Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

EKKI MATSEÐILL

006

Ég skammast mín fyrir að vera matvönd.  Ég er líka klígjugjörn með afbrigðum.  Hef það úr föðurættinni.  Ég er fædd upp úr miðri síðustu öld.  Það var ekki mikið um mat þá sem gladdi bragðlaukana. Steiktur fiskur, kjötbollur, smásteik, læri og hryggur og lágmarks grænmeti.  Rjúpur á jólum og þar með er fíneríið upp talið.  Mér tókst að vera matvönd þá en hef síðan náð að tileinka mér allskonar nýjungar.  Samt er bannlistinn enn í fullu gildi.  Sumt get ég ekki borðað.

  Ólívur eru efstar á no-no listanum.  Ólivur voru í tísku hérna á bernskuárum hinnar einu og sönnu kaffihúsamenningar.  Enginn var maður með mönnum nema hann úðaði í sig ólívum. Ég á meira að segja tvær vinkonur sem neyddu í sig ólívunum af því þeim fannst það svo menningarlegt og bera vott um þróað bragðskyn.  Ég hef reynt og reynt að koma mér upp ólívusmekk en án árangurs. Ég játa mig sigraða í ólívumálinu alræmda.

Saltfiskur í öllum stærðum, gerðum og eldunaraðferðum.  Ég tel saltfisk eiga að vera dýrafóður, er ábyggilega hollur og góður en bragðverri en sá ljóti sjálfur.  Það skiptir engu máli hvort hann er klæddur í Prada eða Channel, uppruninn leynir sé ekki.Sick. Mínir bragðlaukar fara í víðtækt fár ef ég læt viðkomandi fisk inn fyrir varir mínar.

Pasta er ekki matur að mínum dómi.  Margir jafnaldrar mínir eru mér sammála.  Mér finnst ég vera að borða soðið hveiti sem er ekki einu sinni vel dulbúið.  Pasta var ekki á borðum þegar ég var krakki en það var heldur ekki nær allur sá matur sem ég borða í dag.  Hef aldrei komist upp á lag með pasta en verð þó að játa að ég hef fengið góða pastarétti hjá dætrum mínum og vinkonum.  Held áfram að forðast það og læt pastasnillingana um eldamennskuna.

Avokadó minnir mig á smjör sem farið er að þrána.  Merkilegt með bragðskynið þegar það sendir manni svona undarleg skilaboð.  Eins og þetta er girnilegur ávöxtur.  Margreynt við hann en án árangurs.

Ég gæti talið lengi enn.  Hugleiðing þessi kom til vegna uppskrifta sem ég var að lesa í morgunn og þar voru ólívur eins og krækiber í helvíti og eyðilögðu fyrir mér hvern möguleikann á öðruvísi páskamat á eftir öðrum.

Um páskana ætla ég að hafa td.:

Andabringur, innanlærislambavöðva, kalkúnaskip og sænskar kjötbollur (hehe var í IKEA og keypti þær handa henni Jenny sem gistir hjá okkur í nótt).  Í matnum verða engar ólívur, ekker advokadó og NADA pasta.

Bon apitit

 


GLÆSILEGASTA MANNFLAK Í HEIMI.....

077

tók föður sinn í nefið.  Vinurinn kemur ekki á óvart fremur en fyrri daginn, gengur alltaf of langt.  Hann blandaði ösku föður síns saman við kókaín og sniffaði hvorutveggja í nösina.  KrúttiðW00t   Hann sagði að stöffið hafi verið nokkuð gott og hann væri enn á lífi.  Sko þetta glæsilegasta mannflak í heimi heldur það.  Þannig er mál með vexti að Stones eru yfirleitt kynntir sem The Rolling Stones ásamt Keith Richards (af því að Keith veit ekki að hann er dauðurCool).

Annars er Keith einn af skrautlegri karakterum í rokkinu og ekki hægt annað en að brosa að allri vitleysunni í honum, botnlausri kvennfyrirlitningunni, gengdarlausri sjálfseyðingarhvöt og algjörum skort á háttvísi.  Hann er bad boy.  Keith er annars frábær tónlistarmaður, gítaristi og lagasmiður og þess vegna fyrirgefst honum margt.  Þið verið að athuga að hann var orðinn miljónamæringur mjög ungur og ól sig upp sjálfur.  Svo má ekki gleyma því að maðurinn er gamalmenni en hefur bara ekki fattað það ennþá.  Þannig er örugglega hægt að lifa að eilífu.

Úje, úje


mbl.is Tók föður sinn í nefið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AÐ VANTA BÆÐI SMÁTT OG STÓRT

687

Ansi mikið stress í dag, svona fyrripartinn.  Úff ég fór í IKEA með Sörunni. Hef ekki farið áður í nýju búðina.  Margir hafa sagt mér að það sé hreint ótrúlega stressandi að ganga í gegnum þessa risaverslun, mikið skvaldur og óróleiki í loftinu.  Þetta fólk hefur rétt fyrir sér.  Ég fór þarna inn með það í huga að kaupa eldföst mót (hehe) og gardínustöng. Ég fór í annarlegan ham, hlýtur að vera loftræstingin og lyktin af sænsku kjötbollunum.  Saran fór aðallega til að kaupa sturtuhengi.  Við gengum hvern kílómetran á eftir öðrum um endalausa ganga verslunarinnar og sáum auðvitað fullt af áhugaverðum hlutum.  Það er mjög nytsamlegt að fara í búðir eins og IKEA, ég hafði tam ekki hugmynd um að mig vantaði eftirfarandi: flísteppi, barnalampa, hnífapör, grillpönnu, páskablóm, diskaþurrkur, smáhnífa ofl. ofl., en allt þetta vantaði mig sárlega.  Úpps hvað hefði ég gert ef ég hefði nú ekki slysast til að drífa mig í þennan verslunartúr? Ég má ekki hugsa þá hugsun til enda.

Það má hins vegar liggja á milli hluta að gardínustöngin gleymdist.  Sturtuhengið hennar Söru gleymdist líka.  Það er hið besta mál við drífum okkur aftur á morgun. Ég er viss umm að það er fleira smálegt sem mig vantar, þarf bara að skreppa í IKEA til að komast að því.  Á morgun flýg ég á vit húsgagna- og smávöruverslunarinnar.

 

Ingvar "puss och kram från mig"Heart

 


DAGURINN Í GÆR...

..var dagur aðgerða, innan heimilis sem utan.  Sara yngsta dóttir mín og mamma hennar Jenny er eins og stormsveipur í öllu sem hún gerir.  Hún tók þá ákvörðun í gærmorgunn að nota þennan fyrsta dag í páskafríi til að koma og þrífa heimili móður sinnar fyrir páskana.  Hún mætti vopnuð allskyns græjum sem ég kann engin deili á. Bara til að fyrirbyggja miskilning þá er best að segja frá því hér að heimili mitt er bara svona meðalheimili og ég hef aldrei verið kærð fyrir heibrigðisnefndar.  Nú hér mætti sum sé Sara og hóf að þrífa. Kona hreifst með og hentist í þvottahús og þvoði ca. 20 vélar (eða þannig).  Hvað um það síðan var verlsað í matinn, reikningar borgaðir, tekið til á lóðinni, keypt eitt stykki Kúbuferð og fleira skemmtilegt.  Oliver barnabarnið í London og pabbi hans voru boðnir í mat og steik var sett í ofnin þar sem ég stóð á öðrum fæti á nýbónuðu gólfinu og passaði að ekki færi arða niður. Um kl. 17,00 var kona orðin þreytt (svo gömul) og farin að riða á fótunum.  Svo ég rjúki nú úr einu í annað, hef ég sagt ykkur gott fólk að ég er hroðalega ýkin?  Bara lesa með sollis gleraugum.  Nú svo komu Oliver og Robbi, Sara sem ekki var búin að ljúka þessari stóru framkvæmd á heimili móður sinnar,  náði í Jenny.  Við borðuðum og síðan var haldið áfram með þrif þar til dagur var að kvöldi kominn.

090

Oliver flaug á vit mömmu sinnar í morgun ásamt pabba sínum og ömmu-Brynju sem ætlar að vera hjá þeim í nokkra daga.  Amman er með kökkinn í hálsinum vegna barnabarnsins sem býr langt í burtu.

080

Heimili mitt er núna dæmigert Ajax-heimili og ég læðist um og nota bara einn bolla og ekkert annað. Er að hugsa um að fara á hótel fram að páskum, til að setja ekki mark mitt á fínheitin.

Hm..er að verða að hinum fullkomna smáborgara og er á leiðinni í IKEA að kaupa gardínustöng og ofnföst mót.  Eftir því sem mér er sagt um stærð viðkomandi verslunar, er maður þar eins og krækiber í helvíti.


ÞAÐ ÆTLAR AÐ TAKA TÍMANN SINN

Nú hefur forsætisráðherra skipað nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

Fyrsta verk nefndarinnar verður að kanna starfsemina á Breiðavík og er ekkert nema gott eitt um það að segja.  Það sem mér finnst hins vegar vont mál er að nefndin á að skila könnun sinni um Breiðavíkurbörnin í síðasta lagi þ. 1. janúar 2008.  Það getur varla tekið allan þennan tíma, þrátt fyrir að ég viti að á bak við svona vinnu er mikil yfirlega.  Mér finnst að úrlausn í máli þessara manna sem dvöldu á Breiðavík sem börn verði að hafa forgang fram yfir flest annað.  Það er nóg búið að dynja á þessum mönnum og mér finnst að stjórnvöld eigi að bæta þeim það upp. 

það er merkilegt eftir að málið komst í hámæli hversu margir vissu eitthvað en báru sig aldrei saman.  Ekki í fyrsta skipti sem þagað var yfir vondum hlutum á kostnað valdalausra barna.


mbl.is Nefnd til að kanna starfsemi meðferðarheimila skipuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HÆKKUM BÍLPRÓFSALDUR STRAX!!

Ég varð stórhneyksluð þegar ég sá fyrirsögn þessar fréttar eða "17 kærðir fyrir of hraðan akstur" og gaf mér þá að það hefði verið hér í höfuðstaðnum um nýliðna helgi.  Nei málið er enn skuggalegra. 17 ökumenn voru teknir í litla og krúttlega Rangárþingi s.l. viku! 

Skv. nýlegri könnun eru það aðalega ungir ökumenn sem keyra á ofsahraða og eiga þeir tam sök á mörgum dauðaslysum í umferðinni.  Ég spyr nú bara; eftir hverju er verið að bíða?  Af hverju er ekki bílprófsaldurinn hækkaður um tvö ár?  Það hlýtur að minnka hraðakeyrslu og slys af völdum barna undir stýri töluvert.  Á þessum tveimur árum hlýtur fólk að þroskast töluvert.  Sumir tala um ofsahraða og alvarleg slys svona nánast eins og náttúrulögmál.  Fórnarkostnað.  Þvílíkt endemis rugl.  Það á að breyta þessu og það eins fljótt og hægt er.  Vil taka fram til að fyrirbyggja missklining að það eru að sjálfsögðu ekki bara ungir ökumenn sem eru óábyrgir í umferðinni og margir þessara krakka eru til fyrirmyndar þar sem og annars staðar. Fullorðið fólk er misjafnt undir stýri líka.  En tölurnar tala sínu máli.  Eitthvað þarf að gera.

Síjúgæs


mbl.is 17 kærðir fyrir of hraðan akstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LISTIN AÐ TAPA MEÐ REISN

02 

Samtökin Hagur Hafnarfjarðar segjast hafa rökstuddan grun um að 700 manns hafi flutt lögheimili sitt til Hafnafjarðar til að geta kosið um deiliskipullagið.  Auðvitað var mjótt á mununum í þessum kosningum en það ber að virða niðurstöðuna.  Á þriðjudaginn n.k. eru samtökin með fund þar sem ákveðið verður hvort þeir ætli að kæra meint kosningasvik.  Rosalega finnst mér leiðinlegt þegar fólk getur ekki tekið lýðræðislegri niðurstöðu kosninga.  Ég ætla rétt að vona að ef úrslitinn hefðu verið á hinn veginn hefði Sól í Straumi ekki farið að grenja og vælt um kosningasvik.  Alla vega hefði mér fundist virðingarvert ef Hagur Hafnarfjarðar hefði látið eiga sig að tjá sig um þetta mál þar til að þeir væru búnir að ákveða að kæra.  Lyktar af einhverjum undirróðri sem mér fellur illa.


mbl.is Hagur Hafnarfjarðar segir brögð í tafli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í DAG....

824

Í dag fór ég í göngutúr og það var svo mikið rok að augnabrúnirnar ásamt veiðihárunum (sko lesist: augnhárunum) sem eru stolt mitt og gleði fuku af og nú er ég nakin í framan.  Ég las einhversstaðar að andlitshárin losnuðu með aldrinum og allt yfir meðal andblæ væri hættulegt konum á mínum aldri.  Ég hlusta aldrei og þess vegna sit ég hér ljótari en erfðasyndin.  Ég fékk símtal frá Tokyo í dag frá Irahisa Nobu útgefanda.  Hann vill gefa bókina mína út á Japönsku.  Ég hef ekki viljað gefa hana út hérna heima af persónulegum ástæðum en útgáfa í Japan kemur vel til greina. Nobu-san bauð mér ríflega fyrirframgreiðslu og ég er að hugsa um að slá til.  Verð að láta tattúera á mig augabrúnir og kaupa mér gerviaugnahár áður en ég geri eitthvað í málinu.  Ég fór svo í kirkju eins og vanalega á sunnudögum og þar hitti ég konu sem ég er með í saumaklúbb (sorry hér svelgdist mér á af einhverjum orsökum). Hún bað mig að baka fyrir sig 16 Hnallþórur fyrir einhverjar fermingarveislur og ég gladdist mjög yfir vinsældum mínum í kökuheiminum.  Sagði að sjáfsögðu já takk og kom við í Bónus á leiðinni heim og keypti hráefni.

Hvísl, hvísl: Nanananana 1.apríl.

Það er erfitt að ljúga á sannfærandi hátt.  Er samt "pró" að sumu leyti.  Hef ekki verið látin hlaupa í dag þannig að ég skrifaði þetta fyrir sjálfa mig, þar sem mér var farið að líða eins og ég væri einskis virði og er strax farið að líða betur.


AF APRÍLHLAUPI OG KARLEMBUSVÍNUM

20

Það sem af er deginum hef ég ekki hlaupið apríl og engar tilraunir hafa verið gerðar til að fá mig af stað enn.  Meira húmorsleysið í mínu fólki.  Ég hef þó fallið fyrir hrekkjum oftar en ég kæri mig um að muna.  Í fyrra beið ég hálftíma (eða lengur!!) fyrir utan húsið eftir að húsbandið næði í mig, en hann hringdi og sagðist vera að koma, við værum boðin í mat til vinafólks okkar.  Hann veit að ég þoli ekki svona spontan uppákomur, verð að hafa góðan tíma til að taka mig til og svona, hann gaf mér ekki færi á að svara sagðist vera kominn eftir fimm mínútur.  Ég henti mér í föt, málaði mig á innsoginu og þeyttist út og beið... og beið... og beið... Þennan dag tapaði ég húmornum og er rétt búin að fá hann aftur.  Þegar ég var í Hagaskóla um árið, efndum við unglingar um allan bæ til mótmælagöngu vegna skorts á húsnæði fyrir okkur að hittast í.  Klæddum okkur eins og vanvitar, skrópuðum í skólanum og hrópuðum gífuryrði að gangandi fólki sem varð á vegi okkar.  Þetta var gaman og við fundum heilmikið til okkar.  Að eigin mati vorum við verulega töff.

KARLREMBUSVÍNIN

780

Ég skrifaði hér að neðan um að það hafi verið slys að gera vændiskaup refsilaus.  Þe lögleiðingin á vændi.  Það er prinsippatriði að þeir sem misnota sér neyð annara fái bágt fyrir.  Ég hef rætt þetta töluvert við vini og fjölskyldu og nær allir eru sammála mér, nema nokkrir feministahatarar í 15. liðBlush og svo ókunnugir karlar sem ég hef af hendingu lent í samræðum við.  Undir pislinum mínum um þetta efni stendur líka eftirfarandi athugasemd frá Sigurði Karli Lúðvíkssyni:

"NEI ÞAU EIGA EKKI AÐ VERA REFSIVERÐ (þe. vændiskaupin)!!! Hættið að spýja þessu hatri og fasisma út. Þessi viðhorf eru eimitt þau sem gera vændi hættulegt.  Það er hlægilegt að vita til þess að svona margir halda, að bann slái á framboð og eftirspurn, það gerir það ekki, hefur aldrei gert og mun aldrei gera það.  Sýnið mellunum amk þá virðingu að neita þeim ekki um mannvirðingu á við ykkar, að stunda sitt fag ef ekkert annað býðst.  'Eg fullyrði án þess svo mikið sem að blikka augunum að 95% vændiskvenna sem hafa dáið í starfi séu vegna þessa skilningslausu viðhorfa á borð við þau sem eru tíunduð hér.  Hugið að samvisku ykkar, hún er svert af fasisma.

Þarna talar hinn týpiski andfeministiski karlmaður, leyfi ég mér að fullyrða, þrátt fyrir að ég hafi ekki hugmynd um hvort þessi maður skilgreini sig þannig.  Mér finnst þetta bara lýsandi dæmi um botnlausa kvenfyrirlitningu.  Þarna eru einhverjar tilfinningar sem fara í gang,  ofsafengnar mjög og svona fólk hræðir mig.  Það er hrópað um fasisma, samvisku, mellur og fag.  Við sem erum á móti lögleiðingu vændis eigum í 95% tilfella sök á dauða vændiskvenna vegna viðhorfa okkar (er ekki í lagi heima hjá fólki?).  Það má vera að þetta sé kjánahjal en ég óttast þessi viðhorf og þessa heift.

Ég er nú á því að svona menn eigi að senda í sveit.  Hugmyndafræðilega sveit þar sem hægt er að kenna mönnum staðreyndir um þessi mál.  Hm.. kona getur látið sig dreyma......


FIMM DAGA FRÍ, HM

28

Það er að bresta á með páskum.  Þrátt fyrir að ég hlakki oftast til þá get ég ekki neitað því að þeir eru lengi að líða.  Það situr enn í mér þessi yfirþyrmandi helgislepja sem einkenndi hátíðina þegar ég var barn.  Allt var lokað frá skírdegi og fram á þriðjudag eftir páska.  Bókstaflega allt.  Föstudagurinn langi var svo langur og það var ekkert við að vera.  Krakkarnir voru ekki einu sinni á róluvellinum.  Í útvarpinu voru sálmar og sorgarljóð og háheilagar hugvekjur allan daginn.  Ég ætlaði einu sinni að bursta mottur fyrir ömmu mína og ég hélt að hún myndi detta niður dauð þegar motturnar blöktu á snúrunni og ég mundaði bankarann.  Bannað sagði hún, á Föstudaginn langa syrgjum við og gerum bara það allra nauðsynlegasta.

Þetta hefur skánað en jafnaldrar mínir hafa lýst þessari tilfinningu fyrir mér, að þetta hafi enn áhrif á þá.  Hvað getur kona gert?  Í þetta sinn ætla ég að byrgja mig upp af bókum, fá stelpurnar mínar í mat, leigja mér góðar myndir, fara í göngutúr (ef það snjóar ekki) og passa mig á að líta ekki á klukkuna.

Gleðilega páskaWizard

30


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 2988129

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.