Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gott saman

Ég veit ekki hvort mér finnst kaldranalegra;

Útlendingaeftirlit eða Útlendingastofnun.

Svíarnir kalla sitt batterí "Invandrarverket".

Innflytjendastofnun er ágætt nafn.

Svo vona ég að sá aðili sem ráðinn verður sé húmanisti.

Að hann hafi samkennd og skilning með í farteskinu -

auk lögfræðimenntunarinnar offkors.

Nauðsynleg blanda og gott saman.


mbl.is Fjórir sóttu um Útlendingastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég gef skít í Icesave

Ég ætla að vera fullkomlega ábyrgðarlaus borgari meðal borgara og gefa skít í Icesave.

Ekki að neinum komi það við, en ég er svo tjáningarglöð og alltaf að troða skoðunum mínum upp á mína elskulegu lesendur.

Oh, ég er svo mikill fjölmiðill á mínum fámiðli.

En krakkar, ég tilkynni hér með að ég er komin með upp í háls af Icesave.

Annar eins aragrúi sérfræðinga sem tjáir sig um hvað sé best í þessu máli, hvað beri að gera og hvað ekki, er að gera mig brjálaða.

Allt þetta fólk sem bloggar, er í viðtölum, skrifar í blöð og kemur í sjónvarp, sem segir okkur hvernig sé best að landa þessu máli.

Ekki semja - semja - fara í mál - senda fingurinn  og ladídadída.

Það er ekki hægt að mynda sér skoðun í þessu flóði "sérfræðiálita".

Svo er ofboðslega auðvelt að sitja heima hjá sér með nefið upp í loft og gefa álit út í cypertómið.

Er oft ansi dugleg í þeirri deild sjálf, látið mig þekkja þetta, en ég er á sérkjörum hjá sjálfri mér.  Só?

En ég sá Gylfa í viðtali í Kastljósinu í kvöld.

Ég trúi því að hann sé að tala af heiðarleika, það er að minnsta kosti mín tilfinning.

Og hann ber ábyrgð á Icesave eins og afgangurinn af landsstjórninni.

Sem er meira en hægt er að segja um marga æstustu álitsgjafana.

Þannig að nú ætla ég að halla mér aftur og bíða og sjá.

Svo vildi ég að Steingrímur J. gæfi þjóðinni ljósrit af bréfaskiptum okkar (sínum) við samningamenn Breta og Hollendinga.

Það er búið að garga eftir þessum pappírum sem hann sýndi Herði Torfa og Láru Hönnu.

Af hverju hélt hann ekki blaðamannafund um málið og sýndi bréfin?

Sussusussu Steingrímur.  Ekki gott.  Gegnsæi, mannstu, gegnsæi.

En..

Ég vil ekki meira garg, fullyrðingar og sérfræðiálit, hvorki keypt né færð fram aldeilis óumbeðið.

Og á meðan ætla ég að fíflast á blogginu eins og ekkert sé bankahrunið.

Og Icesave sé martröð.

Sem það er.

But you know what I mean.

Úje í sumarið.


mbl.is Hagstæð ákvæði Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk Björgólfur Thor

Ég er afskaplega þakklát Björgólfi Thor að opinbera líðan sína og ætlanir gagnvart "Icesave-klúðrinu" sem hann kallar hinu "tæru snilld" Sigurjóns Þ. Árnasonar.

Mér finnst gott til þess að vita að hann skuli vera að gera það sama og ég.

Þ.e. að hugsa stöðugt um Icesave.

Ég verð að játa að ég er með þetta mál á heilanum.

Eins og hver kjaftur á þessu landi og í nálægum löndum líka.

Munurinn á mér og Björgólfi Thor er hins vegar sá að hann ER Icesave-klúðrið.

Ég ER hinsvegar þolandi þessa sama klúðurs ásamt fjölda manns í mörgum löndum. 

Til viðbótar komandi kynslóðum.

En takk Björgólfur Thor fyrir að skenkja klúðrinu þanka á skrifstofunni þinni í London.

Svo ég tali nú ekki um frá snekkjupartíum víðsvegar um Evrópu.

Fyrirgefðu að mér skuli ekki vökna um augu af eintómu þakklæti..

..og beygja höfuð í duft.


mbl.is Hugsar daglega um Icesave-klúðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúxusvandamál

Ég get ekki orða bundist við þessari "frétt" um móðurina sem talað er við og er reið, bálreið ásamt fleiri foreldrum sýnist mér, vegna þess að dótturinni var "hafnað" í Verzló þrátt fyrir góðar einkunnir.

Hvers lags hugarfar er þetta eiginlega?

Konan talar um að "börnin" hefðu þurft að fá áfallahjálp vegna þess að þau komast mögulega ekki í þá skóla sem þeim fannst henta best.

Róleg á dramatíkinni gott fólk.  Þetta er lúxusvandamál.

Ég segi velkomin á leiksvið lífsbaráttunnar. 

Lífið er ekki auglýsingabæklingur prentaður á glanspappír þar sem allar vonir og langanir okkar ganga eftir - af því að við höfum unnið okkur inn fyrir því með einkunnum, vinnuframlagi eða æskilegri hegðun.

Lífið er einfaldlega fullt af verkefnum og við sigrum stundum og stundum ekki.

Eins gott að átta sig á því.

Ég get ekki séð harminn í því að komast "bara" í Menntaskólann við Sund eða einhvern annan góðan skóla, því nóg er af þeim sem betur fer.

Við búum við þau forréttindi að geta menntað börnin okkar.

Hvernig væri að gleðjast yfir því?

Það er svo önnur saga og ömurleg að skólar eins og M.R. og Versló, svo ég taki dæmi, skuli velja úr nemendum eins og þeim sýnist, hegðandi sér eins og prímadonnur á sterum, með bullandi Harward wannabíisma.

Svei mér þá hvað vandamálin geta verið misstór og með allri virðingu fyrir foreldrakreppunni, misalvarleg.

Stór hluti þjóðarinnar er nefnilega að berjast við að láta enda ná saman.

Í kreppunni sko.


mbl.is Foreldrar bálreiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er það í Kópavogi

Í Kópavogi gilda aðrar reglur en annars staðar. 

Eða ekki.

Kannski er það virðingarleysi víkinga fyrir lögum og reglum, bæði inn- og útrásar, sem hafa komið okkur á kaldan klaka.

Gunnar í Kópavogi segir að gagnrýni á viðskipti bæjarins við dóttur hans sé skítapólitík.

Hann segir að virt endurskoðunarfyrirtæki vaði í villu þegar það gagnrýnir dótturfélagsfyrirkomulagið.

Gunnari finnst FME eiga að vasast í mikilvægari málum í stað þess að fetta fingur út í þá staðreynd að stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs, með Gunnar í fararbroddi,  tóku upplýsta ákvörðun um að fara á svig við lög.

Jabb, svona er það í Kópavogi.

Og Flosi, hættu að væla, þú varst með í geiminu.

Frekar ósannfærandi þessar eftiráútskýringar þínar.

Urrrrrrrrrrrrrr


mbl.is Sakar Gunnar um blekkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andhetjan ég með vottorð í leikfimi

Ég mætti ekki til að mótmæla á Austurvelli og er ekki á leiðinni til þess að svo komnu máli.

Af hverju blogga ég um það?

Jú, af því að mér er illa við að láta skamma mig eins og krakka.

Annars mér kærar vinkonur og baráttukonur fara mikinn um massann sem ekki mætir til að mótmæla á Austurvelli.

Munur en fólkið í Íran!  Róleg á samanburðinum.

Kannski kemur fólk ekki vegna þess að það er, líkt og ég, ekki búið að gera upp hug sinn gagnvart Icesave málinu.

Engum er ljúft að borga skuldir stórþjófa og glæpamanna.

Enginn vill vera í þessum sporum sem við stöndum nú í við Íslendingar en raunveruleikinn er samt svona.

Ég bíð eftir að fá alvöru valmöguleika við Icesave samkomulagið.

Aðra en að senda fokkmerkið út í heim og segja að við borgum ekki.

Er dómstólaleiðin fær?

Það eru svo skiptar skoðanir um það að ég veit ekki hvað er rétt og hvað ekki í öllum þeim fræðilegu álitum sem sérfræðingar gefa hægri-vinstri.

Allt þetta er ég að bræða með mér og á meðan sé ég enga ástæðu til að storma niður á Austurvöll og mótmæla.

Það hefur oft staðið mér fyrir þrifum að láta illa að stjórn.

En ég trúi því staðfastlega að maður verði að standa með skoðunum sínum.

Ég vil að fólk viti hvar það hefur mig - alltaf. 

Einkum þeir sem skipta mig máli.

En þetta eru sum sé mínar ástæður fyrir að vera ekki á Austurvelli.

Skrifað af margítrekað gefnu tilefni.

Þetta er mitt vottorð í leikfimi.

Andhetjan.

 


..og hjónin komu standandi niður - nema hvað!

Það rignir hlutum frá himni í dag.

Eins og flestir vita þá dúndraðist rakettufyrirbæri á jörðina í Sandgerði.

Svo hrundu þessi ágætu hjón af himni ofan og lentu farsællega á Álftanesi.

rock your world

Svo er að minnsta kosti sagt.

Ljósmyndari einhvers fámiðils var að störfum við húsarústir á Álftanesi og náði mynd af þessum velklæddu heiðurshjónum sem eins og ávallt og ævinlega komu standandi niður.

Nema hvað?


mbl.is Furðuhlutur féll af himni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

19. júní

Til hamingju stelpur á öllum aldri með 19. júní.

Þann 19. júní árið 1915 fengu konur kosningarétt og árið 1922 náði fyrsta konan kjöri inn á þing.

Það er því ekki svo langt síðan að konur fengu þann sjálfsagða rétt að kjósa og gott að hafa í huga að þau réttindi eins og svo mörg önnur hafa aldrei verið færð okkur á silfurfati heldur áunnist vegna þess að sterkar konur hafa barist fyrir þeim oft með blóði svita og tárum.

Eitt besta veganesti út í lífið sem ég hef haft dætrum mínum til handa kristallast í ljóði Jóhannesar frá Kötlum:

Dómar Heimsins, dóttir góð
munu reynast margvíslegir
Glímdu sjálf við sannleikann
hvað sem hver segir.

Gakktu einatt eigin slóð
hálir eru hversmannsvegir
Skeyttu ekki um boð né bann
hvað sem hver segir.

Inn í brjóst þitt ein og hljóð
rýndu fast ef röddin þegir.
Treystu á þinn inni mann
hvað sem hver segir.

Í dag er mikilvægara en nokkru sinni að við skerpum á kvennabaráttunni stelpur.

Kreppa í hvaða formi sem er hefur tilhneigingu til að bitna verst á konum og börnum.

Höfum það í huga í dag.

Baráttukveðjur!


Aftur Þór Saari

Þór Saari bara í aðalhlutverki hér á mínu bloggi í dag.

Hann er svo áberandi maðurinn.

Ef hann er ekki í timburvinnu fyrir ríkisstjórnina úti á Álftanesi þá skammar hann sömu ríkisstjórn af miklum móð úr ræðustól þingsins.

Ég er svo þreytt á búllsjitti að ég ákvað í dag að ég muni ekki þola nema eitt slíkt á dag fram að 19. september.

Þór er búinn með skammtinn sinn hjá mér í bili.

Djöfuls háheilagheit eru þetta.

Og já, ég hélt ekki heldur að ég ætti eftir að skrifa pirringsfærslu um einn af þingmönnum borgarahreyfingarinnar, enda aðdáandi þeirra án atkvæðisréttar.

Amk. ekki svona fljótlega eftir kosningar.

En svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Og til að vera nú fullkomlega heiðarleg þá skreið ég undir sófa, amk. í huganum þegar hann hrópaði að stjórninni að þau væru "gungur" og "druslur" af því mér fannst það svo leikrænt eitthvað.

(Já ég veit að Steingrímur J. hefur viðhaft þessi orð einhvern tímann og þau eru ekki smekklegri fyrir það).

Svo tilgerðarlegt eins og svalarræða Mussolínis æfð fyrir framan spegil.

Er ekki hægt að fara fram á einhvers konar málefnalegar umræður á þessum alvarlegu tímum?

Við þurfum á því að halda.

Þessi móðursýkisköst stjórnarandstöðu í ræðustól Alþingis gera nákvæmlega ekkert til að bæta stöðuna.


mbl.is „Skammist þið ykkar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2987757

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.