Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Agú í boðinu

Mikið er ég þakklát fyrir að hafa fengið eitt barn í einu þrisvar sinnum í staðinn fyrir þrjú einu sinni.

Ég sver það, fleiri en eitt í einu með töluverðu millibili voru meira en nóg.

Sko, ekki vera með neinn æsing en ég er ekki ein af þessum konum sem ákvað að fara á eigin afli án hjálparefna í fæðingu og nei mér fannst aldrei tertubiti að eignast börn.

Mér fannst það helvíti vont og ég man það ennþá.

Ég er forstokkuð ég veit það en svoleiðis er það bara.

Sendi ákveðnum fæðingalækni fingurinn héðan, sko þessum sem sagði við mig þegar ég var að liðast í sundur í fjóra hluta fyrir framan hann;

Svona kona, slakaðu á þetta er ekkert vont!

Hann vissi það enda með margar fæðingar að baki eins og karlmenn yfirleitt.

En mikið rosalega vorkenni ég konunni sem eignaðist átta börn á bretti.

Reyndar vorkenni ég börnunum hennar meira og líka þeim sex sem fyrir voru.

Hvaða ábyrgðarleysi er það að hrúga svona mörgum börnum í heiminn?

Hvernig eiga foreldrarnir að sinna andlegum þörfum allra þessara barna svo vel sé?

Annars eru fréttir af þessu í dúllustíl.  Svo dætt að eignast átta stykki - agú.

Já krúttlegt fyrir alla nema starfsmenn á plani.

Svo segir móðir móðurinnar að hún sé með börn á heilanum.

Nákvæmlega.

Þegar þið farið í berjamó og týnið eins og brjálæðingar ákveðin dagpart þá vitið hvað þið sjáið þegar þið lokið augunum.

Jabb, ber, ber, ber.

Það er nákvæmlega það sem ég meina.

Annars er ég að fokkast í blogginu bara að gamni mínu, valdi það fram fyrir uppvaskið.  Tjuss.

Annars góð.

Agú.


mbl.is Áttburamóðir með börn á heilanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo aumingjalegt

Ég hef einu sinni átt í nágrannaerjum (ok tvisvar en annað skiptið bíttar ekki) og það er lífsreynsla sem ég hefði gjarnan viljað vera án.

Og þó, ég lærði af martraðarkenndri reynslunni.  Ég ákvað eftir að sá kafli var liðinn að ég skyldi aldrei fara í of mikil samskipti við nágranna mína.

Málið er að ef eitthvað fer úrskeiðis þá situr maður í súpunni og kemst hvergi.

Reyndar var þessi nágranni búin að terrorisera fleiri en mig, fólk flúði umvörpum. Viðkomandi stjórnaði heilum stigagangi með þýskum aga.  Hún angaði af sápu.

Ég ætla ekkert að vera að tíunda allt það kvalræði sem ég gekk í gegnum með viðkomandi en þegar skelfirinn lokaði kjallaradyrunum á börnin mín sem voru úti að leika sér bara svona til að kitla kvikindið í sér þá tók ég ákvörðun; Ég gat látið undan æðinu sem á mig rann vegna barnanna minna og framið eitthvað nú eða flutt.

Ég flutti og sá aldrei eftir því.

Annars er hellingur af fólki sem getur ekki búið í sambýli.  Þ.e. það telur sig geta það en "lendir" alltaf með fíflum sem gera líf þess óbærilegt.

Ég held að það sé víkingagenið í Íslendingum sem gerir það að verkum að við eigum helst heima í einbýli, amk. langar okkur flest í sér inngang, sér garða, sér þvottahús og allan pakkann.

("Sum" okkar langaði líka í einkaþotur, einkaþyrlur, einkaeyjur og einkastrendur og við vitum hvernig það fór).

Á meðan Danir t.d. fara bara og þvo úti á horni og eru hipp og kúl yfir félagsskapnum á meðan vélin vinnur sitt verk.

Nú voru friðartákn jólanna sjálfur trjábúskapurinn bitbein í blokk í bænum.

Einn dúndraði trénu á bíl hins, óvart sagði trékastarinn, með vilja gert sagði hinn.

Hvernig á heimurinn að geta orðið friðsamur ef fólk er í bullandi stríði í sama húsi?

Kommon, knúsist, elskist og drekkið saman kakó.

Þetta er svo aumingjalegt.

Alveg glatað.


mbl.is Nágrannaerjur vegna jólatrés
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krúttfærsla

jenný í sverige

Jenný Una gisti hjá okkur í nótt.

Það var gefandi og skemmtilegt eins og alltaf.

Félagsskapur barna toppar allt, svona oftast nær að minnsta kosti.

Ég held að Jenný Una sé svolítið að læra um fjölskyldutengsl.  Eins og hennar er von og vísa þá er afi í Keflavík pabbi hennar mömmu.  Farmor og farfar í Svíþjóð eru núna aðeins nefnd á nafn sem pabbi hans pabba og mamma hans pabba.

Svo sló hún mig algjörlega út af laginu í morgun og ég brjálaðist úr krúttkrampa þegar hún sagði hneyksluð á svip og í fasi (með hendur á mjöðmum):

Amma, veistu hvað?  Hún dóttir þín keypti allt of mikið nammi handa mér í gær og líka handa Söru Kamban!

Ég (algjörlega útúrhneyksluð líka): Ertu að meina þetta?  Gerði dóttir mín þetta virkilega?

Jenný Una: Já og hún fór líka með mig á bibbótekið (bibiliotekið) en það þýðir bókasafn á sænsku amma.

Ji hvað ég á stundum erfitt með mig nálægt börnum.  Langar að knúúúsa.

Stuttu seinna var Jenný Una búin að teikna margar myndir og bað mig um að hringja í DÓTTUR MÍNA og biðja hana að ná sig  "því ég nenni ekkert að vera meira há þér af því afi minn sefur allan daginn og vinnur í nóttinni."

Það er nefnilega það og auðvitað hringdi ég í dóttur mína og bað hana að koma og ná í dóttur sína og fara með hana heim til sonar síns litla og pabba hans og blóðföður þeirra beggja.

Ésús minn.

Ef þetta bjargar ekki lífi manns í kreppunni þá veit ég ekki hvað.

 


Hvað segirðu gott?

Tvisvar sinnum í dag hef ég verið spurð að því hvað ég segi gott.

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst alltaf að ég þurfi að svara þessu sannleikanum samkvæmt, jafnvel þó ég viti að þetta er bara kurteisiskveðja.

Gæti allt eins verið, varstu að týna skeljar?  Eða vaknaðirðu í morgun?

Oftast bít ég í tunguna á mér, brosi hressilega og segi allt fínt en þú?

En í dag þá nennti ég því ekki.

Ég svarði eins og satt var að ég hefði það skítt og væri búin að vera í bullandi tilvistarkreppu frá áramótum nokkurn veginn.

Annar spyrjandi sagði, svona eins og sumir þáttastjórnendur hjá RÚV sem kunna ekki að hlusta, Ji, en æðislegt.

Ég brosti til baka og sagði "sjáumst" en hugsaði "megirðu detta á hausinn þú mannlega frystikista".

Hin manneskjan varð alveg miður sín, spurði hvað væri að og hvort hún gæti aðstoðað mig í þessum þrengingum.

Ég sagði nei takk, ég nenni ekki að tala um hvað er að, af því allt er að, nema það sem er fínt sko, sem er ekki margt en er samt þó nokkuð, en þetta sökkar, mér líður illa. kapíss?

Sko málið er að ég nenni ekkert að vera að blogga um hvernig mér líður upp úr og niður úr.

En stundum er maður að springa.

Og þið sem hittið mig og eruð tímabundin.

Plís ekki spyrja mig hvað ég segi gott.

Því ég segi andskotann ekkert gott og gæti viljað deila því með ykkur í smáatriðum.

Amk. í dag.

Annars fín bara.


Þú blöggar ekki um þetta!

Ég var að tala í símann, við konu, sko vinkonu mína eða frænku skulum við segja og hún er utan að landi.  Ekki von á góðu þar af leiðandi.Halo

Við vorum að ræða landbúnaðarmál.

Ég hef ekki afturenda vit á þeim en tók samt þátt.  Alltaf til í að hafa skoðanir.

Hún var að kafna úr reiði vegna fordóma minna á bændastéttinni og ég viðurkenni að ég var svolítið í því að ganga fram af henni.

Hún: Þú ert ótrúleg.  Hvernig hefur þú komið þér upp öllum þessum hleypidónum?

Ég: Ha, hleypidónum?  Hvað er það?

Hún: Nú, nú, hætt að skilja íslensku, sko hleypidónar, formdómar.  Hefurðu aldrei heyrt orðið?

Ég: Er ég hleypidóni?

Hún: Já og það sem meira er þú hefur ekki hundsvit á landbúnaðarmálum.

Ég: Hehemm, meinarðu að ég sé haldin hleypidómum?

Hún: Já auðvitað, ég sagði það.

Svo hvæsti hún út á milli samanbitinna vara

Jenný Anna; ef þú blöggar um þetta þá drep ég þig.

Ég var svo aldeilis yfir mig hneyksluð og spurði hana hvort hún væri eitthvað verri.  Að fara með bjánaskapinn í fólki sem ÉG þekki á blöggið, aldrei.

Ég ætti ekki annað eftir.

Annars fín.

P.s. Bara svo það sé á hreinu þá þekki ég konu þessa aaaaaaaðeins lauslega bara.  Eiginlega ekki neitt.


Af flugfreyju, trylltum barnahóp og samtölum án krepputals

Ég fór í barnaafmæli þar sem ég hitti fullt af skemmtilegu fólki á öllum aldri.

Við töluðum ekki um kreppuna aldrei þessu vant enda allt fullt af börnum sem stukku um stofur í mögnuðum leikjum og það heyrðist í þeim.

Þess vegna brostum við eiginlega bara til hvors annars enda ekki hægt að heyra mannsins mál fyrir alls kyns spennandi leikhljóðum.

Á leið heim frá Stokkhólmi í gær horfði Jenný Una lengi á flugfreyjuna, alvarleg og hugsandi á svip.

Svo sagði hún:

Flugfreyja, þú ert mjög falleg kona.

Takk, sagði flugfreyjan og brosti fallega.

Jenný Una: Og svo ertu líka svo mjög fín.

Flugfreyjan: Takk elskan, þú ert líka fín.

Jenný Una (alveg; hvað er að konunni er hún blind?): Nei, érekki fín ér í gallabuxum.

En á morgun verð ég fín heima há mér.

Og það gekk eftir.  Afmælisbarnið sem hélt sína síðbúnu afmælisveislu með litlabróður (23. des. og 30. des), var í prinsessukjól og prinsessuskóm og á bakinu skartaði hún álfavængjum.

Amman bakaði hvíta prinsessuköku með silfurkúlum og kerti.

Hamingja barnsins var fullkomin.

Og þar með ömmunar líka.

Litli bróðir sem er alltaf glaður og ánægður breytti ekki út af vananum og skemmti sér konunglega enda orðinn eins árs.

Honum fannst skemmtilegast að leika sér með pappírinn utan af gjöfunum sem þau systkini fengu, innihaldið fékk að bíða betri tíma.


Klifur?

Á komandi ári mun allt ganga mér í haginn líka hjá öllu mínu fólki.

Ég mun brillera í fjallaklifri.

Ég mun klífa hæstu tinda, ná á toppinn aftur og aftur.

Ég er að tala um andlegt klifur aularnir ykkar.

Ég ætti ekki annað eftir en að fara aktjúallí að hendast um allt í láréttri stöðu niður í lóðbeint helvíti.

Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu ári.

Byltingin mun sjá til þess.


mbl.is Fjallkonur stefna á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni dagsins..

Afmælisbarn

Þessi litla stúlka, hún Jenný Una Eriksdóttir er fjögurra ára í dag.

Hennar er sárt saknað hér á kærleiks en afmælisbarnið er að heiman ásamt foreldrum sínum og bróður hjá farfar og farmor í Sverige.

Jenný hefur beðið lengi eftir afmælinu sínu, tíminn getur ekki liðið nógu fljótt þegar allir eru að eiga afmæli í kringum mann.

Jenný Una átti afskaplega erfitt með að sjá réttlætið í því að litli bróðir sem varð eins árs á Þorláksmessu ætti afmæli á undan henni sem er miklu eldri en hann.

Nú er beðið í ofvæni eftir 3. janúar á þessu heimili þegar ferðalangarnir koma heim og við fáum að knúsa þau.

Tengdamóðir mín elskuleg hún Gógó er áttræð í dag þannig að það er merkisdagur í tvennum skilningi hér á bæ.

Oliver fór til heim til London í gær og amman er frekar leið yfir þessum eilífu ferðalögum á fólki.

Að heilsast og kveðjast...

Jájá..

En til hamingju með daginn þinn ömmustelpan okkar.


Með mann í hjartanu

jenný sefur 

Sara yngsta dóttir mín er með fjölskyldunni sinni hjá tengdaforeldrum í Svíþjóð eins og ég hef sagt frá hér á síðunni.

Fyrir jól spurði Jenný Una mömmu sína um Jesú.  En dætur mínar hafa lítið verið að troða trúarbrögðum í börnin sín og látið nægja að kenna þeim að vera góðar manneskjur.

Jenný: Mamma hver er Jesús?

Sara: Hann er sonur Guðs og Guð er allt sem er gott í heiminum.  Jesú á afmæli á jólunum.

Jenný: Ekki 30. desember eins og ég. Hvar á Jesú heima?

Sara: Jesús er ekki alvöru maður en sumir segja að hann hafi einu sinni verið til og sé núna í hjartanu á fólki. (Sara í töluverðum erfiðleikum með að útskýra goðsögnina fyrir barninu).

Jenný: Ég vil ekkert hafa Jesús inni í hjartanu mínu, það er lítið og hann getur alveg verið heima hjá pabbasín bara.

Sara: (Eyðir hjartaumræðunni); Jesús á afmæli á jólunum og þess vegna fá allir gjafir.

Jenný Una (sáttfús): Jesús má vera í hjartanu mínu á afmælinu sínu en svo á hann að fara heim til sín, pabbi hans getir keypt rúm´handonum.

Guð minn góður, hvernig er hægt að ætlast til þess að börn læri hvað er raunverulegt og hvað ekki?

Hvað er andlegt og hvað er áþreifanlegt?

Í morgun sagði sú sem gerði Jesú brottrækan úr eigin líffæri við mig í símanum að hún "elskar mig och saknar mig jättemycket".

Sko.. when in Rome

Jabb í Sverige bregður maður fyrir sig tungumáli innfæddra, það er ekkert flóknara en það.

Ef börn eru ekki á við heilan Ésús þá er ég illa svikin.

Sjáumst.


Hefur konan aldrei séð gangandi barn?

Ég er ofboðslega upptekin.

Svo mikilvæg í hinu stóra samhengi alheimsins.

Jabb, ég veit það, ég er hógværðin holdi klædd.

hrafn oli

Lítill drengur er eins árs í dag, hann heitir Hrafn Óli (a.k.a. Lilleman) og hann er yngsta barnabarnið mitt.

Hann er bróðir hennar Jennýjar Unu og þau systkinin eyða jólunum heima hjá farfar og farmor í Svíþjóð.

Hrafn Óli byrjaði að ganga í gær til að það væri hægt að færa það til bókar að hann hefði hafið gönguna FYRIR afmælið sitt.

Móðirin veinaði af aðdáun þegar barnið tók á rás og Lilleman horfði á hana undrunaraugum alveg svona:

"Hefur konan aldrei séð gangandi barn?"

Yngsta dóttir mín velur skemmtilega daga til barneigna.

Þorláksmessu og daginn fyrir gamlársdag!

Ef hún eignast hið þriðja þá kemur það væntanlega á aðfanga- eða jóladag.

En ég knúsa þessa litlu krúttsprengju í huganum.

Farin í búð.

Fyrir jól, fyrir jól, fyrir jól.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.