Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

16 mánaða edrú - úje, úje, úje

Þetta er afmælissnúra

Sko tíminn líður svo fljótt á milli edrú afmæla að ég var nærri búin að gleyma 16 mánaða  áfanganum mínum í dag.   Mundi allt í einu eftir þessum merkisdegi, þegar ég var önnum kafin við að beita heimilisfólkið hinu hefðbundna kvöldofbeldi fyrir svefninn. Vont en nauðsynlegt til að hafa skikk á fólki.

Ég var steinhissa að vera nærri búin að gleyma þessum merkisdegi í lífinu mínu.  Eins og það sé eitthvað lítilræði að hafa verið allsgáður og happí í 16 mánuði.  Mishappí auðvitað eins og þið venjulega fólkið.  Dagurinn í dag hefur verið hörmulega leiðinlegur t.d. en á morgun kemur nýr, með nýjum tækifærum og brosvökum á hverju horni Hvað eru 16 mánuðir margir dagar annars?

Ég fór inn á Vog þ. 5. október 2006 hálf dauð og kom þaðan út nokkuð bein í baki ca. 25 dögum seinna.

Já, búin að blogga um það svo oft.

Annars er vinnan i edrú mennskunni stöðug, nauðsynleg og skemmtileg.  Nú er ég búin að fara edrú til útlanda og það tókst með svo miklum ágætum að þá er bara ein hetjudáð eftir en hún er að klífa einhvern fjallstind eða eitthvað. Æi ég held ég sleppi því, verð alveg jafn edrú og glöð þrátt fyrir vera ekki eins landafjandi út um allar jarðir.

Og takk fyrir Vogur, 1000 sinnum og göngudeildin líka.

Ég á ykkur líf mitt að launaHeart

Ég held að ég fari soldið seint að sofa í kvöld, ekki gott en stundum er ég í stuði fyrir næturgölt.

Hver fer edrú að sofa á eftir?

Jenný Anna Baldursdóttir og milljón annarra glaðra alkóhólista í bata.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.


Aftur innanhúserjur á kærleiksheimili - nú með einum þátttakanda

 

Hvað er það við þessa daga núna?  Kuldinn, myrkrið, langt í vorið, enn lengra í jólin (hm) páskar langt undan (mér er slétt sama) og svo þessir bolludagar og saltkjötsát (sem ekki er stundað á mínu heimili), sem er baneitrað og tilraun til sjálfsvígs, ekkert minna.  Ég er alla vega ekki glöð, alls kyns fífl að pirra mig.  Amk. eitt (ekki minn heittelskaði)

Í dag hef ég verið svo upptekin að vera í vondu skapi að ég hef gert nákvæmlega ekki neitt.  Er samt að búa mig undir að steikja fisk.  Af hverju er ég alltaf eldandi?  Er það tattúerað á ennið á mér "Eldaðu"?  Eða var ég dáleidd sem smábarn og því komið inn í kvarnirnar á mér að það væri hlutverk mitt í lífinu?  Ekki að mér finnst það leiðinlegt, en akkúrat núna á ég bágt.

Ég sparkaði í kommóðu áðan: Ástæðan, óréttlæti heimsins.

Dásamlegt að gera ekkert í heilan dag nema að taka upp rými.

Færa mig á milli stóla.

Eina ráðið við þessum febrúarbömmer er að drífa sig á AA-fund.  Ekki gott að vera alki í pirruðu skapi.  Nánast á gargstiginu.

Og þið sem mögulega ætluðuð að koma í kaffi - sleppið því, ég gæti sett eitthvað óhollt út í það.

Nú þá er að fara á fund, í sund og kaupa sér hund.

Svo sagði mætur maður.

Guð plís skenktu mér smá æðruleysi.

Amen.


Að geta lokað og hent lyklinum, allt búið -bless

Ég hef þekkt nokkrar konur (og menn) um ævina sem hafa lent í því að eiginmaðurinn hefur farið frá þeim vegna annarrar konu.  Slík er eins og allir vita ekki óalgengt.  Þetta er sár lífsreynsla og ábyggilega alveg skelfilega mikið niðurbrot á sjálfsmynd, fyrir nú utan að allt í einu er eins og einhver sem maður hefur deilt lífi sínu með, jafnvel til fjölda ára, treyst og trúað, að sýna af sér hegðun sem kemur konunni (ég er bara að skrifa um konur hérna) í opna skjöldu.

Það hlýtur að taka langan tíma að vinna sig út úr svona reynslu og þá sérstaklega ef ung börn eru til staðar í hjónabandinu sem er í molum.

En..

Það kemur að þeim tímapunkti að manneskjan veður að setja punkt.  Horfast í augu við hlutina og byrja að lifa lífinu fyrir sjálfan sig.  Það er náttúrlega fáránlegt að láta mann sem er bara happí úti í brjóta niður líf sitt, tilgangsleysið í því er algjört.

Sumar þeirra kvenna sem ég þekki og lent hafa í þessu hafa verið tiltölulega fljótar að stíga á fætur,og hafa sig af stað út í nýja lífið.  Oft hafa þær sagt að þetta hafi verið  það besta sem fyrir þær hefur komið, þær finna nýjan styrk, nýjar hliðar á sjálfum sér og þær fara að njóta lífsins í jafnvel meira mæli en áður.

En svo þekki ég nokkrar sem hafa valið að gerast atvinnufórnarlömb.  Hinar sviknu og forsmáðu.  Þær fara í stríð út af umgengnisrétt, þær eyða hellings orku í að hata nýju konuna, og engjast af stöðugri afbrýðisemi og eftirsjá og allt lífið heldur áfram að snúast um fyrrverandi.  Árin líða og þær róast en líf þeirra stendur óbreytt.  Þær eru bara í hlutverki hinnar yfirgefnu konu. ARG. Sumar eru leynt og ljóst að bíða eftir karlrassgatinu sem yfirgaf þær, vó hvað það er dapurlegt.

Þetta datt mér í hug þegar ég las um blúsinn hennar Jennifer Aniston, sem ku vera þjökuð af eftirsjá og trega, vegna mögulegrar óléttu Brangelínu.  Hún hefur skv. því verið að bíða eftir Braddanum.

Æi hvað ég vona að hún verði ekki atvinnuyfirgefinogsmáðkona.  Þessi flotta og hæfileikaríka leikkona.

Valið er hvers og eins.

Um að gera að velja að standa með sjálfum sér.

Enginn fyrirverandi maki er svo æðislegur að það borgi sig að eyðileggja líf sitt fyrir hann.

Súmí.

Úje


mbl.is Aniston sögð þjökuð af eftirsjá og trega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af innanhúserjum á kærleiksheimilunu

 

Komið þið sæl,

Hehe, langaði að hljóma eins og Siggi Sig. heitinn, gamli íþróttaútvarpsmaðurinn.

Í gær fékk ég ágætis ástæðu til að fara í feita fýlu hér heima hjá mér.  Já á þessu kærleiksheimili, fer andrúmsloftið í smá vetrarhörkur einstaka sinnum og í gærkvöldi var einstaklega napurt í þeim skilningi hér á mínu menningarheimili.  Þið sem eruð að drepast úr forvitni, róleg, þetta er ekkert merkilegt.  Höfuðinntak voru rökræður um hvort heilvita konur eigi að borga hátt í 20 þúsund krónur fyrir klippingu og strípur.  Ég var alfarið á móti því.  Karlmaðurinn á heimilinu hinsvegar æstur í að rífa upp budduna og taka veð í eignunum fyrir herlegheitunum.

Ók, það var víst ég sem var með háu verðlagi en hann á móti. 

Þetta voru sem sé venjulegar rökræður sem urðu til þess að ég fór í fýlu, hótaði a skerða aldrei hár mitt né skegg og fara til fjalla og klæðast sauðagæru til dauðadags, þannig að ekki þyrfti að rífast yfir leppunum sem ég kaupi mér (hm).  Í stuttu máli, ákvað að gera stórmál úr viðkomandi umræðum.  Var í stemmara fyrir fýlu og ekki einu sinni Jesús Jósepsson sjálfur, hefði getað snúið mér, ég var ákveðin og með það fór ég að sofa.

Vaknaði eftir vondan svefn, enda ekki gott að sofa í brjáluðu skapi, upplifandi sig sem fórnarlamb og frumkonu. En ég hef úthald, þegar ég einset mér eitthvað og mér var bent á það af mínum heittelskaða, við litlar vinsældir mínar, að nýta mér viðkomandi sjálfsaga til góðra verka.  Jeræt, að ég hafi hlustað.

Og svona leið dagurinn.  Húsband gerði ýmsar tilraunir sem allar voru blásnar af í fæðingu.

En hann er naut og þar að auki friðsemdarmaður, svona oftast, og þar sem ég sat hér með hnút í maganum og hamaðist á lyklaborðinu, kom hann grafalvarlegur með Gretchinn (gítar þið sem ekkert vitið) og söng serenöður eins og hann hefði unnið við sollis músik til margra ára og leið fram hjá mér eins og af einskærri tilviljun, mjög einbeittur í framan.  Svona gekk þetta lengi vel, ég frosin í framan,  en að  drepast úr hlátri inni í mér, en það sem gerði það að verkum að ég sprakk, var þegar hann tók  "þú villt ganga þinn veg" sungið í gengum nefið og spilað í mjög víbrandi útfærslu á gítarinn og með tilheyrandi líkamshreyfingum.

Þá allt í einu mundi ég að ég elska þennan mann og síðan ég er búin að vera brosandi frá eyra til eyra.

Verð á strípum og klippingu hvað?  Á hvort sem er tíma hjá Toný and gay n.k. þriðjudag.

Þetta var sýnishorn í heimilislíf Jennýjar Önnu og Einars Vilberg.

Lífið er ekki alltaf dans á rósum þegar vandamálin eru af þessari stærðargráðu.  Úff, ætili við þurfum að leita til hjónabandsráðgjafa.

Úje


Ég nenni ekki að blogga um þetta...

 

..en það er ekki á hverjum degi sem það er framið bankarán á Íslandi.

Þýfi fundið, gjaldkeri brást rétt við, lalalala, allir glaðir en heimurinn er ekki að farast.

Það sem mér finnst eitt af því mest fyrirfram dæmt til að mistakast eru bankarán á Íslandi.

Man einhver eftir einhverju sem tókst?

Ekki ég.

Hvað er að fólki, gengur það með djúpa löngun til að komast í fangelsi?

Nóg um það.

Hér eru önnur og stærri málefni sem eru að vefjast fyrir mér.

Það eru miðar.

Svona minnismiðar, sem geta verið umslög, síða á dagblaði, til hátíðarbrigða alvöru gulir minnismiðar með lími á.  Það skiptir ekki máli, ég týni þeim öllum.

Það er ekki til óskipulegri manneskja í öllum heiminum en ég í miðabransanum.

Um hver mánaðarmót gegn ég í gegnum eld og brennistein við að leita að ákveðnum reikningsnúmerum sem ég þarf að nota, og ég svitna í lófunum, titra, hjartað staðsetur sig í hálsinum á mér og ég græt.  Hvað á ég að gera?  Þetta á að borgast í dag!  Ég gleymi því alltaf að ég þarf bara að lyfta upp símanum og biðja um viðkomandi upplýsingar.  Man það aldrei fyrr en ég er komin á geggjunarstigið og einhver mér velviljaður bendir mér á það.

Svo hef ég reynt að búa til kerfi.  Skrifa tvo miða á hvert atriði sem ég þarf að muna.  Þá fyrst fer ég að eiga erfitt, bíddu, var ég búin að þessu, ring - ring- var ég búin að ganga frá þessu?  Ekki eða já kona, fyrir fimm mínútum.  ARG.

Um hver mánaðarmót tek ég miðana mína og set þá snyrtilega ofan í ákveðna skúffu.  En... og það er stórt en, er eru margar skúffur og ég er alltaf búin að gleyma hver þeirra sú ákveðna var, enda ég fyrir löngu búin að henda allskonar pappírum yfir alla skipulagninguna, svo það skiptir engu.

Ég kæri mig ekki um neinar ráðleggingar um skipulagsbreytingar hérna. Hluti af mér elskar kaós.  En þið megið hnippa í mig ef ég skrifa þessa færslu tvisvar.

Bætmí

Úje


mbl.is Vopnað bankarán í Lækjargötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er hrunin....

 

Í tvöföld sígarettuvandræði, eða nikótínvandræði.

Í Londresferðinni mátti ég ekki reykja meinsstaðar, eins og ég hef þegar sagt ykkur frá.

Mín er svo klár að hún var með Nicorette nefúða á sér af því hún ætlaði að hætta að reykja og hafði ekki komist til þess vegna anna, hóst, hóst.

Úðinn bjargaði mér á flugvöllum og í flugvél, þegar ég var vakandi.

Ég er búin að kaupa mér nýjan.  Kikkið sem úðinn gefur fletur mann út á vegg af unaði.

Nú sit ég hér með bévítans úðan, teygi mig í hann öðru hverju og smóka á milli.

Já, já, já, ég veit, voða hættulegt.  Ég er fíkill, bláedrú, má maður vera aðeins ófullkomin?

Ég er sum sé hrunin í úðan og er enn í rettunum.

Velja: Úði - sígó - úði- sígó- úði ladídadí

Tek mér mánuð í að velja.

Á meðan verður gaman að liffa.

Þráinn sorrý, en hér verður að koma

ÚJEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEE

Á bjargi byggði heimskur maður hús: Það er ég í sígarettulegum skilningi. 

Farin að elda.

Klemm og kreist á alla línuna.

P.s. Nú kemur það merkilegasta.

Ég hreinsaði smá af bloggvinalistanum mínum.  Ef ég hef sópað út einhverjum óvart þá látið vita, en ekki skamma mig, ég er svo áhrifagjörn.  Það eru allir að taka til.


Óþverraþjóðfélagið

Ég fór til læknis í dag, sem ekki væri í frásögur færandi, nema af því að ég er að segja frá því núna.

Sjálf er ég með tímabundna örorku og þurfti að borga einhverjum hundraðköllum meira en venjulega.  Ég spurði konuna, svona af því að ég er forvitin um hagi mína, hversu hátt öryrkjahámarkið væri fyrir afsláttarkorti.  Það hafði hækkað um einhverja upphæð.  Sem sagt, örykjar  (og aðrir reyndar líka) þurfa að borga hærri upphæð til að fá sk. aflsáttarkort.  Brilljant. Af því að ég er ekki alveg á horriminni og ekki svo tíður gestur (amk. ekki hingað til) á læknastofum, þá yppti ég öxlum en hugsaði ekki fallega til svikarana sem alltaf eru lofandi öryrkjum og eldra fólki, manneskjulegum lífsskilyrðum.

Ég settist og beið.  Inn kom kona í hjólastól með konu sem fylgdi henni. Hún  þurfti að borga hækkuðu upphæðina auðvitað og henni brá verulega. Fimmhundruðkallinn getur verið mikill peningur hjá þeim sem hafa örfá slíka til ráðstöfunar eftir að vera búnir að borga leiguna yfir höfuðið á sér.

 Konan sagði í hálfum hljóðum við fylgdarkonu sína, eitthvað á þá leið að hún vissi ekki lengur sitt rjúkandi ráð.  Mannsæmandi kjörum hafi verið lofað en það eina áþreifanlega gagnvart sjúklingum væru beinharðar hækkanir. Svo nefndi hún upphæðina sem hún hafði á mánuði til ráðstöfunar (sem ég ætla ekki að tíunda hér, ef hún læsi nú bloggið mitt eða einhver sem þekkir til hennar) og það er skemmst frá því að segja að mig langaði að fremja eitthvað, gagnvart nokkuð mörgum aðilum.

Hvað er að þessu andskotans þjóðfélagi sem borgar þessum herrum hérna í fréttinni 76 milljónir í árslaun og 300 milljónir fyrir að hefja störf. Og rúsínan í pylsuendanum er þetta: "Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis fékk 190 milljónir króna í launagreiðslur á síðasta ári. Þar af voru 100 milljónir bónusgreiðsla en Bjarni lét af starfi forstjóra Glitnis í maí á síðasta ári. Hann vann ákveðin ráðgjafastörf fyrir bankann eftir að hann hætti sem forstjóri Glitnis. Hagnaður Bjarna vegna kaupréttarsamninga nam 381 milljón króna."

Hefur enginn í ríkisstjórninni, í samfélaginu yfirleitt, heyrt um sanngirni og meðalhóf?  Að græðgi sé löstur og afskiptaleysi og ill meðferð á fólki algjört siðleysi?

Ég er hreinlega komin með ógeð á þessu jakkafataþjóðfélagi, jeppa og einkaþotublæti og allri þesari taumlausu græðgi.

Og það eina sem öryrkjar fá í sinn hlut á þessum  lóðarísdögum ríkisstjórnarinnar, eru hækkanir fyrir læknisþjónustu.

Skammist ykkar þið sem ábyrgðina berið og hvað í andskotanum ætlar fólk að gera með alla þessa peninga á einni hendi?

Skeina sér á þeim?

Svo eru kofakaupin hjá hinum nýja meirihluta efni í aðra færslu.   Þetta eru auðvitað smápeningar, en þegar þeir sem lítið hafa á milli handanna eru til umfjöllunar þá er sunginn annar söngur.  Helvítis verðbólgusöngurinn.

Sjútmíækúldentkerless.


mbl.is Forstjóralaun hjá Glitni 266 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum er best að steinhalda júnó

Ég er varla búin að senda út í cypertómið færslu til dýrðar sjálfri mér, almættinu og edrúmennskunni  minni en að flugmaðurinn hjá Air Canada fær taugaáfall og var færður í böndum, í hrókasamræðum við Guð, inn á spítala, eftir að vélinni hafði verið lent á Írlandi af akútástæðum.

Ég er ekki að gera grín að manninum, né neinu tengdu þessu máli.  Kapíss?  Ókei, þá held ég áfram mínum uppúrveltingi.

Í öll árin sem ég þjáðist af flughræðslu, var ég alltaf að berjast við þá löngun að fara og tékka á hvort flugmennirnir væru edrú, ekki þunnir og vel útsofnir.  Ég reyndi það ekki, enda hefði mér þá verið vísað samstundis frá borði. OMG.

Í staðinn engdist ég í minni alkahólvímu og velti mér upp úr þessu, upp úr andlegu ástandi flugumferðarmanna, hvort þeir myndu ekki örgla halda öllum vélum í hæfilegri fjarlægð frá hvorri annarri og svoleiðis.

En nú gerist þetta.  Það fór smá um mig, en núna þegar ég er búin að skrifa um þetta, þá held ég að ég haldi bara áfram að vera kúl og edrú í flugvélum sem og annarsstaðar og vona að aumingja maðurinn nái skjótum bata.  Litli dúllurassinn.

Úje

Flæmítúðemún.


mbl.is Flugmaður fékk taugaáfall í flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búhú fargings færsla með dassi af símaskráarvanda og Britneyjaráhyggjum

 

Mé er kalt, en ykkur?  Finnst ykkur það merkilegt að það skuli frjósa á manni þessa dagana?  Ég er svona að pæla í því hvort þetta sé einstök upplifun hjá mér.

Ég er í tvennum bolum, einni ullarpeysu og eiturgrænu flísteppi en nötra eins og hrísla í óveðri.  Ég sem er svo kuldaþolin.  Ég hlýt að vera veik, enda á leiðinni til læknis þar sem önnur löppin á mér hefur tekið vaxtakipp á þvervegin (heitir bjúgur held ég) og nú fer ég í að láta dopplerinn (læknaritarinn, svo fagleg í tali) segja mér hvað er að.  Kannski fer ég á spítala.  Ég dramatísk, nei, nei.

Jólaskrautið er enn inni í litla herbergi, só?  Eruð þið að segja að ég sé löt?

Þurfti að rífast heillengi við manninn hjá símaskránni, sem var eitthvað ósáttur við mitt nýja starfsheiti sem er fjöl-miðill.  En ég hafði það í gegn. 

Ég er á vatnskúr, drekk tvö glös og þau stór í hvert skipti sem ég geng fram já vaskinum, og ég get trúað ykkur fyrir því að það geri ég á fimm mínútna fresti, flatt.

Ég vorkenni Britneyju alveg rosalega, grínlaust.  Eins og ég vorkenni öllum alkahólistum sem eru nánast í dauðateygjunum og fá ekkert við sig ráðið.  Mér finnst svo ljótt að sjá hvernig pressan gerir sér mat úr þessari ungu konu og tekur myndir af niðurlægingu hennar í gríð og erg.  Það eru margir í svipuðum aðstæðum en bara ekki fyrir framan á augunum á heiminum.  Hún gæti verið dóttir mín þessi elska.  Mig langar að knúsa hana.

Jenný Una er ekki binkona mín, af því ég náði ekki í hana á leiksólann í gær en það gerði amma hennar Söru Kamban, hins vegar (þið munið, fullt nafn hjá Jennýju).  En hún er búin að fyrirgefa mér að hafa ekki mætt (hafði ekki hugmynd um að hún ætlaðist til þess) og kemur með Lillemann og mömmu í heimsókn til hennar ömmu eftir leikskóla mín.

Geir segir að allir umsækjendur hafi verið hæfir.  Geta þá þessir hæfu menn ekki bara skipt með sér djobbinu.  Allir að skiptast á eins og Jenný segir.  Hvað er vandamálið?  Sjálfstæðisflokkurinn er VANDRÆÐALEGUR í þessu klúðri og það gleður mitt heita kommahjarta.

Annars er ég farin að laga mér te.  Þetta er búhú færsla fyrir ykkur ódámarnir ykkar svo þið hafið eitthvað að lesa þangað til að ég kem sterk inn eftir læknisheimsóknina, þe. ef ég blogga þá ekki af gjörgæslunni í dauðateygjunum.

Ítmímítmíæmdæing!

Úje


Hið svarta blæti Jennýjar Önnu

 

Ég á við vandamál að stríða.  Bara eitt sko.  Jeræt.

Ég er fatasjúk, en vandamálið er ekki það, fatasýki er afskaplega skemmtilegt tómstundagaman, svona næstum því jafn skemmtilegt og að blogga.

Vandamálið er hinsvegar ásækni mín í svartan fatnað.  Svart, svart, svart.  Ef það leynist bara eins og ein lítil rós eða tvær köflur á flík þá er hún út. 

En í London átti að gera bragarbót á hinum svarta fataskáp.  Vilji einbeittur. 

Ég óð um verslanir borgarinnar og gúffaði í körfur og kistla.  Frumburður dró mig með valdi að bláum, rauðum, gulum,grænum, röndóttum, doppóttum og köflóttum fatarekkum.  Hm.. já, sagði ég, of æpandi, fitandi, styttandi, lengjandi og svo dróst ég eins og segull að hinum svörtu rekkum með örlitlu stoppi við þá gráu, þar sem keypt voru nokkur ætem.

Niðurstaða: Fullur fataskápur af kjólum, peysum, og öðru slíku, ásamt skóm, í svörtu.

Ég þarf að nota vasaljós þegar ég leita mér að klæðum á morgnanna.

Heiðar snyrtir myndi segja að ég væri að loka orkuna mína inni, en ég segi að ég sé að halda orku annarra úti.

Getur einhver gefið mér skýringu á þessari ást á svörtum fatnaði?

Þetta hlýtur að vera sálrænt.

Er þetta löngun til að verða ekkja, stunda jarðafarir, sjást ekki, eða bara líta út fyrir að vera virðuleg?

Einhver?

Þekkið þið einhvern sem á svarta sumarkjóla? Já þið þekkið mig!

Þekkið þið marga sem hafa gift sig í svörtu?  Já ég er ein af þeim.

Hjálp!!!!!!!!!!!

Úje Blakkisbjútífúll.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 2988129

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband