Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

"Home alone" heilkennið

Það er alveg hægt að fara í "Home alone" fílinginn og hlægja að/með þessu fólki sem gleymdi barninu á flugvellinum.  En mér stekkur ekki bros.

Sumir grínast með manninn sem setti bílbeltið á bjórinn og lét barnið leika lausum hala í bílnum.  Mér stekkur ekki bros þar heldur.

Það varð allt vitlaust í kommentakerfinu hjá mér í fyrra þegar ég bloggaði um hversu óábyrgt mér þætti það vera, að foreldrar Maddýar sem hvarf í Portúgal hefðu skilið eftir svona ung börn án gæslu, þó þau hafi getað starað á dyrnar, sem reyndar eru áhöld um.  Ég hefði haft meiri áhyggjur af því sem gæti gerst á bak við dyrnar, t.d. af því að börnin vöknuðu upp og yrðu hrædd og enginn til að taka þau í fangið og knúsa þau og róa.

Maður einn sagði við mig að það væri alveg jafn eðlilegt að skilja börnin ein eftir með þessum hætti eins og þegar maður skildi börn eftir uppi á herbergjum á hóteli og færi niður að borða.  Halló, hver gerir það?  Ekki ég og enginn sem ég þekki.

Það er alveg ótrúlegt hvað fólk fer í mikla vörn þegar þessi mál eru rædd.

Ég vil að fólk taki ábyrgð á börnunum sínum.  Skilji þau ekki eftir hist og her eins og ódýrar handtöskur fullar af snýtuklútum sem enginn ásælist.

Ég er búin að horfa á þessa frétt og bjórfréttina á Mogganum bæði í dag og í gær og verða þræl pirruð í hvert skipti sem ég ber þær augum.

Ef fólk er að eiga börn, er til of mikils mælst að það gæti þeirra eftir bestu getu?  Við getum aldrei komið algjörlega í veg fyrir slys og annað slæmt en við getum amk. komið í veg fyrir ansi margt með því að vera stöðugt á verði.

Og hananú.


mbl.is Gleymdu barninu á flugvellinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingja í uppsiglingu og blóm sem bakkar´ana upp

7515~Pink-Dahlia-Posters 

Af ýmsum ástæðum, sem ekki verða tíundaðar hér, hefur þessi dagur verið erfiður!  Ójá.  Sumir dagar geta ekki liðið nógu fljótt.

Ég er ekki vön að hanga lengi í vanlíðan, kannski nokkra klukkutíma max, en núna teygðist á því.  Ég er ekki stolt af samskiptatækninni á þessum degi.  Nokkur fórnarlömb liggja nú þegar í valnum.

Dæs.

En.. til að hífa mig upp skrifaði ég fíflafærsluna hér fyrir neðan, ég las AA-bókina og ég kyrjaði faðirvorið.  Svona sirkabát.  Ekkert virkaði.  Ef eitthvað, varð ég enn meira viðskotaill.

Svo las ég um að Dagur Eggerts kallaði ráðningu Jakob Frímanns, læknamistök og þá tók sig upp hlátur, að vísu þurr og óhugnanlegur, hás og viðbjóðslegur,  en fokkings hlátur var það.

Svo varð mér litið á dásamlega fallegt blóm sem mér var gefið af konu sem ég þekki frá því áður fyrr, á laugardaginn, og þá bráðnaði ég að innan.  Fór að grenja smá, búhú, og svo streymdi um mig einhvers konar flauelskennd hamingja.  Úff svo mjúk og góð.

Þórhildur, takk fyrir að bjarga lífi mínu.

Og ég er komin aftur.  Hringið á heimavarnarliðið.

Það er hamingja í uppsiglingu. Og ég bakk´ana upp með blómi!

Úje!


Ekki minn dagur

5905_angry_man_cutting_the_phone_cord 

Arg.  Þetta er svona dagur.  Arg, arg, arg.

Ég vaknaði, brosti framan í heiminn og hvað gerði hann?  Jú hann sendi mér fingurinn helvítið á honum.

Þannig að í dag er ég ekki til friðs.  Ég er úfin, svekkt og tætt.

Þetta er sem sagt ekki minn dagur.

En að því sögðu, þarf maður að eiga alla hluti?

En ég er eins og snúið roð í hund.

Best að nýta sér geðsveifluna.

Make my day.Devil

Veggur hvar ertu?


Deyjandi og svört

 lesko_nl_06

Ég var að lesa hin og þessi blogg áðan af því ég nennti ekki að gera eitthvað af viti.  Þá meina ég verklega hluti eins og að mála húsið, taka til á lóðinni eða hlaupa maraþon.  Jeræt.

En á einu bloggi stóð að fólk notaði fatnað til að tjá sinn innri mann eða persónuleika sinn.

Það er nebblilega það.  Hm... ég er búin að vera í dálítið miklu rusli eftir að ég fór að velta þessu fyrir mér. Dem, dem, dem.

Ég hlýt þá að vera afskaplega svartur karakter.  Litlaus, dimm, döll og ég gæti áfram talið.

Sumir myndu skrifa upp á það, en mér finnst ég ógeðslega litrík og skemmtileg, að innan sko.

En staðreyndin er sú að allt í mínum fataskáp (með örfáum slysakaupum) er svart.

Ég á nokkrar gráar peysur, kjóla og eins og einn jakka.  Ég á enga liti.  Rosalega þyrfti ég að komast í litasérfræðing.  Ég get ekki dáið hafandi verið sökkari fyrir svörtu og engu öðru.

Ég held ég eigi í tilvistarkreppu.  Bara frá því að ég las ofangreint.  Áður en ég gerði það lifði ég í þeirri trú að ég væri hipp og kúl. 

Ég leggst undir feld, hringi í Heiðar snyrti og læt hann litgreina mig á stundinni.  Það hlýtur að vera hægt að lappa upp á þennan hundleiðinlega persónuleika sem ég flagga hvert sem ég fer.

En svo má taka Pollyönnu á þetta.  Kannski er ég svo svakalega litríkur karakter að ég verð að klæða mig í hamlandi föt.  Ég meina til að ég sullist ekki út um allt.

Ég get lifað með því.

Ómægodd.  I have a problem.


Bílablinda

Funny_Car_Interior_Colors 

Ég var að uppgötva eitt, reyndar síðust til þess, en ég er hálfviti þegar kemur að bílum.

Ég hef bloggað um það áður, en ég keyri ekki bíl, vill ekki leggja það á nú þegar ónýta umferðarmenningu á þessu landi.  Vegir landsins munu ekki rísa undir því álagi sem felst í því að hafa mig keyrandi um allt.  Þetta er ekki skortur á sjálfstrausti, þetta er vísindalega sannað mál.

Og svo hef ég ekki áhuga á bílum.  Nema til að komast í frá A-Ö.  Punktur.  Ég segi stundum að ég þekki tvær bílategundir, þ.e. Benz og Bjöllu og fólk heldur að ég sé að ýkja.  Ókei, ég þekki gamla Citroen.  Ég er beisíklí bílablind. 

Ég hef farið inn í hvítan fjögurra dyra Volvo og tekið feil á honum og rauðum Opelstation, en það er langt síðan.  Ég mátti ekki vera að því að líta upp, var að skoða stundarskrána mína úti í Gautaborg.

Bíll er bíll fyrir mér og það þarf ekkert að ræða það frekar.

Úpps, svo kom að því að ég lenti í vandræðum.  Um daginn bilaði gemsi eiginmannsins og ég þurfti að ná í hann.  Ekki séns, sími capút.  Og svo varð ég hrædd.  Einhver hafði lamið hann til óbóta í vinnunni og eyðilagt símann og húsband lá nú nær dauða en lífi upp í Heiðmörk eða eitthvað.  Já mér er kunnugt um mitt töluvert líflega ímyndunarafl.

Og ég hugsaði, hvað á ég að gera?  Hringja í stöðina? Gerði það en hann svaraði ekki kalli.  Átti ég að hringja í lögguna, maðurinn var deyjandi?  Já, ég geri það.  Og ég stökk að síma.  Snarbremsaði á ganginum, þannig að það ískraði í rauðgullnu channel töflunum með nýja utanborðsmótornum. 

Og það rann upp fyrir mér að ég veit ekki hvaða tegund bíls við eigum, ég veit að hann er grænn og mjög þægilegur.   Ég veit ekki númer bílsins og ef eitthvað kæmi uppá gæti ég ekki gert viðvart.

Ég hef margspurt hverrar tegundir bíllinn minn er og mér er sagt það jafnharðan.  En ég hef þann leiðindagalla þegar kemur að málefnum (já og fólkiBlush) sem vekur ekki áhuga minn - þá hætti ég að heyra, sjá og skynja.  Vont mál.

Bíllinn minn heitir Hunday Sonata.  Brilleríllilí. 

Og næst þegar eitthvað gerist þá fletti ég upp á þessari færslu og get hóstað út úr mér nafninu á sjálfrennireiðinni eins og ég sé intúitt.  Það verður kúl.  En samt finnst mér núna, eftir að ég skrifaði nafnið á rennireiðinni, að ég muni muna það um alla eilífð.  Að blogga er heilun, ég segi það satt.

Péess.  Það kom svo í ljós að gemsi eiginmannsins var ónýtur.

Við keyptum nýjan.  Ég man ekki hvaða tegund, en hann er mjög flottur.Whistling


Hundskist frá völdum

Borgarstjóranum í Reykjavík er umhugað um að við vitum að hann sé heiðarlegur maður.

Ég dreg það reyndar ekki í efa.  Ég held meira að segja að hann sé algjörlega laus við að kunna á pólitíska klæki.  Þeir sem ég hef talað við eru mér sammála um þetta.  Ég gerði nefnilega þverpólitíska skoðanakönnun í kunningjahópnum.

En það er ekki málið.  Bara alls ekki.  Jakob Frímann er heldur ekki málið, hann getur örugglega gert með bravör það sem hann var ráðinn til að gera.  Það er fyrirkomulag ráðningarinnar sem fer fyrir brjóstið á fólki.

Það er klaufskan, sambandsleysið, paranojan og almennur flumbrugangur sem gerir það að verkum að almenningur í þessari borg vill sjá breytingar.  Það eina rétta er að meirihlutinn segi það upphátt sem allir sjá.  Að þetta samstarf er farsi.  Lélegur farsi.  Meirihlutinn hangir saman á óskinni einni. Óskinni um að fá að vera við völd.

Ég er ekki hissa á að Reykjavíkurbréf Moggans lýsi yfir áhyggjum Sjálfstæðismanna af ástandinu í borgarstjórnaflokk íhaldsins í Reykjavík..  Meira að segja ég vorkenni þeim.

Við erum að upplifa vanhæfan meirihluta á eigin skinni.

Máttleysislegar tilraunir til að fúnkera gera ekkert nema ýta undir þá vissu að allt sé í kalda kolum.  Við sjáum það nánast á hverjum degi í fjölmiðlum.

Sýnið nú pólitíska ábyrgð gott fólk og takið pokann ykkar.

Þetta er ekki það sem átt er við þegar talað er um "starfhæfan meirihluta".  Bara alls ekki.

Mig er farið að gruna að þetta fólk þrái pólitískt sjálfsmorð.  Laaaangdregið sjálfsmorð.

Hundskist frá völdum.

Þetta er orðið svo mikið meira en gott.


mbl.is Ástandið veldur sjálfstæðismönnum áhyggjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..og tíminn líður

 Í dag (12.05.) er ár síðan við kusum til Alþingis.  Úff, allt of langt í næstu kosningar.  Arg.

Og það er líka ár upp á dag síðan Júróvisjónkeppnin var haldin.  Ójá.  Þetta man ég þó ég hafi ekki horft á keppnina.  Kommon, kosningasjónvarpið er svo skemmtilegt að ekkert toppar það.  Ég hefði þó kannski horft ef Ísland hefði komist áfram.  Eiki var flottur.

En aðalatriði dagsins var og er afmæli elsku litla dóttursonar míns, hans Olivers en í dag er hann þriggja ára.  Ég sakna hans skelfilega nú sem alltaf en alveg sérstaklega á þessum tímamótum.  Og hvað tíminn líður.  Hann er bara nýlega fæddur barnið!

En um næstu helgi verður mikil veisla í London og amma-Brynja og afi-Einar verða í afmælinu.  Ég verð að láta mér nægja myndir að þessu sinni.

Maysa og Robbi, nota myndavél og smella af.  Við bíðum í ofvæni eftir að fá þriggja ára dokumentasjón.

Elsku snúllan hennar ömmusín.  Til hamingju með daginn.

20080318144146_020080415135216_9

Oliver í ýmsum myndum.

20080415135355_1220080416204319_6

Og nú er ég farin að sofa í höfuðið á mér.


Upp á vatn og brauð?

 screaming%20woman

Stundum er ég að hugsa um hversu góðu vanur maður er orðinn.  Eins og t.d. það að geta farið að versla án tillits til hvaða dagur er.  Ég man nefnilega eftir háheilögum dögum þar sem ekkert var opið.  Mikið skelfing fannst mér það leiðinlegt.  Ég hugsaði; mig gæti vantað eitthvað og hvað á ég þá að gera?

Vegna anna út af skírnarveislunni hans Hrafns Óla, sem haldinn var í gær, fór lítið fyrir innkaupatilburðum undirritaðrar.  Ég mátti ekki vera að því að pæla mikið í matseðli þrátt fyrir komandi hátíð.  Hvítasunnan er ekki bigg díl fyrir mér, enn einn frídagurinn bara.  Eina hátíðin sem ég missi kúlið yfir eru jólin.

Og í morgun rann það upp fyrir mér að það er ekkert til í kotinu.

Ok, ekkert er kannski dálítið ýkt, en ekkert bitastætt er í ískáp að finna  Það er ekki til kjöt, ekki grænmeti og því um líkt.  Ég varð samstundis pirruð þegar ég sá að Hagkaup var lokað og Bónus gefur ekkert upp á sinni heimasíðu um opnunartíma.  Ekki Krónan og ekki Nóatún.

Allt í einu bara VARÐ ég að kaupa eitt og annað.  Mér leið eins og ég væri í vist upp á vatn og brauð hér uppi í Gólan.

Og svo uppgötvaði ég að þetta er auðvitað fáránlegt sjónarmið.  Það er ágætt að búðir skulu vera lokaðar af og til.  Verra finnst mér með kaffihúsin.  Það er ekki vitund Cosmopolitan að hafa þau lokuð á frídögum.

Er ekki 10/11 eða hvað þær nú heita, opnar alltaf? 

Eða kannski ég sleppi bara öllum verslunarhugmyndum og baki pönnukökur eða eitthvað.

Hm... ég held það bara svei mér þá.

Gleðilega Hvítasunnu.


Illgjarnir "álitsgjafar"

Ég var að baka í allan dag.  Terturnar stukku fullskapaðar út úr ofninum.  Ég er sannkölluð eldhúshetja.  Það er nefnilega blásið til veislu á morgun.  Skírnarveislu.

Á milli þátta settist ég niður með kaffi og Whistlingþið vitið, þetta sem má helst ekki tala um, og fletti Fréttablaðinu.  Flettíflettíflett og ég alveg í góðri harmoníu í eigin skinni. 

EnW00t....Það stóð ekki lengi.

Heilli opnu var fórnað undir best- og verst klæddu konur landsins.  Mikið rosalega er þetta hallærislegt og amerískt.  Einhverjir álitsgjafar voru fengnir, ég nenni ekki að skrifa nöfnin þeirra, en þeir eru nerðir ársins sem af er. Neikvæðir og illgjarnir.  Og er þetta issjú?  Hver er í hverju?  Mikið rosalega finnst mér þetta ljótt og hallærislegt.

Hvað er að fólki?  Hverslags sérfræði er það að setjast niður og ráðast að útliti fólks, taka það út eins og vöru eða búfénað.  Nokkur dæmi:

"Ragnhildur Steinunn, Svanhildur Hólm, Inga Lind og reyndar allar sjónvarpskonur hafa fallið í sama mót á skjánum og gerst ógeðslega púkalegar, kerlingarlegar með sama hárið......."

Og:

"Aldrei outstanding smart.  Alltaf í sömu stuttu pilsunum... klæðir sig ekki í takt við sinn aldur."

Ég spyr, hvernig á maður að klæða sig eftir aldri?  Er það sérstök lína?  Ég klæði mig eftir veðri og eigin samvisku bara svo það sé á hreinu.

Og áfram:

"..hún er úr sveit og því ekki við hana að skakast en fötin eru öll eins og nýjasta tíska í kaupfélaginu á Blönduósi."

Er það þá ávísun á smekkleysi að vera utan að landi?  Hálfvitar.

Ég hef alveg látið gamminn geysa um klæðaburð fólks við vinkonur mínar, annað væri nú bara,  enda föt ofarlega á listanum hjá þeim sem hér talar (varð að herma eftir sumum)  en að álit mitt eða annarra eigi heima í blöðunum, þegar kemur að því að klæða sig, er bara hallærislegt og yfirborðskennt.

Og nei, ég hef ekki húmor fyrir þessu.  Hvernig væri að meta fólk að verðleikum en ekki fyrir hvað hangir utan á því?

Arg í vegg.

Hver kjaftur.


Sá litli svarti

24391_1_large

Ég man eftir Popppunkti á Skjá 1, af því mér fannst það ógeðslega skemmtilegur þáttur.

 Ég man líka eftir Hawaiskyrtunum hans Dr. Gunna.  Var ekkert voða hrifin en alveg nákvæmlega sama og tapaði ekki svefni yfir litríkum manninum.

Sumir karlmenn og föt - ég segi ekki meira.

En hugmyndin er flott. 

Húsband: Dr. Gunni er að selja fötin sín á netinu.  Sko skyrturnar.  Af hverju selur þú ekki eitthvað af ÖLLUM KJÓLUNUM þínum á netinu?

Moi: Um hvaða ALLA ertu að tala maður?

HB: Þú átt HAUGA af kjólum og dóti sem þú ferð ALDREI í.

Moi: Það er ekki rétt, ég fer reglulega í fötin mín.  Mér þykir vænt um mína svörtu kjóla.  Villtu ekki selja eitthvað af ÖLLUM gíturunum þínum?  Þú spilar hvort sem er ALDREI á suma þeirra.

HB: #$/&%#(%=Ö

En burtséð frá því þá er ég enn að þjást úr smáborgarahætti hérna gott fólk.

Og nú bíð ég í angist eftir að hitta fleirihundruð og fimmtíu vísitölumenn, hlaupandi um allt í Hawai skyrtum doktorsins, haldandi að þeir séu "trendsetters".

Farin að klæða mig í eitthvað af ÖLLUM kjólunum mínum.  Það er ekki sama kjóll og kjóll, þó karlmenn sjái ekki muninn.

Aloha

 


mbl.is Bloggsíða Dr. Gunna að breytast í fatabúð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 2988501

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.