Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Fargings sokkabandsorðan

Ég veit ekki með ykkur, en stundum þegar ég horfi á stjórnmálamenn í viðtölum í sjónvarpi, þá fæ ég svona óraunveruleikatilfinningu.  Ég hugsa alveg: Er þetta leikþáttur eða brandari?  Þetta getur ekki verið að gerast í alvörunni.  Svona hugsanir skiljið þið.

Í kvöld varð ég vitni af einni svona senu.  Í Kastljósinu var talað við uppvakningarborgarstjórann, um REI og um Fríkirkjuveginn.

Óheppilegt að Kjartan skuli hafa sagt að það væri möguleiki á að selja hlut í REI til einkaaðila.  En það er full samstaða og ekkert verður selt.  Hann hafði talað við Kjartan en ekki um þetta mál.  Það var ágreiningur en samt ekki.

Óheppilegt my ass.  Er þetta fólk ekki í sambandi hvort við annað?

Og Fríkirkjuvegur 11 sem borgarstjóri vildi ekki selja.  En ætlar samt að selja.  Af því að það er komið í ferli.  Þið vitið, þetta með ferlin sko, ekki hægt að stoppa þau.  Það stendur skýrum stöfum í Biblíunni.  Svo eru VG bara að slá sér upp á tillögunni um að láta ferlið ganga til baka.  Ekkert að marka þá.  En það er að marka hann sjálfan, Ólaf F.  Almannahagsmunir hafðir að leiðarljósi.  Ójá.

Höfuðið á mér var farið að rúlla í allar áttir.  Augun stóðu á stilkum og heilinn brann yfir.  Maður er nú ekki sterkur á svellinu fyrir, með mörg hjónabönd, heljarinnar sukk og hóp af árum að baki, sem vinna defenately gegn manni.

Kannski er það bara ég sem skil ekki djúp sannindi borgarstjórans.

Ef svo er þá á ég skilið fargings sokkabandsorðuna.

Viðtalið hér.


Hatur - spurning um svona lala

Hvað er hatur?  Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið, þegar ég hef lesið um Englu litlu sænsku og svo nú þennan litla dreng Oliver, sem rænt var í gær.

Ég held að ég hafi aldrei hatað nokkurn mann, sem betur fer.  Ég held að hatur sé stjórnlaus illvilji í garð annarrar persónu, þar sem sá sem hatar vill gera viðkomandi allt til miska., jafnvel saklausu fólki sem tengist þeim hataða.  Svona sirkabát.

Ég hata engan, er misvel við fólk eins og gengur og ég held að ég þekki heldur ekki kjaft sem hatar.

Samt notum við þetta orð óspart.  Orð missa bragðið, þegar tönglast er mikið á þeim.  Þið munið að einu sinni var ágætt það allra besta.  Nú er það orðið lala dæmi.

Sumir hata fisk, rigningu, flugvélar, flugur og köngulær.  Ég nærri því skil þetta með köngulærnar en ég held samt að ég hati þær ekki þó ég hafi megna, gegnheila andstyggð á þeim.

Hata hvað?

Ég kemst næst hatrinu held ég, þegar ég heyri um illa meðferð á börnum, þá brestur eitthvað í hjartanu á mér.  Mig langar virkilega að ná í rassgatið á þeim sem fremur verknaðinn.  En sem betur fer eru það bara eðlileg viðbrögð.  Vanmáttur alla leið.

Ég skipti mér alltaf af þegar ég sé illa farið með börn, þeim misboðið af fullorðnu fólki.  Það er ekki vinsælt, en mér er slétt sama.  Ég geri það samt.

Það er svona u.þ.b. það eina sem hægt er að gera til að leggja lóð sitt á vogarskálarnar, í heimi þar sem börn svelta, deyja úr sjúkdómum. eru seld mansali í stórum stíl.

Ég hélt einu sinni að við værum að þroskast svo hratt, mannfólkið. Á ógnarhraða, svei mér þá.

En ég hata engan.  Ég hef hreinlega ekki heilsu í það heldur.  Það hlýtur að taka skelfilega á.

Í almættisins friði, megi sjálfur Óðinn blessa ykkur.


mbl.is Reynt að ræna bróður Olivers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Játningar móðurinnar

Stundum birtist eitthvað í fréttum af rannsóknum sem "actually" meikar sens.  En flest allir sem hafa alist upp í systkinahópi eða hafa átt sín eigin börn, vita að frumburðirnir eru oft "fórnarlömb" fullkomnunaráráttu foreldranna í uppeldistaktík.

Ég gæti sagt ykkur sögur og já ég ætla að gera það.

Ég er frumburður foreldra minna.  Ég ólst upp hjá ömmu minni annars staðar í bænum og þegar hamskiptin frægu urðu á undirritaðri á gelgjunni, þá fóru foreldrarnir í fár.  Ég mátti mig ekki hræra.  Ég held að þau hafi trúað því að ég væri í lífshættu í Æskulýðsráðinu, í Búðinni og Glaumbæ.  Kannski höfðu þau rétt fyrir sér.  En ég lét ekki að stjórn og þau voru með þungar áhyggjur.  Þegar Greta systir fór á gelgjuna tveimur árum á eftir mér, höfðu þau náð að jafna sig nokkuð þessar dúllur.

En..

Frumburðurinn minn hún Helga Björk lenti í mér.  Hún er reyndar átta árum eldri en næsta systir í röðinni og nema hvað, ég ætlaði svo sannarlega að koma í veg fyrir að hún fetaði glapstigu móður sinnar.  Það var algjört aukaatriði  í mínum huga að hún sýndi nákvæmlega enga flóttatilburði út í lífið, lá í bókum, sinnti skólanum og endaði svo sem lögfræðingur þessi elska og hefur nú frekar reynt að ala móður sína upp, frekar en ég hana. Hún segir reyndar stundum,; "mikið rosalega hef ég verið leiðinlegt barn fram eftir öllu". Halo

Stundum náði ég mér einstaklega vel á strik í uppeldistöktunum.  Fræg að endemum er strokleðursræðan sem ég hélt yfir dóttur minni úti í Gautaborg þegar við bjuggum þar.  Helga Björk hafði fengið lánað til skoðunar merkilegt pennaveski, úttroðið af strokleðrum með lykt, frá Vivianne bekkjarsystur.

Ég: Hvernig getur Vivianne keypt svona mikið af strokleðrum?

Helga: Hún stal þeim í bókabúðinni.

Ég flippaði út.  Síðan kom strokleðursræðan sem stóð lengi og fjallaði um siðfræði, þjófsnauta og aðallega þjófsnauta.  Ég man að dóttir mín sat undir þessu "uppeldi" mínu, einbeitt á svip, en seinna sagði hún mér að hún hefði hætt að hlusta á fyrstu mínútunum. 

Það var allt svo merkilegt fannst mér, það sem ég hafði fram að færa.  Vivianne gerðist bankaræningi að sjálfsögðu og fór um með vopnum um alla Gautaborg daginn eftir fermingu. Bonnie endurborin, svei mér þá! Já sæl.

En einu sinn fannst mér að frumburður yrði að vera fullkomin, móðurbetrungur og gott betur.  Það tókst, en ég held svona eftir á að hyggja, að það hefði orðið þannig alveg án allra dramakasta og sjúklegrar viðleitni móðurinnar.

Stelpurnar mínar eru nefnilega svo gott sem fullkomnar.

Ég er að segja ykkur það.


mbl.is Elstu börnum refsað mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt frá Londres

Brynja vinkona mín og hin ammans hans Olivers, er í London og eins og venjulega bætir hún mér upp skort af myndum af barnabarninu mínu, en foreldrar hans eru arfaslakir á myndavélinni.  Þessar myndir eru frá því í dag og í gær, kæra fjölskylda, vinir, kunningar og velunnarar (hérna beygi ég mig með enni að gólfi).

Fallega Londresfjölskyldan!

20080415134755_1

Í dag fór Oliver út að djamma á Pizza Express með ömmu-Brynju!  (Krúttkast)

20080416204319_6

Og svo fór amma-Brynja í heimsókn til Maysunnar í vinnuna hjá Arrogant Cat

20080416204250_5 

og ein að lokum af Maysunni minni og Oliver:

20080415192838_3

Sko, þarna tókst mér að breyta stærð í fyrsta sinn.  Hm.. ég er algjörlega brilljant.

Sé ykkur á morgun í vorinu, fuglasöngnum, gróandanum og í félagsskap gula fíflsins.

Ójá.

 


Þunglynd og í krónísku áfalli - Hjálp!

 

Ég er í heví nostalgíukasti núna.

Var að vesenast í geymslunni í morgun og rakst þar á bókakassa (einn af mörgum).  Auðvitað á maður ekki að kíkja í kassa í geymslum, því þá getur maður ekki hætt.

Í kassanum voru "stelpubækurnar" mínar, sem ég ætlaði dætrum mínum til aflestrar, en eitthvað hefur það farist fyrir.  Sem betur fer held ég svei mér þá.

Fyrir utan að finna fortíðarþránna heltaka mig (eða þannig) þá varð ég samt sjokkeruð að rekast á þær bækur sem voru mínar uppáhalds á árunum frá 8-10 ára, en þá fór ég að lesa fullorðinsbækur.

Millý Mollý Mandý og vinir hennar.  Matta Maja dansar, Matta Maja leikur í kvikmynd, Hanna Í París og Katla vinnur sigur.

Miðað við efni bókanna, sem er svo sem meinlaust, þá finnst mér mesta furða að ég hafi ekki  orðið eitthvað annað en ég er.  Þessar bækur eiga það sameiginlegt, ef mig misminnir ekki hroðalega, að fjalla um saklausar stúlkur, sem eru öllum góðar og þær eru alltaf hlýðnar.  Þær rugga ekki einum andskotans bát.  Katla var reyndar þunglynd og í krónísku áfalli, og það var ég líka á tímabili.  Segið að það hafi ekki áhrif.

Sumar bækur eru ekki góðar fyrir börn.  Eins og t.d. Grimms ævintýri, þar sem fólk var skorið, soðið, steikt og myrt á viðurstyggilegan hátt.  Margir sadistar í bókum Grimms bræðra, það segi ég satt.

En ég er ok, þrátt fyrir hlýðnu stelpurnar.  Ég tók mér þær ekki til fyrirmyndar, enda hefði það verið vonlaust, hvatvísin að drepa mig þá sem nú.

En ég er alin upp á Þjóðsögum Jóns Árnasonar og á þær allar.  Ætli ég eigi ekki eftir að hræða líftóruna úr barnabörnunum einn daginn, eins og gert var við mig.

Það er dásamlegt að láta hræða sig með útilegumönnunum í Ódáðahrauni og henni Garúnu, Garúnu.

Muhahahahahaha

Ég kem aftur á eftir.  Ég kem alltaf aftur.


Heimskulegar spurningar

Hallgerður bloggvinkona mín skrifaði skemmtilega færslu sem oftar, í dag.

Hún fékk mig til að fabúlera um óþarfa spurningar.

Einu sinni átti ég bók (Mad) sem hét snappy answers to stupid questions.  Sú var dásamleg.

En það eru þessar spurningar sem vaða uppi og eiga ekkert erindi.  Eru eyðsla á tíma og orku og valda pirringi sem er nú ærin fyrir.

Eins og:

Ég er komin í kápuna, búin að hengja mig í treflinum, troða á mig nefhlíf, hönskum, húfu og eldingavara og einhver spyr: Ertu að fara eitthvað?

Ég fæ ljósakrónu í höfuðið, ligg veinandi á gólfinu með blóðpoll undir mér, beinflísar úr höfuðkúpu liggja eins og hráviði út um allt gólf og einhver spyr: Meiddirðu þig?

Ég vinn stóra Lottópottinn í beinni útsendingu, ég hoppa hæð mína, öskra og garga af hamingju og blæs í lúður og einhver spyr: Hvernig líður þér?

Ég geng úti með vinkonu og ég hitti manneskju sem ég hoppa upp um hálsinn á, kyssi knúsa og rugla hárinu á og vinkonan spyr: Þekkir þú þessa?

Ég ligg í djúpum svefni og hrýt þannig að það heyrist til Hornafjarðar, slefa í djúpsvefni og sýni engin merki um að vita í þennan heim né annan  og "einhver" spyr:  Ertu sofandi?

Ég sit og tala í síma þannig að það stendur bunan út um munninn á mér, ég sveifla höndum, tala hátt og er að kafna úr fjálgleika og sá sem kemur aðvífandi kallar hátt til að yfirgnæfa rödd mína: Ertu í símanum?

Nei nú er ég farin að urlast.

Ætla að reyna að sofna.

Eruð þið að lesa þetta?

Segi svona.

 


Eftir djúpan disk

 

Mér þykir gaman að sletta á blogginu.  Bloggið er talmál að mínu mati, og það má alveg fara frjálslega með texta.  Þess vegna er bara liff í því að nota alls kyns orðskrípi, afbakanir og útlenskur í bland.  Þetta geri ég óspart þegar þannig liggur á mér.

En...

hvaðan kemur þetta "heilt yfir" tal út um allt?  Notað í fullri alvöru meira að segja?  Í sjónvarpi, útvarpi og á bloggi.  "Svona heilt yfir"?  Þetta er svo snubbótt.  Eitthvað sænsk eða danskt heyrist mér.  Över det hela taget.  Hm.. er ekkert betra til?

Má ég þá heldur biðja um smá Bibbísku hérna.

Ég hef þekkt þær nokkrar í gegnum tíðina og þær eru yndi.

Ein kom aldrei á staðinn fyrr en eftir djúpan disk.

Önnur var með paník í loftinu og parker á gólfinu.

Sú þriðja gekk sig reglulega upp að eyrum og hún bað mig stundum að koma með sér í konvoj niður Laugaveginn.

Bara krúttlegt svona heilt yfirW00t

Hm....


Ofbeldi á konum - einkamál þeirra?

Það eru margar ástæður fyrir því að stúlkur kæra ekki nauðgun, enda eru það bara brot af nauðgunarmálum sem eru kærð. 

Dómar í nauðgunarmálum gera það svo að verkum að ég er ekki hissa..

Ástæðurnar geta verið eftirfarandi:

Konan þekkir gerandann, flestar nauðganir á Íslandi eru s.k. kunningjanauðganir.

Konan treystir sér ekki í kæruferlið og allt sem á eftir kemur.

Oft lætur saksóknari mál niður falla.

Konunni er stundum hótað.

En það nær auðvitað ekki nokkurri átt að þolendur nauðgunar skuli þurfa að kæra sjálfir til þess að obeldismaðurinn verði látinn svara til saka.  Annars fellur málið bara niður.  Þrátt fyrir að glæpurinn sé með sama refsiramma og morð.

Ef ég t.a.m. brýst inn í sjoppuna hérna við götuna mína, þá er það ekki undir sjoppueigandanum komið hvort ég verð kærð fyrir stuld og innbrot.

Það er ekki bíleigandinn sem ákveður hvort bílþjófurinn er ákærður fyrir að stela bílnum.

Meira að segja matarstuldur (hangikjötslærið í Hveragerði) fer fyrir dómstóla.

En ef kona er beitt heimilisofbeldi, kærir og dregur svo kæruna til baka, þá fellur málið yfirleitt niður.

Sama með nauðgunarmál.

Ofbeldi á konum er svona einkamál eitthvað.

Skrýtið?

Heldur betur andskotans kolruglað fyrirkomulag, ef ég á að segja meiningu mína, sem ég auðvitað hika ekki við að gera.

Dem, dem, dem.


mbl.is Stúlkan ætlar ekki að kæra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldarúnk hjá Hestamannafélaginu Losta

Hestamannafélagið Hörður heldur uppteknum hætti og fær konur til að fækka fötum á herrakvöldinu svo meðlimirnir geti setið slefandi yfir berum konulíkama.  Reyndar vakti þessi hefð þeirra, hjá Hestamannafélaginu Losta, neikvæða athygli í fyrra, þannig að nú í ár tóku þeir nafn félagsins út úr auglýsingunni og kalla þetta einkasamkvæmi.

Ég var að pæla í hvað ég vorkenni konunum í þessu félagi, þ.e. ef konur eru leyfðar í svona tittlingasamkundu.

Eða þá fjölskyldum þessara áhugamanna um listræna gjörninga.

Ég gef hér með skít í þennan félagsskap og aðra svipaða.

Geta þessir perrar ekki rúnkað sér einir heima hjá sér?

Það er eitthvað svo djöfulli aumkunarvert við tilhugsunina um fulla kalla í "huglægu"  hóprúnki.

Fyrirgefið á meðan ég æli.

Súmíækenteikitt.


mbl.is Harðir á strippinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sounds like a plan"

Í gegnum allar mínar megrunarkúra hef ég lært amk einn hlut.  Kíló eru afstæð.  Ég hef heldur aldrei orðið vör við að tvær baðvogir væru eins.  Það munar alltaf helling af grömmum, gott ef ekki kílóum.  Þá velur maður út þá vog sem vigtar minnst og ættleiðir hana.

Nú á að endurskilgreina kílóið og þá ætti maður að geta notið þess að lifa.

Annars á ég vinkonu sem hefur verið í megrun nánast frá fæðingu.  Hún hefur gert megrun að listrgrein og sérfræðiþekkingu.  Hún hefur svo mikla skömm á orðinu kíló að hún getur ekki sagt það.  Í staðinn segir hún kóló.  Það er eitthvað svo fyndið en sick að heyra hana segja; "ég er örgla búin að fitna um ein 5 kóló yfir jólin".  Krúttkast.

Kannski verður þetta endurskilgreint á persónulegum level.  Mín kílóþyngd yrði prógrammeruð inn í mína einkavog og vei þeim óviðkomandi mannfjanda (Whistling) sem stigi á hana.  Vogin gæti þá sent frá sér svipuð hljóð og þjófavörn í bílum gefur frá sér.  Sounds like a plan?

Það er dásamlegt að liffa á upplýstum tímum þar sem hægt er að endurskilgreina allan fjárann.

En..

Jenný Una var lasin heima í dag, en fékk að koma til ömmusín til að brjóta aðeins upp daginn.

Hún varð smá pírí og fór  inn í svefnherbergi og lagðist í rúmið mitt.

Amman lagðist hjá henni og strauk henni yfir kollinn en  barn vildi ekkert með ömmuna hafa.

Amma é fer í mitt rúm.  Þú ert alltaf að trufla mér og fikta mér.

Amman: What (eða þannig)???

Jenný: Þú ert alltaf að trufla fólk! (Ætli barn sé orðin læst og farið að lesa bloggið mitt?)

og svo stundu síðar:

Amman: Jenný mín hvað ertu að gera? (Barn að bardúsa í pottaskáp ömmunnar).

Jenný: É er að gera fyrirkommulag!W00t

Niðurstaða: Ég held að ég verði að hætta fyrirkomulags notkuninni um hríð.

Hehemm, eru börn eins og svampar?

Það er eins gott að blóta bara á blogginu, Jenný Una heyrir afskaplega vel.

Dem, dem, dem.


mbl.is Kílóið endurskilgreint
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 7
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 2988142

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.