Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Lítil saga af kaffihúsi

Það sem ég elska mest við stórborgir, er allt fólkið með gleði sínar og sorgir á bakinu,  Þar sem við sátum á kaffihhúsi í gær, ég og Helga, kom til okkar kona á miðjum aldri, ákaflega hugguleg og framandi í útliti.  Hún sagði okkur í óspurðum að hún byggi í Teheran en maðuinn hennar væri svo elskulegur að leyfa henni að fara í ferðalag með sjálfri sér, á hverju ári og það héldi í henni  lífinu.  Þetta var sem sagt hinn ágætasti maður að hennar mati,

Við deildum upplýsingum um fjöldskyldur okkar og tókum myndir og föðmuðumst og kvöddumst með virktum.

Mér varð hugsað til þess að konur eiga alltaf jafn mikið sameiginlegt, sama hvaðan þær koma.

Nú hef ég eignast nýja vinkonu, en ég gleymdi að spyrja hana að nafni

En hún er ekki síðri fyrir það.

Lofjúgæs

Úje 


Mitt handablæti

 

Ég veit ekki hvað það er með mig og hendur.  Ég er heilluð af þeim, ég hef líka andstyggð á sumum og allt þar á milli, en hendur eru einhverskonar blæti hjá mér.  Ég er hreinlega sjúklega upptekin af þeim.  Ég myndi skrifa upp á skuldabréf fyrir ókunnuga manneskju ef hún væri með hendur sem væru mér að skapi, biðja hana jafnvel um að verða svaramann í brúðkaupinu mínu, bara um leið og ég sæi á henni lúkurnar.

Mínar hendur eru frábærar, fullkomnar nánast (annars væri ég í vondum málum hehemm), smágerðar, frekar langar og puttar langir og mjóir.  Líka hendur systra minna, allra held ég bara.  En það er ekki nóg að hendur séu fallegar í forminu, þykkar hendur geta verið ógeðslega hrífandi, ef þeim er beitt fallega, og vinnulúnar hendur segja langa sögu og virka traustvekjandi og eru oft svo vísar eitthvað.  Þetta liggur nefnilega alls ekki bara í útlinu frekar en með annað á fólki, það er birtingarmyndin, hreyfimátinn, nærveran og viðkoman sem skapar fegurðina.

Verstu og ljótustu spaðarnir eru hendurnar sem tilheyra sumum karlmönnum, búttaðar, náfölar, manikjúreraðar og ónotaðar að því best verður séð, svo þegar þú heilsar hendinni þá límist hún við þig með köldum svita og ætlar aldrei að losna.  Jakk, hvernig er hægt að sleppa í gegn um heilt líf án þess að næla sér í karakter í hendurnar?  Kommon er þetta latexfólk?  Notar latexhanska við öll tækifæri nema rétt á meðan það birtist meðal manna?

Stundum er vont að taka í þurrar og hrjúfar hendur, ekki vinnuhrjúfar heldur þunglyndishrjúfar, þeim leiðist, hrömmunum þeim, þær hafa ekki nóg að sýsla.

Fallegustu hendurnar eru þær sem notaðar eru meðfram daglegum athöfnum og þá til að tala með.  Ég nota mínar til að tala með, flestir gera það, bara mis mikið.  Mikið ógeðslega verða talandi hendur heillandi.  Manni langar til að taka af þeim mót og hengja þær upp á vegg sumar hverjar, þær segja svo skemmtilega frá.  Það væri frábært ef hendurnar væru aðal talfærið okkar, þær eru svo dramatískar, svo sveigjanlegar, svo sannfærandi, fyndnar, krúttlegar og ákveðnar, að hver einasti maður gæti orðið kóngur í ríki sínu með þær einar að vopni.

Já ég veit, ég verð hálf biluð á nóttunni.  En ég var í alvörunni að hugsa um hendur mér til skemmtunar.

Farin að lúlla og  þangað til í fyrró...

Talk to the hand!

Úje


Að fórna næstum því lífi sínu fyrir Glaumbæ

 

Fyrir grilljón árum síðan, eða svona 1968 eða svo, var ég á glansgellulistanum.  Ég fór ekki út úr húsi nema með árshátíðarmálningu (ekki einu sinni út með ruslið, hvað þá lengri vegalengdir), ég dressaði mig upp, ef ég þurfti að fara í mjólkurbúðina fyrir ömmu, ég hefði gætað rekist á væntanlegan kærasta á leiðinni.  Þið skiljið hvert ég er að fara.

Þetta kvöld sem er hér til umræðu var veðurfarslega eins og þetta, nema það snjóaði stöðugt, strætó gekk ekki og leigubílar komust hvorki lönd né strönd, hvað þá Skódar og Mozkowitsar.

En ég og Ragnheiður vinkona mín vorum á leið í Glaumbæ að hitta flottustu gæjana í bænum.

Klæðnaður og meiköpp var eftirfarandi:

Hvítur satínkjóll í pjöllusídd, sérsaumaður audda, leðurstígvéli sem náðu upp á læri, kallaðir melluskór af foreldrum mínum þegar ég heyrði ekki til, hátískuskór af öllum öðrum, brún sérsaumuð rúskinnskápa með tveimur tölum að ofan, að öðru leyti opin.  Gerviaugnahár á augum, ásamt þykkri línu af ælæner og grænum augnskugga ásamt teiknuðum augnahárum niður á miðjar kinnar, Twiggystæl.  Bleikur varalitur og brúnleit síð hárkolla fullkomnuðu sköpunarverkið.  Vinkonan var í stíl, litir aðeins öðruvísi.  Við vorum tvíburar í tískunni.

Hvernig kemst maður í Glaumbæ í þessum útbúnaði af Hringbraut Vesturbæjar, þegar ekki einu sinni var bílfært?  Við klæddum okkur í sjóstakka, (ekki úr sjómannsfjölskyldu fyrir ekki neitt) vitandi að það var ekki séns að þekkja okkur þar sem ekki sást út úr augum vegna ofankomu.  Svo óðum við skafla upp í heila.

Við náðum á áfangastað.  Við og ca. 15 aðrir plús starfsfólk.  Það var frítt á barnum, draumaprinsarnir komu ekki, en í staðinn voru þarna tveir ógissla sætir veðurathugunarmenn (svo við hæfi eitthvað), (nemar) sem dönsuðu guðdómlega.  Hljómar voru að spila, en ekki hvað, það hefði mátt rigna eldi og brennisteini áður en þeir færu að láta sig vantar.

Lærdómur þessar frásagnar er enginn.  Það er einfaldlega gaman að vera ungur, uppátækjasamaur og geta drepið fyrir tísku og fönn.  It´s all in the fun.   Það er ALLT hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Ég get vottað að meira að segja Mary Quant hárkollan og gerviaugnahárin högguðust ekki undir snjógallanum.

Þetta ættu allir að prófa einu sinni.

Og lag kvöldsins var:

Örugglega þetta eða eitthvað þessu líkt amk.


Allir á kafi í brjóstum

 

Ég fór í Bláa lónið í fyrrasumar með minni sænsku vinkonu, sem tók ekki annað í mál, en að endurnýja kynni sín við þennan bláa kísilpoll sem stuttu seinna varð svo grænn.  Í mínum huga er þetta fyrst og fremst húðflögusamansafn frá flestum löndum heims og úr hverjum krók og kima hundrað þúsunda líkama og þess vegna var þetta biggtæm fórn sem ég færði henni Ingu-Lill.

En varðandi brjóst og bann á berum brjóstum í lóninu þá datt mér nú í hug, þrátt fyrir að mér gæti ekki staðið meira á sama hvort konur valsi um lónið berar að ofan eður ei, var ég sko alls ekki að pæla í slíkum líffærum í lónarferðinni í sumar. Það sem vakti hins vegar mestu athygli mína var stór hópur Japana af báðum kynjum.

Þetta var hið glaðlegasta fólk.  Þau virtust eftir gleðilátunum að dæma, telja sig hafa lent í paradís á jörðu og þau voru afskaplega krúttleg, öll útmökuð í alþjóðlegum húðfrumum, blönduðum kísli.

Ég lá og flaut þarna eins og hveitisekkur og fylgdist með þessu glaða og bjarta fólki og það fóru að renna á mig tvær grímur.  Allar konurnar í hópnum, frá gelgjum og upp í nírætt (já þær voru arfagamlar sumar) voru í einhverskonar kafarabúningum mínus blöðkur og andlitsútbúnaðar (hvað þetta heitir allt saman).  Búningarnir voru síðerma, þær djörfustu voru með hálfsíðar ermar, þær voru líka með einhverskonar pils áfast búningnum sem náði niður á hné.  Gætu kallast sundkjólar.  A.m.k. átti fatnaðurinn ekkert skylt við sundboli.

Eldri dömurnar voru í síðerma kafarabúningum og gott ef það var ekki rúllukragi á sumum (smá myndrænar ýkjur), þær voru sem sé fullklæddar þarna í lóninu.  Nokkrar voru djarfar, sundbuxurnar náðu að  kallast kvartarar.  Þar sem þetta var svona fullklæðnaður á kvenþjóðinni, án undantekninga, get ég ekki skrifað þetta á tilviljun, þó ég fegin vildi.

705494_204

Hinir japönsku menn, voru líka á öllum aldri, gerðum og stærðum en það var það eina sem skyldi þá að.  Ekki kjaftur í boxertýpu-sundskýlu- ónei- spídó á línuna.  Það hallærislegasta sem fundið hefur verið upp í karlmanns sundfatatísku.  Þeir voru líka mjög glaðir og útmakaðir og... hálfnaktir.

Það stendur í viðtengdri frétt að 70% lónsgesta séu útlendingar (ekki skrýtið miðað við aðgangseyrinn),  og það er spurning um hvort það sé ekki öruggara að hafa hjartalækni á staðnum fyrir svona kappklæðninga í lóninu ef við íslensku förum að dúlla okkur mikið þar á brjóllunum í sumar?  Kannski eru svona brjóllaglennur of mikið fyrir fólk úr alls konar fjarlægum heimshlutum?

Þarf ég að taka fram að mér leið eins og glyðru í mínum svarta, venjulega sundbol þarna í kísilgúrinum?  Samkvæmt ofansögðu ætti ég ekki að þurfa þess en geri það samt, því fyrir suma þarf hreinlega að klippa allt út í pappa.

Æmkommingsúnmæblúlagún!

Úhúje


mbl.is Ber brjóst bönnuð í lóninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

London þá og nú

Þar sem ég er á leiðinni til Londres, er við hæfi að ég taki smá vapp niður minningagötu.  London var borg borganna hérna í denn.  "The swinging London", Bítles, Mary Quant, tískufrömuður, klúbbarnir, allt var best í London.  Fyrir mig og systur mínar, tískufríkin, var það toppurinná tilverunni að komast til London og versla föt.  Það var ekkert til hér á þessum guðsvolaða klaka, nema Karnabær og Drengjafatavinnustofan eða hvað það nú hét sem við framúrstefnulegu fórum og létum skraddera á okkur föt.

Hér er Twiggy í einum klassískum frá MQ.  Ég hefði myrt fyrir þennan kjól, en þurfti þess ekki, átti einn svipaðan.  Og skófatnaðurinn, GMG sjáið þessa

Svo var Biba búðin sú heitasta í bænum.  Á fimm hæðum, föt og allur pakkinn.  Ein flottasta verslun sem ég hef komið í.  Við áttum allar svona bol, get ég sagt ykkur

og svona skó líka,  eða líka þessum, minnir mig alveg örugglega

Hatt átti ég líka frá umræddri verslun og hann leit út einhvernveginn svona

Nema hvað minn var svartur og honum stolið af mér af ákaflega liggilegum manni.

Ójá.  Nú er Biba minnið eitt. Var það að minnsta kosti síðast þegar ég vissi, en alltaf kemur eitthvað skemmtilegt í staðinn.

Ég hef einhver ráð með að finna mér eitthvað skemmilegt.

Ætili það sé útsala hjá Stellu Paulsdóttur?

Písandnæsklóthing.

Úje!


Úff ég gæti sagt ykkur krassandi sögur...

 

..af megrunartilburðum mínum og minna systra og vinkvenna.  En af því að ég blogga ekki um annarra manna leyndarmál þá get ég svo sem sett ykkur inn í nokkrar góðar aðferðir sem ég hef prufað um dagana, sem virkuðu, alveg þangað til að þær hættu að virka.

Sko þetta með megrun og fitu er ógeðslega afstætt og persónulegt.  Þegar ég skoða myndir af mér afturábak í tíma, og af systrum mínum líka, sem voru með mér í megrunarrússíbananum, þá verð ég alltaf rosa hissa.  Við erum örmjóar á myndunum og ég hugsa alltaf: Af hverju hélt ég að ég væri ógeðslega feit þarna?  Af hverju hélt ég að ég yrði lögð í einelti á Óðali, Glaumbæ eða hvar sem væri, ef ég léti sjá mig svona spikfeita, opinberlega? Svona getur maður spurt en það verður fátt um svör.

Málið er einfalt.  Ég var andlegur offitusjúklingur og það hafði ekkert með líkamsþyngd mína að gera.  Ég gæti skrifað heilu ritgerðirnar um hvernig umhverfið mataði okkur stelpurnar á mjónunni, gegnum tísku, bíómyndir, leikkonur og fleira, en ég nenni því ekki.  Hér er mín reynsla til umfjöllunar.

Þegar ég vann í Eymundsson 21 árs gömul, fannst mér ég vera fituhlussa.  Ég fór í megrun.  Á einum mánuði náði ég nánast að afmá sjálfa mig af yfirborði íslenskubókadeildar Eymundssonar.  Ég var með matseðil.  Í hádeginu, ein ristuð brauðsneið með engu smjöri og skrælnaðri ostsneið ásamt vatnsglasi.  Kvöldmatur var pakkasúpa.  Á sunnudögum borðaði ég eina venjulega máltíð.

Fólk fór að tala um að ég væri að hverfa.  Það hljómaði eins og englasöngur í mínum eyrum.  Fólk sagði mér að ég liti út eins og Biafrabarn, ég hentist upp um hálsinn á því af einskærri hamingju og þakklæti.  Um leið og einhver sagði að ég liti vel út, dimmdi yfir lífi mínu og ég herti sultarólina enn frekar.

Ég fór á hvítvínskúrinn, hikk, hann virkaði en ég var ekki orðinn alki þarna og fékk ógeð á hvítvíni og greip. Ég fór á Prins Póló og kók kúrinn þangað til ég ældi lifur og lungum.  Scarsdale kúrinn var krúttlegur en tók alltof mikinn tíma. 

Ég landaði hinni fullkomnu megrunaraðferð með því að næla mér í magasár og bólgur og átti því erfitt mað að borða.  Ég var grindhoruð.  Þvílík sæla, alveg þangað til ég endaði nær dauða en lífi inni á Lansa.

Samt hef ég ekki verið feit svona yfirleitt ef undan eru skilin meðan ég drakk og át pillur og einhverjir mánuðir til eða frá eftir barnsburð.

Þetta er nefnilega ekki spurning um raunverulega vikt, heldur hugsanavillu.

Það sem ég er að pæla héra.  Af hverju er svona auðvelt að fokka í ímynd okkar kvenna?  Ég er að verða fimmtíuogeitthvað innan fárra daga og enn er ég heltekin af kílóum.  Ætlar þessum andskota aldrei að linna?

Þriðji hver Breti er í stöðugri megrun.  Einhvernvegin er ég viss um að stór hluti þeirra eru konur.

Itsjúrlíbítsmí.

Úje


mbl.is Þriðjungur stöðugt í megrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær færsla...

..hjá honum Óla Birni Kárasyni, þar sem hann veltir fyrir sér hverjir fá frumsýningarmiða hjá stóru leikhúsunum og fleira.  Hvet alla til að lesa þennan pistil hér.

Óli Björn varpar líka fram eftirfarandi spurningum.

  1. Hverjum er boðið á frumsýningar?
  2. Hversu margir frumsýningargesta greiða sinn miða sjálfir?
  3. Hvert er hlutfall greiðandi frumsýningargesta og boðsgesta?
  4. Hvað kostar aðgöngumiði á frumsýningu?
  5. Eru boðsgestir á aðrar sýningar en frumsýningar?
  6. Hversu margir boðsgestir voru í leikhúsinu á árinu 2007?
  7. Hver (hverjir) og hvernig er tekin ákvörðun um hverjum skuli boðið sér að kostnaðarlausu í leikhús?
  8. Er sama fólkinu boðið á allar frumsýningar eða breytist boðslistinn eftir því hvaða verk er á fjölunum?
  9. Hvaða rök liggja að baki því að nauðsynlegt er talið að ákveðnum hópi sé boðið í leikhús án greiðslu?
  10. Getur það haft neikvæð áhrif á leikhúsið að afnema boðslista?

Þetta eru spurningar sem flest allir vilja fá svör við.  Það væri líka kærkomin nýbreytni að stofnarir í eigu almennings væru með svona hluti uppi á borðinu, okkur kemur þetta við.

Og svara svo.


Alein og skítblönk

Heather_Mills_381557a 

Auðvitað á maður ekki að vera að velta sér upp úr slúðri, en akkúrat núna hef ég ekkert betra að gera.  Stundum dettur maður inn í "fréttir" sem eru svo bilaðar og langt frá öllum raunveruleika, að það er ekki hlægjandi að því, jafnvel þó ég hafi skellt upp úr.  Svona: Hahahahaha

Heather Mills, fórnarlamb dauðans, verður ein og yfirgefni á fertugsafmælinu á morgun, en það segja vinir hennar.  Hún er úrvinda eftir skilnaðinn við Babyface McCartney, og svo hefur hún ekki efni á almennilegri veislu.

Bíðið á meðan ég æli aðeins lifur og lungum hérna.

Hefur ekki efni á!!!!  Konan veit ekki aura sinna tal og hún lætur sig ekki muna um að standa í þjarki við karlfauskinn, fyrrverandi, út af einhverjum millum til eða frá.

Ef ég hefði vitað af bágri fjárhagsstöðu hennar aðeins fyrr, þá er aldrei að vita nema ég hefði hafið söfnun fyrir stelpuna,   Ég telst nú seint  til ríkra kjéddlinga en ég var með yfir 100 manns í mínu fertugs, söngatriði, KK og alles og lifði það af, fjárhagslega og mikið rosalega var það gaman.  En sú saga verður sögð seinna.

Æi ég ætla að hugsa til hennar á morgun, hún skellir sér væntanlega á Burger King eða eitthvað og fær sér að borða í litla fátæka mallan sinn.

Til hamingju með afmælið vúman, við erum í sama merki honní.W00t

Cry me a fucking river!


mbl.is Ein og yfirgefin á fertugsafmælinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftablogg

 

Þetta er spjallblogg.  Mér leiðist.  Ég held að flensan sé að lagast og nú dembi ég yfir ykkur kaffispjallinu mínu og þið sem þolið ekki sígó, verðið úti bara, því nú er ég að reykja. Muhahahaha

Einhver var að kvarta yfir blúndunni minni sem ég heklaði með erfiðismunum á Þorláksmessu, þessari sem prýðir nú síðuna mína.  Hún er ennisband. Viðkomandi fannst garlakerlingin flottari, en ég bendi á að hún er ekki í réttri stærð.  Það var nefnilega fín kona sem skrifaði mér og sagðist sakna blúndunnar og þar sem ég er ekki vön að fá hrós fyrir handavinnu, var ég ekki lengi að skella henni upp aftur.

Tommy Lee er á leiðinni og ég las á visi.is að allar stelpur væru brjálaðar í að fá að sofa hjá honum eða eitthvað sollis.  Iss, útjaskaður og ofvirk skarnahrúga náunginn, en hann er víst voða partýkarl.  Þær vilja örugglega bara skemmta sér með honum stelpurnar.  Ekki sofa.  Alltaf verið að ljúga upp á íslenskt kvenfólk.

Sko, ég get sagt ykkur smá semi slúður.  Hún Maysan mín var í samkvæmi á B5 á nýárskvöldi og þar kom Tarantino og fullt af liði og þegar ég spurði Maysuna hvort hún hafi náð að taka í spaðann á honum, þá sagði hún mér að það hafi ekki verið hægt að sjá skuggann af manninum vegna þess að hann var umkringdur yngismeyjum.    Halló, eiga allir séns hérna?  Hann er ekki sá sætasti í bransanum eða hvað?  Ég fæti ekki með honum í Hagkaup.  Ég fer bara með myndarlegum mönnum að kaupa í matinn.

Og eitt að lokum.  Úff, sú frétt gladdi mig svakalega.  Þeir í Seltjarnaneslauginni brjálast ekki og hringja á lögguna eða eitthvað ef konur henda af sér brjóllanum og eru berar að ofan í sundi.  Sjúkitt, hvað það hlýtur að gleðja marga.  En hvernig ætli þessu sé háttað í Árbæjarlaugunni, ég er svona að pæla. Jeræt.

Later!

Rock the world

Úje


Ég hata farsa..

flea

..og mér er sama þó ég fái stóran hluta íslensku þjóðarinnar upp á móti mér.

Einu sinni gerði ég þau leiðu mistök 197ogeitthvað að kaupa mig mig inn á Flónna þegar búið var að sýna hana hundraðoggrilljón sinnum í Iðnó.  Ég hugsaði með mér, það hlýtur að vera eitthvað áhorfs- og upplifunarvert, í gangi þarna,  fyrst íslenska þjóðin er búin að sjá þetta verk sinnum tveir á kjaft.

Það er skemmst frá því að segja að  ég varð mjög þreytt.

Farsi gengur út á að fólk hlaupi inn og út um hurðir, þ.e. um leið og ein hurð lokast, þá opnast önnur og einhver sem er að leita að þeim sem fór inn um fyrri hurðina, kemur inn og hleypur síðan út um þá þriðju, þá kemur þessi úr hurð nr. eitt og stekkur í kasti út um hurð nr. fjögur.  Þetta er eiginlega farsinn í hnotskurn.  Plús misskilningur á misskilning ofan. Mjög skemmtilegt, ég hlæ: Hahahahaha.  Búin að hlægja.

En... ég hló í alvörunni þarna á Flónni.  Það var vegna þess að það sat hjá mér kona sem hafði svo smitandi og skemmtilegan hlátur, að ég hefði þurft að vera dauð og stjarfi komin í mig, til að hlægja ekki með þessari konu.  Hún var dásamleg.  Hún skemmti sér konunglega og bjargaði lífi mínu.

Ekkert hefur breyst.  Flóin er að meika það bigg á Agureyris.  Farsar gleðja landann.

Hvað er þá að mér?

Farin til sála.

En ökutíma ætla ég að sjá, jafnvel þó ég þurfi að "keyra" norður.

Úje.


mbl.is Nær uppselt á 15 sýningar á Fló á skinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 2988405

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.