Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Fyrir jól, fyrir jól, fyrir jól

 gj

Á morgun er minn uppáhaldsdagur á árinu.

Mikið skemmtilegri dagur en jólin sjálf.

Það er svo hátíðlegt að hlusta á jólakveðjurnar á Gufunni.

En þessi dagur hefur undanfarin ár verið mengaður fyrir mér af skötuétandi nágrönnum með sjúklegan smekk á illa lyktandi kvikindinu sem gerir skötu hins almenna manns að unaðslegum lyktargjafa.

Þið getið reiknað út líðanina.

Nú er ég flutt og mér sýnist að mínir eðlu nágrannar séu venjulegt fólk sem ekki nefi vill illt.

Ég bíð spennt að sjá hvort þau standi undir væntingum.

Annars er ég búin að klára eiginlega allt sem ég þarf að gera fyrir jól, fyrir jól, fyrir jól.

Ég segi ykkur þetta til að þið spyrjið mig ekki þessarar spurningar sem mér er verulega illa við.

Á morgun ætla ungir jafnaðarmenn að bjóða upp á súpu til að vekja athygli á stöðu ungs fólks í kreppunni. 

Takk ungir jafnaðarmenn fyrir að bjóða ungu fólki upp á mat en ekki hræ.

Fyrirgefið skötuelskandi Íslendingar en ég skil ykkur ekki og þarf heldur ekkert að gera það.

Ég er að dissa ykkur með þessu skötutali, ég veit það, en þetta er mín síða og ég er í baneitruðu jólaskapi.

Leik við hvern minn fingur og hjala eins og geðgóður vögguböggull.

Farin að reykja elskurnar.

Falalalalalala

 


mbl.is Súpa hjá jafnaðarmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiting sokkabandsorðu

 jólasokkur

Ég elska skammdegið.  Hef alltaf gert.  Ég held að ég elski veturinn og myrkrið af því að ég er vetrarbarn.  Fædd í janúar í hríðarbyl, ekki að því að spyrja.

Heilbrigðiskerfið byrjaði á að mismuna mér um leið og ég skaust í heiminn.  Ég fæddist á klósettinu á Lansanum og eyddi svo fyrstu dögum ævinnar á ganginum.

Ég hef ekki beðið þess bætur.

En að skammdeginu.  Það er svo gott að sitja í myrkrinu á morgnanna við kertaljós og hugsa. 

Svo tek ég partíið út í skýli þar sem ég reyki mínus kertaljós.  Held áfram að hugsa með sígóið en það kemur ekkert stórkostlegt út úr þeirri þankahríð.  Ég er hálf dofin í hausnum.

En það er notalegt.

Ég hef tekið óvísindalega könnun á þeim sem ég þekki og það kom í ljós að fólk er hrifnast af þeirri árstíð sem það fæðist inn í.  Tilviljun?

En þið?

Ég er í stjörnumerki með ISG, Dabba og fleirum.  Merkilegt, eins og ég er ljúf.  Nánast luðra.  Dettur hvorki af mér né friggings drýpur.

Misheppnað eintak ég en ekki ef þið spyrjið foreldra mína.  Þeim finnst ég frábær.

Talandi um það.  Öllum mínum fjölmörgu eiginmönnum í gegnum tíðina finnst ég frábær.

Líka systrum mínum og vinkonum.  Nú og dætrum mínum.

Ef ég held áfram svona þá verð ég búin að veita mér sokkabandsorðuna fyrir hádegi.

Ég á hana svo helvíti mikið skilið.

Ég er hætt að hugsa, það gerir mér hluti.

Farin í smók.

Falalalalalala


Jultomten

 jólakransa

Tíminn gjörsamlega flýgur áfram og ég fæ ekkert við því gert.

Ég var að átta mig á því áðan þegar mér varð litið á jólateljarann að það eru 11 dagar til jóla, bráðum 10!

Ég fórnaði höndum ég á eftir að gera svo mikið, redda svo miklu og svo á ég eftir að vinna úr hellings hugmyndum sem ég er ekki einu sinni búin að fá ennþá.

Ég er of upptekin af kreppunni það er nokkuð ljóst og já ég ætla að vera það áfram með jólaívafi.

Ég get gert bæði í einu sko, bæði tuggið og hugsað svo það verður ekki erfitt verkefni.

Ég mun blogga mig hása á milli þess sem ég dúlla mér í jólafyrirkomulagi.

Systkinin Hrafn Óli og Jenný Una Eriks- og Sörubörn eru hjá okkur í pössun.  Ég held að það sé jólagleði í gangi hjá FÍH.

Núna sofa englarnir mínir bæði svo sárasaklaus og undurfalleg hvort í sínu rúmi.

Jenný Una kom með jólasokkinn sinn með sér og festi hann kyrfilega á rúmið sitt.

Amma; þú mátt ekki hafa hátt þá hræðir þú jólasveininn.

Amman: Ég lofa, ég læðist eins og mús.  En hvað heitir jólasveininn sem kemur í kvöld?

Hið hálfsænska barn er ekki alveg með íslensku sveinana á hreinu: Hann heitir bara jólasveinn amma, sko JULTOMTEN heter han.

Amman gerði sér grein fyrir að það var kominn tími á smá kennslustund.

Eins gott að ég á kverið um jólasveinana.

Það verður verkefni morgundagsins.

Verið þið óhlýðin.  Sko borgaralega óhlýðin og um leið afskaplega jólaleg.

Falalalalalala


Halló - jólin gera manni hluti

kóksveinn

Þar sem það er kreppa og ég velti hverri krónu fyrir mér áður en ég kveð hana með kossi þá var ég að pæla í hvernig ég gæti nánaskast um jólin til að senda ekki krónur heimilisins á frítt flot út úr buddu og ofaní bæ og beint í glæpavasa sumra stóreignamanna sem höndla með ýmislegt.

Ég er jólanörd og hef alltaf verið og desember er minn uppáhaldsmánuður ójá.

Hvernig var þetta annars þegar við vorum að alast upp, spurði ég minn heittelskaða þar sem við sátum og reyndum að gúffa í okkur grjónagrautnum bæði kanil og rúsínulausum.

Hann sagði:  Það var súpa, rjúpur og frómas á aðfangadagskvöld.

Ég: Já og hvað var keypt af meðlæti á þessum tímum?

Hann mundi það ekki enda karlmaður og þeir ekkert með rosalegan áhuga á viðhengismeti á hátíðarborðinu, margir hverjir.

pipar

Ég fór því að pæla í því sjálf hvað keypt var inn þegar ég var barn.

Hangikjöt, jólasteik, grænar baunir, rauðkál, asíur, rauðrófur, blandaðir ávextir, ís, súkkulaði, brjóstsykur og konfekt, kókflöskur, malt og appelsín. Smákökur og randalínur bakaðar. 

Upp talið.  Eða hvað?

Á maður ekki að fara í þennan gírinn bara?

epli

En eins og lyktin var góð af eplunum sem geymd voru í geymslunni þá eru þau ekkert sérstök á bragðið þegar komið var fram á annan jóladag, í minningunni.  Voru þau ekki dáldið útlifuð, marin og skemmd?  Mig minnir það.

Æi,  en stundum er afturhvarf til fortíðar það eina rétta í stöðunni.  Þrátt fyrir mínusa þá hlýja þessi hugarferðalög mér um hjartaræturnar.

Og já á meðan ég man þá kom jólalestin frá Kókinu út á mér tárunum þegar ég bjó á Laugaveginum og gat glápt á hana út um gluggann með viðkomandi börnum fjölskyldunnar.

Ég þessi kommi inn að hjarta grét af væmni yfir helvítis auðvaldslestinni frá Kók.

Halló - jólin gera manni hluti.


mbl.is Jólalestin kemur með jólalögin í 12. sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krullukrúttið dóttir mín

helgalitla

Litla krullukrúttið í upphlutnum er fyrsta barnið mitt og hún heitir Helga Björk.

Í dag á hún afmæli og er 38 ára.

Nei, það gerir mig ekki gamla, ég var ung móðir og hana nú.

Við höfum þraukað í gegnum súrt og sætt ég og þessi stelpa og í dag tel ég hana til einna af minna bestu vinkonum.

Hún er frábær þessi unga kona og það þrátt fyrir að vera lögfræðingur (djók).

Helga Björk er líka mikil félagsvera sem sést best á því að ég fann varla mynd af henni sem ekki var tekin í hópi fólks.

helga

Sjáumst í kvöld Helga mín og njóttu dagsins þíns út í ystu.


Ekki svo mikið jólablogg

 jólaljósin

Ég sat og gapti yfir sjónvarpsfréttunum í gær þar sem sagði frá kostnaðarliðum forsetaembættisins.

Samt er alveg ferlega erfitt að ganga fram af mér eftir bankahrunið.  Þar hefur eyðsla og rugl náð hæðum sem erfitt er að toppa.

En ég var sum sé nánast orðlaus yfir kostnaðarliðunum.

Nema innlendum ferðalögum.  Þar var ekki bruðlað.  Hefði kannski mátt vera meiri sá liður, ég veit það ekki.

Það var símakostnaðurinn, launin, ferða- og hótlekosnaðurinn sem gaf mér illilega utan undir.

Ég veit ekkert hvernig forsetaembættið hefur eytt peningum svona yfirleitt, né heldur veit ég hvort ÓRG er meiri eyðsluseggur en forverar hans en það má segja Ólafi til varnar að hann hefur unnið eins og mófó fyrir hönd Íslands.

Nú má hins vegar alveg deila um hvort áherslurnar hjá karlinum hafi verið réttar þegar horft er til baka.

Ég er á því að hann hafi verið á langdregnum sjálfshátíðum með útrásarvíkingunum.

Nú hefur forsetaembættið mótmælt þessari frétt og segir að hún sé beinlínis röng eða villandi.

Hvað um það.  Ef eitthvað að þessu reynist rétt.  Að kostnaður við embættið sé svona hár þá vil ég að við förum að hugsa um að leggja niður þennan póst.

Við getum ráðið PR-mann til verksins.

Við erum fátæk þjóð og höfum ekki efni á svona flottræfilshætti.

En að mér og jólunum.

Í dag stendur hin árlega jólamartröð fyrir dyrum.

Ég ætla að greiða úr þessum tuttuguogeitthvað seríuum sem ég á.

Á hverju ári þegar ég tek niður seríurnar, algjörlega með upp í kok af jóleríi, læt ég mér ekki segjast og geng frá þeim eins og viti borin kona.

Ég nuðla þeim saman í eina bendu og hendi ofan í kassa.

Og á hverri aðventu líð ég fyrir skammsýnina.

Dem, dem, dem.

Farin að rekja.

Falalalala

Og til að bjarga deginum þá er hér eitt gamalt og gott jólalag með Abba Agnetu.

 

 


mbl.is Forsetaembættið mótmælir frétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólablogg hið þriðja

 

Og vér reynum að vinna upp tapaðar jólafærslur.  Ætla ekki að kreppublogga fyrr en í fyrramálið þannig að þið sem eruð í kreppuafneitun haldið ykkur úti því strax eftir Silfur Egils þá geysist ég fram á kreppuvöllinn  reddí tú kill.

jólaskór

En...

það er þetta með jólagjafir.  Allt í góðu með þær sko, finnst gaman að gefa þær og svona og reglulega gaman að fá þær líka. 

Ég held samt að ég sé óforbetranlegt kontrólfrík.

Mér er illa við að láta koma mér á óvart.

Eins og í fyrra þegar stelpurnar mínar gáfu mér ferð til London í janúar.

Ég varð svona hálf móðguð. Gefa mér Londonferð án þess að bera það upp við mig fyrst!  Frekjan!! Ég tók fimm í að jafna mig og knúsaði þær svo í klessu og var rosalega glöð með gjöfina.

Ég er ein af þeim sem vill ekki fyrirsjáanlegar gjafir frá eignmanni (hver þeirra sem í hlut á sko).

Ég vil ekki sjá skartgripagjafir eða eitthvað svona "rómantískt kjaftæði" af því mér finnst ekkert rómó við að minn heittelskaði hlaupi Laugaveginn á Þorláksmessu og kaupi einhvern karatsfjölda handa mér.  Gerir ekkert fyrir mig.  Ég þigg hins vegar með þökkum bók eða flík sem ég vel sjálf.

Ég vil heldur ekki blóm á konudögum og mæðradögum.

Lít ég út fyrir að vera sérstakur styrktaraðili blómabúða?  Ég hélt ekki.

En ég elska litlu hlutina, þegar eitthvað fallegt er sagt við mig svona óforvarandis, ferð á kaffihús upp úr þurru, hlýlegt augntillit og þessir sætu hlutir sem sagðir eru yfir kakóbolla í skammdeginu.

Það er rómans börnin góð.

jólakjólar

Kostar ekkert.

Húsband er verri en ég.  Hann er með standard svar til barnanna okkar þegar þau spyrja hann hvað hann vilji í jólagjöf.  Hann segir:  Hlýlegt handtak og koss á kinn.

(Og þau verða undantekningalaust pirruð og segja; ohhhh það er engin gjöf!!).

Ég er búin að sjá það að með þetta gjafa CV er ég draumur hvers manns.

En það er af því að þeir vita ekki hversu helvíti örlát ég er á sjálfa mig þegar ég slepp í fata- og skóbúðir ein og óstudd.

Falalalalala


Jólablogg II (ekki jólaglögg)

 santa-12

Það er búið að vera brjálað að gera á kærleiks í dag.

Við nöfnurnar rukum í smákökubaksturinn og þar gekk á ýmsu.

Fyrst voru það súkkulaðibitakökur sem átti að baka.

Jenný Una setti upp svuntuna og amman líka og vígalegar tókum við til við að mæla og hræra.

Eitthvað fór uppskriftin illa því í ofninum runnu kökurnar saman í eitt jukk og fengu á sig undarlega lögun.

Sko, amman gleymdi hveitinu.  Einum 500 grömmum eða svo.

Jenný Una sagði: Amma ertekki að lesa uppskrittina?  (Ég bölvaði í hljóði).

Við skutluðum okkur í kókosdraumana og Jenný Unu fannst deigið helst til of gott.

Amman: Þú færð í magann barn ef þú borðar deigið svona.

Jenný Una: Nei, ég er baddn ég fæ ALDREI í magann minn.

Svo fór hún og vakti húsband með því að hoppa ofan á honum og segja: Afi, klukkan er ellefu, amma segirða og þú átt að koma og drekka kaffi.

Svo fóru þau að leika sér og dauðþreytt amman tók til við uppskrift númer eitt, að þessu sinni með hveitinu.  Ég hélt að ég ætlaði aldrei að verða búin að setja á plötur, þetta er uppskrift fyrir mötuneyti í álverksmiðju.  Svei mér þá.

Ég kallaði á barn til að hjálpa mér við að móta kökurnar enda þetta allt gert til heiðurs henni.

Barn: Ég nenni ekkert að baka meir, éra leika mér við afa minn.

Amman: Jenný Una þú ætlaðir að baka kökurnar með ömmu og gefa svo mömmu og pabba.

Barn: Þú getir alleg gerta sjálf ég má ekkert vera aððí.  Svo hélt hún áfram í ballettleik.

Amman stóð því sveitt við bakstur fram eftir degi og bakarameistarinn sjálfur fyllti krukkur fyrir foreldrana og tók með sér heim hvar hún montaði sig vel og lengi yfir unnu dagsverki.

Annars var ég að velta því fyrir mér hversu eftirsóknarverður heiðarleiki barna er og þá einkum með tilliti til þess að hér virðast ráðamenn aldrei geta sagt það sem þeir meina umbúðalaust heldur pakka þeir kjaftæðinu í sér inn í jólapappír, yfirskreyta með slaufum og borðum og það er ekkert, alls ekkert inni í friggings jólapakkanum þegar manni tekst að opna hann eftir mikið erfiði.

Þeir mættu taka Jenný Unu Eriksdóttur og aðrar smámanneskjur sér til fyrirmyndar.

Segja bara nákvæmlega það sem þeir meina.

Falalalalalala


Jólablogg

 abb

Nú er ég í öflugu jólastuði.

Í gær náðum við í Jennýju á leikskólann og hún kom til að gista.

Við erum búin að gera margt skemmtilegt hér á kærleiks og vorum farin að sofa snemma örþreytt enda við gömul og barnið ungt og uppátækjasamt.

Jenný og húsband héldu jólapikknikk á stofugólfinu, límdu upp allskonar á veggina sem Jennýju fannst passa við jólin og svo var dansað smá, farið í þrautakóng, lesnar sögur, sungið um Eiríksjökul og ég veit ekki hvað og hvað.

En núna er stúlkan aðeins að kíkja á "baddnaeddni" í "sjónvartinu" og svo ætlar hún að baka.

Amman má aðstoða.

Við ætlum sem sagt að smákakast.

Oliver er farinn aftur heim til London með foreldrum sínum.  Stutt stopp en þau koma aftur um jólin.

Farin að taka til í bakstur.

Dragið fram barnið í ykkur.

Góð ráð í kreppunni.

En gleymið engu.

Úje


Lítill drengur

FLOWERS%20060 

Í dag eru ellefu ár frá því lítill drengur kvaddi jarðlífið eftir að hafa verið til í heiminum frá 17. september sama ár.

Hann hét Aron Örn Jóhannsson, var sonur hennar Mayu minnar og hann setti óafmáanleg spor í hjartað á okkur öllum sem stóðum að honum.

Lífið er skrýtið, eitt kemur þá annað fer.

Í dag kemur Maysa mín til landsins ásamt litla Oliver og Robba.

Það er fagnaðarefni.

En tilefni komunnar til landsins er sorglegt.

Tengdamamma Mayu og kær vinkona mín hún Brynja var að missa bróður sinn úr krabbameini langt fyrir aldur fram.

Ég er afskaplega meyr á þessum tíma.  Jólaljósin eru tendruð það er eftirvænting í loftinu blönduð trega og sorg.

Ég hef ákveðið að standa með lífinu og einbeita mér að þeim sem enn eru hérna megin grafar.

Lífið er ljúft og sárt.

Ég geymi Aron Örn í hjartanu eins og það ljós sem hann var.

Dóttir mín hringdi frá London áðan og sagðist vilja hakkað buff með lauk í kvöldmatinn.

Halló, hakkað buff með lauk?

Ég sem ætlaði að slátra alikálfinum

Ég hysja upp um mig og fer að kaupa í matinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 2985887

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband