Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Mýtur og annað kjaftæði

Það er allt vaðandi í mýtum um konur í nútímasamfélagi.  Hefur reyndar alltaf verið en við höfum alist upp við frasana um konur og höfum jafnvel tileinkað okkur þá og trúað þeim, þvert á alla skynsemi.

Mér dettur í hug þar sem ég sit hér:

1. Vonda stjúpan.  Bull og kjaftæði.  Leyfi mér að fullyrða að vondar skámæður eru í miklum minnihluta.  Tók bara könnun á mitt nánasta umhverfi.  Voila.

2. Konurnar sem eru konum verstar.  Oftar en ekki reynast konur hver annarri vel.  A.m.k. oftar en ekki.  Ég hef alltaf getað leitað til vinkvenna minna með stórt og smátt.  Hinsvegar hef ég þekkt bölvaðar tæfur, en þær eru örfáar og ég legg mig fram við að gleyma þeim.  Sem sagt kjaftæði.

3. Konur eru afbrýðisamari en karlar.  Þær eru smámunasamar gagnvart hvor annarri, leita að veikum blettum, tala illa um hvor aðra og on and on and on.  Hvaða vesalings konur þekkir sá sem svona trúir?

4. Konur sem slást reyna að klóra úr hvor annarri augun, rífa í andlit og hár.  Það er kallaður kattaslagur.  Þessi er gamall, hann lifir góðu lífi meðal karlmanna sem fá eitthvað út úr því að sjá konur meiða hver aðra.   Staðreyndin er að konur slást mjög sjaldan.   

5. Konur geta ekki stjórnað, ekki komið sér saman um neitt.  Þær eru yfirborðskenndar og grunnar í mati sínu á aðstæðum.  Halló, þvílík bábilja.

6. Konur kunna ekki að hlusta.  Þær tala hver ofan í aðra, grípa fram í og haga sér eins og ótýndir dónar í samskiptum.  I rest my case.

Allt eru þetta undantekningar sem hafa fengið vængi.  Þess vegna skiptir máli að við konur sláum á mýturnar.  Að við séum í grundvallaratriðum eins og annað fólk.  Mismunandi en að upplagi ágætis manneskjur.  Eins og hinn helmingurinn af heiminum.

Mér finnst því sorglegra en tárum taki þegar konur gera út á mýtuna.  Kannski til að selja?

Ég hef trú á Ásdísi Ólsen og hennar þáttastjórnun.  En þessir "kvennaþættir" gera út á lélegar mýtur um konur.  Fyrir utan að vera afskaplega vondir þættir.  Það getur vel verið að þetta sé kjút, að sitja á trúnó í útsendingu, en það missir marks hjá mér.

Konur geta ekki komið sér saman um neitt.  Konur tala hver upp í aðra, þær kunna ekki að hlusta og þær geta ekki stillt sig um að rífast hvar og hvenær sem er.  Þarna er mýtan sett á stall, leikin og raunveruleikagerð.  Ég kannast ekki við þessar konur.

Sorglegt.


Rusl og rjóður

Dagböð eru dagblöð, auglýsingapóstur er ruslpóstur sem ég hendi jafnharðan og hann berst.

Það fer afskaplega í taugarnar á mér að fá óumbeðnar auglýsingar í hólfið mitt, og pappírinn, allur pappírinn.  Hér eru rifin upp heilu rjóðrin úr skógum heimsins.  Halló!

Það er furðulegt að það skuli þurfa að gefa okkur leyfi eða möguleika á að hafna einhverju sem aldrei hefur verið beðið um.

Það er sama aðferðarfræðin og með hinn íslenska gagnagrunn.  Ég þurfti að nálgast eyðublað og segja mig úr grunninum þegar kommons sens segir mér að það hefði átt að vera öfugt. 

Þetta heitir að byrja á öfugum enda.

Ruslpóstur sem hefur fengið hið eðla nafn "fjölpóstur" framkallar ekki mikla kátínu á heimilum landsins.  Ég þekki heldur engann sem segir: Vá, það eru komnar auglýsingar frá Hagkaup og Nóatúni og einhelda sér síðan í að lesa viðkomandi bæklinga upp til agna.

Ég vil að fólk þurfi að biðja um "fjölpóstinn".  Eða gefa upplýst samþykki fyrir honum.

Ég vil ekki sjá þessa pappírseyðslu.

Péess, það má geta þess að það er hægt að fá sömu upplýsingar á vefnum og þar er ekki gramm af pappír sem fer til spillis.

Og hananú.

Þetta var neytendahorn Jennýjar Önnu sem tjáði sig... Illa prirrað.


mbl.is Hægt verði að hafna fjölpósti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlýsing til að róa íslenska þjóð

 11

Ég undirrituð lýsi því hér með yfir, til að slá á öflugar vangaveltur þess efnis að ég og minn heittelskaði munum flytja á Stór-Hafnarfjarðarsvæðið næstu 18 mánuðina, að planið hefur verið blásið af.

Þannig er mál með vexti að við vorum svona að gæla við hugmyndina um að flytja búferlum og nefndum það í bríari við einhvern að Hafnarfjörður gæti komið sterklega til greina sem búsetusvæði vegna nálægðar sinnar við berjamóinn í hrauninu.

Nú mun fólk vera í mikilli spennu og frústrasjón yfir þessum mögulegu breytingum á högum okkar.

En við erum sem sagt hætt við.

Ég ætla að safna hári og hugleiða í sumar og verð alveg bissí í því og húsband mun vinna fyrir okkur á meðan.

Þetta finnst mér mikilvægt að Íslenska þjóðin fái að viti.

Nánari skýringar á málinu fást hér.


Grunur um hórerí

Tvær konur af "erlendu bergi brotnar" voru grunaðar um að stunda vændi á Egilsstöðum um helgina.

Nú spyr ég, hvað er að því að útlenskar eða innlendar konur stundi þá vinnu sem þeim sýnist?

Alþingi samþykkti í fyrravor að vændi væri löglegt, er þá eitthvað að rannsaka hérna?

Eða leynist undir yfirborðinu sú trú eða jafnvel vissa, að vændi sér ekki eins og hver önnur vinna?

Að vændi sé jafnvel niðurlægjandi neyðarúrræði fyrir fátækar konur?

Það skyldi þó aldrei vera.

Alþingismenn ættu að skammast sín fyrir að hafa ekki lagað þessi ólög sem runnu í gegn í skjóli nætur fyrir þinglok í fyrra þegar allur þingheimur var að fara á límingunum vegna komandi kosninga.

Vændi er birtingarmynd ofbeldis á konum í einni af sinni ljótustu myndum.

Og komið ekki með frásögur eða játningar af hamingjusömum hórum í mitt athugasemdakerfi, ég blæs að soleiðis kjaftæði.

Það er til fólk sem elskar að vinna í rotþró, en það er alltaf í míkróskópískum minnihluta.

ARG


mbl.is Grunur um vændi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr bloggræsinu

Og ég held áfram alkaskrifum af því ég rakst á hann Robert Downing jr. í fréttunum.

Ekki að það sé frétt að hann gleymi aldrei neyslutímanum sínum.  Það er eins gott fyrir okkur alkana að muna hvernig fyrir okkur var komið. En hvað um það, þessi frábæri listamaður virðist í góðum gír.

Suma daga er ég viðkvæm og auðsærð og það flýkur fljótar í mig.

Í dag er svoleiðis dagur. 

Þá daga langar mig að loka á alla athugasemdara sem eru ekki skráðir bloggarar og leyfa sér að hella úr hlandkoppnum sínum yfir kommentakerfið mitt.  Mig langar að fremja eitthvað, þegar mér líður á þennan veginn.  Æðruleysi, æðruleysi.

En svo hugsa ég, okídókí, heimurinn er fullur af vanvitum sem fara með veggjum.  Einn og einn þeirra slæðist stundum inn á síðuna mína og gerir þar þarfir sínar.

Ég get lifað með því vegna þess að svo margir aðrir sem ekki eru skráðir hér á blogginu koma með skemmtilegar og málefnalegar athugasemdir.

Ég hef því opið í nafni málfrelsis og málefnalegrar umræðu. 

En fídusinn sem finnst í stjórnborðinu og gerir manni kleyft að loka á ip-tölur er dásamleg uppfinning.

Ég ráðlegg öllum sem fá leiðinlegar sendingar í formi persónulegs skítkasts frá Pétrum og Pálum að nota þennan möguleika.

Ég er edrú einn dag í einu!

Það er næsta víst.

Go Downey, go.

Úje.


mbl.is Gleymir aldrei ræsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alkinn á snúrunni

 93

Það er langt síðan ég hef snúrað.

Í dag (mánudag) eru 19 mánuðir síðan ég fór inn á Vog.  Hm.. tíminn flýgur og hann gerir það skemmtilega, svo skemmtilega að ég man það. 

Miðað við ástandið á mér þegar ég dröslaði sjálfri mér í meðferð þá er ég á toppi tilverunnar.  Þrátt fyrir flensur af ýmsum toga, sykursýki og aðra óáran sem ég fæst við, þá er það tertubiti og ég í fantaformi,þegar þetta tvennt er borið saman.

11 daga pillufallið mitt í janúar, ýtti ansi vel við mér, er mér óhætt að segja.

Ég er vör um mig, mátulega hrædd við möguleg föll til að fara varlega.

En 19 mánuðir er heill hellingur af dögum.  Allsgáðum og dýrmætum dögum.

Ég er svo skemmtilega heppin.

Lífið býður upp á möguleika.

Og núna þegar ég leggst til svefns veit ég að ég man hvað ég gerði og hugsaði áður en ég lokaði augunum.

Það er þó nokkurs virði.

Það er ansi fagurt útsýnið af snúrunni, ég blakti rólega.


Allir saman nú!

 Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar.

Lára Hanna sem skrifar afspyrnu fróðlega og vandaða pistla leggur til  að við tökum nú öll höndum saman, sláum Íslandsmetið sem sett var í nóvember sl., og reynum að stöðva fyrirhugaða eyðileggingu á dásamlegri náttúruperlu með því að reisa þar jarðgufuvirkjun - á Ölkelduhálsi.

Ég ráðlegg öllum að fara inn á síðuna hennar og lesa frekar.

Stöndum saman og þrýstum á yfirvöld. 

Allir saman nú.

 


Kórónur, pell og pluss

 King_Crown_2

Þegar ég var bara ögn, sandkorn á lífsströndinni, sem ég er reyndar enn, kom Noregskonungur ásamt drottningu til Íslands.

Ég hef sennilega verið sex ára.  Það var mætt með mig út í Melaskóla til að berja goðin augum.

Alvöru kóngur og alvöru drottning!  Ég man enn spenninginn og tilhlökkunina sem hríslaðist um mig, enda með kónga og drottningar, prinsessur og prinsa á hreinu úr heimi ævintýrabóka.

Vonbrigðin voru gífurleg.  Maður í borðalögðum búning með húfu á höfðinu og drottningin var ekki með kórónu heldur og ekki var hún hlaðin gulli, konan sú.  Þau voru eins hversdagsleg og hugsast gat.  Ég held að ég hafi misst trúna á ævintýrin þarna í vornepjunni úti í Meló.  Við fórum samt niður í Tjarnargötu og horfðum á þau fara inn í Ráðherrabústaðinn og ekki höfðu þau orðið konunglegri í útliti við fataskiptin.

Þarna hefur örugglega orðið til græðlingur, sem síðan varð að heilum frumskógi.  Þarna fæddist nefnilega andúð mín og antípat á hvers kyns fyrirmennadýrkun.  Guð, takk fyrir það, hver sem þú ert.  Ég hef nefnilega komist að því að kóngar, bæði alvöru og sjálfskipaðir, standa aldrei undir væntingum enda af holdi og blóði eins og afgangurinn af mannkyninu.

Danska kóngafjölskyldan er þó krúttlegust og þolanlegust af öllu þessu eðalborna slekti.  Þórhildur er töffari og þessi ungu hjón Frikki og Mary eru nokkuð kúl.

Ég mun því ekki henda í þau eggjum við komuna til landsins.

Þeim verður hent við önnur og merkilegri tilfelli.

Súmí.


mbl.is Konungssteinar fá nýja ásýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir úr mollinu

Ég fór í Smáralind með Söru dóttur minni, en skírnarveisla stendur fyrir dyrum um næstu helgi.  Hún var að kaupa sér föt.

Ég keypti líka föt til að sýna henni stuðning.  Að sjálfsögðu.  En ekki hvað.

Ég þarf að fara að hætta að sjoppa, þetta er engan veginn viðeigandi.  Ég geng þvert á eigin reglur og haga mér eins og óábyrgur materíalisti.  Sem ég er ekki svona yfirleitt.

En ég geri auðvitað meira úr þessu en efni standa til.

Ég afrekaði líka að fara í sykurfall í mollinu.  Hreint dásamleg lífsreynsla. 

Afrakstur verslunarferðar:

Dásamlegir skór sem ég keypti í GS ég er búin að stilla þeim upp á stofuborðið og ég get horft endalaust á þá og dáðst að þeim.  Svartir með háum hæl, ökklabandi og fyrirkomulagi.

Kjóll og peysa, sem ég get ekki lýst nánar en amman verður að vera fín í skírnarveislunni.

Rosalega get ég verið yfirborðskennd.

En ég er afskaplega djúp að öðru leyti.

Ójá.


Typpið á Hilmi Snæ, seinni hluti

Hinn íslenski Gary Grant, eða einhver annar drop-dead-georgious kvikmyndaleikari, ætlar að fækka fötum einn ganginn enn í uppsetningu Vesturports á Kommúninni.

Hilmir Snær er að verða prófessjónal flassari. 

Maðurinn er svona lala sætur sko.Devil

En ég hef aldrei séð typpið á honum.

Fram að þessu hefur mér ekki fundist neitt vanta í þeim málum, í mínar listrænu upplifanir á ég við.

Ég hallast helst að því að ég þurfi ekki að bæta þar úr.

En ég verð að sjá Kommúnuna af því ég er svo mikið fyrir listrænar upplifanir, nekt karlmanna hefur ekkert með það að gera.Halo

Dem, dem, dem, ég neyðist þá til að horfa á manninn alsberan.Pinch

En ég er nagli og ég lifi það af.  Glerharður töffari úr hippamenningunni.  Ég harka af mér bara.

Allt fyrir listina.

Úje!

 


mbl.is Hilmir Snær í stað Gaels Garcia
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 2988503

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.