Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Áfram Bónus

Ég þekki ekki Jóhannes í Bónus.

En mér hefur alltaf fundist hann krútt.  Svona kaupmannskrútt.

Og svo hefur hann orðið til þess að lækka matarkostnað íslenskra heimila.

Það gerir hann að ofurdúllu í mínum bókum.

Svo hefur hann gefið ógrynni fjár til góðra málefna.

Það truflar mig ekki nokkurn skapaðan hlut þó hann hafi orðið forríkur á tiltækinu.  Ekki mitt mál.

Og ég styð hann (litla Bónus reyndar líka) 100% nú þegar hann ætlar að leita réttar síns vegna ofsóknanna sem hann hefur orðið fyrir af hálfu íslenska kerfisins.

Það á ekki að vera hægt að koma svona fram við fólk og komast upp með það.

Það var einfaldlega ekki innistæða fyrir ofsóknunum.

Áfram Bónus.


mbl.is Jóhannes Jónsson í Bónus undirbýr kæru vegna Baugsmálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heima hjá Hamlet

hippie-girl

Ég finn til samkenndar með þessum aldraða Svenson sem fannst svo stutt á milli Helsingör og Helsingborg að hann stal litlum árabát og ætlaði að róa yfir þessa 5 km. sem eru þarna á milli.

Ég var nefnilega einu sinni að flippa í Helsingör - þegar ég var hippi.  Reyndar svona helgarhippi í flottum hippafötum sem ég keypti á Strikinu og þegar ég gekk um þá hringlaði í mér vegna allra bjallnanna og hins glingursins sem ég hafði hengt utan á mig.  Ég var bæði hipp og kúl.

Og ég sagði við vinkonur mínar að við ættum að reyna synda yfir til Svíþjóðar, þetta væri svo stuttur spölur.  Mér fannst það ekki vitlaus hugmynd enda var ég 17 og hélt að ég gæti nánast flogið og það án þess að vera á hugbreytandi efnum.

En eitthvað voru undirtektirnar dræmar þannig að við fórum í sólinni upp í Krónborgarkastala, þar sem Hamlet átti að eiga heima og lágum þar og hlustuðum á "Here Comes the Sun" með Bítlunum.

4937-2

Ég man eftir tilfinningunni þar sem ég lá í sólinni og allt var svo nýtt og rétt að byrja.  Skrýtið að sum augnablik sem eru ekkert sérstakt í hinu stóra samhengi sitja samt eftir í minningunni, svo sterk og lifandi að maður getur nánast teyg sig í þau.

En hvað um það.

Það er svo önnur saga að seinna átti ég eftir að koma til Helsingjaborgar, frá Gautaborg og þá var ískuldi og snjór. 

Og mig langaði ekkert að synda yfir til Danmerkur.

Jafnvel þó Hamlet ætti heima þar.

Ég var í dragt og háum hælum, það hringlaði ekki í mér og ég var löngu hætt að vera hipp og kúl.

Sjitt hvað ég er orðin gömul.


mbl.is Reyndi að róa Eyrarsundið eftir sumbl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstein hvað?

Mér finnst svo mikið öryggið falið í því að stór hluti heimsins sé undir þessum manni komið.

Einstein snæddu hjarta!

Lögst á bæn!


Aftökur hér og þar

Allir held ég, fyrir utan einhverja kverúlanta sem skipta ekki máli, fordæma mannréttindabrot og dauðarefsingar í Kína.  Þar er fólk tekið af lífi á færiböndum, ekkert elsku mamma þar.  Við ætlum samt á Ólímpíuleikana, mótmælum meðferðinni á fólki en erum ekki til í að lýsa vanþóknun okkar þannig að það svíði á eigin skinni.

Og í Bandaríkjunum,  hjá þessari vinaþjóð okkar, talsmönnum frelsis og mannréttinda, þjóðinni sem er með heilu hópana af hreingerningarmönnum sem fara og taka til í annarra görðum, er líka  verið að taka fólk af lífi.  Og í dag ætla þeir að myrða fanga sem verður sá fyrsti eftir að starfsreglum um banvænar sprautur var breytt.  Flórída ríður á vaðið.

Bandaríkjamenn pynta líka fanga í nafni frelsisins, þeir gera það bara fyrir utan eigin lögsögu og í nafni frelsis og lýðræðis.

Í mínum huga er enginn munur á kúk eða skít.  Það eina sem skilur þessar stóru þjóðir að er að Kínverjarnir taka fleiri af lífi í einu, hugmyndafræðin er sú saman.

Þú skalt gjalda fyrir með lífi þínu.

Hvernig stendur á að það er ekki verið að slá á puttana á Ameríkumönnum?

Af hverju halda Evrópuþjóðir kjafti yfir aftökunum og pyntingunum þar?  Eða gera amk. ekki stórmál úr því.

Ætli það sé af sömu orsök og við erum í eilífar kynningarsleikum við Kínverja.  Peningar?

Ef ég mætti ráða þá færi ekki kjaftur héðan á vegum Íslands til þátttöku á Ólímpíuleikunum.

Með því erum við að leggja blessun okkar yfir morðin og mannréttindabrotin.

Og svo má bretta upp ermar og taka land fyrir land.

Ég myndi sofa betur á nóttunni.

En þið?

 


mbl.is Óskar eftir gálgafresti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað blogga ég ekki um þetta

Ég varð náttúrulega skelfingu lostin yfir þessari stormviðvörun og dreif mig í lágvöruverslun til að birgja mig upp.  Svo sá ég reyndar að þessari viðvörun er beint til fólks á suðausturlandi en ég held að Reykjavík sé á suðvestur.  Vona amk. að allir komist í skjól.

En ég fór í hina hefðbundnu innkaupaferð núna áðan og húsband með mér.

Ég skil ekki af hverju ég er að þrjóskast við að hafa manninn með mér.  Hann drepur fyrir mér alla verslunargleðina.

Hann kvartar yfir hillusvipnum títtnefnda sem hann segir að komi á mig þegar ég renni augunum yfir vöruúrval verslunarinnar.  Í morgun var hann erfiðari en vant er, heimtaði að ég skrifaði miða, hvað ég auðvitað gerði og svo fór hann fram á að ég héldi mér við hann.  Af hverju nenni ég þessu?

Ég benti honum á að við værum þó farin að versla í lágvöruverslun að staðaldri, mikil og góð þróun.  Hann stóð með hálfgerðan fýlusvip við innkaupavagninn, amk. held ég það en ég sá hann ekki svo greinilega fyrir vöruhlaðanum í honum.

Hann: Við erum tvö í heimili, hvernig getum við þurft svona mikið af vörum?

Ég: Æi ekki byrja á þessu. Við erum orðin eins og lélegur brandari um steríótýpurnar.  Karl vill ekki kaupa, kerling missir sig í búðum.

Hann: Já en þannig er það í okkar tilfelli.

Ég: Villtu ekki fara í svona smíðabúð eða eitthvað á meðan?

Hann: Smíðabúð, hvað er það og til hvers?

Ég: Æi sem selur nagla og allskonar dót, finnst þér ekki gaman að smíðadóti?

Hann: Er í lagi með þig?  Flýttu þér svo við komumst heim án þess að þurfa að hringja á flutningabíl   og þú bloggar EKKI um þetta samtal.

Ég: Ég elska þig líka Einar minn og auðvitað myndi mér ekki detta til hugar að blogga um þetta.

Reikningurinn hljómaði upp á sóandsó og einhverja aura.

Hann er farinn að vinna hörðum höndum og ég er farin að sauma harðangur og klaustur.

Við erum svo týpísk eitthvað.

Í péessi og fullri einlægni þá held ég að það verði stormur hér á suðvesturhorninu um kvöldmatarleytið.  Þ.e. þegar sumir lesa sumar bloggfærslur skrifaðar af sumumWhistling!


mbl.is Varað við stormi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk, takk, takk, kæri ráðherra

Dýralæknirinn knái veit að í kreppunni þarf að grípa til róttækra aðgerða í efnahagsmálum.

Hann hefur því gert ráðstafanir sem koma munu almúganum til góða.  Þarna er mikil kjarabót á ferðinni.

Allir vita að verð á áfengi er að sliga íslensk heimili.

Svo ég tali ekki um vörur eins og Bing og Gröndal styttur, Channel 5 og þriðju kynslóða farsíma.

Við eigum fjármálaráðherra sem skynjar ógnina sem steðjar að heimilunum í landinu nú þegar fjöldauppsagnir, verðbólga og önnur óáran bankar upp á.

Takk Árni minn.  Takk kærlega.

Ég er klökk.

 


mbl.is Meira góss og meira vín tollfrjálst með nýrri reglugerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband