Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Stríðið er hafið!

 woman_laughing

Haustinu fylgja vatnavextir og hamagangur í veðrinu.

Að því tilskyldu að ekkert skemmist þá játa ég hér með að ég elska haustlægðir með öllum þeim djöfuldómi sem þeim fylgir.

Á kærleiks- og menningarheimili mínu er hafið hið árlega hausstríð milli okkar sem hér búum í heilögu sáttmálasambandi blessuðu af guði (eða séra Solveigu Láru sem er miklu krúttlegri en guð svo ég segi það bara hreint út).

Málið er að á hverju hausti s.l. 15 ár eða svo, förum við húsband í heiftúðugt stríð nánast upp á líf og dauða.

Í stríði eru allt leyfilegt eins og í ástinni (klisja, klisja, klisja) og við sláum hvort annað út í kvikindislega upphugsuðum úrræðum til að standa uppi sem sigurvegarar.

Stríðið er um ofna og glugga.

Hann vill hálflokaða glugga og blússandi ofna.

Ég vil galopna glugga og kalda ofna.

Ég treysti honum ekki - hann ekki mér.

Ertu búin að slökkva á ofninum, spyr hann þegar hann kemur í rúmið á kvöldin.

Ég (hneyksluð): Nei, auðvitað ekki, þú varst búin að biðja mig um að láta ofninn vera.

(Ég er hinsvegar algjörlega sek hérna og vonast til að hann láti vera að tékka, en því miður, hann veit að ég lýg eins og sprúttsali um þessi mál).

Ég: Er glugginn opinn upp á gátt (sé það ekki fyrir rúllugardínunni)?

Hann (kuldalega): Auðvitað, ég veit ég má ekki loka þá brjálast þú.

(Á þessu stigi málsins kemur löng ræða um skítlegt eðli mitt, breyskan karakter með tilvísun í lygar mínar og undirferli).

Ég: Æi, hættu og komdu að sofa.

Hann: Hmrpfm

Síðan er það spurningin um hvort sofnar fyrr.

Sá sem það gerir er í vondum málum því hitt kvikindið fer og kemur glugga og ofni fyrir á þann máta sem því best hugnast.

Og daginn eftir heldur þessi skemmtilegi leikur áfram eða alveg fram á vor en þá vill svo merkilega til að hagsmunir okkur skarast ekki.

Ég elska haustið.


mbl.is „Allir lækir eins og stórfljót"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af tombólufrömuðum, góðum málefnum, skorti á þolinmæði og gítarsnillingum

afml.oliver 

Ég er að bíða og telja niður.

Næsta miðvikudag kemur hún Maysa mín með fjölskylduna í viku heimsókn frá London.

Ég hef ekki séð þau síðan um jól.

Þolinmæði hefur aldrei verið sterkasta hlið þeirrar konu sem hér hamast á lyklaborði en ég reikna með að þessir dagar fram að hingaðkomu líði eins og allir aðrir dagar.

Guð gef mér þolinmæði strax!

maysa og oliver

Og af því ég er nú byrjuð að fjölskyldast þá verð ég að skella hérna inn mynd af fallega stærsta barnabarninu mínum honum Jökla en hann er frábær gítarleikari og hér er hann með húsbandi og auðvitað lætur Jenný Una sig ekki vanta.

tríó

Ein lítil krúttsaga kemur svo í lokin.

jenný og tryggvia

Í gær fóru Jenný Una og Franklín Máni Addnason (sem kastaði sandi í mér á leikskóla mín) og opnuðu tombólu við Kjörgarð í gær. (Myndin er af Tryggva og Jenný, fann ekki neina af Franklín).

Mömmurnar voru á kantinum að gæta fjögurra ára athafnafólksins sem ætlaði að styrkja félag langveikra barna.

Eitthvað gekk illa að útskýra þetta með langveik börn fyrir Jenný Unu og á endanum gafst mamma hennar upp og sagði að þau myndu gefa afraksturinn til fátækra barna. 

Jenný Una samþykkti það.

Eftir klukkutíma í athafnalífinu voru tombólufrömuðirnir búnir að fá nóg og voru farnir að elta vegfarandendur, fela sig, stinga af inn í Kjörgarð og svona, orðin þreytt á verslun og viðskiptum.

Kona sem kom að og vildi leggja málefninu lið fékk skýrar upplýsingar frá Jennýju Unu.

Ég ætla ekkert að gefa péninginn til fátæku baddnana ég ætla að kaupa mér ís.

Konunni fannst þetta bara skemmtilegt og pungaði út heilum 200 krónum til þessa verðandi útrásarvíkings..

Og nú er spurningin hvort Jenný Una verður ekki látin yfir Sjóvá eða einhverja sjóði þar sem mottóið er að láta peningana bara hverfa í sukk og svínarí?

Ég hef áhyggjur af hortugri dótturdóttur minni sem ætlar að eyða og spenna í nammi og ís fyrir peningana sem hún aflaði til góðra málefna.

Amman ætlar reyndar að verðlauna þetta athafnakrútt með fullt af ís og poppi þegar hún kemur í heimsókn á föstudaginn.

Arg..

Börn eru lífið.

noname

P.s. Var að fá þessa mynd af Laugavegshösslurunum á svæðinu í gær.

Með ís, nema hvað.


Eldheitar samræður á milli hjóna

 í síma

Miðað við langa og fjölbreytta reynslu mína í hinum ýmsu hjónaböndum ætti ekki margt að koma mér á óvart.

Enda er það svoleiðis. 

Reynslan beinlínis drýpur af mér.

Tel mig kunna hjónabönd upp á milljón og þrjá.

En svo varð mér á í messunni.

Í kvöld fór minn ástkæri út í búð til að kaupa eitt og annað.

Þegar hann gekk út úr húsi kallaði ég á eftir honum og bað hann um að kaupa xxxxxxxxx.

Þú mátt ekki gleyma því hrópaði ég hátt og skýrt. 

Hann: Nei, nei, nei, auðvitað ekki.  Ég er með meðvitund kona.

Tíu mínútum seinna: Riiiiiiiiiiiiing.

Ég: Halló.

Hann: Hæ, hvað var það sem ég mátti ekki gleyma að kaupa?

Ég: Ertu strax búinn að gleyma því?  Kommon, hvernig væri að hlusta á mig?

Hann (lágum rómi): Hvað var það Jenný, ég stend hérna eins og fífl í miðri búð.

Ég: Vá hvað þetta er flatterandi, ekki hlusta gat á hljóðhimnuna þegar ég tala við þig.  Urrrrr.

Hann: JENNÝ!

Ég (með brostið hjarta tók langa blóðdrjúpandi kúnstpásu): Það var ekkert merkilegt greinilega (fórnarlambsblóðbunan svettist á vegginn fyrir framan mig þegar hér var komið sögu), við sleppum þessu.

Hann: Nei veistu að nú legg ég á.

Ég: Já gerðu það.  Enda hef ég ekkert að segja.  Bless.  Pang.

Fimm mínútum seinna mundi ég hvað það var sem hann átti að kaupa.

Mig vantaði kveikjara.  Sárvantaði hann.

En ég ætla EKKI að tilkynna viðkomandi eiginmanni að ég hafi verið búin að gleyma hvað mig vantaði.

Því myndi hann EKKI gleyma það er á hreinu.

Andrei nokkurn tímann.

Frusss.


FME: No comment

 WomanThinking

Smá laugardagspæling hérna handa ykkur börnin mín södd og sæl.

Þann dag sem Fjármálaeftirlitið aktjúallí tjáir sig um eitthvað þá vil ég sjá um það frétt.

Það teljast varla fréttir að þeir neiti að tjá sig þessir innvígða leyniklíka.

En..

Ég er á feisbúkk.  Ætlaði aldrei þangað en gerði það samt.

Ég er nefnilega svo ferlega lítið samkvæm sjálfri mér.

Quizzin á feisbúkk voru líka á mínum "aldrei að koma nálægt lista" en samt quizza ég eins og enginn sé morgundagurinn.

Þessar "skoðanakannanir" á feisinu hafa aukið sjálfsþekkingu mína til mikilla muna.

Ég veit núna svo margt um sjálfa mig sem ég vissi ekki áður.

Ég var stríðsmaður í fyrra lífi, ég á að vera rauðhærð, augu mín eru blá þó þau séu brún, ég er afburðagreind samkvæmt einu svona prófi, ekki litblind, mun eignast tvö börn (á þrjú), mun gifta mig aftur eftir 16 ár, er í eðlilegri þyngd, er 67% tæfa, svo kaldhæðin að það á að loka mig inni og ég á að gerast listmálari, þá væntanlega eftir að það er búið að loka mig inni.

Ég er þó með prinsipp á feisinu.  Prinsipp sem verður ekki brotið.

Það er ekki til umræðu einu sinni.

Ég sendi fólki ekki rafrænt konfekt eða bangsa. 

Sendi ekki rafræn blóm og ég safna ekki hjörtum.

Ef sá dagur rennur upp að ég missi mig í rafrænar sendingar til fólks - þá ætla ég að biðja ykkur kæru vinir að keyra mig í vatteraðan klefa og loka mig inni og henda lyklinum.

Og hvað er maður að svara heimskulegum spurningum í "status" um hvað maður sé að hugsa?

Hjarðeðlið allsráðandi og maður svarar samviskusamlega svo allir geta lesið;

Jenný Anna Baldursdóttir er að hugsa um að fremja morð á höfundum feisbúkk.

Omæómæ.

Eins gott að þeir hjá FME eru ekki á feisinu.

Þeir myndu auðvitað setja í status:

FME: No comment.


mbl.is Tjáir sig ekki um vinnubrögð annarra sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"In case" ég veikist eða slasist

Ég nenni ekki neinni jákvæðni í dag.

Í mínum huga er bara mánudagur og þá er gott að taka út pirringinn fyrir vikuna.

Ég var nefnilega haldin sjúklegri jákvæðni á s.l. mánudag og er enn að jafna mig.

Fyrsta mál á dagskrá er þessi glataða auglýsing frá Byr um fjárhagslega heilsu.

Eru ekki peningar búnir að gera okkur að bullandi lasinni þjóð og fjárhagslega fárveikri?

Fyrir utan að ég er búin að fá nóg af því að peningum sé troðið inn í alla skapaða hluti.

Þar er það búið.  Tjékk.

Og talandi um heilsu.

Ég þarf stundum af fara til læknis.

Eins og flestir.

En það er sama hvað hrjáir mig ég fæ standard svar frá öllum læknum sem ég rekst á (ókei, ýkjur en ég má, þetta er mín síða).

Ég datt (full) á svölunum um árið þegar ég reikaði um með bjór í hendi grillandi eins og fífl og var að reyna að herma eftir lífi venjulegs fólks.

Hvað um það, ég fór á slysó, slösuð á hné (ó þú yndislega afneitun, mér láðist að útskýra hvernig ég gat mögulega hafa troðið löppinni undir gasgrillið, sem var framkvæmanlegt á 15.  í bjór, vegna þess að nefndir útlimir voru orðnir mjúkir og útvatnaðir, en það er önnur saga).

Læknirinn sagði mér að hætta að reykja.

Það sprakk í mér hljóðhimnan um daginn, læknir kom heim, hann var fínn og gaf mér lyf við ígerðinni í eyranu og sagði mér í leiðinni (rarararara) að hætta að reykja.

Ég gæti dáið hérna úr fótbroti, alkahólisma (eins gott að ég er hvínandi edrú), astma, sólarexemi, gláku eða heimakomu (hvað er það?) af því að læknirinn sæi ekki í gegnum reykkófið.

Það gæti keyrt á mig ökutæki og mér yrði sagt að hætta að reykja!

Fjandinn hafi það, ég verð að hætta að reykja.

In case ég veikist eða slasist.

Djöfuls verkun, þetta endar með að ég losna frá jörðinni upp í fjandans himinhvolfið í dúndrandi háheilagleika.

Svo fullkomin sem ég er að verða.

Dæs.


Sólarsyrpa

Ég er í svo miklu sumarfyrirkomulagi þessa dagana.

Fátt fær við mér hreyft eða þannig.

Að minnsta kosti hef ég ekki kastað mér í vegg nýlega, einfaldlega nenni því ekki.

En um daginn þá útskrifaðist yngsta dóttir mín sem stúdent.

Veislan var flott.

Veðrið yndislegt.

Ég skemmti mér konunglega.

Jájá.

Smá sýnishorn úr veislu, annars er ég orðin löt að setja inn myndir á bloggið, þær eru nefnilega allar á feisinu.

afinn og barnið

Húsbandið og afinn með Jenný Unu, en hún skemmti sér konunglega í veislu móður sinnar, nema hvað.

Elsta barnabarnið mitt hann Jökull er þrusu gítarleikari og þarna er kominn vísir að fjölskyldubandi.  Jenný Una lætur sig ekki vanta í bakgrunninn og sýnist sitja í lótusstellingu en hún var að hoppa hátt út í geim við þetta tækifæri.

húsbandið

pósandi stúdína

Hér pósar svo stúdínan á svölum M13 og mágurinn les á Blackberry.

Elsku fallegi Oliver minn í London kemur í heimsókn í júlí. 

oliver stjarna vikunnar

Um daginn var hann stjarna vikunnar í leikskólanum.  Ekki leiðinlegt.

Halló heimur; Oliver kallar!

halló heimur

Ekki má gleyma litla villingnum honum Hrafni Óla.

Hér í glugga, svo sumarlegur.

lilli

Svo klífur maður fjöll.  Úff, erfitt en brotaviljinn er einbeittur.

lilli1

Og að lokum ein mynd af undirritaðri með Ingu vinkonu minni í Hallargarðinum.

Nokkuð langt síðan.

ég og Inga vinkona

Svo óska ég ykkur gleðilegs dags og dásamlegrar helgar.

Úje.

 

 


Jói morðingi

aaa 

Jenný Una fékk að gista "há" okkur í nótt.

Það er ekki leiðinlegt.

Svo fórum við inn að lesa, þrátt fyrir að Jenný Una væri á því að það væri engin nótt komin.

"Sjáðu amma, það er ekki myrkur úti".

Við lásum Jóa og baunagrasið eftir að hafa tekið Emmu, sem hún kann utan að, en ég held að Emma hafi verið kríuð út til að lengja í lestímanum.

Að minnsta kosti var barn með forstokkað glott og einstaka hláturrokur þegar ég tók Emmu öfugsnúnu.

Alveg þessi: Ég leyfi ömmu að halda að ég sé spennt fyrir þessum smábaddnabókmenntum.

Og svo lásum við Jóa og baunagrasið ógurlega, sem náði langt upp í geim þar sem ljóti og vondi risinn bjó, hann sem drap pabba hans Jóa og stal af honum hverri krónu.

(Merkilegt hvað þessi gömlu ævintýri eru hryllilega blóðug).

Í lokinn heggur Jói á baunagrasið og risinn steypist til jarðar og stendur ekki upp aftur.

"Amma; Jói drepti risann, það er ekki fallett".

"Nei, Jenný mín, risinn datt þegar Jói hjó í sundur baunagrasið".

"Já þá drepti hann risann".

Ég spurði hvort henni fyndist það leiðinlegt.

"Nei, nei, þaer allt í lagi afðí Risinn drap pabba hans Jóa og þau þurftu peningahænuna".

(Róleg á miskunnarleysinu barn guðs og lifandi, hugsa ég og er orðin dauðhrædd við þetta fjögurra ára kaldrifjaða barn).

Barnið er farið að glotta háðuglega af ömmunni þegar hún finnur að tekist hefur að ganga fram af henni.

Hvar endar þetta?

Ég þarf að verða mér út um pedagógískar nútímabókmenntir fyrir barnabörnin.

Gömlu ævintýrin eru löðrandi glæparit með bullandi ofbeldisinnrætingu, mannáti, þjófnaði og morðum.

Nema hvað.


..er að finna minn innri kjarna

 20080429111835_0

Í morgun þegar mamma hennar Jennýjar Unu kom inn í herbergið hennar sat fjögurra ára snótin í lótusstellingu á rúminu sínu, augun lokuð og hendur í jógastellingu.

Mamma: Hvað ertu að gera elskan?

Jenný Una: Ekki trubbla mig, ér að hugleiða til að finna minn innri kjarna!

Mamman: Ha??????????

Jenný Una: Það er jóga.

Mamman: Hver kenndi þér þetta?

Jenný Una: Ég geri alltaf svona í leikskólanum mínum.

Amman er í öflugu krúttkasti.

Þess má geta að Jenný Una er á leikskóla Hjallastefnunnar.

Þar er greinilega verið að gera eitthvað af viti.


Þessi fallega stúlka

stúdentinn

Yngsta dóttir mín hún Sara Hrund (28 ára), mamma Jennýjar Unu og Hrafns Óla er að útskrifast sem stúdent í dag. 

Á þeim fjórum árum sem hún tók í námið eignaðist hún tvö börn, var alvarlega slösuð í baki, en það varð til þess að hún ákvað að klára það sem hún hafði byrjað á nokkrum árum áður.

Hún útskrifast með toppeinkunnir að sjálfsögðu og ef þið hafið ekki áttað ykkur á því enn, þá tilkynnist hér með að ég er afskaplega stolt af henni.

Ég er reyndar rígmontin af öllum stelpunum mínum enda allar hver annarri fallegri og duglegri og það sem meira er um vert, þær eru gegnheilar og góðar manneskjur.

 

student3

Myndirnar voru teknar á dimmiteringunni um daginn. 

Í dag er það útskriftarathöfnin í Háskólabíó og svo veisla á eftir.

Þetta er stór dagur, það eina sem vantar upp á fullkomnun er að miðstelpan mín hún Maya er í London og verður fjarri góðu gamni.

Ég er sem sagt í hátíðarskapi og með tárin í augunum.

Þannig er ég alltaf á svona stundum, algjör grenjuskjóða.

Í stúdentaveislunni hennar Helgu Bjarkar (elstu) fengjum við Diddú til að syngja og ég grenjaði flóði af einskærri hamingju.

Annars er ég töffari upp á tíu.

Njótið dagsins.


Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 2987322

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband