Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Blóðfurstinn ógurlegi

Húsbandið á afmæli, hann fékk að ráða sjónvarpsglápi kvöldsins.

Myndin sem "við" ákváðum að horfa á er "The exorcist, the beginning".  Það má svo sem koma fram að það var ekkert nema Yaya sisterhúddið sem seinni valkostur í stöðunni. 

Ég horfði á "The Shining" fyrir misskilning 198-tíuogeitthvað og hef síðan ekki borið mitt barr.  Í fleiri mánuði gat ég ekki gert upp við mig hvort ég ætti að sofa með ljósið kveikt eða slökkt, þar sem ég var skelfingu lostin vegna helvítis myndarinnar.  Here´s Jhonny, hefur meitlast óafturkallanlega inn í sálina í mér.  Þetta leiddi til ákvörðunar.  Aldrei myndi ég horfa á djöflahryllingsmyndir, né aðrar, ef út í það er farið.

En nú skyldi vaðið í særingarmanninn.  Ég tolldi í hálftíma, en þá var mér orðið óglatt, hjartað komið upp í háls og mér varð ljóst að ég var stödd mitt í minni eigin sjálfspyntingu.

Ég: Heyrðu, af hverju erum við að horfa á þennan viðbjóð.

HB: Þetta er spennandi.  Þetta er bara ævintýri.  Þú veist að þau enda öll vel.

Ég:  (pirruð) en ef þau enda vel og við vitum það, getum við ekki bara gert eitthvað annað, mér er óglatt.

HB: Þetta er bíómynd, óþarfi að láta eins og þetta séu aftökur í beinni.

Ég játa það að stundum skil ég ekki karlmenn og alls ekki þann sem ég gekk með upp að altarinu síðast þegar gifti mig.Wizard  Ég vissi ekki að ég væri að giftast blóðfurstanum ógurlega.W00t

En ég er á netinu og afmælisbarnið situr og horfir án þess að skammast sín.  Verð að játa að þetta er nýr eiginleiki hjá manninum, ekki skammleysið sko, heldur áhuginn á særingamanninum.

Nú þori ég ekki að fara að lúlla.  Hvað veit ég nema hann tæti mig í öreindir sínar, þar sem ég ligg blásaklaus í rúminu.  Ég held að hann sé haldinn einhverjum anda.

Muhahahahahahaha!


..og svo fóru bloggheimar af stað..

Ég horfði á viðtalið við Láru Ómarsdóttur í Íslandi í dag.  Mér finnst hún ferlega flott stelpan.  Þarna tók hún ábyrgðina á mistökunum, hikstalaust og mættu fleiri taka hana sér til fyrirmyndar.

Mér finnst reyndar þetta mál engan veginn svo alvarlegt að Lára þurfi að segja upp.  Ég trúi henni þegar hún segir þetta hafa verið kaldhæðni og að það hafi aldrei átt að heyrast.

Ég held að Lára ætti að endurskoða sína uppsögn.

En að öðru.  Þegar málið var rætt, bæði í Íslandi í dag og svo í Kastljósinu, þá heyrðust setningar frá spyrlum sem dæmi:

"Einhverjir bloggarar" og

"svo fóru bloggheimar af stað". Dæs.

Það er ekki laust við að mér finnist að fjölmiðlamenn séu margir rosalega pirraðir út í bloggara.  Eins og það að blogga geri mann að ótýndum lýð,.

Kannski hugsa sumir með eftirsjá til þeirra tíma, þegar almenningur hafði ekki tök á að láta rödd sína heyrast, ég veit það ekki.

Við sem bloggum erum misjöfn og öll gerum við mistök.  Ég persónulega ét mín ofan í mig þegar ég fer offari, eða leitast að minnsta kosti við að gera það.

En Lára Ómarsdóttir á virðingu mína óskipta.  Svo má hún hætta við að hætta.

Og nú hef ég lokið máli mínu... í bili.


mbl.is Hættir sem fréttamaður á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pálma að kenna

 

3

Það er Pálma að kenna að ég brest út í söng, hvern einasta sumardaginn fyrsta.

Sko, það er komið sumar, sól í heiði skín.  Ég flippa út.  Spurning hvort ég fái hann ekki lánaðan "live" frá Önnu,  til að syngja fyrir húsband, svo ég endi ekki hérna alein með sjálfri mér bara.

Það þolir nefnilega engin að heyra í mér söngröddina, það brestur á fjöldaflótti.

Ég reyndi að komast í kór 9 ára og var látin syngja "Siggi var úti" og söngkennarakjéddlingin lét mig syngja eina fyrir framan alla.  Ég var svo feimin, fyrir utan þá dapurlegu staðreynd að röddin var/er eins og hjá dagdrykkju- og stórreykingamanni, þannig að ég komst ekki inn.  Ekki Inga vinkona heldur, en hún söng mun verr en ég (segi sonna).  Það var fyrsta höfnunin sem ég fékk í lífinu.  Ég lagðist í rúmið.  Andlega sko.

Það sem enginn veit, hinsvegar, að ég syng eins og næturgalinn sjálfur í huganum.  Slaufur og alles. 

Ég held stöðuga tónleika fyrir sjálfa mig og er yfirkomin af hrifningu og tilfinningum.

En einu sinni söng ég opinberlega, með vini okkar hjóna, ásamt húsbandi, viðlagið Aaaaaa-apótek.  Passandi fyrir fyllibyttuna mig.  Við stóðum og seldum áfengi á bar, sennilega fór jafn mikið magn ofan í hina syngjandi barþjóna og kúnnana sem við afgreiddum.  (Böggi og Lísa þessi upprifjun er í boði hússins).

Þetta var áður en ég áttaði mig á að ég væri alki og ég var ekki í nokkurri einni einustu kvöl þarna á barnum og upplifði í fyrsta og eina skipti á æfinni að ég gæti sungið.  Janis Joplin, snæddu hjarta. 

En það er langt síðan.

Þegar húsbandið kemur út plötunni sinni, áður en hann deyr, ekkert miðilskjaftæði hér, þá er hann æstur í að fá mig á plötuna, sko bara í sekúndubrot, til að gera rödd mína ódauðlega.  Hann segir að ég hafi ákaflega sérstaka rödd.W00t

Meira að segja Jenný Una á það til að segja ákveðinni röddu þegar ég hef upp raust mína.

Amma, ekki syngja, þaer ekki fallegt!

En ykkur að segja er ég algjört fokkings söngséní.

Lalalalala

Það er komið sumar krakkar mínir, hafið það gleðilegt.

Úje. 

 


Valdhroki

Ég stend oftast með konum, ef mér er það lífsins mögulegt.  Sem er ekki alltaf.  Ég vil veg kvenna sem mestan, amk. sem jafnastan, ef ég á að aula þessu rétt út úr mér.

En það er ekki mikil samkennd í mér með Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, borgarfulltrúa og meirihlutafrömuði.  Í færslu sinni í morgun hæðir hún Hollvini Hallargarðsins á ósmekklegan hátt.  Hún segir þá hafa verið átta á stofnfundinum og á þá væntanlega við að þeir hafi verið svo fáir að þeir skipti ekki nokkru einu einasta máli.  Þeir megi pípa, tuða og röfla, hún og aðrir sem sitja að kjötkötlum borgarinnar, ætla ekki að skenkja þeim þanka.

Hér má sjá þessa átta en um stofnun samtakanna var fjallað í fréttunum á Stöð 2.

Ég er ekki í þessum samtökum en ég styð þetta fólk af heilum hug og ég vill ekki hafa neitt rask í þessum garði og ég vil ekki sjá þetta fallega hús fara í hendur einkaaðila.  Ég hef bloggað um það áður og er alls ekki hætt.

En hver rödd skiptir máli.  Í hvert skipti sem einhver leggur á sig að mótmæla eða segja skoðun sína á málefnum, sem almennur borgari, þá er lágmark að þetta lið sem sem slefar ofan í okkur fyrir kosningar, sýni þá lágmarksvirðingu að hlusta.

Þorbjörg Helga, ég er að klippa þetta út í pappa fyrir þig.

Sumir eiga ekki að hafa völd, sumir eiga einfaldlega að vera heima og lesa.

Ég myndi kalla þetta bölvaðan tæfuskap ef ég væri ekki dedd á því að nota ekki það orð um svona fróma konu.

Nú förum við öll í vegg - hollvinavegg.


Bókablæti

Mig vantar stærri íbúð.  Sko, ég er með bókafetish og þær hrannast upp hér og bókahillur eru allar kjaftfullar og ég hef ekki pláss fyrir fleiri.

Nú hef ég hafið bókastöflun á gólfi við hilluvegg.  Bækur og föt, einkum svört föt, eru minn veikleiki.  Ég sagði frá því hérna á blogginu um daginn, að ég tryði því að svara væri að leita í bókum og ég er ekki að grínast.

Níu ára gömul var ég búin að lesa bókasafnið í Verkó, upp til agna.  Nema ættfræðibækur og símaskrá safnsins.  Þá bar vel í veiði.  Ég fann hnausþykka bók sem hét "Dóttir Rómar".  Ég fór með hana heim, ásamt Möttu Maju vinkonu minni frá Bergen í Noregi (já, bókinni um hana).  Konan sem afgreiddi mig hélt að ég væri ekki nógu gömul fyrir bókina, ætti kannski að taka hana seinna, en ég lét varnaðarorðin sem vind um eyru þjóta.

Ég man ekki efni bókarinnar upp á tíu en í níu ára hausnum á mér uppgötvaði ég heim sem var ekki í glanslitum.  Bókin var um vændiskonu og algjörlega undir rós, og eins og vanalega þorði ég engan að spyrja.  En þarna áttaði ég mig á að heimurinn væri stór, óhugnanlegur, spennandi og máekki, án þess að hafa hugmynd um hvers vegna.

Hvað um það, ég kaupi mér bækur á laugardögum.  Reyndar ekki núna á þeim síðastliðnum, en ég hugsa sem svo, búandi hér uppi í óbyggðum, að geri ég mér ekki sérstaka ferð í Eymundsson, þá á ég aldrei beinlínis leið þangað og þá enda ég með að lesa í blöðunum allar þær bækur sem ég VERÐ að eignast.  Ég er að safna arfi fyrir frumburðinn.  Fataskápurinn gegnir líka hlutverki í málefnum um erfðir, en til annarra og síðari fæddra dætra.  Það er ekki eins og maður skilji eftir sig gull á lager.

Næsta laugardag verður gaman að lifa.  Ég ætla að kaupa nýju bókina hans Þórarins Eldjárn.  Komplett ritsafn í einni bók. 

Lífið er fokkings dásamlegt.

Úje.


mbl.is 4,6 bækur á hverja þúsund íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saumaklúbbur á einkamál.is

Ég var einu sinni hollvinur HÍ, er það kannski ennþá, veit ekki hvort það er dregið af mér um mánaðarmót, er ekki með mikla yfirsýn á áskriftir og vinafélög.

Ég er af skiljanlegum ástæðum, ekki í hollvinafélagi Hannesar Hólmsteins, en örvæntið eigi, það eru aðrir í því.  Frusssssssss

Sniðug svona hollvinafélög.  En hvað er hollvinur?  Getur maður verið vinur án þess að teljast hollvinur?  Ég geng út frá því að vinátta manns sé aðeins við fólk  og þá fólk sem manni er ekki mjög illa við, eða er það ekki útgangspunktur?

Kona spyr sig.

Sko, ég er arfabrjáluð út af sölunni á Fríkirkjuvegi 11, sem á að vera í eigu borgarinnar auðvitað og svo á að nota húsið til listrænnar starfsemi og svo mætti stofna þar barnamenningarhús.  Tækifærin eru ótal mörg.

Hvað um það, ég sé í visi.is að Hollvinafélag Hallargarðsins muni verða stofnað á morgun í Hallargarðinum.  (Ætli það sé tilviljun?).  "By all means" myndum þrýstihóp um átakið en ykkur að segja þá finnst mér tilhugsunin um að eiga garð fyrir hollvin sökka alveg ferlega.

Það mætti halda að maður væri desperat.  Svona eins og að fara á einkamál.is til að leita sér að saumaklúbbi.  Kommon.

En ég styð félagið ekki spurning.

En ég segi það satt að það er ekki í lagi heima hjá mér.

Ég elska ykkur samt.

Súmítúðebón.

Újeeeeeeeeeeeeeeee

 


Þar sem kapítal er tónsprotinn

11 

Ég á góðar minningar frá Fríkirkjuvegi 11, gamla Æskulýðsráðinu.  Þar var opið hús á kvöldin þegar ég var gelgja og á sunnudögum var hljómsveit og dans.

Ég vangaði, kyssti strák/a á þessum stað í fyrsta  og annað sinn.  Ég varð ástfangin í fyrsta sinn í þessu húsi. Ég grét úr mér augun á klósettinu, úr minni fyrstu ástarsorg sem gekk yfir á korteri, reyndar, því þá hafði ástin heltekið mig á ný.   Ef veggir gætu talað, ómæómæ.

En ég er komin af íslensku alþýðufólki í báðar ættir og ég verð stoltari af því með hverjum deginum sem líður.  Ég hefði þess vegna ekki átt séns í að geta keypt Fríkirkjuveg 11, þrátt fyrir að eiga þar pjúra þroskasögu án ættartölu auðvitað.  Það geta ekki allir verið Thors.  Söluauglýsingin var eiginlega sniðin fyrir væntanlegan kaupanda, þannig að enginn varð hissa þegar Björgúlfur Thor keypti húsið.

Ég hef ekkert á móti Björgúlfi Thor, en ég hef heilmikið á móti því að þessi perla í miðbænum og garðurinn við hana, fari í einkaeigu.  Það felur í sér t.a.m. að garðurinn verður lokaður af með lögregluvaldi, ef á þarf að halda, nokkrum sinnum á ári, þegar fyrirfólk (ég æli) á leið í húsið.

Skammastu þín Ólafur F og afgangurinn af valdaræningjunum í borginni.  Þetta hús er innmúraður hluti að sögu borgarinnar og á að vera til alemmingsnota.  Þarna er hægt að setja upp alls kyns starfsemi, fyrir fólk á öllum aldri.  Skammsýnin hjá borgaryfirvöldum er með ólíkindum.

Má eiga von á því að einhver grillinn kaupi Iðnó fljótlega til að nota sem einkaheimili?  Þá má jafnvel sjá bláblóðunga sigla um á tjörninni?

Mig hryllir við framtíðarsýninni þar sem kapítal er tónsprotinn.

Ekki nóta þar.


mbl.is Garðinum lokað ef gesti ber að garði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr landi með morðingjann

Ég er höll undir fjölmenningarþjóðfélag.  Mér finnst þau ákjósanlegri en hinn kosturinn.

Plúsarnir eru fleiri en mínusarnir, það held ég að sé alveg á hreinu.  Einkum og sér í lagi er frábært að fá fólk til Íslands, sem liggur úti í Ballarhafi, þar sem þjóðin er fámenn og allir undan öllum. 

Frusssssssss meiri viðbjóðurinn.

En, án gamans, það er öllu skemmtilegri bragur á þjóðlífinu eftir að nýjum Íslendingum tók að fjölga.

Það sem ég hins vegar vill að verði tekið á er að grunaðir morðingjar og fólk sem eftirlýst er í heimalandi sínu, sé sent þangað sem það á heima.

Ég skil ekki hvers vegna löggan er ekki búin að koma þessum eftirlýsta manni úr landi þar sem þeir vita um fortíð hans. ´

Flestir Pólverjar eru vinnusamt og heiðarlegt fólk, og þeir eiga ekki að þurfa að vera í tilvistarkreppu og verða fyrir aðkasti sem þjóð vegna nokkurra svartra sauða.

En burt með andskotans ofbeldismennina sem ríða húsum og gera líf okkar þegnanna allra að helvíti. 

Annars er mér sama hverrar þjóðar ofbeldismaðurinn er, þeir eru allir óæskilegir í mannlegu samfélagi á meðan þeir eru virkir í óþverraskapnum.  Það á að senda skýr skilaboð til þeirra, að það hafi afleiðingar að meiða fólk.

Íslensk skáldkona sagði einu sinni þessi vísu orð (reyndar í öðru samhengi en slétt sama); "það skiptir engu máli hvaða þjóðerni er áfast hinum endanum á tittlingnum".

Ég hallast að því að hún hafi haft rétt fyrir sér þar.

Hananú.

P.s. Af gefnu tilefni þá vil ég taka fram að ég sé enga lausn í sakavottorðum.  Enda fólk víða um heim á sakaskrá fyrir að mótmæla þjóðfélagsskipulagi svo dæmi sé tekið.

En eftirlýstir morðingjar og dæmdir ofbeldismenn mega fjúka.


mbl.is Hefur enn ekki gefið sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er kolfallin fyrir Sigmundi Erni

 060361-2079

Ég er fallin fyrir Sigmundi Erni Rúnarssyni, manninum með hin stingandi augu.  Ég held að hann hljóti að vera toppmaður í rannsóknarblaðamennsku.  Maðurinn hlýtur að sjá gegnum holt og hæðir með röntgenaugunum sem fylgdu honum við fæðingu. 

SE á pláss í hjarta mínu eftir að hafa fyrstur notað hina (of)nýttu setningu; "auglýsingar eru handan við hornið". 

En það eru ekki augun sem hafa orsakað fall mitt.  Heldur þátturinn hans, Mannamál.  Ekki svo mikið viðmælendurnir, en þeir eru upp og niður eins og gengur, heldur menningarumfjöllunin, þar sem Gerður Kristný og Katrín Jakobs, fara á kostum.  Reyndar hef ég séð Gerði Kristnýju oftar og hún er frábær og skelegg.

Svo er það hið frábæra framtak "The eye man" að hafa Einar Má til að flytja okkur pistilinn.  Mikið andskoti var hann góður í gærkvöldi.  Það munaði engu að ég ryki upp á Stöð 2 og léti manninn átógrafa á mér upphandlegginn.

Ég segi ykkur það, að Ray Davis í Kinks skrifaði einu sinni á handlegginn á mér og ég gekk með viðkomandi útlim í plasti, vikum saman, eða þar til önnur músíkhetja varð mér hugleiknari og þá var Ray settur út af sakramentinu og útlimurinn lagður í lút.  Æi þið vitið, mórallinn hjá úllanum alveg: Either your in or your out fyrirkomulagið.

Svo skammaði SE,  Þorgerði Katrínu fyrir að tala of mikið.  Kommon Sigmundur, er til stjórnmálamaður sem ekki þjáist af ofvirkni í  talfærum?  Æ dónt þeink só.

Habbíhúbba hvað ég elska mánudaga.

Nema þegar þeim sökka.


Sjúskað og sjoppulegt

Stundum óar mér við sjálfri mér.  Ég vil vera víðsýn, opin fyrir nýjungum, hipp og kúl í alla staði.  Úje. 

En..

það er ekki alltaf þannig.  Stundum er ég blákalt íhald og ákveðnir hlutir eiga ekki að breytast, að mínu mati. 

Ég vann um nokkurra ára skeið í Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar í Austurstræti.  Eymundsson byrjaði að versla með bækur 1872.  Á meðan ég vann hjá Eymó, urðum við 100 ára.  Það var rosa partý og dúndur gaman.

Ég elskaði vinnuna mína.  Ég ýki ekki þegar ég segi að ég vissi um hverja skruddu sem til var í búðinni, hver gaf út hvaða bækur og útgáfuár.  Ég vissi líka hvaða bækur voru fáanlegar hjá forleggjara og hverjar ekki.  Þetta heitir metnaður í starfi.

Það var eins og að vera barn í sælgætisbúð að vinna í Eymó.  Fyrir mig bókaorminn var þetta himnaríki á jörð.  Ég skemmti mér konunglega upp á hvern dag.  Ég byrjaði í búðinni 19 ára og hætti 24 vegna þess að ég flutti til Köben. 

Eymundsson var klassabúð.  Þangað komu allir sem voru læsir og fóru í miðbæinn.  Þar voru allir andans menn þess tíma daglegir kaffigestir.  Það var stíll yfir Eymundsson.

Þess vegna get ég grátið (búhú ég hendi mér í vegg hérna), þegar ég les um allar Eymundssonbúðirnar sem spretta upp eins og gorkúlur,  í stórmökuðum og verslunarklösum.  Sumir hlutir eiga að vera óbreyttir.  Þeir eiga að vera minnisvarði um tíma.  Tíma sem er farinn og kemur aldrei aftur.

Ég vil ekki versla bækur í stórmörkuðum.  Það er sjoppulegt og sjúskað.

Það er törnoff dauðans að kaupa t.d. kjötfars og Atómstöðina í einni og sömu körfunni.

Og hafiððiþað.


mbl.is Fjölskylduvæn verslun Eymundsson opnar í Holtagörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 2988399

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.