Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fitjastefnan og Útlendingalögreglan

Ég er komin með upp í kok af kerfiskörlum sem virðast hafa lög og reglur í hjartastað og beita þeim óspart fyrir sig þegar reynt er að benda þeim á að þeir eru að fjalla um líf og örlög fólks.

Útlendingastofnun er held ég sú ómanneskjulegasta stofnun sem hér hefur verið búin til og að því er virðist til þess eins að koma fólki úr landi sé þess nokkur kostur.

Ég vil ekki hafa þetta svona, og ég er svo sannarlega ekki ein um það.

Haukur Guðmundsson, forstjóri Útlendingastofnunar er jafn mannlegur og grjótmulningsvél (að vanda) þegar Morgunblaðið spyr hann um hvort undirskriftalistar íbúa Seyðisfjarðar til stuðnings Japsý Jacob, sem þar býr og starfar en á nú að henda úr landi, hafi áhrif á mál hennar og svarar með eftirfarandi hætti:

"Það er engin heimild í lögum til þess að gefa út dvalarleyfi á grundvelli undirskriftalista, það er bara svo einfalt."

Það vantar bara að hann bæti við: Nananabúbú, aularnir ykkar.

Hafið þið heyrt það fallegra:  "Bara svo einfalt"?

Útlendingastofnun sem reyndi að flikka upp á ímynd sína með því að hætta að heita "Útlendingaeftirlit" hefur ekkert breyst.

Svörin frá Hauki Guðmundssyni eru nákvæmlega í takt við þau svör sem við fengum eftir að hann flutti Paul Ramses úr landi í skjóli nætur í fyrra.

En þar beittu borgararnir þrýstingi.

Það er Útlendingastofnun sem á heiðurinn að hönnun og hugmyndafræði Fitjastefnunnar þar sem hælisleitandi fólk er haft í félagslegri einangrun mánuðum, jafnvel árum saman, á meðan þeir tjilla lesandi lög og reglugerðir á stofnunni.

Þetta er okkur ekki sæmandi gott fólk.

Ég vænti þess að nýr dómsmálaráðherra, hver sem hann verður, fari í að lofta út úr þessari mannfjandsamlegu stofnun þar sem Haukur Guðmundsson og hans líkar ráða ríkjum.

Útlendingastofnun á að heita Útlendingalögreglan til að standa undir nafni.

Köllum bara skóflu, skóflu.

Svei mér þá.


mbl.is Engin lög um dvalarleyfi á grundvelli undirskrifta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Koma svo

Ég er eitilharður stuðningsmaður vonandi verðandi ríkisstjórnar.

En það eru forréttindi að fá að hafa fast land undir fótum, kæra Jóhanna.

Allir eru að bíða og bíða.

Reyndar telst þetta ekki langur tími í stjórnarmyndunarviðræðum en ástandið er ekki alveg hefðbundið heldur.

Væruð þið ekki til að rumpa þessu af bara?

Svo biðinni ljúki og það sem ekki síst er um vert;

að bitru Framsóknarmennirnir hætti að tuða, á öllum bloggum og bara alls staðar.

Arg.

Koma svo.


mbl.is „Viljum hafa fast land undir fótum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ímynduð björgunarþörf og æsandi raunveruleiki á bók

Vitið þið að það mætti bjarga börnunum mínum óteljandi oft úr ímyndaðri hættu vegna misskilnings í staðinn fyrir þann skelfilega möguleika að enginn kæmi þegar á þyrfti að halda og þau í hættu stödd.

En það er bara ég.

Sofandi

Annars er ég að lesa nýjasta bókarkreisið um hrunið; "Sofandi að feigðarósi", eftir Ólaf Arnarson, sem selst núna í bílförmum.

Í bókinni er gerð grein fyrir atburðarásinni sem leiddi til þess að bankakerfið á Íslandi varð gjaldþrota í október síðastliðnum og sagan rakin fram á vor.

Ég hélt að raunveruleikinn gæti seint slegið skáldsagnaheiminum við í lygilegri atburðarrás.

Þar fór ég villur vegar.

Það sem gerðist á þessu landi í haust (og er jafnvel enn að gerast á bak við tjöldin) er mergjaðra en nokkurt ævintýri.

Ég mæli með því að þið lesið þessa bók.

Fræðandi og spennandi, því miður kannski, en svona er lífið.


mbl.is Óþörf björgunaraðgerð í Gróttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkð búar - það skil ég

 

Ég hef aldrei unnið líkamlega erfiðisvinnu, ef frá eru taldar þessar vikur sem ég vann í frystihúsi, um það leiti sem Bobby Kennedy var skotinn en ég var rekinn þann dag vegna þess að ég sprautaði að gamni mínu úr þrýstislöngu framan í verkstjórann.

Honum var sem sagt ekki skemmt.  Það kom til vegna gusanna sem lentu aðallega í andlitinu á honum, um áhrif dauða Bobbís á verkstjórann veit ég ekkert um.  Hann minntist ekki á það einu orði.

Hann sagði reyndar ekkert, var eins og herptur handavinnupoki í andlitinu og benti mér út.

Föðurafi minn, Guðmundur Ingvarsson, sem útvegaði krakkakvikindinu vinnuna var miður sín, enda mátti hann ekki vamm sitt vita.

Jú, svo vann ég í einhverja mánuði sem gangastúlka á Landakoti þegar ég gekk með frumburðinn minn.

Þar held ég að mínum ævintýrum í líkamlegri vinnu sé lokið.

Ég hef reyndar alltaf verið í skemmtilegum störfum, nánast ótrúlega heppin með það.

En ég tilheyri auðvitað verkalýðnum, launþegum, en ekki hvað.

Ég kem af venjulegu alþýðufólki, ósérhlífnu og hörkuduglegu, langafi minn, t.d. mætti á niður á bryggju í úrvalið, þegar daglaunavinnan var og hét.

Stundum var hann sendur heim, eins og fleiri, enda margir kallaðir en fáir útvaldir.

Mér var sagt að það hafi verið ákaflega þungt í Jóni Jónssyni frá Vogum á þeim tíma.

Það sem ég er að reyna að koma að hérna er einfaldlega sú staðreynd að nútíma verkalýðsforkólfar snerta ekki streng hjá venjulegu vinnandi fólki.

(Að undanskildum einum eða tveimur, annar þeir heitir nafni sem byrjar á Guðmundur, hinn Aðalsteinn).

Enda eiga þeir ekkert sameiginlegt með umbjóðendum sínum, virðist vera himinn og haf þar á milli.

Þetta eru jakkaföt, framkvæmdastjórar og ekkert að því svo sem, ef þeir væru ekki að fara fyrir röngum hópi manna sem þeir þekkja vart.

Ég skil vel að fólk skuli búa á þá.

Svo sendi ég almennum launþegum þessa lands baráttukveðjur á þessum 1. maí í kreppunni.

Annars er það efni í aðra færslu, ævintýri mín á vinnumarkaði, þegar ég vann á Landakoti og var ólétt, ógift og var falin í eldhúsinu.  Skömmin var nunnunum óbærileg.

Það kemur seinna.

Annars er ég alveg hipp og kúl í verkamannsins kofa hérna.

Því lýg ég ekki.

 

 


mbl.is Nýjan sáttmála um stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum vaktina

Gleðilega hátíð allir sem einn.

Aldrei hefur þörfin fyrir samstöðu og virka baráttu hjá launamönnum verið meiri en í dag.

Njótum dagsins.

Brettum upp ermar.

Veitum öflugt aðhald og stöndum vaktina.

Nú sem aldrei fyrr.


mbl.is Kröfuganga og útifundur 1. maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir voru sigurvegarar kosninganna 2009?

Það leiðinlega við kosningar er eftirákarpið um hver var sigurvegari.

Um það eru skrifaðar "lærðar" greinar og svo er blaðrað í sjónvarpi og útvarpi.

Einhvern veginn hefur það verið þannig að allir flokkar hafa sigrað kosningarnar og það hefur verið farið í langar hjáveituaðgerðir, hliðarvinkla og skurðgröft til að koma því til skila.

Að þessu sinni voru þó tveir flokkar sem klárlega töpuðu kosningunum. 

Sjálfstæðisflokkurinn fékk svo illilega á lúðurinn að ekki er hægt að kjafta sig út úr þeim ósköpum, enda hefur mér sýnst að þeir reyni það ekki einu sinni.

Frjálslyndi flokkurinn tapaði auðvitað, þurrkaðist út, púff, farinn, týndur.

Ástþór með Lýðræðishreyfinguna tapaði ekki, enda ekki hægt að tapa einhverju sem maður hefur aldrei átt.

En nóg um það, eina sem ég fer fram á varðandi þetta að fólk hætti að lýsa sig sigurvegara hægri, vinstri, þetta er svo ansans ári þreytandi.

En nú hafa bæst við ný leiðindi.

Útstrikanir.

Nú fara dagarnir í að rífast um hvort um skipulagðar útstrikanir hafi verið að ræða, hver hafi verið strikaður mest út og svo framvegiiiiiis.

Útstrikanir eru ömurleg aðferð og engum bjóðandi, neikvæð alla leið.

Þetta er svo eineltislegt, en þó skömminni skárra en þegar útstrikanir höfðu lítið sem ekkert vægi.

En svo þetta röfl verði ekki fylgifiskur kosninga framtíðarinnar þá í máttugs bænum verður að koma hér á persónukjöri og það fyrir næstu kosningar.

Mér er nefnilega slétt sama hver strikar hvern út í hvaða tilgangi, en gleðst í mínu illgjarna hjarta þegar Gulli og Árni falla niður um sæti, það skal viðurkennast (skammastu þín).

Reyndar ættu báðir að sjá sóma sinn í að draga sig í hlé.

En mér kemur það ekki við.

Og hver var svo sigurvegari kosninganna 2009?

Einfalt mál: Allir flokkar sem ekki töpuðu frá því í síðustu kosningum.

Og hananú.

P.s. Skömm að þessu, gleymi kynsystrum mínum sem eru auðvitað hinir stóru sigurvegarar.  Aldrei fleiri á þingi en nú.

Áfram stelpur!


mbl.is Fásinna að útstrikanir hafi verið skipulagðar í Árborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við hvern er að sakast?

Þó ég verði þúsund ára gömul mun ég aldrei skilja ofbeldi.

Fyrirfram útpælt ofbeldi framið af hóp á einum einstaklingi er þó það ljótasta sem ég heyri um.

Ég spyr hinna hefðbundnu spurninga út í loftið eins og við gerum þegar okkur er fyrirmunað að skilja það sem gengur á í kringum okkur.

Hvernig getur þetta gerst?

Hvernig verða börn og ungmenni fær um að fremja svona voðaverk?

Ég fæ verk í hjartað við að hugsa til þessarar stúlku og fjölskyldu hennar.

Það verður að bregðast við þessu með afgerandi hætti. 

Aldrei aftur.

 


mbl.is Stúlka varð fyrir líkamsárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kerfið fyrir kerfið?

Atvinnuleysisbætur verða ekki greiddar út fyrr en mánudaginn 4. maí.

Ég er ekki á atvinnuleysisbótum, þannig að þetta snertir mig ekki persónulega, en sú hugsun flögrar að manni hvort það geti ekki reynst afdrífaríkt fyrir fólk með börn og engar tekjur aðrar að bíða fram yfir helgi.

Upphæðin er ekki há, fólk hlýtur að vera í vondri stöðu þegar þetta kemur upp.

Fram kemur á vef Vinnumálastofnunar, að samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir beri að greiða atvinnuleysistryggingar út fyrsta vika dag mánaðar og verði það gert nú sem endranær.

Af hverju þarf þetta að vera svona?

Bara af því að það má?

Er kerfið að vinna fyrir kerfið?

Og fólkið mætir afgangi?

Vinsamlegast pillið ykkur að tölvunum og lagið þetta.

Það eru manneskjur á bak við atvinnuleysistölurnar átjánþúsund.


mbl.is Bætur greiddar út eftir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jákvæðir fordómar" - Frussssssssss

nafnspjald 

Ég á það til að umgangast mitt ástkæra af töluverðu virðingarleysi þegar þannig liggur á mér.

En halló, ég er ekki blaðamaður á Mogganum!

Sko, hafið þið nokkurn tímann heyrt um andlátstilkynningar þar sem dagar hins látna teljast taldir?

Sóandsó Sóandsóson verður jarðsettur í Sóandsókirkju.  Dagar hans eru taldir.

Gætu alveg eins sagt, talningu á dögum Sóandsó er lokið.  Þeir voru; 34324234 margir.

Frusssssssssssssssss

En..

Ég var að pæla í nafninu mín.  Já mig vantar eitthvað að lesa.

Hef of mikinn tíma.

Ég átti nánast engar nöfnur þegar ég var barn.  Eina og eina bara, þær hétu þá yfirleitt Jensína.

En núna eru breyttir tímar, ég á nöfnur víða.

Og vitið þið hvað?

Ég er með jákvæða fordóma út í nöfnur mínar. (Ég veit að fordómar geta auðvitað ekki verið jákvæðir, en þið vitið hvað ég meina).

Mér finnst að allar Jennýjar hljóti að vera ofsalega klárar og skemmtilegar.

Framúrskarandi manneskjur alla leið.

Hef ekki enn rekist á neina Jennýju sem eyðileggur þessa tálsýn mína.

En hvað segir þetta um mig?

Við skulum ekki ræða það einu sinni.

Mikilmennskubrjálæði hvað?

En hugsið ykkur að heita Sigríður Jónsdóttir og vera með "jákvæða fordóma" gagnvart nöfnum sínum.

Mér segir svo hugur um að það gæti endað illa.

Jájá, bönin mín í fjöllunum.


mbl.is Dagar Lífar taldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtök iðnaðarins, ógeðslegir fúskarar

 samtök iðnaðarins

Það er ekki oft sem ég verð kjaftstopp og svo reið að ég má hafa mig alla við til að ná stjórn á mér.

Það gerðist þegar ég fletti Fréttablaðinu núna áðan.

Ég varð síðast svona reið fyrir hönd kvenna þegar Zero-kókauglýsingaherðin reið yfir, stútfull af kvenfyrirlitningu og ógeði.

Miðað við þessa auglýsingu er Zero-dæmið fagur göngutúr í mánaskini.

Velur þú fagmann eða fúskara?; spyrja Samtök iðnaðarins í stórri auglýsingu í Fréttablaðinu.

Subbulegur karlinn heldur á sprautu fyrir framan konu sem greinilega liggur á skoðunarborði með fætur í sundur.

Niðurlægjandi og ósmekklegt með eindæmum að nota konur í þessari aðstöðu til auglýsinga.

Þarna er svo vísað í ólöglegar fóstureyðingar til viðbótar við kvenfjandsamlega myndina.

Allur pakkinn tekinn, ekkert verið að pakka hugarfarinu gagnvart konum inn í bómull.

Ég er ekki talsmaður neinna samtaka þannig að ég ætla að leyfa mér að segja það sem mér býr í brjósti.

Hvaða andskotans örheilar hafa búið til auglýsinguna?

Hvaða molbúar hjá Samtökum iðnaðarins samþykktu hana.

Hvaða fífl í auglýsingadeild Fréttablaðsins hleypti þessu ógeði í gegn?

Þangað til að allir þessir aðilar hafa beðið afsökunar og tekið til baka þennan viðbjóð þá les ég ekki Fréttablaðið og Samtök iðnaðarins eru tveir í mínus með aðdáendur og stuðningsmenn.

En eitt er á hreinu, ég þarf ekki að spyrja einn né neinn um hvort Samtök iðnaðarins séu fagmenn eða fúskarar.

Svarið liggur nú þegar ljóst fyrir.

Skammist ykkar og það niður í tær.

Nýjustu fréttir, afsökunarbeiðni og auglýsing tekin út vegna viðbragða fólks við henni.

Gott og vel.

En eftir situr þessi tilfinning í mér að það er fólk þarna úti sem sér ekkert að því að gera svona og tekur við sér þegar það uppgötvar að viðbjóðurinn í hausnum á því geti skaðað ímyndina.


mbl.is Auglýsing SI vekur hörð viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 2988588

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband