Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vefurinn

Sögupersónan í mínum uppáhalds raunveruleikaþætti

 

Ég sit hérna núna vegna þess að ég nenni ekki að hreyfa mig.

Já, það er slæmt á mér ástandið.

Ég þarf að þvo þvott, þvo upp eina tvo diska og jafnmörg glös og ég þarf að skúra gólf.

Ég hef alltaf verið svo dugleg í vinnu, algjör vinnualki í gegnum tíðina (en vinnan hefur farið fram á stólum, að mestu leyti), en nú bregður svo við að ég er latari en dauður hlutur.

Mínar liljuhvítu hendur vilja ekki dýfa sér í skolpvatn, þrátt fyrir að vera með verjur.  Gular.

Minn eðli skrokkur vill ekki hreyfa sig nema til að dansa og fara á hnén við daglegar bænir sinnum þrír á dag.  Jú annars, hann vill vaða um stræti Londonborgar, ásamt vísakorti.  En það er ekki í boði.

Húsbandið bað mig að koma því á framfæri að svefnherbergisstríðið væri stórlega ýkt.  Sko, hans þáttur í því.  Já sæll.  Hann er enn við sama heygarðshornið.  Alltaf saklaus.

Honum finnst skrýtið að vera sögupersóna á blogginu og ég held að hann sé hræddur um að ég fari út í nánari lýsingar á herbergisaktíviteti á heimilinu.

Ég sagði honum að róa sig bara.  Hann væri ekki sögupersóna, heldur væri hann þátttakandi í raunveruleikaþætti Jennýjar Önnu í netheimum, sem er bara rétt að fara af stað.W00t

Later, farin að skúra.


Stick´em up

 

Þegar stelpurnar mínar voru litlar, þá fengu þær jafnt bíla og dúkkur.  Það var bara svoleiðis.

Þær fengu hins vegar aldrei morðtól til að leika sér að, þó ekki væri og ég sá ekki að "stelpudótið" hugnaðist þeim frekar en bílarnir og bílabrautirnar.  Verkfærakassann notuðu þær óspart, foreldrum sínum til mikillar hrellingar.

Og svo komu jól.  Við bjuggum í Svíþjóð.  Pakkaflóðið með póstunum var ótrúlegt.  Það sem sló í gegn það árið voru barnahljóðfæri frá Guslu systur minni, sem alltaf hefur haft sjúklegan húmor, svo ekki sé meira sagt.  Kvikindið á henni. (Love you honey).  Þar sem ég kunni ekki við að "ritskoða" jólagjafirnar, þá tók við tími hinna viðurstyggilegu hljóða.  Sara fékk lúður sem gaf frá sér ískrandi tóna, sem smugu í gegnum merg og bein.  Maysan fékk ámóta hljóðmengara og þær systur fundu á sér vanlíðan foreldrana og æstust í spileríinu sem aldrei fyrr.  Ég óskaði mér þess, nærri því, að hún hefði sent þeim hríðskotabyssu og skriðdreka.

Ég trúi því seintað börn séu með eðlislægan smekk á leikföngum og að sá smekkur inniberi löngun drengja til að leika sér að byssum og öðrum "dæmigerðum" strákaleikföngum.

Það er fullorðna fólkið sem gefur, með hegðun sinni og uppeldisaðferðum, tóninn í hlutverkamynduninni.  Á heimilinu og úti í þjóðfélaginu.

Dæmi; barn í vöggu. 

Strákur: Gússígússí litli maður, voða ertu stór, svo stór og sterkur.

Stelpa: Er hún ekki fallegust af öllum litla sæta stelpan, gússígússí.

Ég skal trúa þessu þegar rannsóknin er framin á alvörubörnum.

Þetta með apana er ekki marktækt.

Við erum fjandinn hafi það ekki apar.  Ekki enn að minnsta kosti.

Og farið svo að sofa í hausinn á ykkur.


mbl.is Vísbendingar um eðlislægan áhuga stráka á „strákaleikföngum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðið í svefnherberginu

 pd_arguing_080129_ms

Ég er andstæðingur stríðs.  Hef alltaf verið og mun alltaf verða.  En sjálf stend ég í einu.  Við minn heittelskaða og það sér ekki fyrir endann á því, síður en svo.

Við deilum svefnherbergi (ji, þvílíkur ólifnaður) og við erum með ólíkar skoðanir á hvernig manni líði best í viðkomandi herbergi.  Ég vil hafa slökkt á ofni, hann ekki.  Ég vil hafa galopinn glugga, hann vill hafa hann opinn upp á fjóra og hálfan millimetra.  Ósættanlegur ágreiningur eins og berlega hefur komið í ljós.

Nú veit ég að stríð kallar það versta fram í mannfólkinu.  Svo er um okkur.  Þrátt fyrir að hér sé unnið í heiðarleikaprógrammi, sanngirni í samskiptum höfð að leiðarljósi í mannlegum samskiptum, þá hafa allir góðir eiginleikar fokið út í hafsauga í stríðinu um stöðu hita og andrúmsloft. 

Við ljúgum eins og sprúttsalar hvert að öðru.

Hann læðist inn í svefnherbergið fláráður á svip og ég garga: "Ekki hækka á ofninum" og hann: "Nei, nei, ég er ekkert að því" og svo fer hann og kyndir eins og mófó.

Svo ég bíð.  Hann sofnar og ég læðist inn.  Klifra upp í fjandans gluggann (hef nokkrum sinnum slasað mig þó nokkuð í myrkrinu) og opna gluggann upp á gátt, svo skrúfa ég fyrir ofninn.  Meðalhófið er löngu fokið út í hafsauga.  Þetta er orðið do or die dæmi.

Hann vaknar.  Hóst, hóst.  Ásakandi segir hann: "Þú hefur slökkt á ofninum".  Ég; "Nei, ég hef ekki snert hann". 

Svo koma léttar ásakanir um hver hafi gert hvað.  Svo knúsumst við og ég hugsa (og örugglega hann líka), "láttu þér ekki detta í hug að ég gefist upp".  Og þannig höldum við áfram við þessa uppáhalds iðju okkar.

Munið þið eftir myndinni "War of the roses"?  Við stefnum þangað.  Ég er að segja ykkur það.

Svona eru svefnherbergisæfingarnar í Seljahverfinu á þessu herrans ári.

Farin að skrúfa hitastillirinn af ofninum.  Ég ætla að henda honum.

Súmíhonní.


Bloggið mitt er ekki klósett

 

Stundum kemur fólk inn á síðuna mína (og annarra líka ó já) sem er með andlega hægðartregðu á háu stigi.  Oftar en ekki er þetta nafnlaust fólk, og það kemur og reynir að losa um meltingartruflanirnar inni í kommentakerfinu.

Ég loka á þá.  Amk þá sem eru hvað óuppdregnastir.  Ekki málið.

Svo er einn og einn bloggari sem hægir sér á síðuna mína.  Það er ekki fallega gert. 

En þetta gerist sem betur fer afar sjaldan og er alls ekkert að trufla mig þannig lagað sé.

En það sem varð tilefni til bloggskrifa um ritsubbur, svona almennt, er að ég furða mig alltaf á því hvað fólk er að vilja inn á blogg sem fer í taugarnar á því.  Afhverju er fólk að lesa sér til pirrings og ógleði?  Ég hreinlega botna ekkert í því.

Það toppar svo allt þegar viðkomandi pirringsfólk laumar inn eitraðri athugasemd, sem hefur ekkert með innihald færslunnar að gera og þá verð ég miður mín af vorkunnsemi með viðkomandi.

Af hverju er fólk að gera sér lífið svona erfitt?

Komið til mín elsku dúlludúskarnir mínir og ég skal gefa yður laxerolíu.

Þetta langaði mig að setja fram sem fyrirbyggjandi aðgerðir.

Bloggið mitt er ekki klósett.

Ég er farin að horfa á Presley tónleika.

Hann var kjút áður en hann hætti að vera það.

Allir út að k....


Helvítið hann Bördí Jennýjarson

 

19

Ég hef áður bloggað um Bördí Jennýjarson.  Bördí er gári og hann tilheyrir Jenný Unu, en við keyptum hann handa henni í fyrra svo hún gæti átt sitt eigið gæludýr.

Hm..

Bördí stundar ennþá lausagöngu upp á bókaskápunum.  Hann hafði tekið undir sig bók Einars Más, Bítlaávarpið, sem ég hafði skutlað upp á skápinn af því ég varð fyrir vonbrigðum með bölvaða bókina.  En svo kom sú nýjasta.  Einari Má var snarlega fyrirgefið og Bítlaávarp tekið undan fugli og Valdatafl í Valhöll, fórnað undir fuglskrattann.  Loksins kom sú vesæla bók að gagni. Ég veit ég á ekki að blóta þessu eðalkvikindi honum Bördí, en hann er að gera mig stjórnlaust geðveika, ég sver það.

Bördí er með skoðanir og attitjúd.  Hann vill vera laus, hann fer í búrið til að borða, annars er hann með stofuna sem leikvang og hann hlýðir engu.  Hann á sín móment, fuglinn, eins og í gær þegar húsband var að spila ljúfa menúetta á gítarinn sinn, þá dansaði hann og söng í rosalegum fíling, allur púffaður af hamingju.

Bördí elskar að fara í bað.  Nú má ég ekki skrúfa frá krana öðruvísi en að hann gargi frekjulega og það ískrar rosalega í þessum litla kroppi og fer inn í merg og bein.

Og hann er fálátur við mig.  Elskar húsband og Jennýju.  Fer að syngja þegar þau koma inn úr dyrunum.  Stundum öskrar hann af frekju ef Jenný sinnir honum ekki og þá segir blessað barnið:  "Bíddu Bördí minn, ég er aeins að horfa á sjónvartið".  Fuglræksnið sinnir því engu.

Nú í þessum skrifuðu orðum ískrar í honum eins og ryðguðum hjörum.  Hann flýgur í hringi yfir hausnum á mér og ég veit að hann er með kröfur um eitthvað.  Ég læt sem ég sjái hann ekki, þrátt fyrir að taugakerfið sé eins og fakírabretti og það geysi morðfár innra með mér.

Ég hélt einu sinni að ég réði mér sjálf og heimilinu í samvinnu við hitt eintakið af Homo Sapiens sem er með skráð lögheimili hér á bæ.

Svona getur maður verið vitlaus.  Hér ríkir fjandsamlegt einræði fugls, sem er ponsulítill blár og púffaður dúskur.

Svo mikið krútt en ég gæti dre... hann!


Dekk á sterum - Úje

 

Tókuð þið eftir því að heimsóknarteljarinn datt út í dag?  Bara hvarf sí svona?  Hm.. enginn á vaktinni á Mogganum fyrr en rétt áðan. 

Ég er búin að vera bissí í allan dag eftir að ég kom heim úr gönguferðinni.  Var eins og dekk á sterum, þreif og pússaði, skúraði og skrúbbaði og hér glansar allt eins og á Þorláksmessu. 

Ég var eitthvað mússímússí í dag eftir að hafa talað tvisvar sinnum við Maysuna í London.  Ég talaði líka við Oliver.  Hann er orðinn algjörlega breskur þessi elska, og svo mikið krútt.  Tveim tímum eftir að við töluðum saman, hringdi Maysan aftur.  Hún var á klósettinu í IKEA (hvað er það með mína fjölskyldu og þessa blágulu búð?  Hvað er það með mig og Svíþjóð svona yfirleitt?).  Þau voru að kaupa rúm handa Oliver og mín þurfti að bíða eftir að komast á klóið og hringdi og kjaftaði við mömmu sína meðan hún beið.  Krútt og ég sakna svo stelpunnar minnar og fjölskyldu.

Og ég gekk fram af mér og hló að Spaugstofunni.  Alltaf þegar ég er búin að afskrifa þessa karla, þegar þeir hafa verið algjörlega misheppnaðir aftur og aftur, þá taka þeir sig til og eru brilljant.  Ég ráðlegg fólki að horfa á þá hér.  Annars hlýtur að vera gaman að vera í Spaugstofunni þessa dagana.  Tilefnin til gríns eru í búntum og kippum.

Nú er ég að lesa aðra bókina sem ég keypti í dag.  Ég læðist um og hvísla, það er svo fínt hjá mér.

Ég er bara góð, eruð þið góð?

Það ætla ég rétt að vona.

Sjáumst á loftinu.

Úje.


Köllum skóflu, skóflu

Ég var að lesa Moggann.  Ég byrjaði á því nánast um leið og ég opnaði augun.  Það er fyrirbyggjandi aðgerð hjá mér að tékka á blöðunum um helgar, taka út stöðuna á vígvellinum í Reykjavík, mannfall og áverka, svo ég sé fyrirfram aðvöruð.

Þá sá ég að maður hafi hlotið stungusár í Austurborginni!!!  Halló, Austurborginni, þetta gerðist hér í Breiðholtinu.

Fyrir mér sem innfæddum Vesturbæing þá er Austurborgin eða bærinn, hverfið fyrir ofan Hlemm.  Á mínum sokkabands voru í gangi bullandi fordómar gegn þessum bæjarhluta.  Einfaldlega vegna þess að þar ægði saman fólki úr öllum áttum, þar var byggt og byggt og þar voru krakkar algjörir bölvaðir villingar.  Það var til klíka sem hét Austurbæjarklíkan og hékk á Austurbar.  Sá "bar" var sjoppa í Austurbæjarbíó.  Krakkarnir í þessum bæjarhluta voru bölvuð hrekkjusvín.  Strákarnir voru samt ógissla sætir.

Nú er einhver pólitísk rétthugsun að þjá Moggann, ef ég skil þetta rétt.  Nú skal varast að bendla Breiðholtið við allt ofbeldið sem þar er framið.  Er ekki í lagi heima hjá fólki?  Ég bý í Seljahverfinu og hér er allt rólegt, fuglasöngurinn alveg að drepa mig bara, en þetta er stórt hverfi.

Af hverju má ekki segja eins og er.  Það var enn einn ofbeldisgjörningurinn framin í Breiðholti í nótt?  Hvernig væri að kalla skóflu, skóflu?  Ég vil vita hvað gerist hvar, þó ekki væri nema til að taka á mig sveig fram hjá vettvangi glæpsins.  Sama hvar er í borginni.  En auðvitað geri ég mér grein fyrir að þá færi ég ekki langt.  Reykjavík er að verða eins og Harlem, svei mér þá, hvergi vært vegna ofbeldisseggja.

En kæra fólk.  Austurbær nær alveg niður í Fossvog, þegar haldið er upp Breiðholsbrautina þá erum við komin í Breiðholtið.  Já B-R-E-I-Ð-H-O-L-T-I-Ð.

Góðan laugardag.  Líka Austurbæingar.

Konan í hringiðunni talar frá átakasvæðinu.

Yfir og út.


mbl.is Hlaut stungusár í átökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krúttsería

Jæja, nýjar myndir hafa borist í hús af Jenný Unu og Hrafni Óla. 

Jenný var að fá nýtt herbergi, hún valdi litinn (bleika tímabilið er í algleymingi) og svo fékk hún svona himinn yfir prinsessurúmið sitt.

Hún er alltaf svo glöð þessi stelpa.

Síðast þegar hún var hérna átti hún að raða saman dótinu sínu.

Amman: Jenný ertu búin að taka til?

Jenný:Já mjög!W00t

Amman: Ha; mjög???

Jenný: Já amma ég er búin að taka mjög, mjög mikið til í herbergi mín.

Ok, þar hafði ég það.

Og Jenný Una er góð og skemmtileg við krúttmolann hann Hrafn Óla.

Og sá litli lýkur þessari krúttseríu.

Og Maysa, inn með myndir af Oliver.

Knús í nóttina.

Hej då!

jajamensan


Ég er nörður og norn

 

Ég er svo bloggin í dag. Hausinn á mér snýst í þúsund hringi og ekki mátti hann við miklu.  Óþarfi að fokka í því sem aumt er. En nornir þurfa að vera bjútífúl líka.  Ég er búin að ræsa "kóstinn" og er á leiðinni í búð.

 Ég gerði snögga birgðakönnun á innihaldi snyrtibuddu. 

Það fyrsta sem þarfnast endurnýjunar er snyrtibuddan.  Hún er forljót, orðin sjúskuð og svo er hún með Burberry-mynstri.Sick Téééékkk og ojbara.

Maskari; aldur óræður, líklegur til að vera búin að syngja sitt síðasta (Frumburður; hvernær varstu í Boston?  Það er laaaaaangt síðan er það ekki?), held að hann sé að verða hálfsárs. Téééééékkkk

Augnblýantar; alls konar litbrigði, held ég, en ég á ekki yddara.  Ekki nema von að maður sé svart-hvítur til andlitsins.  Kaupa yddos. Téékkítékkí.

Varablýantar; tveir, ljótir, held ég líka, sama vandamál. Enginn er yddarinn og litirnir óræðir.

Baugafelari; nýkeyptur í Londres (Í Harrods for crying out loud).  Ekkert að kaupa þar. Tékk.

Meik; Nýrr, flott og fyrir aldraðar konurW00t, svo gott að það felur ekki aðeins baugana, það strikar út karaktereinkenni og stífar á mér fésið.  Eða nærri því.  Verð að þegja með það.  Mörgum finnst það plús. Tékkk.

Varalitir; í öllum mögulegum litbrigðum.  Með þessu áframhaldi verð ég að nota þrjá í einu.  Kaupi samt einn í viðbót.  Hafið heyrt um að það eru notaðar fituríkar lýs í varóinn?  Nebb, grunaði það.  Las það í merkilegri bók.

Svo ætla ég á smá rand með Jenný Unu og húsbandi.  Við förum stundum í svona krúttferðir með hana og gerum skemmtilega hluti.  Dagskrá opin.  Hún talaði viðstöðulaust við foreldra sína í gær um að amma mín og Einar minn sækja mig í leikskóla minn á morgun.

Ég held nú það.

Man ekki eftir meiri sminki í augnabliknu sem mig vantar.

Kona þarf að líta vel út í kreppunni.  Þegar ólin er hert, þá herpist saman á manni andlitið og verður eins og gamli handavinnupokinn.

Nörðurinn kveður.  Yfir og út.

Úje

 

 


Hvatning til borgaralegrar óhlýðni

Við Íslendingar eru góðir í að kvarta og kveina yfir hlutum sem vissulega geta betur farið.  Við erum tuðskjóður, eins og amma mín hefði sagt.

En aðgerðir til að breyta vondu ástandi, eins og t.d. verðhækkunum, byrja og enda yfirleitt með kvartinu og kveininu.  Á kaffistofum, í eldhúsum, hvar sem fleiri en einn koma saman (þar er mótmælafundur hehe), er nöldrað og rosalegri orku er eytt í það.

Núna eru vörubílstjórar búnir að taka listform Íslendingsins, að mótmæla ofan í bringuna á sér, upp á æðra plan.  Þeir eru að gera eitthvað í málunum.  Borgaraleg óhlýðni er dásamlegt fyrirbrigði og í þessu tilfelli, algjörlega nauðsynlegt.

Nú bíð ég eftir að allir atvinnubílstjórar sameinist vörubílstjórunum og að hinn almenni borgari fylgi svo í kjölfarið.

Ég er oft að velta því fyrir mér hvort fólk átti sig ekki á, hversu beitt verkfæri samstaða er?

Fyrir áratug eða svo, var mjólkin hækkuð í Danmörku.  Fólk tók sig saman og hætti að kaupa mjólk.  Það reddaði sér öðruvísi.  Einfalt mál.  Mjólkin var lækkuð. Ekki orð um það meir. Spurningin snérist einfaldlega um að hella niður mjólk eða fá fyrir hana peninga. 

Olíu og bensíni verður vísast ekki hellt niður en þeir gætu lent í geymsluörðugleikum á meðan á aðgerðum stæði.  Prufum, setjum aðgerðir í stað orða.

Og svo eru það matvörukaupmenn, sem ætla að hækka einhver býsn og nota sér efnahagsástandið. Mjólkin á líka að hækka.  Gerum eitthvað.  Verum óhlýðin og uppskerum amk aukna sjálfsvirðingu fyrir tiltækið.

Ég er orðin svo þreytt á að borga brúsann fyrir fólk sem veit ekki hvað lífsbarátta er og lifir lúxuslífi á kostnað venjulegs fólks sem möglunarlaust lætur bæta á byrðarnar.  Aftur og aftur.

Nú er lag.  Gerum eitthvað.

Sagði ekki einhver spekingur í Ameríku einu sinni: "Put your money where your mouth is"?

Það held ég nú.


mbl.is Sátt náðist í Ártúnsbrekku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband