Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ég lifði af - Nananabúbú!!

Ég er á lífi, dramadrottningin sjálf.  Ég stóð mig eins og hetja, segir húsbandið, sem hélt í hendurnar á mér meðan læknirinn þrælaði 14 feta sprautunni sem var 90 cm í þvermál (ok, ýki smá) í beinið á mér og dró út merginn.

Að fara í mergsýnatöku er lífsreynsla. 

Áhugasamir hafi samband.

Nú bíð ég í viku eftir niðurstöðum og á meðan ætla ég að hafa gaman.

Lalalala

Úje


Huggun!

Á morgun er töff dagur framundan hjá mér.  Ég er að fara í mergsýnitöku eða hvað það nú heitir.  Þetta hefur haft langan aðdraganda og ég var að vona að ég slyppi við þetta inngrip.  En ekki þýðir að gráta Björn bónda, heldur safna liði og all that shit".  Sum sé, ég þarf að taka á honum stóra mínum þar til seinni partinn á morgun.

Ég hef ekki trú á stjörnuspám en hef gert stólpagrín að þeim hér á blogginu í sumar.  En nú hentar mér að taka hana alvarlega.  Spá dagsins (þriðjudags er svona):

"Steingeit: Þú lendir í alls kyns flóknum aðstæðum, en leysir alltaf úr þeim. Þar sem það er ómögulegt að öðlast þroska án reynslu, verður þú opinberlega þroskaður í lok dagsins."
Ég fer í fyrirkomulagið klukkan fimm og ég kem heim opinberlega þroskuð og alveg yfirmáta reynslunni ríkari.  Allir hamingjusamir og glaðir, þar á meðal ég.
Kva!
Cry me a river!
Úje!

Hálf milljón manna

Það er að bresta á með fimmhundruðþúsundasta gestinum á síðunni minni.  Hm.. auðvitað margir sem koma aftur og aftur, mér er sama, þetta er skolli há tala.  Ég hugsa aldrei út í að það eru hinir og þessir sem eru inni á síðunni minni sem ég hef ekki hugmynd um hverjir eru, enda er ég alveg sátt við það.  Stundum skilur fólk eftir kvitt í gestabók, en annars er það meira og minna sama fólkið sem ég sé í kommentakerfinu, þ.e. mínir elskuðu bloggvinir.

Nú, það væri gaman að fá kvitt í tilefni dagsins, ef fók nennir, ekki að það skipti máli.

Ég byrjaði að blogga 26. febrúar og manísk eins og ég er, þegar ég tek mér eitthvað fyrir hendur, þá hef ég bloggað upp á dag síðan.

En þetta er hálfmilludagur Jennýjar Önnu og ég óska mér hjartanlega til hamingju með það.

Lalalala


Pabbi hennar Jennýjar..

1

..hann Erik Quick, á afmæli í dag.  Fyrir utan að vera brilljant tónlistarmaður og kennari, þá er hann með betri pöbbum á norðurhveli jarðar.  Hef ég sagt það áður hversu heppin ég er með tengdasyni?  Allir þrír alveg brilljant menn.

En í dag á Erik afmæli og ég veit að hann hefur fengið morgunmatinn í rúmið í morgun, og þar hefur farið fyrir flokki (tveggja kvenna) hún Jenný Una Eriksdóttir og ég veit að hún hefur sungið afmælissönginn, bæði á sænsku og íslensku, "hátt og njallt", eins og hennar er von og vísa.

Grattis på födelsedagen Erik.

Lalalalala!


Afneitun alkans - Snúrukorn

63

Það er með Britneyju, kjéddluna eins og okkur hina alkana, að á meðan afneitunin er í gangi, er enginn máttur á jarðríki sem getur fengið mann til að hlusta.  Ekkert sem getur fengið okkur til að sjá að það sé eitthvað að hjá okkur.  Við getum hins vegar, bent á milljón ástæður fyrir því, hversu bágt við eigum og hve heimurinn sé okkur vondur og óréttlátur.  Við erum fórnarlömb.  Afneitun alkans er svo sterk, svo yfirþyrmandi að hún myndar vegg á milli hugsunar og skynsemi.

Hvað annað en afneitun á ástandinu fær mann til að meiða sjálfan sig og særa alla sem maður elskar og þykir vænt um?  Það er ekki eins og þeir sem haldnir eru sjúkdómnum alkahólisma, séu svona illa innrættir, vilji meiða og skemma og láta allt hrynja í kringum sig. 

Ég er svo fegin að mér tókst, með góðra manna hjálp að horfast í augu við minn vanda og fá hjálp við honum.  Þvílíkur léttir sem það er að hætta að ljúga, að sjálfum sér fyrst og fremst og svo auðvitað að öllum hinum í leiðinni.

Ég ætla a.m.k. að óska þess að þessi kona, sem er á milli tanna okkar allra, ásamt öllum þeim sem enn þjást af sjúkdómnum alkóhólisma, nái í gegnum afneitunina og uppskeri edrú líf í staðinn.

Og ég er í þann mun að fara að sofa - allsgáð að sjálfsögðu.

Nigthy - Nigthy

 


mbl.is Vinir Britney ráðþrota gagnvart afneitun hennar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í krúttkasti

 

jenny og oliver

Afi Jennýjar og Olivers, sendi mér þessa krúttmynd af þeim í gær.  Ég flippaði út.  Mikið rosalega eru þau miklar dúllur þarna, svona lítil.  Karakterinn leynir sér ekki en Oliver er bara krúsu beibí og Jenný Una er komin með einbeittan framkvæmdavilja.  Hehe.

Svona líta krúttin mín út núna uþb tveimur árum síðar.

Góður Oliver, alltaf í stuði.                     Og Jennslan........

Allaf góð, alltaf glöð og alltaf að sk... ok,ok, eins og Jenný segir, það er ekki meira í boði.

Later!

 

 

 


Viðkvæmir Íslendingar?

Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég las þessa "frétt" í Mogganum.  Hún er um mikla umræðu á blogginu vegna ummæla hans þarna "hvaðhannnúheitir" (Pablo Francisco) í Blaðinu á þriðjudag.

"Miklar umræður fóru af stað á bloggsvæði mbl.is á þriðjudag vegna ummæla Francisco. Flestir voru ósáttir við ummælin og könnuðust fæstir við að drekka áður en þeir mættu í vinnu."

Ég bloggaði um þetta í fíflagangi, af því mér fannst þetta fyndið og mér gæti ekki staðið meira á sama hvað einhverjum dúdda úti í heimi finnst um drykkjuvenjur Íslendinga.  Ekki það, að þær (venjurnar) séu eitthvað til að hrópa húrra fyrir, þegar þær taka á sig sína verstu mynd.

Auðvitað klæðir fólk mis vel að drekka.  Ég hætti vegna þess að það fór mér illa.  Það eru ábyggilega nokkuð margir sem mættu gera slíkt hið sama, skella sér í meðferð og vera til friðs.  Megin þorri fólks getur hins vegar drukkið sér til ánægju og án þess að leggja allt í rúst í kringum sig, í öllum skilningi þess orð.  Það fólk sést og heyrist sjaldnast, enda ekki með hryðjuverkastarfsemi niðri í bæ.

Annars er það alveg stórmerkilegt hvað við Íslendingar erum enn viðkvæmir fyrir áliti útlendinga á okkur.  Það er merki um lélega sjálfsmynd þegar maður leitar stöðugt álits á sjáflum sér hjá öðru fólki.

Hættum því.

Komasho.


mbl.is Mikil umræða á blogginu eftir ummæli Francisco um drykkjuþol Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikhúsferð innblásin af Baltasar

 2

Þegar ég var stelpa var farið með mig á flest allar leiksýningar sem í boði voru og auðvitað elska ég leikhús.

Ég tók sömu aðferð á dætur mínar með ágætis árangri, þ.e. þær elska leikhúsið.

Þegar Maysa mín var 13 ára sýndi hún samt óvenju mikinn áhuga á að komast í Þjóðleikhúsið til að sjá  leikritið um rússnesku kennslukonuna hana Jelenu.  Við drifum okkur mæðgurnar, ekki mátti neita barni um leikhúsupplifunina sem myndi auðvitað stækka vitundarsvið hennar, bæta við tilfinningaflóruna og hvetja hana til enn frekari lesturs bókmennta (omg foreldrar). 

Í miðri sýningu varð mér litið á krakkann og þá sá ég að hún var með augun spennt á einn leikara á sviðinu - Baltasar.  Ég fór að fylgjast með enn betur og í hvert skipti sem Baltasar hreyfði sig, þá hreyfðist höfuð á ungling.  Í hléinu fór ég að spyrja út í verkið og María Greta Einarsdóttir leit á mig og sagði: Mamma ég er að horfa á Baltasar, ég tók ekkert eftir því hvað hinir voru að gera.

Trú mín á mannkyninu beið þarna mikinn hnekki.

Þetta kom upp í huga mér,  þegar ég las um að Baltasar væri með eftirsóttari leikstjórum.

Maðurinn er afburða leikari og afburða leikstjóri.

Verst að hann skuli ekki vera í hvorutveggja.

Og María Greta; skammastuðín, að hafa haft móður þína að ginningarfífli.

Úje!

 

 


mbl.is Baltasar eftirsóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jenný á laugardegi.

31

Hún Jenný Una Eriksdóttir er á leiðinni til okkar, í þessum skrifuðu orðum.  Amman er komin með alvarlega krúttfráhvörf, en það er nokkrir dagar síðan prinsessan hefur sést og það er erfitt viðureignar fyrir viðkomandi fjölskyldu.  Nú ætlar hún að vera alveg til morguns, líta til með sínum "eigins" Bördí og vera skemmtileg eins og henni einni er lagið.

Ég talaði við hana í síma í gær.

Jenný: Amma ertu pírípú?

Amman: Ha????

Jenný: É ekki pírú (smá fótaskortur), ég fara sundið mín með pabbamín. Góða nótt. (WHAT?)

Jenný er hamingjusamlega ómeðvituð um að Sundhöll Reykjavíkur var ekki byggð fyrir hana eina, en hún stendur í þeirri bjargföstu trú að aðrir sundlaugargestir séu þar í hennar boði.  Hún er grand á því stelpan og vill alveg leyfa öðrum að njóta með sér fasteignarinnar við Barónsstíg.

En eins og hún segir; Jenný alltaf góð, alltaf glöð og alltaf að skiptast á.

Barnið er verðandi VG ég get svo svarið það.

Njótið dagsins og ekki vera pírípú, það eru bara 95 dagar til jóla.

Úje


Dramadrottningin ég!

Ég er dramadrottning, hef alltaf verið, en þessi skapgerðarbrestur fer eitthvað dvínandi, eftir því sem ég verð eldri.  Mér finnst allavega að ég verði að slaka aðeins á tilfinningaupphlaupunum, eftir að ég varð ráðsett amma og svoleiðis.

Ég man eftir fyrsta dramakastinu þegar ég var sex ára. Þá átti að setja mig í kjól sem mér líkaði ekki og fjandinn varð laus.  Það endaði með að múgur og margmenni hafði safnast saman til að róa drottninguna.

Þetta jókst síðan bara og setningar eins og þessar heyrðust oft ef dætur mínar gleymdu að laga til í herbergjunum sínum, vildu ekki matinn og þ.u.l.

"Þið slítið HJARTAÐ úr brjóstinu á mér"

"Ég myndi slíta af mér ÚTLIMINA til að gefa ykkur að borða " (Þessi vakti alltaf mikla lukku)

"Heimurinn sveltur og lítil börn DEYJA í milljónatali og þið neitið að borða"

"Ég er yfirkomin af HARMI vegna útgangsins hérna"

"Þó ég lægi hér í BLÓÐI mínu mynduð þið ganga fram hjá mér án þess að sópa mér upp"

"Það er heilt LÍFRÍKI að myndast í fatabingnum á gólfinu"

Dætur mínar eru stálheilbrigðar ungar konur þrátt fyrir að eiga þessa yfirspiluðu konu fyrir móður. 

Þess ber þó að geta að ég ýki BRJÁLÆÐISLEGA þegar ég segi frá og hendi mér í VEGG af eintómri viðleitni til að segja sannleikann hverju sinni.

Ójá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 2987761

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.