Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Alkaleg útskýring - Ójá

03 

Það er afskaplega alkaleg hegðun að útskýra ofdrykkju sína eftir fyllerí með því að rýna í áfengistegundina. 

Ég verð svo full af vodka, ég ætti að skipta yfir í gin, eða hvítvín, eða rauðvín, eða rauðvín og bjór.  Þá verður þetta í lagi.

Það voru meira að segja haldin námskeið hér á landi, fyrir ekki svo mörgum árum síðan, þar sem fólki var "kennt" að drekka eins og menn.  Það fer ekki miklum sögum af árangrinum.

Ég hef verið þarna, trúið mér.

Ég er líka ein af þeim sem var ekki búin að borða nógu mikið og varð þess vegna röflandi full. Eða þá að sólin skein, ég var döpur, ég var glöð og svo mátti áfram telja.  Það má segja að ég hafi verið heppin, því ofdrykkjan var að mestu leyti inn á heimilinu.  Vó, hvað ég hefði lent illa í því, gott fólk, ef ég hefði sofnað út af á djamminu.  Sjúkkit.

Það er því alveg ferlega krúttlegt og um leið sorglegt að lesa um Rúmenska manninn sem lagði fram formlega kvörtun undan bjórnum sem hann drakk.  Hann varð pissfullur af einum bjór.  Sem sagt, eitthvað að bjórnum.

Það væri líka tryllingslega fyndið ef það kæmi í ljós að einhver hyskinn starfsmaður hefði blandað þennan eina bjór með spíra, bara "for the hell of it" en þá ét ég auðvitað trefla vinkvenna minna.

Jenný Anna, talar frá átakasvæðinu, allsgáð og í fínum málum að sjálfsögðu.


mbl.is Kvartað yfir áfengisáhrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var hann rekinn?

Ég saup hveljur þegar ég las þessa frétt inni á visir.is. 

Ef ein beljan mígur koma hinar á eftir.  Nú hrópar öryggisvörður sem segist vinna hjá Öryggismiðstöðinni, eftir gas-gas-gasi.  Mace svokölluðu.  Það er á manninum að heyra að það sé bráðnauðsynlegt að hafa úðabrúsa til að fólk beri virðingu fyrir öryggisvörðum.  Og hann nefnir til stuðnings máli sínu, 10-11 búðina í Austurstrætinu.  Sjáið þið lýðinn.  Gösum hann, svona sirkabát.

Löggan vill rafbyssur, löggan hefur gasúða.  Fólk hefur dáið af rafbyssustuði eins og allir vita.  Hvenær ætli byssurnar verði komnar á óskalista, ó, þær eru víst þegar komnar þangað.

Að mæta ofbeldi með meira ofbeldi er ein glataðasta hugmyndafræði mannkynssögunnar og bjargar aldrei einu né neinu.  Lítið í kringum ykkur gott fólk, lesið mannkynssöguna og sannfærist.

Mér sýnist lögreglan, í gegnum tíðina hafa staðið sig alveg þokkalega án morðtóla.  Það krúttlega við lögguna hefur einmitt verið vopnleysið.  Ekki að það eigi við lengur.

En aftur að öryggisverðinum.  Undir viðtali visis við hann er eftirfarandi athugasemd:

"Athugasemd. Öryggismiðstöðin vill taka fram að Pétur Gíslason er ekki starfsmaður fyrirtækisins. Það er heldur ekki skoðun Öryggismiðstöðvarinnar að starfsmenn þeirra beri mace-brúsa."

Eins gott fyrir þetta fyrirtæki að þvo hendur sínar af æsingamönnum sem eiga að gæta öryggis.  En var hann rekinn á staðnum?  Ég fer ekki á bensínstöðina þar sem hann vinnur, þessi náungi, það er á hreinu.

Frekar labba ég heim.


Í gargandi gír

 900

Dagur þverbrotinna prinsippa er senn á enda liðinn.  Hann var dásamlegur auðvitað og ævintýrin biðu eftir mér við hvert horn. 

Ég byrjaði og endaði í Hagkaup í Holtagörðum, eftir að hafa verið leidd burt í járnum eftir grun um mögulegan búðarþjófnað.  Ekki alveg, en nærri því.  Við tökum þetta í réttri röð.

Ég skveraði mig til, fór í hálæana, úr þeim aftur, speglaði, greiddi, málaði, skipti um kjól, fór úr honum aftur (búðarferð er biggdíl, þegar maður hefur varla farið út í viku vegna hita).  Ég sættist á dásamlegan kjól sem dró fram massaðan og fagurlimaðan líkamann.  Þegar ég gekk inn í verslunina, stoppuðu allir, hálsar snérust og það heyrðist hvíslað úr öllum áttum; þarna er hún, þarna er hún.  Nokkrir féllu í öngvit.

Ók, taka tvö.  Ég fór í Hagkaup með miða, verslaði eins og motherfucker, og á leiðinni út, pípti á mig í hliðinu.  Í fyrsta sinn á ævinni.  Mér fannst þetta spennandi, enda blásaklaus, til tilbreytingar, og ég spjallaði glaðlega við öryggisverðina sem höfðu nálgast mig ógnandi.  Sá ég glitta í gasbrúsa?  Ók, þetta var misskilningur, konurnar fóru yfir málið og báðu mig afsökunar.  Mér varð litið á húsband.  Hann var rauður í framan, svona vandræðalegur.  Þá rann upp fyrir mér að það er ekki sniðug hugmynd til félagslegs samneytis að láta taka sig á þjófapípinu.  Frrrrusssss!

Ég hundskaðist út í bíl.  Afskaplega glöð og ánægð.  Það fer ekki langri sögu af gleði eiginmannsins, en hva, ég skemmti mér.

En ég vildi bara segja ykkur að ég keypti mér stórar náttbuxur, örugglega í karladeildinni, ég veit það ekki, stórköflóttar og þær eru þægilegar.

En það er óþægilegt að ganga fram hjá spegli.  Mér bregður.  Ég garga.

Okí?

Cry me a river.

Líf mitt er vonderfúll.


Taumlaus grimmd og villimennska

Það er því miður gömul saga, að konur eigi börn með föður sínum sem afleiðing af kynferðislegri misnotkun.

Ég get eiginlega ekki hugsað um þennan mann í Austurríki, því hann er svo mikið villidýr.  En því miður er hann ekki sá eini.  Hvað veit maður hversu margar konur eru undir hælnum á ofbeldismönnum og enginn veit neitt, eða þá að fólk þorir hvorki að æmta né skræmta?

Korteri eftir að fréttin komst í fjölmiðla var byrjað á sama gamla söngnum.  Hvað með mömmuna?  Vissi hún virkilega ekki?  Athyglin á konuna, því hún "gerði" ekki neitt.  Ég skil alveg að fólk beini sjónum að hennar þætti, en ég veit nógu mikið um heimilisofbeldi til að skilja að þessi kona er auðvitað þolandi mannsins, eins og dóttir hennar.  Það er hægt að halda fólki í heljargreipum óttans, án þess að múra það inni. 

Í hvert skipti sem upp kemst um misnotkun á konum og börnum, er það sigur, áfangasigur, en sigur engu að síður, því svo margir þjást í þögninni og geta ekki leitað sér hjálpar af ýmsum orsökum.

Karlmenn á Íslandi hafa gert dætrum sínum börn með því að nauðga þeim.  Ójá, þetta er ekki eitthvað sem gerist bara í útlöndum.  Sennilega eru flestir búnir að átta sig á því.

En þarna eru þolendurnir svo margir og hryllingurinn svo langvarandi að það er ekki einu sinni hægt að ímynda sér hvað allt þetta fólk hefur gengið í gegnum.


mbl.is Norsk kona eignaðist þrjú börn með föður sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur hinna þverbrotnu prinsippa

1538861041_d9b25cab6b

Þetta mun verða dagur hinna þverbrotnu prinsippa.

Ég er svo smekkleg þegar ég vel mér eitthvað til að brjóta.  Geng inn í merg og bein á sjálfri mér.

Ég ætla að fara í Hagkaup í Holtagörðum og láta manninn minn í pössun á meðan.  Segi svona.  En á blogginu mínu má finna færslu þar sem ég strengi þess heit að stíga ekki inn í þessa verslun á meðan pössunarherbergið fyrir karlana er opið.  Mér þykir nefnilega svo vænt um karla og þess vegna vil ég ekki láta lítillækka þá.

En hvað um það.  Ég mun brjóta þetta prinsipp og brotaviljinn er einbeittur.

Ég mun brjóta annað og mun háheilagra prinsipp og fara ekki í 1. maí gönguna að þessu sinni.

Hvers vegna?  Af því að mig langar ekki til þess.  Ég er svo kúl, svo hipp og kúl og andfélagsleg í dag.

Ég gæti auðvitað verið smáborgaraleg og sagt að ég þyrði ekki að vera í gönguferðum nýstigin upp úr flensu, en það geri ég ekki, það er ekki nógu töff.

Maður þarf að halda við repjúteisjoninu.  Eller hur?  Ég tala tungum.  No?

Farin að brjóta prinsipp.

Capiss?

Úje.


mbl.is Kröfugöngur víða um heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkamál.is

Hvað er deitmenning, eða stefnumótamenning?  Er hún til?  Hm.. Hvernig fólk kynnist er að minnsta kosti með dálítið öðrum hætti en þegar ég var og hét.  Í hringiðunni sko.

Vinkonur mínar sem hafa prufað "blind" stefnumót og slíkar meldingar á milli manna, hafa sagt mér ótrúlegar sögur af furðulegum uppákomum.

Ein fór til að hitta mann sem hún hafði talað við nokkrum sinnum í síma.  Þessi maður sem var að eigin sögn "mjög svipaður Banderas í útliti, en með aðeins ljósara hár" reyndist vera nákominn ættingi hringjarans í Notre Dame, að vísu albínói, en ættingi samt,  ekki að útlitið hafi verið númer eitt til tíu.  Kjaftæði.  Auðvitað skiptir útlit fólks máli, kommon, en það er ekki til siðs að segja það.  Konan snéri við í dyrunum og lét skrímslið aldrei sjá sig.

Ein gerði það sér til dundurs lengi vel að hanga inni á einkamálum.is og kynntist þar hverju sýnishorninu af öðru í formi lygara og kverúlanta.  Giftir menn, perrar og giftir menn og nýfráskildir menn í kreppu.

Áður en einhver fer á límingunum þá er ég bara að segja frá þeim sem voru ekki í lagi.  Veit ekkert um alla hina sem eru jafnvel á stefnumótaþráðum af því þeir eru ekki á börum bæjarins á veiðum.

Ég er af gamla skólanum.  Ég færi aldrei inn á svona vefi.  Fyrir mér eru þeim hámark plebbismans.  Í mínu ungdæmi drakk maður sig fullan, fór á séns og lét sig svo hverfa þegar af manni rann.  Miklu menningarlegra og uppbyggilegt með afbrigðum. (Ég er að ýkja, ekki hringja á siðferðislögregluna).

Og nú er Jennifer Aniston undir fölsku flaggi á einkamálavef.  Að leita að manni.  Mikið rosalega held ég að möguleikar hennar til að finna ástina á þessum vettvangi séu litlir.  Zero, nada, eins og nál í heystakki.

Hvað varð um fyrirbærið kona hittir mann fyrir tilviljun, þau fara út að borða, í bíó eða bara út að labba?

Mikið svakalega er að verða vandlifað í heiminum.

Úje.


mbl.is Undir fölsku flaggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klósettpappír í fegurðarskyni

 hippie-girl

Ég hef tekið ákvörðun.  Ég ætla að kaupa mér skanna, til að hlaða inn gömlum myndum og varðveita þær.

Af því ég er að drepast úr leti, eins og venjulega þessa dagana, þá sökkti ég mér ofan í gömul albúm, allt frá 197og eitthvað og fram til 1990.  Jösses, hvað ég er búin að hlægja og nostalgían hefur heltekið mig einn ganginn enn.

198og eitthvað var ég með sítt permanentað hár og svo sólbrennd úr ljósabekkjum að það er tómur viðbjóður.  Ég man að mér fannst ég sæt.  Ég lít út fyrir að vera Pamela í Dallas á sínum yngri árum, mínus brjóst. Soldið sjúskuð auðvitað, stífmáluð og alles.  Svo tilgerðarleg en samt ábúðarfull á leiðinni að bjarga heiminum í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og með lakkrísbindi.  Ég er kona með hlutverk.  Hvernig gat maður látið fallerast af þessum hryllilegu hárgreiðslum og axlarpúðum?  Ég skil það ekki.

Og svo var það mynd myndanna.  197tíuogeitthvað, þegar mitt annað heimili var í Klúbbnum og Tjarnarbúð lagði systragerið mikið á sig til að verða súperfínar.  Ég t.d.  vatt klósettpappír í hárið á mér, til að fá krullur.  Það er skemmst frá því að segja að ég lít út um höfuðið eins og risastórt tröllabarn með milljón slaufur í hárinu.  Bjútí is pein, ég sverða.  Og ég fór meira að segja út í sjoppu með heilt rjóður úr Finnlandsskógi í hárinu, og það án þess að skammast mín.  Ég skulda umhverfinu biggtæm.  Á myndinni gefur að líta mig plús slatta af systrum, með eitur í glasi heima í Snælandinu og ég með tröllaslaufurnar, baðandi út höndum með munninn opinn, auðvitað blaðrandi frá mér allt vit.  Ég dey.

En einhvern veginn er það svo þegar maður lítur til baka, þá var alltaf allt svo gaman í minningunni.  Ég man ekki eftir því að hafa verið í hátíðarskapi hvern dag, en mér finnst eins og það hafi alltaf verið stanslaust stuð. 

Ætli það hafi ekki bara verið þannig?

Við segjum það.

Nú er ég farin að gera eitthvað annað en færa mig á milli stóla.  Ég lofa, lofa og lofa.


Lóttódansinn stiginn - úje

Ég hef enga trú á happadrætti, lottói, lengjunni og hvað þetta heitir allt saman.  Á menningarheimili mínu hér á átakasvæðinu eru aðrir í því.  Þessi aðrirWhistling er reyndar alltaf jafn fullviss um að hann vinni, verður beinlínis hissa í hvert skipti sem hann stendur uppi á vinnings.  Hann er voða oft hissa. 

Stundum tek ég lottódansinn fyrir aðila heimilisins og skrensa á lokatónunum fyrir framan hans hátign og veina; Lottó 5/32.

Hann: Fyrir utan þá staðreynd að þú ert ekki í lagi villingurinn þinn, þá máttu öppdeita þig í lottólaginu, það er 38 ekki 32.

Ég: Skiptir ekki máli, það er listrænt gildi tónlistar og hreyfilistar sem er aðalatriðið hér.

Og ég held áfram að dansa.

Og nú er listrænum sköpunarmætti mínum alvarlega ógnað.  Hvernig í fjáranum á ég að syngja; Lottó 5/40?  Ekki hægt, vantar rythmann algjörlega.

Ef þessir sumir sem lotta eins og mófóar á heimilinu halda því áfram, þá...... já þá fer ég á söngnámskeið og syng hann brjálaðan á nótæm.

Það hlýtur að vera eitthvað annað sem hægt er að brenna upp peningana í.

Eða kveikja í þeim eftir hádegi á laugardögum.

Liff í því.

 


mbl.is Fjölga kúlunum í lottóvélinni úr 38 í 40 í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagakrúttið hún móðir mín

Ég var að tala við mömmu mína í kvöld.  Hana Önnu Björg, bestu mömmu í heimi.  Hún er 79 ára, sæt og flott og ferlega mikill kventöffari og tekur allt á mýktinni eins og alvöru töffurum sæmir.

Á laugardaginn var hún að kaupa sér brauð í Koló og pabbi sat út í bíl og las Moggann.  Það vildi ekki betur til en svo að mamma hrasaði og datt beint á andlitið.  Hún reyndi að standa upp,öll í blóði og þá dreif að hjón á besta aldri.

Þau: Æi þú hefur dottið illa, ertu full vinan?

Mamma; (drekkur ekki, hefur ekki drukkið og mun sennilega ekki taka upp á því úr þessu), gleymdi hörmungum sínum og spurði: Af hverju dettur ykkur í hug að ég sé full?????  Alveg til í að opna umræður um mögulegan drykkjuskap sinn, með blóðtaumana niður á hvíta blússu og jakka og mögulega beinbrotin.

Maðurinn: Jú sjáðu til vinan (alltaf vinan þegar fólk er orðið aldrað), það liggur brotin flaska þarna á götunni og ég hélt að þú ættir hana.

Mamma alveg: Ég skil, athyglisvert!

Annars slapp móðir mín bæði við nefbrot og axlarbrot, en er öll marin með glóðarauga eftir fallið.

En það kraumaði í henni kátínan yfir því að einhverjum hefði mögulega getað dottið í hug að hún væri full.  Það held ég að hafi toppað hjá henni daginn.

Hún mamma mín er örlagakrútt.

Algjör dúlla.

 


RIP

HoneyBee 

Ég sat hérna í rólegheitunum áðan og las.  Jájá, bara lesandi á præm tæm, sko vinnutíma.  Ég er hyskin og ömurleg húsmóðir, ég veit það.

En aftur að mér þar sem ég sat og las skemmtilega bók.  Segi ykkur frá henni seinna.  Ég var með kaffibolla í hönd, sígarettu í munnviki, dásamlega sjarmerandi en það voru engin vitni að því.  Og ég heyrði suð, lágvært suð og ég hélt að Bördí Jennýjarson, sem hangir að venju uppi á bókaskáp, væri að prófa nýtt sánd.  Þess vegna var ég agjörlega kúl.

Suðið ágerðist, ég varð öll óróleg innan í mér.  Mér varð litið á jurtina ógnarstóru við stofugluggann og mundi eftir flökkusögu, sem kannski var ekki flökkusaga eftir allt saman.  Munið þið eftir sögunni um tarantúlluna sem átti að hafa fundist við rætur drekatrés eða svipaðrar jurtar? Hérna í höfuðborginni sko?  Djö.. sem það er óhugguleg saga.

En hvað um það.  Ég magnaðist öll upp í geðveikinni við tilhugsunina um að ég væri með risakönguló í þessari einu jurt sem tekist hefur að halda lífi í hérna við hirðina.  Ég var ein í húsinu, húsband við útréttingar út í bæ.  Það mátti heyra saumnál detta, fyrir utan suðið auðvitað.  Bördí var saklaus, því hann var sofandi upp á bókastafla.  Bzzzzzzzzzzzzzzzzzz, heyrðist og það magnaðist og efldist.

Fæturnir voru við það að gefa sig.  Átti ég eftir að deyja hér, fyrst kvenna í Norðurálfu sem finnst myrt á heimlii sínu og morðinginn viðbjóðsleg tarantúlla?

Ég gekk á hljóðið vopnuð glasi.  Bzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz, bzzzzzzzzzzzzzz, heyrðist nú greinilega.

Ég gekk fram á viðurstyggilega Humlu eða hunangsflugu sem eru svo sætar í bókum og þegar þær blogga (fluva, ég elska þig), en í návígi eru þær martröð skordýrahræddrar konur.  Flugan var 18 fermetrar á breidd og eitthvað svipað á lengd, og hún virtist ekki geta flogið.

Ég öskraði og hringdi í húsband og veinaði; komdu heim strax, það er Humla í stofunni.

Hann hélt nú ekki, var á bílaverkstæði að láta meta skemmdir á bíl sem komu á atvinnutækið um helgina.  "sjáðu um þetta sjálf kona, hvaða óhemjugangur er þetta?".

Ég er að skrifa þetta í lappanum inni í eldhúsi.  Ég er flúin þangað.  Símalaus og allslaus.  Mér segir svo hugur að ég hafi tapað fyrir skordýri.

Ég er gránduð á eigin heimili. 

Bzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz færist nær.

Ég þakka ykkur skemmtunina.  Lífi mínu er að ljúúúúúkkkkaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaa.

Rest in pease.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband