Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dómar

Allt femínistum að kenna

Sænsk kona fær hálfs árs fangelsi fyrir að beita fósturson sinn kynferðislegu ofbeldi, en hún kom með drenginn til Svíþjóðar 12 ára gamlan.

Hún eignaðist síðan barn með drengnum.

Ég fylgdist með þessu máli í sumar þegar það tröllreið sænskum fjölmiðlum og auðvitað er þetta skelfilegt ofbeldi á barni.

Þarna er dómurinn fáránlegur eins og þeir dómar sem við erum að sjá hér á landi og síðast í dag.

En það sem ég er að furða mig á er nálgunin á málið hjá nokkrum bloggurum en hún er eitthvað á þessa leið:

"Hvar eru femínistar?"  "Hvað ætla femínistar að segja við þessu?" "Nú þegja femínistar þunnu hljóði" (bloggað um þögn femínista cabout 5 mín. eftir að frétt birtist á vef) og fleira í þessum dúr.

Eru femínistar með dómsvald í Svíþjóð?

Heldur einhver að við femínistar séum talsmenn ofbeldis á börnum?

Hvaða bölvaða heimska veður uppi núorðið í bloggheimum?

Hér á blogginu er slatti af körlum og eitthvað af konum, í krossferð gegn jafnrétti, en það heitir að vera alfarið á móti femínisma en með jafnrétti, og er ekkert annað en yfirklór og kjaftæði.  Enginn vill viðurkenna upp á sig andstöðu við jafnrétti. Jafnréttisbaráttan, samkvæmt þessu fólki, má bara alls ekki vera óþægileg og trufla hið múr- og naglfasta valdabatterí.  Verst finnst mér að sjá konur taka þátt í þessu, það er jú á okkur sem misréttið bitnar hvað mest, þó í rauninni líði allir fyrir kynjamisrétti.  Sumir virðast ætla að það sé hægt að skrafa fram breytingar á stöðu kvenna svona í framhjáhlaupi, án þess að róta til nokkrum sköpuðum hlut.  Eins og jafnréttisbaráttan hafi nokkurn tíma skilað einhverju með kurteisislegri og fallegri bið.  Jösses hvað ég er fegin að það eru til konur sem hætta sér út á kantinn og spyrja óþægilegra spurninga þrátt fyrir að ákveðin öfl í samfélaginu fari á límingunum vegna þess.

Ofbeldi á börnum, kynferðislegt, líkamlegt og andlegt er ólíðandi, alltaf og allsstaðar.

Það er enginn ágreiningur um það, þannig að það hlýtur að vera hægt að taka umræðuna upp á aðeins hærra plan en að garga á ímyndaða andstæðinga í röðum femínista.

Oghananú.

 


mbl.is 29 ára kona eignaðist barn með 14 ára pilti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt að blogga um frétt - kannski bilað?

Er bilun á Moggablogginu?  Í fréttinni þar sem fjallað er um skilorðsbundinn 15 mánaða dóm yfir kennara sem var í kynferðissambandi við nemanda sinn, er möguleikinn að blogga um fréttina ekki fyrir hendi.

Er fólk hrætt um að tekinn verði Lúkasinn á kennarann?

Á dómarana (dómur fjölskipaður)?

Á þolandann?

Hvað finnst fólki um þessa röksemd héraðsdómarans?

"Manninum verði hins vegar virt til mikilla málsbóta, að gagnkvæmt ástarsamband hafi verið á milli hans og stúlkunnar og hann hafi lýst því, að fyrir sitt leyti hefði hann viljað halda því áfram og gera það opinbert. Því ákvað dómurinn að skilorðsbinda refsinguna að fullu."

Það kemur hvergi fram hversu gamall gerandinn er en fólk má ekki fara inn um vitlausar dyr á Íslandi án þess að það sé tekið fram hversu gamall sá hinn sami sé.  Hver er að vernda hvern hérna?

Þarna birtist pedófílahugmyndafræðin og Lólítuheilkennið skammlaust á prenti og sem röksemd fyrir vægari dómi.

Maðurinn átti í ástarsambandi við unglinginn.  Hva!

Eins og maðurinn sagði hérna um árið þegar hann var uppvís að sifjaspelli:

Telpurnar eru svo andskoti daðurgjarnar.

Hálfvitar.

 


Af lifrarpylsum og fataleppum

Tarammtammtata!

Það hefur fallið dómur í máli konu á sjötugsaldri sem gerðist sek um að stela tveimur bolum og einu pilsi í Markaðstorgi Kringlunnar, að verðmæti 1970 krónur.  Konan hlaut mánaðarlangt skilorðsbundið fangelsi fyrir athæfið.

Það eru engin smámál til þegar Héraðsdómur Reykjavíkur er annars vegar.  Bara svo það sé á hreinu.

Því í dag á að dómfesta "Stóra lifrarpylsumálið" í Héraðsdómi, þar sem heimilislaus maður er færður fyrir dóm vegna lifrarpylsukepps sem hann gerði tilraun til að næla sér í,  til matar.  Verslunareigandinn hefur ekki kært stuldinn, lifrarpylsan komst óétin í hillu verslunarinnar og hefur örugglega verið seld einhverjum velmegandi viðskiptavini til átu. 

En þjóð sem hefur sent sauða- og snærisþjófa til vistunar á Brimarhólm í fortíðinni, getur auðvitað ekki verið að gera lítið úr sér og sleppa lifrarpylsumanninum, enda mikið í húfi.

Á Íslandi eiga allir nefnilega nóg að borða.

Eða er það ekki?

P.s. Bendi á pistil Ólínu Þorvarðardóttur um lifrapylsumálið ógurlega en það má lesa hér.


mbl.is Skilorðsbundið fangelsi fyrir búðarhnupl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðsnúningur dóms

 Tekið af Vísi.

"Hæstiréttur sneri í dag við dómi héraðsdóms yfir manni sem ákærður var fyrir að hafa framið kynferðisbrot gagnvart dóttur sambýliskonu sinnar.  Maðurinn var ákærður fyrir að hafa sett fingur upp leggöng stúlkunnar og káfað á henni á heimili þeirra árið 2002. Hlaut hann 12 mánaða dóm í héraði, þar af níu skilorðsbundna."

Upplýsingar frá mér:

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ingibjörg Benediksdóttir skilaði sératkvæði sem hljóðar svo:

 "Héraðsdómur, sem skipaður var þremur embættisdómurum, hefur metið framburð Y, móður hennar og annarra vitna trúverðugan. Vísa þeir í niðurstöðu sinni sérstaklega til þess að frásögn stúlkunnar hafi verið greinargóð og ítarleg, hún hafi skýrt sjálfstætt frá atburðum, fullt innra samræmi hafi verið í framburði hennar og vætti hennar sé stutt öðru því sem fram er komið í málinu. Þótt stúlkan og móðir stúlkunnar hafi ekki með vissu geta sagt við rannsókn málsins hvenær umrætt samkvæmi í bílskúrnum átti sér stað rýrir það ekki framburð þeirra, sem héraðsdómur hefur sem fyrr segir metið trúverðugan. Er einnig til þess að líta að þegar skýrslur þeirra voru teknar hjá lögreglu voru um fjögur ár liðin frá atvikinu og þess því ekki að vænta að þær gætu greint frá með vissu hvenær samkvæmið var haldið. Við rannsókn málsins og meðferð þess skýrðist þetta atriði hins vegar nánar. Þegar litið er til framburðar stúlkunnar og vitna er ekki varhugavert að telja fram komið að umrætt samkvæmi hafi verið haldið í apríl 2002. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms tel ég rétt að staðfesta niðurstöðu hans um sakfellingu, en ákveða refsingu hans 15 mánaða fangelsi. Þá er ég sammála niðurstöðu dómsins um miskabætur og málskostnað."

Ég gef þessum hæstaréttardómurum falleinkunn, að undanskilinni Ingibjörgu Benediktsdóttur, í þessu tilfelli.

Sveiattann!

 

Dómaravaktin

 

"Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í 15 mánaða fangelsi fyrir nauðgun, en maðurinn var talinn hafa notfært sér að kona, sem hann hafði samræði við, gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða konunni 800 þúsund krónur í bætur."

I rest my case.


mbl.is 15 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnafsláttur í Héraðsdómi Reykjavíkur?

2-1/2 árs fangelsi fær maður fyrir kynferðisbrot gegn sex ungum stúlkum á aldrinum 4-13 ára þegar brotin voru framin.

Ég verð svo sorgmædd, ætlar viðhorf dómstóla aldrei að breytast í þessum málaflokki?

Ég tek fram að ég hef enga ofurtrú á refsingum en það á að hafa afleiðingar að beita ofbeldi.  Og það á svo sannarlega að hafa afleiðingar að meiða börn.

Dómar á Íslandi eru í engu samræmi við alvarleika brota, a.m.k. ekki í ofbeldismálum.

Þegar ég las þessa frétt þá hugsaði ég, þarna er magnafsláttur í gangi.  Sex fyrir einn.

Vont mál.


mbl.is Dæmdur í 2½ árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 6 stúlkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málamyndadómur

Maður réðst á fyrrverandi sambýliskonu sína með ofsafengnum hætti og að tilefnislausu.

Það kostar hann 5 mánuði í fangelsi.

Hann var líka dæmdur fyrir gripdeildir og hylmingu.

Sú staðreynd að 4 ára dóttir parsins horfði á árásina hefur ekki hrist neitt svakalega upp í dómurunum.

Þetta er ekki einu sinni klapp á kollinn í viðvörunarskyni.

Þessi dómur er svona "farðu að lúlla ljúflingur og ég skal vagga þér í svefninn" dómur.

Konan fær 300 þúsund krónur í miskabætur.

Þessi dómur er í boði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Ég áfram á vaktinni.

 


mbl.is Réðist á fyrrum sambýliskonu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.