Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lausn er fundin á Icesave - Strákarnir reknir heim!

 tepartí

Ég held að ég sé búin að leysa Icesave deiluna.

Nei, ég veit að ég er búin að leysa hana fái ég mínu framgengt.

Þessi lausn kom til mín þar sem ég sat í auðmýkt minni og lítillæti hér í stofusófanum á kærleiks.

landsbankahösslararnir

Málið er einfalt.  Karlar eiga ekki að díla um svona mál.

Þeir eru alltaf í landvinningum mennirnir.  Uppblásnir af eigin mikilfengleika.

Vilja vinna stóra sigra og sjást þá ekki fyrir.

Karlmenn eru glataðir í viðskiptum.

Við hóum saman venjulegum konum úr þeim löndum sem að Icesave-málinu koma.

Bretlandi, Hollandi og Íslandi.

Konur sem hafa þurft að reka heimili og sjá börnum sínum farborða af þeim peningum sem koma inn í heimilisreksturinn.

Við sýnum samkennd, viljum ekki leggja of þungar byrðar á hvor aðra.

Við leysum þetta á einum eftirmiðdegi yfir kaffibolla.

Og ég lofa að við stelpurnar komum til með að sættast á niðurstöðu sem allir geta lifað við.

Mér leiðist að segja það - en Icesave er einfaldlega ekki karlmannsverk.

Strákar!

Þið steinþegið á meðan.  Hafið gert nóg nú þegar.

Capiss?

P.s. Og Darling þetta með þögnina á við um þig líka.


mbl.is Darling varar við vaxtaokri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fresta, frysta, bíða og hika, doka og draga.

Ég er orðin dauðþreytt á að fylgjast með þjóðmálunum.

Af því að ég verð bara ruglaðri en ég er fyrir vikið og er ekki á það bætandi get ég sagt ykkur.

Nú kemur Jón Bjarna og segist vilja fresta aðildarviðræðum við Evrópusambandið í ljósi beinna og óbeinna hótana Hollendinga, Breta og annarra aðildarríkja í garð Íslendinga.

Hluti af mér krullaðist upp.  Fresta, frysta, bíða og hika, doka og draga.

Það er þetta sem er að fara í taugarnar á mér við stjórnarandstöðuna, eilíf frestunarárátta fyrir allan peninginn.

En hluti af mér er hjartanlega sammála.

Ein kunningjakona mín segist vilja slíta stjórnmálasambandi við kúgunarþjóðirnar.

Og fleiri sem ég þekki eru á þessari skoðun.

Ég er að hluta til sammála því líka.

Það stendur einhvers staðar að lendir þú í vandræðum fáir þú tækifæri til að þekkja vini þína.

En annars staðar stendur líka að vinskap skilji við peninga.

Mig langar ekki til að fara á hnén og láta undan kúgunum.

En líf í bið er óþolandi spennuvaldur.

Svei mér þá hvað það er vont að geta ekki bara verið eins og trúarnöttari sem er búinn að finna hinn eina sannleika og leit þar með lokið.

Sjitt.


mbl.is Vill fresta umsóknarferli ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir mínir Eðjótur og Eymingi

Í dag vantaði mig bæði kaffi og kaffipoka.  Hafði gleymt að kaupa og búðin lokuð.

Ég bað nágranna minn hann Eðjót Hálfvitason um að lána mér kaffi.

Eðjótur sagði það sjálfsagt, hreint æstur í að redda mér um sopann en fyrst vildi hann að ég færi og fengi lánaðan kaffipoka hjá Eymingja nágranna okkar á efri hæðinni.

Aðeins þá færðu kaffið sem ég er samt alveg æstur í að lána þér og er hér tilbúið í poka.  Sjáðu! (Hann dinglar fjandans kaffinu fyrir framan glyrnurnar á mér).

Ég rýk til Eymingja á efri og bið hann að lána mér pokann.

Eymingi er game og alveg meira en til í að lána mér kaffipoka, jafnvel fleiri en einn.

En ekki fyrr en nágranni okkar beggja er búinn að afhenda mér kaffið.

Ég er enn að hlaupa á milli Eðjóts og Eymingja og er eiginlega komin á þá skoðun að ég hætti bara að drekka kaffi og biðji þessa fyrrum vini mína að troða drykk og meððí upp í sinn óeðla enda.

Þetta er leikurinn sem AGS og Norðurlöndin eru að leika við okkur Íslendinga þessa dagana.

Catch 22.

Atli Gísla vill að AGS leggi spilin á borðið.

Það vil ég líka.

Svo er mér skapi næst að segja þessum "vinum" okkar að hirða sína peninga þ.e. ef kjánaskapnum fer ekki að linna svona sirka nú þegar.

Sko það er með lánin eins og kaffið.

Hvern langar í þau á slíkum afarkostum?

Svo var mér að detta í hug svona í förbífarten hvort það sé ekki beisíklí auðveldara að flytja inn loftslag frá Brasilíu og hefja hér kaffirækt.

Svei mér þá, leikur einn miðað við þetta fyrirkomulag.

ARG.


mbl.is Vill að AGS leggi spilin á borðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grískir harmleikir á hverjum degi

Það er þetta með flutninga fólks til útlanda.

Ég get ekki séð það sem neikvæðan hlut að minnsta kosti ekki að öllu leyti.

Það er talað um atgervisflótta.

Að svo margir stökkvi á brott að eftir verði gamalmenni og aðrir bótaþegar.

Þjóðarsálin er að verða aðeins of dramatísk fyrir minn smekk.

Þrýstingur verður að einelti.

Flutningur ungs fólks til útlanda (oftast tímabundið) verður að atgervisflótta og stórkostlegri fækkun íslensku þjóðarinnar.

Maður rífur hús og þingmaður hendist á staðinn og vafrar um allt í dramakasti með trékubb úr rústunum.  Blóðbunan aftur úr viðkomandi.

Svo kemur í ljós að  niðurrifsmaðurinn er bara ekki skömminni skárri en þeir sem hann er að beita sér gegn.

Róið ykkur gott fólk.

Við búum á eyju.

Ekkert eðlilegt en að ungt fólk flytji úr landi og víkki sjóndeildarhringinn.

Flest komum við aftur.

Er ekki ástandið alveg nógu slæmt þó það sé ekki hlaupið upp til handa og fóta og heilu grísku harmleikirnir gerðir úr öllum sköpuðum hlutum.

Gangi fólkinu vel í Noregi.

Þetta er eins og að flytja á milli sveita.

Ekkert stórmál.

Kommon.


mbl.is Hundruð flytjast til Noregs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðgefandi þetta og hitt

Það má eiginlega ekki minnast á stjórnlagaþing til að ég verði bálbrímandibrjáluð.

Það voru nefnilega Sjálfstæðismenn sem með málþófi komu í veg fyrir að það yrði haldið á þann hátt sem upphaflega var gerð krafa um í Búsáhalda.

Munið þið mótbárurnar hjá Flokknum eina?

Ég man þær og ég ætla að minna ykkur á eina.

Jú, það kom sko ekki til greina að stjórnlagaþingið yrði annað en ráðgefandi.

Það var vanvirðing við Alþingi og þá sem þar sitja að láta stjórnlagaþing út í bæ ákveða um breytingar á stjórnarskrá.

Núna hins vegar, er sami flokkur að fara yfir um vegna hneykslunar á að ESB þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera ráðgefandi.

Það er samkvæmt sömu mönnum sem eyðilögðu fyrir okkur stjórnlagaþingið með málþófi og lýðskrumi, vanvirðing við þjóðina að atkvæðagreiðslan skuli einungis verða ráðgefandi.

Þeir voru nefnilega að vonast eftir að þing yrði rofið til að geta stokkið í sína gömlu stóla.

Að tala tungum tveim hefur hér með verið fært upp á æðra plan.

Og svona af því ég var að hugsa um það með sjálfri mér.

Eru allir búnir að gleyma hverjir það voru sem sponseruðu útrásarvíkingana og hvöttu þá óspart til góðra verka.

Flugu með þeim um heiminn til að ljúga sig bláa í framan fyrir þá þegar allt var að hrynja?

Ég held það.

Djöfull er skammtímaminnið að gera sig á þessu landi.

 


mbl.is Stjórnlagaþing kostar rúmar 400 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollendingar á leiðinni

Nú hefur Steingrímur J. sent út leiðréttingu varðandi tveggja milljarða kostnaðinn sem sagt var að myndi falla á Íslendinga.

Steingrímur harmar að leiðrétta þurfi málflutning á málstofum sem haldnar eru á vegum H.Í.

Ég er sammála Steingrími þar.

Nógu viðkvæmt er ástandið þó ekki sé verið að æra óstöðugan með röngum upplýsingum eins og hér virðist hafa verið gert.

Annars þurfum við sennilega ekki að hafa áhyggjur af þessu á næstunni.

Núna þurfum við hins vegarað stofna íslenskan her og það ekki seinna en núna.

Setjum Björn Bjarna í að uppfylla drauminn sinn.

Við erum um það bil að verða fyrir innrás.

Jájá.

Hollendingar á leiðinni.

Fyrst taka þeir flugvöllinn.

Svo Landsbankann, útvarpið og sjónvarpið.

Sjúkur húmor segja sumir.

Ég vona það.

Sjitt.


mbl.is Ekki minnst á lögfræðikostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnum mannúð

Í gróðærinu þegar hér var stundaður innflutningur á erlendu verkafólki til að byggja í brjálæðinu var stöðugt verið að ráðast á það vegna landlægrar kynþáttaandúðar á Íslandi.

Mér er í fersku minni djöfuldómurinn og lætin í meðlimum Stangaveiðifélags Reykjavíkur þegar mér varð á að brosa að því að Pólverjar nokkrir veiddu sér í soðið í Elliðaánum.

Mér fannst það krúttlegt og ég er enn alveg viss um að þeir hafi ekki haft græna hugmynd um allt andskotans veiðisnobbið og lúxusinn í kringum stangaveiði á Íslandi.

Ég er auðvitað ekki að mæla veiðiþjófnaði bót en mér fannst þetta sum sé dálítið dúllulegur árekstur ólíkra menningarheima.

Ég bloggaði oft og gjarnan til stuðnings innflytjendum enda vissi ég sem var andúðin kraumar í þjóðarsálinni.  Ekki allri offkors en alveg nógu víða.

Og þá hugsaði ég á stundum þegar ég las heiftúðlegar athugasemdir landa minna í athugasemdakerfinu mínu við færslurnar, að það væri eins gott að þessi þjóð okkar þyrfti ekki á öðrum að halda með sitt yfirlætislega viðhorf.

En nú er það komið á daginn að við erum upp á náð og miskunn margra þjóða komin.

Sem er sorglegt.

En vonandi lærdómsríkt í leiðinni.

Nú fer ég fram á það, og það ekki auðmjúklegast, að hver sem um mál flóttamannanna frá Al Waleed flóttamannabúðunum fjallar, komi dóttur Aydu Abdullah Al Esa á Akranesi og manni hennar til landsins.

Við viljum ekki aðskilja fjölskyldur er það?

Dóttir Aydu missti barn sitt skömmu eftir fæðingu en hún fékk ekki nægilega aðstoð og læknishjálp þegar hún veiktist.

Þar sem er hjartarúm þar er pláss.

Ég er ekki biblíutrúuð kona en ég trúi bjargfast og af öllu afli á kærleikann og að við eigum að koma fram við náungann eins og við viljum láta koma fram við okkur.

Ég er til í að planta mér fyrir framan ráðuneyti dómsmála eins og ég hef áður gert til stuðnings öðrum flóttamanni, til að minna á dóttur hennar Aydu en ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að það sé nauðsynlegt.

Sýnum mannúð.


mbl.is Móðirin á Skaga, dóttirin í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er fjandinn hafi það nóg komið!

Norræni fjárfestingabankinn er hættur að lána íslenskum fyrirtækjum.

Of mikil áhætta felst í því að lána þeim, segja mennirnir í bankanum.

Samt var því lætt með (svona til að hafa það á hreinu að það er verið að kúga okkur til hlýðni) af stjórnarmanni í sjóðnum að lausn Icesavedeilunnar gæti breytt málinu.

Sko, ég er beisíklí og nákvæmlega núna komin með nóg af hótunum og handleggjauppásnúningi annarra þjóða gagnvart Íslandi.

Hótanir hafa aldrei gert annað fyrir mig en að setja mig algjörlega á þverveginn.

Ekki að ég ráði einhverju en ég vona að einhver sem hefur eitthvað að segja um málefni Ísland fari að stinga niður fæti og segja hingað og ekki lengra, nú er nóg fjandinn hafi það!

Okkur ber vafalaust að taka ábyrgð á Icesave, ekki ætla ég að neita því.

En þessar eilífu hótanir, kúganir úr öllum áttum eru ekki að gera neitt fyrir mig.

Og svo sá ég í fréttunum að okkur beri samkvæmt núverandi mynd á Icesavesamningi að borga 2 milljarða króna fyrir útlagðan kostnað Breta í málinu.

Halló, vaknaði einhver snillingur upp í Bretlandi og ákvað að láta Íslendinga borga fyrir allt mögulegt og ómögulegt í þessu máli?

Eða voru Íslendingar svo bognir og sigraðir að þeir létu hjá leggjast að spyrna við fótum?

Eigum við ekki jafnframt að bjóðast til að kosta viðhald á strætisvögnum Lundúnaborgar og greiða fægilöginn á krúnuskartgripi friggings drottningarinnar fyrst við erum á annað borð farin að opna budduna og dreifa peningum eins og dauðadrukkinn olíufursti á eyðslufylleríi?

Koma svo, vöknum! 

Rísum á lappir og horfumst óhrædd í augu við umheiminn.

Það var ekki íslenskur almenningur sem fór um Evrópu rænandi og ruplandi skiljandi eftir sig sviðna jörð.

Borgum það sem okkur ber og ekki krónu meira.

Og gerum það bein í baki.

Fjandinn sjálfur, ég vil ekki sjá þennan undirlægjuhátt.

Svo geta bankar, lönd, ríkisstjórnir og mjólkurbúðir heimsins hótað sig bláa í framan.

Súmítúðefriggingsbón.


mbl.is Hættir að lána Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin í ullarpeysu og blogga um ESB

Ég sá mjög góðan þátt á R.Ú.V. í gærkvöldi um galla og kosti þess að ganga í Evrópusambandið.

Fyrir mér var hann algjör opinberun.

Allt sem ég hef heyrt um ESB hefur nefnilega hingað til verið í fyrirsagnastíl og með fjórföldu upphrópunarmerki. 

Með eða á móti, allt eftir því á hvaða væng hrópandinn hefur skipað sér.

Þarna var fjallað um málin á hlutlausan hátt.

Auðvitað munum við Íslendingar þurfa að leggja af mörkum ef af verður að við göngum inn.

Ég er orðin svo hundleið á því viðhorfi sem er landlægt hér á landi að þegar það hentar okkur þá erum við BARA þrjúhundraðþúsund saklaus krútt sem eiga að fá allt fyrir ekki neitt. 

Alveg: Heimurinn má þakka fyrir að fá að vera í samkiptum við okkur.

Og þegar það hentar okkur erum við ótrúlega hipp, kúl, frábær og æðisleg þrátt fyrir að vera BARA þrjúhundraðþúsund krúttlegir Einsteinar sem vitum allt best, kunnum og getum allt betur en aðrar þjóðir.

Við erum venjulegt fólk, venjuleg þjóð.  Muna það.

Svo er annað mál hvort okkur er betur borgið í Evrópusambandinu.

Þessi sem hér hamast á lyklaborði bíður spennt eftir viðræðum og að fá tækifæri til að komast að því hvað kemur upp úr skjalatöskum þeirra sem um samningana sjá.

Úje og vitið þið hvað?

Sumar, humar, ég er komin í ullarpeysu.

Þátturinn.


mbl.is Össur: Ísland hefur margt að bjóða ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn risavaxni ránsfengur

Ókei, Breska heimsveldið farið að skrifa um reiði Íslendinga.

Langar í þeim leiðslurnar en ég held svona persónulega að ég muni seint fyrirgefa hryðjuverkalöggjöfina.

Ekki að það skipti einu einasta máli hvað mér finnst, er bara sandkorn í eyðimörkinni.

Ég held samt að það sé ekki einn einasti Íslendingur sem ekki sýður á vegna svínslegrar framkomu Browns og Darling.

Málið er að eins og Einar Már segir í þessu viðtali við Bretana, þá held ég að fáir ef nokkrir á meðal almennings hafi vitað um tilvist Icesave, þessa risavaxna ránfengs sem við erum nú að kljást við og er að kljúfa þjóðina í herðar niður.

Fasistataktar Bretanna í þessu máli eru ófyrirgefanlegir.

Og enn réttlæta þeir gjörðir sínar.

Svo er það önnur saga og skelfilegri að enn bætast við óvissuþættir í Icesave málinu.

Ég veit svei mér ekki hvað ég á að halda lengur.

Hafi ég nokkurn tímann vitað það.

Úff.

 


mbl.is Fjallað um reiði Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 2987754

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.