja leika aftur, af fullum þunga.

Þannig að ég er ekki fúl, bara smá þreytt og er að hugsa um að leggja mig aðeins og nota þessi "forréttindi" sem það eru að vera heimahangandi.

Samkvæmt ásetningi dagsins, er ég með þveggja klukkustunda skrif í bók á stundatöflu.  Við það verður staðið.

Ég held nú það og knús inn í daginn.

Úje.


mbl.is Tarantino og Roth í rosa flugeldastuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband