Færsluflokkur: Ljóð
Sunnudagur, 22. apríl 2007
JÚRÓ, KOSNINGAR OG STÓRAFMÆLI
...allt þann 12. maí nk. Þá verður fallegasti smádrengurinn í heiminum tveggja ára. Hann verður fjarri góðu gamni þetta krútt af því að hann er búsettur í heimsborginni London. Amman ætlar samt ekki að sleppa afmælispartíinu því hún ætlar að grilla, bjóða upp á íþþþ og fleiri ullabjökk. Það verður ekki nærri því eins gaman og ef Oliver væri hér, en við látum ekki svona stórafmæli líða án þess að halda upp á það þrátt fyrir að afmælisbarn dagsins sé svona fjarstaddur ásamt mömmunni og pabbanum. Rosalega er yngsa ömmubarnið orðið stórt. Úff Maysan ég veit að þú ert daglegur lesandi bloggsins hennar mömmu þinnar. Komdu heim!!!
Það erum ekki bara við amma-Brynja sem teljum afmælið hans Olivers einn merkasta dag ársins. "The eurovision song contest comitee" sér ástæðu til að halda upp á daginn með söngvakeppninni í Finnlandi. Hið íslenska kosningabatterí var líka með Oliver í huga þegar kosningadagurinn var ákveðinn. Kæra fólk þið getið líka tekið þátt í afmælinu hans Olivers Einars. Þið farið og kjósið rétt, hlammið ykkur svo niður fyrir framan sjónkann og horfið á Eirík taka söngvakeppnina með vinstri.
Elska ykkur litla fjölskylda.
Og að lokum nokkrar myndir frá því að Maysan var hér í mars sl.
Ímó, Andrea, Maysan og Oliver Maysan ofvirka á hlaumpum Andreasan og Mayshildur Djóns
Ljóð | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 21. apríl 2007
KONUR OG VARALIÐ
Athyglisvert finnst mér að konur skuli vera í meirihluta þeirra sem vilja varaliðið hans Björns. Mér finnst það svo úr takti. Mín reynsla er sú að karlmenn trúi frekar á myndbirtingu valdsins. Ég skrifaði færslu um þessa hugmynd Björns fyrir einhverju síðan og ég tók þessu alltaf sem hálfgerðum brandara í héraði. Fannst eins og Björn væri að neyta allra ráða til að koma á fót herliði. 50,9% þeirra sem tóku afstöðu voru hlynnt því að varaliði lögreglu verði komið á fót.
Mesta andstaðan við varaliðið hans Björns er hjá VG en 57,8% þeirra eru andvígir. Ég get auðvitað stólað á mitt fólk. Ég hef ekki trú á hernaðarlegum tilburðum ráðherrans. Ég held að vinstri-grænir, sem eru á móti öllu stríðsbrölti og viðlíka hlutum hugnist þess vegna ekki hugmyndin. Það er mín afstaða sem friðarsinna sem gerir það að verkum að um mig fara ónot. Nær væri að taka þátt í kostnaði björgunarsveitanna og efla þær en þær vinna ómetanlegt starf í þágu okkar alla.
Ég minni svo á bara í framhjáhlaupi að það er EKKI vitlaust að setja X við V þ.12.maí n.k.
Meirihluti hlynntur stofnun varaliðs lögreglu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Laugardagur, 21. apríl 2007
AMMA MEGATÖFFARI
Á morgun er fæðingardagur langömmu minnar, Helgu Óladóttur, sem fæddist 22. apríl, 1879 við Reyðarfjörð. Ég ólst upp hjá þessari ömmu minni og hún er sú kona sem mótað hefur mig hvað mest og ég hef haft að fyrirmynd umfram aðra. Amma var komin hátt á áttræðisaldur þegar ég kom til hennar og Óla frænda en hann var elsti sonur hennar og þau héldu saman heimili. Amma var yndisleg kona, hrein og bein, alls ekki allra en þegar börn áttu í hlut var hjarta hennar meyrt og hún var okkur öllum undur góð. Hún ól upp sín eigin börn, sum barnabörnin bjuggu hjá henni í lengri eða skemmri tíma og svo ég að lokum.
Amma Helga hafði upplifað stórkostlega hluti. Hún var "live" mannkynssaga. Hún sá þegar rafmagninu var veitt á Seyðisfjörð, var með þegar útvarpinu, símanum og öðrum stórkostlegum uppfinningum var hleypt af stokkunum. Hún var á Alþingishátíðinni á Þingvöllum, var heilan dag á leiðinni þangað (var endurtekið með umferðastíflunni miklu 1994) í kerru og var að öllu leyti í hringiðu atburðanna.
Amma Helga hafði þurft að hafa fyrir lífinu. Hún var sett til "vandalausra" 9 ára gömul þegar pabbi hennar dó og heimilið var leyst upp. Hún var ein af þessum fátæku alþýðukonum sem létu ekkert stöðva sig þegar kom að börnunum hennar og hún og afi minn Jón Jónson frá Vogum héldu úti heilli verstöð að Skálum á Langanesi þar sem hún eldaði, þreif, þvoði og gerði allt það sem kona gerði á þessum árum og meira til.
Föðuramma mín Jenny Andea Jónsdóttir (jabb þaðan kemur nafnið) var yngsta dóttir hennar. Amma Helga átti sex börn. Þau voru öll flott úr garði gerð, flest sjálfmenntuð og spennandi karakterar. Frú Helga var megatöffari. Hún sagði mér að hún hefði gjarnan viljað vera sjómaður og geta silgt um höfin og séð framandi lönd. Í staðinn gerði hún aðra tilfallandi hluti fyrir utan að vera með stórt heimili. Hún lék með leikfélaginu á Seyðisfirði og hún tók á móti börnum þegar þess þurfti og var sálusorgari allra þeirra kvenna sem um sárt áttu að binda. Hún var verndari allra þeirra sem minna máttu sín og var eðalkrati í hjarta sínu.
Hún var hvöss, hreinskilin, stundum óþægilega hreinskilin og vei þeim sem hölluðu orði að "skjólstæðingum" hennar. Hún var kona sem gustaði af. Hún vissi símanúmerið í Glaubæ og í Æskulýðsráðinu þegar ég var farin að stelast þangað og lét pabba hringja og láta kalla mig upp!! Barnið skyldi ekki í sollinn. Við fengum kanasjónvarpið þegar ég var tíu ára og krúttið hún amma sat í stofudyrunum, eins langt frá sjónvarpinu og hún mögulega gat, með sólgleraugu og horfði á elskuna hann "Lárens Velk" og hann "Litla Djó" í Bónansa og var guðdómlega fyndin og bara krútt. Þetta er nú að fá leikhúsið heim í stofu fannst henni. Hún blótaði ekki fyrir framan börn en notaði "prímotans átjándinn" í staðinn en hún hélt því fram að þetta væri góð og gegn formæling austan af fjörðum.
Þessi kona var þungamiðjan í lífi mínu þar til hún lést 93 ára gömul. Kærleiksríkari konu hef ég ekki enn rekist á. Í dag er hún sterk í huga mér. Hún framkallar bara góða hluti og hún gaf mér yndislega bernsku sem ég bý að enn í dag. Smútsj á þig ömmukrútt.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 21. apríl 2007
FLEIRI TJALDÓÐIR EN ÉG
Ég á mér greinilega andlega bræður í tjaldheiminum. Lögreglan var kölluð í austurborgina í gærmorgun og þar var útlendingur búinn að tjalda á einkalóð (krútt!) og var að snæða morgunmat þegar löggan kom og tilkynnti honum að hann mætti ekki vera þarna. Löggudúllurnar leyfðu ferðamanninum að klára matinn áður en hann pillaði sig. Tjaldstæði eru yfirleitt ekki opnuð fyrr en um miðjan maí (halló það er formlega komið sumar) og nú er ekki vitað hvar maðurinn hefur holað sér niður. Ég skil þennan ferðalang all svakalega vel. Sbr. færslu hér að neðan.
Adjö!
Tjaldað í austurborginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. apríl 2007
NOSTALGIA
Sá þessa mynd af Sanasol flösku á einhverri bloggsíðu og fór samstundis aftur á bak í tíma og fór að velta fyrir mér hversu ljúfar minningarnar úr bernsku minni eru. Þær er hægt að framkalla með bragði og lykt t.d. Sanasol var mér gefið sem barni vegna þess að lýsi fékkst ekki ofan í mig vegna ættgengar klígjugirni. Bragðið var af vítamínum og appelsínum og mér fannst það nammi. Kornflexið, sömu tegundar og ég borða í dag, var unaðsgott. Haltukjafti brjóstsykurinn rauður með hindberjabragði úje, erfitt að toppa. Þetta var foreldravænt sælgæti þar sem það þaggaði niður í manni í smá stund. Kúlurnar í fánalitunum (þjóðerniskúlur?) hjá Möggu á horninu bráðnuðu á tungunni. Magga sem alltaf afgreiddi í peysufötunum og hafði aldrei heyrt minnst á þjónustulund henti í okkur, fussandi og sveiandi því sem við báðum um. Við krakkarnir höfðum heldur ekki hugmynd um fyrirbrigðið þjónustulund þannig að við héldum Möggu í bisniss.
Lyktin úr Gamla- Tjarnar- og Trípolíbíó er einstök í minningunni. Hátíðleg, spennandi og ekki eins í neinu þessara bíóa. Hef aldrei fundið þessa lykt fyrr né síðar. Lyktin af blóðberginu í móanum bak við hús hjá mömmu og pabba, lyktin af nýslegnu grasi á sumrin og af vínarbrauðsendunum sem við fengum í bakaríi Jóns Símonarsonar, ef við komum nógu snemma, kemur næstum því út á mér tárunum. Rifsberjabragðið, undantekningarlítið stolin ber úr görðum vesturbæjar, ó svo ljúft....´
Kannski væri gaman ef hægt væri að bregða sér til baka í tímann bara í örskotsstund. Sannreyna ljúfleika minninganna. Æi nei, best að lifa með fortíðinni, vera í núinu og byggja sér mergjaða framtíð.
Síjúgæs
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Í BLÁUM SKUGGA
Jæja þá er það komið á hreint. Jakob Frímann verður í 1. sæti á lista Íslandshreyfingarinnar í Suðurkjördæmi. Ég á kannski ekki að vera hissa yfir því að Jakob skuli finna sér farveg hjá hægri flokki en það kom mér á óvart að þessi eðalkrati færi yfir til Ómars og co. Mér hefur fundist eins og það væri einhver þingmannsörvænting að hrjá Jakob. Eins og hann gæti ekki unað sér þar sem hann væri ekki í öruggu sæti. Auðvitað vilja allir hafa áhrif en það er hægt að hafa þau án þess að sitja á þingi. Nú stendur Jakob, pólitískt í bláum skugga Íslandshreyfingar. Verði honum að góðu.
Íslandshreyfingin hefur á sér einhvern kverúlantablæ og ég get ekki alveg sett fingur á hvað það er sem gerir þá að svona ótrúverðugum valkost að mínu mati. Samt er margt ágætis fólk þarna innan um og saman við.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 15. apríl 2007
SVONA GERUM VIÐ II
Ég get ekki látið hjá líða að birta hér nokkur gullkorn til viðbótar úr bók Helgu Sigurðardóttur "Bökun í heimahúsum" frá því Herrans ári 1934. Svona áður en hún fer í bókaskápinn aftur. Er búin að grandskoða þessa litlu bók og er orðin margs fróðari.
Við förum aftur í kaflann "ýmsar leiðbeiningar". Helga kann greinilega margt fyrir sér varðandi hina ólíklegustu hluti sem eiga sér stað í eldhúsi. Hún segir:
"Hjartarsalt: Hjartarsalt er hvítt duft og er mjög sterkur þefur af því. Hentast er að geyma það í glasi með glerloki. Það er mest notað í smákökur".
Það er rétt hjá Helgu þetta með hjartarsaltið og lyktina. Ég varð beinlínis veik sem stelpa þegar amma mín lét mig þefa að því. Og hvað með öll þessi ílát sem Helga er alltaf að nefna? Áttu íslenskar húsmæður allskyns blikk, járn- og glerdósir með varíerandi lokum á, á lager? Maður spyr sig? Áfram heldur eldhússérfræðingurinn:
"Að geyma eggjahvítur: Eggjahvíturnar eru geymdar á köldum stað og er örlitlu af salti stráð yfir þær eða köldu vatni helt yfir þær".
Þetta fer með mig. Á maður að hella vatni yfir eggjahvíturnar bara sí svona? Eyðileggjast þær ekki þegar vatnið blandast saman við?? Hef ég misst af einhverju í öllum þeim tímum í efnafræði sem ég skrópaði í? Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Og næst síðasta ráðleggingin kemur hér:
"Að hræra deig: Sama er til hvorrar handar deig er hrært. En gæta skal þess, að hræra ekta sandköku ætíð til sömu handar. Eftir að hveiti og lyftiduft er komið saman við má ekki hræra það meira en nauðsyn krefur.
Ég er svo forviða. Þarna er komin skýringin á endemisfrægð minni sem floppari á bökunarsviðinu. Ég hef ALLTAF hrært sandköku til beggja handa! Hehe ég skil varla orð af þessu fyrirkomulagi. Skil orðin en bökunarheimurinn er mér framandi. Og að lokum:
"Að smyrja brauð: Bezt er að smyrja brauð með eggi, sem hrært er saman við mjólk eða vatn. Einnig má gera það með hræðri eggjahvítu. Hentast er að gera það með pensli".
Hefur konan aldrei heyrt talað um smjör?? Var þetta viðbitið anno 1934? Kona spyr sig. Rosalega eru tímarnir breyttir.
Konur hljóta að hafa verið að í húsmóðurdjobbinu 24/7. Þetta hefur verið þrælahald. Þarna er nánast allt gert frá grunni. Konur búa meira að segja til sitt eigið lyftidúft, súkkat og fleira. Nánast allt sýnist mér.
Nú legg ég þessa fróðlegu bók Helgu Sigurðardóttur aftur í bókaskápinn og er orðin mun upplýstari um aðstæður húsmæðra á þessum árum. Það er svo margt hægt að lesa á milli línanna.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 13. apríl 2007
..ÞEGAR BLAÐAMENNIRNIR KOMA!
Þegar ég var krakki voru útvarpsleikritin á laugardagskvöldum toppurinn á tilverunni. Framhaldsleikritin voru mögnuðust. Ég man eftir leikritinu "Hulin augu" ekki svo mikið eftir efnisþræðinum reyndar, heldur spennunni, óttanum og martröðunum sem ég fékk nánast alltaf í kjölfarið. Ég klikkaði samt aldrei á þessu leikriti. Það var svo gaman að vera hræddur. "Lorna Doon" var líka skemmtilegt framhaldsleikrit sem ekki mátti missa af. "Kringum jörðina á 80 dögum" var geysispennandi eins og allir vita.
Svo voru það hin hefðbundnu leikrit sem voru alltaf einu sinni í viku. Þau voru skemmtileg. Ég man ekki eftir einu einasta leikriti sem mér fannst ekki gaman að. Sennilega stæðust sum þeirra ekki tímans tönn, það veit ég ekki, en ég naut þeirra allavega.
Eitt leikrit sem ég man ekki eftir en lokaorð þess eru jafn skýr í minni mínu og það sem ég gerði í hádeginu í dag. Þetta leikrit gekk út á að einhverjir tveir gaurar voru að reyna að meikaða í músik, minnir mig. Þeir náðu áfanga sínum og leikritið endar á launfyndnustu setningu sem ég hef heyrt bæði fyrr og síðar. Þessi setning hefur fengið vængi bæði í minni familíu og meðal vinanna. Gaurarnir sitja þarna sem sagt og eru að fara að halda blaðamannafund. Þeir eru að kíkja á klukkuna og rabba saman um ekki neitt. Annar þeirra segir skyndilega. "Árni það eru tvær mínútur í að pressan komi til að sjá okkur. Skrepptu út í sjoppu og keyptu vindla. VIÐ SKULUM VERA REYKJANDI ÞEGAR BLAÐAMENNIRNIR KOMA!"
Tjaldið fellur......
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
AF MÉR, KEITH OG MOGGANUM
Hér erum ég, Keith og Moggaritstjórinn að teygja okkur í stjörnurnar.
Vinkonur mínar og eðalbloggararnir Dúa Dásamlega og Ibba Sig. byrjuðu daginn á að leggja líf mitt í rúst með því að tilkynna mér að einn af pistlunum mínum væri í Mogganum í dag. Ekki misskilja mig ég hef ekkert á móti því að bloggið mitt sé lesið af sem flestum. Þeir sem halda því fram að þeir bloggi BARA fyrir sig ættu að skrifa dagbók og hafa hana læsta. Bloggið er þeirrar náttúru að það slysast inn á það fólk til að lesa. Nú en hvað um það. Mér var tilkynnt af þessum vinkonum mínum að fíflapistillinn minn um Keith Richards væri í Mogganum í dag. Ég sem skrifa um allan fjárann, bæði í gamni og alvöru, um pólitík og kvenfrelsi, fátækt og innflytjendamál og þessi pistill er valinn til birtingar. Er ekki í lagi heima hjá fólki? Mogginn prentar ekki broskarla og í pistlinum stendur "Keith var þá hættur í heróíni og "kominn yfir í kókaín og önnur heilbrigðari efni". Skelfingarkarlinn er ekki með í Mogganum. Hvað ætli vinir mínir hjá SÁÁ haldi ef þeir lesa Moggann sem ég veit náttúrulega ekkert um. Kona bara á því að Kókaín sé í heilbrigðu deildinni. Hm...
Myndin af mér er víst ekki til að hrópa húrra fyrir. Konu er ekki sama um útlitið. Ég þori ekki að kíkja á Moggann. Ég panta mér tíma hjá listrænum ljósmyndara sem er með meirapróf á "fótósjopp" strax í dag. Nú verður kona að blogga á hástemmdu nótunum alltaf, láta ekki eins og fíbbbl, hætta notkun broskarla og haga sér eins og verðandi Nóbelsverðlaunahafa sæmir. Í dag mun ég ganga með hauspoka.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 9. apríl 2007
AUSTURLAND AÐ GLETTINGI
Hvar er Glettingur? Hann er fyrir austan. Ég veit ekki meir. Landafræðikunnátta mín er lítil og ekki til að flagga á mannamótum. Frá unga aldri hlustaði ég á veðurfregnir yfir kvöldmatnum og "Austurland að Glettingi" var eitt af því sem mér fannst hljóma svo undarlega, framandi og forvitnilega. Merkilegt þó að ég skyldi aldrei spyrja. Fyrir einhverjum árum síðan barst þetta í tal milli vinkvenna og við vorum allar jafn blánkar yfir "Austurlandi að Glettingi" nema ein að austan sem vissi að Glettingur var fjall þaðan sem hún kom. Ég sá strax fyrir mér að þetta hlyti að vera merkilegt fjall þar sem þarna var veðurmæling (hm). Viss um að við Gletting er ekki nokkur kjaftur, brimið skellur þarna á fjallinu og þegar dimmir á vetrum er umhverfið verulega draugalegt. Muhahahaha. Kann einhver nánari deili á þessari títtnefndu mælingastöð?
Ljóð | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 21
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 19
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Færsluflokkar
- Bláar eyllýar
- Bloggar
- Bækur
- danskar kjötbollur með sósu
- Dómar
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Femínistablogg
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Halloki
- Hamfarablogg
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hneyksli
- Íþróttir
- Jólafár
- Kjaramál
- kvikindiskapur og illt umtal
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Lúkas
- lygasögur
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjálfsdýrkun
- Sjónvarp
- Snúra
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Synt til sigurs
- Synt yfir sundið
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Þvagleggur
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Tenglar
Tónlist
Vinir og fjölskylda
Vinkonur
Ég les alltaf
Netmiðlar
Tónlistarspilari
Bloggvinir
- draumur
- jonaa
- hronnsig
- larahanna
- skessa
- eddaagn
- amman
- annabjo
- annambragadottir
- annaragna
- asthildurcesil
- kolgrima
- birnan
- bjarnihardar
- brjann
- brylli
- christinemarie
- danjensen
- lillagud
- disadora
- einari
- einarorneinars
- emm
- estro
- evabenz
- fifudalur
- garun
- gelgjan
- gunnarggg
- halkatla
- halo
- hildurhelgas
- heidah
- helgamagg
- hildigunnurr
- iaprag
- hlynurh
- hugarfluga
- hugsadu
- ibbasig
- katrinsnaeholm
- ingolfurasgeirjohannesson
- jogamagg
- jara
- jensgud
- katlaa
- krummasnill
- krissa1
- lehamzdr
- ktomm
- laufeywaage
- lauola
- lindalinnet
- madamhex
- maggij
- majaogco
- mariakr
- markusth
- meistarinn
- motta
- nimbus
- olinathorv
- pollyanna
- ragnarfreyr
- ragnhildur
- ringarinn
- rosa
- roslin
- saedis
- sailor
- salkaforlag
- skordalsbrynja
- skrifa
- snar
- soley
- steingerdur
- steinnhaf
- steinunnolina
- stinajohanns
- sunnadora
- svetlana
- thuridurbjorg
- tibet
- tigercopper
- toshiki
- unns
- valgerdurhalldorsdottir
- wonderwoman
- vefritid
- vest1
- bidda
- zeriaph
- killjoker
- sisvet
- gudrununa
- dora61
- possi
- gelin
- silfri
- jyderupdrottningin
- gretaulfs
- sibba
- baldvinj
- stjaniloga
- bokakaffid
- kreppukallinn
- jonerr
- gerdurpalma112
- adhdblogg
- astafeb
- snjolfur
- haddih
- brell
- reisubokkristinar
- little-miss-silly
- baldis
- olofdebont
- kikka
- jarnar
- thorolfursfinnsson
- birnast
- vrkristinn
- leifur
- astroblog
- bjarkey
- manisvans
- siggisig
- nordurljos1
- gunnaraxel
- ragnar73
- sij
- kreppu
- runirokk
- gotusmidjan
- dorje
- slembra
- skari60
- must
- fhg
- aevark
- fridaeyland
- hedinnb
- cakedecoideas
- taraji
- audurproppe
- kollakvaran
- finni
- arnaringvarsson
- samstada
- drum
- gretarogoskar
- tbs
- vistarband
- valdivest
- fingurbjorg
- gustichef
- skulablogg
- andreskrist
- fasteignir
- rognvaldurthor
- helgatho
- gullfoss
- bailey
- jennystefania
- gattin
- annaandulka
- ansy
- gumson
- berg65
- bjarnimax
- brahim
- elin
- gudlaugbjork
- dramb
- gudrunkatrin
- hvilberg
- himmalingur
- ingaragna
- naflaskodun
- kiddirokk
- sigurborgkrhannesdottir
- joklamus
- stjornlagathing
- saemi7
- unnurgkr