Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Krullukrúttið dóttir mín

helgalitla

Litla krullukrúttið í upphlutnum er fyrsta barnið mitt og hún heitir Helga Björk.

Í dag á hún afmæli og er 38 ára.

Nei, það gerir mig ekki gamla, ég var ung móðir og hana nú.

Við höfum þraukað í gegnum súrt og sætt ég og þessi stelpa og í dag tel ég hana til einna af minna bestu vinkonum.

Hún er frábær þessi unga kona og það þrátt fyrir að vera lögfræðingur (djók).

Helga Björk er líka mikil félagsvera sem sést best á því að ég fann varla mynd af henni sem ekki var tekin í hópi fólks.

helga

Sjáumst í kvöld Helga mín og njóttu dagsins þíns út í ystu.


Af hverju bloggið þið?

 angry_woman

Ég var að gutlast fyrir framan sjónvarpið og sá með eigin augum þegar þingmenn réttu upp hönd í atkvæðagreiðslu.  Helvíti mikill stíll yfir því.

Ókei, ég sá það ekki beint en ég sá þegar Kiddi Sleggja sagði þingheimi að rétta upp hönd.

Vó, svo merkilegt.  Þetta geta þeir krakkarnir á þinginu.

En svo ég haldi áfram með eitthvað sem skiptir litlu máli.

Af hverju bloggið þið?

Ég meina hvað fær mann til að fara hamförum á blogginu?  Nú eða vera þar í rólegheitum?

Ég var spurð að þessu í gær og ég varð alveg hugsi (hugsið ykkur).  Flett, flett, fell í heila.

Af hverju blogga ég?

Jú, ég blogga af því ég hef gaman af því.

Líka af því að mér finnst fínt að setja niður á "blað" það sem mér dettur í hug og bloggið er jú dagbók sem er öllum opin.  Vá ekki mjög prívat það fyrirkomulag.

Svo blogga ég af því mér finnst gaman að áreita fólk þegar þannig liggur á mér.

Stundum blogga ég af gömlum vana.

Ég blogga um það að vera alki fínt að hafa það á veraldarvefnum mun vekja skelfileg fagnaðarlæti að hafa það í Cívíinu.

Ég blogga til að gleyma.

Ég blogga til að muna.

Ég blogga af því ég hef andskotinn hafi það ekkert betra að gera en fyrst og fremst blogga ég til að fá útrás.

Af hverju bloggið þið?

Koma svo segja Nennu sín.

Falalalalala.


mbl.is Rétt upp hönd á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitleysingar hvað?

Um leið og unga fólkið efndi til mótmæla í gær inni í Alþingishúsinu geystust hneykslaðir bloggarar fram á ritvöllinn.  Hyski, ræflar, aumingjar sem eyðileggja fyrir friðsömum mótmælendum, skrifuðu þeir og voru nánast lamaðir af lyklaborðsæsingi.

Ég er þessu ekki sammála.  Bara alls ekki.

Ég sé ekkert að því að fólk láti heyra í sér og hækki röddina ofurlítið.  Hrópi "drullið ykkur út" þó það sé ekki mjög kurteislega orðuð beiðni af palli þinghússins.  Það eru óvenjulegir tímar og það kallar á óvenjulegar aðgerðir.

Staksteinar kallar fólkið vitleysinga.

Nú í morgun mætti sama fólk fyrir utan Ráðherrabústaðinn.

Fyrir mér eru þetta eðlileg viðbrögð við óeðlilegu ástandi.

Mér skilst að þessi hópur mótmælenda séu að stórum hluta til ungar manneskjur.

Hefur hvarflað að einhverjum að velta fyrir sér þeirri framtíð sem blasir við ungu fólki á Íslandi í dag?

Er einhver hissa þó kveikjuþráðurinn sé farinn að styttast þegar hver vikan líður án þess að nokkuð áþreifanlegt sé að gerast í málum almennings.

Stjórnvöld virðast ekki vera að gera neitt nema halda í horfinu, lafa á valdataumunum og á meðan bíður þjóðin óróleg yfir örlögum sínum.

Ef einhverjir vitleysingar eru í þessari jöfnu þá eru það þeir sem komu okkur hingað.

Þeir sem sváfu á verðinum og hanga nú eins og hundur á roði á valdapóstunum þrátt fyrir að vera rúnir trausti.

Skammist í þeim.

Ekki í fólki sem lætur heyra í sér.

Á meðan aðeins er verið að skerpa á hlustum hinna eðlu alþingismanna þá getur það tæpast kallast ofbeldi.

Þeir eru varla svona andskoti viðkvæmir í hlustunum nema ef vera skyldi að langvinn dvölin í vatteruðum og hljóðeinagrandi fílabeinsturninum hafi gert þeim erfitt um vik að beita viðkomandi skynfærum fyrir sig.

BRILLJANT MYNDBAND


mbl.is Átök við Ráðherrabústaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvurs lags karlmenn?

ást 

Ég með mína fjölmörgu eiginmenn, elskhuga, kærasta og einnarnæturmenn (róleg) á ekki eitt einasta ástarbréf.

Hvurs lags karlmenn hef ég lagt lag mitt við?

Allt óskrifandi skítapakk? 

Ó, nú man ég, þeir hafa alltaf verið eins og skugginn minn og því aldrei komið til bréfaskrifta.

Án gamans þá á ég ekki ástarbréf.  Hef ekki fengið mörg heldur það kemur kannski til af því að mér finnst bréfarómantík væmin alveg eins og blóma- og skartgriparómantíkin og því ekki laðað að mér skiflæga elskhuga.

Hmm...

En ég hef blendnar tilfinningar gagnvart Edith Piaf, sem var alin upp í hóruhúsi þessi dúlla.

Hún var frábær listamaður og á aldrei eftir að gleymast.

En hún var glataður mannþekkjari og lenti á alls kyns ógeðismönnum sem fóru illa með hana.

Og hvað hún söng fallega konan!  Litli spörfuglinn. 

En talandi um blendnar tilfinningar til þessarar frábæru konu þá fæ ég alltaf sting í hjartað þegar hún syngur.

Ég man eftir lögunum hennar á gömlu gufunni þegar ég var barn og ég varð alltaf svo hrygg.  Hún var svo leið í röddinni og lögin svo mædd.

En ég er smá svekkt yfir að eiga ekki ástarbréf.  Það væri gaman að geta gefið þau út á bók svona þegar hægist um og aldursrökkrið færist yfir.

Kannski hefði verið gerð um þau bíómynd því ég er að segja ykkur að ég hef kynnst litríkum karakterum í gegnum tíðina.

Verst hvað þeir voru lítið fyrir að setja tilfinningar sínar niður á blað.

Kannski eins gott?

Hvað veit ég?

Er á leiðinni á Borgarafund í Háskólabíó kl. átta hvar ég reikna með að hitta ykkur öll, hvert einasta eitt.

Adjö så länge.

 


mbl.is Ástarbréf frá Edith Piaf á uppboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úldið Ísland?

bundinn

Þegar trukkabílstjórarnir mótmæltu í vor fannst mér það flott hjá þeim. 

Ekki að því að hjartað í mér slægi neitt sérstaklega með málstaðnum, er enginn bensíngleypir sjálf, en ég fann til samkenndar með þeim og mér fannst svo dásamleg tilbreyting að sjá fólk rísa upp á afturlappirnar og gera eitthvað í stað þess að tuða yfir kaffibollanum nú eða bjórnum, sama hvort.

Nú mótmæla þeir aftur strákarnir og mér sýnist full ástæða til þess.

En hvað um það, ég ætla að vona að héðan í frá þá standi fólk í lappirnar og hafi hátt þegar á því er brotið.

Nóg eru tækifærin á þessari eyju sem er svona í þann mund að gera Sikiley að lufsulegri fjölskylduparadís þar sem ekkert misjafn fer fram svona miðað við Ísland eftir bankahrun.

Ég ætla á Borgarafundinn í kvöld og þann næsta og þann næsta.

Við getum verið í jólaskapi, bakað og skreytt OG gefið okkur tíma til að skreppa út í Háskólabíó og taka þátt í að sýna að okkur sé nóg boðið.  Að við séum ekki búin að gefast upp.

Ekki sofna í miðri byltingu krakkar, ekki láta haarderinguna virka á úthaldið.

Við erum rétt að byrja.

Enn er ekkert fararsnið á stjórnvöldum, þau hafa reyrt stjórntaumana utan um sig, bundið á þá rembihnúta og ætla ekki að sleppa.

(Stórhættulegt að vefja sig í stjórnartauma - gæti haft slys í för með sér).

Spurningin er, hver hefur meiri langlundargeð og þrjósku til að bera, við eða ríkisstjórnin?

Ég veðja á okkur.

Ef við stöndum ekki upp fyrir sjálfum okkur þá gerir það ekki nokkur annar.

Hið gamla Ísland er úldið og það á hvergi heima nema í tunnunni.

Eða hvað?

 


mbl.is Mótmæla innheimtuaðferðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki svo mikið jólablogg

 jólaljósin

Ég sat og gapti yfir sjónvarpsfréttunum í gær þar sem sagði frá kostnaðarliðum forsetaembættisins.

Samt er alveg ferlega erfitt að ganga fram af mér eftir bankahrunið.  Þar hefur eyðsla og rugl náð hæðum sem erfitt er að toppa.

En ég var sum sé nánast orðlaus yfir kostnaðarliðunum.

Nema innlendum ferðalögum.  Þar var ekki bruðlað.  Hefði kannski mátt vera meiri sá liður, ég veit það ekki.

Það var símakostnaðurinn, launin, ferða- og hótlekosnaðurinn sem gaf mér illilega utan undir.

Ég veit ekkert hvernig forsetaembættið hefur eytt peningum svona yfirleitt, né heldur veit ég hvort ÓRG er meiri eyðsluseggur en forverar hans en það má segja Ólafi til varnar að hann hefur unnið eins og mófó fyrir hönd Íslands.

Nú má hins vegar alveg deila um hvort áherslurnar hjá karlinum hafi verið réttar þegar horft er til baka.

Ég er á því að hann hafi verið á langdregnum sjálfshátíðum með útrásarvíkingunum.

Nú hefur forsetaembættið mótmælt þessari frétt og segir að hún sé beinlínis röng eða villandi.

Hvað um það.  Ef eitthvað að þessu reynist rétt.  Að kostnaður við embættið sé svona hár þá vil ég að við förum að hugsa um að leggja niður þennan póst.

Við getum ráðið PR-mann til verksins.

Við erum fátæk þjóð og höfum ekki efni á svona flottræfilshætti.

En að mér og jólunum.

Í dag stendur hin árlega jólamartröð fyrir dyrum.

Ég ætla að greiða úr þessum tuttuguogeitthvað seríuum sem ég á.

Á hverju ári þegar ég tek niður seríurnar, algjörlega með upp í kok af jóleríi, læt ég mér ekki segjast og geng frá þeim eins og viti borin kona.

Ég nuðla þeim saman í eina bendu og hendi ofan í kassa.

Og á hverri aðventu líð ég fyrir skammsýnina.

Dem, dem, dem.

Farin að rekja.

Falalalala

Og til að bjarga deginum þá er hér eitt gamalt og gott jólalag með Abba Agnetu.

 

 


mbl.is Forsetaembættið mótmælir frétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólablogg hið þriðja

 

Og vér reynum að vinna upp tapaðar jólafærslur.  Ætla ekki að kreppublogga fyrr en í fyrramálið þannig að þið sem eruð í kreppuafneitun haldið ykkur úti því strax eftir Silfur Egils þá geysist ég fram á kreppuvöllinn  reddí tú kill.

jólaskór

En...

það er þetta með jólagjafir.  Allt í góðu með þær sko, finnst gaman að gefa þær og svona og reglulega gaman að fá þær líka. 

Ég held samt að ég sé óforbetranlegt kontrólfrík.

Mér er illa við að láta koma mér á óvart.

Eins og í fyrra þegar stelpurnar mínar gáfu mér ferð til London í janúar.

Ég varð svona hálf móðguð. Gefa mér Londonferð án þess að bera það upp við mig fyrst!  Frekjan!! Ég tók fimm í að jafna mig og knúsaði þær svo í klessu og var rosalega glöð með gjöfina.

Ég er ein af þeim sem vill ekki fyrirsjáanlegar gjafir frá eignmanni (hver þeirra sem í hlut á sko).

Ég vil ekki sjá skartgripagjafir eða eitthvað svona "rómantískt kjaftæði" af því mér finnst ekkert rómó við að minn heittelskaði hlaupi Laugaveginn á Þorláksmessu og kaupi einhvern karatsfjölda handa mér.  Gerir ekkert fyrir mig.  Ég þigg hins vegar með þökkum bók eða flík sem ég vel sjálf.

Ég vil heldur ekki blóm á konudögum og mæðradögum.

Lít ég út fyrir að vera sérstakur styrktaraðili blómabúða?  Ég hélt ekki.

En ég elska litlu hlutina, þegar eitthvað fallegt er sagt við mig svona óforvarandis, ferð á kaffihús upp úr þurru, hlýlegt augntillit og þessir sætu hlutir sem sagðir eru yfir kakóbolla í skammdeginu.

Það er rómans börnin góð.

jólakjólar

Kostar ekkert.

Húsband er verri en ég.  Hann er með standard svar til barnanna okkar þegar þau spyrja hann hvað hann vilji í jólagjöf.  Hann segir:  Hlýlegt handtak og koss á kinn.

(Og þau verða undantekningalaust pirruð og segja; ohhhh það er engin gjöf!!).

Ég er búin að sjá það að með þetta gjafa CV er ég draumur hvers manns.

En það er af því að þeir vita ekki hversu helvíti örlát ég er á sjálfa mig þegar ég slepp í fata- og skóbúðir ein og óstudd.

Falalalalala


Jólablogg II (ekki jólaglögg)

 santa-12

Það er búið að vera brjálað að gera á kærleiks í dag.

Við nöfnurnar rukum í smákökubaksturinn og þar gekk á ýmsu.

Fyrst voru það súkkulaðibitakökur sem átti að baka.

Jenný Una setti upp svuntuna og amman líka og vígalegar tókum við til við að mæla og hræra.

Eitthvað fór uppskriftin illa því í ofninum runnu kökurnar saman í eitt jukk og fengu á sig undarlega lögun.

Sko, amman gleymdi hveitinu.  Einum 500 grömmum eða svo.

Jenný Una sagði: Amma ertekki að lesa uppskrittina?  (Ég bölvaði í hljóði).

Við skutluðum okkur í kókosdraumana og Jenný Unu fannst deigið helst til of gott.

Amman: Þú færð í magann barn ef þú borðar deigið svona.

Jenný Una: Nei, ég er baddn ég fæ ALDREI í magann minn.

Svo fór hún og vakti húsband með því að hoppa ofan á honum og segja: Afi, klukkan er ellefu, amma segirða og þú átt að koma og drekka kaffi.

Svo fóru þau að leika sér og dauðþreytt amman tók til við uppskrift númer eitt, að þessu sinni með hveitinu.  Ég hélt að ég ætlaði aldrei að verða búin að setja á plötur, þetta er uppskrift fyrir mötuneyti í álverksmiðju.  Svei mér þá.

Ég kallaði á barn til að hjálpa mér við að móta kökurnar enda þetta allt gert til heiðurs henni.

Barn: Ég nenni ekkert að baka meir, éra leika mér við afa minn.

Amman: Jenný Una þú ætlaðir að baka kökurnar með ömmu og gefa svo mömmu og pabba.

Barn: Þú getir alleg gerta sjálf ég má ekkert vera aððí.  Svo hélt hún áfram í ballettleik.

Amman stóð því sveitt við bakstur fram eftir degi og bakarameistarinn sjálfur fyllti krukkur fyrir foreldrana og tók með sér heim hvar hún montaði sig vel og lengi yfir unnu dagsverki.

Annars var ég að velta því fyrir mér hversu eftirsóknarverður heiðarleiki barna er og þá einkum með tilliti til þess að hér virðast ráðamenn aldrei geta sagt það sem þeir meina umbúðalaust heldur pakka þeir kjaftæðinu í sér inn í jólapappír, yfirskreyta með slaufum og borðum og það er ekkert, alls ekkert inni í friggings jólapakkanum þegar manni tekst að opna hann eftir mikið erfiði.

Þeir mættu taka Jenný Unu Eriksdóttur og aðrar smámanneskjur sér til fyrirmyndar.

Segja bara nákvæmlega það sem þeir meina.

Falalalalalala


Jólablogg

 abb

Nú er ég í öflugu jólastuði.

Í gær náðum við í Jennýju á leikskólann og hún kom til að gista.

Við erum búin að gera margt skemmtilegt hér á kærleiks og vorum farin að sofa snemma örþreytt enda við gömul og barnið ungt og uppátækjasamt.

Jenný og húsband héldu jólapikknikk á stofugólfinu, límdu upp allskonar á veggina sem Jennýju fannst passa við jólin og svo var dansað smá, farið í þrautakóng, lesnar sögur, sungið um Eiríksjökul og ég veit ekki hvað og hvað.

En núna er stúlkan aðeins að kíkja á "baddnaeddni" í "sjónvartinu" og svo ætlar hún að baka.

Amman má aðstoða.

Við ætlum sem sagt að smákakast.

Oliver er farinn aftur heim til London með foreldrum sínum.  Stutt stopp en þau koma aftur um jólin.

Farin að taka til í bakstur.

Dragið fram barnið í ykkur.

Góð ráð í kreppunni.

En gleymið engu.

Úje


Í langvarandi friggings blakkáti

 lýðræðið

Þegar ég var í rauðvíninu og svefnpillunum (ásamt róandi ofkors) var ég í langvarandi stöðugu blakkáti.

Þetta tók á sig öflugar birtingarmyndir.

Þegar af mér rann hafði fólk skilið, fyrirtæki farið á hausinn, loftslag jarðar tekið verulegum breytingum og alls kyns hlutir gerst í pólitík sem eiga eftir að verða skráðir á spjöld sögunnar.

Ég alveg: Vááá, er hægt að borga með svona plastmiða í búðum?  Æi þið vitið hvað ég meina, tilfinningin var alveg þannig sko.  Þyrnirósa vöknuð í áfalli yfir breyttum tímum.

Allt var nýtt fyrir mér sem hafði verið meira og minna vímuð í þetta 2-3 ár með einhverjum hvíldum og við þessu gengst ég fúslega, enda með minnisbetra fólki í dag og bláedrú á eigin safa.

En ráðamenn muna ekkert.  Þeir eru í stöðugu óminni og mér finnst ég alveg vera að kallast á við alkann í mér þegar ég les fréttir þessa dagana.

Ég man ekki eftir þessu símtali, segir Geir.

Ég man ekki eftir neinum fundi á þessum tíma, segir ISG.

Hinir alveg: Ha, sagði hann það?  Hvenær?

Allir alveg komandi af fjöllum eins og jólasveinar.

Sko, ég var í óminni af kemískum ástæðum.  Heilinn á mér var í stöðugri maríneringu og eftirtektin og minnið voru eftir því.

Nú veit ég að ráðamenn eru bláedrú og ekki að nota lyf í óhófi enda ekki reikandi um með vímusvip sem þekkist í fleiri kílómetra fjarlægð. 

Trúið mér, vanir menn vönduð vinna hérna.  Er sérfræðingur í greininni.

Hvaða andskotans afsökun hefur þetta fólk fyrir sínu stöðuga blakkáti?

Mér er bara fjandans spurn.

Hikk.

P.s. Tók þessa mynd af einhverjum bloggvini.  Vona að mér verði fyrirgefið en þarna hefur einhver hitt naglan gjörsamlega á höfuðið.


mbl.is Man ekki eftir símtali við Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2988435

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband