Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

DG og Ingibjörg

Ég er deddsjúr á því að ég get þakkað mínum sæla fyrir að hafa verið svo upptekin í að halda matarboð fyrir stelpurnar mínar og barnabörn að ég hafði ekki tíma til að brjálast endanlega vegna nýjasta útspils gleðitríósins DG og Ingibjörg.

Ég meina dagurinn í dag getur gert hvern friðarsinna að klikkuðum og stjórnlausum ofbeldismanni.

Hann (D) segist hafa varað Sollu og Geira við og bankarnir myndu ekki meika það, nánar tiltekið í júní s.l.

Solla segist ekki hafa hitt Davíð allan júnímánuð.

Geir segir eitthvað alt annað.

Dásamlegt.

En ég var sem sagt í að elda hakkabuff með lauk og spæleggjum handa minni elskulegu fjölskyldu.

Í fyrsta skipti á þessu ári voru allar dætur mínar hjá mér í einu.

Öll barnabörnin mínus það elsta sem komst ekki vegna anna.

Þetta var ljúf stund.

Ef ég gæti eldað mig út úr raunveruleikanum þá væri ég til í það.

Ég myndi taka upp kartöflur 24/7 í brjáluðu roki og blómkál líka, ef það gæti fengið þetta lið sem er að vaða yfir okkur á skítugum bomsunum til að taka pokann sinn.

Ég myndi ganga svo langt að hætta að reykja á spottinu ef þeir létu sér segjast.

Jájá, drímonmæman.  Mun ekki gerast.

Sjáumst tvíefld á morgun þar sem við höldum áfram að moka út úr stjórnarfjósinu.

Úje.


Lítill drengur

FLOWERS%20060 

Í dag eru ellefu ár frá því lítill drengur kvaddi jarðlífið eftir að hafa verið til í heiminum frá 17. september sama ár.

Hann hét Aron Örn Jóhannsson, var sonur hennar Mayu minnar og hann setti óafmáanleg spor í hjartað á okkur öllum sem stóðum að honum.

Lífið er skrýtið, eitt kemur þá annað fer.

Í dag kemur Maysa mín til landsins ásamt litla Oliver og Robba.

Það er fagnaðarefni.

En tilefni komunnar til landsins er sorglegt.

Tengdamamma Mayu og kær vinkona mín hún Brynja var að missa bróður sinn úr krabbameini langt fyrir aldur fram.

Ég er afskaplega meyr á þessum tíma.  Jólaljósin eru tendruð það er eftirvænting í loftinu blönduð trega og sorg.

Ég hef ákveðið að standa með lífinu og einbeita mér að þeim sem enn eru hérna megin grafar.

Lífið er ljúft og sárt.

Ég geymi Aron Örn í hjartanu eins og það ljós sem hann var.

Dóttir mín hringdi frá London áðan og sagðist vilja hakkað buff með lauk í kvöldmatinn.

Halló, hakkað buff með lauk?

Ég sem ætlaði að slátra alikálfinum

Ég hysja upp um mig og fer að kaupa í matinn.


Snillingurinn - villingurinn - vinkona mín

jónubók

Hún er vinkona mín.  Hún er falleg, hlý, gefandi, klár, skemmtileg og með svartan húmor sem fær mig til að gráta úr hlátri.

Hún heitir Jóna Ágústa Gísladóttir og hún var að skrifa bók.

Flestir sem þekkja til bloggheima þekkja til Jónu.  Þeir þekkja þann Einhverfa, Gelgjuna, Unglinginn og Bretann ásamt Litla Rasistanum sem hefur verið skýrð Lafðin í bókinni. 

Bókin fjallar um þann Einhverfa og fjölskylduna hans séð frá sjónarhóli mömmunnar.

Bókin er eins og bloggið hennar Jónu um sama efni.  Hún fær mann til að hlægja og gráta, stundum samtímis.

Ég vissi lítið um einhverfu áður en ég fór að lesa bloggið um þann Einhverfa.

Ég hafði lesið mér til en það er eins og með svo margt í lífinu það er erfitt að máta það inn í eigin reynsluheim þangað til að það er sett í persónulegt samhengi.

Ég held að þessi bók eigi erindi við alla og það án tillits til hvort þeir þekki til einhverfu eður ei.  Öll þekkjum við til barna með þroskafrávik.  Það er bara mannbætandi að kynna sér þennan heim og í leiðinni gerir það okkur að betra fólki með örlítið meiri skilning og aðeins víðari sjóndeildarhring.

Ég mæli að sjálfsögðu með þessari bók í jólapakkann þið sem enn hafið ekki festið kaup á henni.

Jóna bloggar hér.

Nú fer ég og sef í hausinn á mér.


Var í boði

Ég var að koma úr frábæru boði.

Mamma mín er áttræð í dag.

Anna Björg Jónsdóttir er langflottasta mamman í heiminum og hún er nýlega komin frá Köben hvar hún skemmti sér konunglega með þremur systra minna.

Ég á mína foreldra á lífi og mér finnst ég heppin kona.

Ég er stolt af foreldrum mínum, þau eru flott og eiga bara skilið það besta.

Bara svo það sé á hreinu.

Annars er ég að tjilla hérna heima.

Ætla að horfa á Kiljuna.  Svo sé ég til hvern ég lem í hausinn með bloggfærslu.

Segi svonnnnnnnnnnna.

Þangað til seinna.

Ójá.


Í annað skiptið Arnaldur

 myrká

Ég bloggaði um þá stórsnjöllu hugmynd mína um daginn að lesa sig út úr kreppunni.

Það gengur ágætlega hjá mér þakka ykkur kærlega fyrir.

Í gær gleypti ég Arnald Indriðason í einum ljúfum bita.

Ég er ekki ein af þeim sem upptendrast yfir krimmum, en ég skrifa upp á að þeir eru fín dægrastytting og þar kemur Arnaldur sterkur inn.

Ég hef gert mig seka um skammarlegan glæp (úje) en þetta er önnur bókin eftir Arnald sem ég les. (Skömm að þessu, þetta er eins og að hafa fyrst farið í bíó á miðjum aldri eða eitthvað).

Hin var Harðskafi - mér fannst hún fín, hvorki meira né minna.

Myrká hélt mér hins vegar fanginni.  Hún er svo skrambi trúverðug. 

Mér er sagt af fólki sem veit að Myrká sé besta bók Arnaldar til þessa og ég trúi þeim.

Þessi er fín í pakkann.  Spenna, glæpir og flott plott sem ganga upp klikka ekki á jólunum.

Í bók sko, svo er raunveruleikinn allt önnur Ella sem enginn skyldi sitja uppi með á jólunum.

Lesa svo - ein á dag við kreppu, óáran, vondum stjórnvöldum og öðrum óþverra.

Arnaldur þú ert búinn að skrifa þig inn á mig.

Takk fyrir það.

Sjá nánar.


mbl.is Myrká er efst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt réttarfar ekki fyrir konur og börn

Það stoðar lítt að kæra presta sem hafa misnotað aðstöðu sína gagnvart sóknarbörnum.

Ég segi þetta af því þannig er það því miður langoftast.

Tvær stúlkur stóðu eftir af fleiri og kærðu sóknarprestinn á Selfossi.

Sem tók sér fjandansmálamyndafrí á meðan rannsókn fór fram en hélt samt áfram að gifta og svona þrátt fyrir það.

Honum fannst greinilega ekkert að því.  Enda svo tilfinningaheitur og mikill knúsari og faðmari. 

Hefði betur flaðrað heima hjá sér og haldið höndum undir kirtli í vinnunni.

Ég hef ákveðna afstöðu í svona málum.

Ég trúi þolendunum þangað til annað kemur í ljós.

Enda sjaldgæft að konur og börn séu að dikta upp svona í höfðinu á sér.

Ég hef sagt það áður og ég segi það enn, íslenskt réttarfar er ekki fyrir konur og börn.

Þegar ég les eftirfarandi tvær málsgreinar þá fer hrollur upp eftir bakinu á mér.  Minnir mig á annan guðsmann með lækningamátt sem varð tíðrætt um strauma.

"Honum var m.a. gefið að sök að hafa strokið annarri stúlkunni um bakið utanklæða og látið þau orð falla að honum liði illa og straumarnir streymdu úr líkama hans við það að faðma hana.

Þá var honum einnig gefið að sök að hafa faðmað aðra stúlku og kysst hana nokkrum sinnum á kinnina. Auk þess hafi hann reynt að kyssa hana á munninn og látið þau orð falla að hann væri skotinn í henni og hún væri falleg."

Kynferðisleg misnotkun hefur alltaf verið tengd kirkjum og trúarbrögðum.

Mis mikið reyndar en alltaf eitthvað.

Það er ein af ástæðunum fyrir að mér er meinilla við trúarbrögð.

Þau hafa afskaplega lítið með trú að gera.

Og fyrir mér eru prestar engir umboðsmenn guðs á jörðinni.

Vonandi verður þessum dómi áfrýjað til hæstaréttar.


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki verðbólgan Árni - heldur þú

Það eru sviptingarnar í þjóðfélaginu og verðbólgan sem eru ástæðan fyrir mótmælunum segir Áddni dýró.

Hva, ég vissi það, maðurinn er jafn næmur á púls þjóðarinnar og stórvirk vinnuvél með bilaðar bremsur.

Árni, ég skal klippa þetta út í pappa fyrir þig og félaga þína.

Það er engin ein ástæða fyrir mótmælum og reiði fólks.

Það er allur viðbjóðurinn og spillingin sem  vegna bankahrunsins og annarra atburða í kjölfar þess er nú orðin öllum sýnileg sem á annað borð vilja hafa augun opin.

Dæmi:  Þú gefur ekkert upp um þitt persónulega hlutabréfabrölt.  Ert með þá sjúku skoðun að það sé einkamál þitt og komi engum við.  Halló - vakna, þú ert fokkings fjármálaráðherra.

Og annað dæmi þar sem þú hefur líka slegið í gegn hjá þjóðinni.

Ráðning Þorsteins Davíðssonar sem liggur nú til skoðunar hjá Umboðsmanni Alþingis og er búið að gera í óratíma.  Hvar er það statt það bölvað siðleysismál?

Er kannski búið að binda hendur umboðsmannsins?

Fólk mótmælir vegna siðspillingar, leynimakks, kunningjatengsla og ég gæti endalaust talið.

Fólk er reitt vegna þess að stjórnmálamenn senda okkur fingurinn, þrátt fyrir mótmæli, borgarafundið, lélegar niðurstöður úr skoðanakönnunum hvað eftir annað þar sem fram kemur að fólk er algjörlega búið að fá nóg.  Vill breytingar.

Þið sitjið og nánast enginn vill það - jú nema þið og örfárir gæðingar.

Stilla mótmælum í hóf segir þú! Hvað þýðir það?  Á fólk að mótmæla tvisvar á ári?

Andskotans rugl.


mbl.is Þarf að stilla mótmælum í hóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og mér sé ekki sama?

Jú, alveg kúl á tauginni.

Haggast ekki.

Dettur ekki í hug að fagna þessum fréttum neitt sérstaklega.

Ónei.


mbl.is VG stærsti flokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðferðuð til háheilagrar edrúmennsku

"Mér hlýtur að vera í nöp við sjálfa mig" sagði ég stundarhátt við undirritaða þegar ég sat vafin innan í teppi og peysur úti í fimbulkuldanum og reykti rétt áðan.

Sígó er mín eina fíkn sem eftir stendur í þeirri andans hreingerningu sem ég hef gert á sjálfri mér undanfarin ár (tugi).

Eftir að hafa meðferðað sjálfa mig til háheilagrar edrúmennsku (að svo miklu leyti sem hægt er að tala um háheilögheit í sambandi við mína aumu persónu) á ég þennan eina löst eftir og mér þykir vænt um helvítið á honum.

En eftir að sígófíknin var gerð brottræk úr veislusölunum á kærleiks og send með skömm út í skýli hefur gamanið farið að kárna illilega.

Ég hef ekki heilsu í þetta.  Ég þoli illa kulda. 

Það er ekki til sú úlpa, þeir vettlingar, treflar, teppi eða föðurland sem getur klætt af mér þennan napra andskota sem smýgur inn í merg og í bein.

Ég sagði við minn löggilta elskhuga í gærkvöldi að mér væri orðið alltaf kalt.

Hann sagði spekingslega: "Það er kalt úti, kalt inni, kalt í sálu, kalt í sinni (maðurinn er gangandi rímnamaskína) og það er kreppan sem leggst svona í veðurfarið.

Ég: Ekki drepa mig úr jákvæðni.

Hann: Ó ég gleymdi að taka fram að við eigum hvort annað og lauk í ísskápnum.  Þessari ástarjátningu fylgdi illyrmislegt glott.

Ég sagði honum auðvitað að ég elskaði hann líka og svo sparkaði ég í sköflunginn á honum til að undirstrika mínar ólgandi tilfinningar.

En þetta er ekki alslæmt.  Það fæst nikótínúði í apótekinu og ég er alvarlega að íhuga notkun á viðkomandi.  Það er einfaldlega of kalt fyrir fíkn sem iðkuð er undir beru.

Ef ég hætti að reykja þá á ég ekkert eftir, enga bresti, allir gallar heyra sögunni til og mynd mín mun lenda á koparristum og íkonum í nálægri framtíð.

Hvað get ég sagt?

Ég er alls ekkert fyrir að ýkja. 

Þetta er fíflafærsla í boði komandi hátíðar.

Gleðilegan jólamánuð krúttin mín.

 


Vöruskipti; Er það málið?

Kannski er hægt að lifa án peninga. 

Ég hef t.d. lesið um manninn með milljóndollaraseðilinn, hann gat það.

Forstjórar stórs og forríks fyrirtækis sem ég vann fyrir, fyrir margt löngu höfðu lægri laun en skúran en höfðu tvo bíla hvor og allir reikningar voru borgaðir af firmanu.  Lyftu ekki upp buddu þeir tveir.

Samt held ég að það sé ekki þetta sem átt er við hérna í fréttinni.

En ég er með HU-mynd (Jenný Una notar þetta mikið).

Hafið þið heyrt um fólkið sem lifir á ljósinu?

Nehei, voðalega vitið þið lítið.

Ég veit um fólk í Austurríki sem borðar aldrei og drekkur aldrei.

Þekki mann sem reyndi að taka þátt en hann var ekki nógu heilagur (enda skíthæll) og nærri dó.

Kannski er þetta eitthvað sem ég ætti að snúa mér að.

Lifa á orku sólarinnar eða tunglsins, það er í alvörunni fólk sem sveltir sig á bæði mat og drykk eins og að drekka vatn (flott orðað hjá mér úje).

(Ég skrifaði eftirfarandi hér á bloggið um daginn sem sýnir enn frekar hvað ég er misheppnuð með samlíkingar.  "Þeir sitja meðan stætt er".  Ég veit það, þarf að leita mér lækninga).

En...

Að alvöru máls.  Ég efast um að hægt væri að fara í vöruskipti á Íslandi og við þá hætt að nota handónýta krónuna.

Við erum svo góðu vön.

Maður þarf t.d. að redda eftirfarandi fyrir sunnudagssteikina.

Lambalæri, kartöflum, rósakáli, efni í sósu og salati.

Hverju gæti maður skipt út fyrir það?

Eyrnapinnum kannski?  Húsgagnaolíu (á tvær flöskur) eða Champellssúpum sem ég hef viðað að mér eins og ég sé á leið í meiriháttar einangrun?

Veit ekkert um svona.  En ég er þó svo gömul að ég man alveg þegar eggin voru skömmtuð fyrir jólin.  Það situr enn í mér.  Egg eru mér heilög vara.

Súmí.


mbl.is Er hægt að lifa án peninga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband