Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

AÐ KJÓSA RÉTT

22

Það hríslaðist um mig spennu- og ánægjutilfinning núna áðan þegar ég var á hinu hefðbundna vafri mínu um bloggheima.  Margir eru að skrifa um kosningarnar.  Það rann upp fyrir mér hversu stutt er í þær og hvað það er skemmtilegur tími sem er að ganga í garð.  Ég er svo sjálfmiðuð, ef ég má kalla það svo, að finna til mín á fjögura ára fresti og finnast að með atkvæði mínu geti ég lagt mitt á vogarskálarnar.

Hm.. ég velkist ekki í vafa um hvað ég ætla að kjósa.  Hef reyndar sjaldan staðið frammi fyrir því ástandi að vera óákveðin utan einu sinni þegar ég sveik lit.  Fór úr rauðu yfir í gult í borgarstjórnarkosningum hér um árið.  Man ekki lengur hvað hreyfingin hét en hún var ljósrauð og stóð engan veginn undir væntingum.  Niðurstaða:  Ég er óforbetranlegur vinstri maður og það er ekki vottur af sjálfstæðismanni né krataelementi í mér.  Ég er komin af sannfærðum íhaldsmönnum og krötum í báðar og úr þeirri blöndu varð til þessi einlæga staðfesta mín til vinstri.

Ég er á móti persónudýrkun og þá einkum og sérílagi þegar hún myndbirtist í pólitík.  Ég er ein af þeim sem legg áherslu á að flokkurinn sem ég kýs hafi einarða stefnu sem ég get mátað mig við.  Það er toppurinn á tilverunni þegar forystumenn flokksins míns lifa eftir sannfæringu sinni og sýna það í orði sem á borði.  Þar koma vinstri grænir sterkir inn. 

Hvað um það, ég trúi því að þeir sem eru í pólitík (vel flestir amk.) vilji bæta samfélagið.  Að það sé upprunalegt markmið allra.  Leiðirnar að því marki eru bara ólíkar.  Sumir gleyma sannfæringunni á leiðinni og setan við kjötkatla stjórnmálanna verður löng og sumir vilja alls ekki halda áfram á leið sinni og þeir gleyma því sem þeir lögðu upp með. Mitt fólk er með vegferðina á hreinu og margir hjóla meira segja að markinu meðan sumir geysast áfram á eðalvögnum.  Ég er meira höll undir hjólinCool.

Ef ég væri óákveðin myndi ég gera eftirfarandi lista til glöggvunar fyrir sjálfa mig:

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn koma ekki til greina.  Fyrirgreiðslupólitík, valdþreyta og atvinnupólitíkusar hugnast mér ekki.  Skil ekki af hverju vinnandi fólk sem þarf að hafa fyrir lífinu, finnur sig í þessum flokkum.  Þessir flokkar eru stofnanir, þeir rumska fyrir kosningar og sofa þess á milli værum Þyrnirósarsvefni þess sem heldur sig kominn til að vera.

Þar sem ég er ekki frjálslyndur krati (eins og það heitir víst núna, ) kæmi Samfylkining ekki til greina, þrátt fyrir staðfasta og áralanga aðdáun mína á Ingibjörgu Sólrúnu.

Frjálslyndir og Íslandhreyfing eru bara óánægðir hægri menn og nánast allir með tengingu inn í Sjálfstæðisflokk.  Sama þar.  Sé ekki hvers vegna vinnandi fólk ætti að kjósa yfir sig enn eina hægri stjórnina.  Held að báðir þessir flokkar væru ekki lengi að hoppa upp í með íhaldinu.

Vinstri græn eru að mínu mati þau einu sem hafa eitthvað múr- og naglfast upp á að bjóða.  Ég vil ekki stóriðjur og tel að það sé að æra óstöðugan að dúndra fleiri kvikindum í formi risavaxinna virkjana niður í landinu.  VG er kvenfrelsisflokkur og hafa sýnt það í verki.  Það passar við mig. Síðast enn ekki síst þá veit ég að það er eitt af forgangsmálum þeirra að auka lífsgæði venjulegs fólks.  Það vegur þyngst.  Ég arka ótrauð í kjörklefann og kýs þá.

Ég dreg ekki dul á að ég læt mig dreyma um stóran og afgerandi sigur vinstri flokkanna í vor, þe. VG og Samfylkingar.  Ég vona bara að sú verði raunin.  Það þarf að fella stjórnina sem er búin að sitja allt of lengi, mikið lengur en nokkrum er hollt.  Skutlum inn nýjum vöndum, þeir sópa best.

Ajö og takk fyrir mig, bibbidíbabbedíbú.


HVUNNDAGUR GJÖRSVOVEL

765

Nú tekur hversdagsleikinn við á morgun.  Mikið skelfing er ég fegin.  Þetta gerist á hverju ári fyrir jól og páska.  Konu hlakkar alveg svakalega til.  Tvisvar verður sá feginn er á steininn sest.  Ég er nefnilega alltaf jafn glöð þegar hátíðunum lýkur og allt verður eins og það á að vera.  Enda eins gott því sem betur fer tekur eitt við af öðru.

Á morgun ætla ég að skoða í uppskriftabókina og leita að hollu fæði fyrir mig og mína.  Er með vægt ógeð á steikum og fíneríi.  Aðalsmerki þessarar viku verður pottur ekki panna.  Soðið í öll mál.  Hm.  Ég ætla líka að fara til læknis á morgun, vinna verkefni sem mér var falið fyrir páska, þýðingarvinnu, sem ég geymi fram yfir hádegi.  Aöl. er morgundagurinn ókannað ævintýri.

Ég er búin að liggja í bókum yfir páskana.  Þegar nýju lesefni sleppti réðst ég á áðurlesnar bækur og er komin með hámarks höfuðverk.  Hvað er í gangi hjá ríkissjónvarpinu?  Þarf að finna til hundleiðinlegt efni í hvert sinn sem helgidagar ganga í garð?  Fyrir utan stjórnmálaumræðuna í kvöld og myndina um Che Guevara, þá hef ég ekki fundið neitt nema Gasolinþáttinn í gærkvöldi.  Kannski er það nóg.  Þrjú prógrömm frá miðvikudagskvöldi fram á mánudag.  Hm.  sennilega.  Ég bakka með þetta.

Ég þarf að fara að læra dans, klífa fjöll, veiða lax og sauma út ef ég á að eiga eitthvað líf!! Þ.e. eins og sumir hér í bloggheimum sem eru alltaf að gera eitthvað ýkt spennandi og blogga um það.  En svo má taka sér skáldaleyfi og ljúga eins og sprúttsali upp á sig svaðilförum og lífreynslusögum. Ég geri það á morgun.  Það verður ekki við hæfi fólks undir 25 ára aldri.

SíjúgæsHeart


VIÐ OG ÞAU..

1

Var að hlusta á umræðuna í sjónkanum þar sem foringjar stjórnmálaflokkanna spjölluðu.  Ansi lítið nýtt kom í ljós og staða flokkanna varðandi innflytjendamál er nokkurn veginn á hreinu.  Enginn flokkana, lítur á innflytjendur sem vandamál, utan frjálslyndir, og sjá það sem jákvæðan hlut að hér séu innflytjendur og allir virðast þeir leggja sama skilning í "vandamálaauglýsingu" Frjálslynda flokksins.  Ég ætla ekki að fullyrða að frjálslyndir séu útlendingahatarar, langt frá því, en skilningur fólks á auglýsingunni títtnefndu hinni svokölluðu vandamálaviðvörun virðist vera sá hinn sami hjá þeim sem ég tala við þe. að þarna sé nálgunin á málefninu röng, ali á fordómum og ótta.  Mér finnst þessi neikvæða aðferðarfræði þeirra höfða til fremur lágra hvata fólks.  Ef ekki liggur neitt óeðlilegt að baki þessa málflutnings Frjálslynda flokksins er þeim í lófa lagið að breyta nálgun sinni á málefnið.  Getur verið að þetta sé populismi?  Léleg leið til að ná sér í atkvæði?  Mér er spurn.

Mér finnast það forréttindi að búa í fjölþjóðasamfélagi.  Það getur bara verið gott að fá hingað nýja strauma frá öðrum menningarsvæðum og það gerir þjóðfélagið mun litríkara og skemmtilegra.  Við sem búum hér og störfum höfum getað breikkað sjóndeildarhringinn með því að fara til annara landa til náms og starfa.  Því skyldum við ekki gjalda líku líkt?


OG AF ALLT OF STÓRUM HÖRMUM..

35

Þegar ég var að skrifa fyrra innleggið um þá undarlegu staðreynd að ég skyldi ekki spyrja um ákveðna hluti þegar ég var lítil, þrátt fyrir að vera yfirmáta forvitin, mundi ég eftir enn einu furðuverkinu úr útvarpinu.  En það voru "dánarfregnir og jarðarfarir".  Kannist þið við eftirfarandi:

Sonur okkar, bróðir, faðir og afi lést á heimili sínu.. osfrv.?  Í nokkuð mörg ár hélt ég að út um víðan völl hríðféllu heilu fjölskyldurnar í einu í valinn.  Auðvitað las ég um Móðuharðindin og Svarta dauða í skólanum þar sem fólk féll í umvörpum.  Ég heimfærði þessi fjöldaandlát upp á svoleiðis óáran. Ég spurði aldrei, skildi þetta svona en fannst þetta ískyggilega algengt og sjálf þekkti ég sem betur fer ekki til neinnar fjöslkyldu sem hafði þessa stóru harma að bera.  Bjóst við, held ég, að þetta væri að gerast úti á landi, en það var óskilgreindur staður í huga borgarbarnsins jafn lang í burtu og Kína sjálft.


AUSTURLAND AÐ GLETTINGI

385

Hvar er Glettingur?  Hann er fyrir austan.  Ég veit ekki meir.  Landafræðikunnátta mín er lítil og ekki til að flagga á mannamótum.  Frá unga aldri hlustaði ég á veðurfregnir yfir kvöldmatnum og "Austurland að Glettingi" var eitt af því sem mér fannst hljóma svo undarlega, framandi og forvitnilega.  Merkilegt þó að ég skyldi aldrei spyrja.  Fyrir einhverjum árum síðan barst þetta í tal milli vinkvenna og við vorum allar jafn blánkar yfir "Austurlandi að Glettingi" nema ein að austan sem vissi að Glettingur var fjall þaðan sem hún kom.  Ég sá strax fyrir mér að þetta hlyti að vera merkilegt fjall þar sem þarna var veðurmæling (hm).  Viss um að við Gletting er ekki nokkur kjaftur, brimið skellur þarna á fjallinu og þegar dimmir á vetrum er umhverfið verulega draugalegt. Muhahahaha.  Kann einhver nánari deili á þessari títtnefndu mælingastöð?


SVONA RÉTT FYRIR SVEFN

 

Úff hvað kona er orðin húrrandi þreytt.  Svona er þetta á hátíðum, það er hangið fram eftir öllu.  Þetta hefur verið um margt góður dagur.  Byrjaði ekki beinlínis á hamingjusveiflu en ég skrifaði um það hvernig mér leið og ég fór strax að hressast.  Ég þakka öllum sem sendu mér hvatningu og falleg orð.  Það hafði hreint ótrúleg áhrif.  Allir dagar geta ekki verið dúndur góðir dagar.  Lífið er alltaf aðeins upp og niður.  Þegar ég hugsa til daganna meðan ég ráfaði um sem fárveikur alki, hversu svart lífið var og allt virtist vonlaust og svo þessir smá afturkippir sem ég er að fá af og til í dag, þá eru þeir hjóm eitt í samanburði.  Lífið er æði og hver dagur er nýtt ævintýri.

832

Ég fer sátt að sofa í kvöld.  Vorið er að koma þó óneitanlega hafi ég orðið smá langleit þegar ég talaði við dóttur mína í London í kvöld.  Hjá þeim var sól og 22. stiga hiti í dag og þau eyddu deginum úti að grilla og tjilla.  Skelli hér inn mynd af Oliver sem var á stuttermabol eins og um hásumar væri. En er ég hissa á að við skulum ekki vera komin með sumarveður? Nebb þá væri ég nefnilega ekki í lagi því við búum á Íslandi.  En það er í lagi að láta sig dreyma.

Góða nóttHeart


HUGLEIÐING Á SUNNUDAGSMORGNI

53

Í morgun hefur mér ekki liðið vel og ekki í gær reyndar heldur.  Það þýðir ekki að ég sé á barmi sálarlegs gjaldþrots en ég verð að gæta mín ansi vel mtt til að halda balans og hugarró.  Það má ekki mikið út af bera hjá óvirkum alka ef hann gleymir að sinna sálartetrinu.  Litlir hlutir og stórir koma manni úr jafnvægi, ekki síður þeir góðu.  Fyrr en varir getur kona fundið sig í vanlíðan og óbalans sem er eitur fyrir alka.  Sykursýkin er líka að láta kveða að sér, þetta helst allt í hendur.  Ég fór í sykurlost í morgun og hné (skáldlegt?) niður á eldhúsgólfinu. Húsbandið varð fyrir árás í vinnunni í fyrradag.  Brjálaður dópisti réðst aftan að honum og... til að gera langa sögu stutta þá slapp hann svona nokkurn veginn með skrekkinn.  En nú er ég komin til baka og í banastuði eða þannig. 

Ég byrja á þessari sem allir geta notað, hreint sálarbætandi orðasalat.

Guð gefi mér æðruleysi. 

Til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

Merkilegt hvað orð geta verið öflug, bæði til góðs og ills.  Ég ætla að vera í jafnvægi, láta ekki fólk særa tilfinningar mínar (ÉG ER SVO MIKIL H-E-T-J-A) og muna að mín vellíðan kemur frá sjálfri mér en ekki umhverfinu.

Þetta datt mér nú svona í hug á degi súkkulaðsins.


AÐ VERA FÓRNARLAMB OG MÆÐAST Í MÖRGU I

77

Ég hef verið að lesa að nýju Alkemistann eftir Paul Cotelho, sem mér finnst vera ágætis bók.  Ég las hana fyrir nokkrum árum og í dag tók ég mér hana aftur í hönd.  Á fyrstu síðunni er að finna tilvitnun úr Biblíunni sem er eitt af mínum uppáhalds gullkornum í þeirri merkilegu bók.  Það hljóðar svona:

"Er þeir voru á ferð, kom hann inn í þorp nokkurt.  En kona ein að nafni Marta tók á móti honum í hús sitt.  Og hún átti systur, er hét María, hún settist við fætur Drottins og hlýddi á orð hans.  En Marta var önnum kafin við mikla þjónustu.  Og hún gekk til hans og mælti: -Herra, hirðir þú ekki um það, að systir mín lætur mig eina ganga um beina?  Seg þú henni að hjálpa mér.  En Drottinn svaraði og sagði við hana:

-Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt.

María hefur valið góða hlutann, hann skal ekki verða tekinn frá henni."

Þarna útspilar sig ein af frumútgáfunum fórnarlambsheilkennisins í bókmenntasögunni sem ég man eftir.  Marta, Marta, sem mæðist í mörgu.  Fórnarlambshlutverkið er eitur í mínum beinum og ég hef séð það myndbirtast í sjálfri mér, í fjölskyldunni og vinkonum í gegnum árin.  Mér hefur fundist við konur oft snöggar að detta í þetta hlutverk.  Kannski af því við vorum svo lengi valdalausar. Að vera fórnarlamb er ákveðin stjórnun.  Ég var ómeðvituð um að ég væri sérfræðingur í fórnarlambsgeiranum langt fram eftir aldri.  Maður var að gera og græja meðan fórnarlambsblóðbunan stóð aftanúr manni.

Að vera fórnarlamb er hræðilegt hlutverk.   Fórnarlambið er algjörlega varnarlaust.  Það hefur ekkert að segja um eigið líf og á endanum gleymir maður því að það er til val.  Val til að geta haft áhrif á aðstæður sínar en vera ekki eins og sektarlambið sem leitt er hljóðlaust til slátrunar. Orðið hetja er mikið notað í dag.  Það er notað um fólk sem ratar í ýmiskonar raunir og lifir þær af.  Mér finnst fórnarlambsbragur á þessu orði.  Við lendum í aðstæðum og við lifum þær af og ef okkur tekst að ná tilfinningalegri fjarlægð á aðstæðurnar og jafnvel að hjálpa öðrum í sömu sporum, þá erum við að gera okkur sjálfum gott og öðrum í leiðinni.  Það er að lifa af með reisn.  Hetjur eru samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs: Kappi, hraustmenni, afreksmaður.

Meira seinna. Takk fyrir mig.

                                                                    


MANSALSHRINGUR UPPRÆTTUR!

656

Lögregla á Spáni hefur upprætt mansalshring á Costa Brava ströndinni á austurhluta Spánar.  Það var Albani sem stýrði hringnum en um 40 konum var haldið í kynlífsþrælkun. Flestar kvennanna komu frá Rússlandi og voru neyddar til að vinna í hóruhúsum og við götuvændi.

Mér verður alltaf jafn illa við þegar maður les fréttir af þessum óhugnaði sem mansal er.  Það blómstar í heiminum í dag.  Það er gleðiefni þegar tekst að uppræta þó ekki sé nema einn mansalshring en mér fallast hendur þegar ég hugsa um þær miljónir kvenna og barna sem búa við þennan hroðalega raunveruleika í heiminum í dag.


mbl.is Mansalshringur upprættur á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MISYNDISMAÐUR AF ERLENDU BERGI BROTINN?

3455

Nú má fólk fara að vara sig!  Engin leyndarmál eru leyfð lengur þegar meðaljóninn ætlar að færa viðskipti sín yfir til KB-banka.

Þú ert spurður að því hvort þú eða fjölskylda þín tengist hryðjuverkastarfsemi.  Svo er náttúrulega spurt hvort foreldrar þínir séu að erlendu bergi brotin.  Þeir hjá Kaupþingi hljóta að eiga fyrir nýjum þyrlupall fyrir næsta áramótapartí sem haldið er að þessu sinni við pýramídana í Egyptalandi (segi sonna). Ekkert voða æstir í nýja viðskiptavini.  Þeir eru greinilega vandir að valinu hjá Kaupþingi þegar að fólk vill færa viðskiptin sín yfir til þeirra.  Útlenskur bakgrunnur er jafn hættulegur og hryðjuverkastarfsemi hlýtur að vera fyrst það skiptir máli fyrir bankann að hafa það mál á hreinu.

Reyndar sagði starfsmaður bankans við viðskiptavininn að þetta væru misgáfulegar spurningar.  Hm.. ég ætla aldrei að færa viðskiptin mín yfir í Kaupþing.  Ég er komin af frönskum duggurum og alkahóliseruðum danakonungi í móðurætt svo ég leggi nú á ekki nokkurn mann að fara að skilgreina föðurættina.  Ég held mér við Sparisjóðinn enda engar þyrlupallabyggingar áformaðar þar á næstunni.  Eftir því sem ég kemst næst.

Gaman að þessu krakkarCool


mbl.is „Ertu hryðjuverkamaður?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 2988131

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.